Hæstiréttur íslands
Mál nr. 417/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Aðild
- Stefna
- Lagarök
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2001. |
|
Nr. 417/2001. |
Ragnhildur Guðmundsdóttir(Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Aðild. Stefna Lagarök. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
R krafðist þess að felld yrði úr gildi sú ákvörðun landlæknis að hafna beiðni R um að upplýsingar um látinn föður hennar yrðu ekki fluttar í þann gagnagrunn, sem um ræðir í lögum nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði, og heldur ekki upplýsingar um ættfræði eða erfðafræði varðandi hann. Að kröfu Í var málinu vísað frá héraðsdómi og kærði R þann úrskurð. Með hliðsjón af þeirri röksemd R að hún ætti persónulegra hagsmuna að gæta af því að orðið yrði við beiðni hennar, var ekki á það fallist með Í að R skorti lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr fyrrgreindum kröfum sínum að efni til. Af hálfu R höfðu verið sérstaklega færðar fram skýringar á aðild hennar að málinu. Tekið var fram af þessu tilefni, að tækist R ekki gegn andmælum Í að vísa til viðhlítandi stoðar í réttarheimildum fyrir aðild sinni, ylli það sýknu Í, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ekki væru því efni til að vísa málinu frá af þeim sökum, né heldur þeim að lagatilvísanir í stefnu R væru öllu ítarlegri en venja stæði til. Frávísunarúrskurður héraðsdóms var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og kærumálskostnaður látinn falla niður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til þess að sóknaraðili beindi 16. febrúar 2000 til landlæknis beiðni um að upplýsingar, sem lægju fyrir í sjúkraskrám um nafngreindan föður hennar, sem lést 12. ágúst 1991, yrðu ekki fluttar í þann gagnagrunn, sem um ræðir í lögum nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði, og heldur ekki upplýsingar um ættfræði eða erfðafræði varðandi hann. Í beiðni sóknaraðila var vísað til 8. gr. laganna um þetta efni. Landlæknir hafnaði beiðninni með bréfi 21. febrúar 2001. Af því tilefni höfðaði sóknaraðili mál þetta 30. apríl 2001 og krafðist þess að framangreind ákvörðun landlæknis yrði felld úr gildi, svo og að viðurkennd yrði heimild hennar til að leggja bann við því að umræddar upplýsingar um föður hennar yrðu fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Varnaraðili krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Féllst héraðsdómari á þá kröfu með hinum kærða úrskurði.
Meðal þeirra málsástæðna, sem sóknaraðili hélt fram í héraðsdómsstefnu og gerði þar sérstaka grein fyrir, var sú röksemd að hún ætti persónulegra hagsmuna að gæta af því að upplýsingar úr sjúkraskrám um föður hennar yrðu ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði, því unnt yrði að draga af þeim ályktanir um viðkvæmar persónuupplýsingar um hana sjálfa. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á með varnaraðila að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr fyrrgreindum kröfum sínum að efni til.
Í héraðsdómsstefnu voru sérstaklega færðar fram skýringar á aðild sóknaraðila að málinu. Var þar tekið fram að heimild hennar til málshöfðunar væri „m.a. að finna í 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 228. gr., 229. gr., 230. gr., 233. gr. og 240. gr. sömu laga“. Einnig var því lýst þar að sóknaraðili hefði lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum fyrir dómi og léki ekki vafi á að hún væri rétthafi að þeim hagsmunum, sem leitað væri dóms um. Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er þessi tilvísun til 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga skýrð frekar. Því var meðal annars haldið fram í tengslum við það að héraðsdómari hafi enga ástæðu haft til að ætla að sóknaraðili byggði aðild sína að málinu á þeim lögum, þótt vitnað hafi verið til þeirra til stuðnings því að hagsmunir sambærilegir þeim, sem málið varði, njóti verndar að lögum. Hvað sem þessari skýringu líður verður ekki litið fram hjá því að takist sóknaraðila ekki gegn andmælum varnaraðila að vísa til viðhlítandi stoðar í réttarheimildum fyrir aðild sinni að málinu, veldur það sýknu varnaraðila, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eru því ekki efni til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum.
Eins og nánar kemur fram í hinum kærða úrskurði voru í héraðsdómsstefnu teknar upp í nokkuð löngu máli tilvísanir sóknaraðila til réttarheimilda, svo og til alþjóðlegra samninga og samþykkta, sem hún taldi styðja kröfur sínar. Þótt fallast megi á að þessi talning sé öllu ítarlegri en venja stendur til, getur hún ekki valdið því að óljóst verði gagnvart varnaraðila á hvaða grunni sóknaraðili reisir málið, enda hefur hann í þeim efnum við málsástæður hennar að styðjast, sem þessar tilvísanir í stefnu til réttarheimilda hafa ekki áhrif á. Er því ekki ástæða til að vísa málinu frá dómi af þessum sökum.
Að gættu því, sem að framan greinir, verður að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Verður að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins ásamt kærumálskostnaði, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Ragnhildi Guðmundsdóttur, samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 11. þessa mánaðar, hefur Birna Þórðardóttir, Óðinsgötu 11, Reykjavík, höfðað 30. apríl síðastliðinn fyrir hönd ófjárráða dóttur sinnar, Ragnhildar Guðmundsdóttur, gegn landlæknisembættinu, Laugavegi 116, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess, að sú stjórnvaldsákvörðun stefnda að hafna þeirri beiðni stefnanda 16. febrúar 2000, að ekki verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði samkvæmt lögum nr. 139/1998 upplýsingar úr sjúkraskrám um föður stefnanda, Guðmund Ingólfsson, sem lést 12. ágúst 1991, verði felld úr gildi. Þá er krafist dómsviðurkenningar á rétti stefnanda til að leggja bann við að framangreindar upplýsingar um föður hennar verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Að lokum er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar í báðum tilvikum.
Stefnandi gerir þá kröfu, að frávísunarkröfu stefnda verði hafnaði og að stefndi verði úrskurðaður til að greiða stefnanda málskostnað í þeim þætti málsins.
I.
Þann 17. desember 1998 samþykkti Alþingi lög nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði og tóku þau gildi 22. desember sama ár. Í kjölfar gildistöku laganna var hafist handa við framkvæmd á grundvelli fyrirmæla þeirra, svo sem varðandi skipun starfrækslunefndar gagnagrunns á heilbrigðissviði, smíði reglugerðar um nánari framkvæmd laganna og útgáfu rekstrarleyfis. Meðal þeirra atriða, sem þegar var hafist handa við, var framkvæmd á grundvelli fyrirmæla í 8. gr. laganna, um rétt sjúklings til þess að óska eftir, að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í ákvæðinu segir, að beiðni sjúklings geti varðað allar upplýsingar, sem þegar liggja fyrir um hann í sjúkraskrám eða kunni að verða skráðar eða nánar tilteknar upplýsingar og að skylt sé að verða við slíkri beiðni. Í ákvæðinu segir einnig, að sjúklingur skuli tilkynna landlækni um ósk sína og að landlæknir skuli annast gerð eyðublaða fyrir slíkar tilkynningar og sjá til þess að þau liggi frammi á heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Landlæknir á jafnframt að sjá til þess, að dulkóðuð skrá yfir viðkomandi sjúklinga sé ávallt aðgengileg þeim, er annast flutning upplýsinga í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Loks segir í ákvæðinu, að landlæknir skuli sjá til þess, að upplýsingar um gagnagrunn á heilbrigðissviði og um rétt sjúklings samkvæmt 1. mgr. 8. gr. séu aðgengilegar almenningi. Jafnframt skuli heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn hafa þessar upplýsingar aðgengilegar sjúklingum í húsakynnum sínum.
Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum segir meðal annars um 8. gr.:
„Engin ákvæði eru í frumvarpinu um hver taki ákvörðun f.h. barna eða ósjálfráða einstaklinga um flutning upplýsinga í gagnagrunninn. Um þetta gilda því almennar reglur um hver sé bær til að taka ákvörðun fyrir þeirra hönd. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að einstaklingar geti hafnað því að upplýsingar um látna foreldra þeirra séu færðar í gagnagrunninn.“
Stefnandi rekur dómsmál þetta til að freista þess, að felld verði úr gildi sú stjórnvaldsákvörðun stefnda að hafna þeirri beiðni stefnanda, dagsettri 16. febrúar 2000, að ekki verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði upplýsingar úr sjúkraskrám um látinn föður stefnanda. Þá krefst stefnandi dómsviðurkenningar á rétti stefnanda til að leggja bann við, að framangreindar upplýsingar um föður hennar verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Stefnandi tilkynnti stefnda 16. febrúar 2000, að hún óskaði eftir að upplýsingar, sem fyrir lægju í sjúkraskrám um föður hennar, yrðu ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Var tilkynningin á eyðublaði frá stefnda. Beiðninni var hafnað með bréfi stefnda 21. febrúar 2001, þar sem vísað er til ofangreindra athugasemda við frumvarp til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði um, að ekki sé gert ráð fyrir, að einstaklingar geti hafnað, að upplýsingar um látna foreldra þeirra séu færðar í gagnagrunninn.
II.
Stefndi byggir frávísunarkröfu í fyrsta lagi á því, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hann hafi lögvarða hagsmuni af málshöfðun þessari í samræmi við 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Geti stefnandi ekki krafist þess að fá dóm um, að stjórnsýsluákvörðun, sem varðar látinn föður hennar, verði felld úr gildi, enda geti stefnandi ekki, skv. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verið aðili að stjórnsýsluákvörðun, sem varðar föður hennar, þegar um sé að ræða álitamál, sem varði meint persónuleg réttindi, sem erfast ekki og ekki sé fyrir hendi sérstök lagaheimild sem feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu. Óumdeilt sé, að eitt af grundvallarskilyrðum stjórnsýslulaga hér á landi sé, að aðili að stjórnsýslumáli eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af afgreiðslu máls og jafnframt sé oftast gerð sú krafa, að umræddir hagsmunir séu verulegir. Telur stefndi með öllu óraunhæft að byggja á því, að af ópersónugreinan-legum upplýsingum um hópa, unnum úr gagnagrunni á heilbrigðissviði, verði dregnar ályktanir um föður stefnanda eða stefnanda sjálfan og einkalíf annars hvors þeirra eða beggja, þannig að um lögvarða hagsmuni stefnanda sjálfs fyrir dómi geti verið að ræða. Leggur stefndi ríka áherslu á, að forsenda laga nr. 139/1998, reglugerðar nr. 32/2000 og rekstrarleyfis frá 22. janúar 2000 fyrir nýtingu tölulegra og kóðaðra upplýsinga, sem unnar verði úr sjúkraskrám í gagnagrunni á heilbrigðissviði, sé að upplýsingarnar séu ópersónugreinanlegar og að óheimilt sé að veita upplýsingar um einstaklinga úr gagnagrunni á heilbrigðissviði. Telur stefndi, að krafa í dómsmáli verði ekki á því byggð, að unnt verði að draga ályktanir um persónuupplýsingar tengdar stefnanda eða látnum föður hennar í tengslum við vinnslu gagnagrunns á heilbrigðissviði og þegar af þeirri ástæðu beri að vísa málinu frá dómi á grundvelli þess, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins.
Í öðru lagi krefst stefndi frávísunar vegna þess að stefnandi byggi aðild sína í málinu á 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Lagagrein þessi fjalli um heimild til málshöfðunar vegna meintra brota á ákvæðum almennra hegningarlaga. Í máli þessu sé hins vegar ekki höfð uppi refsikrafa. Þá vísi stefnandi í rökstuðningi fyrir aðild m.a. í ákvæði almennra hegningarlaga, sem sæta eiga opinberri ákæru og opinberri málsmeðferð. Þrátt fyrir skýr fyrirmæli 25. gr. almennra hegningarlaga og þrátt fyrir þann grundvallarmun, sem sé á opinberu réttarfari annars vegar og einkamálaréttarfari hins vegar, vísi stefnandi, án efnislegs rökstuðnings í stefnu, samhliða í 228., 229. og 240. gr. almennra hegningarlaga, sem geri ráð fyrir því, að höfðað sé einkarefsimál. Í 230. gr. laganna sé gert ráð fyrir, að brot sæti opinberri ákæru að kröfu þess, sem misgert er við, í 233. gr. þeirra, sem einnig byggi á því, að brot sæti opinberri ákæru og í 136. gr. þeirra, sem byggi á málsmeðferð á grundvelli opinberrar ákæru. Sé málsmeðferð þessi ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, sbr. m.a. 1. mgr. 80. gr. sömu laga, og sæti frávísun að mati stefnda. Sé í ósamræmi við einkamálaréttarfar að vísa til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem sæta eiga opinberri ákæru, varðandi aðild í einkamáli. Gildi þar einu, hvort um sé að ræða ákvæði, sem sæti skilyrðislausri opinberri ákæru eða ákæru að kröfu þess, sem misgert er við. Sá grundvallarmunur, sem gerður sé að þessu leyti á málsmeðferð vegna brota gegn einstökum efnisákvæðum almennra hegningarlaga, eigi sér djúpar rætur í réttarhefð og hegningarlöggjöf Íslendinga. Á sömu forsendu mótmælir stefndi tilvísun stefnanda til sex mismunandi efnisákvæða almennu hegningarlaganna og telur, að þau tilteknu refsiákvæði geti ekki myndað grundvöll lögvarinna hagsmuna stefnanda af því að fá efnisdóm í því máli sem hér um ræðir. Lög nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem snerti ekki almenna refsilöggjöf landsins, hafi verið sett í samræmi við stjórnskipun hér á landi og séu í fullu samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga. Með setningu laganna hafi löggjafinn samþykkt, að brot gegn ákvæðum laganna eða fyrirmælum, sem sett eru á grundvelli þeirra í reglugerð eða rekstrarleyfi, varði refsingu og öðrum viðurlögum skv. sérstökum ákvæðum í VI. kafla laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Óraunhæft sé hins vegar að byggja á því, að lögmæt framkvæmd á grundvelli laganna geti falið í sér brot á ákvæðum almennra hegningarlaga.
Í þriðja lagi er frávísunarkrafa stefnda byggð á því, að framsetning á málsástæðum og lagarökum stefnanda sé óskýr. Skil á milli einstakra málsástæðna séu óskýr, eðlilegar tilvísanir vanti í lagaákvæði eða aðrar réttarreglur til stuðnings einstökum málsástæðum í stefnu og mótsagnir séu í forsendum málsástæðna stefnanda, sem þó séu allar settar fram til stuðnings aðalkröfu hans. Ágalli á málatilbúnaði stefnanda eigi bæði við um reifun á meginatriðum málsástæðna og í umfjöllun um einstakar málsástæður. Í niðurlagi stefnu sé t.d. kafli sem beri heitið „Tilvísun til helstu lagaákvæða og reglugerða“ þar sem stefnandi safni saman tilvísunum í fjölmargar réttarheimildir, lagaákvæði, reglugerðir, alþjóðasamninga og yfirlýsingar alþjóðastofnana. Stefnandi tengi tilvitnanir þessar nánast hvergi lögfræðilegum rökstuðningi í stefnu. Þar komi einungis fram, að umræddar réttarheimildir séu á meðal þeirra, sem stefnandi byggi á, og vísað verði til í munnlegum málflutningi. Stefnda sé ómögulegt fyrir fram að sjá á hverju stefnandi byggi með tilvísunum þessum. Þá telji stefndi að skil á milli einstakra málsástæðna í stefnu, að því er lagagrundvöll varðar, séu afar óglögg. Valdi framangreind atriði því, að erfitt sé fyrir stefnda að skilgreina einstakar málsástæður stefnanda og taka eðlilega afstöðu til þeirra. Sé þessi málatilbúnaður andstæður fyrirmælum e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og valdi frávísun málsins.
Stefnandi heldur því fram, að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum fyrir dómi og ekki leiki vafi á, að hún sé rétthafi að þeim hagsmunum, sem leitað er dómsúrlausnar um. Því til stuðnings vitnaði lögmaður stefnanda í munnlegum málflutningi t.d. í eftirtalda dóma Hæstaréttar Íslands: 1944, bls. 295, 1945, bls. 315, 1946, bls. 549, 1951, bls. 129, 1968, bls. 124, 1971, bls. 588, 1994, bls. 2417 og dóms réttarins frá 25. febrúar 1999 í máli nr. 252/1998. Þá hafi stefnandi þegar orðið aðili að stjórnsýslumáli samkvæmt 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og afstaða verið tekin til kröfu hennar á því stigi af hálfu stefnda. Þá lagði lögmaðurinn áherslu á mótmæli sín við því, að hér sé um ópersóngreinanlegar upplýsingar að ræða.
Stefnandi heldur því og fram, að heimilt sé að byggja sóknaraðild á 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 228. gr., 229. gr., 230. gr., 233. gr. og 240. gr. sömu laga; 238. 230. gr. fjalli um vernd gegn brotum á friðhelgi einkalífs; 233. gr. fjalli um hótanir um að fremja refsiverðan verknað, sem eru til þess fallnar m.a. að vekja mönnum ótta um velferð sína og 240. gr. um að æra látinna manna njóti refsiverndar. Einnig sé fjallað sérstaklega um þagnarskyldu opinberra starfsmanna í 136. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi stefnandi lögvarða hagsmuni af því að fá úr kröfum sínum leyst fyrir dómi og ekki leiki vafi á, að hún sé rétthafi þeirra hagsmuna, sem leitað er dómsúrlausnar um. Í stefnu er og vísað til þess, að stefnandi eigi persónulegra hagsmuna að gæta af því að upplýsingar úr sjúkraskrám föður hennar verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði, þar sem unnt sé að draga ályktanir af þeim um viðkvæmar persónuupplýsingar um hana sjálfa. Er þetta rökstutt með því, að samkvæmt 6. tl. 3. gr. gagnagrunnslaga teljist erfðafræðilegar upplýsingar til heilsufarsupplýsinga og að auki sé heimilt að tengja gagnagrunninn við ættfræðigagnagrunn og erfðafræðigagnagrunn. Af þessum ástæðum verði ekki aðeins unnt að afla upplýsinga um þær manneskjur, sem taka þátt í gagnagrunninum með ætluðu samþykki, heldur og um nákomna ættingja þeirra, ekki síst börn þeirra og aðra niðja, jafnvel þótt þau taki ekki þátt í grunninum. Með því að kanna arfgerð og svipgerð foreldra, afkomenda og annarra til nákominna sé unnt að gera sér mynd, ekki einungis af þeim sem eru þátttakendur í grunninum, heldur og öðrum sem eigi þar nána ættingja. Þá sé líklegt, að upplýsingar um stefnanda sé að finna í sjúkraskrám föðurins og ekki liggi fyrir, hvort og hvernig slíkar upplýsingar verði skráðar í gagnagrunninn. Þá kunni að finnast, í vinnslu upplýsinga um föðurinn, upplýsingar um stefnanda sjálfa. Stefnandi hafi því hagsmuni af því, að ekki verði unnið með upplýsingar um föður hennar og þær fluttar í gagnagrunninn, því að af þeim upplýsingum verði dregnar ályktanir einnig um hana sjálfa og einkalíf hennar.
Að lokum mótmælir stefnandi því, að málatilbúnaður hennar sé óskýr, heldur sé hann þvert á móti afar glöggur og uppfylli að öllu leyti þær kröfur, sem gerðar séu í stafliðum a. g. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Þær upplýsingar úr sjúkraskrám, sem stefnandi krefst, að ekki verði fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði, varða látinn föður hennar. Stefnandi byggir hins vegar á því, að erfðafræðilegar upplýsingar teljist til heilsufarsupplýsinga samkvæmt gagnagrunnslögum og að auki sé heimilt að tengja gagnagrunninn við ættfræðigagnagrunn og erfðafræðigagnagrunn. Af þessum ástæðum verði ekki aðeins unnt að afla upplýsinga um þær manneskjur, sem taka þátt í gagnagrunninum með ætluðu samþykki, heldur og um nákomna ættingja þeirra, ekki síst börn þeirra og aðra niðja, jafnvel þótt þau taki ekki þátt í grunninum.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði er markmið laganna að heimila gerð og starfrækslu miðlægs gagnagrunns með ópersónugreinanlegum heilsufarsupplýsingum í þeim tilgangi að auka þekkingu til þess að bæta heilsu og efla heilbrigðisþjónustu. Í 6. tl. 3. gr. laganna eru heilsufarsupplýsingar skilgreindar sem upplýsingar, er varða heilsu einstaklinga, þ.m.t. erfðafræðilegar upplýsingar.
Í máli þessu greinir aðila á um, hvort umræddar heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám séu ópersónugreinanlegar eður ei með þeim aðferðum, sem gert er ráð fyrir, að beitt verði við meðferð þeirra og úrvinnslu. Þá byggir stefnandi á því, að almennt sé óheimilt að flytja persónuupplýsingar úr sjúkraskrám, sem njóta verndar ákvæða stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs, í þann gagnagrunn, sem leyfður er í gagnagrunnslögum, nema fyrir liggi upplýst samþykki þess, sem upplýsingarnar eru um eða tilsjónarmanns hans að lögum og gildi sama regla um látna. Jafnframt byggir stefnandi á því, að upplýsingar þær, sem fyrirhugað er að setja í gagnagrunninn, verði ekki ópersónugreinanlegar og meðal annars af þeim ástæðum sé óhjákvæmilegt, að fyrir liggi upplýst samþykki á þann hátt sem að ofan greinir.
Stefnandi byggir hins vegar málsaðild sína á 3. mgr. 25. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þá reglu er að finna í IV. kafla laganna, sem fjallar um ákærureglur.
Greinin er svohljóðandi:
,,Sé sá dáinn, sem misgert var við, eða verknaður, sem beinist að dánum manni, er refsiverður, hafa eiginmaður eða eiginkona hins látna, foreldrar, börn, kjörbörn og systkin rétt til að höfða mál eða bera fram kröfu um opinbera málshöfðun.”
Lagaákvæði þetta heimilar stefnanda að fara í einkarefsimál á hendur landlækni eða bera fram kæru á hendur honum, telji hún að framinn hafi verið refsiverður verknaður gagnvart látnum föður hennar. Það hefur hún hins vegar ekki gert, heldur hefur hún höfðað almennt einkamál á hendur stefnda, þar sem hún gerir kröfur fyrir sína hönd, en ekki fyrir hönd föður síns. Verður að telja, að málsókn til að fá úr því skorið, hvort stefnandi eigi lögvarða hagsmuni, sem stefndi hafi brotið gegn með áðurnefndi ákvörðun sinni, verði ekki byggð á þeim aðildarreglum, sem almennu hegningarlögin hafa að geyma og að framan er lýst. Er slíkur málatilbúnaður að mati dómsins í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars og leiðir til frávísunar.
Í niðurlagi stefnu er kafli sem beri yfirskriftina „Tilvísun til helstu lagaákvæða og reglugerða“, svohljóðandi:
,,Meðal réttarheimilda, sem á er byggt og vísað verður til í munnlegum málflutningi eru: 68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar (l. nr. 33/1994 með síðari breytingum); 3. og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu; 7. og 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi; 1. nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga; l. nr. 77/2000 um persónuvernd; l. nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði; lög nr. 110/2000 um lífsýnasöfn; 3. mgr. 25. gr., 124. gr., 136. gr., 228. gr., 229. gr., 230. gr., 233. gr og 240. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940; I. kafli l. nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu; 1. gr., 10. gr., 12. gr., 15. gr., 17. gr. og 29. gr. l. nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga; 15. og 16. gr. læknalaga nr. 53/1988; 1. nr. 16/1991 um brottnám líffæra; 34. gr. 4. mgr. barnalaga nr. 20/1992 sbr. 12. gr. alþjóðsamnings um réttindi barna; 6. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974; 8. gr. laga nr. 16/1938 um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt; 27. gr. laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir; 3. gr. l. nr. 40/1976 um sálfræðinga; 9. gr. 1. nr. 75/1977 um iðjuþjálfun; 6. gr. 1. nr. 18/1978 um þroskaþjálfa; 1. gr. 1. nr. 35/1978 um lyfjafræðinga; 7. gr. l. nr. 99/1980 um meinatækna; 6. gr. 1. nr. 58/1984 um sjúkraliða; 7. gr. ljósmæðralaga nr. 67/1984; 10. gr. l. nr. 38/1985 um tannlækningar; 8. gr. l. nr. 95/1990 um félagsráðgjöf; 59. og 62. gr. l. nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga; 27. gr. lyfjalaga nr. 93/1994; 8 - 10. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997; sáttmála Evrópuráðsins um verndun einstaklinga með tilliti til vélrænnar úrvinnslu persónuupplýsinga frá 28. janúar 1981; tilskipun ES um vernd persónuupplýsinga 95/46/EB; 3. gr. 1. nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið; sáttmáli um verndun mannréttinda og mannlegrar reisnar við beitingu líffræði og læknisfræði frá 4. apríl 1997; tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins 13. febrúar 1997 nr. 5/1997 um vernd heilsufarsupplýsinga; tilmæli nr. 18/1997 um vernd persónuupplýsinga sem safnað er og meðhöndlaðar eru í tölfræðilegu skyni; yfirlýsing UNESCO um genamengi mannsins og mannréttindi frá 11. nóvember 1997.”
Af ofangreindum tilvitnunum er í stefnu, auk laga nr. 139/1998 um gagnagrunn á heilbrigðissviði, einungis vísað til laga nr. 61/1991 um brottnám líffæra, 2. mgr. 28. gr. laga nr. 121/1981 um skráningu persónuupplýsinga, 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, í tengslum við þær málsástæður, sem byggt er á. Er lögfræðilegur rökstuðningur í stefnu þannig að litlu leyti tengdur áðurnefndum tilvísunum stefnanda í réttarreglur. Verður að fallast á með stefnda, að honum sé ómögulegt að sjá fyrir fram á hverju stefnandi byggir með flestum þeirra, þannig að viðeigandi vörnum verði við komið. Gengur þessi framsetning á málsástæðum og lagarökum að áliti dómsins gegn fyrirmælum e. og f. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað.
Samkvæmt framansögðu er málinu vísað frá dómi, en eftir atvikum þykir mega ákveða, að málskostnaður falli niður.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.