Hæstiréttur íslands
Mál nr. 580/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 13. október 2009. |
|
Nr. 580/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins 5. nóvember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess í greinargerð sem barst Hæstarétti 12. október 2009 að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 8. október 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hans, að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt innan kærufrests. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2009 um meðferð sakamála að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 5. nóvember 2009 kl. 16:00.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu ríkissaksóknara kemur m.a. fram að með ákæru 13. ágúst sl. hafi sakamál verið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur ákærða. Þar sé honum gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot á árinu 2009 með því að hafa staðið að innflutningi á 6.149,8 g af amfetamíni frá Hollandi til Íslands, ætluðu til sölu og dreifingar í ágóðaskyni. Tollgæsla og lögregla hafi lagt hald á efnin þriðjudaginn 21. apríl sl. í vörugeymslu á Keflavíkurflugvelli. Í ákærunni sé ákærða gefið að sök að hafa lagt á ráðin um innflutninginn og verið í samráði við vitorðsmenn í Hollandi varðandi tilhögun sendingar efnanna til landsins. Málið hafi verið þingfest 28. ágúst sl. og ákærði þá neitað sök. Málið hafi verið tekið fyrir 10. september sl. og þá lögð fram greinargerð ákærða. Ákveðið hafi verið að aðalmeðferð skyldi fara fram 24. september 2009. Aðalmeðferð hafi verið frestað til 16. október nk. að ósk verjanda sem hafi óskað eftir að leiða þrjú erlend vitni fyrir dóminn. Meðal gagna í málinu séu símagögn, þar með talin hljóðrituð símtöl útlends karlmanns í Hollandi og íslensks karlmanns á Íslandi. Í þessum símtökum sé m.a. rætt um skipulag á sendingu fíkniefnanna til landsins og telur ákæruvaldið að gögn málsins beri það með sér að rætt hafi verið um fyrrgreinda fíkniefnasendingu. Þá telur ákæruvaldið nægilega upplýst að ákærði hafi notað fyrrgreind símanúmer á Íslandi. Þá telur ríkissaksóknari önnur rannsóknargögn renna stoðum undir meinta aðild ákærða að hinu stórfellda fíkniefnalagabroti.
Ákæruvaldið telur að fyrir liggi sterkur grunur um að ákærði hafi átt veigamikinn þátt í að flytja umrædd fíkniefni til landsins og vegna alvarleika sakarefnisins sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 22. maí sl., upphaflega á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en frá 17. júlí á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. dóm Hæstaréttar frá 23. júlí 2009, en síðan samkvæmt tveimur úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness frá 13. ágúst sl. og 10. september sl.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með ríkissaksóknara að sterkur grunur sé um að ákærði hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að brotið sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tillit til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 88/2008 er því fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 5. nóvember 2009 kl. 16:00.