Hæstiréttur íslands

Mál nr. 64/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hlutafélag
  • Sönnunarfærsla


Þriðjudaginn 22. mars 2011.

Nr. 64/2011.

Vilhjálmur Bjarnason

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.)

Kærumál. Hlutafélög. Sönnunarfærsla.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni V um heimild til að leita sönnunar um atvik með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, án þess að mál væri höfðað. V, sem var hluthafi í G hf., taldi sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutafé hans varð verðlaust við fall bankans í október 2008 og taldi tjónið mega rekja til ólögmætra ákvarðana fyrrum stjórnenda G hf. Kvað V sér vera nauðsyn að fá tiltekin gögn til að geta tekið ákvörðun um málshöfðun til heimtu skaðabóta á hendur þeim sem ábyrgð bæru á hinum ólögmætu ákvörðunum. Í Hæstarétti var talið að engar skýringar væru fram komnar í málinu á dómsmáli sem hermt væri í forsendum hins kærða úrskurðar að G hf. hefði höfðað gegn fyrrum stjórnendum félagsins. Ósannað væri því um málshöfðun G hf. og þegar af þeirri ástæðu hefði það enga þýðingu við úrlausn málsins. Féllst Hæstiréttur á með V að um einstaklingsbundið tjón hans væri að ræða í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 og að hann ætti lögvarða hagsmuni í málinu. Var engu talið breyta þó aðrir hluthafar kynnu einnig að eiga sambærilegar kröfur á hendur fyrri stjórnendum G hf. Á hinn bóginn var V ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá gögn um sátt G hf. og fyrrum forstjóra hans. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka 1. til 4. lið í kröfugerð V til meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um heimild til að leita sönnunar um atvik með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfur hans teknar til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili fór þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur 15. september 2010 að hann fengi að leita sönnunar um atvik með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið úrslitum um málshöfðun, sbr. 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Þær upplýsingar, sem hann krefst að fá frá varnaraðila, eru í fimm liðum sem nánar er lýst í úrskurði héraðsdóms. Varða þrír þeir fyrstu gögn um eigin hlutabréf varnaraðila, sá fjórði kröfulýsingar varnaraðila í þrotabú Baugs Group hf. og BG Holding ehf. og fylgiskjöl með þeim og sá fimmti samkomulag varnaraðila og Bjarna Ármannssonar fyrrum forstjóra varnaraðila frá nóvember 2009. Sóknaraðili kveðst hafa verið hluthafi í varnaraðila og orðið fyrir tjóni þegar hlutafé hans varð verðlaust við fall bankans í október 2008. Tjónið megi rekja til ólögmætra ákvarðana fyrrum stjórnenda hans og kveður sóknaraðili sér vera nauðsyn á að fá umrædd gögn til að geta tekið ákvörðun um málshöfðun til heimtu skaðabóta á hendur þeim, sem ábyrgð beri á hinum ólögmætu ákvörðunum. Hann kveðst hafa grun um að stjórn varnaraðila hafi ekki virt ákvæði laga og samþykkta fyrir félagið um hámark eigin hlutabréfa og farið langt umfram þá 10% heimild til eignarhalds á eigin bréfum, sem hún hafi haft. Fyrir liggi að bankinn hafi í raun verið eigandi að stóru safni hlutabréfa, sem hann hafi orðið að leysa til sín. Í stað þess að koma bréfunum á markað hafi varnaraðili „fundið vildarvini bankans“ og selt þeim bréfin eða lánað fyrir kaupum. Í raun hafi bankinn verið eigandi bréfanna áfram og það langt umfram heimildir. Með þessu hafi hlutabréfamarkaði verið gefnar villandi upplýsingar um stöðu félagsins og kaup bankans skekkt frjálsa verðmyndun hlutabréfa. Slík blekking á virði hlutabréfa hafi valdið því að hluthafar og þar með talinn sóknaraðili hafi talið virði hlutabréfa annað en það var í raun og veru og sé ekki útilokað að þeir hafi orðið fyrir tjóni með því annað hvort að kaupa bréf á of háu verði eða selja ekki bréf þegar þau áttu í raun að lækka en gerðu ekki vegna athafna bankans. Þannig sé um einstaklingsbundið tjón hjá sér að ræða og geti einstakir hluthafar átt skaðabótakröfu á hendur stjórnarmönnum varnaraðila.

Þá kveðst sóknaraðili hafa ástæðu til að ætla að stjórn varnaraðila hafi ekki virt varúðarreglur bankans í lánveitingum til Baugs Group hf. og BG Holding ehf., en eigendur þessara félaga hafi jafnframt verið fyrirsvarsmenn stærstu hluthafa í bankanum. Stjórnendur hans hafi gætt hagsmuna eigin félaga á kostnað varnaraðila, sem hafi leitt til ófarnaðar hans. Bankinn hafi lánað óheyrilegar fjárhæðir til Baugs Group hf. og fleiri tengdra félaga, en þær lánveitingar hafi aukist mjög eftir hluthafafund 30. apríl 2007. Í raun hafi þessi félög „ryksugað bankann upp af fjármunum“ með áðurnefndum afleiðingum. Sóknaraðili telur sig þannig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá afrit kröfulýsinga varnaraðila í þrotabú þessara félaga og fylgiskjöl með þeim til að varpa ljósi á þær miklu lánveitingar, sem áður var getið. Til stuðnings þessu vísar sóknaraðili jafnframt til dóms Hæstaréttar 20. janúar 2010 í máli nr. 758/2009.

Fimmta liðinn í kröfu sóknaraðila rökstyður hann með því að í kjölfar dóms Hæstaréttar 29. október 2009 í máli nr. 228/2009 hafi fyrrverandi forstjóri varnaraðila samið við þann síðastnefnda um endurgreiðslu hárrar fjárhæðar á grundvelli gagna, sem ekki komu fram við meðferð málsins. Nauðsynlegt sé að fá þau vegna hugsanlegrar beiðni um endurupptöku hæstaréttarmálsins, en þessum gögnum hafi verið haldið leyndum við meðferð þess.

Sóknaraðili telur rétt sinn til skaðabóta eiga stoð í 2. málslið 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Um rétt sinn til þeirra upplýsinga, sem hann krefst, vísar hann til 91. gr. síðastnefndra laga og um rétt sinn til að afla gagna með þeim hætti sem hann gerir vísar hann til 2. mgr. 68. gr., sbr. einnig 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 auk 2. mgr. 77. gr. sömu laga, sem áður var getið. Hann krefst þess að Árni Tómasson, formaður skilanefndar varnaraðila, gefi skýrslu fyrir dómi til að veita umbeðnar upplýsingar.

Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila og telur lagaskilyrði ekki  uppfyllt svo heimilt geti talist að verða við kröfum hans. Í úrskurði héraðsdóms var fallist á að hvorki ákvæði laga nr. 2/1995 né laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. stæðu því í vegi að sóknaraðili leitaði sönnunar um atvik, sem varði varnaraðila og störf fyrrum stjórnenda hans, eftir reglum XII. kafla laga nr. 91/1991. Hins vegar hafi varnaraðili þegar höfðað mál gegn fyrri stjórnendum félagsins á grundvelli 1. málsliðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 til heimtu skaðabóta. Þegar þannig standi á sé málsóknarréttur einstakra hluthafa samkvæmt 2. málslið ákvæðisins bundinn við tjón sem hann hafi orðið fyrir en ekki félagið. Tjón sóknaraðila sé „samrætt og samkynja tjóni félagsins í heild“ og þar með allra hluthafanna, en ekki óskylt og óháð því. Tjón hans sé því ekki einstaklingsbundið í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995. Var sóknaraðili ekki talinn geta höfðað mál gegn fyrri stjórnendum varnaraðila samhliða þeirri málshöfðun, sem varnaraðili hafi sjálfur stofnað til gegn þeim. Þá sé sóknaraðili bundinn af sátt, sem varnaraðili hafi gert í nóvember 2009 við fyrrum forstjóra félagsins. Sóknaraðili var samkvæmt því ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðin gögn og kröfum hans hafnað.

II

Af hálfu varnaraðila eru engar skýringar fram komnar í málinu á því dómsmáli, sem hermt er í forsendum hins kærða úrskurðar að aðilinn hafi höfðað gegn fyrrum stjórnendum félagins. Ekki kemur fram að slíkt mál hafi verið höfðað fyrir íslenskum dómstólum. Ef með þessu er vísað til málshöfðunar fyrir erlendum dómstóli er engar upplýsingar að finna í málinu um hvort það hafi verið höfðað gegn stærstu eigendum varnaraðila, þegar þau atvik urðu sem hér um ræðir, eða gegn stjórnendum félagsins, en beiðni sóknaraðila um gagnaöflun verður ekki skilin á annan veg en þann að hann hafi uppi áform um kröfugerð á hendur fyrrum stjórnendum varnaraðila. Ekkert er heldur fram komið um það hvort mál fyrir erlendum dómstóli sé enn rekið þar eða því sé lokið og hver hafi þá orðið afdrif þess. Eins og málið liggur fyrir er ósannað um málshöfðun varnaraðila og hefur þetta atriði þegar af þeirri ástæðu enga þýðingu við úrlausn málsins.

Sóknaraðili telur sig eiga lögvarða hagsmuni af því að fá þau gögn, sem hann krefst. Hann telur að hann hefði sem hluthafi, sbr. 91. gr. laga nr. 2/1995, átt rétt til upplýsinga um þau atriði sem kröfugerð hans tekur til og verði þeirri lagagrein beitt um þá aðstöðu, sem nú sé fyrir hendi. Þegar litið er til síðastnefnds ákvæðis verður að ætla að varnaraðili hafi umbeðnar upplýsingar í fórum sínum í einu eða öðru formi. Fallist er á að tjón sóknaraðila vegna þess að hlutafé hans í varnaraðila fór forgörðum sé einstaklingsbundið tjón hans sjálfs og að hann eigi lögvarða hagsmuni í málinu og breytir engu hvort aðrir hluthafar kunni einnig að eiga sambærilegar kröfur á hendur fyrri stjórnendum varnaraðila. Að þessu leyti er önnur aðstaða fyrir hendi en í áðurnefndu hæstaréttarmáli nr. 228/2009 þar sem hagsmunirnir, sem krafist var, tilheyrðu varnaraðila en ekki sóknaraðila þessa máls. Af sömu ástæðu hefur sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá gögn samkvæmt fimmta kröfulið sínum um sátt varnaraðila og fyrrum forstjóra hans, sem sóknaraðili telur sig þurfa í því skyni að leita eftir endurupptöku áðurnefnds hæstaréttarmáls. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka 1. til 4. lið í kröfugerð sóknaraðila til meðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er sóknaraðila, Vilhjálmi Bjarnasyni, heimilt að leita sönnunar um þau atriði er 1. til 4. liður í kröfugerð hans taka til. 

Varnaraðili, Glitnir banki hf., greiði sóknaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2010.

Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. september sl., óskar Vilhjálmur Bjarnason þess að Héraðsdómur Reykjavíkur heimili honum að leita sönnunar um atvik með vitnaleiðslu og öflun skjala sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið úrslitum um málshöfðun sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Nánar tilekið krefst sóknaraðili þess að skilanefnd Glitnis banka hf. verði með úrskurði gert að veita sóknaraðila eftirfarandi upplýsingar og staðfest ljósrit eftir­farandi gagna:

1. gagna um fjölda eigin hlutabréfa Glitnis banka hf. þann 31. desember 2006, 30. apríl 2007 og við yfirtöku skilanefndar bankans þann 7. október 2008.

2. gagna um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði að handveði á sömu dagsetningum.

3. gagna um fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafði lánað út með veðkvöð (negative pledge) þar sem hlutabréf voru hin endanlega veðsetta eign í eignar­halds­félagi miðað við sömu dagsetningar og fram koma í 1. tl.

4. kröfulýsingar Glitnis banka hf. í þrotabú Baugs ehf., kt. 480798-2289, og BG Holding ehf., kt. 520603-4330 ásamt fylgiskjölum.

5. samkomulags Glitnis banka hf. og Bjarna Ármannssonar, fyrrum forstjóra bankans, frá því í nóvember 2009 um greiðslu þess síðarnefnda á 650.000.000 króna til bankans.

Sóknaraðili krefst þessara gagna með því fororði þó, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, að afmáðar verði persónulegar upplýsingar um einstaklinga og önnur fyrirtæki óskyld málsaðilum sem fram koma í þessum skjölum. 

Með sama fororði er þess krafist að formanni skilanefndar varnaraðila, Árna Tómassyni, verði gert skylt að greina frá tilurð þess samkomulags sem gert var við Bjarna Ármannsson og eins þeim forsendum sem lágu að baki því.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði beiðni sóknaraðila um upplýsingar og staðfest ljósrit sem nánar eru tilgreind í beiðni hans.

Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.

Málsatvik, málsástæður og lagarök sóknaraðila

Í beiðni sinni vísar sóknaraðili til þess að 7. október 2008 hafi Fjármála­eftir­litið tekið þá ákvörðun að skipa sérstaka skilanefnd yfir Glitni banka hf. sem hafi tekið yfir vald hluthafafundar bankans og skyldi sjá um stjórn hans og allan daglegan rekstur. Sóknaraðili kveðst vera hluthafi í Glitni banka hf.

Hinn 10. febrúar sl. hafi lögmaður sóknaraðila ritað skilanefnd Glitnis banka hf. bréf þar sem óskað hafi verið upplýsinga um:

  1. fjölda eigin hlutabréfa Glitnis banka hf. þann 31. desember 2006, 30. apríl 2007 og við yfirtöku skilanefndar bankans þann 7. október 2008.
  2. fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafi haft að handveði á sömu dögum.
  3. fjölda eigin hlutabréfa sem bankinn hafi lánað út með veðkvöð (negative pledge) þar sem hlutabréf voru hin endanlega veðsetta eign í eignarhaldsfélagi miðað við sömu dagsetningar og fram koma í 1. tl.
  4. samkomulag Glitnis banka hf. og Bjarna Ármannssonar, fyrrum forstjóra bankans frá því í nóvember 2009 um greiðslu þess síðarnefnda á 650.000.000 króna til bankans.

Beiðnin hafi verið rökstudd með því að sóknaraðila grunaði að stjórn Glitnis banka hf. hefði ekki virt ákvæði laga og samþykktir um hámark eigin bréfa og hafi þannig gefið villandi upplýsingar út á markaðinn um stöðu félagsins. Þá hafi slíkar villandi upplýsingar einnig verið gefnar hluthöfum og kaupendum hlutabréfa. Slíkt sé brot á lögum og geti hinn einstaki hluthafi hugsanlega átt skaðabótakröfu á hendur stjórnarmönnum banka er standi þannig að upplýsingum um rekstur fjármálastofnunar.

Þá hafi sóknaraðili óskað eftir upplýsingum um uppgjör skilanefndar bankans við fyrrum forstjóra hans, Bjarna Ármannsson, um greiðslu hans á 650 milljónum króna til bankans, sem innt hafi verið af hendi í nóvember 2009, eftir að dómur Hæstaréttar gekk í máli nr. 228/2009 sem sóknar­aðili höfðaði gegn stjórn Glitnis hf. Sóknar­aðili kveðst hafa ástæðu til að ætla að uppgjörið ætti rót sína að rekja til upplýsinga er ekki hafi legið fyrir í því sama máli og hefðu hugsanlega getað breytt niðurstöðu þess. Þess vegna hafi verið óskað eftir uppgjörinu og eins hafi verið farið fram á að formaður slitastjórnar Glitnis banka hf. upplýsti um tilurð uppgjörsins og ástæðu þess að Bjarni Ármannsson hafi, óskuldbundinn, greitt nefnda fjárhæð til bankans svo skömmu eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 228/2009.

Með bréfi skilanefndar Glitnis banka hf. 3. mars 2010 hafi beiðni sóknaraðila verið hafnað með þeim rökum að framangreindar upplýsingar væru háðar bankaleynd og hafi verið vitnað til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki. Þá tengdist beiðni sóknaraðila að hluta til rannsókn sem færi fram innan bankans. Bankinn gæti þannig ekki, með vísan til rannsóknarhagsmuna, orðið við kröfu hans.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila 23. mars 2010 hafi sú skoðun sóknaraðila verið ítrekuð að hann, sem hluthafi, ætti rétt á upplýsingum er lytu að rekstri bank­ans, sérstaklega vegna þess að komið hefði í ljós að stjórnendur hans hefðu að öllum líkindum misfarið með vald sitt og þannig valdið sóknaraðila, sem og öðrum hluthöfum, verulegu tjóni. Þá hafi þess verið getið að Bjarni Ármannsson hefði ekki greitt 650 milljónir króna til bankans sem viðskiptavinur hans heldur vegna sérstaks samkomulags sem slitastjórn bankans náði við hann, eftir að í ljós komu upplýsingar sem haldið hefði verið leyndum í Hæstaréttarmáli nr. 228/2009.

Þá hafi í þessu bréfi verið óskað upplýsinga um kröfulýsingar bankans í þrotabú Björgólfs Guðmundssonar. Sóknaraðili hafi nú fengið allar þær upplýsingar frá þrotabúinu og því reyni ekki á rétt hans til þeirra í þessu máli.

Sóknaraðili hafi ítrekað beiðni sína um fjölda eigin hluta í bankanum. Hann hafi vísað til þess að þær upplýsingar ættu að liggja fyrir í bókum bankans. Eins ætti hann, sem hluthafi, rétt, samkvæmt 91. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, á því að fá slíkar upplýs­ingar. Þær væru almenns eðlis og ekki háðar bankaleynd.

Að lokum hafi sóknaraðili krafist þess að skilanefnd bankans afhenti honum þau gögn er fylgdu kröfulýsingu Glitnis banka hf. í þrotabú Baugs ehf. og BG Holdings ehf. Tekið hafi verið fram að sóknaraðili hefði ástæðu til að ætla að stjórn bankans hefði ekki virt varúðarreglur bankans við lánveitingar til nefndra félaga. Þannig væri ástæða til að ætla að þær lánveitingar ættu rót sína að rekja til þeirrar staðreyndar að forsvars­menn stærsta hluthafa bankans hefðu jafnframt verið eigendur Baugs ehf. og BG Holdings ehf. Sóknaraðili hafi vakið athygli á því að bú beggja félaga væru í gjald­þrotameðferð og því ættu ákvæði um bankaleynd ekki lengur við þá lögaðila.

Með bréfi skilanefndar bankans frá 12. maí 2010 hafi beiðni sóknaraðila verið hafnað með þeim rökum að ekki hafi verið sýnt fram á að sóknaraðili hafi orðið fyrir einstaklingsbundnu tjóni í skilningi 2. málsliðar 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Því liggi ekki fyrir að hann geti byggt skaðabótakröfu sína á nefndu ákvæði. Því sé vandséð að hann eigi nokkra þá hagsmuni sem leitt gætu til þess að hann ætti rétt til aðgangs að áðurnefndum gögnum.

Sóknaraðili kveður lögmann sinn hafa ritað skilanefnd bankans bréf hinn 20. maí 2010 og minnt á að sóknaraðili hefði verið eigandi að 827.582 hlutum í bankanum þegar Fjármálaeftirlitið hafi yfirtekið vald hluthafafundar í bankanum. Ljóst væri að allt hlutafé bankans væri tapað. Þá hafi verið minnt á það að slitastjórn bankans hefði sjálf stefnt helstu eigendum og stjórnendum bankans fyrir dómstól í New York þar sem byggt væri á því að þeir hefðu gerst sekir um ólögmætt athæfi og þannig valdið bankanum og hluthöfum hans tjóni. Sóknaraðili hafi byggt á því að hluthafar í sömu stöðu eigi að geta fengið aðgang að sömu upplýsingum og fulltrúar kröfuhafa byggi nú mál sitt á. Því hafi verið skorað á skilanefnd að endurskoða afstöðu sína. Þeirri beiðni hafi verið hafnað með sérstöku bréfi hinn 28. maí 2010.

                Sóknaraðili telur fullreynt að umbeðin gögn fáist án atbeina dómstóla og telur sig knúinn til að fá úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um kröfu sína.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá í hendur umbeðin gögn og upplýsingar þar sem þau geti ráðið úrslitum um það hvort hann höfði mál á hendur fyrrum stjórnarmönnum og/eða bankastjórum Glitnis banka hf. svo og helstu eigendum hans, vegna þess tjóns sem þeir hafi valdið honum sem hluthafa þegar hlutafé hans vegna ólögmætra stjórnarhátta hafi orðið að engu. Vísar hann um það til 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög svo og til 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 79. gr. sömu laga. Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili einnig til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 408/2009 og 758/2009.

Málavextir, málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili tekur fram að Fjármálaeftirlitið hafi 7. október 2008 skipað honum skila­nefnd á grundvelli laga nr. 125/2008. Samkvæmt þeim lögum hafi skilanefndin farið með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélaga­laga. Enn fremur hafi varnaraðili fengið heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og 14. maí 2009 hafi héraðsdómur skipað slitastjórn yfir varnaraðila. Málefni hans séu því í höndum bæði skilanefndar og slitastjórnar. Í öllum grundvallaratriðum gildi lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um varnaraðila.

Varnaraðili tekur fram að kröfulýsingarfresti í bú hans hafi lokið 26. nóvember 2009 og hafi sóknaraðili ekki lýst kröfu í búið. Á fyrsta skiptafundi bankans 17. desember 2009 hafi því verið lýst af hálfu varnaraðila að ekki væri tekin afstaða til eftirstæðra krafna þar sem telja mætti fullvíst að ekki gæti komið til greiðslu þeirra að neinu leyti við skiptin.

Eins og sóknaraðili greini frá hafi hann beðið varnaraðila um gögn 10. febrúar sl. og ítrekað beiðnina í tvígang en varnaraðili hafi hafnað henni í öllum tilvikum.

Varnaraðili vísar til þeirrar málsástæðu sóknaraðila að hann sé hluthafi í Glitni banka hf., og telji sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hann tapaði hlutafé sínu í bankanum. Það tap megi hugsanlega rekja til þess að stjórnendur bankans hafi ekki gætt þeirra reglna sem þeim bar og borið hagsmuni hluthafa bankans fyrir borð. Með því hafi þeir hugsanlega brotið gegn ákvæðum í samþykktum bankans sem og ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Sóknaraðili telji sig hafa lögvarða hagsmuni af að fá í hendur umbeðin gögn og upplýsingar þar sem þau geti ráðið úrslitum um það hvort hann höfði mál á hendur fyrrum stjórnarmönnum og eða bankastjórum varnaraðila.

Varnaraðili telur sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir einstaklingsbundnu tjóni í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög sem sé svohljóðandi:

Stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar og endurskoðendur og skoð­unar­menn hlutafélags, svo og matsmenn og rannsóknarmenn, eru skyldir að bæta hluta­félagi það tjón, er þeir hafa valdið félaginu í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Sama gildir þegar hluthafi eða aðrir verða fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laga þessara eða samþykktum félags.

Varnaraðili vísar til þess að fyrir dönskum dómstólum hafi reynt á túlkun samsvarandi ákvæðis um skaðabótaábyrgð stjórnenda gagnvart einstökum hluthöfum. Þar sé ákvæðið skýrt svo að hluthafinn hafi heimild til að krefjast skaðabóta vegna tjóns sem hann, og ekki félagið, hafi orðið fyrir vegna brots stjórnarmanns á lögum um hlutafélög eða brots á samþykktum félagsins, hvort sem stjórnarmaður hafi valdið hluthafanum tjóni af ásetningi eða gáleysi. Enn fremur sé talið að tiltekinn hluthafi geti ekki, í eigin nafni, höfðað skaðabótamál á hendur stjórnanda félagsins á grund­velli ákvæðisins hafi félagið tekið ákvörðun um að setja fram skaðabótakröfu vegna félagsins og í nafni þess. Sátt, sem félagið geri við stjórnanda um að hann greiði félaginu bætur vegna tjóns sem hann hafi valdið því, bindi einnig hluthafa félagsins.

Einstakur hluthafi geti gert skaðabótakröfu á hendur stjórnanda vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir, en ekki félagið, vegna brota stjórnarmanna eða annarra stjórnenda á lögum um hlutafélög eða samþykktum félagsins.

Varnaraðili vísar til þess að tilgangur slitameðferðar fjármálafyrirtækis sé hliðstæður tilgangi hefðbundinna gjaldþrotaskipta; við hlutverki stjórnar og hluthafa­fundar hafi tekið skilanefnd og slitastjórn félagsins. Í þeim tilfellum þegar skilanefnd og/eða slitastjórn taki ákvörðun um að höfða skaðabótamál á hendur fyrrum stjórnanda félagsins, sbr. 1. mgr. 124. gr., sbr. 130. gr., laga nr. 21/1991, renni þeir fjármunir, sem stjórnandinn verði dæmdur til að greiða, í bú félagsins og komi þannig kröfuhöfum til góða.

Í 130. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sé ákvæði sambærilegt við 2. mgr. 135. gr. laga um hlutafélög. Þar komi fram að ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kunni að njóta eða geti notið hvort sem það sé gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki geti lánardrottinn, sem lýst hafi kröfu á hendur búinu, sem ekki hafi þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni, búinu til hags­bóta, hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Varnaraðili tekur fram að sóknaraðili sé ekki meðal kröfulýsenda í bú varnaraðila. Miðað við það endur­heimtuhlutfall til kröfuhafa, sem varnaraðili hafi birt, eigi hluthafinn ekki neina hags­muni sem hann hefði getað virkjað með stoð í 130. gr. gjaldþrotalaganna hefði hann lýst kröfu.

Sóknaraðili hafi einnig vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 758/2009 til stuðnings því að hann eigi rétt á upplýsingum frá varnaraðila, og hafi vísað til laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í einstökum greinum laganna sé getið um rétt hluthafa til aðgangs að gögnum, svo sem í 2. mgr. 33. gr., 4. mgr. 88. gr. og 91. gr. Ákvæðin varði aðallega gögn sem skuli vera hluthöfum aðgengileg í eina viku fyrir boðaðan hluthafafund.

Varnaraðili bendir á að í 91. gr. laga nr. 2/1995 sé fjallað um heimild hluthafa til upplýsinga um málefni félagsins. Sambærilegt ákvæði sé í 76. gr. dönsku hluta­félaga­laganna. Danskur réttur hafi túlkað ákvæðið með þeim hætti að sé spurning hluthafa ekki sett fram vegna mats á ársreikningi félagsins og/eða stöðu þess að öðru leyti verði að álykta að stjórn sé ekki skylt að svara spurningum hluthafans. 

Í þessu máli biðji hluthafi um upplýsingar um það hvort stjórnendur hafi farið að lögum og samþykktum við lánveitingar til einstakra viðskiptamanna. Með þessu vilji hluthafinn afla sér gagna fyrir mögulega málsókn á hendur stjórnendum félagsins. Ekkert ákvæði mæli fyrir um svo víðtækan aðgang hluthafa að bókum félagsins.

Varnaraðili vísar einnig til þess að samkvæmt 2. mgr. 80. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 geti sá sem sýni skiptastjóra fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta krafist þess að fá aðgang að skjölum þrotabúsins til skoðunar og eftirrit af þeim á eigin kostnað á meðan skiptastjóri hafi þau í vörslum sínum. Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 22/2009 um breytingu á þeim lögum, gildi reglur um skiptastjóra um skilanefnd/slitastjórn. 

Í ljósi þess að varnaraðili hafi verið og sé fjármálafyrirtæki verði að skoða sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 sem og með vísan til niðurstöðu framangreinds dóms Hæstaréttar annars vegar hvort sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni og hins vegar hvort bankaleynd hvíli á umbeðnum gögnum eða upplýsingum.

Héraðsdómari í því máli hafi talið erfitt að sjá, þar sem beiðni þess máls beindist að gögnum um viðskiptavin sem var gjaldþrota, hvaða hagsmuni hann hefði af því að gögnum yrði haldið leyndum. Í dómi Hæstaréttar sé ekki vikið að þeirri málsástæðu að hluthafinn hafi ekki neina efnislega hagsmuni af að fá gögnin eða að upplýsingaréttur sé ekki fyrir hendi. Því verði að telja að dómur Hæstaréttar í máli nr. 758/2009 hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli.

Varnaraðili tekur fram að þau gögn sem sóknaraðili óski eftir lúti meðal annars að lánveitingum tiltekinna viðskiptavina, einstaklinga og félaga. Meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvernig afhending gagna horfi við gagnvart 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki. Af framangreindum dómi verði ekki dregin frekari ályktun um bankaleyndina en sú að sé félag undir gjaldþrotaskiptum þá séu ákvæði um banka­leynd ekki virk.

Varnaraðili tekur fram að þagnarskyldan sé lögbundin og í 18. tölulið 1. mgr. 110. gr. og 112. gr. b. laga nr. 161/2002 komi fram að það geti varðað þann sem brjóti gegn ákvæðum 58. gr. sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Umbeðin gögn og upplýsingar, sem og það að formaður skilanefndar komi fyrir dóm til að greina frá tilurð og forsendum samkomulags við Bjarna Ármannsson, eru að mati varnaraðila augljóslega háð bankaleynd.

Í hnotskurn byggir varnaraðili kröfu sína á því að ekki verði séð að sóknaraðili hafi sýnt fram á það að hann hafi orðið fyrir einstaklingsbundnu tjóni í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995. Því liggi ekkert fyrir um að hann geti byggt skaða­bóta­kröfu sína á nefndu ákvæði. Ekki verði séð að sóknaraðili eigi nokkra þá hagsmuni sem leitt gætu til þess að hann eigi rétt til aðgangs að þeim gögnum sem hann krefst. Auk þess fylgi bankaleynd umbeðnum gögnum. Leiki minnsti vafi á um hvort um viðskiptamann sé að ræða eða ekki í skilningi 58. gr. laga nr. 161/2002 telur varnaraðili að túlka beri ákvæðið þröngt.

Með vísan til þess sem að ofan greinir telur varnaraðili, Glitnir banki hf., að hafna beri beiðni sóknaraðila um umbeðnar upplýsingar og staðfest ljósrit.

Niðurstaða

Með stoð í XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála óskar sóknar­aðili þess að honum verði með úrskurði heimilað að leita sönnunar um atvik með vitna­leiðslu og öflun skjala sem varði lögvarða hagsmuni hans og kunni að ráða úrslitum um málshöfðun. Þær upplýsingar sem sóknaraðili krefst eru af þrennum toga og varða fjölda eigin bréfa varnaraðila á nánar tilgreindum dögum, kröfulýsingar varn­araðila í þrotabú tveggja félaga og samkomulag varnaraðila við fyrrum forstjóra bankans en af þessu tilefni er bæði krafist gagna og þess að heimiluð verði vitnaskýrsla af formanni skilanefndar varnaraðila. Gögnin séu honum nauðsynleg til þess að hann geti metið hvort hann höfði mál gegn fyrrum stjórnendum félagsins á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Varnaraðili telur það skilyrði fyrir málssóknarheimild sóknaraðila á grundvelli ofangreinds ákvæðis, samhliða málssókn varnaraðila gegn fyrrum stjórnendum bankans, að sóknaraðili hafi orðið fyrir einstaklingsbundnu tjóni sem sé aðskilið tjóni bankans. Þar sem svo sé ekki hafi hann ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá gögnin afhent. Þar að auki séu allar upplýsingar sem sóknaraðili krefjist háðar bankaleynd.

Ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., um aðgang að gögnum, standa ekki í vegi fyrir því að sóknaraðili leiti sönnunar um atvik, sem varða varnaraðila og störf fyrrum stjórnenda hans, eftir reglum XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í bankanum hafi með öllu glatað verðgildi sínu. Telur hann tjónið stafa af því að stjórnendur bankans hafi brotið gegn þeirri reglu 55. gr. laga nr. 2/1995 að hlutafélag megi ekki eiga nema 10% af eigin hlutafé. Með því að virða ekki ákvæði laga og samþykktir um hámark eigin bréfa hafi stjórn bankans gefið villandi upplýsingar út á mark­aðinn um stöðu félagsins. Þá hafi slíkar villandi upplýsingar einnig verið gefnar hlut­höfum og kaup­endum hlutabréfa. Til stuðnings þessum grun sínum vísar sóknaraðili til skýrslu rann­sóknar­nefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði. Þar komi fram að umsvif Glitnis banka hf. í viðskiptum með hlutabréf hafi verið umtalsverð og hafi þetta orðið til þess að skekkja þá mynd sem þáverandi hluthafar bankans hafi haft af verðmæti hlutabréfa sinna og einnig hafi orðið tap á viðskiptum bankans með eigin hlutabréf.

Sóknaraðili telur tjón sitt einnig stafa af því að stjórn bankans hafi ekki virt varúðarreglur bankans við lánveitingar bankans til Baugs ehf. og BG Holdings ehf. Til stuðnings þessari ályktun sóknaraðila vísar hann einnig til skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis þar sem fram komi að umtalsverðir fjármunir hafi verið lánaðir til þessara einkahlutafélaga í kjölfar breytinga á stjórn varnaraðila 30. apríl 2007.

Með heimild í 2. málslið 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, getur einstakur hluthafi krafist skaðabóta úr hendi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, eða endurskoðenda og skoðunar­manna hlutafélags vegna tjóns sem hluthafinn hefur orðið fyrir vegna brota ofangreindra manna gegn lögum um hlutafélög eða samþykktum félagsins í störfum sínum fyrir félagið.

Hefur verið litið svo á að hafi félag, eða þrotabú þess, á grundvelli 1. málsliðar ákvæðisins, þegar höfðað mál gegn stjórnendum félagsins vegna tjóns sem félagið, og þar með hluthafar þess, hafi orðið fyrir, sé málssóknarréttur einstaks hluthafa á grund­velli 2. málsliðar ákvæðisins bundinn við tjón sem hann hafi orðið fyrir, en ekki félagið. Sóknaraðili mótmælir ekki þeirri túlkun en byggir á því að þar sem félagið geti ekki höfðað mál í því skyni að sækja bætur vegna verðfalls þeirra hlutabréfa sem sóknar­aðili á verði að líta svo á að tjón hans sé aðskilið tjóni félagsins og hann geti því höfðað mál gegn stjórnendum bankans þrátt fyrir málshöfðun skilanefndar­innar gegn þeim.

Sóknaraðili rekur tjón sitt ekki til þess að hann hafi hreint og beint gert einhverjar ráðstafanir á grundvelli þeirra villandi og röngu upplýsinga sem stjórnendur bankans hafi veitt út á markaðinn svo sem að hann hafi selt hlutabréf á undirverði eða keypt hlutabréf á yfirverði vegna upplýsinganna. Hann rekur tjón sitt til þess að öll hlutabréf í bankanum, þar á meðal hlutabréf hans, hafi misst verðgildi sitt. Tjón hans er því samrætt og samkynja tjóni félagsins í heild og þar með allra hluthafanna en ekki óskylt og óháð því. Því er ekki hægt að líta svo á að tjón sóknaraðila sé einstaklings­bundið í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 134. gr. hluta­félagalaga nr. 2/1995. Sóknaraðili verður því ekki talinn geta höfðað mál gegn stjórnendum bankans samhliða þeirri málshöfðun sem félagið hefur nú stofnað til gegn þeim. Með sömu rökum er sóknaraðili einnig bundinn af sátt, sem félagið gerir við fyrrum stjórnanda sinn, þess efnis að hann greiði félaginu bætur vegna tjóns sem hann hafi valdið því. Sóknaraðili er því ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðin gögn afhent og verður því að hafna kröfum hans.

Eins og atvikum þessa máls er háttað og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Tafir á uppkvaðningu úrskurðar skýrast af mjög miklum önnum dómara.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, Vilhjálms Bjarnasonar, á hendur varnaraðila, Glitni banka hf., er hafnað.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.