Hæstiréttur íslands

Mál nr. 429/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


       

Fimmtudaginn 7. ágúst 2008.

Nr. 429/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 19. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og  b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 26. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 5. ágúst 2008.

Ár 2008, þriðjudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Allani V. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að kærða, X, kt. [...], pólskum ríkisborgara, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 26. ágúst 2008, kl. 16:00. Vísað er til 19. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13, 1984 og til b. liðar  1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögregla hafi handtekið í gærkvöldi kl. 23.20 X, pólskan ríkisborgara, en hann sé skráður með lögheimili að [...] í Reykjavík. Hann sé eftirlýstur í Schengen upplýsingakerfinu (SIS) vegna nokkurra dóma sem hann hafi hlotið í Póllandi fyrir rán, þjófnað, og brota gegn þarlendum ávana- og fíkniefnalögum, sbr. skjal þar um sem fylgir gögnum málsins.  Af þeim megi ráða að um sé að ræða fjóra dóma  þar sem hann hafi verið dæmdur til að sæta 2 ára fangelsis, 10 mánaða fangelsis, 6 mánaða fangelsis og 16 mánaða fangelsis. Dómana eigi hann jafnframt eftir að afplána alla.

Strax eftir handtöku hafi tilkynning verið send til pólskra yfirvalda um að hinn eftirlýsti hefði verið handtekinn hér á landi og óskað eftir því að nauðsynleg gögn vegna málsins yrðu send dómsmálaráðuneytinu. Samkvæmt 95. gr. Schengen samningsins jafngildi skráning um eftirlýsingu í Schengen-upplýsingakerfið beiðni um handtöku og gæslu í skilningi 16. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. september 1957, sbr. 64. gr. Schengen samningsins.

Nú í kvöld hafi verið tekin skýrsla af X þar sem honum hafi verið gerð grein fyrir því að hann sé eftirlýstur. Hafi hann tjáð sig þá um málið og sagðist hafna gæsluvarðhaldskröfu. Hann sagðist vera í þeirri trú að þeim málum, sem hann hefur hlotið dóm fyrir, hefði verið lokað. Hér lifði hann góðu lífi.

Ljóst sé að X beri að afplána ofangreinda refsidóma í heimalandi sínu og þar sé hann eftirlýstur. Pólsk yfirvöld hafi eins og áður segir fengið upplýsingar um veru mannsins hér á landi og hafa liðsinnt íslenskri lögreglu með því að senda hingað handtökuskipun mannsins á ensku.

Nauðsynlegt sé talið að tryggja nærveru mannsins hér með það fyrir augum að koma honum til pólskra yfirvalda. Enn hafi ekki borist formleg framsalsbeiðni en málið er til meðferðar hjá íslenskum yfirvöldum. Ætla megi að þess verði ekki langt að bíða að beiðnin berist, enda kveður 19. gr. laga um um framsal sakamanna á um, að hafi beiðni ekki borist 30 dögum eftir að tilkynning hafi verið send skulu þvingunarráðstafanir felldar niður. Þá þyki nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hafi eitthvert svigrúm til að taka beiðnina til meðferðar.

Í ljósi alls þessa sé krafist að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi  með vísan til 19. gr. laga nr. 13, 1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. 

Kærði hefur verið dæmdur fjórum sinnum í heimalandi sínu til þess að sæta fangelsi í tvö ár í einu tilviki, tíu mánaða í öðru, sex mánaða í því þriðja og eins árs og fjögurra í því fjórða. Fallist er á það að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða þannig að unnt verði að koma honum til pólskra yfirvalda og með hliðsjón af alvarleika brota þeirra sem hann hefur verið dæmdur fyrir þykir eins og atvikum er háttað ekki unnt að beita vægara úrræði en gæsluvarðhaldi. Með vísan til 19. gr. laga nr. 13/1984 svo og til b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 teljast lagaskilyrði uppfyllt og verður því krafa lögreglustjóra tekin til greina.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S KU R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], pólskur ríkisborgari, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 26. ágúst 2008, kl. 16:00.