Hæstiréttur íslands
Mál nr. 659/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 1. desember 2010. |
|
|
Nr. 659/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. desember 2010 klukkan 15. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 29. nóvember 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi í 28 daga eða til mánudagsins 27. desember 2010 kl. 15:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að rannsókn málsins hjá lögreglu sé á lokastigi. Beðið sé niðurstöðu geðrannsóknar sem kærði sæti nú. Að henni lokinni muni málið verða sent til ríkissaksóknara.
Hinn 15. nóvember 2010 hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í 14 daga á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna meintrar aðildar hans að alvarlegri líkamsárás á A, á heimili þess síðarnefnda að [...], Reykjavík, þann 14. nóvember síðastliðinn.
Kærði hafi viðurkennt að hafa veitt brotaþola þá áverka er hann hafi hlotið, bæði fyrir lögreglu en einnig fyrir dómi áður en hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Þrátt fyrir að frásögn kærða af atlögunni og ástæðum fyrir henni sé ekki að öllu brotalaus, hafi hann viðurkennt að hafa farið að heimili A á umræddum degi og borið honum mjög þungan hug. Kærði viðurkenni að eftir að hann hafi verið kominn inn í íbúð A og átt nokkur orðaskipti við hann, hafi hann misst stjórn á sér með þeim afleiðingum að hann hafi veist afar harkalega að honum. Í fyrstu segi kærði að hann hafi sparkað í maga eða kvið A og í kjölfarið barið hann í höfuðið með hnúajárni sem hann hafi borið á hendi sér, sparkað svo í hann, meðal annars í höfuðið og loks hoppað ítrekað á höfði hans þar sem hann hafi legið rænulaus. Á einhverjum tímapunkti er atlagan hafi átt sér stað eigi brotaþoli einnig að hafa rekið höfuðið í steinkant á gólfi. Kærði segist hafa í beinu framhaldi yfirgefið húsið án þess að huga frekar að A sem hafi legið í blóði sínu hreyfingarlaus.
Kærði segist hafa neytt kókaíns áður en hann hafi lagt af stað í átt að heimili A en hafi lýst því hins vegar að hann hafi ekki ætlað sér að valda dauða hans, heldur hafi hann á vettvangi algerlega misst stjórn á sér og fengið eins konar „blackout“ af reiði. Hafi hann misst alla hugsun og bilast, séð svart og ekki muna alveg eftir atburðarrásinni, en það sem hann muni væri mjög ógeðslegt.
Hvað nánar varði tilefni árásarinnar, hafi komið fram í vitnisburði B fyrir lögreglu, [...], að X hafi mikið talað um að „berja A“ vegna þess að hann teldi A hefði haldið frá þeim [...]. Sagði B að X hefði í ágúst síðastliðnum ráðist að A og meðal annars sparkað í hann. C, [...] A, hafi einnig sagt við skýrslutöku hjá lögreglu að kærði væri haldinn miklum ranghugmyndum um A meðal annars vegna [...]. Virðist því mega leiða líkur að því að það hafi að einhverju leyti verið kveikjan að árásinni.
Í áverkavottorði, dagsettu 29. nóvember 2010, komi fram að A sé enn meðvitundarlaus og meðan svo er, sé hann áfram í lífshættu.
Að mati lögreglustjórans sé kærði því undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem geti varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi. Verið sé að rannsaka mál þar sem kærði hafi játað að hafa ráðist á brotaþola og veitt honum lífshættulega áverka. Telur lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök. Þyki brot kærða vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus meðan mál hans sé til meðferðar.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um, teljist uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda geti brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og sé þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt gögnum málsins er rannsókn þess á lokastigi. Kærði hefur viðurkennt að hafa ráðist að brotaþola umrætt sinn og veitt honum gríðarmikla áverka.
Gæsluvarðhalds er krafist á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 enda liggur fyrir í málinu vottorð D heila- og taugaskurðlæknis frá 29. nóvember sl., um ástand brotaþola eftir meinta árás kærða 14. nóvember sl. Í vottorðinu segir m.a. að við komu hafi brotaþoli verið með útbreidda áverka á höfði, marbletti í andliti og hársverði, skurði í andliti og á höfði og hafi honum blætt mikið. Hann hafi auk þess verið með því næst afskorna fremstu kjúkuna á hægri þumalfingri, auk annarra áverka á handleggjum og höndum. Höfuðáverkar þeir sem brotaþoli hlaut við meinta árás kærða samrýmast því sem menn fá við svokallaða háorkuáverka þegar högg er mikið. Enn er brotaþoli meðvitundarlaus og hefur aldrei komist til meðvitundar frá því honum voru veittir áverkar þessir. Meðan svo er, er lífi hans ógnað og að mati læknis [...].
Ætlað brot kærða getur varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi ef sök sannast og er fallist á með Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að í ljósi alvarleika málsins sé gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Þykir í ljósi alls framangreinds ekki unnt að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en þess sem krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi í 28 daga eða til mánudagsins 27. desember 2010 kl. 15:00.