Hæstiréttur íslands
Mál nr. 102/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 17. febrúar 2012. |
|
Nr. 102/2012.
|
A (Kristján Stefánsson hrl.) gegn B (Jón Haukur Hauksson hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Talið var að A skorti lögvarða hagsmuni til að fá skorið úr um gildi ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi eftir að vistuninni hafði verið aflétt. Var málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi eftir ákvörðun innanríkisráðuneytisins 26. janúar sama ár. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila um niðurfellingu 21 sólarhrings nauðungarvistunar hans á sjúkrahúsi sem samþykkt var af hálfu innanríkisráðuneytisins 26. janúar 2012 með stoð í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt hinum kærða úrskurði um nauðungarvistunina. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Jóns Hauks Haukssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 62.750 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.