Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 9. mars 2015. |
|
Nr. 178/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (enginn) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki var talið fullnægt skilyrði lagaákvæðisins um að sterkur grunur væri á að X hefði framið afbrot sem að lögum gæti varðað 10 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. apríl 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. greinarinnar séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Varnaraðili er sakaður um brot gegn 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo og nánar tilgreindum ákvæðum vopnalaga nr. 16/1998. Brot gegn 4. mgr. 220. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga og vopnalögum geta að lögum ekki varðað 10 ára fangelsi og er þegar af þeirri ástæðu ekki uppfyllt það skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga varðar fangelsi allt að 16 árum ef stórfellt líkams- eða heilsutjón hlýst af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að fullnægt sé því skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa gerst brotlegur við umrætt ákvæði almennra hegningarlaga.
Að framansögðu virtu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. apríl nk. kl 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að þann 26. febrúar sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í Reykjavík vegna hnífstungu og að þar væru menn vopnaðir skotvopnum. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi A tekið á móti þeim. Hafi A sagt lögreglu að árásarmennirnir væru í herbergi innst á ganginum á annarri hæð húsnæðisins. Í herberginu hafi mátt sjá karlmann, B, sitja í sófa og hafi hann verið mikið blóðugur í andliti og á líkama. Yfir honum hafi C staðið og haldið á hníf. Sjá hafi mátt áverka á B og hafi hann sagt lögreglu að C hafi ráðist á sig og skorið í andliti. Hafi C verið handtekinn í kjölfarið. Við skoðun hafi C verið blóðugur á höndum og þá hafi verið blóð á fatnaði hans. Við leit lögreglu í öðru herbergi í húsnæðinu, herbergi A, hafi X, bróðir C, fundist á bak við hurð og hafi fatnaður hans verið blóðugur. Þriðji maðurinn hafi hinsvegar verið farinn á brott og engar byssur hafi fundist á vettvangi.
Lögregla hafi yfirheyrt íbúa húsnæðisins og brotaþola, þá A og B sem hafi skýrt frá því að þrír hettuklæddir aðilar, C, X, ásamt þriðja manni hafi ráðist inn í húsnæðið og hafi tveir árásarmannanna verið vopnaðir byssum, skammbyssu og riffli. Af framburði vitna megi ráða að árásarmennirnir hafi fyrst sparkað upp hurð og ruðst inn á konu sem búi í húsnæðinu og haft í hótunum við hana, þar næst inn á A, C þar ráðist á hann vopnaður hníf og skorið hann í andlitið og beint að honum skammbyssu. Á meðan hafi X staðið yfir A og beint að honum riffli. Sjá hafi mátt áverka á A við skoðun. Að lokum virðast árásarmennirnir hafa ruðst inn í herbergi B og C ráðist að honum sveiflandi hníf, slegið hann nokkrum höggum í andlitið og skorið hann í andliti með hnífnum. Hafi B skýrt frá því að X hafi ógnað honum á meðan með skammbyssu. Samkvæmt B hafi þriðji maðurinn síðan tekið skotvopnin og haft þau á brott með sér.
Í framhaldi af handtöku C og X hafi þeim verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 26. febrúar sl.
Eftir árásina hafi lögregla fengið upplýsingar frá nokkrum aðilum um að þriðji maðurinn sem hafi verið með þeim X og C umrætt sinn væri D. Hafi D verið handtekinn á heimili sínu í kjölfarið og yfirheyrður vegna málsins. Þann 3. mars sl. hafi D verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna málsins.
Í áverkavottorði sérfræðings á slysadeild landspítalans er varði brotaþolann B komi fram að B hafi við komu á slysadeild verið með láréttan djúpan skurð hægra megin á enni um 7 cm niður að kúpu sem hafi líklega blætt mikið úr. Þá væri einnig grunur um að B væri nefbrotinn.
Kærði C hafi skýrt frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi farið ásamt X og þriðja manni að heimili A og B til að kenna þeim lexíu þar sem þeir hafi viku áður ráðist á X utan við [...]. Kærði neiti að tjá sig um hver þriðji maðurinn sé og neiti að þeir hafi farið með byssur á vettvang og notað gegn brotaþolum. Þá neiti kærði að hafa veitt brotaþolum þá áverka sem þeir hafi verið með og vilji hann ekki greina frá þætti annarra í málinu. Segist kærði hafa verið að aðstoða B vegna áverka sinna þegar lögregla hafi handtekið hann.
Kærði X hafi skýrt frá því í skýrslutöku að nokkrum dögum fyrir árásina hafi annar brotaþola ráðist á hann utan við [...]. Þess vegna hafi hann, C og D farið keyrandi að [...] til að jafna um sakirnar. Kærði segist ekki hafa verið með byssu á vettvangi og ekki geta svarað því hvort hinir mennirnir hafi verið með byssur. Kannaðist kærði við að þeir hefðu fyrst farið herbergisvillt er þeir hafi sparkað upp hurð hjá konu í húsnæðinu. Kærði segist aðeins hafa verið með hinum tveim og neiti að hafa verið vopnaður byssum og að hafa ógnað íbúum húsnæðisins, að hafa sparkað upp hurðum, að hafa beitt brotaþola öðru ofbeldi eða hótunum.
Kærði D neiti sök. Upphaflega hafi D sagst hafa verið einn heima hjá sér þegar árásin hafi átt sér stað en í síðari skýrslutökunni hafi hann sagst fyrir tilviljun hafa verið á gangi skammt frá árásarstaðnum og hafi þar hitt C og X. Þeir hafi farið saman að [...]. Þegar þangað hafi verið komið hafi verið svo mikið myrkur í húsnæðinu að hann hafi ekkert séð en hann hafi heyrt mikil læti og hann því komið sér í burtu.
Þann 3 mars sl. hafi lögregla fengið upplýsingar um að riffillinn sem notaður hafi verið í árásinni hafi verið skilað inn til skotvopnaskrár lögreglunnar. Hafi komið í ljós að þangað hafi verið skilað inn riffli 2. mars sl. sem komi saman við lýsingar á vopninu sem brotaþolar lýsi að kærðu hafi verið með á vettvangi. Vinni lögregla að því að rannsaka byssuna og leita lífsýna á henni.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggi kærði nú undir sterkum grun um að hafa með skipulögðum hætti, í félagi við tvo menn, farið vopnaðir hníf og tveimur byssum að [...] og framið þar brot sem varðað við 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. gr. og 231 almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Framangreind brot geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Það sé ljóst að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og það sé mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings gengi kærði laus.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða
Að mati dómsins er fyrir hendi sterkur grunur um að kærði, X hafi, ásamt tveimur öðrum mönnum, D og C, ruðst inn í húsnæði að [...] í Reykjavík og að þeir þrír hafi þar, vopnaðir hnífi og byssum, ráðist á tvo menn. Fram kemur í skýrslu brotaþola að þeir C og kærði hafi ráðist á sig og að X hafi auk þess ógnað honum með byssu. Fram er komið í læknisvottorði, sem er meðal rannsóknargagna málsins, að brotaþoli hafi verið skorinn alldjúpu sári í höfuð, auk þess sem grunur leikur á að hann sé nefbrotinn. Þá kemur þar fram það mat læknis að um hafi verið að ræða alvarlega líkamsárás sem tefldi lífi brotaþola í hættu.
Brot þau, sem kærði er grunaður um, eru talin varða við 2. mgr. 218. gr., 4. mgr. 220. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 23. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998. Samkvæmt því sem rakið hefur verið og með hliðsjón af gögnum málsins að öðru leyti þykir því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna sbr. 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008. Telur dómarinn að vægari úrræði, svo sem farbann, verði ekki beitt svo sem mál þetta er vaxið, þá þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Verður því fallist á kröfur lögreglu eins og í úrskurðarorði greinir.
Arnfríður Einarsdóttir kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. apríl nk. kl 16:00.