Hæstiréttur íslands
Mál nr. 416/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Einkaskipti
|
|
Þriðjudaginn 28. nóvember 2000. |
|
Nr. 416/2000. |
Hafsteinn Hafsteinsson (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Hönnu B. Jónsdóttur og Höllu V. Jónsdóttur (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Einkaskipti.
B lést 27. desember 1999 og fengu lögerfingjar hennar leyfi sýslumanns til einkaskipta á dánarbúinu 5. júní 2000. HH, sem kvaðst eiga kröfu á hendur dánarbúinu að fjárhæð 1.822.652 krónur auk vaxta, krafðist þess að búið yrði tekið til opinberra skipta. Var sú krafa reist á ákvæðum 1. mgr. og 2. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991. Ekki var talið að 1. mgr. 40. gr. laganna gæti átt við um kröfu HH eins og atvikum var háttað. Þá var HH ekki talinn hafa sýnt fram á að sérstök hætta væri á að hann gæti ekki fengið efndir ætlaðrar kröfu sinnar með öðru móti en opinberum skiptum á búinu. Samkvæmt því gat 2. mgr. 40. gr. laganna heldur ekki staðið til þess að krafa HH yrði tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú Brynhildar Pétursdóttur yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að umrætt dánarbú verði tekið til opinberra skipta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sóknaraðili verði dæmdur til að greiða þeim í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Samkvæmt gögnum málsins var Brynhildur Pétursdóttir fædd á árinu 1910. Hún lést 27. desember 1999 og var þá til heimilis á hjúkrunarheimilinu Eir við Gagnveg í Reykjavík. Varnaraðilar, sem eru dætur Brynhildar og einu lögerfingjarnir eftir hana, fengu leyfi sýslumannsins í Reykjavík til einkaskipta á dánarbúinu 5. júní 2000. Sóknaraðili kveðst eiga kröfu á hendur dánarbúinu að fjárhæð 1.822.652 krónur auk vaxta. Frá atvikum að þeirri kröfu er greint í hinum kærða úrskurði. Með bréfi 7. júní 2000 krafðist hann þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta. Var sú krafa reist á ákvæðum 1. mgr. og 2. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að 1. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991 geti ekki átt við um kröfu sóknaraðila eins og atvikum málsins er háttað.
Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að framferði varnaraðila eða ráðstafanir þeirra á hagsmunum dánarbúsins séu þannig að sérstök hætta sé á að hann geti ekki fengið efndir ætlaðrar kröfu sinnar með öðru móti en opinberum skiptum á búinu. Samkvæmt því getur 2. mgr. 40. gr. laga nr. 20/1991 heldur ekki staðið til þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina.
Í ljósi þess, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, þar á meðal um málskostnað, enda hafa varnaraðilar ekki kært úrskurðinn til að fá honum breytt að því leyti. Sóknaraðila verður hins vegar gert að greiða hvorum varnaraðila fyrir sig kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hafsteinn Hafsteinsson, greiði varnaraðilum, Hönnu B. Jónsdóttur og Höllu V. Jónsdóttur, hvorri um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2000.
Málsaðilar eru:
Skiptabeiðandi er Hafsteinn Hafsteinsson, kt. 031239-4439, Viðjugerði 7, Reykjavík, sem eftirleiðis verður vísað til sem sóknaraðila.
Varnaraðilar eru: Hanna Brynhildur Jónsdóttir, kt. 130644-3099, Eiðismýri 28, Seltjarnarnesi og Halla Valrós Jónsdóttir, kt. 050340-4499, 49 Pine Wood DR. Calabash NC 28467, Bandaríkjunum.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur sl. hinn 8. júní sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 7. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 23. okóber sl. að afloknum munnlegum málflutningi.
Dómkröfur
sóknaraðila eru þær, að dánarbú Brynhildar Þ. Pétursdóttur kt. 230710-6519, sem lést
27. desember 1999 og síðast var búsett á hjúkrunarheimilinu Eir við Gagnveg í
Reykjavík verði tekið til opinberra skipta. Þá er krefst
sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins að viðbættum
lögmæltum virðisaukaskatti á tildæmda málflutningsþóknun.
Varnaraðilar gera þær dómkröfur, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að dánarbú Brynhildar Þ. Pétursdóttur verði tekið til opinberra skipta og að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu þar með talinn lögbundinn virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Varnaraðilar eru dætur Brynhildar Þ. Pétursdóttur og einkaerfingjar hennar. Þær sóttu um leyfi til einkaskipta á búi móður sinnar með umsókn til Sýslumannsins í Reykjavík dags. 5. júní sl., sem samdægurs varð við þeirri beiðni. Við þingfestingu málsins 23. júní sl. var þess krafist af hálfu sóknaraðila, að úrskurðað yrði að einkaskiptum í dánarbúi Brynhildar heitinnar yrði frestað, þar til fyrir lægi niðurstaða í þessu máli. Af því tilefni lýsti lögmaður varnaraðila yfir því, að hann féllist á frestun skipta, þar til mál þetta væri til lykta leitt.
Málavextir eru í meginatriðum þessir:
Sóknaraðili annaðist fjármál Brynhildar heitinnar
og Jóns L. Þórðarsonar, eiginmanns hennar að eigin sögn allt frá árinu 1971.
Jón L. Þórðarson lést á árinu 1977. Sóknaraðili mun hafa aðstoðað Brynhildi við
sölu á íbúð hennar í húseigninni nr. 178 við Hraunbæ í Reykjavík til Sigþórs
Guðmundssonar og Lilju Hafsteinsdóttur og tekið við greiðslum kaupenda og
ráðstafað þeim til greiðslu á reikningum Brynhildar og inn á bankareikninga
hennar í Sparisjóði vélastjóra. Kaupverðið nam 5.200.000 króna og skyldu
3.800.000 króna greiðast í peningum, þar af 1.350.000 krónur af við
samningsgerð hinn 3. apríl 1989, 1.350.000 krónur en
eftirstöðvarnar á tímabilinu frá 20 maí s.á. til 5. maí 1990. Auk þess skyldu
kaupendur gefa út veðskuldabréf að fjárhæð 1.400.000 krónur með veði í hinni
seldu eign innan 60% af brunabótamati íbúðarinnar, sem greiðast skyldu með
þremur árlegum afborgunum fyrst 5. desember 1990. Við sölu eignarinnar hvíldi
lán á 1. veðrétti hennar til Lífeyrissjóðs Framreiðslumanna, sem aflétta átti
af henni í síðasta lagi 1. maí 1990. Sóknaraðili kveður lán þetta hafa stafað
frá Sigurði Haraldssyni, tengdasyni Brynhildar, sem látist hafi stuttu eftir
söluna. Láninu hafi ekki verið aflétt og því ekki verið hægt að fá kaupendur
til að gefa út veðskuldabréf það, sem kaupsamningur kvað á um.
Ljóst er af gögnum málsins, að sóknaraðili hefur annast greiðslu margháttaðra útgjalda Brynhildar heitinnar á tímabilinu frá janúar 1989 til október 1997, er hann hætti afskiptum af málefnum hennar að ósk varnaraðilans Hönnu Brynhildar. Sóknaraðili tók við andvirði íbúðarinnar við Hraunbæ og ráðstafaði því, eins og síðar verður lýst. Hann kom því og til leiðar, að kaupum íbúðarinnar var rift með yfirlýsingu, sem dagsett er 28. apríl 1996, án þess að til endurgreiðslu kæmi af hálfu seljanda. Við riftun munu eftirstöðvar kaupverðs íbúðarinnar hafa numið 933.334 kr. auk vaxta.
Þegar sóknaraðili hætti afskiptum af málefnum Brynhildar nam skuld hennar við hann 3.232.455 krónum, samkvæmt framlögðu yfirliti hans. Í umfjöllun um málsástæður sóknaraðila er því lýst, hvaða ráðstöfunum sóknaraðili beitti til að lækka meinta skuld í 1.822.652 krónur, sem hann krefst úr hendi varnaraðila.
Brynhildur heitin mun hafa verið svipt fjárræði 25. nóvember 1997 og var varnaraðilinn Hanna Brynhildur skipuð lögráðamaður hennar frá þeim tíma og annaðist því fésýslu fyrir hana síðan.
Sóknaraðili hefur allt frá því að hans fésýslu í þágu Brynhildar heitinnar lauk, margítrekað krafist greiðslu og sent lögmanni varnaraðila fjölmörg bréf í því sambandi, eins og framlögð gögn vera með sér.
Sóknaraðili óskaði ennfremur eftir því við
Sýslumanninn í Reykjavík sem yfirfjárráðanda í árslok 1998, að heimild yrði
veitt til greiðslu skuldar Brynhildar, en hún hafði þá verið svipt fjárræði,
eins og áður segir. Þessi tilmæli ítrekaði sóknaraðili í bréfi til sýslumanns í
árslok síðastliðins árs, eftir lát Brynhildar. Sýslumaður hafnaði beiðni
sóknaraðili með bréfi dags. 29. febrúar þessa árs. Í bréfi sýslumanns kemur
fram, að niðurstaða hans byggist á því, að um umdeilda kröfu sé að ræða, sem
skipaður lögráðamaður hafi neitað að greiða. Krafan sé ekki aðfararhæf án
undangengins dóms. Ekki sé eðlilegt, að yfirlögráðandi leggi mat á réttmæiti hinnar umdeildu
kröfu, enda hafi kröfuhafar aðrar leiðir til innheimtu krafna.
Sóknaraðili telur eignir dánarbús Brynhildar Þ.
Pétursdóttur vera í meginatriðum þessaar:
Þriðjungur húseignarinar Péturshús á Hjalteyri
lauslega áætlað verðmæti kr. 1.400.000
Innistæða í vörslum sýslumanns - 1.500.000
Innistæða á sparisj. bók hjá SPRON - 38.000
Hlutabréf í Eimskip í vörslum lögmanns sóknaraðila - 15.860
Málverk, lauslega áætlað verðmæti- 2.000.000
kr. 4.953.860
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili reisir kröfu sína á uppgjöri sínu á
sjóðsreikningi hinnar látnu hjá honum frá 27. október 1997. Varnaraðilar hafi
ekki mótmælt skriflega þessu uppgjöri og því sé sóknaraðila alls óljóst, hvers
vegna skuldin hafi ekki verið greidd. Hin látna hafi kvittað á uppgjörið 30.
september 1989 vegna ársins 1989 og 24. janúar 1992 vegna ársins 1991. Á sjóðsreikninginn
séu færðar til skuldar greiðslur sóknaraðila vegna hinnar látnu vegna íbúðar
hennar, sumarhúss á Hjalteyri, greiðslna til ættingja hennar og persónulegra
þarfa. Þá sé fært til tekna á reikninginn innborganir, aðallega vegna sölu á
íbúðinni að Hraunbæ 178, en einnig innborganir frá eiginmanni Hönnu Brynhildar (kr. 100.000 15. maí 90 og 100.000 31. sama mánaðar) og
opinberum aðilum. Fyrsta greiðsla, sem móttekin hafi verið vegna sölu
íbúðarinnar hinn 3. apríl 1989 hafi gengið til greiðslu inn á skuld Brynhildar
við sóknaraðila. Öðrum greiðslum samkvæmt kaupsamningnum hafi verið ráðstafað
inn á reikning Brynhildar hjá Sparisjóði vélstjóra. Á árunum 1990 og 1991 hafi
safnast upp skuld og hafi sóknaraðili því fært millifært af reikningi Brynhildar
á eigin sjóðsreikning 1.000.000 krónur hinn 10. júní 1991. Kaupendur
íbúðarinnar hafi átt að gefa út veðskuldabréf að fjárhæð 1.400.000 krónur.
Þessa hafi ekki verið kostur, þar sem lán frá eiginmanni Hönnu Brynhildar hafi
ennþá hvílt á eigninni og því ekki rúm fyrir frekari veðsetningu eignarinnar.
Því hafi kaupendur tekið lán í maí 1990 hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna og
hafi andvirði þess, 1.089.000 krónur runnið hafi til
lækkunar á skuld Brynhildar við sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili fært af
reikningi Brynhildar í eigin
sjóðsreikning til lækkunar á skuld hennar eftirtaldar fjárhæðir:
Hinn 28. júní 1994, 200.000 kr., 100.000 kr. hinn 19. október s.á., 120.000 kr., hinn 28. febrúar 1995 og loks 1.409.803 kr. af tveimur reikningum Brynhildar hinn 22. október 1997. Standi því eftir 1.822.652. Sóknaraðili kveðst ekki hafa vaxtareiknað útgjöld sín í þágu Brynhildar heitinnar, en hún hafi aftur á móti notið vaxta af innistæðum sínum á bankareikningum, sem hann hafi lagt fé inn á, eins og framlögð yfirlit sýni.
Sóknaraðili vísar í fyrsta lagi til 1. mgr. 40. gr. skiptalaga nr. 20/1991 til stuðnings kröfu sinni um að bú Brynhildar Þ. Pétursdóttur skuli tekið til opinberra skipta. Skilyrði þessarar lagagreinar hafi að vísu ekki verið fyrir hendi, þegar krafist var opinberra skipta af hans hálfu, en nú séu liðnir tilskildir sex mánuðir frá andláti Brynhildar og því verði þessu lagaákvæði beitt nú.
Í annan stað byggir sóknaraðili á 2. mgr. 40. gr.
skiptalaga. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til skiptalaga nr.
20/1991 segi í umfjöllun um 40. gr. að kröfuhöfum hafi með þessu ákvæði verið
veitt heimild til að krefjast skipta á dánarbúi í ákveðnum tilvikum, en slík
heimild sé ekki verið í eldri lögum. Í tilviki því,
sem hér sé til úrlausnar, sé annar varnaraðila málsins búsettur erlendis og
ekki sé vitað um fjárhagsstöðu hennar. Það sé miklum erfiðleikum bundið að
höfða mál á hendur henni í Bandaríkjum til greiðslu kröfunnar. Um eignastöðu varnaraðilans,
Höllu Brynhildar, sé ekkert vitað. Í ljós hafi komið, að
hún sé ekki þinglýstur eigandi að þeirri fasteign, þar sem hún sé búsett. Meðan
eiginmaður Höllu Brynhildar var á lífi, hafi veðlán honum viðkomandi, verið
áhvílandi á íbúð Brynhildar heitinnar og hafi það orðið þess valdandi, að ekki
hafi verið unnt að veita kaupendum eignarinnar veðleyfi fyrir eftirstöðvabréfi
samkvæmt kaupsamningnum. Sóknaraðili
hafi orðið að greiða inn á þessa veðskuld samatals 906.507
kr. til að forða íbúðinni frá uppboði og hafi sú greiðsla verið færð á
sjóðsreikning Brynhildar heitinnar. Þá
beri þess að geta að fyrst nú undir rekstri þessa máls hafi varnaraðilinn Halla
Brynhildur skilað skýrslu um fjárhald sitt sem lögráðamaður móður sinnar eftir
mikinn eftirgang. Allt þetta gefi fulla ástæðu til að ætla, að sé sérstök
hætta sé á því,
að sóknaraðili fái ekki kröfu sína greidda með öðrum hætti en sem greiðslu úr dánarbúinu. Því sé augljóst að
skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 40. gr. skiptalaga sé fullnægt.
Þá byggir sóknaraðili á því, að skilyrði 2. tl. 2. mgr. 40. gr. skiptalaga séu fyrir hendi til töku dánarbúsins til opinberra skipta. Sóknaraðili hafi ítrekað beint kröfum að varnaraðilanum Höllu Brynhildi um greiðslu, án þess að það bæri árangur.
Sóknaraðili byggir málskostnaðarkröfu sína með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála , sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmda málflutningsþóknun styður sóknaraðili með vísan til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðilar byggja kröfu sína um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að dánarbú Brynhildar Þ. Pétursdóttur verði tekið til opinberra skipta í fyrsta lagi á því, að engin lagaheimld sé fyrir því að krefjast opinberra skipta dánarbúsins. Varnaraðilar hafi fengið leyfi til einkaskipta innan þess sex mánaða frests, sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 40. gr. skiptalaga og skiptum væri nú lokið, hefði krafa sóknaraðila ekki komið til. Þessu lagaákvæði verði því ekki beitt.
Í öðru lagi vísa varnaraðilar til þess, að 2. mgr.
40. gr. eigi heldur ekki við í þessu ágreiningsmáli, eins og sóknaraðili haldi
fram. Tvennt þurfi til að koma til að
uppfylla skilyrði lagaákvæðisins.
Sóknaraðili þurfi að sýna fram á, að framferði erfingja eða ráðstafanir
þeirra á hagsmunum búsins séu með þeim hætti , að sérstök
hætta sé á að krafa fáist ekki efnd með öðru móti. Sóknaraðilia hafihefur
ekki tekist sönnun þessa og því beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu
hans.
Takist aftur á móti að sanna slíkar ávirðingar
þurfi að senda erfingjum áskorun um að efna kröfuna. Slík áskorun hafi ekki
borist varnaraðilum.
Í greinargerð með 2. mgr. 40. gr. segi, að regla þessi geti aðeins átt við í mjög óvenjulegum tilvikum, enda verði einnig að taka tillit til þess að leyfi til einkaskipta veiti skuldheimtumanni eða gjafþega heimild til að ganga að erfingjum persónulega um fullnustu. Í ljósi þessa gæti heimild þessi tæplega átt við nema gert væri sennilegt, að ábyrgð erfingjanna á skuldbindingum hins látna væri nánast einskis virði og að sýnt sé, að framferði þeirra muni leiða til þess, að eignir búsins verði ekki tiltækar til fullnustu.
Í þessu máli hafi báðir varnaraðilar tekið ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins og því sé ljóst, að sóknaraðili hafi alla möguleika á því að krefja þær um greiðslu, ef einhver krafa sé fyrir hendi.
Af framanskráðu sé ljóst að engin lagaheimild sé fyrir kröfu sóknaraðila.
Að því er varði kröfu sóknaraðila, þá sé hún
umdeild í meira lagi. Óskiljanlegt sé, að sóknaraðili hafi farið þannig með
fjármuni varnaraðila, að hann hafi átt kröfu að fjárhæð 3.000.000
milljónir króna, þegar umboð hans var afturkallað 15. október
1997. Sóknaraðili hafi í kjölfar þess heimildarlaust millifært af reikningi
Brynhildar 1.228.451 krónur inn á eigin
reikning. Engu að síður haldi hann því fram, að hann eigi hjá dánarbúinu
1.822.652 krónur. Íbúð hinnar látnu hafi verið skuldlaus við sölu hennar á
árinu 1989. Sóknaraðili hafi á engan hátt skýrt, hvernig meðferð hans á
fjármunum hinnar látnu hafi verið háttað, né hvernig slík skuld hafi getað
hlaðist upp.
Ljóst sé að öll meðferð sóknaraðila á fjármálum og eignum hinnar látnu hafi skaðað hana mikið. Kaupendur íbúðarinnar hafi aðeins greitt hluta kaupverðsins, en tekið síðan þrjú veðlán til að greiða inn á kaupsamninginn, sem ekki hafi verið í samræmi við efni hans. Veðlán þessi hafi farið í vanskil sem og fasteignagjöld og húsgjöld. Kaupsamningi um íbúðina hafi ekki verið þinglýst. Sé með eindæmum, að sóknaraðili hafi leyft kaupendum eignarinnar að komast upp með slík margra ára vanskil. Allt þetta hafi leitt til þess, að fjárhagur og eignarstaða hinnar látnu hafi að engu orðið í meðförum sóknaraðila.
Því sé ljóst, að sóknaraðili hafi í engu farið að fyrirmælum laga um fjárhald og lögræði, þess efnis, að skylt sé að blanda ekki saman eigin fjárhag og fjárhag skjólstæðinga sinna.
Sóknaraðili hafi farið þess á leit við Sýslumanninn í Reykjavík, að kröfur hans yrðu greiddar. Með ákvörðun dagsettri 29. febrúar sl. hafi sýslumaður hafnað kröfum sóknaraðila. Þessi ákvörðun sýslumanns hafi verið kæranleg til Dómsmálaráðuneytisins, en sóknaraðili hafi ekki nýtt sér þá heimild.
Varnaraðilar mótmæla því, að sóknaraðili eigi nokkra kröfu á hendur þeim eða dánarbúi móður þeirra.
Varnaraðilar vísa til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni, en byggja kröfu sína um virðisaukaskatt á tildæmda málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Forsendur og niðurstaða:
Þau gögn, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir dóminn, bera með sér, að hann hefur lagt á sig mikla vinnu í þágu Brynhildar heitinnar Pétursdóttur, án þess að séð verði að hann hafi reiknað sér endurgjald fyrir. Þá sýnist rétt sú fullyrðing sóknaraðila, að hann hafi ekki reiknað sér vexti af fé því, sem hann hefur lagt út í þágu Brynhildar, en oft og tíðum var hún í verulegri skuld við hann, samkvæmt framlögðu yfirliti. Endurskoðandi á vegum varnaraðila hefur yfirfarið fylgiskjöl, sem liggja til grundvallar reikningsfærslu sóknaraðila og staðfest að þau væru að mestu leyti fyrir hendi og í samræmi við reikningsyfirlit sóknaraðila, sbr. dskj. nr. 42 og yfirlýsingar lögmanna málsaðila þar að lútandi.
Dómurinn lítur svo á, að ekki sé verulegur ágreiningur með málsaðilum um reikningsfærslu sóknaraðila.
Varnaraðilar halda því aftur á móti fram, að
sóknaraðili hafi við fjárhald sitt fyrir Brynhildi heitina sýnt af sér
vanrækslu, þar sem hann hafi veitt kaupendum íbúðarinnar að Hraunbæ 178 heimild
til að veðsetja hana fyrir verulegum fjárhæðum og ekki gripið í taumana, þegar
ljóst varð, að greiðslufall varð á lánum þessum og dráttarvextir hlóðust upp.
Með þessum hætti hafi Brynhildur og síðan varnaraðilar orðið fyrir umtalsverðu
tjóni, sem sóknaraðila beri að ábyrgð á og beri að bæta þeim.
Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til þess, að íbúðarkaupunum hafi verið
rift, íbúðin endurseld og við þá sölu
hafi Brynhildur heitin og varnaraðilar fengið mun meira í sinn hlut en nam
ógreiddum eftirstöðvum kaupverðins. Sé þá ekki sé litið til þess fjár, sem
sóknaraðili hafi greitt vegna vanskila af áhvílandi veðskuld, sem
varnaraðilanum Hönnu Brynhildi var einni viðkomandi.
Sóknaraðili vísar í fyrsta lagi til ákvæða 40. gr. skiptalaga til stuðnings kröfu sinni um að dánarbú Brynhildar Þ. Pétursdóttur verði tekið til opinberra skipta.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. getur sá krafist opinberra skipta, sem á gjaldfallna kröfu á hendur dánarbúi, hafi erfingjar ekki fengið leyfi til einkaskipta innan sex mánaða frá andláti arfláta. Fyrir liggur, að varnaraðilar fengu leyfi Sýslumannsins í Reykjavík til einkaskipta hinn 5. júní sl. Leyfið var því veitt innan þess tímamarks sem tilvitnað lagaákvæði áskilur. Í lagagreininni er þess ekki krafist að skiptum sé lokið innan þessa frests, eins og sóknaraðili lætur liggja að og byggir á.
Lagaákvæði þessu verður því ekki beitt í tilviki því sem hér er til úrlausnar.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á 2. mgr. 40. gr., eins og áður er lýst. Lagaákvæðið kveður á um heimild kröfuhafa til að krefjast opinberra skipta, eftir að leyfi til einkaskipta hefur verið veitt. Ákvæðinu verður því aðeins beitt, samkvæmt efni sínu, ef eftirfarandi tveimur skilyrðum er báðum fullnægt.
1. að sýnt sé fram á að framferði erfingja eða ráðstafanir þeirra á hagsmunum búsins séu með þeim hætti að sérstök hætta sé á að krafan fáist ekki efnd með öðru móti.
2. að áður hafi verið skorað á erfingja að efna kröfurnar og þeim verið veittur sanngjarn frestur til þess í ljósi atvika.
Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á, að mati dómsins, að fyrra skilyrði þessa lagaákvæðis sé fullnægt. Ekkert liggur fyrir um það, að varnaraðilar hafi hagað sér svo eða gert þær ráðstafanir, að hætta verði talin á, að krafa sóknaraðila fáist ekki greidd. Þvert á móti hefur verið lýst yfir af þeirra hálfu hér í dómi, að þær muni fresta að ganga frá skiptum eftir móður sína þar til máli þessu verði ráðið til lykta. Í því felst það, að mati dómsins, að varnaraðilar muni ekki ráðstafa eignum búsins, fyrr en máli þessu er lokið.
Um síðara skilyrði umrædds lagaákvæðis, er það að
segja, að sóknaraðili hefur ekki, svo séð verður, skorað sérstaklega á
varnaraðila að greiða umkrafða skuld, eftir að þær fengu leyfi til einkaskipta,
en þar liggur þungmiðja þessarar lagagreinar, sbr. orðalagið ,,skorað á
erfingja”. Ekki verður talið, að
áskoranir sóknaraðilai
til lögmanns varnaraðila frá fyrri árum uppfylli skilyrði greinarinnar, né
heldur að túlka megi málsókn þessa sem áskorun í þessa veru.
Að öllu þessu virtu og með tilliti til þess, að erfingjar, sem leyfi fá til einkaskipta, taka á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldum dánarbús, sbr. 5. tl. 28. gr. skiptalaga, þykir verða að hafna kröfu sóknaraðila um að bú Brynhildar Þ. Pétursdóttur verði tekið til opinberra skipta.
Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Hafsteins Hafsteinssonar, um að dánarbú Brynhildar Þ. Pétursdóttur verði tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður fellur niður.