Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2016, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði og fjárræði í fimm ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að hún verði svipt fjárræði og jafnframt að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún þess að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að ,,talsmanni verði dæmd þóknun úr ríkissjóði.“
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Lögmaður sá, er gætir hagsmuna varnaraðila, hefur samkvæmt gögnum málsins ekki verið skipaður talsmaður hans og verður honum því ekki dæmd þóknun úr hendi ríkissjóðs samkvæmt síðastgreindu lagaákvæði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, A, Jóns G. Briem hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2016.
Með beiðni, dagsettri 23. mars 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur Velferðarsvið Reykjanesbæjar, kt. [...], Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, krafist þess, að A, kt. [...], [...], verði svipt lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði, í fimm ár með vísan til a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila og krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara að lögræðissviptingu verði markaður skemmri tími en krafist er og að hámarki verði hún svipt lögræði í tvö ár.
Í beiðninni er málavöxtum lýst svo að varnaraðili eigi við geðræn vandamál að stríða sem hafi veruleg áhrif á getu hennar til að ráða persónulegum högum sínum. Hún hafi verið svipt sjálfræði tímabundið í fimm ár með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 28. mars 2011, en sá tími hafi verið að renna sitt skeið á enda þegar beiðnin var rituð.
Í beiðninni segir að varnaraðili hafi frá árinu 2008 búið í [...], sem sé búsetuúrræði með sólarhringsþjónustu fyrir fólk með geðraskanir. Starfsmaður hafi umsjón með varnaraðila allan sólarhringinn, en oft sé þörf á fleiri starfsmönnum til að tryggja öryggi hennar og annarra. Áður en varnaraðili flutti að [...] hafi verið nokkur óregla á búsetu hennar, en hún hafi m.a. dvalið í u.þ.b. 18 mánuði á geðdeild 32C á Landspítalanum.
Læknir varnaraðila, B yfirlæknir á geðsviði Landspítala, hafi fylgst með högum og geðheilsu varnaraðila frá árinu 2006 og sé beiðnin byggð á vottorði hans frá 29. febrúar sl., sem nánar er vikið að í beiðni sóknaraðila.
Beiðnin sé sett fram með vísan til a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, en varnaraðili sé að mati sóknaraðila ófær um að sinna persónulegum högum sínum. Með tilliti til þess og hagsmuna varnaraðila telji sóknaraðili nauðsynlegt að fara fram á þá tímabundnu lögræðissviptingu sem hér sé gerð. Varðandi heimild sóknaraðila til að bera fram kröfuna er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Í áðurgreindu vottorði B geðlæknis segir að varnaraðili sé með greinilega þroskahömlun og hún hafi verið greind með væga greindarskerðingu, ADHD-einkenni, á einhverfurófi, mótþróaþrjóskuröskun, klaufsku í hreyfingum, ódæmigerða átröskun og verulega atferlistruflun, m.a. sjálfskaðahegðun.
Þar segir og að varnaraðili hafi flust vorið 2008 í þjónustukjarna á vegum svæðisskrifstofu málefna fatlaðra [...] að [...], en áður hafi hún verið skjólstæðingur Barna- og unglingadeildar. Aðstæður heima fyrir hafi verið erfiðar og hafi varnaraðili verið um hríð hjá tveimur fósturfjölskyldum og á sambýli, en þau búsetuúrræði hafi ekki hentað varnaraðila. Varnaraðili hafi legið sleitulítið á deild 32A á Landspítala frá sumri 2006 til loka apríl 2008 þar sem umgjörð hennar heima fyrir hafi verið alls ófullnægjandi. Hafi móðir varnaraðila ráðið illa eða ekki við uppeldið og aðstæður á heimilinu. Þá kemur fram í vottorðinu að bakland varnaraðila sé lítið sem ekkert.
Þá segir í vottorðinu að í [...] hafi varnaraðili verið með starfsmann með sér nær stöðugt í daglegu prógrammi síðustu árin. Eftir flutning hennar þangað hafi tekið við aðlögunarferli og á meðan á því stóð hafi endurtekið þurft að leggja hana á bráðaherbergi geðdeildar Landspítalans og hafi það stundum leitt til skammvinnrar vistar á bráðageðdeild 32A. Smám saman hafi þó dregið úr þessum innlögnum. Árið 2009 hafi verið sett saman atferlismótandi umbunarkerfi sem haldi vel utan um daglegt líf varnaraðila og með hjálp þess hafi varnaraðili átt auðveldara með að komast í gegnum daginn, bæði andlega og líkamlega, en oft sé líka mikil áskorun fyrir varnaraðila að fylgja umbunarkerfinu.
Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili sýni af og til sjálfskaðandi hegðun, en þá skeri hún sig í handleggi, fætur og annars staðar á líkamanum. Skurðir séu oftast grunnir, en stundum hafi hún þurft að fara á sjúkrahús til að láta sauma sárin. Sjálfskaðandi atferli og ofbeldi gegn dauðum hlutum gangi í bylgjum. Móðir varnaraðila hafi búið í [...] og [...] síðastliðin sex ár og sé það varnaraðila þungbært í hversu litlu sambandi þær séu. Varnaraðili hafi því upplifað sorg, höfnun og einmanaleik síðustu ár. Varnaraðili hafi endurtekið beitt sjálfa sig, nágranna og starfsfólk í [...] ofbeldi og hótað þeim ofbeldi og lífláti. Hún hafi fimm sinnum verið lögð inn á bráðageðdeild 32C í vetur og hafi aðdragandinn að öllum innlögnunum verið svipaður, þ.e. hún hafi verið farin að skera sig og ráðast á starfsfólk með ofbeldi og hótunum, klína blóði á veggi og verið í miklu ójafnvægi. Varnaraðili eigi einnig til að sparka í eða slá starfsmenn, sem og að kasta hlutum í áttina að starfsfólki, t.d. straujárni. Þá hafi hún hótað öðrum einstaklingi með hnífi.
Í vottorðinu segir að helstu ástæður fyrir beiðni um framlengingu á sjálfræðissviptingu séu í fyrsta lagi endurteknar hótanir varnaraðila um að flytja eða fara alfarin úr sambýlinu og sjá um sig sjálf, en nauðsynlegt sé að geta stöðvað slíkt. Í öðru lagi nauðsyn þess að geta stöðvað varnaraðila þegar hún sýni sjálfskaðandi eða ofbeldisfulla hegðun eins og að framan sé lýst. Slíkt atferli geti haft í för með sér mikla hættu fyrir varnaraðila og aðra íbúa.
Í vottorðinu segir að með hliðsjón af framangreindu sé mælt með því að sjálfræðissvipting varnaraðila verði framlengd í fimm ár. Varnaraðili sé ófær um að leggja mat á sína stöðu og þarfir vegna þroskahömlunar, fjölþættra geðraskana, sorgar og einmanakenndar. Það sé algerlega óábyrgt að leyfa jafnfötluðum og viðkvæmum einstaklingi og varnaraðila að flytjast á götuna, svo að segja, þar sem hún yrði auðvelt fórnarlamb hvers kyns misnotkunar. Sjálfræðissvipting til lengri tíma sé eina leiðin til að tryggja öryggi varnaraðila, nágranna og starfsfólks í [...]. Með því móti verði unnt að beita nauðsynlegum viðbrögðum og setja ramma utan um líf varnaraðila sem auki öryggi hennar og annarra á staðnum.
B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti áður greint vottorð sitt, en hann kvaðst hafa annast meðferð varnaraðila síðastliðin 10 ár og því þekkja mjög vel til aðstæðna og einkenna varnaraðila. Hann kvað varnaraðila ekki hæfa til að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Hann sagði að auk þess að vera með ákveðin einkenni geðsjúkdóma væri varnaraðili með þroskahömlun sem ekki myndi ganga til baka. Varnaraðili væri því að mestu leyti með vandkvæði sem lítið myndu breytast í framtíðinni. Hann sagði að varnaraðili væri búin að vera mjög upptekin af því ferli sem nú ætti sér stað vegna beiðni um framlengingu á sviptingu hennar, en það hefði valdið henni miklum áhyggjum síðustu fjóra til sex mánuði og hafi hún m.a. verið lögð tvisvar inn á bráðageðdeild síðustu þrjár vikur. Kvaðst hann telja að það væri varnaraðila skaðlegt að ganga í gegnum slíkt ferli á tveggja til þriggja ára fresti. Í raun væri heppilegra að krefjast sviptingar á lögræði varnaraðila í lengri tíma en fimm ár, en það hafi þó ekki verið gert. Hann sagði að varnaraðili væri afar veikur og á köflum hættulegur einstaklingur.
C, forstöðumaður [...], kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hún staðfesti efni greinargerðar sinnar, sem lögð hefur verið fram í málinu. Hún kvaðst ekki telja varnaraðila hæfa til að stjórna fjármálum sínum. Hún sagði að starfsmaður [...] væri með prókúru á reikning varnaraðila og sæi um að greiða reikninga og sjá til þess að varnaraðili ætti peninga fyrir mat. Hún sagði að varnaraðili væri hömlulaus í fjármálum og væri alveg sama hvort hún ætti fyrir mat eða ekki. Varnaraðili hugsaði bara um líðandi stund og væri ekki fær um að skipuleggja fjármál sín fram í tímann. Hún sagði að þeir fjármunir sem varnaraðili hefði yfir að ráða væru örorku- og húsaleigubætur.
Í ljósi þess sem að framan er rakið auk fyrirliggjandi gagna telur dómari að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu. Verður varnaraðili því svipt lögræði, þ.e. bæði sjálfræði og fjárræði, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns G. Briem hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt lögræði í fimm ár frá deginum í dag að telja.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns G. Briem hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.