Hæstiréttur íslands

Mál nr. 200/2005


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Vinnusamningur
  • Opinberir starfsmenn


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. nóvember 2005.

Nr. 200/2005.

Grindavíkurkaupstaður

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Einari Jóni Ólafssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Kjarasamningur. Vinnusamningur. Opinberir starfsmenn.

E hafði frá því í ágúst 1996 starfað sem smíðakennari við grunnskólann í Grindavík, en þá gerðu aðilar skriflegan ráðningarsamning. Á tímabilinu 1. september 1996 til 1. júní 2001, og meðan skólinn starfaði, var vinna E við umsjón tækja, sem notuð voru við smíðakennslu, launuð sérstaklega. Aðila greindi á um tilurð þessara starfskjara E og hvort hann hafi átt að njóta þeirra eftir 1. júní 2001, en þá hætti G greiðslu þessara viðbótarlauna. Við úrlausn málsins var lagt til grundvallar að í tengslum við gerð ráðningarsamnings í ágúst 1996 hafi tekist ótímabundinn samningur með aðilum um greiðslu hinnar umdeildu þóknunar. G hafi borið að segja þeim samningi upp með lögformlegum hætti kysi hann að vera laus undan þeim skuldbindingum sem í honum fólust, og var ekkert þeirra atriða sem varnir G lutu að virt á þann veg að réttur E samkvæmt samningnum væri niður fallinn. Þá var ekki á það fallist að E hefði fyrirgert lögvarinni launakröfu sinni með tómlæti. Var krafa E því að fullu tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. maí 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

          Áfrýjandi, Grindavíkurkaupstaður, greiði stefnda, Einari Jóni Ólafssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. f.m., er höfðað 2. júní 2004 af Einari Jóni Ólafssyni, Vesturbraut 3, Grindavík, á hendur Grindavíkurbæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 841.647 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 29.759 krónum frá 1. september 2001 til 1. október sama árs, af 59.518 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 89.277 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 119.036 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 149.688 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 180.340 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs, af 210.992 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 241.644 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 272.296 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 302.948 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 333.600 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 364.252 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 394.904 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 426.476 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 458.048 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs, af 489.620 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 521.192 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 552.764 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 584.336 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 615.908 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 647.480 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 679.052 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004, af 711.571 krónu frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 744.090 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs, af 776.609 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 809.128 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, en af 841.647 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Málavextir eru þeir helstir að á fundi bæjarráðs Grindavíkur 28. október 1976 var gerð svohljóðandi samþykkt: „Handavinnukennari við barna- og unglingaskólann annast um útvegun og flutning á öllu efni til handavinnu sem skólinn þarf og flytur á sínum eigin bíl það sem hann getur. Skólastjórinn leggur til að bæjarsjóður greiði þessum handavinnukennara kr. 10.000 á mánuði þann tíma, sem skólinn starfar fyrir að annast þetta. Samþykkt samhljóða.“ Á þessum tíma var rekstur grunnskóla í höndum ríkisins, en í framangreindri samþykkt fólst að sú greiðsla sem þar er tilgreind kæmi frá stefnda. Sveitarfélög tóku við rekstri grunnskólanna 1. ágúst 1996, sbr. lög nr. 66/1995 um grunnskóla. Stefnandi hefur frá árinu 1996 starfað hjá stefnda sem smíðakennari við Grunnskóla Grindavíkur. Er hann lærður kennari og félagsmaður í Félagi grunnskólakennara sem aftur á aðild að Kennarasambandi Íslands. Var gerður við hann ótímabundinn ráðningarsamningur 21. ágúst 1996 með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Allt frá 1. september 1996 til 1. júní 2001 og meðan skóli starfaði voru stefnanda greidd laun fyrir þrjár yfirvinnustundir á viku vegna tækjagæslu. Komu laun hans að þessu leyti til viðbótar þeim launum sem honum bar réttur til samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi. Heldur stefnandi því fram að þessar greiðslur til hans hafi átt rót sína að rekja til framangreindrar samþykktar bæjarráðs stefnda. Því hafnar stefndi. Hinn 1. september 2001 hætti stefndi að standa stefnanda skil á þessum greiðslum og telur sér það ekki skylt. Því unir stefnandi ekki. Er á því byggt af hans hálfu að samið hafi verið við hann um einstaklingsbundna yfirborgun í formi 12 yfirvinnustunda á mánuði á starfstíma Grunnskóla Grindavíkur. Þeim samningi hafi ekki verið sagt upp og því beri stefnda að greiða honum laun vegna tækjagæslu fyrir tímabilið 1. september 2001 til 1. júní 2004 að undanskildum þeim mánuðum á árunum 2002 og 2003 sem skólastarf lá niðri, það er júní, júlí og ágúst.

II.

Í stefnu er því haldið fram að sú yfirborgun sem hér hefur verið lýst hafi auk tækjagæslu tekið til vinnu stefnanda við innkaup og lagfæringu á smíðaáhöldum. Svo sem fram er komið byggir stefnandi á því að yfirborgunin verði rakin til fyrrgreindrar samþykktar bæjarráðs stefnda 28. október 1976. Á grundvelli hennar og allt frá því að hún tók gildi hafi þannig tíðkast að smíðakennara við barna- og unglingaskóla Grindavíkur væru greidd laun í formi yfirvinnu, þrjár klukkustundir á viku, fyrir að annast útvegun og flutning á efni til kennslunnar. Greiðsla fyrir þetta hafi komið frá sveitarfélaginu, enda þótt rekstur grunnskólans og þar með greiðsla á launum til kennara væri í höndum ríkisins. Í mörgum nágrannasveitarfélögum hafi þetta verið með sama hætti. Þegar sveitarfélögin yfirtóku rekstur grunnskólans hafi þau, þar á meðal stefndi, haldið áfram að standa kennurum skil á þessum launum og þá til viðbótar umsömdum dagvinnulaunum þeirra. Hinn 9. janúar 2001 hafi verið undirritaður kjarasamningur milli Kennarasambands Íslands annars vegar og launanefndar sveitarfélaga hins vegar. Samningurinn hafi komið til framkvæmda 1. ágúst 2001. Þann dag og með vísan til ákvæðis í kjarasamningnum hafi stefndi ásamt fleiri sveitarfélögum fellt umræddar greiðslur niður. Stefnandi hafi hvað sem þessu líður haldið áfram að sinna þeim störfum sem yfirborgunin tók til, enda hafi hann ekki verið beðinn um að láta af þeim eða annar verið fenginn til að sinna þeim. Þannig hafi verkefni hans í starfi ekki tekið breytingum á þessum tíma. Með bréfi til stefnda 11. febrúar 2002 hafi stefnandi óskað eftir leiðréttingu mála sinna. Í svari stefnda 12. maí 2002 hafi komið fram það álit að réttur stefnanda til sérstakrar greiðslu fyrir tækjagæslu, innkaup og lagfæringu á smíðaáhöldum hafi fallið niður með framangreindum kjarasamningi. Stefnandi hafi áréttað kröfur sínar með bréfi 12. janúar 2003 og þá vísað máli sínu til stuðnings til dóms Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2002 í máli nr. E-964/2002. Hæstiréttur hafi síðan með dómi sínum 6. nóvember 2003 staðfest þá niðurstöðu héraðsdóms að „[sé] í ráðningarsamningi milli starfsmanns og atvinnurekanda eða í síðara samkomulagi þeirra á milli samið um betri kjör er komið út fyrir svið kjarasamnings“. Þannig hafi Hæstiréttur fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að aðilar kjarasamnings hafi ekki getað samið svo um að þeim ráðningarkjörum sem til umfjöllunar voru í málinu væri sagt upp heldur hafi þurft að segja þeim upp gagnvart hverjum og einum starfsmanni. Þannig hafi verið um einstaklingsbundna yfirborgun að ræða. Í því máli sem hér er til úrlausnar sé um hliðstætt sakarefni að ræða. Stefndi hafi þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnanda hafnað því að ganga til uppgjörs við hann og tilvísun stefnanda til þess að fyrir hendi væri dómafordæmi sem skyti stoðum undir greiðsluskyldu stefnda hefði engu breytt um afstöðu hans. Því sé málssókn þessi nauðsynleg.

Kröfugerð sína í málinu byggir stefnandi á því að samið hafi verið við hann um einstaklingsbundna yfirborgun í formi 12 yfirvinnustunda á mánuði á starfstíma Grunnskóla Grindavíkur. Hafi hann þegið þessar greiðslur allt frá því að hann hóf störf við skólann haustið 1996. Greiðsla fyrir þá vinnu sem um ræðir hafi verið innt af hendi af stefnda á meðan þeir kennarar sem hennar nutu störfuðu hjá ríkinu, það er fyrir flutning á rekstri grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga. Greiðslur þessar hafi komið til viðbótar umsömdum launum samkvæmt kjarasamningi. Hafi þær þannig verið hluti af ráðningarsamningi og ráðningarkjörum viðkomandi kennara og því hafi þurft að segja þeim upp með uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi hafi það verið ætlunin að fella þær niður. Það hafi hins vegar aldrei verið gert. Þá verði slíkar persónubundnar greiðslur sem styðjist við einstaklingsbundinn ráðningarsamning ekki afnumdar með kjarasamningi, enda sé með þeim einungis samið um lágmarkskjör, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Séu það aðeins aðilar slíks persónubundins samnings sem geti samið um breytingar á honum eða niðurfellingu hans. Stéttarfélag stefnanda hafi hvað sem öðru líður ekki haft umboð til þess. Vísar stefnandi um þetta til dóms Hæstaréttar frá 6. nóvember 2003 í málinu nr. 210/2003.

III.

Í greinargerð er fyrst til þess vísað að því er málsatvik varðar að í samræmi við ákvæði laga nr. 66/1995 um grunnskóla hafi sveitarfélög yfirtekið starfsemi grunnskólans frá 1. ágúst 1996 að telja. Stefnandi hafi ráðist til starfa sem kennari hjá stefnda um svipað leyti og hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Í samningnum séu laun og önnur starfskjör stefnanda tilgreind og í því sambandi vísað til ákvæða gildandi kjarasamnings.

Allt frá því að sveitarfélög tóku yfir starfsemi grunnskólans hafi launakjör stefnanda ákvarðast af ákvæðum kjara- og ráðningarsamnings. Frá sama tíma hafi stefndi og einstakir kennarar undiritað í upphafi hvers skólaárs sérstaka yfirlýsingu um kaup á vinnuframlagi kennarans á hverju skólaári fyrir sig. Umrædd yfirlýsing beri yfirskriftina „vinnuskýrsla kennara“. Í henni sé gerð grein fyrir stundaskrá kennara yfir skólaárið og kennslustundafjölda á viku. Þá séu þar tilgreind önnur störf sem kennari á að hafa með höndum og vikulegur vinnustundafjöldi vegna þeirra. Stefnandi hafi með sama hætti og aðrir kennarar hjá stefnda undirritað yfirlýsingu af þessu tagi í upphafi skólaárs og hafi verið greitt eftir henni til loka þess. Greiðslur fyrir aukastörf hafi þannig einungis verið inntar af hendi fyrir þá mánuði skólaársins sem kennsla stóð yfir. Af hálfu stefnda er mótmælt staðhæfingum stefnanda þess efnis að greiðslur þessar eigi rót sína að rekja til ákvörðunar bæjarráðs stefnda frá 28. október 1976. Greiðslur samkvæmt þeirri samþykkt hafi fallið niður fyrir margt löngu og hafi stefnandi aldrei þegið laun samkvæmt henni. Stefnandi hafi starfað við grunnskólann á árunum 1982-1987, sem starfsmaður íslenska ríkisins, og síðan hafið þar störf aftur þegar stefndi tók yfir starfsemi skólans 1. ágúst 1996.

Frá því sveitarfélög yfirtóku starfsemi grunnskólans hafi Kennarasamband Íslands og launanefnd sveitarfélaga undirritað tvo kjarasamninga. Fyrri kjarasamningur aðila hafi verið með gildistíma frá 1. ágúst 1997 til 31. desember 2000. Síðari kjarasamningur aðila hafi verið undirritaður þann 9. janúar 2001 með gildistíma frá 1. ágúst 2001 til 31. mars 2004. Hafi seinni kjarasamningurinn að geyma verulegar breytingar frá fyrri samningi. Hafi breytingarnar meðal annars falist í því að sveitarfélög kaupi af kennurum vinnutíma en ekki ákveðin verk. Í reynd svari kjarasamningur því hvenær greiða eigi yfirvinnu miðað við vinnutímaskilgreiningu. Í honum sé hins vegar ekki mælt fyrir um skyldu til að greiða laun í formi yfirvinnu fyrir tiltekin verk eða tiltekna verkþætti. Hafi föst mánaðarlaun kennara hækkað verulega með þessum seinni samningi, sbr. gr. 1.1.1, og hafi viðbótargreiðslur verið fluttar inn í föstu mánaðarlaunin.

Tilgangur með gerð nýs kjarasamnings launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands árið 2001 hafi verið að bæta skólastarf með kerfisbreytingu. Í kerfisbreytingu hafi meðal annars falist uppstokkun á gildandi launakerfi sem hafi haft í för með sér endurskilgreiningu á störfum og starfssviði kennara og gildandi launatöxtum. Þannig hafi allir þættir skólastarfs og öll verkefni, sem kennarar höfðu haft með höndum, verið skilgreind sem hluti starfs og sérgreindar greiðslur vegna þessa felldar niður.

Um vinnuskýrslur kennara sé fjallað í gildandi kjarasamningi, en þar segi svo í bókun 8: „Aðilar eru sammála um að grundvallarbreytingar verða á eðli vinnuskýrslu. Vinnuskýrslan greinir frá skipulagningu vikulegrar vinnuskyldu kennara undir verkstjórn skólastjóra (42,86 – 9,33 klst./viku m.v. fullt starf og 28 klst kennsluskyldu á 37 vikna starfstíma skóla) og rammar þannig af daglega viðveru kennara í skóla. Vinnuskýrslan rammar einnig af töflusetta yfirvinnu. Skólastjóra er heimilt að færa til störf innan þess ramma, sbr. kjarasamning, greinar 2.1.6. og 2.1.6.2. Vinnuskýrsla er tilkynning skólastjóra um vinnumagn kennara til launaafgreiðslu. Breytingar á rammanum er einungis hægt að gera með samþykki beggja eða uppsögn ráðningar með lögmætum uppsagnarfresti.“

Með síðari kjarasamningnum hafi einnig verið gerð veruleg breyting á hlutverki skólastjóra. Um það sé fjallað í gr. 2.1.6.2 í kjarasamningnum. Ákvæðið hljóði svo: „Vinnuskylda kennara er 1800 stundir á ári.  Skólastjóri ráðstafar vinnu kennara til þeirra faglegu starfa og verkefna sem starfsemi grunnskólans kallar á.  Til vinnuskyldu kennara heyra öll fagleg störf kennara, s.s. kennsla, undirbúningur undir kennslu, mat á námsárangri, námsefnisöflun, umsjón með stofu og tækjum, skólanámskrárvinna, gerð kennsluáætlana, gerð einstaklingsnámskráa, innra mat á skólastarfi, foreldrasamstarf, innbyrðis samstarf kennara og samstarf þeirra við aðra sérfræðinga, þátttaka í vinnuteymum og öðru innra starfi skólans.“ Samkvæmt þessu ákvæði, sbr. og ákvæði bókunar 9 í sama samningi, skuli skólastjóri ráðstafa tilteknum vinnustundum, svonefndum verkstjórnarþætti. Sé viðmiðunarhlutfall þeirra stunda, miðað við kennslu stefnanda í 28 klukkstundir á viku og 37 vikna starfstíma skóla, samtals 9,14 klukkustundir á viku.

Launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands starfræki á grundvelli ákvæðis greinar 11.1 í kjarasamningnum sérstaka samstarfsnefnd, skipaða tveimur fulltrúum frá hvorum aðila, sem ætlað sé að fjalla um ágreining sem upp kann að koma vegna samningsins. Í framkvæmd hafi það verið svo að samstarfsnefndin hafi sameiginlega fjallað um álitaefni og gefið sameiginlegar yfirlýsingar til hlutaðeigandi vegna tilgreindra fyrirspurna. Sérstök verkefnisstjórn vegna kjarasamnings aðila, sem í sitji fulltrúar launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, hafi fjallað um og afgreitt álitaefni sambærileg því sem um er deilt í máli þessu. Hafi samstarfsnefndin staðfest umræddar afgreiðslur verkefnisstjórnar. Um eftirtaldar afgreiðslur sé að ræða:

1. Hvernig skilgreinið þið umsjón með stofu, verkfærum og efni? Svar: Umsjón með stofu telst til faglegra starfa kennara og tími til þeirra starfa kemur úr verkstjórnarþætti skólastjórans (9,14 klst.).

2. Hvað má fela kennurum innan verkstjórnarþáttar og hvað ekki? – dæmi óskast. Svar: Öll fagleg störf. Dæmi: Kennarafundir, umsjón með nemendum, samstarf kennara, umsjón með stofu og tækjum, gerð kennsluáætlana, foreldrasamstarf, skólanámskrárvinna, innra mat á skólastarfi, samstarf við sérfræðinga utan skóla o.fl. (2.1.6.2.).

3. Innkaup: 2.1.6.2. Er rétt skilið hjá mér að undir þessa grein falli öll fagleg störf þ.m.t. innkaup og tækjagæsla verkgreinakennara og þar með sé eðlilegt að allar sérgreiðslur vegna þessa falli niður (hvort sem þær eru skv. fyrri hefðum frá ríki eða sveitarfélagi)? Sé þetta svo geri ég ráð fyrir að skólastjóri verði að skilgreina þessa vinnu sem hluta af verkstjórnarþættinum. Ég les þessa grein þannig að skólastjóri geti skilgreint alla þá verkþætti sem þarna eru undir sem hluta af verkstjórnarþætti eða falið kennurum vinnu að þessum þáttum á vinnudögum kennara, annaðhvort utan skólatíma eða á dögunum 5 á starfstíma skóla. Er þetta rétt? Svar: Þetta er rétt skilið. Þessar greiðslur voru allar færðar inn í grunnlaun kennara.

Af framangreindum breytingum á kjarasamningi aðila leiði að stefndi í máli þessu teljist hafa fallið frá greiðslum vegna verkþátta sem áður hafi verið greitt sérstaklega fyrir samkvæmt fyrirmælum í vinnuskýrslu kennara og sem undirrituð hafi verið af skólastjóra og hlutaðeigandi kennara. Hafi þessi ákvörðun stefnda byggst á því að ekki sé tilefni til kaupa á yfirvinnu vegna umræddra verkþátta.

Af hálfu stefnda er sýknukrafa í fyrsta lagi á því byggð að stefndi hafi nú þegar greitt stefnanda að fullu og öllu þau laun sem honum beri fyrir vinnu sína í þágu stefnda á því tímabili sem um ræðir í málinu. Efni ráðningarsamnings aðila sé skýrt og afdráttarlaust. Með gerð hans hafi málsaðilar staðfest efni ráðningarsamnings og ráðningarkjara. Þar hafi verið kveðið á um heildarkjör stefnanda og hafi önnur starfskjör, ef einhver voru, þá fallið niður. Greiðslan, sem stefnandi geri kröfu um í málinu, sé ekki tilgreind og því ekki hluti ráðningarkjara hans. Hafi efni og tilvist ráðningarsamnings almennt séð rofið á öll önnur ráðningarbundin kjör sem starfsmenn kynnu að hafa notið fyrir það tímamark sem sveitarfélög tóku yfir starfsemi grunnskólans, en í tilviki stefnanda hafi verið um nýráðningu að ræða. Sé í því sambandi vakin athygli á því að ráðningarsamningur stefnanda sé ótímabundinn og undirritaður án nokkurs fyrirvara um önnur starfskjör eða aðrar greiðslur.

Af hálfu stefnda er á því byggt að allt frá því sveitarfélög tóku yfir starfsemi grunnskólans 1. ágúst 1996 hafi stefnandi notið launa og annarra starfskjara í samræmi við ákvæði ráðningar- og kjarasamnings. Þá hafi stefnandi notið greiðslna samkvæmt sérstökum samningi við stefnda um kaup á viðvarandi yfirvinnu yfir tiltekið skólaár. Slíkar greiðslur hafi grundvallast á sérstakri yfirlýsingu (samningi), sem nefnd hafi verið „vinnuskýrsla kennara“, sem gilt hafi tiltekið skólaár hverju sinni. Í skýrslunni, sem jafnan var undirrituð af skólastjóra og stefnanda, hafi hverju sinni verið kveðið á um það vinnuframlag sem skólinn hefði í hyggju að kaupa af stefnanda á skólaárinu. Við skoðun á efni og gildi vinnuskýrslna beri að hafa í huga að hvorki hafi hvílt á stefnda skylda til að kaupa slíka yfirvinnu af öllum kennurum né af einstökum kennurum. Um samning þennan um kaup á viðvarandi yfirvinnu yfir tiltekið skólaár af stefnanda hafi stefndi að fullu og öllu leyti átt einhliða ákvörðunarvald. Samningar um greiðslur fyrir slíka yfirvinnu hafi nú runnið skeið sitt á enda, sú síðasta hafi verið innt af hendi í maí 2001. Frá því tímamarki hafi stefndi ekki samið um kaup á slíkri yfirvinnu af stefnanda. Samkvæmt því beri honum ekki skylda til að greiða stefnanda frekari greiðslur vegna þessa.

Af hálfu stefnda byggir krafa um sýknu á því að yfirlýsing um kaup á yfirvinnu, sem um ræðir í málinu, hafi byggst á gagnkvæmum samningi aðila með afmörkuðum gildistíma. Samkvæmt því hafi samningur um kaup á yfirvinnu gilt fyrir hvert skólaár fyrir sig og fallið niður í lok þess án sérstakrar uppsagnar. Sú staðreynd að gerð var ný vinnuskýrslu í upphafi hvers skólaárs styðji skilning stefnda á eðli samnings og þá einkum sú staðreynd að slíkur samningur og greiðslur samkvæmt honum hafi ekki framlengst sjálfkrafa frá einu skólaári til annars. Í samræmi við þetta hafi stefnandi notið greiðslna samkvæmt efni vinnuskýrslu fram til vors 2001, en stefndi hafi ekki gert samning við hann um kaup á yfirvinnu á nýju skólaári sem hófst haustið 2001. Stefndi hafi samkvæmt því að fullu og öllu leyti efnt skyldur sínar gagnvart stefnanda og því ber að sýkna hann af öllum dómkröfum.

Þá heldur stefndi því fram að samkvæmt fyrirliggjandi vinnuskýrslum rúmist vinnuframlag við tækjaumsjón og þess háttar innan ramma vinnutímaskilgreiningar skólastjóra vegna dagvinnu frá hausti 2001 að telja. Samkvæmt því eigi stefnandi ekki rétt til frekari greiðslna. Er í því sambandi áréttað að í málinu liggi fyrir að stefnandi hafi innt umrædda verkþætti af hendi á skilgreindum vinnutíma samkvæmt vinnuskýrslum.

Af hálfu stefnda er sýknukrafa ennfremur á því byggð að stefndi hafi með tómlæti sínu og háttarlagi að öðru leyti í reynd fallist á framangreint fyrirkomulag og breytingar á greiðslum í kjölfar gildistöku nýs kjarasamnings. Stefndi hafi að sönnu ritað bréf til stefnda þar sem hann hafi haft uppi fyrirspurnir vegna þessa og jafnframt hafi hann gert sérstakan fyrirvara við undirritun „vinnuskýrslu kennara“. Stefnandi hafi hins vegar engan reka gert að því að öðlast viðurkenningu krafna í ljósi afstöðu stefnda, en slíkt hafi stefnanda borið að gera með höfðun dómsmáls. Staðhæfingum stefnanda þess efnis að hann hafi beðið niðurstöðu í öðrum dómsmálum er mótmælt sem röngum og máli þessu óviðkomandi. Þá séu málsatvik í þessu máli og því dómsmáli sem stefnandi hefur sérstaklega vísað til í málatilbúnaði sínum ekki sambærileg. Að auki liggi ekki fyrir og hafi aldrei legið fyrir sú afstaða stefnda að bíða úrlausnar annarra ágreiningsmála. Í dæmaskyni um það hversu eðlisólík þessi mál séu megi nefna að engin gagnkvæmur samningur liggi til grundvallar kröfum stefnanda á hendur stefnda, en í umræddu dómsmáli hafi þetta verið með öðrum hætti.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður byggir stefndi sýknukröfu sína á því að grundvallarbreytingar hafi orðið á fyrirkomulagi og framkvæmd starfa stefnanda með gildistöku kjarasamnings á árinu 2001. Þannig hafi ákvæði kjarasamnings mælt fyrir um að tiltekin störf, þar með talin tækjaumsjón og þess háttar störf, skyldu talin til reglubundinna starfsskyldna kennara og að um endurgjald eða launagreiðslur vegna þeirra skyldi fara samkvæmt ákvæðum kjarasamnings að öðru leyti. Í því felist að stefnandi hafi átt að njóta endurgjalds vegna þessara starfa sinna í formi fastra mánaðarlauna og eftir atvikum sérstakra greiðslna úr svonefndum verkstjórnarþætti í samræmi við ákvörðun skólastjórnenda á hverjum tíma. Þannig hafi kjarasamningur í reynd fellt undir reglubundin störf og þar með venjubundnar starfsskyldur þau verkefni sem stefnandi hafi haft með höndum við tækjaumsjón og þess háttar og notið viðbótargreiðslna fyrir. Byggir stefndi á því að ákvæði launahluta kjarasamnings hafi á þennan hátt tekið yfir greiðslu vegna umræddra verkþátta og um leið hafi greiðsluskylda stefnda fallið niður. Í því sambandi beri að hafa í huga að ákvæði kjarasamnings hafi haft að geyma verulegar kjarabætur fyrir kennara og það enda þótt tekið hefði verið tillit til viðbótargreiðslna fyrir sérstök verkefni sem stefndi hafi notið áður.

Stefndi byggir sýknukröfur ennfremur á því að líta beri svo á að niðurstaða samstarfsnefndar varðandi túlkun á ákvæðum kjarasamnings teljist í reynd kjarasamningur eða ígildi kjarasamnings. Samstarfsnefnd sé skipuð fulltrúum samningsaðila, það er Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Niðurstaða samstarfsnefndar feli í sér bindandi niðurstöðu um túlkun kjarasamnings og teljist því kjarasamningur eða ígildi hans. Niðurstaða samstarfsnefndar vegna þessa sé í reynd samhljóða og afdráttarlaus og upphefji samkvæmt því og felli undir greiðsluákvæði kjarasamnings allar greiðslur fyrir tilgreint vinnuframlag sem áður hafi verið greitt fyrir sérstaklega. Gildi framangreint eðli máls samkvæmt meðal annars í ljósi annarra ákvæða kjarasamnings varðandi forsendur hans.

Stefndi gerir þá kröfu, verði að einhverju leyti fallist á dómkröfur stefnanda, að hafnað verði kröfu hans um greiðslu dráttarvaxta og að slík krafa komi einungis til álita frá þingfestingu máls. Byggir stefndi á því að stefnanda hafi verið bæði rétt og skylt að halda rétti sínum fram með eðlilegum hætti og leggja mál til úrlausnar dómstóla þegar synjun stefnda kom fram.

Stefndi styður kröfu sína um lækkun á dómkröfu stefnanda á því að stefnandi hafi í reynd notið greiðslna vegna tækjaumsjónar og þess háttar starfa í formi venjubundinna mánaðarlauna og viðbótargreiðslna úr svonefndum verkstjórnarþætti. Verði að telja að þetta sé óvéfengjanlegt í ljósi ákvæða kjarasamnings svo og fyrirliggjandi túlkunar samstarfsnefndar Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Við úrlausn þessa máls beri að líta til þessa enda sé það ekki tilgangur breytinga að tryggja tvígreiðslu fyrir tiltekið vinnuframlag.

IV.

Svo sem fram er komið hefur stefnandi frá því í ágúst 1996 starfað sem smíðakennari við Grunnskólann í Grindavík. Allan þennan tíma hefur starfsræksla skólans verið í höndum stefnda. Gerðu aðilar með sér skriflegan samning 21. ágúst 1996 um ráðningu stefnanda í starf kennara og hefur um starfskjör hans farið eftir þeim samningi og gildandi kjarasamningi.

Á tímabilinu 1. september 1996 til 1. júní 2001 var vinna stefnanda við umsjón tækja, sem notuð eru við smíðakennslu, launuð sérstaklega og með þeim hætti sem áður er lýst. Komu þessi laun hans til viðbótar þeim launum sem honum bar réttur til samkvæmt kjarasamningi og hinum skriflega ráðningarsamningi. Aðila greinir á um tilurð þessara starfskjara stefnanda og hvort hann hafi átt að njóta þeirra eftir 1. júní 2001.

Í málatilbúnaði sínum hefur stefnandi byggt á því svo sem áður er rakið að launagreiðsla til hans fyrir tækjaumsjón eigi rót sína að rekja til samþykktar bæjarráðs stefnda 28. október 1976, en gerð er grein fyrir efni hennar í kafla I hér að framan. Í samþykktinni var kveðið á um það að greiða skyldi ákveðna fjárhæð mánaðarlega fyrir útvegun og flutning á öllu efni til handavinnukennslu þann tíma sem skólastarf stóð yfir. Við munnlegan flutning málsins hélt lögmaður stefnanda því fram að útfærsla á þessari samþykkt hafi tekið breytingum í tímans rás og verið í því horfi sem kröfugerð stefnanda í málinu taki mið af þá er hann hóf störf hjá stefnda í ágúst 1996. Þessu hefur stefndi alfarið mótmælt og sagt að greiðsla til stefnanda fyrir tækjaumsjón hafi helgast af samningi sem aðilar hafi gert við upphaf hvers skólaárs, fyrst 20. september 1996. Þeim samningi þeirra hafi þannig verið markaður ákveðinn gildistími hverju sinni. Síðasti samningur aðila af þessu tagi hafi fallið úr gildi 1. júní 2001 og eigi stefnandi því ekki rétt til sérstakrar greiðslu fyrir tækjaumsjón þaðan í frá.

Það skjal, sem stefndi staðhæfir samkvæmt framansögðu að í hafi falist tímabundinn samningur um kaup stefnda á yfirvinnu af stefnanda vegna umsjónar með tækjum, ber yfirskriftina vinnuskýrsla kennara. Af efni skjalsins, sem stefnandi og skólastjóri hafa jafnan undirritað, og heiti þess verður ekki ráðið að því hafi verið ætlað að vera samningur um starfskjör.

Af gögnum málsins má ráða að höfnun stefnda á kröfum stefnanda hafi í fyrstu alfarið verið reist á því að réttur stefnanda til sérstakrar greiðslu fyrir umsjón með tækjum hafi fallið niður með kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla, sem undirritaður var 9. janúar 2001, og þá meðal annars á grundvelli svohljóðandi yfirlýsingar samningsaðila, sem var á meðal fylgiskjala kjarasamningsins: „Forsendur kjarasamnings þessa eru að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um viðbótarráðningarkjör sem samið hefur verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings standi til 31. júlí 2001 og falli þá úr gildi.“ Samkvæmt gögnum málsins var það fyrst í bréfi bæjarstjóra stefnda til launanefndar sveitarfélaga 3. desember 2003 sem á því var byggt að enginn samningur hafi verið í gildi á milli málsaðila þess efnis að stefnanda bæri réttur til þeirrar greiðslu sem málssókn hans tekur til. Þar er þó jafnframt vísað til þess að með nýjum kjarasamningi „sé skýrt kveðið á um að viðbótarlaunakjör falli niður frá og með 31. júlí 2001“.

Af hálfu stefnda hefur í engu verið leitast við að sýna fram á að yfirborgun til smíðakennara vegna tækjaumsjónar hafi ekki tíðkast fram til þess að stefnandi tók við því starfi í ágúst 1996.

Þegar framangreint er virt þykir rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að með aðilum hafi í tengslum við gerð ráðningarsamnings í ágúst 1996 tekist ótímabundinn samningur um sérstaka þóknun til stefnanda fyrir vinnu við umsjón tækja og útvegun efnis til smíðakennslu hans á meðan á skólastarfi stendur. Í þessum samningi fólst að stefnandi skyldi að þessu leyti njóta kjara sem væru umfram þau lágmarkskjör sem honum bar réttur til samkvæmt kjarasamningi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda með áorðnum breytingum og 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þessum samningi hefur stefndi ekki sérstaklega sagt upp.

Þær málsástæður stefnda fyrir aðal- og varakröfu hans, sem ekki hefur sérstaklega verið tekin afstaða til samkvæmt framansögðu, lúta aðallega að því að laun fyrir vinnu við tækjaumsjón séu innifalin í þeim launum sem stefnandi hafi þegið frá 1. ágúst 2001 og á grundvelli kjarasamningsins sem undirritaður var 9. janúar það ár. Að öðrum kosti sé um að ræða tvígreiðslu fyrir sömu vinnu. Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan og dóms Hæstaréttar frá 6. nóvember 2003 í málinu nr. 210/2003 telst þessi málsvörn stefnda haldlaus. Er þannig talið að stefnda hafi borið að segja umræddum samningi sínum við stefnanda upp með lögformlegum hætti kysi hann að vera laus undan þeim skuldbindingum sem í samningnum felast og að ekkert þeirra atriða sem þessar varnir stefnda lúta að verði virt á þann veg að réttur stefnanda samkvæmt honum sé niður fallinn.

Við undirritun vinnuskýrslu fyrir skólaárið 2001-2002 21. september 2001 og jafnan eftir það gerði stefnandi fyrirvara varðandi rétt hans til launa vegna umsjónar með stofu, vélum og innkaupum. Hann ritaði stefnda síðan bréf 11. febrúar 2002 þar sem hann óskaði eftir leiðréttingu er að þessu laut og að nýju 12. janúar og 24. nóvember 2003. Í kjölfar beggja seinni bréfanna var stefnanda tilkynnt að bæjarráð stefnda hefði samþykkt að leita til launanefndar sveitarfélaga með ósk um að hún léti í ljós álit sitt á kröfum stefnanda, í fyrra skiptið með tilliti til héraðsdóms sem fallið hafði í því máli sem síðar varð að hæstaréttarmáli nr. 210/2003 og í seinna skiptið með tilliti til dóms Hæstaréttar í því sama máli. Ekki verður ráðið af gögnum þessa máls hvenær stefndi synjaði erindi stefnanda endanlega, en málið höfðaði stefnanda 2. júní 2004 og að undangengnu innheimtubréfi lögmanns hans 12. maí sama árs. Að þessu virtu verður ekki á það fallist að stefnandi hafi fyrirgert lögvarinni launakröfu sinni með tómlæti.

Með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og að því athuguðu sem hér að framan greinir varðandi meint aðgerðarleysi stefnanda verður fallist á kröfu hans um dráttarvexti, sbr. ennfremur til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 2. apríl 2004 í málinu nr. 411/2003.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er dómkrafa stefnanda að fullu tekin til greina, enda hefur kröfugerð stefnanda ekki sætt tölulegum athugasemdum. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 841.647 krónur ásamt dráttar-vöxtum svo sem í dómsorði greinir.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Grindavíkurbær, greiði stefnanda, Einari Jóni Ólafssyni, 841.647 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 29.759 krónum frá 1. september 2001 til 1. október sama árs, af 59.518 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 89.277 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 119.036 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 149.688 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 180.340 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs, af 210.992 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 241.644 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 272.296 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 302.948 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 333.600 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 364.252 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 394.904 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 426.476 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 458.048 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs, af 489.620 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 521.192 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 552.764 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 584.336 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 615.908 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 647.480 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 679.052 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004, af 711.571 krónu frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 744.090 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs, af 776.609 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 809.128 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, en af 841.647 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.