Hæstiréttur íslands

Mál nr. 513/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Gripdeild


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. júní 2005.

Nr. 513/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Árna Elvari Þórðarsyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Gripdeild.

Á var gefið að sök að hafa ráðist inn á heimili A, ýtt honum upp við vegg og slegið hann nokkur hnefahögg í andlit og líkama. Talið var sannað að Á hefði veist að A umrætt sinn á þann hátt að varðaði við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar var með vísan til þess að ekki væri loku fyrir það skotið að C hefði veitt A einhverja þá ákverka sem lýst var í ákæru, talið ósannað hverjir áverkanna stöfuðu af atlögu Á, þótt ljóst væri að hann hefði átt þátt í að veita einhverja þeirra. Þá var talið sannað að Á hefði tekið farsíma A og slegið eign sinni á hann og með því gerst brotlegur við 245. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var vísað til 77. gr. og hún hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst sýknu.

Í málinu er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa 27. mars 2003 ráðist inn á heimili A að [...], ýtt honum upp við vegg og slegið hann nokkur hnefahögg í andlit og líkama með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru.

Ákærði hefur játað fyrir dómi að hafa umrætt sinn gripið og togað í A frammi á gangi fyrir utan heimili hans. Heldur hann því fram að það hafi verið í framhaldi þess að A hafi tekið skóna hans. Þessi framburður ákærða fær stoð í framburði kunningja ákærða, C, sem var með honum á vettvangi umrætt sinn en hann bar fyrir dómi að ákærði hafi gripið í peysu A og hún rifnað. Ákærði hefur hins vegar neitað því að hafa veist að A á annan hátt. Á sama veg bar vitnið C við lögreglurannsókn málsins og fyrir dómi.

Í skýrslu A hjá lögreglu 28. mars 2003 kvað hann C hafa ráðist á sig og slegið sig hnefahögg og sparkað í sig. Pilturinn sem með honum hafi verið hafi einnig ráðist á sig. Í skýrslu A hjá lögreglu 18. desember sama ár lýsti hann árásinni svo að ákærði og C hafi krafist þess að fá afhenta skó sem þeir hafi sagt að hann hefði tekið. Hafi ákærði ráðist á sig og slegið sig „nokkur högg í andlitið og einnig í skrokkinn.“ C, sem hafi gengið við hækju, hafi síðan ráðist á sig og slegið nokkur högg, en A kvaðst hvorki geta lýst nánar með hvaða hætti né hvar höggin hafi lent. Fyrir dómi lýsti hann atlögunni svo að ákærði og C hafi ráðist á sig inni í íbúð sinni og barið sig með hnefum og hækju bæði í andlit og kvið, ýtt sér upp að vegg og einnig tekið sig hálstaki. Eiginkona sín, B, hafi komið að í lok átakanna.

Vitnið B var yfirheyrð hjá lögreglu 3. febrúar 2004. Kvaðst hún hafa verið stödd á hæðinni fyrir neðan íbúð þeirra A og heyrt einhver læti sem bárust þaðan. Hafi hún farið inn í íbúðina og séð einhvern mann ráðast á A. Hann hafi tekið A, ýtt honum upp að vegg og slegið hann nokkrum sinnum hnefahögg í skrokkinn. Maðurinn hafi svo tekið farsíma A. C hafi einnig otað hækju ítrekað að A en hún kvaðst ekki hafa séð hvort hann hefði náð til A. Bar hún fyrir dómi að þegar hún kom inn í stofuna hafi maður sem var með C verið að lemja A. Hafi C hvatt hann til þess og sjálfur lamið A með hækjum. Nánar spurð um þetta sagðist hún ekki hafa séð C lemja A, heldur hafi hún heyrt „hljóð af þessum hækjum hvernig það kom við vegginn og ég heyrði líka svona hvernig maðurinn minn tók andardrátt djúpt eins og eftir höggið af hækjunni.“ Hún bar að áðurnefndur maður hafi lamið A „með krepptum hnefa mest í líkama hér - í brjóst mest.” Aðspurð hvort högg hafi komið í andlit A sagðist hún hafa séð eitt högg lenda þar, en óljóst er af framburði hennar hver á að hafa veitt það högg. Ljóst er af framansögðu að vitnisburður A og B um atlöguna er að nokkru leyti mótsagnakenndur. Framburður annarra vitna er nánar rakinn í héraðsdómi.

Í ákæru er lýst þeim áverkum A, sem talið er að ákærði hafi veitt honum. Er sú lýsing byggð á vottorði sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Ágreiningslaust er að A hafi farið á slysadeildina í framhaldi af árásinni og að áverkum sé rétt lýst í vottorðinu.

Af öllu framangreindu virtu er sannað að ákærði veittist að A umrætt sinn á þann hátt sem varðar við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Eins og áður er lýst hafa A og B borið að ákærði og C hafi báðir veist að A með höggum. Ekki er loku fyrir það skotið að C hafi veitt honum einhverja þá áverka, sem lýst er í ákæru. Verður því að telja ósannað hverjir áverkanna stöfuðu af atlögu ákærða, þótt ljóst sé að hann hafi átt þátt í að veita einhverja þeirra.

A og B hafi bæði borið við rannsókn málsins og meðferð þess að ákærði hafi tekið farsímann sem um getur í ákæru og farið með hann á brott. Í lögregluskýrslu 4. apríl 2003 er haft eftir C að ákærði hafi tekið símann upp af gólfinu og hlaupið með hann á sokkaleistunum út úr húsinu. Áréttaði hann síðar í skýrslunni að það væri rétt að ákærði hafi tekið símann. Spurður um þetta fyrir dómi svaraði C: „Nei það held ég ekki“, og stuttu síðar „ég man það samt ekki.“ Er honum var bent á framburð sinn fyrir lögreglu sagði hann að þetta hafi „bara verið misskilningur.“ Af honum var þó að skilja að lögregla hafi haft rétt eftir honum í lögregluskýrslunni. Skýringar hans fyrir dómi á afturhvarfi frá fyrri framburði eru ekki til þess fallnar að hnekkja þeim framburði. Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærði tók umræddan farsíma í augsýn áðurnefndra þriggja vitna og sló eign sinni á hann. Í ákæru er verðmæti símans sagt um 14.900 krónur. Er það verð byggt á upplýsingum sem lögregla fékk hjá versluninni Hátækni 15. júlí 2004 um verð Nokia farsíma árið 2001. Ákærði ber brigður á að verðmæti farsímans hafi verið svo mikið. Engin frekari gögn eru um þetta í málinu. Er því gegn mótmælum ákærða ekki unnt að slá því föstu að það hafi verið svo mikið sem í ákæru greinir. Ákærði hefur áður gerst sekur um auðgunarbrot. Kemur því ekki til álita að færa brot hans undir 256. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur með gripdeild sinni gerst brotlegur við 245. gr. laganna.

Sakaferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Kemur þar fram að hann hefur áður gerst sekur um líkamsárás, en langt er liðið frá því broti. Við ákvörðun refsingar er vísað til 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfilega ákveðin í héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest að öðru leyti en því að ákærði verður ekki dæmdur til að greiða annan sakarkostnað en málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, en samkvæmt yfirlýsingu ákæruvalds er ekki um annan sakarkostnað að ræða sem varðar ákærða.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Kærandi í málinu lagði fram kæru sína á hendur ákærða og C daginn eftir árásina, eða 28. mars 2003, og var þá tekin stutt skýrsla af honum. Hann var næst yfirheyrður 18. desember sama ár. Kærðu voru yfirheyrðir 4. apríl 2003 og 12. september sama ár. Vitni voru hins vegar ekki yfirheyrð fyrr en á tímabilinu 3. febrúar til 4. mars 2004 og upplýsingaskýrsla tekin af vitninu D 8. mars sama ár. Í upphafi rannsóknar var ljóst að sönnunargögn í málinu myndu að mestu byggjast á munnlegum framburði kærðu og vitna. Þrátt fyrir það dróst úr hömlu að yfirheyra vitni. Sá dráttur hefur ekki verið skýrður og er ámælisverður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Árna Elvars Þórðarsonar, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgef­inni af lögreglustjóranum í Reykjavík 27. júlí 2004, á hendur Árna Elvari Þórðarsyni, [...], Breiðvangi 6, Hafnarfirði, E [...], C [...], og F [...], fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003:

I.

Ákærðu Árna Elvari og C fyrir húsbrot, með því að hafa, fimmtudaginn 27. mars, á S, í félagi ruðst heimildarlaust inn á heimili A [...].

Er þetta talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

II.

Ákærða Árna Elvari fyrir líkamsárás og gripdeild, með því að hafa á sama tíma og sama stað og greinir í I. lið, ráðist á nefndan A, ýtt honum upp við vegg og slegið hann nokkur hnefahögg í andlit og líkama, með þeim afleiðingum að hann hlaut roða og eymsli yfir báðum kinnbeinum, eymsli yfir rifjaboga vinstra megin við hryggsúlu, og skömmu síðar á sama stað hrifsað Nokia farsíma, að verðmæti um 14.900 krónur, sem A hafði misst frá sér í greint skipti, og farið með símann af staðnum og slegið eign sinni á hann.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. og 245. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

III.

Ákærðu E, C og F fyrir húsbrot með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 2. apríl, á sama stað og greinir í I. lið, í félagi ruðst heimildarlaust inn á heimili nefnds A.

Er þetta talið varða við 231. gr. laga nr. 19/1940.

IV.

Ákærðu E og F fyrir líkamsárás, með því að hafa á sama tíma og sama stað og greinir í III. lið, í félagi ráðist á nefndan A, ákærði F greip um skyrtubrjóst hans og hristi hann til og báðir ákærðu slógu hann hnefahögg í andlit, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir, mar og eymsli á enni, eymsli yfir kjálkabeinum og mar og þreifieymsli á brjóstkassa vinstra megin.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940.

V.

Ákærða F fyrir hótanir, með því að hafa á sama tíma og sama stað og greinir í IV. lið, hótað nefndum A frekari líkamsmeiðingum og lífláti ef hann tilkynnti atburðinn til lögreglu, og var þetta til þess fallið að vekja hjá A ótta um líf sitt og velferð.

Er þetta talið varða við 233. gr. laga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Ákærðu neita allir sök. Af hálfu verjanda er þess krafist, að þeir verði sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins.

I. og II.

Fimmtudaginn 27. mars 2003 tilkynnti A lögreglunni í Reykjavík um líkamsárás er hann hefði orðið fyrir að S. Er lögregla kom á staðinn lýsti A því að ákærðu, Árni Elvar og C, hafi skömmu áður ráðist á sig með höggum og spörkum. Að atlögunni yfirstaðinni hafi ákærðu tekið síma A ófrjálsri hendi. Lýsir lögregla því að engir áverkar hafi verið greinanlegir á A, en hann hafi kvartað undan eymslum í vinstri síðu og höfði. Hafi lögregla bent A að leita á slysadeild til að afla sér áverkavottorðs. Næsta dag kom A á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að kæra líkamsárás og húsbrot. Lýsti A atvikum þannig að hann hafi verið að vinna í íbúð sinni á S. Ákærði, C, hafi þá opnað hurð að íbúðinni og ruðst inn og farið að gera kröfu um einhverja skó, sem A hafi ekki kannast við. Hafi ákærði, Árni Elvar, þá ráðist að A og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið og líkamann. Atlagan hafi staðið í einhverjar mínútur, þar til eiginkona A hafi komið að. Í kjölfarið hafi einnig komið aðvífandi móðir ákærða, C, sem og vinkona hans. Eiginkonu A hafi tekist að stöðva árásina. Ákærði, Árni Elvar, hafi hrifsað til sín farsíma A, áður en hann hafi haldið á brott. Kvaðst A hafa leitað á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í kjölfarið, en þar væri fyrirliggjandi áverkavottorð.

Í læknisvottorði frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, frá 5. maí 2003, segir m.a.: ,,[A] kvartar um mikinn verk og er hann aumur yfir báðum kinnbeinum og er þar sjáanlegur roði... Hann er ekki með aðra áverka sjáanlega á höfði. Hann er verulega aumur yfir rifjaboga vinstra megin við fremri axlarlínu og er grunur um rifbrot vegna eymsla þar... Á baki milli herðablaða og meira hægra megin við hryggjarsúlu eru áverkamerki eftir högg og mar sést þar og er hann verulega aumur þar við þreifingu. Ekki eru áverkamerki á útlimum. Engir áverkar á kvið.”

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi lýsti A atvikum með sama hætti og í skýrslu hjá lögreglu.

Ákærði, Árni Elvar, kvaðst hafa komið að S fimmtudaginn 27. mars 2003. Hafi ákærði komið til að hitta meðákærða. Hafi ákærði farið úr skóm sínum utan við dyrnar að íbúð meðákærða. Er ákærði hafi ætlað að halda á brott skömmu síðar hafi skór hans verið horfnir. Hafi ákærði einungis séð A á ferð í húsinu er hann hafi komið að S og því álitið að A hafi tekið skóna. Hafi ákærða virst sem A hafi verið í annarlegu ástandi, verið undir áhrifum áfengis eða lyfja. A hafi enn verið á stigaganginum er ákærði hafi verið á leið út. Hafi ákærði innt hann eftir skónum, en A ,,bullað” einhverja vitleysu. Hafi ákærði verið í nokkurn tíma að reyna að fá A til að skila skónum og að lokum brostið þolinmæðin, orðið reiður og öskrað á hann um að skila skónum. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa gripið í skyrtubrjóst og ýtt við A á leið sinni út úr húsinu og hafi þeir atburðir átt sér stað fyrir framan íbúð A. Kvaðst ákærði aldrei hafa farið inn í íbúð A. Á leið niður stigann hafi ákærði mætt eiginkonu A. Kvaðst ákærði alfarið synja fyrir að hafa veitt A áverka umrætt sinn. Þá hafi meðákærði ekki snert A. Kvaðst ákærði einnig synja fyrir að hafa tekið síma frá A á leið út úr húsinu.  

Ákærði, C, kvað meðákærða hafa komið í heimsókn 27. mars 2003. Meðákærði hafi farið úr skóm sínum fyrir utan hurð að íbúðinni. Þegar hann hafi ætlað að fara aftur stuttu síðar hafi skór meðákærða verið horfnir. A hafi verið staddur frammi á gangi. Meðákærði hafi innt A eftir skónum og hafi A ekkert viljað kannast við þá. A hafi greinilega verið undir áhrifum áfengis. Eftir talsvert þras hafi meðákærði ráðist að A, gripið í peysu hans og tuskað hann til, en í þeim átökum hafi A m.a. misst farsíma er hann hafi haft. Meðákærði hafi tekið farsímann og hlaupið berfættur út úr húsinu. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið þátt í atburðarásinni. Ákærði kvað D hafa verið inni í íbúð ákærða á meðan á þessu hafi staðið. Móðir ákærða hafi verið á leið inn í húsið til að sækja ákærða, en ákærði kvaðst ekki viss um að þær tvær hafi orðið vitni að atburðum. Ákærði kvað meðákærða ekki hafa lamið A umrætt sinn. Þá hafi atburðirnir átt sér stað frammi á gangi og hafi ákærðu ekki farið inn í íbúð A. 

Vitnið B kvaðst hafa verið að ryksuga íbúð á 3ju hæð í húsinu. Er vitnið hafi slökkt á ryksugunni hafi það heyrt einhver læti á hæðinni fyrir ofan. Hafi vitnið farið upp og þá séð að hurð hafi verið opin að íbúð vitnisins og A. Hafi vitnið heyrt einhver læti inni í herbergi í íbúðinni og séð að einhver maður hafi verið að ráðast á A. Hafi viðkomandi tekið í A, ýtt honum upp að vegg og slegið hann nokkur hnefahögg í líkamann. Hafi vitnið staðið fyrir aftan ákærða, C og sambýliskonu hans, er hafi verið á staðnum. Hafi ákærði, C, otað hækju að A. Hafi vitnið hlaupið að A og ákærða, Árna Elvari, til að skilja þá að. Nokkru síðar hafi móðir ákærða, C, komið að. Ákærði, Árni Elvar, hafi tekið farsíma A og haft hann á brott með sér. Eftir þetta hafi vitnið og A hringt á lögreglu og í kjölfarið farið á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Vitnið, G, kvaðst hafa komið að S. Er vitnið hafi komið á þann stigapall er íbúð ákærða, C, hafi verið við, hafi vitnið séð ákærða, C, standa í dyragætt á íbúð sinni, en ákærði, Árni Elvar, hafi staðið fyrir framan íbúð A og verið að rífast við A. Ákærði, Árni Elvar, hafi orðið æstur og gripið í aðra öxlina á A og hrist hann til og öskrað á hann um koma með einhverja skó. Ákærði hafi hins vegar ekki slegið A hnefahögg. Hafi vitnið skipað ákærða að sleppa A, sem hann hafi gert í kjölfarið og síðan horfið á brott. Kvaðst vitnið ekki telja að D hafi verið á stigapallinum umrætt sinn. Þá kvaðst vitnið ekki hafa orðið vart við að ákærði, Árni Elvar, hafi haft síma á brott með sér út úr húsinu.

Vitnið D kvaðst hafa verið í íbúð ákærða, C, er afskipti hafi verið höfð af A. Hafi vitnið einungis heyrt rifrildi frammi á gangi, en þangað hafi vitnið ekki farið.

Lögreglumaðurinn Logi Kjartansson kom fyrir dóminn. Kvað vitnið ákærðu hafa yfirgefið S áður en lögregla hafi komið á staðinn. Hafi A verið í uppnámi er lögregla hafi komið og hafi ekki leynt sér að eitthvað alvarlegt hafi komið fyrir hann.

III.-V.

Lögreglan í Reykjavík fékk tilkynningu 2. apríl 2003 um líkamsárás að S þann sama dag. Á vettvangi hitti lögregla fyrir tilkynnanda, A. Hafi A lýst því að hann hafi orðið fyrir líkamsárás í íbúð sinni á fjórðu hæð í húsinu. Atvik hafi verið með þeim hætti að bankað hafi verið á dyr að íbúð kæranda. Gestkomandi hjá kæranda, H, hafi farið til dyra. Þá hafi ruðst inn í íbúðina þrír menn, er A hafi borið kennsl á. Hafi þar verið á ferð ákærðu, E, F og C. Hafi ákærði, F, farið fremstur í flokki og lamið sig í andlitið og hent sér fram og til baka. Fram kemur í skýrslu lögreglu að talsvert hafi blætt úr nefi A og hafi hann verið með skrámur á enni. Einnig hafi skyrta hans verið rifin eftir átökin. Er tekið fram að í íbúð A hafi, auk hans, verið H og eiginkona A, B. Hafi H og B orðið vitni að líkamsárásinni. Að sögn A, H og B hafi ákærðu hótað að drepa A ef hann hefði samband við lögreglu vegna málsins. Fram kemur í skýrslu lögreglu að við átökin hafi rafmagnstengill á vegg skemmst, þar sem fataskápur hafi runnið til og á tengilinn. Hafi A verið bent á að fara á slysadeild til skoðunar og kæra síðan atburðinn til lögreglu. Fimmtudaginn 3. apríl 2003 kom A á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að leggja fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás, húsbrot og hótanir.

Í læknisvottorði frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, frá 20. apríl 2003, segir m.a.: ,,Við komu á slysadeild kvartar hann um verk í andliti og mun einnig hafa verið með blóðnasir. Kvartaði einnig um verk við djúpa innöndun. Við skoðun þá vætlar enn örlítið blóð úr nefinu á honum. Þar er mar og eymsli á enni og hann mun einnig hafa haft verki eða eymsli yfir kjálkabeinum... Hann er einnig með þreifieymsli og mar á brjóstkassa vinstra megin.”

Fyrir dómi hefur A lýst atvikum með sama hætti og hjá lögreglu. Kvað hann ákærðu alla hafa ruðst inn í íbúð sína umrætt sinn. Það hafi borið að með þeim hætti að bankað hafi verið á hurð að íbúðinni. Um leið og hurðinni hafi verið aflæst hafi henni verið hrundið upp. Í kjölfarið hafi ákærðu, E og F, ráðist að sér. Ákærði, F, hafi umsvifalaust slegið A þungt högg í höfuðið með hnefa. Hafi höggið lent á enni rétt fyrir ofan augu. Ákærði hafi í kjölfarið lamið A mörgum sinnum í líkamann, sem og í síðu og brjóst. Ákærði, E, hafi einnig ráðist að A og slegið hann hnefahögg í andlit og í líkamann. Hafi A reynt að forða sér undan atlögunni og hrökklast inn í svefn­herbergi í íbúðinni. Hafi hann reynt að loka á eftir sér hurð að herberginu. Ákærðu hafi þá ruðst inn í herbergið og haldið áfram að láta höggin dynja á A. Hafi þeir ekki linnt látunum fyrr en A hafi fallið varnarlaus í gólfið. Ákærði, C, hafi ekki staðið að atlögunni, en hann hafi samt sem áður ruðst inn í íbúðina í félagi við aðra ákærðu. Hafi ákærðu, F og E, báðir hótað A að færi hann með málið til lögreglu myndu þeir koma á nýjan leik með annan mannskap. 

Ákærði, E, hefur neitað sök. Kvað hann son sinn, meðákærða C, hafa verið leigutaka að íbúð á S. Leigusali hafi verið A. Ósætti hafi verið á milli C og A vegna atriða tengdum leigu á íbúð að S. Hafi mælirinn loks verið fullur hjá ákærða og hann því ákveðið að fara og ræða við A um atriði tengd leigunni. Með í för hafi verið meðákærðu. Ákærðu hafi bankað á dyr að íbúð A. Ókunnugur maður hafi komið til dyra og opnað hurðina. Hafi ákærði innt eftir A og hafi maðurinn þá vikið til hliðar. Í kjölfarið hafi ákærðu gengið inn í íbúðina, en þar inni hafi auk hins gestkomandi, verið A og eiginkona hans. Meðákærði, C, hafi staðið frammi á gangi og ekki komið inn í íbúðina. Kvaðst ákærði viðurkenna að ákærðu hafi verið nokkuð æstir og að hlutir hafi farið nokkuð úr böndunum. Meðákærði, F, hafi ráðist að A og gripið framan í skyrtubrjóst hans og hrist hann duglega til þannig að skyrta A hafi rifnað. Jafnframt hafi þeir ,,sagt honum til syndanna”. Hafi ákærði aldrei komið við A, en fljótlega tekið til við að losa meðákærða frá honum. Að síðustu hafi ákærða tekist að koma meðákærða út úr íbúðinni. Meðákærði hafi farið strax aftur inn í íbúðina og hafi A þá hlaupið inn í herbergi í íbúðinni. Meðákærði hafi farið á eftir honum og skellt hurð að herberginu upp að A þar sem hann hafi staðið bak við hana. Að síðustu hafi ákærða tekist að koma meðákærða út úr íbúðinni. Hafi ákærði séð að blætt hafi úr nefi A. Áður en ákærði hafi yfirgefið íbúðina hafi hann sagt nokkur vel valin orð við A. Að síðustu hafi ákærðu allir horfið á brott og farið úr húsinu. Aðspurður kvað ákærði meðákærða, F, ekki hafa lamið A með hnefa í andlitið eða líkamann.  Þá kvað ákærði engar hótanir hafa verið hafðar í frammi gagnvart A.

Ákærði, C, kvað ákærðu hafa farið á fund A vegna álitamála tengdum endurgreiðslu á húsaleigu, en ákærði hafi haft íbúð á leigu hjá A um einhvern tíma. Er ákærðu hafi komið að íbúð A hafi þeir bankað á dyr. Er hurð að íbúðinni hafi verið opnuð hafi meðákærðu gengið inn í íbúðina. Ákærði kvaðst allan tímann hafa verið fyrir utan íbúðina. Hafi ákærði ekki séð hvað hafi átt sér stað í íbúðinni, en hann hafi heyrt einhver læti og öskur koma þaðan. Nokkru síðar hafi meðákærðu komið úr íbúðinni, en ákærði hafi þá verið lagður af stað niður stiga á leið út úr húsinu.

Ákærði, F, kvað meðákærða, E, hafa leitað til ákærða með að fara með sér á fund A, leigusala bróður ákærða. Hafi átt að ræða atriði tengd húsaleigu meðákærða, C. Ákærðu hafi bankað á dyr að íbúðinni og til dyra komið einhver er ákærði hafi ekki séð áður. Meðákærði, E, hafi spurt eftir A og hafi viðkomandi einstaklingur þá vikið til hliðar. Ákærði og meðákærði, E, hafi þá gengið inn í íbúðina. Meðákærði, C, hafi allan tímann staðið frammi á gangi. Ákærði kvað ákærðu hafa verið nokkuð æsta og hafi hlutir farið nokkuð úr böndum. Hafi ákærði ráðist að A, gripið framan í skyrtubrjóst hans og hrist hann duglega til. Hafi meðákærði, E, þá tekið ákærða frá A og gefið ákærða fyrirmæli um að fara fram á gang. A hafi farið inn í herbergi í íbúðinni og hafi ákærði ýtt á hurð að herberginu þannig að hún hafi skollið á A. Við það hafi A fengið blóðnasir. Eftir það hafi ákærðu farið á brott úr íbúðinni. Kvaðst ákærði alfarið synja fyrir að hafa lamið A með hnefa í andlitið eða í líkama. Þá kvaðst ákærði einnig synja fyrir að hafa hótað A ófarnaði.

Vitnið B kvaðst hafa verið stödd á heimili vitnisins og A 21. apríl 2003. Kunningi A, H, hafi einnig verið í íbúðinni. Bankað hafi verið á dyr að íbúðinni. Vitnið hafi þá verið inni í herbergi, en A og H hafi verið frammi í stofu. Vitnið hafi heyrt að einhver hafi farið til dyra. Í framhaldinu hafi vitnið heyrt mikinn hávaða frammi í stofu og að menn hafi ruðst inn í íbúðina. Hafi vitnið þá farið fram í stofu og séð ákærðu ráðast á A. Þegar hafi blætt úr andliti A og hafi ákærði, E, haft sig mest í frammi. Hafi hann hrópað að A. Ákærði hafi gripið um skyrtubrjóst A, ýtt honum upp að vegg og slegið hann a.m.k. eitt högg með krepptum hægri hnefa í andlitið. Ákærði, F, hafi einnig slegið til A yfir öxl ákærða, E. Höggin hafi verið mörg með krepptum hnefa og hafi þau lent í andliti A. Hafi ákærðu hótað A öllu illu, m.a. að þeir myndu berja hann sundur og saman og hafi ákærði, F, sagt að ef A myndi kæra atvikið til lögreglu myndi ákærði koma aftur og drepa hann. Hafi ákærði, F, því næst skellt svefnherbergishurð nokkrum sinnum í andlit A, eftir að A hafi leitað skjóls á bak við hurðina. Mikið hafi blætt úr andliti A og hafi verið blóð um allt. Ákærði, C, hafi ekki haft sig í frammi. Eftir þetta hafi ákærðu haldið á brott. Vitnið kvaðst ekki hafa veitt því athygli hver hafi opnað dyr að íbúðinni þar sem það hafi verið í svefnherbergi íbúðarinnar á þeim tíma. Kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort ákærði, C, hafi komið inn fyrir dyr íbúðarinnar eða hvort hann hafi staðið í dyragættinni. Kvaðst vitnið hafa orðið mjög hrætt við þessa atburði.

Vitnið H kvaðst hafa verið statt á heimili A 2. apríl 2003. Vitnið og A hafi rétt lokið við að snæða þegar bankað hafi verið á hurð að íbúðinni. Hafi A leitað eftir því við vitnið að opna dyrnar. Er vitnið hafi opnað þær hafi ákærðu ruðst inn um dyrnar og inn í íbúðina. Hafi þeir ýtt vitninu til hliðar og umsvifalaust ráðist að A. Ákærði, F, hafi haft sig mest í frammi. Hafi hann gripið framan í skyrtubrjóst A og hrist hann til og ýtt honum upp í horn. Þar hafi ákærði slegið A í andlitið. Hafi hann einnig hótað A öllu illu, m.a. að hann yrði drepinn. Aðrir ákærðu hafi ekki haft sig í frammi utan að þeir hafi einnig verið með hótanir. Hafi vitninu liðið mjög illa og verið mjög óttaslegið. Atburðarásin hafi verið mjög hröð og eftir nokkur augnablik hafi mennirnir verið farnir út úr íbúðinni. Ákærði, C, hafi ekkert haft sig í frammi, enda gengið við hækjur. Lögregla hafi komið á vettvang eftir að mennirnir hafi verið horfnir á brott. Vitnið tók fram að það hafi ekki boðið ákærðu inngöngu í íbúðina, heldur hafi þeir ruðst inn. Þá kvaðst vitnið aðspurt hafa veitt því athygli að blætt hafi úr nefi A eftir atlöguna.

Vitnið D kvaðst hafa farið fram á stigapall fyrir framan íbúð ákærða, C, er framangreindir atburðir hafi átt sér stað. Hafi ákærði, C, sennilega verið við dyr að íbúð A þegar aðrir ákærðu hafi verið inni í íbúðinni.

Lögreglumaðurinn Sigurður Freyr Gunnarsson kom fyrir dóminn. Vitnið kvað lögreglu hafa fengið tilkynningu um líkamsárás að S. Á vettvangi hafi lögregla hitt fyrir A og fleira fólk og hafi lögregla verið upplýst um atvik. Hafi A verið talsvert æstur og í geðshræringu. Allt hafi verið á ,,rúf og stúfi" í íbúðinni eftir undanfarandi átök.

Niðurstaða:

I.-II.

Ákærðu hafa báðir viðurkennt að til orðahnippinga og lítilsháttar átaka hafi komið milli ákærðu og A á S. Ákærðu synja báðir fyrir að þeir atburðir hafi verið inni í íbúð A, en að þeir hafi átt sér stað frammi á stigagangi. Ákærði, Árni Elvar, hefur viðurkennt að hafa brostið þolinmæðin gagnvart A, orðið reiður og öskrað á hann um að skila tilteknum skóm. Hefur ákærði viðurkennt að hafa gripið í skyrtubrjóst A og ýtt við honum á leið sinni út úr húsinu. Ákærði, C, hefur lýst því að eftir talsvert þras hafi meðákærði ráðist að A, gripið í peysu hans og tuskað hann til, en í þeim átökum hafi A m.a. misst farsíma er hann hafi haft. Meðákærði hafi tekið hann upp og því næst hlaupið berfættur út úr húsinu.

Kærandi, A og eiginkona hans B, bera á hinn bóginn að ákærði, Árni Elvar, hafi ýtt A upp að vegg og slegið hann hnefahögg í andlit og í líkama. Eru þau bæði á einu máli um að atlaga þessi hafi átt sér stað inni í íbúð þeirra, en þangað hafi ákærðu ruðst óboðnir. 

Læknisvottorð frá 5. maí 2003 ber með sér áverka er greinir í ákæru. Verður að telja ósennilegt að þær afleiðingar hafi eingöngu hlotist af því að ákærði, Árni Elvar, hafi tuskað A til, eins og hann hefur sjálfur lýst háttsemi sinni. Er framburður ákærðu ótrúverðugur að þessu leyti til. Framburður vitnisins B er hins vegar skýr um atburðarásina, en hún hefur lýst atvikum á trúverðugan, greinar­góðan og mótsagnalausan hátt. Verður því lagt til grundvallar að ákærði, Árni Elvar, hafi valdið A þeim áverkum er í ákæru greinir með því að hafa slegið hann fleiri en eitt hnefahögg í andlit og í líkama, en læknisvottorð getur áverka á báðum stöðum. Þá sækir sá framburður A og vitnisins B, um að ákærði, Árni Elvar, hafi stolið farsíma þetta sama sinn, stoð í framburð ákærða, C, er greindi frá þessu sama við yfirheyrslur hjá lögreglu. Verður því einnig við það miðað að ákærði, Árni Elvar, hafi hrifsað farsíma A á leið sinni af S og þannig slegið eign sinni á hann. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði, Árni Elvar, gerst sekur um háttsemi samkvæmt II. hluta ákæru og eru brot hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Stendur þá eftir hvort ákærðu hafi á þessum sama tíma gerst sekir um húsbrot, með því að hafa ruðst heimildarlaust inn á heimili A, svo sem I. liður ákæru miðar við. Um atvik að baki þessu sakaratriði eru ákærðu, kærandi og vitnið B ósammála. Þá hefur vitnið G borið, að er það hafi komið að S, hafi ákærði, C, verið í dyragætt á íbúð sinni, en að meðákærði, Árni Elvar, hafi verið að hrista A frammi á gangi fyrir framan íbúðirnar. Til grundvallar þessu atriði liggja því mismunandi framburðir, en í rannsóknargögnum málsins liggur ekki fyrir að lögregla hafi sannreynt ummerki átaka í íbúðinni. Að þessu gættu og með hliðsjón af reglu 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þykir verða að sýkna ákærðu báða af húsbroti skv. I. lið ákæru.

III.-V.

Vitnið H og kærandi, A, hafa báðir fullyrt, að ákærðu hafi ruðst heimildarlaust inn á heimili A 2. apríl 2003. Hafa vitnið og kærandi lýst atvikum þannig, að H hafi farið til dyra er bankað hafi verið og að ákærðu hafi ruðst inn eftir að hann hafi opnað dyrnar. Vitnið B hefur ekki getað staðfest þetta, þar sem vitnið var á öðrum stað í íbúðinni á þessum tíma. Ákærðu hafa hins vegar haldið fram að H hafi vikið úr vegi fyrir ákærðu í þeim tilgangi að heimila þeim inngöngu. Við mat á þessu atriði verður litið til þess að ákærðu voru að eigin sögn orðnir æstir er þeir knúðu dyra hjá A. Hafa þeir jafnframt lýst yfir að ,,hlutir hafi farið úr böndunum” og hafa viðurkennt að A hafi verið hristur til. Verður því að telja fullnægjandi sönnun komna fram um það, að þeir hafi ruðst inn um dyr að íbúðinni eftir að H hafði opnað og að þeir hafi ekki skeytt um að leita eftir heimild húsráðanda fyrir inn­göngunni. Er því að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærðu hafi við inngönguna brotið gegn 231. gr. laga nr. 19/1940. Ákærðu hafa haldið fram að ákærði, C, hafi ekki farið inn í íbúðina, heldur hafi hann verið frammi á stigagangi á meðan meðákærðu hafi verið inni í íbúðinni. Vitnið B hefur ekki getað fullyrt, hvort ákærði hafi farið inn í íbúðina eða verið við dyr hennar. Þá er framburður vitnisins H ekki afdráttarlaus um þetta atriði. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði, C, sýknaður af III. lið ákæru. 

Svo sem áður er rakið hafa ákærðu allir viðurkennt, að þeir hafi farið á fund A, á heimili hans á S, 2. apríl 2003. Að baki þeirri för hafi búið að ákærðu hafi viljað skýra tiltekin atriði tengd ágreiningi um húsaleigu ákærða, C. Hafa ákærðu, E og F, jafnframt viðurkennt að A hafi verið tuskaður til. Þeir hafa viðurkennt að ákærði, F, hafi gripið um skyrtubrjóst hans og hrist hann til, en þeir hafa báðir synjað fyrir að hafa slegið hann hnefahögg í andlit eða líkama. Hafa þeir viðurkennt að A hafi hlotið blóðnasir af atlögunni. Kærandi, A og vitnin H og B bera hins vegar öll, að ákærðu hafi veist harkalega að A og hafi ákærðu, F og E, slegið A hnefahögg í andlit og líkama.

Sem fyrr byggir lýsing á áverkum í ákæru á læknisvottorði, sem áður hefur verið gerð grein fyrir. A leitaði á slysadeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss 27. mars 2003, eða 7 dögum fyrr, vegna áverka er greinir í II. hluta ákæru. Ef fyrst er litið til áverka í andliti kemur fram í læknisvottorði vegna þeirra áverka, að A hafi verið með roða og eymsli yfir báðum kinnbeinum. Ef þessir áverkar eru bornir saman við áverka í læknisvottorði vegna atburða 2. apríl kemur í ljós, að þá er í andliti lýst blóðnösum og áverkum á enni, er ekki koma fram í áverka­vottorði vegna árásarinnar 27. mars. Að öðru leyti bera bæði vottorð með sér áverka á kjálka- eða kinnbeinum. Að því er líkama varðar lýsir læknisvottorð vegna atlögunnar 27. mars eymslum yfir rifjaboga vinstra megin við fremri axlarlínu og mari og eymslum á baki milli herðablaða sem og hægra megin við hryggjasúlu, á meðan læknisvottorð vegna atburða 2. apríl lýsir þreifieymslum og mari á brjóstkassa vinstra megin. Þegar til þessa er litið og þess að einungis 7 dagar voru þá liðnir frá fyrri komu á slysadeild er ekki loku fyrir það skotið, að eymsli við kinnbein í andliti og vinstra megin á brjóstkassa hafi að einhverju leyti getað stafað af atlögunni 27. mars. 

Lögregla hefur lýst aðkomu að S þannig, að allt hafi verið á ,,rúf og stúfi” í íbúðinni. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík tók ljósmyndir í íbúð A 3. apríl 2003. Ljósmyndir úr svefnherbergi bera með sér talsvert af blóði á gólfi. Að mati dómsins þykir í ljós leitt að A hafi hlotið frekari áverka 2. apríl 2003 en hann hafði fyrir. Áverkar á nefi og enni eru þar sérstaklega hafðir í huga. Þá þykir dóminum framburðir vitnanna H og B trúverðugir og greinargóðir, en vitnin hafa bæði lýst atlögu ákærðu, F og E, að A. Eru framburðir ákærðu, F og E, um hnefahöggin ótrúverðugir að sama skapi, en þeir hafa viðurkennt að hafa veist að A. Verður því við það miðað að þeir hafi báðir slegið A hnefahögg, þó svo um afleiðingar verði ekki að fullu miðað við þá áverka er í IV. lið ákæru greinir. Verða áverkarnir engu að síður taldir slíkir að falli undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, að því er þá báða varðar, en að atlögunni stóðu þeir í félagi, svo sem ákæra miðar við.

Ákærðu, F og E, hafa lýst því þannig, að ,,nokkur vel valin orð hafi fallið” gagnvart A á S. Vitnin H og B hafa bæði lýst því að ákærðu hafi hótað A ófarnaði og að ákærði, F, hafi lýst yfir að A yrði drepinn hefði hann samband við lögreglu. Lögregla hefur lýst því að A hafi verið æstur og í geðshræringu er hún hafi komið að. Þá er tekið fram í frumskýrslu að vitnin H og B hafi lýst því að ákærðu hafi hótað að drepa A. Þegar til þessa er litið þykir dóminum komin fram fullnægjandi sönnun um að ákærði, F, hafi hótað A ófarnaði og lífláti og að þær hótanir hafi verið til þess fallnar að vekja hjá honum ótta um líf sitt. Varðar sú háttsemi ákærða við 233. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði, Árni Elvar Þórðarson, er fæddur árið 1973. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 1994 fimm sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og áfengislögum. Dómur frá árinu 1995 er fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir líkamsárás og gripdeild. Með hliðsjón af ofbeldisbroti hans og töku á farsíma, er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Heimilt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, E, er fæddur árið 1939. Hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir líkamsárás og húsbrot. Brot ákærða voru þarflaus og lýsa ofbeldisfullri hegðun. Með hliðsjón af því er refsing hans einnig hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Heimilt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, F, er fæddur árið 1976. Frá árinu 1994 hefur ákærði fjórum sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Frá sama ári hefur hann sex sinnum gengist undir sáttir eða viðurlagaákvörðun vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2003 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 244. gr. laga nr. 19/1940. Var honum ekki gerð sérstök refsing í málinu. Brot ákærða nú eru hegningarauki við dóminn 9. júlí 2003. Ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir líkamsárás, húsbrot og hótanir. Brot ákærða voru einnig með öllu þarflaus og lýsa sömuleiðis ofbeldisfullri hegðun. Þá eru hótanir um líflát alvarlegur hlutur. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 60 daga. Heimilt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Árni Elvar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir. Ákærðu, E og F, greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Björns­sonar héraðsdómslögmanns, svo sem í dómsorði greinir, en málsvarnarlaunin greiðist úr ríkissjóði að öðru leyti. Annan sakarkostnað greiði ákærðu, Árni Elvar, E og F, óskipt.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Daði Kristjánsson fulltrúi.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærðu, Árni Elvar Þórðarson og E, sæti hvor um sig fangelsi í 30 daga. Frestað er fullnustu refsingar beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  

Ákærði, C, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Ákærði, F, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Árni Elvar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingi­mundar­sonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Ákærðu, E og F, greiði 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Björnssonar héraðsdómslögmanns, 140.000 krónur, sem greiðist úr ríkissjóði að öðru leyti.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu, Árni Elvar, E og F, óskipt.