Hæstiréttur íslands
Mál nr. 756/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 22. desember 2009. |
|
Nr. 756/2009. |
Ákæruvaldið(Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X(Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms, um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, samkvæmt c. lið 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stendur vegna dóms á hendur honum sem upp var kveðinn sama dag, en þó eigi lengur en til föstudagsins 15. janúar 2010 klukkan 24. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á meðan áfrýjunarfrestur stendur, þó eigi lengur en til föstudagsins 15. janúar 2010, kl. 24.00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að dómfelldi hafi í dag í máli nr. S [...] verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir fjölmörg afbrot. Frá refsingunni dragist óslitið gæsluvarðhald frá 14. ágúst 2009. Dómurinn sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi hafi tekið sér frest til ákvörðunar um áfrýjun til Hæstaréttar Íslands. Það sé mat lögreglustjóra að dómfelldi muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus og sé því nauðsynlegt að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan á fresti til áfrýjunar stendur. Þá liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt, sbr. dóma réttarins nr. 511/2009 og 566/2009.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.
Eins og rakið hefur verið hér að framan var dómfelldi fyrr í dag dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir 13 hylmingarbrot og 4 þjófnaðarbrot, þar af var um að ræða tvö innbrot á heimili í félagi við aðra. Þá lúta brot dómfellda að töluverðum verðmætum. Frá refsingu dómfellda dregst gæsluvarðhald hans frá 14. ágúst sl. með fullri dagatölu. Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti samkvæmt 199. gr. laganna stendur. Dómfelldi hefur áður sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laganna. Með tilliti til þess og með því að skilyrði 3. mgr. 97. gr. eru uppfyllt, verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, [...] kt. og heimilisfang, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan á áfrýjunarfresti stendur, þó eigi lengur en til föstudagsins 15. janúar 2010, kl. 24.00.