Hæstiréttur íslands

Mál nr. 384/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Mánudaginn 6

 

Mánudaginn 6. október 2003.

Nr. 384/2003.

Þrotabú Valdimars Stefánssonar

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

Victoriu Tarevskaia

(enginn)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem þrotabúi VS var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem þrotabúið hafði höfðað gegn V til riftunar á kaupmála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2003, þar sem sóknaraðila var gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 250.000 krónur, í máli sem hann hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fjárhæð tryggingar verði lækkuð verulega. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur kosið að láta málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með hliðsjón af umfangi og eðli máls þess sem um ræðir eru ekki efni til að hnekkja ákvörðun um fjárhæð máls­kostnaðar­tryggingar í hinum kærða úrskurði. Er því staðfest niðurstaða úrskurðarins á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur sóknaraðila, þrotabús Valdimars Stefánssonar, til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðila, Victoriu Tarevskaia, skal vera tvær vikur frá uppsögu þessa dóms.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. September 2003.

                Mál þetta höfðaði þrotabú Valdimars Stefánssonar, [...], Gyðufelli 10, Reykjavík, með stefnu birtri 9. september sl. á hendur Viktoríu Tarevskaiu, [...], Gyðufelli 10, Reykjavík.

                Í málinu krefst stefnandi riftunar á kaupmála er þrotamaður og stefnda gerðu 20. október 2001.  Þar var íbúð er þau höfðu verið sameigendur að gerð að séreign stefndu.  Við þingfestingu málsins 18. þessa mánaðar krafðist stefnda þess að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu, ekki lægri en 500.000 krónur.  Mótmælti stefnandi kröfunni.  Krafan var tekin til úrskurðar 23. þessa mánaðar, er lögmenn höfðu reifað sjónarmið sín.

                Niðurstaða.

                Mál þetta er höfðað af þrotabúi sem er eignalaust.  Á skiptafund var ekki mætt af hálfu kröfuhafa og hefur skiptastjóri tekið ákvörðun um málsókn þessa að því er séð verður án þess að kanna hug kröfuhafa.  Hafa þeir ekki ábyrgst greiðslu á málskostnaði er búið kynni að verða dæmt til að greiða.  Að svo vöxnu verður stefnandi samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 að leggja fram málskostnaðartryggingu.  Skal tryggingin vera að fjárhæð 250.000 krónur, í reiðufé, sparisjóðsbók, eða með bankaábyrgð.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r  s k u r ð a r o r ð

                Stefnandi, þrotabú Valdimars Stefánssonar, skal leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 250.000 krónur í peningum, sparisjóðsbók, eða með bankaábyrgð, eigi síðar en fimmtudaginn 16. október nk. kl. 9.30.