Hæstiréttur íslands
Mál nr. 6/2009
Lykilorð
- Líkamstjón
- Fasteign
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. júní 2009. |
|
Nr. 6/2009. |
Túnfótur ehf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Guðbirni Svavari Ingvarssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) og gagnsök |
Líkamstjón. Fasteign. Gjafsókn.
G kvaðst hafa slasast við vinnu sína í húsnæði T, þar sem rekið var kjúklingasláturhús, er hann var að klofa yfir vegg eða þröskuld. Talið var að af gögnum málsins yrði ekki annað séð en að umbúnaður hefði verið eðlilegur. Samkvæmt því væri ekki fram komið að annmarkar hefðu verið á húsinu sem leitt gætu til þess að T væri skaðabótaskyldur vegna slyss G. Var T þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að hann verði dæmdur til að greiða aðra og lægri fjárhæð en í hinum áfrýjaða dómi og niðurfellingar málskostnaðar.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 20. febrúar 2009. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.877.790 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. júlí 2003 til 25. apríl 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í húsi aðaláfrýjanda að Dynskálum 46, Hellu er rekið kjúklingasláturhús. Klefinn þar sem gagnáfrýjandi kveðst hafa slasast við vinnu sína 31. júlí 2003 er nýttur til fataskipta fyrir starfsmenn. Gagnáfrýjandi hefur lýst atvikum svo að hann hafi verið að klofa yfir vegg eða þröskuld er hann féll og slasaðist. Vettvangi er lýst í héraðsdómi en eins og þar er rakið segir um hann í bréfi Vinnueftirlits ríkisins 21. desember 2006: „Þröskuldurinn sem talað er um í bréfinu er í miðjum skiptiklefanum og er 60 cm á hæð, ca. 140 cm á breidd og 31 cm þykkur + skógrindur o.fl. Þessi svokallaði þröskuldur er til að minna fólk á að skipta um skófatnað, sloppa og hárnet þegar farið er yfir þröskuldinn. Þröskuldurinn er m.a. ætlaður sem sæti, þ.e. til að setjast á og fara úr skófatnaði, snúa sér á rassinum og fara í aðra skó hinumegin. Er þetta gert að kröfu dýralækna. Mottan er plastrimlamotta sem höfð er votmegin í skiptiklefanum. Ekki hefur verið gerð krafa um tröppu eða handföng við þröskuldinn enda ekki þörf á því ef farið er yfir þröskuldinn eins og lýst er hér að framan og hreinlætiskröfum fullnægt.“
Af þessu bréfi og öðrum gögnum málsins verður ekki annað séð en að umbúnaður hafi verið eðlilegur. Samkvæmt því er ekki fram komið að annmarkar hafi verið á húsinu sem leitt geti til þess að aðaláfrýjandi sé skaðabótaskyldur vegna slyss þess sem að gagnáfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir við að reyna að klofa yfir umræddan vegg. Verður aðaláfrýjandi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Túnfótur ehf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Guðbjörns Svavars Ingvarssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 11. nóvember sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 20. desember 2007.
Stefnandi er Guðbjörn Svavar Ingvarsson, Drafnarsandi 6, Hellu, en stefndi er Túnfótur ehf., Fosshálsi 1 í Reykjavík. Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Aðalstræti 6, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Túnfótur ehf., greiði honum 2.877.790 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. júlí 2003 til 25. apríl 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu. Til vara er krafist lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði þá látinn falla niður.
Málsatvik og ágreiningsefni
Samkvæmt stefnu slasaðist stefnandi við vinnu sína í húsnæði stefnda að Dynskálum 46 á Hellu 31. júlí 2003, en þar rak stefndi kjúklingasláturhús. Stefnandi, sem var starfsmaður ISS Ísland ehf., sá um þrif húsnæðisins undir stjórn yfirmanna stefnda, en ISS Ísland ehf. var verktaki við þrif húsnæðisins og launagreiðandi stefnanda. Slysið mun hafa borið að með þeim hætti að þegar stefnandi var að klofa yfir háan þröskuld í skiptiklefa húsnæðisins rann plastmotta undan fæti hans. Við það féll hann fram fyrir sig og lenti á grindum, röri og hurðarhúni þannig að meiðsl hlutust á vinstri öxl og hægri hendi. Lauk hann þó starfi sínu þann dag, en leitaði til læknis daginn eftir.
Stefnandi tilkynnti stefnda ekki um slysið og af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hann hafi fyrst tilkynnt vinnuveitanda sínum um það 7. júní 2004. Vinnuveitandi stefnanda, ISS Ísland ehf., mun hafa tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins um slysið 10. júní 2004.
Í bréfi Vinnueftirlitsins frá 21. desember 2006, sem liggur frammi í málinu, segir svo um áðurnefndan þröskuld: „Þröskuldurinn [...] er í miðjum skiptiklefanum og er 60 cm á hæð, ca. 140 cm á breidd og 31 cm þykkur + skógrindur o.fl. Þessi svokallaði þröskuldur er til að minna fólk á að skipta um skófatnað, sloppa og hárnet þegar farið er yfir þröskuldinn. Þröskuldurinn er m.a. ætlaður sem sæti, þ.e. til að setjast á og fara úr skófatnaði, snúa sér á rassinum og fara í aðra skó hinumegin. Er þetta gert að kröfu dýralækna. Mottan er plastrimlamotta sem höfð er votmegin í skiptiklefanum. Ekki hefur verið gerð krafa um tröppu eða handföng við þröskuldinn enda ekki þörf á því ef farið er yfir þröskuldinn eins og lýst er hér að framan og hreinlætiskröfum fullnægt.“ Í stefnu er fullyrt að stefnanda hafi aldrei verið sagt að fara ætti yfir þröskuldinn með þeim hætti sem hér er lýst, þess í stað hafi allir starfmenn klofað yfir þröskuldinn.
Í læknisvottorði 29. september 2003 kemur fram að stefnandi hafi leitað til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 1. ágúst 2003 vegna vinnuslyss daginn áður. Við skoðun hafi hann verið marinn um úlnlið og ekki getað ekki beitt vinstri öxl að marki vegna verkja. Röntgenmynd, sem tekin hafi verið, sýndi þó ekki brot og var hann settur í fatla og gefin lyf. Var stefnandi metinn óvinnufær til 31. ágúst 2003. Fram kemur í læknisvottorði að stefnandi hafi aftur leitað læknisaðstoðar vegna verkja í öxlum og herðum 15. ágúst, 9. september og 26. september sama ár. Þá kemur þar fram að honum hafi verið vísað í sjúkraþjálfun 15. september. Þar sem bati lét á sér standa leitaði stefnandi síðar til bæklunarlækna, og liggja læknisvottorð þeirra frammi í málinu. Lögmaður stefnanda fór þess á leit að Björn Daníelsson lögfræðingur og Sigurður Sigurjónsson læknir mætu afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum. Matsgerð þeirra er dagsett 27. febrúar 2006 og eru helstu niðurstöður þær að varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda eru metin 20%. Stöðugleikapunktur er þar ákveðinn 16. mars 2004. Í kjölfar matsgerðarinnar sendi lögmaður stefnanda réttargæslustefnda kröfubréf, en á slysdegi var þar í gildi húseigendatrygging vegna fasteignar stefnda að Dynskálum 46. Með bréfi 1. júní 2007 hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu og höfðaði því stefnandi mál þetta.
Undir rekstri málsins óskaði stefndi eftir því að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að leggja mat á afleiðingar slyss stefnanda. Til matstarfa voru dómkvaddir Torfi Magnússon taugalæknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður. Matsgerð þeirra er dagsett 27. júní 2008. Varanlegur miski stefnanda er þar metinn til 15 stiga, varanleg örorka er metin 20% og stöðugleikapunkti telja matsmenn að stefnandi hafi náð 16. mars 2004.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir á því að slys hans megi rekja til þess að aðbúnaði á vinnustað hans hafi verið ábótavant og nefnir þar sérstaklega umræddan þröskuld og plastmottu í skiptiklefa. Telur hann að leggja verði þá skyldu á rekstraraðila og eiganda atvinnuhúsnæðis að aðstæður á vinnustað skapi ekki hættu fyrir starfsfólk. Eiganda húsnæðisins hafi verið í lófa lagið að koma fyrir handriði eða handfangi við þröskuldinn til þess að styðja sig við á leið yfir þröskuldinn, en að öðrum kosti að hafa uppi leiðbeiningar um hvernig fara skyldi yfir hann, og að ekki væri ætlast til að klofað væri yfir þröskuldinn. Þá telur stefnandi að plastmottan í búningsherberginu hafi aukið á slysahættuna og hafi hún í þessu tilfelli orðið þess valdandi að stefnandi féll við og slasaðist. Sú hætta hafi raunar verið fyrir hendi á hvorn veginn sem starfsfólk fór yfir þröskuldinn. Telur stefnandi að þær aðstæður sem að framan er lýst hafi verið hættulegar starfsfólki og beri bæði eigandi hússins og rekstraraðili starfseminnar sök á tjóni stefnanda. Vísar stefnandi í því sambandi til 17. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en einnig til 42. gr. sömu laga, svo og til reglna nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, einkum 6. mgr. 6. gr., 5. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 39. gr. þeirra.
Stefnandi neitar því að nokkuð í gögnum málsins bendi til þess að hann beri sjálfur sök á slysinu vegna eigin gáleysis. Þar sem stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins verði stefndi að bera hallann af því sem óljóst megi telja um orsakir þess.
Kröfur stefnanda byggjast á áðurnefndri matsgerð dómkvaddra matsmanna og sundurliðast þannig:
|
Miskabætur, 5.521.102 x 15% |
kr. 828.165,- |
|
Bætur fyrir varanlega örorku, 1.656.307 x 8,75 x 20% |
kr. 2.898.537,- |
|
Þjáningatímabil, 228 x 966 |
kr. 220.289,- |
|
Til frádr. greiðsla úr launþegatryggingu |
(kr. 779.666,-) |
|
Til frádr. greiðsla frá Tryggingastofnun |
(kr. 289.535,-) |
|
Samtals |
kr. 2.877.790,- |
Að auki gerir stefnandi kröfu um vexti, dráttarvexti og málskostnað, eins og dómkrafa hans ber vitni um.
Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Þá kveðst hann og vísa til almennra reglna vinnuréttarins um fullkomnar og hættulausar vinnuaðstæður, og nefnir þar sérstaklega áður tilvitnuð ákvæði laga nr. 46/1980 og reglna nr. 581/1995, svo og reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í lögum nr. 46/1980. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og vaxtakrafa við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi hafnar því að slys stefnanda verði rakið til hættulegra og saknæmra aðstæðna á slysstað, að skort hafi á leiðbeiningar um hvernig farið skyldi yfir umræddan þröskuld, eða stefndi hafi að öðru leyti gerst brotlegur við lög nr. 46/1980 og reglugerðir byggðar á þeim, einkum reglum nr. 581/1995.
Í fyrsta lagi kveðst stefndi byggja á því að ósannað sé að slys stefnanda hafi orðið með þeim hætti sem haldið sé fram, enda sé stefnandi einn til frásagnar um það. Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður stefnda, heldur fyrirtækisins ISS Ísland ehf., þar sem hann hafi gegnt stöðu verkstjóra. Þar sem stefnandi hafi ekki gert forráðamönnum stefnda viðvart um atvikið, þannig að þeir gætu kallað til lögreglu og/eða Vinnueftirlit til rannsóknar, liggi engin samtímagögn fyrir um málið. Bendir stefndi á að sú tilkynning sem liggi frammi í málinu og send hafi verið Tryggingastofnun ríkisins 7. júní 2004, undirrituð af vinnuveitanda stefnanda, sé stefnda algerlega óviðkomandi, enda sé frásögn stefnanda um slysið þar augljóslega lögð til grundvallar. Sönnunargildi tilkynningarinnar sé því ekkert, og verði stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti, enda hvíli sönnunarbyrði um slysið á stefnanda.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að sá búnaður sem mál þetta snúist um geti ekki talist óforsvaranlegur eða hættulegur, eins og stefnandi haldi fram. Hafa verði í huga þá starfsemi sem þarna fari fram, en alkunna sé að gífurlegar hreinlætiskröfur séu gerðar í matvælaiðnaði. Í þeim efnum séu almannahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Bendir stefndi á að fram komi í bréfi Vinnueftirlitsins að búnaður þessi sé gerður að kröfu dýralækna og að Vinnueftirlitið hafi hvorki gert athugasemdir við hann né gert kröfu um tröppu eða handföng við þröskuldinn. Þá hafi heldur engar athugasemdir verið gerðar við þessa útfærslu af hálfu byggingafulltrúans í Rangárþingi, þegar teikningar af búnaðinum hafi verið lagðar fram. Jafnframt bendir stefndi á að af hálfu embættis yfirdýralæknis hafi náið verið fylgst með framkvæmdum við byggingu sláturhússins og mælt með leyfisveitingu. Í ljósi þessa telur stefndi fráleitt að hann hafi gerst brotlegur við lög og reglugerðir, eins og stefnandi haldi fram.
Stefndi fellst ekki á að umræddur þröskuldur sé óvenjulegur eða hættulegur, miðað við það hlutverk sem honum sé ætlað, og viti hann ekki til þess að önnur slys hafi verið rakin til hans, en á slysdegi hafi húsið verið í notkun í tæpt ár. Telur stefndi algerlega hættulaust að fara yfir þröskuldinn ef lágmarks varúðar er gætt, og hafi stefnanda ekki átt að vera það neinum vandkvæðum bundið, enda hefði hann reynslu af ýmsum störfum. Af því tilefni minnir stefndi á að stefnandi hafi gegnt starfi verkstjóra og eigi maður í þeirri stöðu ekki að þurfa sérstakar leiðbeiningar um það hvernig fara skuli yfir þröskuld, eins og þann sem hér um ræði. Um leið bendir stefndi á að stefnandi hafi unnið hjá vinnuveitanda sínum frá því í nóvember 2002 og megnið af þeim tíma fengist við hreingerningar hjá stefnda. Því hafi honum átt að vera allir hnútar kunnugir á vinnustaðnum og hvað væri þar helst að varast. Ekki sé heldur um flókna athöfn að ræða og hafi stefnandi ótal sinnum áður átt þarna leið um. Því sé það skoðun stefnda að slys stefnanda hafi ekki orðið vegna vanbúnaðar eða ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað, heldur verði að telja það óhappatilvik, sem enginn annar en stefnandi sjálfur beri ábyrgð á. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Varakrafa stefnda um lækkun stefnukrafna byggist á því að stefnandi hafi búið yfir mikilli reynslu í því starfi sem hann gegndi, og því beri að líta til eigin sakar hans. Að öðru leyti vísar hann til rökstuðnings fyrir aðalkröfu sinni.
Stefndi mótmælir sérstaklega vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, og bendir á að áfallnir vextir fyrir 20. desember 2003 séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.
Munnlegar skýrslur fyrir dómi
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum, ásamt Sigurði Árna Geirssyni, verkstjóra hjá stefnda.
Í máli stefnanda kom fram að hann hefði starfað í sláturhúsi stefnda frá 1. nóvember 2001, sem verkstjóri ISS Ísland ehf., en það fyrirtæki hefði annast þrif í húsinu. Engar leiðbeiningarreglur hefðu verið um það hvar eða hvernig starfsmenn við hreingerningar ættu að ganga um húsið. Taldi hann að allir starfsmenn hefðu klofað yfir þröskuldinn í skiptiklefanum á leið sinni inn í slátursalinn. Ef starfmenn hefðu hins vegar verið í slátrun, hefðu þeir skipt um skóbúnað og farið í stígvélum inn í slátursalinn.
Spurður um aðdraganda slyssins sagðist stefnandi hafa verið í venjubundinni eftirlitsferð um húsið og verið að taka út þrif starfsmanns. Hefði hann verið kominn með hægri fót yfir þröskuldinn þegar plastmottan rann af stað. Hefði hann borist með henni, en misst jafnvægið og lent á skógrind, en kastast þaðan í gólfið. Í skiptiklefanum væri nú allt með sömu ummerkjum og þegar slysið varð, skógrindurnar á sama stað, mottan einnig, svo og plastkarfan undir föt, sem staðið hefði uppi á þröskuldinum.
Stefnandi kvaðst hafa leitað til læknis daginn eftir óhappið, enda hefði það átt sér stað að kvöldlagi. Hefði hann látið yfirmann sinn vita af því, en ekki tilkynnt það forsvarsmönnum stefnda. Taldi hann víst að þeir hefðu átt að vita af því þar sem hann gekk með hönd í fatla um nokkurt skeið. Sérstaklega aðspurður sagðist stefnandi oft hafa kvartað yfir því við sláturhússtjórann og sinn yfirmann að plastmottan væri laus á gólfinu og þvældist um gólfið.
Ekki þykir ástæða til að rekja skýrslu Sigurðar Árna Geirssonar, enda var hann ekki vitni að slysinu.
Niðurstaða
Fyrir aðalmeðferð gekk dómari á vettvang, ásamt lögmönnum aðila, stefnanda málsins og verkstjóra hjá stefnda, Sigurði Árna Geirssyni.
Þröskuldurinn, sem um ræðir í máli þessu og nær væri að kalla lágan vegg, er u.þ.b. fyrir miðju í herbergi sem nefnt er skiptirými. Nær hann þvert yfir herbergið og er ca. 140 cm á breidd, 60 cm á hæð og 31 cm á þykkt, að því er fram kemur í bréfi Vinnueftirlits ríkisins frá 21. desember 2006. Gengið er inn í skiptirýmið frá gangi og þaðan inn í vinnslusalinn. Beggja vegna við þröskuldinn eru skógrindur, en á vegg gegnt þeim hangir hlífðarfatnaður starfsfólks. Þeim megin skiptirýmisins sem liggur að vinnslusalnum, er plastrimlamotta á gólfinu. Þegar gengið var á vettvang stóð plastkarfa uppi á þröskuldinum, ætluð undir óhrein föt starfsmanna. Fyrir dómi sagði stefnandi að allt væri með sömu ummerkjum og þegar slysið átti sér stað.
Meðal gagna málsins eru hönnunarteikningar af sláturhúsinu og er skiptirýmið þar skipulagt eins og það lítur nú út, þ. á m. hinn umdeildi þröskuldur. Í áðurnefndu bréfi Vinnueftirlitsins kemur fram að tilgangurinn með þröskuldinum sé að minna fólk á að skipta um skófatnað, sloppa og hárnet þegar farið er yfir þröskuldinn, en einnig sem sæti fyrir starfsfólk, þannig að það geti skipt um skófatnað, snúið sér á rassinum og farið í aðra skó hinum megin. Tekið er þar fram í bréfinu að fyrirkomulag þetta sé að kröfu dýralækna. Í stefnu segir að þröskuldurinn sé til þess að greina á milli búningsklefa og vinnslusalar og varni hann því að vatn flæði inn í búningsklefa þegar gólf vinnslusalarins sé þrifið. Fyrir dómi kvaðst stefnandi ekki hafa verið upplýstur um hvernig fara ætti yfir þröskuldinn, og taldi að allir hefðu klofað yfir hann með sama hætti og hann gerði í umrætt sinn. Við vettvangsgöngu var engar leiðbeiningar að sjá hvernig fara skyldi yfir þröskuldinn. Aðstæður í skiptirýminu gáfu að öðru leyti heldur ekki vísbendingar um að fara ætti yfir hann á þann hátt sem lýst er, enda þrengdu bæði skógrindurnar og plastkarfan, sem stóð á þröskuldinum, að nauðsynlegu svigrúmi til þess að geta með góði móti snúið sér í hálfhring, sitjandi á þröskuldinum. Á vegg í gangi, nálægt útidyrum, héngu hins vegar reglur um umgengni í vinnslusölum. Hafa reglur þessar verið lagðar fram í málinu. Þar segir aðeins að áður en farið sé í vinnslusal skuli skipta um skófatnað í skiptirými, fara í höfuðfat, þvo hendur með sápu og volgu vatni, og að því búnu skuli fara í hlífðarfatnað.
Samkvæmt 43. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, setur félagsmálaráðherra reglur um fyrirkomulag vinnustaða. Meðal þeirra reglna sem settar hafa verið á grundvelli ákvæðisins eru reglur um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995. Í 3. gr. reglnanna er mælt fyrir um skipulag vinnurýmis og umferðarleiðir, svo og frágang á pöllum, gryfjum, stigum, handriðum og opum á vinnustað. Í 39. gr. sömu reglna eru frekari fyrirmæli um umferðarleiðir starfsmanna um vinnusvæði. Er það álit dómsins að aðstæður í skiptirými húsnæðis stefnda samrýmist ekki þeim kröfum sem gerðar eru um umferðarleiðir starfsmanna samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum reglna nr. 581/1995, og ber stefndi á því ábyrgð. Er þá sérstaklega til þess horft að engra leiðbeininga nýtur við um hvernig fara skuli yfir margnefndan þröskuld, en einnig til þess að svo mjög er þrengt að umferðarleiðinni að vandkvæðum er bundið að komast yfir þröskuldinn á þann hátt sem ætlast er til. Stefndi hefur heldur ekki hnekkt þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ekki verið upplýstur um hvernig fara ætti yfir þröskuldinn. Hvorki áðurnefndar umgengnisreglur, né óundirritaður og ódagsettur verksamningur milli Reykjagarðs og ISS Ísland ehf. um þrif á húsnæði stefnda, breytir þar nokkru um.
Sýknukrafa stefnda er m.a. á því reist að ósannað sé að slysið hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi haldi fram, enda hafi engin vitni verið að því og hann því einn til frásagnar um það. Þá liggi engin samtímagögn fyrir um atvikið, þar sem stefnandi hafi ekki tilkynnt forráðamönnum stefnda um það, og þeir því ekki getað kallað til lögreglu eða Vinnueftirlitið til rannsóknar.
Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að slysið hafi orðið að kvöldlagi, þegar hann var í venjubundinni eftirlitsferð um húsið til þess að taka út þrif starfsmanna. Stefnandi leitaði læknisaðstoðar daginn eftir og er skráð á samskiptaseðil læknis að sjúklingur hafi dottið í vinnunni í gær. Á samskiptaseðlinum má einnig sjá að stefnandi kom til viðtals hjá lækninum kl. 10.04 1. ágúst 2003. Að skoðun lokinni var hönd stefnanda sett í fatla og honum gefin lyf. Með vísan til þessa og gagna málsins að öðru leyti, þ.m.t. framburðar stefnanda fyrir dóminum, telur dómurinn nægar sannanir fram komnar fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í umrætt sinn og að það hafi borið að með þeim hætti sem haldið er fram. Samkvæmt því sem áður er rakið ber stefndi fébótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Fram er komið að stefnandi gegndi í umrætt sinn stöðu verkstjóra hjá vinnuveitanda sínum, ISS Ísland ehf. Á honum hvíldu því skyldur til þess að tryggja aðbúnað og öryggi á vinnustað sínum, afstýra slysum og gera vinnuveitanda viðvart ef hann taldi hættu á slysum, sbr. 20.-23. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Fyrir dómi kvaðst stefnandi oft hafa kvartað yfir því, bæði við sláturhússtjórann og sinn yfirmann, að plastmottan á gólfi skiptirýmisins væri laus og þvældist um gólfið. Þótt engin gögn styðji þennan framburð stefnanda, né liggi fyrir að hann hafi sjálfur reynt að afstýra slysum sem kynnu að hljótast af hinni lausu plastmottu, má ljóst vera að honum var það kunnugt að plastmottan gæti verið viðsjárverð þegar stigið væri á hana. Í ljósi reynslu sinnar bar honum því sjálfum að gæta fyllstu varúðar þegar hann átti leið yfir þröskuldinn og steig á plastmottuna. Er það mat dómsins að stefnandi hafi í umrætt sinn sýnt af sér gáleysi og eigi því sjálfur nokkra sök á slysinu. Þykir eðlilegt að hann verði látinn bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur. Þar sem stefnandi tilkynnti stefnda ekki um slysið fór ekki fram nein rannsókn á aðstæðum á slysstað. Getur dómurinn ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að það verði metið stefnda í óhag, eða þannig að ekki hafi áhrif á eigin sök stefnanda.
Ekki er ágreiningur um afleiðingar slyss stefnanda né bótafjárhæð. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 2/3 hluta af stefnufjárhæðinni, 1.918.526 krónur, með vöxtum frá 20. desember 2003, en að öðru leyti eins og nánar greinir í dómsorði.
Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, 805.761 krónu, og greiðist hann í ríkissjóð.
Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfi 11. desember 2007. Allur gjafsóknarkostnaður, þ.e. þóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., sem ákveðst hæfileg 650.000 krónur, og kostnaður við öflun matsgerðar, 155.761 króna, eða samtals 805.761 króna, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Túnfótur ehf., greiði stefnanda, Guðbirni Svavari Ingvarssyni, 1.918.526 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 20. desember 2003 til 25. apríl 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 805.761 krónu í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 805.761 króna, greiðist úr ríkissjóði.