Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gerðardómur


           

Föstudaginn 19. febrúar 2010.

Nr. 81/2010.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Bandalagi háskólamanna

(Björn L. Bergsson hrl.)

Kærumál. Gerðardómur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F um tilnefningu þriggja manna í gerðardóm til þess að leysa úr ágreiningi um fjárhagsuppgjör milli aðila vegna úrsagnar F úr B.  Talið var að fyrirmæli í lögum B fælu í sér samning milli hans og þeirra félaga sem voru innan vébanda hans þegar lögin tóku gildi, en svo var ástatt um F. Gerðardómi sem þar um ræði væri ætlað að leysa úr ágreiningi um fjárhagslegt uppgjör þegar félag hafi sagt sig úr B. Samkvæmt lögum B skuli fyrsta aðgerð að fram kominni kröfu félags um hlutdeild í eignamyndun felast í því að löggiltur endurskoðandi reikni þá hlutdeilt út. Gætu dómstólar ekki hliðrað ákvæðum gerðarsamningsins um nauðsynlegan aðdraganda þess að gerðardómur taki til starfa. Þar sem þessa hafi ekki verið gætt var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2010, þar sem hafnað var að svo stöddu kröfu sóknaraðila um að héraðsdómari tilnefni þrjá menn í gerðardóm til að leysa úr ágreiningi um fjárhagslegt uppgjör milli aðilanna vegna úrsagnar sóknaraðila úr varnaraðila. Kæruheimild er í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að tilnefna í framangreindu skyni þrjá menn í gerðardóm, þar af einn sem formann. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og kröfu sóknaraðila um málskostnað hafnað.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði deila aðilarnir um hvort fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 53/1989 til að sóknaraðili geti leitað eftir því að héraðsdómari tilnefni þrjá menn í gerðardóm til að leysa úr ágreiningi um fjárhagslegt uppgjör milli þeirra vegna úrsagnar sóknaraðila úr varnaraðila, sem sá fyrrnefndi lýsti yfir 21. september 2009 og tók gildi í lok þess árs. Um slíkt fjárhagslegt uppgjör er fjallað í 1. mgr. 21. gr. svonefndra laga varnaraðila, sem samþykkt voru á aðalfundi hans 2008, og er það ákvæði tekið orðrétt upp í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því getur félag, sem hefur sagt sig úr varnaraðila, krafist með nánar tilgreindum skilmálum hlutdeildar í eignamyndun hans, en slík krafa verður að koma fram fyrir áramót, sem úrsögn miðast við, og skal þá „fela löggiltum endurskoðanda BHM að reikna hlutdeild hlutaðeigandi félags í hreinni eignamyndun hvers starfsárs sem félagið var innan BHM.“ Í niðurlagi ákvæðisins segir síðan: „Aðilar geta krafist gerðardóms í málinu og greiðist kostnaður af báðum aðilum að jöfnu.“ Með bréfi 17. desember 2009 setti sóknaraðili fram kröfu um hlutdeild í eignamyndun varnaraðila á tímabilinu frá 1. janúar 1994 til 31. desember 2009, en samkvæmt greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti hefur endurskoðanda hans ekki verið falið að gera slíkan útreikning, sem um ræðir í framangreindu ákvæði.

Líta verður svo á að fyrirmælin í niðurlagi 1. mgr. 21. gr. laga varnaraðila feli í sér samning milli hans og þeirra félaga, sem voru innan vébanda hans þegar lögin tóku gildi, en svo var ástatt um sóknaraðila. Í ljósi tengsla þessa ákvæðis við annað efni 1. mgr. 21. gr. getur ekki orkað tvímælis að gerðardómi, sem þar um ræðir, sé ætlað að leysa úr ágreiningi um fjárhagslegt uppgjör þegar félag hefur sagt sig úr varnaraðila. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum til að telja þetta ákvæði fela í sér gerðarsamning í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989. Eðli máls samkvæmt verður að skýra þennan samning á þann veg að hann veiti hvorum aðila um sig sjálfstæða heimild til að krefjast meðferðar máls fyrir gerðardómi, svo og að það falli meðal annars innan valdsviðs hans að leysa úr ágreiningi um hvað skuli telja til eigna varnaraðila við ákvörðun á hlutdeild félags í eignamyndun hans. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að eftir hljóðan 1. mgr. 21. gr. laga varnaraðila skal fyrsta aðgerðin að fram kominni kröfu félags um hlutdeild í eignamyndun hans felast í því að löggiltur endurskoðandi reikni þá hlutdeild út, en af því hlýtur óhjákvæmilega að leiða að gerðardómur geti ekki tekið til starfa fyrr en sá útreikningur liggur fyrir og í ljós er leitt að um forsendur hans eða niðurstöður standi nánar tiltekinn ágreiningur. Þótt í máli þessu hátti svo til að ágreiningur aðilanna virðist á þessu stigi beinast að því hvort Sjúkrasjóður Bandalags háskólamanna og Styrktarsjóður Bandalags háskólamanna skuli teljast til eigna varnaraðila geta dómstólar ekki hliðrað ákvæðum gerðarsamningsins um nauðsynlegan aðdraganda þess að gerðardómur taki til starfa. Með því að þessa skilyrðis hefur ekki verið gætt verður að hafna kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um að héraðsdómari tilnefni þrjá menn í gerðardóm til að leysa úr ágreiningi um fjárhagslegt uppgjör vegna úrsagnar sóknaraðila úr varnaraðila, Bandalagi háskólamanna.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2010.

Sóknaraðili krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur tilnefni þrjá menn í gerðardóm, þar af einn sem skal vera formaður, til þess að leyst verði úr ágreiningi um fjárhagsuppgjör milli aðila vegna úrsagnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr Bandalagi háskólamanna.

Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila, að mati dómsins vegna þessa þáttar málsins.

Varnaraðili krefst þess að synjað verði kröfu sóknaraðila um tilnefningu í gerðadóm til lausnar á fjárhagsuppgjöri í tengslum við úrsögn félagsins úr bandalaginu.

Málið var tekið til úrskurðar 27. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Málsatvik 

Með beiðni 21. desember 2009 krafðist sóknaraðili þess að Héraðsdómur Reykjavíkur tilnefndi þrjá menn til setu í gerðardómi, samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, til þess að leysa úr ágreiningi um fjárhagsuppgjör milli aðila í kjölfar úrsagnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr Bandalagi háskólamanna. Varnaraðili krafðist þess að kröfu sóknaraðila yrði synjað og lagði fram rökstuðning til stuðnings þeirri kröfu með bréfi dags. 7. janúar 2010. Við þingfestingu málsins 22. janúar sl. lagði sóknaraðili fram rökstuðning fyrir kröfu sinni í samræmi við áskilnað þar um.

Málsatvik eru nánar þau að með bréfi, dags. 21. september 2009, sagði Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sig úr Bandalagi háskólamanna frá og með áramótum 2009/2010. Ákvæði VIII. kafla laga Bandalags háskólamanna mælir fyrir um hvernig skuli farið með mál komi til úrsagnar aðildarfélags og fjárhagsuppgjör í tengslum við slíka úrsögn. Þar kemur m.a.fram í 21. gr.:

„Félag sem hefur sagt sig löglega úr BHM getur gert kröfu um hlutdeild félagsins í eignamyndun BHM, að frátöldum eignum Vinnudeilusjóðs og Orlofssjóðs, þann tíma sem félagið var í BHM þó ekki lengra aftur í tímann en aftur til áramótanna 1987/1988. Sömu kröfu getur BHM gert á aðildarfélagið ef miðstjórn ákveður slíkt. Báðir aðilar skulu gera slíka kröfu fyrir áramótin sem úrsögn miðast við. Þegar slík krafa kemur fram  frá aðildarfélagi eða BHM skal fela löggiltum endurskoðanda BHM að reikna hlutdeild  hlutaðeigandi félags í hreinni eignamyndun hvers starfsárs sem félagið var innan BHM. Sá aðili sem kröfu gerir greiðir kostnað af útreikningi. Skal greiða félaginu verðtryggða hlutdeild þess í eignum innan þriggja ára. Verðtrygging miðast við áramótin sem gengið er úr BHM. Komi í ljós neikvæð eignamyndun skal félagið gera upp með sama hætti við BHM. Aðilar geta krafist gerðardóms í málinu og greiðist kostnaður af báðum aðilum að jöfnu.“

Eftir að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sagði sig úr Bandalagi háskólamanna hafa viðræður átt sér stað milli fyrirsvarsmanna félaganna um hvernig skuli haga fjárhagsuppgjöri í tengslum við úrsögnina. Af þeim samskiptum er ljóst að aðilar leggja mismunandi skilning í það hvað skuli telja til eigna Bandalags háskólamanna í skilningi 21. gr. laga félagsins. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur að Styrktarsjóður BHM og Sjúkrasjóður BHM falli þar undir og hefur félagið því talið sig eiga kröfu í eignamyndun sem orðið hefur í sjóðum þessum í tengslum við fjárhagsuppgjörið. Bandalag háskólamanna hefur hafnað því og telur að umræddir sjóðir falli ekki undir ákvæðið.

Í bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 12. október 2009,  kemur fram að félagið muni gera kröfu í hlutdeild félagsins í eignamyndun þann tíma sem félagið var innan BHM, þ.á m. krefjast greiðslu hlutdeildar í eignum Styrktarsjóðs og Sjúkrasjóðs  BHM  nema aðilar nái samkomulagi um áframhaldandi aðild sóknaraðila að sjóðunum. Í bréfum sóknaraðila til sjóðanna sjálfra, dags. 13. nóvember 2009, var áréttuð  kröfugerð sóknaraðila um áframhaldandi aðild að sjóðunum og þau sjónarmið einnig rökstudd að sjóðirnir féllu undir fjárhagsuppgjör á grundvelli  21. gr. laga BHM. Með bréfi, dags. 3. desember 2009, var framangreindum kröfum sóknaraðila á hendur sjóðunum hafnað.

Með bréfi, dags. 14. desember 2009, óskaði lögmaður sóknaraðila eftir fundi með lögmanni varnaraðila til að ræða um skipun gerðardóms í samræmi ákvæði 21. gr. laga BHM. Lögmaður Bandalags háskólamanna neitaði að mæta á slíkan fund og útskýrði með bréfi, dags. 16. desember 2009, að ekki væri tilefni til slíks fundar þar sem ekki væri um ágreining að ræða.

Þar ekki hefur tekist samkomulag með aðilum um skipan slíks gerðardóms hefur sóknaraðili óskað atbeina Héraðsdóms Reykjavíkur við tilnefningu þriggja gerðarmanna, svo hægt verði að leysa úr þeim ágreiningi sem upp er kominn vegna framangreinds fjárhagsuppgjörs.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Kröfu sína styður sóknaraðili eftirfarandi rökum:

Í fyrsta lagi heldur sóknaraðili því fram að ágreiningur aðila eigi undir lögsögu gerðardóms og er röksemdum varnaraðila fyrir hinu gagnstæða mótmælt sem röngum. Meginregla 2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma sé að aðilum sé frjálst að leggja réttarágreining í gerð hafi þeir forræði á sakarefninu. Aðilar þessa máls hafi skuldbundið sig til þess að leggja ágreining vegna fjárhagsuppgjörs í kjölfar úrsagnar í gerð með þeim einkaréttarlega löggerningi sem lög BHM verði að teljast. Aðilar höfðu því forræði á sakarefni og ráðstöfuðu því í reynd með bindandi hætti. Undanþága frá þessu sé þegar sakarefni teljist ekki gerðarhæft, þ.e. að þegar það sé beinlínis óheimilt að leggja málið í gerð, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Álitamál um gerðarhæfi (e. arbitrability) eigi að öllu jöfnu aðeins við þegar um sé að ræða ágreining sem falli einvörðungu undir lögsögu landsdómstóla, s.s. meðferð sakamála, fjölskyldu- og sifjaréttar o.s.frv. þar sem talið sé að landsdómstólar séu einir til þess bærir að fjalla um slík mál. Slík sjónarmið eigi því ekki við í þessu máli.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili málatilbúnað sinn á lögákveðnu hlutverki héraðsdómstóla að aðstoða í ákveðnum tilvikum við meðferð gerðardómsmála. Eitt slíkt tilvik sé þegar aðili eins og BHM í þessu máli virði ekki skuldbindingar sínar til þess að taka þátt í gerðarmeðferðinni og neiti að taka þátt í skipun gerðardómsins. Við slíkar aðstæður geri lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma ráð fyrir því að þeim aðila sem á sé brotið sé heimilt að leita aðstoðar héraðsdóms í því skyni að fá skipaðan gerðardóm. Þannig sé það ekki hlutverk Héraðsdóms Reykjavíkur að ákveða hvort 21. gr. laga BHM nái til þess ágreinings sem uppi sé á milli aðila, heldur sé það hlutverk gerðardómsins sjálfs. Það sjónarmið sé stutt meginreglu gerðardómsréttar sem segir að gerðardómurinn sjálfur skuli hafa ákvörðunarvald um sína eigin lögsögu (e. the doctrine of Competence-Competence). Þessi regla hafi verið lögfest í fjölmörgum ríkjum auk þess að vera ein af höfuðreglum rammalöggjafar UNCITRAL um alþjóðlegan gerðardómsrétt. Reglan hafi því hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem ein af grundvallar forsendum fyrir skilvirkni gerðardómsréttar. Athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma staðfesti þá skoðun að reglan gildi einnig hér á landi.

Tilvik þar sem heimilt sé að leita aðstoðar héraðsdóms við gerðarmeðferð sé tæmandi talin í lögum nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. „Öll önnur ágreiningsefni, sem upp koma við rekstur gerðarmáls, svo sem um gildi gerðarsamnings, skal bera undir gerðardóminn sjálfan,“ eins og fram kemur í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess sem varð að lögunum. Þannig verði á þessu stigi málsins að líta framhjá þeim efnisrökum sem varnaraðili hafi sett fram í bréfi sínu, dags. 7. janúar 2010, um hvaða eignir skuli taldar til eigna BHM, þ.m.t. hvort sjúkra- og styrktarsjóðir BHM falli þar undir. Ákvörðunarvald vegna slíkra álitaefna sé á hendi gerðardómsins, enda sé beinlínis tekið fram í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins að þegar leitað sé aðstoðar héraðsdómstóla um skipun gerðardóms, þá sé það ekki þeirra hlutverk að rannsaka ofan í kjölinn um gildi gerðarsamningsins. Slíkt sé stutt þeim rökum að niðurstaða gerðardóms sé háð endurskoðun hinna almennu dómstóla, sbr. 12. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, enda sé það talið nauðsynlegt til þess að tryggja skilvirkni gerðarmeðferðar að dómstólar haldi að sér höndum þar til eftir að gerðardómurinn hafi komist að niðurstöðu. Þannig ætti að teljast nóg svo að héraðsdómur skipi gerðarmenn að beiðni aðila að gögn málsins beri það með sér að aðilar hafi samið um að leysa úr tilteknum ágreiningi fyrir gerðardómi.

Hyggist dómurinn, þrátt fyrir framangreind rök sóknaraðila, skoða gildi umrædds gerðarsamnings þá telur sóknaraðili að ljóst sé samkvæmt ákvæði 21. gr. laga BHM, sem beri yfirskriftina „fjárhagsuppgjör“, að komi til ágreinings í tengslum við fjárhagsuppgjör í kjölfar úrsagnar geti aðilar krafist að skipaður verði gerðardómur til þess að leysa úr ágreiningnum. Því skuli litið svo á að ákvæði 21. gr. laga BHM feli í sér bindandi gerðarsamning. Þannig sé fullyrðingum varnaraðila, um að ákvæði 21. gr. laga BHM geti ekki talist raunverulegur gerðarsamningur, mótmælt sem röngum. Gerðarsamningar séu nær oftast aðeins eitt ákvæði af mörgum í samningum milli aðila. Slík ákvæði kveði á um að leyst skuli úr ágreiningi fyrir gerðardómi en bera þó sjaldnast yfirskriftina gerðarsamningur, heldur sé talið nóg að fram komi að það sé vilji og fyrirætlan málsaðila að leysa úr hugsanlegum deilumálun fyrir gerðardómi. Ekki verði annað séð en að sá vilji aðila sé skrásettur á skriflegan hátt í þeim einkaréttarlega löggerningi sem lög BHM séu. Það sé almennt talið að við skýringu gerðarsamninga eigi að leggja til grundvallar þá túlkun sem virðir vilja aðilanna, þ.e. sá vilji að úr ágreiningi þeirra verði leyst fyrir gerðardómi. 

Jafnframt sé því mótmælt sem röngu að ákvæði 21. gr. laga BHM sé ekki nægilega skýrt til þess að fullnægja áskilnaði 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Skilyrði 3. gr. séu að gerðarsamningur skuli vera skriflegur, þar komi skýrt fram að um gerðarsamning sé að ræða, hverjir séu aðilar og úr hvaða réttarágreiningi skuli leyst. Ákvæði 21. gr. laga BHM skilgreini hvaða aðilar eigi í hlut, en annars vegar sé um að ræða fyrrum aðildarfélag BHM sem hafi sagt sig löglega úr félaginu, og hins vegar BHM. Sá réttarágreiningur sem gerðardómi samkvæmt ákvæðinu sé ætlað að leysa úr sé einnig afmarkaður á skýran hátt, en um sé að ræða fjárhagsuppgjör á milli aðila samkvæmt 21. gr. sem beri einmitt yfirskriftina „fjárhagsuppgjör“ eins og fram hafi komið. Vilji bæði BHM, sem og aðildarfélaga þess, til þess að fara með ágreining varðandi fjárhagsuppgjör fyrir gerðardóm komi því á skýran hátt fram í 21. gr. laga BHM, sem aðalfundur samþykkti. Telja verði að það eina sem sé óskýrt í greininni sé hvernig skuli staðið að skipun gerðardómsins. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma taki hins vegar með skýrum hætti á því hvernig skuli leyst úr slíkri óvissu, en það sé einmitt með málsókn sem þessari þegar ekki náist um það samkomulag milli aðila.

Sóknaraðili telur því einsýnt að áskilnaður 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma sé uppfylltur og því eigi undanþága 2. mgr. 3. gr. heldur ekki við í þessu sambandi. Sóknaraðili telur því að sá einkaréttarlegi gjörningur sem lög BHM séu feli í sér bindandi gerðarsamning vegna þess ágreinings sem uppi sé á milli aðila um fjárhagsuppgjör í kjölfar úrsagnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr Bandalagi háskólamanna. Þannig verði ekki hjá því komist að fallast á þá beiðni sóknaraðila að tilnefna þrjá menn í gerðardóm til þess að leysa úr ágreiningi aðila.

Hvað varðar kröfu sóknaraðila um málskostnað þá geri lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma ráð fyrir því að þegar aðili hefur ekki fullnægt skyldum sínum geti sá aðili sem á sé brotið leitað til dómstólanna og fengið gagnaðila sinn dæmdan til þess að fullnægja skyldum sínum. Þótt ekki sé með beinum orðum kveðið á um rétt aðila til þess að krefjast málskostnaðar í lögum nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma þá verði að líta svo á að í þeim tilvikum sem þörf sé á aðkomu dómstóla til þess að gerðarsamningi verði framfylgt gildi ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem málssókn þessi fyrir héraðsdómi sé tilkomin vegna neitunar varnaraðila um að taka þátt í skipan gerðardóms verði að telja annað óeðlilegt en að varnaraðili beri þann kostnað sem sóknaraðili þurfi að leggja út í til þess að fá réttindum sínum framfylgt.

Um lagarök er vísað til þess að málið sé rekið eftir ákvæðum laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, sbr. lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að verulegt áhorfsmál sé hvort ákvæði 21. gr. laga BHM, sem sóknaraðili byggir á, geti talist raunverulegur gerðasamningur. Auk þess sé ákvæði 21. gr. svo óljóst orðað að ekki verði séð að það fullnægi áskilnaði 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðadóma. Auk heldur mótmælir varnaraðili því sem röngu að deila aðila eigi undir gerðadóm. Ákvæði 21. gr. laga BHM nái ekki til þess ágreinings sem uppi sé milli aðila. Deilan snúist um eðli sjúkra- og styrktarsjóðanna og eignarhald á þeim. Úr slíkri deilu leysi gerðardómur ekki samkvæmt reglum BHM.  Slíkt sé úrlausnarefni almennra dómstóla.

Í bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 12. október 2009, sem ritað var í kjölfar úrsagnar sóknaraðila úr varnaraðila hafi verið gerð krafa um hlutdeild í eignamyndun sjúkra- og styrktarsjóða BHM. Þessu erindi hafi varnaraðili beint til stjórna sjóðanna, með vísan til þess að sjóðirnir hefðu forræði í þessu efni en ekki stjórn BHM.

Í framhaldi þessa hafi sóknaraðili áréttað kröfugerð sína gagnvart stjórnum sjóðanna í bréfi, þar sem fyrst hafi verið krafist áframhaldandi aðildar að þeim sjóðum en ella hlutdeildar í eignamyndun þeirra með vísan til 21. gr. laga BHM. Sóknaraðili hafi áréttað þá skoðun félagsins að sjóðirnir væru ekki sjálfseignarstofnanir að lögum og því gætu þeir ekki verið undanskildir fjáruppgjöri samkvæmt lögum BHM. Þá hafi einnig komið þar fram sá skilningur sóknaraðila að brottvikning félagsins úr sjóðunum færi gegn 74. gr. stjórnarskrár.

Kröfum sóknaraðila á hendur sjóðunum hafi  verið hafnað skriflega þann 3. desember 2009.  Vakin hafi verið athygli á því að réttindanautn úr sjóðunum væri bundin því skilyrði að viðkomandi styrkþegi væri félagsmaður í einhverju aðildarfélagi BHM. Með úrsögn sinni úr BHM hefði sóknaraðili tekið ákvörðun um að félagsmenn þeirra nytu ekki lengur þeirra félagslegu réttinda sem vera í BHM tryggir þeim, meðal annars úr sjúkra- og styrktarsjóðum BHM.  Þá hafi kröfugerðinni verið hafnað þar sem að sjúkra- og styrktarsjóðir BHM séu ekki eign BHM og því ekki hluti þeirra eigna sem 21. gr. laga BHM taki til og BHM ekki til þess bært að ráðstafa eignum sjóðanna.

Reglur Sjúkrasjóðs Bandalags háskólamanna og Styrktarsjóðs Bandalags háskólamanna séu á formi skipulagskráa. Þannig hafi þessum sjóðum verið búið sjálfstætt form og þeir reknir sem sjálfstæðar einingar án afskipta stjórnar BHM á hverjum tíma eða nokkurrar fjárhagslegrar tengingar við BHM.

Í reglum beggja sjóða séu fjölmörg ákvæði sem eigi að tryggja að þeir fjármunir sem þangað rata haldist eign sjóðanna sjálfra og renni til þeirra sem hverju sinni fullnægja skilyrðum til þess að fá greitt úr þeim. Þannig sé sérstaklega tekið fram í 9. gr. beggja skipulagsskráa að sjóðfélagar geti ekki gert kröfu um hlutdeild í eignum sjóðsins við úrsögn og framlög eða árgjöld séu óendurkræf. Þegar af þessari ástæðu geti sóknaraðili ekki átt rétt til þessarar greiðslu og því sé skipan gerðardóms í þeim tilgangi að skipta eignum óþörf.

Engin rök standi til þess að líta framhjá 9. gr. skipulagsskráa sóknaraðila til hagsbóta. Stéttarfélag eigi ekki að njóta betri réttar í þessu efni við eigin úrsögn en þeir sem réttinda njóta úr sjóðnum hverju sinni eða BHM endranær. Í 12. gr. samþykktanna segir að BHM njóti ekki annarra sérréttinda í sjóðunum en ákvörðunarvalds um breytingar á samþykktum og niðurlagningu sjóðanna. Þá komi og fram í ákvæðum um slit sjóðanna að við þær aðstæður skuli eignum þeirra varið í samræmi við markmið sjóðanna, sbr. 11. gr. en þeim skuli ekki skipt upp milli stofnenda eða „eigenda“. Ákvæði þessi komi alfarið í veg fyrir að sóknaraðili geti gert kröfu um hlutdeild í eignum sjóðanna.

Samkvæmt öllu framansögðu eigi ákvæði 21. gr. laga BHM því eðli máls samkvæmt ekki við um sjóði þá sem hér um ræðir og beri því að mati varnaraðila að hafna framkominni kröfu sóknaraðila.

Kröfu sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila sé mótmælt sérstaklega, en heimild til slíkar kröfu sé ekki að finna í lögum nr. 53/1989.

Niðurstaða

Mælt er fyrir um í 21. gr. laga BHM hvernig með fjárhagsuppgjör skuli fara þegar aðildarfélag hefur sagt sig úr samtökunum. Þar segir að félag sem hefur sagt sig löglega úr BHM geti gert kröfu um hlutdeild félagsins í eignamyndun BHM þann tíma sem félagið var í BHM en þó ekki lengra aftur í tímann en aftur til áramótanna 1987/1988. Skal gera kröfu um hlutdeild í eignamynduninni fyrir áramótin sem úrsögn miðast við. Þegar slík krafa kemur fram skal fela löggiltum endurskoðanda BHM að reikna hlutdeild  hlutaðeigandi félags í hreinni eignamyndun hvers starfsárs sem félagið var innan BHM. Í niðurlagi ákvæðisins kemur fram að aðilar geti krafist gerðardóms í málinu.

Af gögnum máls er ljóst að aðilar eru ósammála um það hvernig haga skuli fjárhagsuppgjöri vegna úrsagnar sóknaraðila úr BHM. Uppi er ágreiningur um það hvort Styrktarsjóður BHM og Sjúkrasjóður BHM séu eign í skilningi 21. gr. laga BHM. Í bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 12. október 2009,  kemur fram að félagið muni gera kröfu til greiðslu hlutdeildar í eignum sjúkra- og styrktarsjóða BHM  nema aðilar nái samkomulagi um áframhaldandi aðild sóknaraðila að sjóðunum. Í bréfum sóknaraðila til sjóðanna sjálfra, dags. 13. nóvember 2009, var áréttuð  kröfugerð sóknaraðila um áframhaldandi aðild að sjóðunum og jafnframt rökstudd sjónarmið um rétt til hlutdeildar í eignamyndun sjóðanna við fjárhagsuppgjör á grundvelli  21. gr. laga BHM. Með bréfi, dags. 3. desember 2009, var framangreindum kröfum sóknaraðila á hendur sjóðunum hafnað.

Sóknaraðili telur að ágreining þennan vegna fjárhagsuppgjörsins beri að leysa úr fyrir gerðardómi í samræmi við 21. gr. laga BHM og hefur því farið þess á leit að tilnefndir verði þrír menn í gerðardóm með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. 

Af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn verður ekki séð að töluleg kröfugerð sóknaraðila, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um hlutdeild í eignamyndun hjá varnaraðila, Bandalagi háskólamanna, liggi fyrir. Að auki verður ekki séð að löggiltum endurskoðanda BHM hafi verið falið að reikna hlutdeild sóknaraðila í hreinni eignamyndun hvers starfsárs, sem félagið var innan BHM.  Samkvæmt því hefur engin krafa verið sett fram sem grundvöllur að fjárhagsuppgjöri vegna úrsagnar sóknaraðila úr BHM. Þá liggur fyrir að ágreiningur er með aðilum um það hvort sóknaraðili eigi, þrátt fyrir úrsögn úr BHM, áfram aðild að Styrktarsjóði BHM og Sjúkrasjóði BHM eða hvort til uppgjörs komi á eignamyndun sóknaraðila í þeim sjóðum. Úr þeim ágreiningi hefur ekki verið leyst og gögn málsins bera ekki með sér að aðilar hafi samið um að úrlausn þar um ætti undir gerðardóm.

Samkvæmt framansögðu verður litið svo á að málið sé ekki í þeim búningi að uppfyllt séu skilyrði 21. gr. laga BHM um tilnefningu í gerðardóm. Er beiðni þar um því hafnað að svo stöddu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Beiðni sóknaraðila, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um tilnefningu þriggja manna í gerðardóm til þess að leysa úr ágreiningi um fjárhagsuppgjör vegna úrsagnar sóknaraðila úr Bandalagi Háskólamanna, er hafnað að svo stöddu.

Málskostnaður fellur niður.