Print

Mál nr. 562/2011

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur

                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 562/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.

Helgi Bragason hdl.)

(Páll Arnór Pálsson hrl. og

Sigurður Sigurjónsson hrl. réttargæslumenn)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr., 1. og 2. mgr. 202. gr., 209. gr. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gegn þremur stúlkum og fyrir vörslur á barnaklámi. X var sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök og þóttu brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða. Brot X þóttu mjög gróf og alvarleg. Brot hans gegn stúlkunni B voru margendurtekin en þar á meðal voru sex nauðgunarbrot. Þá voru brot X gagnvart stúlkunum A og B framin í skjóli trúnaðartrausts. Ákærða var metið til refsiþyngingar að hann tók í mörgum tilvikum hreyfimyndir og ljósmyndir af athæfi sínu gagnvart B en af því mátti ráða að brotavilji hans hefði verið mjög styrkur og einbeittur. Með hliðsjón af 77. gr. og 1., 2., 3., 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr., 3. mgr. sama ákvæðis og a. lið 195. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í 8 ár. X var gert að greiða A 800 þúsund krónur í miskabætur, B 3.000.000 krónur og C 400.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 7. október 2011. Hann krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt 4. til 9. og 14. lið B. kafla ákæru, en niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu verði að öðru leyti staðfest. Þá er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af A. kafla, 1., 2. og 14. lið B. kafla og C. kafla ákæru. Þá krefst hann þess að refsing verði milduð, fjárhæð einkaréttarkröfu B verði lækkuð og aðallega að kröfum A og C verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

B krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 5.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

C krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

I

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt A. kafla, 1., 2. og 4. til 14. lið B. kafla og C. kafla ákæru. Þá verður að líta svo á að ákærði hafi verið sakfelldur fyrir það brot sem honum var gefið að sök í D. kafla ákærunnar, en ákærði hefur játað það brot skýlaust og er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í A. kafla, 1., 2. og 9. til 13. lið B. kafla og C. og D. kafla ákæru.

II

Í 4. til 8. lið B. kafla ákærunnar var ákærða gefið að sök að hafa framið nánar tiltekin kynferðisbrot gagnvart B þegar hún var sofandi á heimili ákærða að [...]. Þessi brot voru talin varða við 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því frátöldu að við meðferð málsins í héraði var sú breyting gerð af hálfu ákæruvaldsins á heimfærslu brots í 4. lið ákærukaflans að það var til vara talið varða við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. laganna.

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að þessum brotum ákærða væri ekki lýst í ákæru á þann veg að svari til brotalýsingar 194. gr. almennra hegningarlaga, svo sem með því að ákærði hafi notfært sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun brotaþola til þess að hafa við hana áðurnefnd kynmök eða að þannig hafi að öðru leyti verið ástatt um hana að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Af því leiði að 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga geti ekki átt við um þessa ákæruliði og voru brot ákærða talin varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. laganna.

Með 3. gr. laga nr. 61/2007 var gildissvið 194. gr. almennra hegningarlaga rýmkað verulega. Samkvæmt 2. mgr. síðarnefndu lagagreinarinnar, eins og henni var þar breytt, fellur undir hana sú háttsemi að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök eða að þannig sé ástatt um hann að öðru leyti að hann geti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Í frumvarpi því, er varð að fyrrnefndu lögunum, kom meðal annars fram að ætlast væri til að undir þetta ákvæði myndu falla brot, sem áður hafi talist misneyting samkvæmt 196. gr. almennra hegningarlaga, en hið nýja ákvæði tæki til þeirra tilvika þar sem kynmök færu fram án samþykkis þolanda. Þá sagði þar jafnframt að kynmök fullorðins manns við barn væru slík misnotkun á yfirburðastöðu hans gagnvart barninu að í því fælist ofbeldi, hótun og misneyting, þótt svo væri ef til vill ekki ef þolandinn væri fullorðinn.

Þegar ákærði framdi framangreind kynferðisbrot gagnvart B var hún sofandi og gat því hvorki spornað við verknaðinum né skilið þýðingu hans vegna aldurs síns. Varðar háttsemi ákærða í áðurnefndum ákæruliðum við 2. mgr. 194. gr., svo og 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í ákæru greina hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og heimfærslu þess til laga. Öll þessi skilyrði eru uppfyllt í ákæru og var vörn ákærða því í engu áfátt um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í áðurnefndum ákæruliðum.

III

Í 14. lið B. kafla ákærunnar var ákærða gefið að sök að hafa í lok maí 2010 sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri B og ekki látið af háttseminni þótt telpan bæði hann um það. Af hálfu ákæruvaldsins var þetta brot talið varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að þessu broti ákærða væri ekki lýst í ákæru á þann veg að svari til brotalýsingar 1. mgr. 194. gr. laganna, svo sem með því að ákærði hafi við kynferðismökin beitt ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung eða sviptingu sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Gæti þetta ákvæði því ekki átt við um þennan ákærulið og var brot ákærða talið varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga gerist hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung sekur um nauðgun, en til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Eins og áður greinir var efni 194. gr. almennra hegningarlaga rýmkað verulega með 3. gr. laga nr. 61/2007. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi farið með getnaðarliminn inn fyrir skapabarma brotaþola svo að hana kenndi til. Teljist ákærði þannig hafa sett liminn inn í kynfæri stúlkunnar. Eru engin efni til að hagga við þessu sönnunarmati dómsins. Vegna ungs aldurs síns var brotaþoli varnarlaus gagnvart ákærða sem átti alls kostar við hana og notfærði sér yfirburðastöðu sína til að koma fram kynferðislegum vilja sínum gagnvart henni, en í þeirri háttsemi fólst ofbeldi af hans hálfu. Með þessari háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr., svo og 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Á sama hátt og segir í niðurlagi II. kafla dómsins eru öll skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt um efni ákæru og var vörn ákærða því í engu áfátt í þessum lið hennar.

IV

Ákærði, sem hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, er hér sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart þremur börnum á aldrinum sjö til ellefu ára og vörslur á miklu magni af grófu barnaklámefni. Brot ákærða samkvæmt A. og B. kafla ákærunnar eru mjög gróf og alvarleg og brot hans gagnvart brotaþola í síðarnefnda ákærukaflanum auk þess margendurtekin, þar af sex nauðgunarbrot. Þá voru brot ákærða gagnvart brotaþolum í A. og B. kafla ákærunnar framin í skjóli þess trúnaðartrausts sem skapaðist milli ákærða og brotaþola vegna náins sambands hans og mæðra þeirra um árabil sem ákærði notfærði sér. Ákærða verður metið til refsiþyngingar að hann tók í mörgum tilvikum hreyfimyndir og ljósmyndir af athæfi sínu gagnvart brotaþola í B. kafla ákærunnar, en af því verður ráðið að vilji hans til að fremja brotin hafi verið mjög styrkur og einbeittur. Ákærði á sér engar málsbætur. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af 77. gr. og 1., 2., 3., 6. og 7. tölulið 1. mgr. 70. gr., 3. mgr. sama ákvæðis og a. lið 195. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 ár. Frá refsingunni ber að draga með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 25. júní 2011.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku, bætur til handa brotaþolum og sakarkostnað verða staðfest.

Dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en innifalinn í fjárhæð þessa sakarkostnaðar er jafnframt útlagður kostnaður réttargæslumanns vegna vottorðs sálfræðings, sem lagt var fram í Hæstarétti.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald hans frá 25. júní 2011.

Ákvæði héraðsdóms um eignarupptöku, einkaréttarkröfur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.130.560 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur og Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. september 2011.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 8. júlí sl. á hendur ákærða, X, [..], tilheimilis að [...],[...],

fyrir eftirfarandi kynferðisbrot:

A.

Gagnvart A, fæddri [...], dóttur þáverandi sambýliskonu ákærða, með því að hafa í júlí eða ágúst 2001, er A var [..]ára, á þáverandi heimili þeirra að [...], [...], nuddað og sleikt kynfæri hennar og sett fingur inn í þau.

Telst þetta varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

B.

Gagnvart B, fæddri [...], með því að hafa, er telpan var á aldrinum sjö til átta ára, á heimili ákærða að [...], þar sem telpan dvaldi oft vegna tengsla ákærða við móður hennar:

  1. Ítrekað látið telpuna nudda lim sinn, sett kynfæri sín í munn hennar og sleikt kynfæri hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 201. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Í eitt skipti ljósmyndað telpuna á kynferðislegan og klámfenginn hátt þar sem hún lá klædd í rúmi, en ákærði beindi myndavélinni að rassi hennar og kynfærum.

Telst þetta varða við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Tvisvar sýnt henni nokkrar hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Í eitt skipti er telpan var sofandi, legið þétt upp við hana, látið getnaðarlim sinn snerta líkama hennar utanklæða, látið hönd hennar snerta kynfæri sín og látið getnaðarlim sinn snerta munn hennar. Að auki tekið ljósmyndir af brotinu.

Telst þetta aðallega varða við 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga.

  1. Í eitt skipti er telpan var sofandi, sett getnaðarlim sinn upp í munn hennar og tekið hreyfimynd af brotinu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Í eitt skipti er telpan var sofandi, nuddað getnaðarlimi sínum milli rasskinna telpunnar og upp við kynfæri hennar, tekið hönd telpunnar og látið á getnaðarlim sinn og stýrt henni til að fróa sér, látið getnaðarlim sinn í munn hennar og fróað sjálfum sér yfir telpunni. Að auki tekið hreyfimynd af brotinu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Í eitt skipti er telpan var sofandi, sett getnaðarlim sinn í munn hennar, tekið hönd hennar og reynt að láta hana fróa sér, lagst þétt við hlið hennar og nuddað kynfærum sínum upp við líkama hennar og kynfæri. Að auki tekið hreyfimynd af brotinu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Þann 26. nóvember 2009, eða þar um bil, strokið getnaðarlimi sínum við munn telpunnar er hún var sofandi og sett getnaðarlim sinn í munn hennar. Að auki tekið hreyfimynd af brotinu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr., 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Þann 9. janúar 2010, eða þar um bil, stillt sér með ber kynfæri sín upp við bak telpunnar þar sem hún sat við hljómborð, ennfremur þuklað á kynfærum hennar utanklæða, látið getnaðarlim sinn nema við kynfæri hennar utanklæða og fróað sér í klof telpunnar. Að auki myndað brotið.

Telst þetta aðallega varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga.

  1. Þann 10. janúar 2010, eða þar um bil, sett getnaðarlim sinn við kynfæri telpunnar og upp við rass hennar og að auki ljósmyndað brotið.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Þann 30. janúar 2010, eða þar um bil, nuddað getnaðarlimi sínum við kynfæri telpunnar og myndað brotið.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Þann 6. febrúar 2010, eða þar um bil, fróað sér fyrir framan telpuna, tekið hönd hennar og látið hana fróa sér. Að auki tekið hreyfimynd af brotinu.

Telst þetta varða við 1. mgr. og 2. mgr. 201. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Þann 19. febrúar 2010, eða þar um bil, tekið hönd telpunnar og látið hana fróa sér, sett getnaðarlim sinn í munn hennar, fróað sér fyrir framan hana og að auki tekið hreyfimynd af brotinu.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

  1. Í lok maí 2010 sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri telpunnar og ekki látið af háttseminni þótt telpan bæði hann um að hætta.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

C.

Gagnvart C, fæddri [...], með því að hafa að morgni [...], er telpan var gestkomandi á heimili hans að [...], káfað á rassi hennar utanklæða þar sem hún lá í rúmi.

Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

D.

Haft í vörslu sinni á heimili sínu 8054 ljósmyndir og 623 hreyfimyndir á tveimur Western Digital hörðum diskum, þremur Samsung hörðum diskum, Seagate hörðum diski og tveimur skrifanlegum DVD diskum sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt og í kynferðisathöfnum með dýrum. Lögregla haldlagði framangreind gögn á heimili ákærða þann 31. maí og 30. júní 2010.

Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á tveimur Western Digital hörðum diskum, þremur Samsung hörðum diskum, Seagate hörðum diski og tveimur skrifanlegum DVD diskum.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er þess krafist að kærða verði gert að greiða hæfilegan kostnað vegna réttargæslu samkvæmt ákvörðun dómsins, sbr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Af hálfu D, kennitala [...] og E, kennitala [...], fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, B, kennitala [...], er krafist skaðabætur að fjárhæð kr. 5.000.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. maí 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi sakbornings, samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Af hálfu F, kennitala [...], fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, C, kennitala [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 800.000 auk vaxta auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. maí 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi sakbornings, samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæruliðum A, 1.,2.,3. og 14. tl. ákæruliðar B og ákærulið C, en hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa fyrir þau brot sem hann hefur viðurkennt og lýst er í 4.-13. tl. í ákærulið B og í ákærulið D. Þá komi gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hafi sætt frá 25. júní sl. til frádráttar dæmdri refsingu. Ákærði krefst þess að einkaréttarkröfum brotaþolanna A og C verði vísað frá dómi en krafa brotaþolans B verði lækkuð. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að mánudaginn 31. maí 2010 kom E á lögreglustöðina í [...] í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni, B , en hún er fædd[...]. Kvað hún F, móður brotaþolans C, hafa tjáð sér að hún hafi vaknað við það að morgni [...]sama ár að ákærði hafi verið að klappa henni á rassinn. Kvaðst E í framhaldi af því hafa spurt dóttur sína um þetta og hafi hún þá sagt sér frá sinni reynslu. Hafi verið um tvö tilvik að ræða sem átt hafi sér stað á heimili ákærða að [...]en þar hefði hún verið gestkomandi ásamt börnum sínum. Kvað hún þau ákærða hafa verið að slá sér upp undanfarin ár. Hafi fyrra tilvikið átt sér stað að morgni 29. maí og hafi dóttir hennar lýst því þannig að hún hafi vaknað við það að ákærði hafi verið að káfa á rassi hennar þar sem hún hafi legið í rúmi sem sé í  herbergi inn af stofunni. Seinna tilvikið hafi átt sér stað í kjallaraherbergi hússins og hafi dóttir hennar lýst því svo að hún hafi farið þangað niður með ákærða og hafi hann leyft henni að vera í tölvu. Hafi hann síðan klætt hana úr fötunum og sagt að hann væri að gera gott við pjölluna hennar. Kvaðst hún hafa spurt dóttur sína hvort ákærði hafi notað puttana eða typpið og hafi hún þá sagt hann hafa notað typpið. Brotaþolinn B var færð til læknisrannsóknar í Barnahúsi daginn eftir og að kvöldi 31. maí var farið að heimili ákærða í því skyni að handtaka hann og rannsaka vettvang. Hann mun hins vegar ekki hafa verið heima en hann var handtekinn kl. 20:59 sama kvöld þegar hann átti erindi á lögreglustöðina til að nálgast kveikjuláslykla bifreiðar sinnar. Ákærði var færður á [...] til læknisrannsóknar og jafnframt var honum gert að afhenda fatnað sinn. Þá var vettvangur rannsakaður sama kvöld með samþykki ákærða og verjanda hans, en hann taldi ekki þörf á að vera viðstaddur rannsóknina. Vegna gruns um að barnaklám væri að finna í tölvubúnaði ákærða var lagt hald á hann. Samkvæmt lögregluskýrslu var ákærði frjáls ferða sinna kl. 23:58 sama kvöld.

Rannsókn á tölvubúnaði ákærða leiddi í ljós fjölda ljósmynda og hreyfimynda sem áttu það sameiginlegt að sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt og jafnframt var þar að finna myndskeið sem sýndu börn í kynferðisathöfnum með dýrum. Mun hafa fundist samtals 8581 mynd og 649 myndskeið sem teljist erlent barnaklám. Heildartímalengd myndskeiðanna er tæpar 64 klukkustundir. Þá fundust 13 myndskeið sem teljast vera íslensk og rannsóknari taldi sýna ákærða og brotaþolann B og er heildartímalengd myndskeiðanna um þrjár og hálf klukkustund en ljóst er að um fleiri en eitt eintak af sama myndskeiði var að ræða. Einnig fundust 26 ljósmyndir sem rannsóknari taldi sýna ákærða og brotaþolann B.

Brotaþolinn B gaf tvívegis skýrslu fyrir dómi, í fyrra skiptið 8. júní 2010 í húsnæði Rauða krossins í [...] og í síðara skiptið í Barnahúsi í Reykjavík 26. nóvember 2010. Brotaþolinn C gaf skýrslu fyrir dómi 8. júní 2010 í framangreindu húsnæði í [...]. Sérfræðingar úr Barnahúsi önnuðust yfirheyrslurnar í öll skiptin undir stjórn dómsformanns í máli þessu.

Við rannsókn málsins lét ákærði þau orð falla að hann hefði fengið „svona í andlitið áður frá móður brotaþolans A“. Hafði lögreglan í framhaldi af því samband við brotaþolann A, og kvaðst hún geta staðfest að ákærði hefði leitað á hana þegar hún hafi verið 10-11 ára en þá hafi þau verið tvö ein á heimili móður hennar, G. Hafi hún lagst undir sæng hjá ákærða til að kúra hjá honum, enda hafi hún litið á hann sem fósturpabba sinn. Hafi ákærði þá byrjað að leita á hana sem hafi leitt til þess að hann hafi klætt hana úr að neðan. Hafi  hann síðan sett fingur inn í kynfæri hennar og jafnframt sleikt þau. Kvaðst hún hafa sagt frænda sínum, H, frá þessu og hafi hann orðið vitni að því er ákærði hafi rétt henni 2.000 krónur og sagt jafnframt „fyrirgefðu“ við hana.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákæruliður A.

Ákærði kannaðist við að upp hefði komið eitthvert mál á þessum tíma. Hann kvaðst ekki hafa verið skráður til heimilis með G, móður A, brotaþolans A, en hann hafi mikið verið á heimili þeirra. Bar ákærði að hann og G hefðu verið eitthvað þunn en þau hefðu verið að skemmta sér. Hún hafi á þessum tíma unnið á hóteli. Ákærði kvað þau hafa stundað kynlíf áður en hún hafi farið í vinnuna og hann því verið nakinn. Þar að auki hafi hún viljað að þau væru ekki í fötum þegar þau væru í rúminu og því ekki óalgengt að krakkarnir sæju þau nakin. Þá hafi þau sífellt verið í klofinu hvort á öðru meðan þau sváfu. Ákærða minnti að brotaþoli hefði skriðið upp í rúm til hans þar sem hann svaf, en það hafi ekki verið óvanalegt. Kvaðst ákærði hafa vaknað við að eitthvað væri í gangi hjá stelpunni, sem hafi verið í einhverri fýlu og óhress. Ákærði hafi þó ekki vitað af hverju. Ákærði hafi reynt að tala við stúlkuna um hvað væri í gangi en hún engu svarað. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hafi gerst næst. Ákærði kannaðist ekki við að hafa gefið stúlkunni pening umrætt sinn, þá mundi hann ekki hvort einhver annar hafi verið á heimilinu. Ákærði kannaðist við að frændi brotaþola hafi oft verið á heimilinu, en hann kvaðst ekki muna hvort drengurinn hafi verið þar umrætt sinn. Fljótlega eftir þetta hafi G sakað ákærða um brot gegn barninu og hann í kjölfar þess rætt bæði við lögregluna og sálfræðing. Ákærði mundi þó hvorki hvað honum og lögreglunni fór í milli, né heldur honum og sálfræðingnum, en ákærði kvaðst ekki rengja það sem fram kom um það í dagnótum sálfræðingsins. Ákærði kvaðst hafa  átt við þunglyndi að stríða á þessum tíma og því verið hjá sálfræðingi. Hann kvaðst hafa leitað til lögreglu þar sem hann hafi óttast að hann hefði meitt eða sært einhvern, en einnig til að stilla til friðar innan fjölskyldunnar.  Ákærði kvaðst hafa upplifað vonleysi og hann brotnað saman en ekki getað gefið neina skýringu á ásökunum stúlkunnar. Ákærði hafi farið heim til móður sinnar eftir þetta og fengið róandi hjá henni. Samband hans og G hafi þó haldið áfram með sama hætti og áður. Þau hafi endanlega hætt saman þegar G hafi farið að vera með öðrum manni,  en ákærði hafi þó áfram verið daglegur gestur á heimili hennar þegar sá maður var ekki við. Sérstaklega aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa gefið G þá skýringu að hann hefði ruglast á henni og stúlkunni.  Ákærði kvaðst ekki hafa rætt hið ætlaða brot við stúlkuna, samskipti þeirra hafi ekki verið mikil en þó góð bæði fyrir og eftir atvikið og stúlkan látið sem ekkert hefði í skorist. Ákærði kvað samskipti sín við þær mæðgur hafa fjarað út. G hafi eitthvað hringt eftir að hún flutti úr landi, en hann hafi ekki hitt hana í þau skipti sem hún hafi komið til Íslands. Brotaþoli hafi þó komið til [...] og brosað til hans þar sem hún hafi verið á gangi með frænku sinni. Ákærði kvaðst ekki rengja frásögn hennar, en hann teldi að hið ætlaða brot hefði ekki átt sér stað, hann hafi ekki verið svo sofandi. Sérstaklega aðspurður um hvort hið ætlaða brot gæti hafa átt sér stað meðan ákærði svaf kvaðst hann ekki geta svarað því. Þá kvaðst ákærði ekki vita af hverju stúlkan hefði átt að bera hann þessum sökum fyrst allt hafi verið í góðu á milli þeirra. Þá telur ákærði að rannsóknarlögreglumaðurinn hafi „spólað“ þessu öllu af stað núna, en ákærði hafi sjálfur sagt honum frá hinu ætlaða atviki.

Brotaþolinn A skýrði svo frá fyrir dómi að samskipti hennar við ákærða hafi verið góð og ákærði hafi verið góður stjúppabbi. Hún lýsti atvikum þannig að þetta hafi gerst heima hjá móður hennar að [...]. Hún hafi verið ein heima með ákærða, en móðir hennar hafi verið í vinnunni. Ákærði hafi verið uppi í rúmi og vitnið, sem þá var 11 ára, skriðið upp í rúmið til að kúra en það hafi ekki verið svo óvanalegt. Kvað vitnið ákærða ekki hafa verið nakinn umrætt sinn og hún hafi sjálf verið í nærfötum. Ákærði hafi farið að strjúka vitninu um magann, sem henni hafi þótt í lagi, en ákærði hafi síðan fært sig neðar og neðar. Ákærði hafi svo farið að „putta“ hana, þ.e. nudda á henni kynfærin og farið „inn í“ með puttann. Þá hafi ákærði sleikt kynfæri hennar. Þetta hafi hann gert í smá stund. Kvað vitnið að eftir á hafi ákærði sagst hafa haldið að hún vildi þetta. Þá bar vitnið að ákærði hefði ekki verið sofandi meðan á þessu stóð. Vitnið kvaðst ekki hafa talað við ákærða eftir á, hún hefði farið inn til sín og upp í rúm, en hún hafi þá verið í uppnámi. Þá hafi H frændi hennar komið og séð að eitthvað væri að. Kvað vitnið ákærða hafa gefið sér 2000 krónur og beðist fyrirgefningar og minnti vitnið að H hafi orðið vitni að því. Vitnið hafi síðan farið út með H og hann náð upp úr henni hvað gerst hefði, en hún hafi fyrst ekki þorað að segja honum frá atvikinu. Þá kvaðst vitnið einnig hafa sagt frænku sinni frá atvikinu og þau síðan sagt móður hennar frá þessu.  Hún kvað samband móður hennar og ákærða ekki hafa breyst eftir þetta og ákærði verið áfram inni á heimilinu. Þá kvað vitnið ákærða hafa útskýrt þetta sem svo fyrir móður hennar að ákærði hefði ruglast á þeim mæðgunum og því hafi móðir hennar trúað allt þar til vitnið hafi sagt henni að ákærði hefði sagt við sig að hann héldi að vitnið vildi þetta. Kvað vitnið að hvorki lögregla né barnaverndaryfirvöld hafi rætt atvikið við sig á umræddum tíma. Bar vitnið að eftir þetta hefði henni liðið illa, hún hefði aldrei notið neins stuðnings og aldrei talað um þetta. Kvaðst hún enn hugsa mikið um þetta og þetta hafi enn áhrif á hana og hennar kynlíf. Undir vitnið var borinn framburður ákærða hjá lögreglu þess efnis að vitnið hefði með ásökunum sínum verið að hefna sín á móður sinni fyrir að hafa drepið föður vitnisins. Kvað vitnið það ekki vera rétt.

Vitnið G, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði frétt frá I, systur sinni hvað hefði gerst.  Hafi vitnið í framhaldi af því rætt við dóttur sína en hún hafi ekki sagt vitninu frá öllu því sem gerst hefði en sagt að ákærði hefði leitað á sig og farið niður í nærbuxur sínar. Kvaðst vitnið hafa  rætt þetta við ákærða og hann sagt þetta rétt, en hann hefði haldið að það hefði verið vitnið sem lægi í rúminu. Kvað vitnið þetta hafa verið afgreitt sem slys en stúlkan hefði oft komið upp í rúmið fram að þessu. Vitnið hafi þó tekið eftir því að eftir umrætt atvik hafi stúlkan ekki komið upp í rúmið ef ákærði var þar, en vitnið hafi ekki velt því meira fyrir sér. Kvað vitnið telja að þetta hafi verið á árinu 2000 eða 2001, en þá um verslunarmannahelgi hafi hún verið að vinna á hóteli. Kvað vitnið samband sitt við ákærða hafa verið mjög skrítið eftir þetta, því hafi endanlega lokið í ágúst árið 2002 en vitnið hafi flutt úr landi árið 2003. Kvaðst vitnið þó ekki hafa verið í eiginlegri sambúð með ákærða á þessum tíma, en hann hafi sofið heima hjá henni. Þá neitaði vitnið því að hún og ákærði hafi alltaf sofið nakin, hafi það þó ekki verið óvanalegt. 

Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að þegar hann hafi verið um 10 eða 11 ára hafi hann komið heim til brotaþola að leita að bróður hennar, en þeir hafi verið bestu vinir. Hann hafi ekki verið heima og minnti vitnið að brotaþoli hafi verið ein heima. Þegar vitnið hafi komið inn hafi hún verið grátandi og greinilegt að eitthvað var að. Vitnið kvaðst hafa fengið hana til að segja sér hvað komið hefði fyrir, en hann hafi þurft að draga það upp úr henni. Hafi hún tjáð honum að ákærði hafi verið að „fikta þar sem hann hefði ekki átt að fikta“, ákærði hefði verið að fara inn á hana og fleira í þeim dúr, en vitnið vissi ekki hvað þetta hefði gengið langt. Eftir það hefði ákærði átt að hafa gefið brotaþola pening, 1000 eða 2000 krónur til að þagga niður í henni og kvaðst vitnið muna það vel að hún hafi sýnt honum peninginn, en hann hafi ekki séð ákærða gefa henni peninginn. Vitnið kvað hana ekki hafa treyst sér til að segja neinum frá þessu og hafi hann því farið beint til móður hennar og sagt henni frá þessu.

Móðursystir brotaþola, I, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði sagt sér frá atvikinu, líklega á árinu 2001. Hafi hún sagt að ákærði hefði haldið að hún væri mamma sín, hann hafi komið upp í rúm til hennar og hann hafi verið að strjúka kynfæri hennar. Kvað vitnið brotaþola hafa verið bæði hissa og hrædda, eins og hún hafi ekki alveg áttað sig á þessu. Þá kvaðst vitnið hafa skrifað um þetta í leyndarmálabókina sína eins og hún komst að orði. Las vitnið umrædda færslu úr leyndarmálabók sinni en þar kemur efnislega fram að ákærði og systir hennar hafi hætt saman sökum þess að hann hafi næstum verið búinn að nauðga brotaþola. Hafi hann verið byrjaður að káfa á henni, hann hafi sleikt einn putta og farið undir nærbuxurnar hennar og strokið á henni pjölluna. Ljósrit úr bókinni var lagt fram og bókin í heild skoðuð í dóminum. Kvaðst vitnið minna að umrædd færsla hafi verið skrifuð fljótlega eftir að brotaþoli sagði henni frá atvikinu. Varðandi merkingar í leyndarmálabókinni kvað vitnið umrædda færslu vera leyndarmál nr. 2, þarna hafi verið fjögur leyndarmál, þó ekki varðandi sömu einstaklinga. Kvaðst vitnið ekki muna hvenær hún hafi byrjað að skrifa í bókina, hún hafi ekki skrifað í hana daglega, kannski á fjögurra til fimm mánaða fresti. Þó taldi vitnið nokkuð víst að hún hafi verið byrjuð að skrifa í bókina á árinu 2001 þar sem umrædd færsla hefði verið skrifuð fljótlega eftir að hún frétti af atvikinu.

Vitnið J lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði á sínum tíma hitt ákærða á förnum vegi þegar vitnið var í fríi, gæti hafa verið í júlí eða ágúst árið 2001. Ákærði hafi viljað ræða einhver útköll sem lögregla hafði þurft að sinna á heimilinu. Ákærði hafi m.a. sagt að sambýliskona hans hefði verið að bera á ákærða að hann hefði verið að leita á dóttur hennar. Kvaðst vitnið ítrekað hafa spurt ákærða hvort eitthvað væri til í því, en ákærði neitað. Þó hafi ákærði sagt að stúlkan svæfi oft upp í rúmi hjá þeim og hann hefði hugsanlega eitthvað ruglast á þeim mæðgum og strokið stúlkunni. Kvaðst vitnið hafa kannað það á lögreglustöðinni hvort einhverjar tilkynningar hefðu borist frá móður stúlkunnar eða öðrum um málið en svo hafi ekki verið, þá hafi hann rætt við aðra lögreglumenn sem sinnt hefðu útköllum á heimilinu, en enginn hafi kannast við neitt. Kvað vitnið málið ekki hafa verið tilkynnt til barnaverndaryfirvalda og þá hafi ekki bókað neitt um málið. 

K sálfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið með ákærða til meðferðar á umræddum tíma. Hafi ákærði fyrst leitað til sín á árinu 2000, m.a. vegna þess að hann hafi þá átt við vanlíðan og depurð að stríða. Hafi vitnið haft ákærða í stuðningsviðtölum allt til ársins 2003.  Vitnið kvað lífsmunstur ákærða á umræddum tíma hafa verið þannig að hann hafi snúið sólarhringnum við, verið framtakslaus, stundað vinnu illa og sýnt sterk einkenni depurðar. Þá hafi verið erfiðleikar í samskiptum við sambýliskonu vegna reksturs heimilis og fjármála. Þá hafi verið erfitt að vinna með ákærða, hann hafi skort getu og framtak til að taka á sínum málum. Vitnið lýsti atvikum svo að ákærði hafi hringt í sig og óskað eftir viðtali. Vitnið hafi þá hitt ákærða og hann sagt vitninu frá því atviki er átt hafi sér stað inni á heimilinu. Ákærði hafi sagst hafa verið sofandi uppi í rúmi og eitthvað verið búinn að drekka kvöldið áður. Sambýliskona ákærða hafi verið farin til vinnu og  fósturdóttir hans komið upp í til hans. Ákærði hafi síðan vaknað við það að stúlkan hafi snúið í hann bakinu og verið eitthvað fúl. Ákærði hafi síðar frétt að hann hafi leitað á stúlkuna og við það hafi honum brugðið mjög. Kvað vitnið ákærða hafa verið mjög miður sín yfir þessu og talað mikið um það hvað hann væri á móti mönnum sem leituðu á börn og annað slíkt. Þá hafi ákærði verið í vandræðum með hvernig hann skyldi snúa sér í málinu, en hann og G hafi komið sér saman um að hann kæmi heim aftur, en ákærði hefði þá verið farinn til móður sinnar. Vitnið kvaðst jafnvel minna að ákærði hefði viljað leita til lögreglunnar vegna málsins, en G hafi verið viðkvæm fyrir því að málið færi lengra og kvað vitnið þau mögulega hafa komið sér saman um að fara ekki lengra með málið. Þá kvað vitnið samband ákærða við G hafa verið stormasamt og hafi hann vitað til þess að barnaverndaryfirvöld hefðu haft afskipti af heimilinu. Minnti vitnið að hann hefði á sínum tíma rætt málið óformlega við þáverandi félagsmálastjóra. Kvað vitnið að enginn hefði rætt atvikið við stúlkuna á sínum tíma. 

Vitnið L lögreglufulltrúi  kvað ákærða sjálfan hafa veitt upplýsingar um ætlað brot en vitnið hafi í kjölfarið haft samband við brotaþola. Hann hafi ekki hvatt hana til að kæra heldur einungis spurt hvort hún vildi það.

Niðurstaða.

Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa nuddað og sleikt kynfæri brotaþolans A og sett fingur inn í þau. Á því er byggt í ákæru að þetta hafi gerst í júlí eða ágúst 2001 en þá var brotaþoli [...] ára gömul. Ákærði hefur neitað sök en kannast við að hafa verið borinn sökum á þessum tíma um kynferðisbrot gagnvart brotaþola. Ákærða minnti að brotaþoli hefði skriðið upp í rúm til hans þar sem hann svaf, en það hafi ekki verið óvanalegt. Hann hafi vaknað við að hún hafi verið í  einhverri fýlu og óhress en hann hafi þó ekki vitað hverju það sætti. Hann kannaðist ekki við að hafa gefið stúlkunni pening umrætt sinn. Móðir brotaþola hafi fljótlega eftir þetta sakað ákærða um brot gegn barninu og hann í kjölfar þess rætt bæði við lögregluna og sálfræðing.  Ákærði kvaðst hafa  átt við þunglyndi að stríða á þessum tíma og því verið hjá sálfræðingi. Hann kvaðst hafa leitað til lögreglu þar sem hann hafi óttast að hann hefði meitt eða sært einhvern, en einnig til að stilla til friðar innan fjölskyldunnar. Ákærði kannaðist ekki við að hafa gefið móður brotaþola þá skýringu að hann hefði ruglast á henni og stúlkunni. 

Brotaþoli hefur lýst því fyrir dómi að hún hafi skriðið upp í rúm til ákærða  en það hafi ekki verið svo óvanalegt. Ákærði hafi ekki verið nakinn umrætt sinn og hún hafi sjálf verið í nærfötum. Ákærði hafi farið að strjúka vitninu um magann, sem henni hafi þótt í lagi, en ákærði hafi síðan fært sig neðar og neðar. Ákærði hafi svo farið að „putta“ hana, þ.e. nudda á henni kynfærin og farið „inn í“ með puttann. Þá hafi ákærði sleikt kynfæri hennar. Þetta hafi hann gert í smá stund. Kvað vitnið að eftir á hafi ákærði sagst hafa haldið að hún vildi þetta. Hafi H frændi hennar komið eftir þetta og séð að eitthvað væri að. Kvað vitnið ákærða hafa gefið sér 2000 krónur og beðist fyrirgefningar og minnti vitnið að H hafi orðið vitni að því. Vitnið hafi síðan farið út með H og hann náð upp úr henni hvað gerst hefði, en hún hafi fyrst ekki þorað að segja honum frá atvikinu. Þá kvaðst vitnið einnig hafa sagt frænku sinni frá atvikinu og þau síðan sagt móður hennar frá þessu.  Vitnið kvað ákærða hafa útskýrt þetta sem svo fyrir móður hennar að ákærði hefði ruglast á þeim mæðgunum og því hafi móðir hennar trúað allt þar til vitnið hafi sagt henni að ákærði hefði sagt við sig að hann héldi að vitnið vildi þetta.

Móðir brotaþola skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði frétt frá I, systur sinni hvað hefði gerst.  Hafi vitnið í framhaldi af því rætt við dóttur sína en hún hafi ekki sagt vitninu frá öllu því sem gerst hefði en sagt að ákærði hefði leitað á sig og farið niður í nærbuxur sínar. Kvaðst vitnið hafa  rætt þetta við ákærða og hann sagt þetta rétt, en hann hefði haldið að það hefði verið vitnið sem lægi í rúminu. Kvað vitnið þetta hafa verið afgreitt sem slys en stúlkan hefði oft komið upp í rúmið fram að þessu. Vitnið hafi þó tekið eftir því að eftir umrætt atvik hafi stúlkan ekki komið upp í rúmið ef ákærði var þar, en vitnið hafi ekki velt því meira fyrir sér. Kvað vitnið telja að þetta hafi verið á árinu 2000 eða 2001, en þá um verslunarmannahelgi hafi hún verið að vinna á hóteli. 

Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi tjáð honum að ákærði hafi verið að „fikta þar sem hann hefði ekki átt að fikta“, ákærði hefði verið að fara inn á hana og fleira í þeim dúr, en vitnið vissi ekki hvað þetta hefði gengið langt. Eftir það hefði ákærði átt að hafa gefið brotaþola pening, 1000 eða 2000 krónur til að þagga niður í henni og kvaðst vitnið muna það vel að hún hafi sýnt honum peninginn, en hann hafi ekki séð ákærða gefa henni peninginn. 

Móðursystir brotaþola, I, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði sagt sér frá atvikinu, líklega á árinu 2001. Hafi hún sagt að ákærði hefði haldið að hún væri mamma sín, hann hafi komið upp í rúm til hennar og hann hafi verið að strjúka kynfæri hennar. Kvað vitnið brotaþola hafa verið bæði hissa og hrædda, eins og hún hafi ekki alveg áttað sig á þessu. Þá kvaðst vitnið hafa skrifað um þetta í leyndarmálabókina sína eins og hún komst að orði.  Þar kom efnislega fram að ákærði og systir vitnisins hafi hætt saman sökum þess að hann hafi næstum verið búinn að nauðga brotaþola. Hafi hann verið byrjaður að káfa á henni, hann hafi sleikt einn putta og farið undir nærbuxurnar hennar og strokið á henni pjölluna. 

Vitnið J lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði á sínum tíma hitt ákærða á förnum vegi þegar vitnið var í fríi, gæti hafa verið í júlí eða ágúst árið 2001.   Ákærði hafi m.a. sagt að sambýliskona hans hefði verið að bera á ákærða að hann hefði verið að leita á dóttur hennar. Kvaðst vitnið ítrekað hafa spurt ákærða hvort eitthvað væri til í því, en ákærði neitað. Þó hafi ákærði sagt að stúlkan svæfi oft upp í rúmi hjá þeim og hann hefði hugsanlega eitthvað ruglast á þeim mæðgum og strokið stúlkunni. Kvað vitnið málið ekki hafa verið tilkynnt til barnaverndaryfirvalda og þá hafi ekki bókað neitt um málið. 

K sálfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið með ákærða til meðferðar á umræddum tíma.  Hafi ákærði hringt í sig og óskað eftir viðtali. Vitnið hafi þá hitt ákærða og hann sagt vitninu frá því atviki er átt hafi sér stað inni á heimilinu. Ákærði hafi sagst hafa verið sofandi uppi í rúmi og eitthvað verið búinn að drekka kvöldið áður. Sambýliskona ákærða hafi verið farin til vinnu og  fósturdóttir hans komið upp í til hans. Ákærði hafi síðan vaknað við það að stúlkan hafi snúið í hann bakinu og verið eitthvað fúl. Ákærði hafi síðar frétt að hann hafi leitað á stúlkuna og við það hafi honum brugðið mjög. Þá hafi ákærði verið í vandræðum með hvernig hann skyldi snúa sér í málinu, en hann og G hafi komið sér saman um að hann kæmi heim aftur. Vitnið kvaðst jafnvel minna að ákærði hefði viljað leita til lögreglunnar vegna málsins, en G hafi verið viðkvæm fyrir því að málið færi lengra og kvað vitnið þau mögulega hafa komið sér saman um að fara ekki lengra með málið. 

Ákærði hefur kannast við að brotaþoli hafi á umræddum tíma komið upp í rúm til hans þegar hann var sofandi og þá er upplýst að móðir brotaþola bar hann þeim sökum að hafa leitað á dóttur hennar. Staðfest hefur verið fyrir dómi að ákærði hafi á þessum tíma sagt lögreglumanni og sálfræðingi frá atvikinu en ákærði kannast ekki við að hafa gefið þær skýringar að hann kynni að hafa ruglast á brotaþola og móður hennar. Framburður brotaþola fær stoð í framburði H og I móðursystur hennar og þá kannast móðir brotaþola við   brotaþoli hafi sagt að ákærði hefði leitað á sig og farið niður í nærbuxur sínar. Að mati dómsins styrkir það sérstaklega frásögn brotaþola að móðursystir hennar skyldi á sínum tíma hafa skráð hjá sér frásögn hennar eins og að framan er rakið. Að mati dómsins er framburður vitna í máli þessu einkar trúverðugur og verður því að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Telja verður að tengsl ákærða við brotaþola hafi verið slík er í 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga greinir, enda hefur brotaþoli lýst því að hún hafi litið á ákærða sem stjúpföður sinn. Er háttsemi ákærða því rétt lýst í þessum lið ákærunnar og brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Verjandi ákærða hefur byggt vörn sína samkvæmt þessum ákærulið á því að sök ákærða sé fyrnd. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn þeirri lagagrein varðar nú fangelsi allt að 12 árum sé barn yngra en 16 ára. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga en brot gegn þeirri lagagrein varðar nú fangelsi, ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Þegar brot ákærða var framið sumarið 2001 varðaði brot gegn 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga fangelsi allt 6 árum og allt að 10 ára fangelsi væri barn yngra en 16 ára og brot gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga varðaði fangelsi allt að 12 árum. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 82. gr. sömu laga taldist fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt 194.-202. gr. laganna eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli náði 14 ára aldri. Brotaþoli varð 14 ára 22. júlí 2004 og er sök ákærða því ófyrnd. 

Ákæruliður B.

Brotaþolinn B skýrði svo frá í skýrslutöku fyrir dómi 8. júní 2010  að ákærði hafi verið að gera eitthvað við sig þegar brotaþolinn C gisti hjá henni. Hafi C vaknað og þá hafi ákærði verið að káfa eitthvað á henni. Kvað brotaþoli C hafa sagt sér í frímínútunum í skólanum að ákærði hafi verið að káfa á „kyni“ C þegar hún gisti hjá brotaþola og að ákærði hefði nærri verið búinn að girða niður um hana. C hafi vakið hana, en ekki viljað segja sér hvað ákærði hefði gert, C hefði viljað fara heim og hálfpabbi hennar hefði sótt hana. Þá hafi þetta líka komið fyrir systur brotaþola og hafi móðir hennar sagt henni frá því. Þá bar hún að ákærði hefði læst sig niður í kjallara en hún hafi verið í tölvunni. Hana minnti að þetta hefði verið morguninn eftir að C gisti hjá henni. Hafi ákærði svo farið inn í hitt herbergið og vitnið komið þangað. Hafi ákærði sagst ætla að gera eitthvað gott í píkuna á henni. Ákærði hafi tekið hana úr náttbuxunum og nærbuxunum.  Kvað brotaþoli að hana hafi ekki langað að hann væri að gera þetta við hana, þetta hafi ekki verið gott, hún hafi ætlað í burtu en ekki þorað það. Hún kvaðst hafa legið á bakinu á bekk, í lyftingaherberginu, og ákærði setið á móti sér, við fætur hennar. Aðspurð um hvað hafi verið vont kvað hún það hafa verið í píkunni og hafi ákærði verið með typpið í píkunni. Hún kvaðst hafa beðið ákærða að hætta og hann svarað því að hann væri að verða búinn. Þegar ákærði hafi hætt hafi hún klætt sig í buxurnar sínar og farið upp. Brotaþola fannst þetta hafa verið langur tími. Þá hafi ákærði sagt henni að hún mætti ekki segja mömmu sinni frá þessu. Kvað hún mömmu sína og systkini hafa verið heima umrætt skipti, systkinin hafi verið sofandi í rúminu og mamma hennar sofandi á sófanum.

Í skýrslutöku sem fram fór 26. nóvember 2010 lýsti brotaþoli því að ákærði hefði verið að láta typpið á hendurnar og munninn á vitninu og hafi þetta átt sér stað í tölvuherberginu. Framburður brotaþola var nokkuð á reiki með það hversu oft þetta hafi verið en þetta hafi verið í eitt eða fjögur skipti hvað varðar munninn en eitt eða þrjú, eða fjögur hvað varðar hendurnar. Hún kvað þetta fyrst hafa gerst þegar hún var 7 ára og taldi það hafa verið eftir jól. Brotaþoli lýsti því að í fyrsta skiptið hafi ákærði verið að láta typpið í hendur hennar, sem og annað til „sexta“ og þá í „sjötta“ skiptið hafi ákærði sett typpið í píkuna og verið að sleikja hana. Kvaðst hún viss um að ákærði hefði bara einu sinni sett typpið í píkuna en hitt hefði hún ekki talið, þá kvað hún að hún hefði verið átta ára þegar það gerðist. Lýsti hún því að henni hefði liðið illa í hjartanu. Kvað hún atvikin öll hafa átt sér stað í tölvuherberginu og lyftingaherberginu á neðstu hæðinni á heimili ákærða. Kvaðst hún stundum hafa verið í tölvunni, þá í leikjum og á „youtube“. Hún kvaðst oft hafa gist á heimili ákærða og hafi hún þá sofið upp í hjá ákærða og móður sinni og þá verið í miðjunni. Kvað hún ákærða þó eiginlega aldrei hafa gist heima hjá henni. Hún lýsti atviki þar sem hún gisti ein heima hjá ákærða með honum og kvað hún hann þá hafa verið með typpið eitthvað, hann hafi þó aldrei náð að láta typpið á hana þar sem hún hafi farið undan sænginni. Kvað hún mömmu sína hafa komið um morguninn. Brotaþoli kvað engan hafa orðið vitni að hinu ætluðu brotum nema hundinn. Mamma hennar hafi alltaf verið uppi. Hún kvað ákærða ekki hafa verið með myndavélar á meðan hinum ætluðu brotum stóð. Þá kvað hún ákærða hafa sýnt sér hreyfimyndir í tölvunni er sýndu níu ára stelpu með pabba sínum og hafi þau bæði verið allsber, stúlkan hafi verið með litlum krökkum og pabba þeirra og þau hafi eitthvað verið að fikta í typpinu, stelpan hafi verið að láta munninn á typpið á pabbanum og hann hafi verið að gera eitthvað gott í píkuna á henni. Sérstaklega aðspurð um hvað hún meinti með gott í píkuna kvað hún pabbann hafa verið að sleikja píkuna. Kvaðst hún halda að hún hefði séð fimm eða þrjár svona myndir. Þá lýsti hún annarri hreyfimynd þar sem stelpa hefði verið með pabba sínum og sýndi hvernig stelpan hefði verið að gera við typpið á honum. Kvað hún ákærða hafa bannað sér að segja mömmu sinni frá þessu að þetta hafi verið leyndarmálið þeirra. Kvaðst brotaþoli ekki vita um önnur börn sem hefðu lent í þessu, utan þeirra á myndböndunum. Hún kvað ákærða hafa sýnt sér myndir af stelpunni með pabba sínum þegar hún var sjö ára, en hinar myndirnar hafi hann sýnt henni þegar hún var átta ára, þetta hafi verið fleiri skipti. Þá lýsti hún atviki þar sem ákærði tók hundinn sinn upp til sonar síns, þá hafi hann verið að fela sig fyrir móður brotaþola, en hún hafi verið búin að brjóta hurðina. Ákærði hafi lokað hratt, farið hinum megin og út, þar sem hann hleypti hundinum alltaf út. Hafi hann farið þar upp og lokað hurðinni, labbað upp tröppurnar, bankað og farið inn.

Ákærði bar fyrir sig minnisleysi fyrir dómi aðspurður um 1. tl. B-kafla í ákæru.   Hann kvað tengsl sín við brotaþola vera í gegnum E, móður stúlkunnar, sem hann hafi átt í sambandi við í um sex ár, en ákærði hafi ekki beint litið á stúlkuna sem stjúpdóttur sína. Stúlkan hafi oft og tíðum verið á heimili ákærða, sem og önnur börn E og hafi þau jafnframt oft sofið þar. Ákærði kvaðst þó ekki hafa viljað að börnin væru á heimili hans á skóladögum, þau hafi þannig átt sitt eigið heimili hjá móður sinni. Þá hafi ákærða ekki líkað vel þegar tilsjónarmaður barnaverndarnefndar hafi komið á heimili hans, enda viðurkenni hann bjórdrykkju sína og að ekki sé spennandi að hafa börn í kringum slíkt. Ákærði kvaðst hafa tekið fyrir að vera barnapía og því ekki verið einn með börnunum þegar móðir þeirra hafi verið í helgarvinnu á skemmtistaðnum Lundanum. Hann kvað þó stúlkuna hafa verið eina hjá honum í einhver skipti, en stúlkan hafi oft komið og verið hjá honum. Kvað ákærði samband sitt við stúlkuna hafa verið nokkuð gott, engin illindi hafi verið á milli þeirra utan stakra fýlukasta eins og börnum sé eðlilegt. Þá kvað ákærði stúlkuna oft hafa verið í tölvu sem verið hafi í kjallaraherbergi á heimili hans. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki geta svarað því hvort hann rengdi framburð barnsins, en ákærði kvaðst ekki muna ekki eftir þessu. Þá kvaðst ákærði engar skýringar hafa á framburði barnsins.

Að því er varðar 2. tl. B-kafla ákærunnar kvað ákærði myndir þær sem sá ákæruliður tekur til vel geta verið af brotaþola. Hann kannaðist við að sængurver sem sjáist í geti verið hans sængurver, en hann kvaðst ekki sjá hvort myndirnar væru teknar í hans rúmi. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa tekið myndir þann dag sem umræddar myndir eru vistaðar og telur hann að mögulegt sé að einhver annar hafi tekið þær en það fólk sem verið hafi á heimili hans hafi haft aðgang að myndavélum hans og símum, þ.m.t. E og börn hennar. Þá kvað ákærði myndskeið, sem borið var undir hann, einnig geta hafa verið tekið á heimili hans, en hann muni ekki eftir að hafa sett umrætt myndskeið yfir á stafrænt form og í tölvu sína. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði þó kunna það og almennt hafa gert það við upptökur sínar. Kvað ákærði E og börn hennar hafa haft aðgang að tölvum í hans eigu, en hann eigi fleiri en eina, þá eigi ákærði ógrynni af hörðum diskum, en hann kvaðst ekki vita úr hvaða tölvu sá diskur væri sem umrætt efni fannst á en þó væri klárt að það hefði verið á tölvu eða hörðum diski í hans fórum. Þá kvað ákærði að líklega hafi hann sett efnið sjálfur á tölvu sína, en hann muni þó ekki til þess, en hann hafi almennt séð um að færa slíkt efni yfir á tölvurnar af myndavélum og símum. Hann kvaðst einnig hafa gert þetta fyrir E, en hún hafi hvorki kunnað þetta né átt tölvu sjálf. Myndir hefðu almennt verið færðar á hans tölvu og tölvu elstu dóttur E. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki telja að umræddar myndir væru kynferðislegar eða klámfengnar, en honum þættu þær þó ósæmilegar.

Varðandi 3. tl. B-kafla ákærunnar kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa framið þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök. Kvaðst ákærði rengja þann framburð brotaþola að hann hafi sýnt henni umrætt efni og bannað henni að segja frá því. Ákærði kvaðst telja að stúlkan hafi þó getað hafa „rambað inn á þetta“ þar sem hún hafi verið í tölvunni, hann viti þó ekki hvort hún hafi færni til að opna skjöl í tölvunni, en hún hafi getað farið á netið án aðstoðar. Þá kvaðst ákærði hafa haft orð á því við lögreglu að hann væri að finna barnaklám og þá verið að velta fyrir sér hvernig bregðast skyldi við því. Kvað ákærði lögreglu hafa sagt sér að láta það vera.

Að því er varðar 14. tl. B-kafla ákæru lýsti ákærði atvikum þannig að umræddan morgun, 30. maí 2010, sem hann muni nokkuð vel, hafi hann og E verið nýkomin heim af skemmtistaðnum [...]. Kvað ákærði ástand sitt hafa verið nokkuð gott, en hann hafi þó verið aðeins ölvaður. Þau E hafi farið að rífast og á endanum hafi ákærði farið niður í tölvuherbergið sitt í kjallara hússins í þeim tilgangi að hlusta á tónlist án E. Hún hafi komið niður og sótt tölvu dóttur sinnar og farið upp aftur. Þegar hann hafi farið upp að sækja sér brennivínsleka sem hann átti hafi hann séð að hún hafi verið í tölvunni á samskiptavefnum Facebook. Hann hafi farið aftur niður í kjallara, læst að sér og slökkt á „routernum“ sem hafi verið í tölvuherberginu og E hafi því ekki getað verið á netinu. Við þetta hafi E komið niður og byrjað að banka á hurðina og reyna að ná sambandi við ákærða en hann bara hækkað í hljómflutningstækjunum. E hafi  þá farið að sparka í hurðina og hafi ákærði þá í kvikindisskap ákveðið að læðast út hinum megin og upp á loft, þannig að E sæi hann ekki, en barnsmóðir ákærða leigi á hæðinni fyrir ofan. Hafi ákærði vaðið inn á barnsmóður sína, lokað og læst. E hafi fljótlega komið upp en mjög hljóðbært   og við þetta hafi krakkastóðið allt vaknað. E hafi farið út og gangsett bifreið ákærða en hann þá hringt í lögregluna til að koma í veg fyrir að E æki brott. Lögreglan hafi komið á staðinn og tekið bíllykilinn. Þá kvað ákærði að E  hafi verið búin að tína saman dótið sitt og hafi hún sent brotaþola upp til ákærða til að biðja hann að hringja á leigubíl. Það hafi ákærði þó ekki gert. Að lokum hafi hurðinni verið skellt með öskrum, látum og dónaskap og E farið burt með dótið sitt og börnin. Sérstaklega aðspurður kvað ákærði brotaþola ekki hafa verið læsta inni hjá sér, heldur hafi hún verið sofandi á meðan þessu gekk, í herbergi fyrir ofan tölvuherbergið.

E, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að á mánudeginum 31. maí 2010, er vitnið hafði frétt frá móður C hvað gerst hefði  um helgina, hefði hún rætt málið við dóttur sína. Vitnið hafi spurt stúlkuna hvort ákærði hafi eitthvað gert við hana og hún í framhaldi af því sagt vitninu að ákærði hafi ætlað að vera góður við pjölluna hennar með typpinu. Kvað vitnið stúlkuna þó ekki hafa nefnt neinar dagsetningar í þessu samhengi. Hafi vitnið þá farið rakleiðis niður á lögreglustöð og kært ákærða. Hafi vitnið fyrst ætlað að koma við hjá ákærða til að ræða við hann, en hætt við það og farið beint til lögreglunnar. Kvaðst vitnið ekki hafa rætt það við stúlkuna hvort ákærði hafi gert eitthvað við fleiri, þó kunni að vera að stúlkan hafi heyrt samtal vitnisins við eldri dóttur sína, en hún hafi sagt henni frá einu tilfelli er varðaði ákærða, sem þó hafi ekki verið af kynferðislegum toga.

Að því er varðar sunnudagsmorguninn 30. maí 2010, kvað vitnið hana og ákærða bæði hafa verið undir áhrifum áfengis. Þau hafi farið að rífast og við það hafi brotaþoli vaknað. Vitnið hafi farið að ræða við stúlkuna en hún svo horfið og vitnið farið að leita hennar en ekki fundið. Hafi ákærði þá verið búin að læsa sig niðri í kjallara með stúlkunni, en vitnið kvaðst hafa haft þetta á tilfinningunni auk þess sem stúlkan hafi staðfest það við vitnið seinna. Vitnið kvaðst hafa orðið mjög reið og hafi hún sparkað upp hurðina að kjallaraherberginu, enda hafi henni ekki þótt eðlilegt að ákærði væri að læsa sig inni með stúlkunni. Í millitíðinni hafi ákærði verið búinn að hleypa stúlkunni út um aðra hurð, sem hafði einnig verið læst þegar vitnið kom niður í kjallarann. Eftir að vitnið hafi sparkað upp hurðinni hafi vitnið orðið vart við að ákærði hafi verið kominn upp á loft til sinnar fyrrverandi. Kvaðst vitnið ekki muna til þess að ákærði hafi slökkt á „routernum“ meðan vitnið hafi verið í tölvunni. Þá kvaðst vitnið ekki hafa beðið brotaþola að biðja ákærða um að hringja á leigubíl, vitnið hafi sjálf hringt í barnsföður sinn, en hann ekki getað skutlað þeim og hún því farið gangandi heim með börnin. Kvaðst vitnið hafa tekið lyklana að bifreið ákærða og gangsett hana, þetta hafi hún gert til að reyna að fá ákærða út úr húsinu til að ræða við sig. 

Um samband sitt við ákærða bar vitnið að þau væru búin að vera saman í fimm ár með hléum. Þau hafi þó ekki verið í sambúð, en mikið á heimili hvors annars, hún þó meira á hans og þá með börnin. Kvað vitnið brotaþola oft hafa verið eina með ákærða en stúlkan hafi mikið leitað til hans. Hafi það aðallega verið á heimili hans og í tölvuherberginu í kjallaranum. Vitnið kvað ákærða hafa haft aðgang að tölvu í kjallaraherbergi og hann hafi einn séð um að flytja gögn af tækjum yfir á tölvuna. Þá hafi það helst verið brotaþoli sem fengið hafi að fara í tölvuna í kjallaraherberginu. Hin börnin hafi þó einstaka sinnum fengið afnot af þeirri tölvu, en aðgangur brotaþola að tölvunni hafi verið nánast óheftur. Um tölvukunnáttu stúlkunnar bar vitnið að hún gæti ekki farið hjálparlaust í þá leiki er hún spilaði og taldi vitnið að stúlkan hefði ekki færni til að opna möppur og skjöl hjálparlaust.

Vitnið kvað eldri systur barnanna oft hafa passað þau er vitnið var á vinna á nóttunni, en þau hafi einnig verið hjá pabba sínum. Kvaðst vitnið ekki muna til þess að stúlkan hafi gist ein á heimili ákærða, hin börnin hafi ávallt verið nálægt. Þá kvaðst vitnið ekki muna til þess að ákærði eigi við minniserfiðleika að stríða, ekki nema að því leyti er tengist drykkju. Um aðgang sinn og barna sinna að myndavélum og símum í eigu ákærða kvað vitnið það helst hafa verið í þau skipti sem hún hafi fengið stafræna myndavél lánaða við sérstök tækifæri. Hafi börnin þá fengið að taka myndir á hana, en þau hafi ekki haft aðgang að síma eða myndbandsupptökuvélum í eigu ákærða, en hægt sé að taka hreyfimyndir á stafrænu vélina er hún nefndi fyrr. Þá kvað vitnið börnin ekki hafa haft aðgang að símum í eigu ákærða. Undir vitnið voru bornar myndir er liggja frammi í málinu og sýna stúlku í fötum. Kvað vitnið þarna vera um brotaþola að ræða. Kvaðst vitnið ekki kannast við myndirnar og hafi hvorki hún né börn hennar tekið þessar myndir. Börnin taki bara myndir af því sem veki áhuga þeirra, t.d. bílum eða náttúrunni, þá taki þau aðeins myndir af andlitunum á sér og ef þau séu að „pósa“ taki þau „fyrirsætupósur“, þau taki ekki myndir fyrir neðan mitti.

Um líðan brotaþola bar vitnið að hún væri ekki góð. Stúlkan ætti til í að detta í hugrof og ætti oft og tíðum erfitt með að einbeita sér. Hafi þetta verið svona í um það bil tvö ár. Þá sé stúlkan óörugg og sæki mikið í einveru.

Faðir brotaþola, D, skýrði svo frá fyrir dómi að  umgengni við stúlkuna á umræddum tíma hafa verið þannig að hún hafi verið viku í senn hjá hvoru foreldri, en því hafi síðan verið breytt þannig að stúlkan væri í mánuð í senn hjá hvoru foreldri, en vitnið kvaðst hafa skilið við móður stúlkunnar fyrir sjö árum.  Vitnið kvaðst fyrst hafa orðið vart við breytingar á líðan stúlkunnar haustið sem hún var sjö ára og hafi það lýst sér þannig að erfitt hafi orðið að vekja hana. Hún hafi þannig hvorki opnað augun né svarað þó hún væri vöknuð. Taldi vitnið ekki hafa orðið neinar breytingar í lífi barnsins á umræddum tíma sem útskýrt gæti þetta. Þá kvað vitnið að haustið eftir, þegar stúlkan var 8 ára, hafi hún verið orðin mjög lítil í sér og t.d. hlaupið út í horn eða undir rúm og grátið ef henni var bannað eitthvað. Fram að því hafi stúlkan ávallt staðið upp í hárinu á manni við slíkar aðstæður. Sumarið sem hún varð átta ára hafi vitnið einnig orðið vart við að stúlkan væri farin að draga sig út úr hópum og ekki viljað vera með í leikjum, t.d. þegar þau fóru upp í sveit að leika við önnur börn. Stúlkan hafi áður alltaf verið tilbúin að taka þátt og leika við alla, en þarna hafi hún byrjað að „kúpla sig út úr.“

Um líðan stúlkunnar eftir að málið komst upp, en þá hafi barnið að mestu verið hjá vitninu, kvað vitnið stúlkuna eiga erfiðara með samskipti við aðra og hún dragi sig mikið út úr öllu, en hún hafi áður verið mjög lífsglöð. Þá virki stúlkan dofin, líkt og hún hafi lokað sig af frá svo mörgu. Stúlkan hafi minna sjálfstraust, þurfi meiri hvatningu. Þá hafi vitnið merkt breytingar hjá stúlkunni eftir að ákærði var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald, stúlkan hafi verið ánægð og henni létt enda hafi hún verið óttaslegin við ákærða, þá hafi hún sagt vitninu að nú gæti hún hætt að upphugsa leynileiðir heim til sín, en hún hafi lýst því fyrir vitninu hvernig hún hafi verið búin að upphugsa ákveðnar leiðir til að fara ef ákærði yrði á vegi hennar. Kvaðst vitnið ekki tengja breytingar á hegðun stúlkunnar við vanrækslu móður hennar. Kvað vitnið stúlkuna ekki hafa rætt ætluð brot við sig en hún hafi sótt stuðningsviðtöl í Barnahús fram á sumar og muni hefja þau á ný í haust. Kvað vitnið ástand stúlkunnar hafa skánað, en hún eigi þó enn langt í land að mati vitnisins. Þá kvað vitnið stúlkuna afar sjaldan hafa talað um ákærða, að öðru leyti en hún hafi nefnt að hann hefði leyft henni að vera í tölvunni. Þá kvaðst vitnið ekki þekkja til tölvukunnáttu stúlkunnar.

M, yfirfélagsráðgjafi hjá [...], lýsti fyrir dómi   afskiptum barnaverndarnefndar af brotaþola. Bar vitnið að frá vorinu 2005 hafi verið nokkurn veginn samfelld tilsjón á heimili móður brotaþola. Vitnið bar að tilsjónarmaður hefði fylgst með líðan barnsins og þá hefði verið rætt við forsjáraðila. Þá hafi ýmislegt komið fram í skóla sem bent hafi til vanlíðunar barnsins. Hafi þetta verið rakið til vanrækslu sem og þess að rót hafi verið á stúlkunni á milli heimila föður og móður. Tilsjónarmaður hafi rætt við börnin, en þar hafi ekkert komið fram. Vitnið kannaðist ekki við að stúlkan hafi sérstaklega verið spurð út í kynferðislegt ofbeldi, enda hafi engar vísbendingar verið uppi um að slíkt væri fyrir hendi. Kvað vitnið stúlkuna hafa verið viðkvæma fyrir vegna vanrækslunnar, en vanrækt börn eigi erfitt með mörk, traust og samskipti. Þannig sé ólíklegra að barnið hafi tjáð sig um þetta, enda hafi það sýnt sig í viðtölum sálfræðings Barnahúss að mjög erfitt var að fá hana til að opna sig.  Þá taldi vitnið mjög hæpið að barn sem hefði búið við svona vanrækslu og lengi við slæman aðbúnað, væri tilbúið til að stíga fram og láta vita hvað væri í gangi.

Vitnið N læknir  kvaðst hafa skoðað brotaþola 1. júní 2010. Fyrir lá að barnið hafi nokkru síðar lýst því að ákærði hafi „sett typpið inn í píkuna“ og það hafi verið vont. Kvað vitnið algengt að börn lýsi því oft í málum sem þessum að eitthvað sé sett inn í þau þegar í raun sé aðeins verið að snerta barnið, eða farið rétt inn fyrir, þó ekki inn fyrir meyjarhaftið sjálft, sem staðsett sé rétt fyrir innan barmana, kannski um hálfum centimetra fyrir innan. Þannig sé oft einungis um núning að ræða þó barnið upplifi það sem „inn“. Vitnið kvað op við meyjarhaft brotaþola vera það lítið að ólíklegt væri að getnaðarlimur hefði farið þar inn fyrir. Taldi vitnið að líklega væri opið við meyjarhaftið meðfætt. Þá væru kantar jafnir og fínir og því ólíklegt að opið væri til komið af öðrum ástæðum. Engir áverkar hafi verið á stúlkunni, engin bólga eða bjúgur í kringum meyjarhaftið, en þó gæti vel verið að hún hafi meitt sig. Kvað vitnið þetta geta verið eðlilegt ef stöðvað hefði verið þegar stúlkan meiddi sig. Þá kvað vitnið mjög „brútalt“ ofbeldi þurfa til að allt sé rifið. Barnið upplifi engu að síður ofbeldi gegn sér, þá sérstaklega við endaþarmsmök en mjög erfitt sé að greina þar hvort getnaðarlimur hafi farið inn, þar sem hægðir barns geti verið jafnar getnaðarlim að sverleika.    

Vitnið O læknir staðfesti fyrir dómi að hafa skoðað kynfæri ákærða. Vitnið kvað forhúð vanta sem samsvari því að umskurður hafi átt sér stað.

Vitnið P, umsjónarkennari brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að stúlkan hafi sætt vanrækslu af hálfu móður sinnar. Þannig hafi stúlkan t.d. ekki mætt í skólann þegar hún hafi verið hjá móður sinni, hún hafi ekki komið ekki með íþróttadót og nesti hafi vantað. Um færslur hvað barnið varðar í kerfi skólans og ástæðuna fyrir því að enga færslu sé þar að finna frá 15. október 2009 til 7. september 2010, kvað vitnið ákveðna hluti ekki vera færða inn í þetta tiltekna kerfi, enda hafi foreldrar aðgang að þeim upplýsingum sem þar séu færðar inn. Þannig hafi ekki verið skráðar inn í þetta tiltekna kerfi tvö tilvik á fyrri hluta árs 2010 sem vitnið hafi tilkynnt hjúkrunarfræðingi. Vitnið bar að henni og vitninu Q hafi fundist barnið sýna mjög óeðlilega hegðun sem ekki hafi samsvarað aldri. Kvað vitnið stúlkuna hafa verið í tíma hjá Q, sem sé stuðningskennari. Stúlkunni hafi verið heitt og hafi hún því klætt sig úr. Hafi Q þá séð að hún var í gegnsæjum „tígristoppi“ af móður sinni. Við nánari skoðun hafi stúlkan einnig borið leifar af andlitsmálningu, þ.e. maskara og annað. Þetta hafi vitninu og Q þótt óeðlilegt og því sent stúlkuna til hjúkrunarfræðings. Hjúkrunarfræðingurinn hafi þó sagt þeim að stúlkan hafi ekkert viljað segja sér, ekkert vilja gera eða tala. Þá kvað vitnið stúlkuna hafa sýnt kynferðislegar hreyfingar, en þetta séu þau merki sem vitninu hafi verið kennt að leita eftir á námskeiði hjá „Blátt áfram“. Hitt tilvikið kvað vitnið hafa verið í lok maí sama ár. Þá hafi stúlkan meitt sig eitthvað úti. Þegar Q hafi síðan tekið við henni hafi hún ekki mátt sjá. Stúlkan hafi beygt sig og verið öll í kör, og Q ekki mátt sjá. Þetta hafi þeim vitninu og Q þótt óeðlilegt og þær því aftur sent hana til hjúkrunarfræðingsins og beðið um að rætt yrði við stúlkuna um þessi mál, hvort eitthvað væri að heima eða eitthvað í gangi. Þá kvað vitnið þær Q hafa látið hjúkrunarfræðinginn vita af áhyggjum sínum. Ekkert hafi þó komið út úr samtali hjúkrunarfræðingsins við stúlkuna annað en það, sem vitnið kvaðst ekki hafa fengið skilaboð um strax, að stúlkan var í umrætt sitt í bol af ákærða innanundir sínum eigin fötum og hafi það verið það sem hún vildi ekki að Q og vitnið sæju. Þá hafi stúlkan á þessu tímamarki algerlega verið farin að draga sig inn í skel. Hún hafi verið hætt að hafa samskipti við þá einstaklinga sem hún hafði áður haft mikil samskipti við. Stúlkan hafi sýnt einkenni hrikalegrar vanlíðunar og lýsti vitnið því svo að ljósið í augum stúlkunnar hafi slokknað. Þá hafi stúlkan dregið sig undir borð og ruggað sér, en engin leið hafi verið að ná sambandi við hana. Þá hafi stúlkan verið hrædd við að ganga ákveðnar götur. Kvað vitnið að stúlkan hafi aftur orðið fyrir áfalli í byrjun desember sl., en þá hafði hún aðeins verið farin að koma til baka. Samkvæmt upplýsingum frá föður brotaþola kvað vitnið þetta hafa verið á þeim tíma er stúlkunni var sagt frá myndunum. Þá kvað vitnið að nú síðastliðið vor hafi aðeins verið farið að glitta aftur í stúlkuna sem hún þekkti sem brotaþola.

Vitnið Q, stuðningskennari brotaþola, kvaðst hafa kennt henni allt frá því að stúlkan byrjaði í skólanum árið 2007. Hafi vitnið strax um áramótin 2008 og 2009 merkt breytingar í hegðun stúlkunnar, en þá hafi borið mikið á einbeitingarskorti og því að stúlkan fór að dragast aftur úr í námi. Hafi þetta verið viðvarandi síðan og ágerst mjög. Þá hafi miklar skapgerðarbreytingar orðið hjá stúlkunni. Kvað vitnið hana hafa breyst úr því að vera hrókur alls fagnaðar, nokkuð vinsæl og örugg með sig í það að einangra sig frá öðrum, fara undir borð, stúlkunni hefði liðið illa og ekki hefði mátt koma við hana. Stúlkan hafi horfið inn í sjálfa sig að mati vitnisins. Kvað vitnið þetta hafa ágerst mjög er stúlkan var í 3. bekk, veturinn 2009 til 2010. Hafi hún og vitnið P haft ýmsar grunsemdir og farið að fylgjast vel með stúlkunni. Nokkur „losung“ hafi verið á heimili barnsins þar sem móðir hennar hafi verið í kvöld- og helgarvinnu og því hafi vitnið mikið spurt barnið út í það hvernig helgarnar væru, hvernig hefði gengið, hvar hún hafi verið o.s.frv. Kvaðst vitninu líða illa með það að móðir stúlkunnar væri að vinna allar helgar og stúlkan væri hjá ákærða. Hafi það verið vegna hegðunarbreytinga sem greinilega mátti merkja hjá stúlkunni, auk þess að ýmislegt hafi bent til þess að ekki væri allt í lagi. Kvað vitnið þær P oft hafa sent stúlkuna til viðtals hjá hjúkrunarfræðingi.

Vitnið R, sálfræðingur, skýrði svo frá fyrir dómi að mjög erfitt hefði verið að fá brotaþola til að ræða hin ætluðu kynferðisbrot. Stúlkan hafi verið í miklu áfalli og sýnt gríðarleg einkenni vanlíðunar sem og streitu, því hafi ekki verið talið viturlegt annað en að fara rólega að henni og miða meðferðina við forsendur stúlkunnar og nauðsynlegt hafi verið að byggja upp traust milli hennar og vitnisins. 

Hvað varðar þá ákvörðun að upplýsa stúlkuna um það að myndir og myndbönd hefðu fundist í fórum ákærða, er sýni stúlkuna á kynferðislegan hátt, kvað vitnið það ekki hafa verið auðvelda ákvörðun, en niðurstaðan hafi verið sú að best væri fyrir barnið að vita af þessu, m.a. að teknu tilliti til þess að hún muni sjálf afla sér upplýsinga um málið þegar hún hefði aldur og þroska til og gæti það orðið mikið áfall fyrir hana að komast að þessu þá. Kvaðst vitnið hafa sagt stúlkunni það beint út að vitnið hefði farið til lögreglu og séð þar myndir sem fundist hefðu í tölvubúnaði ákærða og spurt stúlkuna hvort hún myndi eftir myndatökunum. Hefði stúlkan játað því. Vitnið hafi lýst fyrir henni, þó ekki í smáatriðum, hvað sæist á myndunum og hafi stúlkan þá farið að segja vitninu frá einhverjum atvikum. Kvað vitnið stúlkuna hafa vitað af myndunum en hún hafi munað eftir því að það hefðu verið teknar myndir. Þó hafi stúlkan ekki munað eftir myndbandsupptökum.

Varðandi það að fjöldi tilvika er á reiki í framburði stúlkunnar kvað vitnið það vera eðlilegt, en almennt sé það svo að börn geri sér ekki grein fyrir fjölda tilvika óháð því hvort um sé að ræða skemmtileg eða leiðinleg atvik.

Að því er líðan brotaþola varðaði kvað vitnið helstu afleiðingar ætlaðra brota vera hugrofseinkenni, áfallastreituröskun og þá sé fyrirsjáanlegt að stúlkan þurfi að glíma við þetta um langt skeið. Kvað vitnið hugrofseinkenni stúlkunnar lýsa sér þannig að hún ætti til að detta út og stara út í loftið. Þá virtist stúlkan tilfinningalega aftengd í minningum um hið ætlaða kynferðisbrot en hugrof sé algengt meðal þolenda kynferðisofbeldis og geti hindrað tilfinningalegan bata eftir áföll. Kvað vitnið stúlkuna vera með þau alvarlegustu hugrofseinkenni sem vitnið hefði séð. Þá kvað vitnið stúlkuna nota hugrofið sem sjálfshjálp eða „self-soothing“, til að komast í gegnum alltof sársaukafulla reynslu. Þannig taldi vitnið hugrofseinkenni stúlkunnar frekar tengd alvarlegu áfalli en þeirri vanrækslu sem stúlkan hefði sætt af hendi móður sinnar. Þá taldi vitnið mögulegt, þó vitnið gæti ekki fullyrt um það, að stúlkan væri ekki sofandi á þeim myndum sem lágu frammi í málinu, heldur væri hún þar í hugrofsástandi. Kæmi það skýrt fram hjá stúlkunni í lýsingum hennar á atvikum hvernig hún sé á öðrum stað í huganum. Kvað vitnið þetta ástand geta skapað hættu fyrir barnið, þannig noti hún hugrof í aðstæðum er það teldi hættulegar og sé hún t.a.m. mjög utan við sig er hún er úti á gangi, þar sem hún telji hættu á að hún hitti ákærða og stafi henni þ.a.l. hætta af umhverfinu, s.s. bílaumferð. Þá kvað vitnið afleiðingar af hugrofi geta verið alvarlegar, eins og sjálfskaði, vímuefnaneysla og þróun alvarlegra persónuleikaraskana. Sé því þörf á frekari meðferð og mikilli eftirfylgni. Þá bar vitnið að vanræksla sú er stúlkan hefði sætt af hendi móður sinnar valdi því að stúlkan hafi verið síður í stakk búin til að takast á við áföll og auki því á önnur einkenni. Hvað það varðar að ástand stúlkunnar hafi versnað verulega, er henni var sagt frá myndunum sem fundist hafi í fórum ákærða, kvað vitnið það vera eðlilegt. Áfallameðferð virki þannig, bæði hjá börnum og fullorðnum, að þegar farið sé að vinna með áfallið eins og í þessu tilfelli, leiða stúlkuna í gegnum þá sársaukafullu reynslu sem hún hefði í raun lokað á og verið að reyna að gleyma, þá aukist áfallastreitueinkenni oft áður en þau síðan dofni. Stúlkunni hafi verið sagt frá myndunum í sjötta viðtali vitnisins við stúlkuna en það hafi verið fyrst þá sem stúlkan byrjaði að opna sig og það hafi því í raun verið fyrst á þeim tímapunkti sem vinna með áfallið hafi hafist.

Vitnið L lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hefði borið við minnisleysi við skýrslutökur hjá lögreglu, en hann hefði, er myndirnar voru bornar undir hann, hvorki neitað að hann væri á myndunum né að þær væru teknar heima hjá honum. Þá hefði ákærði verið samvinnuþýður við rannsókn málsins, hann hafi m.a. heimilað leit, en hvorki ákærði né þáverandi verjandi hans hefðu verið viðstaddir leitina. Kvað vitnið  fyrst hafi verið lagt hald á tölvubúnað, s.s. tölvur og harða diska, þá hafi verið lagt hald á upptökubúnað, s.s. myndavélar og síma eftir að í ljós hafi komið kom hvaða efni var á tölvubúnaði ákærða. 

Vitninu fannst klámefni það sem fannst í fórum ákærða hafa verið misjafnlega gróft, sumt hafi verið svakalega gróft að áliti vitnisins, þá sér í lagi erlendu myndskeiðin og myndirnar er sýndu ungabörn. Kvað vitnið að um töluvert magn af efni hafi verið að ræða og langan tíma hafi tekið að fara í gegnum það. Kvað vitnið þar einnig hafa verið að finna „eðlilegt“ klám en efnið hafi verið af svipuðum toga, þannig hafi margt af því verið mjög gróft og meðal annars hafi fundist dýraklám sem og börn með dýrum.

Vitnið S lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði rannsakað rafeindatæki ákærða, s.s. tölvur, myndavélar og síma. Kvaðst vitnið hafa flokkað það klámefni er var á tækjunum niður í íslenskt og erlent efni, og sé þá miðað við skráarheiti og vísbendingar af myndefninu sjálfu um uppruna þess. Kvaðst vitnið hafa leitað að gögnum á tölvubúnaði ákærða, annálum eða „log-skrám“, sem gæfu til kynna hvort efninu hefði verið dreift, en engar vísbendingar hefðu fundist um beina dreifingu efnisins. Kvað vitnið myndskeið þau er voru flokkuð sem íslensk ekki hafa verið send í gagnagrunna erlendis til að kanna hvort þeim hefði verið dreift þar. Um grófleika efnisins bar vitnið að það væri á öllum skalanum, allt frá vægara barnaklámi þar sem athygli sé beint að nekt barna til mjög grófs barnakláms þar sem jafnvel komi fyrir dýraklám. Meiri hluta efnisins kvað vitnið þó vera mjög gróft barnaklám. Þá kvaðst vitnið ekki hafa rannsakað sms-skilaboð á símum ákærða, hann hafi einungis dregið gögn af tækjunum og gert þau birtingarhæf. Þá kvað vitnið það ekki hafa verið rannsakað sérstaklega hvort tilteknar kyrrmyndir hafi verið teknar út úr hreyfimyndaskeiði.

Niðurstaða.

Eins og að framan er rakið hefur ákærði eftir að aðalmeðferð málsins hófst játað sök samkvæmt þeim ákæruliðum sem tölusettir eru nr. 4-13 í ákærulið B. Játning hans að þessu leyti er í samræmi við gögn málsins og þær ljósmyndir og hreyfimyndir sem ákærði tók af athöfnum sínum og lögð hafa verið fram í málinu. Af hálfu ákæruvalds var heimfærsla til refsiákvæða að því er varakröfu í 4. tl. B-liðar ákærunnar varðaði leiðrétt við flutning málsins. Var brot ákærða samkvæmt þessum tölulið einungis talið varða til vara við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Við mat á því hvort 201. gr. almennra hegningarlaga eigi við um þá háttsemi ákærða sem hann hefur játað samkvæmt framansögðu ber að hafa í huga að ákærði og móðir brotaþola munu hafa verið í sambandi í fimm eða sex ár en þau munu þó ekki hafa verið skráð í sambúð. Brotaþoli mun af þeim sökum oft hafa dvalist á heimili ákærða og sofið þar. Verður því að telja að brotaþoli sé barn sem ákærða hafi verið trúað fyrir til uppeldis og fellur háttsemi hans því undir skilgreiningu 201. gr. laganna.

Samkvæmt 1. tl. B-liðar ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa ítrekað látið brotaþola nudda lim sinn, sett kynfæri í munn hennar og sleikt kynfæri hennar. Ekki er nánar gerð grein fyrir því hvenær þessi atvik áttu að hafa átt sér stað að öðru leyti en því að þetta hafi gerst er brotaþoli var sjö til átta ára. Að mati dómsins er ekki loku fyrir það skotið að einhverjum þeirra tilvika er þessi ákæruliður tekur til sé lýst í öðrum ákæruliðum B-liðar ákærunnar að því frátöldu að þar er þess ekki getið að ákærði hafi sleikt kynfæri brotaþola. Framburður brotaþola að því leyti er trúverðugur að mati dómsins en ekki verður talið að ákærði hafi framið þá háttsemi oftar en einu sinni og verður ákærði sakfelldur að því leyti. Þeim liðum þessa hluta ákærunnar þar sem ákærða er gefið að sök að hafa ítrekað látið telpuna nudda lim sinn og sett kynfæri sín í  munn hennar verður því vísað frá dómi.

Ákærði neitar sök samkvæmt 2. tl. B-liðar ákærunnar en samkvæmt þeim ákærulið er honum gefið að sök að hafa í eitt skipti ljósmyndað brotaþola á kynferðislegan og klámfenginn hátt þar sem hún lá klædd í rúmi, en ákærði hafi beint myndavélinni að rassi hennar og kynfærum. Ákærði kvað vel geta verið að myndirnar væru af brotaþola og hann kannaðist við að sængurver sem sjáist í geti verið hans sængurver, en hann kvaðst ekki sjá hvort myndirnar væru teknar í hans rúmi. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa tekið myndir þann dag sem umræddar myndir eru vistaðar og hann taldi mögulegt að einhver annar hafi tekið þær. Umræddar myndir hafa verið lagðar fram í máli þessu og að mati dómsins telst nægilega sannað að þær séu af brotaþola. Þessar myndir fundust í tölvubúnaði ákærða og þar sem ekkert hefur komið fram í máli þessu sem bendir til þess að einhver annar en ákærði hafi tekið myndirnar og vistað þær í tölvubúnaði sínum telur dómurinn sannað að ákærði hafi átt þar hlut að máli. Að hluta til er um að ræða nærmyndir af rassi brotaþola og kynfærum og fer ekki á milli mála að myndirnar sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Er brot ákærða að þessu leyti rétt fært til refsiákvæða í ákæruskjali. 

Ákærði neitar sök samkvæmt 3. tl. B-liðar ákærunnar en samkvæmt þeim ákærulið er honum gefið að sök að hafa tvisvar sýnt brotaþola nokkrar hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Ákærði kvaðst telja að stúlkan hafi getað hafa „rambað inn á þetta“ þar sem hún hafi verið í tölvunni, hann viti þó ekki hvort hún hafi færni til að opna skjöl í tölvunni, en hún hafi getað farið á netið án aðstoðar. Brotaþoli segir ákærða hafa sýnt sér hreyfimyndir í tölvunni  og lýsir hún efni þeirra með þeim hætti að ekki fer á milli mála að hún hafi séð slíkt efni.  Hún kvað ákærða hafa bannað sér að segja mömmu sinni frá þessu að þetta hafi verið leyndarmálið þeirra.

Þegar litið er til þess að kynstrin öll af klámefni fundust í tölvubúnaði ákærða verður að telja að ekki sé loku fyrir það skotið að brotaþoli hafi séð þetta efni í tölvu hans án þess að ákærði hafi beinlínis sýnt henni það. Verður því ekki hjá því komist að sýkna ákærða af þessum ákærulið.  

Ákærði neitar sök samkvæmt 14. tl. B-liðar ákærunnar en samkvæmt honum er honum gefið að sök að hafa sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri brotaþola og ekki látið af háttseminni þótt hún bæði hann um að hætta. Ákærði hefur lýst því að umræddan dag hafi hann rifist við móður brotaþola  og hafi hann farið niður í kjallara, læst að sér og slökkt á „routernum“ sem hafi verið í tölvuherberginu og E hafi því ekki getað verið á netinu. Við þetta hafi E komið niður og byrjað að banka á hurðina og reyna að ná sambandi við ákærða en hann bara hækkað í hljómflutningstækjunum. E hafi  þá farið að sparka í hurðina og hafi ákærði þá í kvikindisskap ákveðið að læðast út hinum megin og upp á loft, þannig að E sæi hann ekki, en barnsmóðir ákærða leigi á hæðinni fyrir ofan. Hafi ákærði vaðið inn á barnsmóður sína, lokað og læst. E hafi fljótlega komið upp en mjög hljóðbært   og við þetta hafi krakkastóðið allt vaknað. 

Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hefði læst sig niður í kjallara en hún hafi verið í tölvunni. Hana minnti að þetta hefði verið morguninn eftir að C gisti hjá henni. Hafi ákærði svo farið inn í hitt herbergið og vitnið komið þangað. Hafi ákærði sagst ætla að gera eitthvað gott í píkuna á henni. Ákærði hafi tekið hana úr náttbuxunum og nærbuxunum.  Kvað brotaþoli að hana hafi ekki langað að hann væri að gera þetta við hana, þetta hafi ekki verið gott, hún hafi ætlað í burtu en ekki þorað það. Hún kvaðst hafa legið á bakinu á bekk, í lyftingaherberginu, og ákærði setið á móti sér, við fætur hennar. Aðspurð um hvað hafi verið vont kvað hún það hafa verið í píkunni og hafi ákærði verið með typpið í píkunni. Hún kvaðst hafa beðið ákærða að hætta og hann svarað því að hann væri að verða búinn. Þegar ákærði hafi hætt hafi hún klætt sig í buxurnar sínar og farið upp. Brotaþola fannst þetta hafa verið langur tími. Þá hafi ákærði sagt henni að hún mætti ekki segja mömmu sinni frá þessu. 

Móðir brotaþola hefur lýst því fyrir dómi að hún hafi spurt stúlkuna hvort   ákærði hafi eitthvað gert við hana og hún í framhaldi af því sagt vitninu að ákærði hafi ætlað að vera góður við pjölluna hennar með typpinu. Hún kvað brotaþola þó ekki hafa nefnt neinar dagsetningar í þessu samhengi. Að því er varðar sunnudagsmorguninn 30. maí 2010 kvað vitnið hana og ákærða bæði hafa verið undir áhrifum áfengis. Þau hafi farið að rífast og við það hafi brotaþoli vaknað. Vitnið hafi farið að ræða við brotaþola en hún svo horfið og vitnið farið að leita hennar en ekki fundið. Hafi ákærði þá verið búin að læsa sig niðri í kjallara með stúlkunni, en vitnið kvaðst hafa haft þetta á tilfinningunni auk þess sem stúlkan hafi staðfest það við vitnið seinna. Vitnið kvaðst hafa orðið mjög reið og hafi hún sparkað upp hurðina að kjallaraherberginu, enda hafi henni ekki þótt eðlilegt að ákærði væri að læsa sig inni með stúlkunni. Í millitíðinni hafi ákærði verið búinn að hleypa stúlkunni út um aðra hurð sem hafði einnig verið læst þegar vitnið kom niður í kjallarann.

Fram kom í framburði vitnisins N læknis að op við meyjarhaft brotaþola væri það lítið að ólíklegt væri að getnaðarlimur hefði farið þar inn fyrir. Taldi vitnið að líklega væri opið við meyjarhaftið meðfætt. Þá væru kantar jafnir og fínir og því ólíklegt að opið væri til komið af öðrum ástæðum. Engir áverkar hafi verið á stúlkunni, engin bólga eða bjúgur í kringum meyjarhaftið, en þó gæti vel verið að hún hafi meitt sig.

Telja verður nægilega sannað með trúverðugum framburði brotaþola sem fær stoð í framburði móður hennar að ákærði hafi læst stúlkuna inni í kjallaraherberginu og þá hefur brotaþoli gefið greinargóða lýsingu á athöfnum ákærða á bekk í lyftingaherbergi, en samkvæmt gögnum málsins er slíkan bekk að finna í umræddu herbergi. Ljóst er af framburði læknisins N að meyjarhaft stúlkunnar var órofið en jafnljóst er einnig af trúverðugri frásögn brotaþola að ákærði hefur farið með getnaðarliminn inn fyrir skapabarmana svo að hana kenndi til. Telst ákærði þannig hafa sett liminn inn í kynfæri stúlkunnar eins og í ákærunni segir.

Samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal, auk annars, greina í ákæru „svo glöggt sem verða máhver sú háttsemi sé, sem ákært er út af, heiti brotsins að lögum og aðra skilgreiningu.  Regla þessi kemur í veg fyrir það að sakborningur verði dæmdur fyrir annað en það sem hann er ákærður fyrir og jafnframt gefur hún sakborningi kost á því að taka til varna. Verður að telja þetta ákvæði vera  hornstein  ákæruréttarfars og óhjákvæmilegt skilyrði réttlátrar meðferðar sakamáls.

Brot ákærða í liðum 4 – 8  og 14 í B-kafla eru ýmist talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga (liðir 4-8) eða við 1. mgr. 194. gr. laganna (liður 14) auk þeirra sérákvæða XXII. kafla laganna sem tilfærð eru við þessa ákæruliði og varða kynferðisbrot gegn ungum börnum.  Þessum brotum ákærða er hins vegar ekki lýst í ákærunni á þann veg að svari til brotalýsingar 194. gr. laganna, svo sem með því að ákærði hafi við kynferðismökin beitt ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung eða sviptingu sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti (1. mgr.), eða þá að hann hafi notfært sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun barnsins til þess að hafa við það kynferðismökin sem tilgreind eru, eða þá að þannig hafi að öðru leyti verið ástatt um það að það hafi ekki getað spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans (2. mgr.).  Af þessu leiðir að 1. eða 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga getur ekki átt við um þessa ákæruliði.  Kemur þá heldur ekki til álita hvort 194. gr. hegningarlaganna geti tekið til slíkra kynferðismaka við ung börn eða hvort sérákvæði XXII. kafla laganna tæmi sök í slíkum tilvikum.

Brot ákærða sem lýst er í 4. tl. B-liðar ákæru varðar við 1. og 2. mgr. 201. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og brot ákærða sem lýst er í 9. tl. B-liðar ákæru varðar við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga. Að öðru leyti eru brot ákærða sem lýst er í öðrum liðum B-liðar ákærunnar rétt færð til refsiákvæða að undanskildu því er segir hér að framan um 194. gr. laganna.

Ákæruliður C.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að því er þennan ákærulið varðar að umræddur morgunn hafi verið dæmigerður helgarmorgunn.  Hann hafi verið á skemmtistaðnum [...] ásamt E og hafi þau bæði verið að drekka og hafi þau tekið með sér „nesti“ af skemmtistaðnum. Kvaðst ákærði hafa verið í fínu ástandi, en líklega hafi hann þó verið ölvaður. Ákærði taldi að elsta dóttir E hefði verið að gæta barnanna. Ákærði kvaðst hafa haft það fyrir sið eftir að hann fór að vera með E að kíkja inn til barnanna þegar þau voru heima sofandi til að kanna hvort ekki væri allt í lagi. Kvað ákærði að þegar hann hafi kíkt inn til þeirra hafi hann séð að B hafi verið búin að sparka sænginni af stúlkunum þar sem þær lágu þrjár saman í rúmi, B, brotaþolinn C og elsta elsta dóttir E. Kvað ákærði brotaþola hafa legið yst í rúminu. Kvaðst ákærði hafa teygt sig í sængina, tekið hana undan löppunum á B og verið að draga sængina yfir stúlkurnar þegar brotaþoli vaknaði og reis upp og sagðist vilja fara heim. E hafi þá komið og spurt stúlkuna hvað væri að og þau síðan sest niður með henni. Kvað ákærði það ekki hafa verið óvanalegt að brotaþoli væri í ójafnvægi, en hún vilji hvergi vera nema hjá móður sinni og hafi aldrei liðið vel heima hjá ákærða. Stúlkan hafi síðan hringt í móður sína og verið sótt, en ákærði mundi ekki nákvæmlega klukkan hvað það hafi verið. Ákærði kvaðst telja stúlkuna hafa verið í jafnvægi er hún var sótt. Sérstaklega aðspurður um það hvort ákærði hafi snert barnið er hann hafi verið að draga sængina til kvað ákærði það vel geta verið, hugsanlega hafi hann gert það með hnjánum eða fótunum, en það hafi þá ekki verið vísvitandi. Aðspurður um þann framburð E hjá lögreglu að hún hafi komið inn í herbergið og spurt ákærða hvað hann hafi verið að gera og hann svarað því til að hann væri að skoða, kvaðst ákærði ekki muna hvað þeim E hafi farið í milli umrætt sinn. 

Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi í Barnahúsi að þegar hún hafi gist hjá B, vinkonu sinni, hafi hún sofið í rúminu ásamt B og eldri systur hennar, en bróðir B hafi verið í gestarúminu við hliðina á rúminu en hún hafi verið yst í rúminu.  Hún kvaðst hafa verið að reyna að sofna og þá hafi ákærði verið eitthvað að horfa á þær. Kvað hún móður B hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera og hann svarað að hann væri bara að skoða. Þegar E hafi verið farin hafi ákærði gengið að brotaþola, tekið sængina af henni og nuddað á henni rassinn en hún hafi legið á maganum. Hún kvaðst hafa verið í náttbuxum og nærbol. Hún hafi vaknað hrædd og hann þá borið fingurinn að vörum sér. Eftir þetta hafi hún verið að reyna að sofna en ekki getað það. Hún hafi verið hálfgrátandi. Hún kvað B og systur hennar ekki hafa vaknað við þetta. E og ákærði hafi komið inn og spurt hvort hún vildi horfa á teiknimyndir, hún hafi horft eitthvað. Hún kvaðst hafa vakið B þar sem hún þorði ekki að vera ein, E hafi sofnað á sófanum og brotaþoli því verið ein með ákærða og því vakið B. Hafi ákærði þá verið að halda á þeim, knúsa og kyssa. Svo hafi hún hringt í mömmu sína og T, kærasti mömmu hennar, hafi sótt hana. Hún kveðst hafa farið að gráta þegar hún kom heim og hafi sagt mömmu sinni allt sem gerst hafði. Hún kvaðst síðar hafa sagt B frá því sem gerst hafði í frímínútum í skólanum. B hafi verið reið út í ákærða og hissa og hafi hún sagt brotaþola að hún héldi að ákærði hefði líka gert eitthvað við sig. Kvað hún sér hafa liðið mjög illa og hún hugsi stundum ennþá um þetta, stundum titri hún bara út af þessu.

Brotaþolinn B skýrði svo frá í Barnahúsi að þegar brotaþolinn C hafi sofið heima hjá henni hafi C vaknað og hafi ákærði þá verið að gera eitthvað við B. Svo hafi C vaknað við eitthvað og þá hafi hann verið að káfa á henni eitthvað.

Vitnið E, móðir brotaþolans B, skýrði svo frá fyrir dómi   laugardagsmorguninn 29. maí 2010, hafi C verið á heimili ákærða ásamt brotaþola. Kvaðst vitnið ekki hafa verið undir áhrifum áfengis umræddan morgun, en það hafi ákærði verið. Vitnið hafi kíkt inn í herbergi til barnanna, þar sem ákærði hafi verið og sagst hafa verið að kanna hvort stúlkurnar væru sofandi, en hann hafi þá verið með höndina undir sænginni hjá stúlkunum, nánar tiltekið hjá C Hafi ákærði setið miðsvæðis og verið með höndina undir sænginni þar sem miðhluti stúlkunnar var og gæti hann hafa numið við rassinn á henni. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera og hann svarað til því til að hann væri að „tékka“ á því hvort stúlkurnar væru sofandi og laga sængina. Kvað vitnið stúlkuna hafa vaknað við þetta, rokið út í mjög miklu uppnámi en ekkert viljað segja um hvað væri að en hún hafi viljað fara heim. 

F, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði fengið pössun fyrir brotaþola hjá móður B, en stúlkurnar hefðu verið vinkonur. Hefðu þær sofið heima hjá ákærða. Morguninn eftir, um sjö eða hálf átta leytið að því er vitnið taldi, hafi brotaþoli hringt í kærasta vitnisins sem hafi svarað og rétt vitninu símann. Hann hafi sagt stúlkuna verið voðalega óörugga og vilja koma heim. Hafi hann síðan sótt stúlkuna. Þegar þau hafi komið heim hafi stúlkan algerlega brotnað saman. Vitnið hafi spurt hvað væri að og þá hafi brotaþoli sagt vitninu að ákærði hefði káfað á rassinum á henni. Vitninu hafi brugðið nokkuð og spurt stúlkuna hvað hún væri að segja og stúlkan þá sagt vitninu alla söguna. Kvað vitnið þær mæðgur þá hafa farið inn í stofu og rætt málið við T. Kvað vitnið stúlkuna hafa lýst atvikinu svo fyrir sér að þær hafi sofið í sama rúmi, brotaþoli, B og eldri systir B, en brotaþoli hafi verið alveg yst, næst sófanum. Ákærði hafi komið inn, sest við rúmið og byrjað að káfa á rassi brotaþola.  Móðir B hafi gengið framhjá herberginu og spurt ákærða hvað hann væri að gera og hann þá sussað á barnið, þ.e. sett fingur á munn sér og sagt „suss“. Við það hafi brotaþoli alveg tryllst af hræðslu. Kvaðst vitnið hafa frætt stúlkuna um að þetta væri hennar líkami og hafi stúlkan fundið að þetta væri ekki eðlilegt. Þá kvaðst vitnið ekki telja að stúlkan hafi misskilið snertinguna. Þá kvað vitnið stúlkuna vera mjög háða sér og það gæti vel passað að hún hafi áður ætlað að gista á heimili ákærða, en þá grátið og viljað fá móður sína. Kvað vitnið stúlkuna ávallt hafa verið svona háða sér.

Um líðan stúlkunnar eftir þetta kvað vitnið hana hafa verið mjög hrædda við ákærða. Hún þori vart að ganga framhjá heimili hans. Kvaðst vitnið einu sinni hafa verið með stúlkunni í verslun þar sem þær hafi hitt ákærða, og hafi stúlkan orðið alveg stíf af hræðslu. Þá hafi stúlkan verið hrædd við að fara út á kvöldin og ganga niður í bæ. Kvaðst vitnið rekja þessar breytingar á hegðun barnsins til hins ætlaða brots. Þá kvað vitnið stúlkuna hafa breyst mjög eftir að þær fluttust í annað bæjarfélag.

Vitnið P, umsjónarkennari brotaþola skýrði svo frá fyrir dómi að breytingar hefðu orðið á hegðun brotaþola eftir að mál þetta kom upp. Vitnið kvaðst hafa verið í miklu sambandi við móður stúlkunnar, en atvikið hafi gerst í lok skólaárs og því hafi ekki reynt á samskipti vitnisins við stúlkuna fyrr en um haustið. Sálfræðingur skólans hafi rætt við stúlkuna, en móðir hennar hafi átt í erfiðleikum með hana heima og leitað aðstoðar í skólanum. Stúlkan hafi átt mjög erfitt fyrri hluta síðasta vetrar. Brotist hafi út hjá henni mikil reiðiköst og hún átt til að lenda í útistöðum sem ekki hefði gerst veturinn á undan. Þá hafi vitnið merkt miklar hegðunarbreytingar hjá brotaþola er hún byrjaði í 4. bekk. Vitninu fannst samband stúlkunnar við móður sína vera orðið mjög stirt, en þær höfðu verið miklar vinkonur. Þá virtist vitninu samband stúlkunnar við kærasta móðurinnar vera mjög stirt, miklir erfiðleikar orðið þar og stúlkan vantreyst honum. Kvaðst vitnið ekki vita af hverju þetta hafi stafað, stúlkan hafi þekkt manninn en hann hafi átt í sambandi við móður stúlkunnar þegar ætlað brot hafi átt sér stað. Þá hafi brotaþoli hætt samskiptum við B, en þær hafi verið góðar vinkonur, en síðan dregið sig í sundur.  Vitnið taldi að rekja mætti hegðunarbreytingar hjá stúlkunni til áfalls sem hún hafi orðið fyrir og sé þar um að ræða hið ætlaða kynferðisbrot.                  

Vitnið Q, stuðningskennari stúlknanna B og brotaþola skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði haft minna að gera með brotaþola en B, en vitnið hafi þó merkt breytingar í hegðun stúlkunnar í lok síðastliðins skólaárs, vorið 2011, þannig að hún falli ekki eins vel að hópnum og sé meira ein. Kvaðst vitnið ekki hafa orðið vart við aðrar breytingar hjá stúlkunni.

T skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan morgun hafi brotaþoli hringt snemma heim og beðið vitnið að sækja sig. Hafi vitnið rifið sig á fætur og farið beint að sækja stúlkuna. Kvað vitnið stúlkuna hafa verið nokkuð rólega þegar hún hringdi, en hann hafi þó greint einhverja spennu hjá henni. Kvað vitnið stúlkuna hafa beðið fyrir utan hús ákærða, ásamt honum en hann hafi haldið utan um hana, með hendur krosslagðar á brjósti hennar. Þá kvað vitnið rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að stúlkan hafi komið hlaupandi að bílnum. Kvað vitnið stúlkuna ekkert hafa sagt við sig á leiðinni heim, en það væri ekki óeðlilegt, hún hafi verið vön að láta svona gagnvart honum. Stúlkan hafi talað grátandi við  móður sína, er heim var komið og hafi móðir hennar síðan sagt honum frá atvikinu.            

Vitnið R sálfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi  lagt spurningalista fyrir brotaþola til að meta kvíða og notað hugræna atferlismeðferð þar sem áhersla sé lögð á að fræða stúlkuna um eðli og afleiðingar kynferðisbrota, hjálpa henni að takast á við afleiðingar og læra betri leiðir til að takast á við hugsanir og tilfinningar sem algengar séu hjá þolendum kynferðisbrota. Kvað vitnið það strax hafa komið fram að stúlkan hafi verið kvíðin og viðkvæm vegna hins ætlaða kynferðisbrot. Þá hafi komið fram í fyrsta viðtali með móður barnsins að kvíðaeinkenni hefðu aukist til muna hjá stúlkunni, t.d. hafi hún hangið í móður sinni og ekki þorað út. Kvað vitnið stúlkuna vera mjög tengda tilfinningum sínum og hafa góðan tilfinningaþroska miðað við aldur, stúlkan hafi þó ekki ráðið við þessa hræðslu og hafi það valdið henni mikilli streitu. Kvað vitnið stúlkuna hafa sýnt mikla þekkingu og hún hafi augljóslega verið frædd um hvað sé í lagi og hvað ekki í sambandi við óvelkomnar snertingar. Hafi stúlkan jafnvel verið óvenju vel að sér í þessum efnum miðað við ungan aldur. Um afleiðingar ætlaðs brots kvað vitnið þær eðlilegar miðað við eðli þess en stúlkan hafi verið með undirliggjandi kvíðaröskun fyrir atvikið og það geti valdið því að einkenni brjótist harkalegar út hjá henni en ella.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kíkt inn til barnanna og séð að B hafi verið búin að sparka sænginni af stúlkunum þar sem þær lágu þrjár saman í rúmi, þar á meðal brotaþoli sem legið hafi yst í rúminu. Kvaðst ákærði hafa teygt sig í sængina, tekið hana undan löppunum á B og verið að draga sængina yfir stúlkurnar þegar brotaþoli hafi vaknað, risið upp og sagst vilja fara heim. E hafi þá komið og spurt stúlkuna hvað væri að og þau síðan sest niður með henni. Kvað ákærði það ekki hafa verið óvanalegt að brotaþoli væri í ójafnvægi, en hún vilji hvergi vera nema hjá móður sinni og hafi aldrei liðið vel heima hjá ákærða.  Ákærði kvað vel geta verið að hann hefði snert barnið er hann hafi verið að draga sængina til, en það hafi hann þá ekki verið vísvitandi.

Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hefði gengið að brotaþola, tekið sængina af henni og nuddað á henni rassinn en hún hafi legið á maganum. Hún kvaðst hafa verið í náttbuxum og nærbol. Hún hafi vaknað hrædd og ákærði þá borið fingurinn að vörum sér.

Brotaþolinn B hefur skýrt frá því að þegar brotaþolinn C hafi vaknað hafi ákærði verið að káfa á  henni.

E, móðir B, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi verið á heimili ákærða ásamt C. Kvaðst vitnið ekki hafa verið undir áhrifum áfengis umræddan morgun, en það hafi ákærði verið. Vitnið hafi kíkt inn í herbergi til barnanna, þar sem ákærði hafi verið og sagst hafa verið að kanna hvort stúlkurnar væru sofandi, en hann hafi þá verið með höndina undir sænginni hjá stúlkunum, nánar tiltekið hjá brotaþola. Hafi ákærði setið miðsvæðis og verið með höndina undir sænginni þar sem miðhluti stúlkunnar var og gæti hann hafa numið við rassinn á henni. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera og hann svarað til því til að hann væri að tékka á því hvort stúlkurnar væru sofandi og laga sængina. Kvað vitnið stúlkuna hafa vaknað við þetta, rokið út í mjög miklu uppnámi en ekkert viljað segja um hvað væri að en hún hafi viljað fara heim. 

Móðir brotaþola hefur skýrt svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi og sagt að ákærði hefði káfað á rassinum á henni. Þá hafa kennarar stúlkunnar borið fyrir dómi að breytingar hafi orðið á hegðun hennar eftir að mál þetta kom upp.

Að mati dómsins er framburður brotaþola þess efnis að ákærði hafi káfað á rassi hennar einkar trúverðugur og hann fær stoð í framburði vitnisins E svo og brotaþolans B. Ljóst er að brotaþoli hefur orðið fyrir áfalli sem allar líkur benda til að rekja megi til þessa atviks. Þegar allt framanritað er virt telst því sannað   ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. 

Ákvörðun viðurlaga.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu. Hann gekkst undir læknisfræðilega og sálfræðilega rannsókn á þroska og andlegu heilbrigði samkvæmt dómkvaðningu 9. mars sl. Var V geðlæknir fenginn til starfans og er geðheilbrigðisrannsókn  hans dagsett 26. apríl sl. Niðurstöður hans voru þær að ákærði væri örugglega sakhæfur og hann hefði engin merki geðrofs, sturlunar eða rugls. Grunnpersónuleiki hans væri vanmetinn, en ekki kæmu fram merki um svo alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort sem firrtu hann ábyrgð gerða sinna. Hann hefði örugga sögu um þunglyndi og kvíðasjúkdóm og hefði á tímabilum örugglega misnotað áfengi. Hann hefði fyrri sögu um ofvirkni og athyglisbrest en ekki væri um alvarleg einkenni að ræða nú. Geðlæknirinn kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.  Kvað hann nokkuð ljóst að ákærði hefði einkenni þunglyndis sem og að hann neytti áfengis, en hann hefði sótt áfengismeðferð um áramótin. Kvað vitnið ákærða hafa verið nýbyrjaðan aftur á þunglyndislyfjum. Hafi vitnið einblínt á heilsufars- og geðsögu ákærða, auk þess sem vitnið hafi farið yfir lýsingu ákærða á atburðum eftir því sem hann kvaðst muna. Hafi vitninu verið ljóst að ákærði ætti mjög erfitt með að tjá sig um hin ætluðu brot, vitnið hafi þrýst á ákærða að ræða málin en ákærði verið í gífurlegri vörn. Vitnið taldi þó ljóst að ákærði myndi eitthvað eftir atvikum, en taldi að túlka mætti þetta á þrjá vegu, annars vegar það að ákærði hafi á þessu tímabili verið að drekka talsvert, þá hafi ákærði viðurkennt að hafa neytt lyfja með áfengisneyslu sinni og loks væri ljóst að ákærði væri í mikilli sálfræðilegri vörn gagnvart því að viðurkenna hvað hann hefði gert. Taldi vitnið af þessum sökum til lítils að leggja persónuleikapróf fyrir ákærða þar sem hann myndi gera það ógilt. Vitnið hafi þó lagt fyrir ákærða próf sem væri gott til að ákvarða alvarlegri frávik á minni og greind og hafi ákærði þar fengið fullt hús. Kvað vitnið „intellectual dómgreind“ ákærða eðlilega og ákærði eigi ekki við minniserfiðleika að stríða. Þá kvað vitnið ákærða gera lítið úr barnahneigð sinni og vilji meina að hún sé ekki til staðar en ákærði hafi viðurkennt klámfíkn sína. Það var álit vitnisins, í ljósi atvika máls og magn þess efnis er fannst í fórum ákærða, að ákærði væri haldinn barnagirnd. Ákærði væri þó í mikilli afneitun og réttlætti þetta með því að hann hafi lent í ákveðnum aðstæðum og virtist vitninu ákærði eiga erfitt með að greina á milli þroskaðra kvenna annars vegar og stúlkna hins vegar. Þá kvað vitnið menn, sem haldnir séu barnagirnd, vera hættulega börnum. Kvað vitnið engan vafa leika á sakhæfi ákærða, hann væri þó haldinn einhverri persónuleikaveilu, en bæri engin merki um alvarlegan geðsjúkdóm.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot gagnvart dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar fyrir um tíu árum, eða þegar brotaþolinn A var [...] ára gömul. Hafa verður í huga að viðurlög fyrir brot gegn 1. mgr. 201. gr. og 1.mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga hafa þyngst eftir að brotið var framið, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 61/2007. Á þeim tíma varðaði brot gegn 1. mgr. 201. gr. laganna fangelsi allt að 6 árum og allt að 10 ára fangelsi væri barn yngra en 16 ára og brot gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga varðaði fangelsi allt að 12 árum. Nú varðar brot gegn 1. mgr. 201. gr. laganna fangelsi allt að 8 árum og allt að 12 ára fangelsi sé barn yngra en 16 ára og brot gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga varðar fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Þá hefur aldursmark 1. mgr. 202. gr. laganna verið hækkað úr 14 árum í 15 ár. Líta verður til þess að brot ákærða gagnvart brotaþola var framið í skjóli heimilisins og brást ákærði þannig trúnaðartrausti brotaþola.

Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir mörg mjög alvarleg kynferðisbrot gagnvart brotaþolanum B, dóttur konu sem hann hafði verið í sambandi við um nokkurra ára skeið. Vegna þessara tengsla dvaldi brotaþoli oft á heimili ákærða og hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að tengsl þeirra hafi verið með þeim hætti að 201. gr. almennra hegningarlaga eigi við. Telja verður til sérstakrar refsiþyngingar að ákærði tók í mörgum tilvikum hreyfimyndir og ljósmyndir af athæfi sínu gagnvart brotaþola og vistaði í tölvubúnaði sínum. Ekki hefur verið í ljós leitt að ákærði hafi dreift þessu myndefni til annarra en hann skilur brotaþola eftir í algerri óvissu um það til frambúðar.

Ákærði hefur einnig verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþolanum C er hún var gestkomandi á heimili hans og átti því að eiga þar skjól.

Þar að auki hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa í vörslum sínum gífurlegt magn af ljósmyndum og hreyfimyndum sem sýna barnaklám af ýmsum toga, þar á meðal mjög grófa misnotkun á börnum og jafnvel börn í kynferðisathöfnum með dýrum.

Ákærði er fyllilega sakhæfur og á sér engar málsbætur. Með hliðsjón af öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö ár. Frá refsingunni ber að draga með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 25. júní sl. Fallast ber á upptökukröfu ákæruvaldsins með vísan til þeirra lagaákvæða er í ákæru greinir.

Einkaréttarkröfur.

Brotaþolinn A gerir kröfu um skaðabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 1.200.000 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum auk þóknunar vegna réttargæslu. Ekki er að sjá að bótakrafan hafi verið birt ákærða fyrr en 21. júlí sl. er honum var birt ákæra og fyrirkall. Krafan er rökstudd með þeim hætti að ákærði hafi á þeim tíma er hann braut gegn brotaþola verið stjúpfaðir hennar og hafi hann misnotað það traust og þá ábyrgð sem honum hafi verið falin. Brotaþoli hafi á þessum tíma verið barn og sé ljóst að hún hafi orðið fyrir töluverðu andlegu áfalli. Gerð er krafa um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir meingerð gagnvart þessum brotaþola og er verknaður hans til þess fallinn að valda henni sálrænum erfiðleikum. Þykir brotaþoli með vísan til 26. gr. skaðabótalaga eiga rétt á bótum úr hendi ákærða og þykja þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og ber sú fjárhæð vexti eins og nánar greinir í dómsorði.

Brotaþolinn B gerir kröfu um skaðabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 5.000.000 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum auk þóknunar vegna réttargæslu. Ekki er að sjá að bótakrafan hafi verið birt ákærða fyrr en 21. júlí sl. er honum var birt ákæra og fyrirkall. Bótakrafan er rökstudd með þeim hætti að hann hafi beitt brotaþola grófu kynferðislegu ofbeldi í tvö ár með ófyrirséðum afleiðingum. Hann hafi gengið svo langt að hann hafi myndað barnið meðan hann braut á því. Þrátt fyrir að lögreglu hafi ekki tekist að sanna dreifingu á efninu sé ekki hægt að útiloka að því hafi verið dreift. Ef slíkt efni er komið í dreifingu sé ómögulegt að ná því til baka af veraldarvefnum með tilheyrandi skaða og óöryggi fyrir barnið um alla framtíð. Gögn frá kennurum brotaþola og Barnahúsi sýni hversu alvarlegar afleiðingar brot ákærða hafi haft á hana. Erfitt sé að meta skaðann sem jafn alvarleg brot geti valdið svo ungu barni til framtíðar og geti liðið langur tími þar til afleiðingarnar komi í ljós. Sé ljóst að hún neyðist til að læra að lifa með þessa slæmu reynslu sína og horfast í augu við hana sem sé þungur baggi að bera allt lífið. Hún muni fyrirsjáanlega þurfa á aðstoð sérfræðinga að halda við að vinna úr afleiðingunum í fjölmörg ár ef ekki ævilangt. Gerð er krafa um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mjög alvarlega meingerð gagnvart þessum brotaþola og er verknaður hans til þess fallinn að valda henni miklum sálrænum erfiðleikum. Þá verður við ákvörðun bóta að horfa til þess miska sem myndatakan hefur valdið henni. Þykir brotaþoli með vísan til 26. gr. skaðabótalaga eiga rétt á bótum úr hendi ákærða og þykja þær hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur og ber sú fjárhæð vexti eins og nánar greinir í dómsorði.

Brotaþolinn C gerir kröfu um skaðabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum auk þóknunar vegna réttargæslu. Ekki er að sjá að bótakrafan hafi verið birt ákærða fyrr en 21. júlí sl. er honum var birt ákæra og fyrirkall. Krafan er rökstudd með þeim hætti að ákærði hafi brotið kynferðislega gegn brotaþola með því að strjúka henni óviðurkvæmilega um rasskinnar utanklæða. Hafi hún verið gestkomandi á heimili ákærða og hann brotið það traust sem hún hafi borið til hans. Henni hafi liðið mjög illa eftir þetta og sótt meðferðarviðtöl í Barnahús í eitt ár. Afleiðingar kynferðisbrota séu einkum andlegar og þekkt að börn geti átt erfitt uppdráttar á unglingsárum og geti valdið erfiðleikum í samskiptum við hitt kynið. Gerð er krafa um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir meingerð gagnvart þessum brotaþola og er verknaður hans til þess fallinn að valda henni sálrænum erfiðleikum. Þykir brotaþoli með vísan til 26. gr. skaðabótalaga eiga rétt á bótum úr hendi ákærða og þykja þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og ber sú fjárhæð vexti eins og nánar greinir í dómsorði.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar verjandans, 137.200 krónur. Ákærða ber einnig að greiða annan útlagðan  sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda, 1.712.712 krónur.  Ákærði greiði  einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjandans A Torfa Ragnars Sigurðssonar, hdl., 500.000  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. sömu laga, vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og jafnframt vegna starfa hans við að halda fram kröfunni fyrir dómi.   Þá greiði ákærði einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjandans B, Páleyjar Borgþórsdóttur, hdl., 527.100  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. sömu laga, vegna starfa hennar á rannsóknarstigi málsins og jafnframt vegna starfa hennar við að halda fram kröfunni fyrir dómi. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjandans C, Páleyjar Borgþórsdóttur, hdl., 288.650  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. sömu laga, vegna starfa hennar á rannsóknarstigi málsins og jafnframt vegna starfa hennar við að halda fram kröfunni fyrir dómi. Ákærði greiði einnig ferðakostnað þessa lögmanns, 27.320 krónur.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnum Pétri Guðgeirssyni og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómurum. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómarar og sakflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings, sbr. 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála. 

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í sjö ár. Frá refsivistinni skal draga með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 25. júní 2011.

Ákærði sæti  upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga á tveimur Western Digital hörðum diskum, þremur Samsung hörðum diskum, Seagate hörðum diski og tveimur skrifanlegum DVD diskum.

Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2001 til 21. ágúst 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. 

Ákærði greiði B miskabætur að fjárhæð 3.000.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 29. maí 2010 til 21. ágúst 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

Ákærði greiði C miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 29. maí 2010 til 21. ágúst 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar verjandans, 137.200 krónur. Ákærði greiði einnig annan útlagðan  sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda, 1.712.712 krónur.  Ákærði greiði  einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjandans A, Torfa Ragnars Sigurðssonar, hdl., 500.000  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. sömu laga, vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og jafnframt vegna starfa hans við að halda fram kröfunni fyrir dómi.   Þá greiði ákærði einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjandans B, Páleyjar Borgþórsdóttur, hdl., 527.100  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. sömu laga, vegna starfa hennar á rannsóknarstigi málsins og jafnframt vegna starfa hennar við að halda fram kröfunni fyrir dómi. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjandans C, Páleyjar Borgþórsdóttur, hdl., 288.650  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. sömu laga, vegna starfa hennar á rannsóknarstigi málsins og jafnframt vegna starfa hennar við að halda fram kröfunni fyrir dómi. Ákærði greiði einnig ferðakostnað þessa lögmanns, 27.320 krónur.