Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2009


Lykilorð

  • Svipting ökuréttar
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. október 2009.

Nr. 44/2009.

Kjartan Björnsson

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Svipting ökuréttar. Skaðabætur. Gjafsókn.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007 var K sakfelldur fyrir að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Var honum gert að sæta sviptingu ökuréttar í tólf mánuði frá birtingu dómsins, auk þess að greiða sekt og nánar tiltekna fjárhæð í sakarkostnað. K áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar og með dómi réttarins 22. nóvember 2007 var hann sýknaður af sakargiftunum og allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð. K öðlaðist ökurétt á ný við uppsögu dóms Hæstaréttar en óumdeilt var að hann greiddi hvorki sektina né sakarkostnað samkvæmt héraðsdóminum. Höfðaði K mál gegn Í og krafðist skaðabóta fyrir að hafa verið „saklaus sviptur ökurétti“. Reisti hann kröfu sína á 177. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem í gildi var þegar refsimálið á hendur K var til meðferðar fyrir dómi. Lagt var til grundvallar að K hefði í skilningi ákvæðisins saklaus hlotið refsidóm í héraði, en hins vegar væri réttur til skaðabóta háður því að maður hefði þolað refsingu eða upptöku eigna. Talið var að með því að eignaupptöku væri sérstaklega getið í ákvæðinu og að auki hennar einnar af meiði svonefndra refsikenndra viðurlaga væri óhjákvæmilegt eftir orðskýringu að líta svo á að til refsinga í skilningi þess gæti aðeins talist fangelsisvist eða fésekt. Þessi skýring samrýmdist jafnframt 4. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem hefði leyst af hólmi 177. gr. laga nr. 19/1991, en í lögskýringargögnum hafi þess sérstaklega verið getið að í orðalagi ákvæðisins fælist rýmkun á skaðabótarétti frá eldri reglu. Þar sem K hefði ekki greitt sektina hefði hann ekki á grundvelli dómsins sætt viðurlögum af þeim toga, sem um ræddi í 177. gr. laga nr. 19/1991. Var Í því sýknað af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2009. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 767.230 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. janúar 2007 til 22. febrúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins gaf lögreglustjórinn í Reykjavík út ákæru 27. nóvember 2006 á hendur áfrýjanda, þar sem hann var borinn sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum með því að hafa 20. ágúst sama ár ekið nánar tilgreindri bifreið undir áhrifum áfengis um bifreiðastæði við Frakkastíg í Reykjavík. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007 var áfrýjandi sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem greindi í ákærunni, og honum gert að sæta sviptingu ökuréttar í tólf mánuði frá birtingu dómsins, auk þess að greiða 100.000 krónur í sekt og nánar tiltekna fjárhæð í sakarkostnað. Dómur þessi var birtur áfrýjanda 26. mars 2007 og kom þá svipting ökuréttar til framkvæmdar. Að fengnu áfrýjunarleyfi var dómi þessum áfrýjað að tilhlutan áfrýjanda til Hæstaréttar 30. apríl 2007, en með því málskoti var ekki hreyft við sviptingu ökuréttar hans, sbr. 104. gr. umferðarlaga. Með dómi réttarins 22. nóvember sama ár í máli nr. 253/2007 var áfrýjandi sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákærunni og allur sakarkostnaður á báðum dómstigum felldur á ríkissjóð. Eftir þeim úrslitum málsins öðlaðist áfrýjandi ökurétt á ný við uppsögu dóms Hæstaréttar, en óumdeilt er að hann greiddi hvorki sektina né sakarkostnað samkvæmt héraðsdóminum. Með bréfi 22. janúar 2008 krafði áfrýjandi stefnda um skaðabætur fyrir að hafa á framangreindan hátt verið „saklaus sviptur ökurétti“. Þeirri kröfu hafnaði stefndi 2. apríl 2008 og höfðaði áfrýjandi í framhaldi af því mál þetta 29. sama mánaðar.

Í málinu reisir áfrýjandi kröfu sína um skaðabætur á 177. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem í gildi voru þegar refsimálið á hendur honum var til meðferðar fyrir dómi, en ákvæðið telur hann fela í sér stoð fyrir kröfunni, eftir atvikum með rýmkandi skýringu eða lögjöfnun. Eftir þessu ákvæði nýtur sá, sem hefur „saklaus hlotið refsidóm, þolað refsingu eða upptöku eigna“, réttar til skaðabóta úr hendi stefnda án þess að sannað sé að þau atvik verði rakin til saknæmrar háttsemi einhvers þess, sem hann stendur í skaðabótaábyrgð fyrir. Í samræmi við dóm Hæstaréttar 22. nóvember 2007 verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi í skilningi ákvæðisins saklaus hlotið refsidóm þegar hann var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 22. janúar sama ár sakfelldur í máli ákæruvaldsins á hendur honum. Það eitt nægir þó ekki til, en um frekari skilyrði fyrir skaðabótum á þessum grunni er þess að gæta að réttur til þeirra er háður því að maður hafi þolað refsingu eða upptöku eigna. Með því að eignaupptöku er sérstaklega getið í ákvæðinu og að auki hennar einnar af meiði svonefndra refsikenndra viðurlaga er óhjákvæmilegt eftir orðskýringu að líta svo á að til refsinga í skilningi þess geti aðeins talist fangelsisvist eða fésekt, sbr. 1. mgr. 31. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Þessi skýring samrýmist jafnframt því að samkvæmt 4. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem nú hefur leyst af hólmi 177. gr. laga nr. 19/1991, nýtur maður réttar til skaðabóta hafi hann saklaus hlotið dóm í sakamáli, þolað refsingu eða refsikennd viðurlög. Í lögskýringargögnum er þess sérstaklega getið að í síðastgreindum orðum hafi falist rýmkun á skaðabótarétti frá eldri reglu með því að eftir þeirri yngri njóti þessa réttar meðal annarra sá, sem ranglega hefur sætt refsikenndum viðurlögum eins og öryggisgæslu, öðrum öryggisráðstöfunum eða sviptingu réttinda, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðis VI. til bráðabirgða við lög nr. 88/2008 verður þeim lögum ekki beitt við úrlausn þessa máls. Eins og áður greinir er óumdeilt að áfrýjandi greiddi ekki sektina, sem honum var gerð í héraðsdómi 22. janúar 2007, og hefur hann því ekki á grundvelli dómsins sætt viðurlögum af þeim toga, sem um ræddi í 177. gr. laga nr. 19/1991, þótt hann hafi samkvæmt dóminum mátt þola sviptingu ökuréttar um nærri átta mánaða skeið. Efni þessa ákvæðis var reist á mati löggjafans á því í hverjum tilvikum felld yrði á stefnda skaðabótaábyrgð án sakar vegna viðurlaga, sem saklaus maður mátti þola. Ekki er á valdi dómstóla að víkja frá því löggjafarmati og ber því að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Kjartans Björnssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2008.

                Mál þetta, sem dómtekið var 27. október 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kjartani Björnssyni, kt. 000000-0000, Austurvegi 21b, Selfossi, gegn íslenska ríkinu með stefnu sem birt var 29. apríl 2008.

                Dómkröfur stefnanda eru að stefndi greiði stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð 767.230 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. janúar 2007 til 22. febrúar 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.  Þá er þess krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.  Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Málavöxtum lýsir stefnandi í stefnu á þann veg að hann hafi þurft að sæta sviptingu ökuréttinda í um átta mánuði á grundvelli sakfellingar í héraði, en hann hafi síðan verið sýknaður af ákærum um meintan ölvunarakstur í Hæstarétti.

                Með dómi Hæstaréttar Íslands 22. nóvember 2007 í máli nr. 253/2007 hafi stefnandi verið sýknaður af ákæru um meintan ölvunarakstur.  Hann hafi hins vegar verið sviptur ökuréttindum í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, hinn 22. janúar 2007, í málinu nr. S-2087/2006.  Stefnandi hafi óskað eftir að málinu yrði áfrýjað og leitað eftir áfrýjunarleyfi hjá Hæstarétti sem veitt hefði verið hinn 27. apríl 2007.

                Þá segir að áður en stefnandi afhenti lögreglu ökuskírteini sitt hafi samband verið haft við ríkissaksóknara og staða málsins rædd og hafi stefnandi óskað eftir að hann yrði ekki sviptur ökuréttindum fyrr en að genginni niðurstöðu Hæstaréttar.  Hafi því verið hafnað af hálfu ríkissaksóknara með vísan til 104. umferðalaga nr. 50/1987.

                Af hálfu stefnda eru ekki gerðar athugsemdir við málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu.

Stefnandi byggir á því að hann hafi saklaus verið sviptur ökuréttindum í átta mánuði og einn dag.  Af þeim sökum beri að bæta honum miska og fjártjón samkvæmt 177. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. einnig fyrirmæli 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og til hliðsjónar ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar sem og þau sjónarmið er búi að baki 5. mgr. 67. gr.

                Þá er byggt á því að lagaskilyrði séu ekki til að hafna bótaskyldu með vísan til 2. ml. 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Bent er á að þegar héraðsdómur var kveðinn upp, hinn 22. janúar 2007, hafi ekki legið fyrir hvort leyfi fengist til að áfrýja dóminum til Hæstaréttar, sbr. 2. og 3. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991.  Umsókn um leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms hafi ekki verið samþykkt fyrr en hinn 27. apríl 2007.  Við meðferð málsins fyrir héraði hafi því ekki verið tækt að setja fram kröfu um frestun framkvæmdar á sviptingu við áfrýjun málsins, þar sem ekki hefi legið fyrir á þeim tíma hvort slíkt leyfi fengist.  Þá hafi verið ljóst að héraðsdómari hefði ekki fallist á slíka kröfu við þessar aðstæður sem og í ljósi forsendna héraðsdóms og orðalags 2. ml. 104 gr. umferðarlaga „þegar sérstaklega stendur á“.  Af því leiði að ríkissjóði beri að greiða bætur í þessu tilviki, eins og leiði af skýrum fyrirmælum greindra ákvæða laga um meðferð opinberra mála, sem og stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.

                Þá segir að málið hafi valdið stefnanda töluverðu fjárhagstjóni og miska.  Hann starfi og reki rakarastofu á Selfossi með föður sínum auk þess sem hann sé mjög virkur í félags- og íþróttamálum á svæðinu.  Þá starfi hann sem knattspyrnudómari á vegum KSÍ.  Sem hluta af starfa sínum á rakarastofunni hafi hann stundað störf utan bæjarfélags síns, en einu sinni í mánuði sæki hann vinnu á Litla-Hrauni og Sólheimum, þar sem vistmenn eru klipptir.  Til þess að komast til þessara starfa sinna á þessu tímabili þurfi hann m.a. að taka leigubifreið, láta aðra sækja sig sem og koma sér á áfangastað, með tilheyrandi bið eftir að vera sóttur og vinnutapi á vinnustað sínum meðan á þeirri bið stóð.

                Byggt er á því að svipting ökuréttinda hafi valdið honum aukakostnaði sem knattspyrnudómara.  Þá hafi hann þurft saklaus að sitja undir áburði um brot á umferðarlögum og ásökunum um ölvunarakstur allan þennan tíma og hafi það valdið honum og fjölskyldu hans verulegum erfiðleikum og þjáningum.  Hann sé þekktur í sínu samfélagi og hafi þurft að þola umræðu, blaðaskrif í fjölmiðlum og umfjöllun í fréttum á landsvísu.  Ennfremur hafi þetta skert möguleika hans til ferðalaga í sumar [skráð 28. apríl 2008] með börnum sínum en hann sé einstæður faðir og mjög háður bíl, þar sem sonur hans búi hjá honum auk þess sem dóttir hans dvelji hjá honum á sumrin í tvo mánuði.

Stefndi byggir á því að bótareglur 177. gr. laga nr. 19/1999 um meðferð opinberra mála eigi ekki við í þessu máli.  Stefnandi hafi ekki verið dæmdur saklaus og hvorki hafi hann hlotið refsidóm né mátt þola refsingu.  Aðrar bótareglur, svo sem almenna skaðabótareglan, eigi heldur ekki við enda virtist hvorki vera byggt á henni né öðrum hugsanlegum bótareglum.

                Stefndi áréttar að stefnandi hafi vissulega verið dæmdur til sektargreiðslu í héraði og verið sviptur ökurétti í 12 mánuði að gengnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.  Málinu hafi verið áfrýjað og Hæstiréttur sýknað stefnanda.  Stefnandi hafi þar af leiðandi aldrei þurft að þola refsingu eins og héraðsdómurinn kvað á um.  Í þessu falli eigi ákvæði 177. gr. laga nr. 19/1999 ekki við.  Svipting ökuréttar sé ekki refsing í skilningi refsilaga.  Svipting ökuréttar teljist viðurlög, en refsing væri annað hvort fangelsi eða fésektir, sbr. V. kafla hegningarlaga nr. 19/1940.  Ökuréttindasvipting falli því ekki undir gildissvið 177. gr. laga nr. 19/1991.

                Áréttað er að stefndi hafi með dómi í héraði, hinn 22. janúar 2007, verið sviptur ökuréttindum.  Í því sambandi er bent á 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem segir, að áfrýjun dóms, þar sem kveðið er á um sviptingu ökuréttar, fresti ekki verkun hans að því leyti.  Þó geti dómari ákveðið með úrskurði, að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar, ef sérstaklega standi á.  Stefnandi hafi ekki látið reyna á þetta.  Stefnandi hafi hins vegar óskað eftir því við ríkissaksóknara að hann fengi að halda ökurétti sínum að gengnum dómi fram að dómi Hæstaréttar.  Ríkissaksóknari hafi hafnað þessu og vísað til 104. gr. umferðarlaga, enda hafi það ekki verið á hans valdi.  Einungis dómari geti ákveðið með úrskurði að áfrýjun fresti framkvæmd, ef sérstaklega stendur á.

Ályktunarorð:  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, hinn 22. janúar 2007, var stefnandi dæmdur til að greiða 100.000 króna sekt í ríkissjóð fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.  Þá var stefnandi með vísun til 101. og 102. gr. umferðarlaga, með áorðnum breytingum, sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, hinn 22. nóvember 2007, var stefnandi sýknaður, þar sem ekki var talið nægilega sannað að stefnandi hefði gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru.

                Stefnandi byggir á því að hafa saklaus verið sviptur ökuréttindum í átta mánuði og einn dag.  Beri íslenska ríkinu því að bæta honum miska og fjártjón samkvæmt 177. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. einnig fyrirmæli 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og til hliðsjónar ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar sem og þau sjónarmið er búi að baki 5. mgr. 67. gr.

                Í 177. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 43. gr. laga nr. 36/1998 segir: „Nú verður ljóst að maður hafi saklaus hlotið refsidóm, þolað refsingu eða upptöku eigna og ber þá að dæma honum bætur fyrir miska og fjártjón, þar á meðal fyrir stöðu- og atvinnumissi, ... en lækka má þó bætur eftir sök hans á því að hann hafi verið ranglega dæmdur.“  Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 82/1998, segir að hegningar samkvæmt lögum þessum séu fangelsi og fésektir.  Fallist verður því á með stefnda að umrætt lagaákvæði um meðferð opinberra mála eigi ekki við í þessu tilviki, enda fellur svipting ökuréttinda ekki undir gildissvið 177. gr. laga nr. 19/1991.  Þá verður ekki talið að ákvæði sem stefnandi vísar til í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu veiti ríkari bótarétt en ákvæði 177. gr. laga nr. 19/1991, sbr. dóma Hæstaréttar nr. 78/2008 og nr. 269/2000.

                Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

                Rétt er að málskostnaður falli niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, Óskars Sigurðssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur án virðisaukaskatts.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Kjartans Björnssonar.

                Málskostnaður fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Óskars Sigurðssonar hrl., 300.000 krónur.