Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2006


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 135/2006.

Pétur Sigurjónsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Eyjablikki ehf.

(Kristín Edwald hrl.)

 

Skaðabótamál. Vinnuslys. Líkamstjón.

P varð fyrir slysi er hann var að störfum hjá E. Ekki var talið að borvél sú sem P notaði við verkið hafi verið biluð eða að slysið hafi stafað af öðrum atvikum, sem E bæri ábyrgð á. Var E því sýknað af skaðabótakröfu P.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hann eigi skaðabótarétt á hendur stefnda vegna líkamsárverka er áfrýjandi fékk á vinstri hönd 10. júní 2003, er hann vann við borvél á vinnustað sínum hjá stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að aðeins verði viðurkennd skaðabótaábyrgð hans á tjóni áfrýjanda að hluta og að málskostnaður verði þá felldur niður á báðum dómstigum.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Pétur Sigurjónsson, greiði stefnda, Eyjablikki ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. desember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. október s.l., er höfðað með stefnu birtri 2. desember s.l.

Stefnandi er Pétur Sigurjónsson, [kt.], Foldahrauni 25, Vestmannaeyjum.

Stefndi er Eyjablikk ehf., [kt.], Flötum 27, Vestmannaeyjum.

Réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að hann eigi skaðabótarétt á hendur stefnda Eyjablikki ehf. vegna líkamsáverka sem hann fékk á vinstri hönd 10. júní 2003, er hann vann einsamall við standborvél félagsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara er þess krafist að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og málskostnaður verði felldur niður.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

Málavextir.

Stefnandi lýsir atvikum svo að 10. júní 2003 hafi hann verið við vinnu sína hjá hinu stefnda félagi og unnið einsamall við standborvél.  Stefnandi hafi verið í leðurhönskum og var að bora miðjugat á hringlaga málmplötu sem var 900 mm í þvermál og 2 mm að þykkt.  Hafi hann notað svokallaðan dósabor en hann sé eins og helmingur af niðursuðudós með tennur á öðrum endanum.  Mun þarna um að ræða 60 mm hulsubor.  Sagðist stefnandi hafa fest plötuna, eins og honum hafi verið ráðlagt, með því að þvinga hana niður á landið undir bornum með einni þvingu, eins og hann hafi áður gert.  Kvað stefnandi borvélinni stjórnað með stöng eða handfangi sem kallað sé rat.  Hann hafi tekið í ratið og ætlað að færa borinn niður að plötunni og stjórna því af hve miklum krafti hann boraði í járnplötuna.  Hafi borinn farið sjálfkrafa niður á plötuna er hann hafi tekið aðeins í ratið og því hafi hann ekki haft stjórn á bornum.  Hafi tennurnar á bornum greypt sig ofan í plötuna og snúið henni á sekúndubroti.  Kvaðst stefnandi hafa haldið með vinstri hendi í plötukantinn en hægri höndin hafi verið á ratinu og hafi hann fært hana eins snöggt og hann gat að rofa til þess að slökkva á borvélinni.  Hann hafi hins vegar orðið of seinn, platan hafi snúist og endað með kantinn upp að súlu borvélarinnar.  Hafi vinstri hönd hans orðið á milli og hann fengið veruleg örkuml.

Stefnandi lýsir vélinni nánar þannig að henni sé stjórnað með ákveðnum gír, handfangi sem tekið sé í og einnig kallað rat.  Sé þetta handfang tekið beint niður, stjórni sá sem vinni við borvélina þrýstingi borsins á það sem borað sé í.  Þannig færist borinn niður með handafli þess sem vinni við borinn og sé hægt með eldsnöggu taki að færa borinn frá því sem borað er í með því að ýta ratinu upp.  Eins sé hægt  að láta borinn snerta yfirborð þess sem borað sé í laust og fast eftir atvikum.  Kveður stefnandi ratið fara í ákveðinn gír sé það fært til vinstri og togað niður.  Þá sé því ekki lengur stjórnað með hendinni, heldur fari sjálfkrafa niður og bori sjálfstætt þar til borun er stöðvuð eða tekið úr gír.  Kveður stefnandi borvélina einmitt hafa hrokkið í slíkan gír er hann slasaðist og greip í plötuna.  Hafi hann verið í leðurhönskum og hanskinn orðið fastur við brún plötunnar.

Fulltrúi Vinnueftirlitsins var kvaddur á vettvang og segir í skýrslu Höskuldar Rafns Kárasonar, eftirlitsmanns, að farið hafi verið á vettvang tveimur dögum eftir slysið.  Segir í skýrslunni að aðstæður við borvélina hafi verið góðar, gólfið hreint og lýsing góð.  Sé borvélin fest í gólf og borplan og bor stöðugt.  Samkvæmt skýrslunni mátti rekja slysið til þess að ekki hafi verið tryggilega gengið frá festingum á plötunni sem borað var í.  Voru gefin fyrirmæli um að festa tryggilega plötur sem borað væri í og bent á að vinnu skyldi haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis, aðbúnaðar og hollustuhátta.  Þá liggur frammi í málinu vottorð Höskuldar og Tryggva Ólafssonar, lögreglufulltrúa/vélvirkjameistara um skoðun á vélinni, dagsett 18. maí 2004.  Kemur þar fram að vélin sé af gerðinni PROGRESS, framleidd af Victoria Machine í London, ca 50 ára gömul.  Segir í vottorðinu að við endurtekna skoðun og prófun á vélinni hafi ekkert slit fundist í stjórntækjum hennar, hvorki á niðurfærslunni né hraðastjórnun.  Væri handfanginu sleppt færi það til baka í efstu stöðu og væri vélin sett óvart í niðurfærslugírinn fari hún strax úr honum við minnstu snertingu, upp á við.  Er það mat þeirra að uppstillingu og festingu plötunnar við borplanið sé mjög ábótavant, þannig að hún losnaði og snerist með bornum.  Teknar voru myndir af borvélinni og plötunni stillt upp eins og stefnandi gerði að sögn vitnisins Jóhanns Baldurssonar.  Samkvæmt myndunum er landið á borvélinni hringlaga og er platan nokkru stærri en landið.  Er plötunni fest þannig að trébútur er settur á landið, platan þar ofan á og platan síðan þvinguð niður með einni þvingu og er skrúfhluti þvingunnar festur neðan á landið, en efri hluti þvingunnar vísar í sömu átt og platan mun hafa snúist.  Ekki var af hálfu stefnanda hlutast til um dómkvaðningu matsmanna í því skyni að meta ástand vélarinnar.

Atla Þór Ólasyni, dr. med,  var falið að meta örorku stefnanda og í mati hans dagsettu 15. júlí 2004 segir að stefnandi hafi klemmt vísifingur og löngutöng vinstri handar, í hæð við grunnliði, á milli plötu sem snerist og súlu sem fingurnir stöðvuðust við.  Hafi hann hlotið áverka á fingurna þar sem húðtaugar, þumalfingursmegin og djúpu beygjusinarnar fóru í sundur, svo og yfirborðssin á löngutöng.  Hafi verið gert að áverkunum með saumaskap, samdægurs á slysadeild og hafi sinarnar gróið eðlilega.  Upp hafi komið þekktur en óalgengur fylgikvilli áverka, fjölvefjarýrnun og verkjaástand í vísifingri og löngutöng vinstri handar með verkjaleiðni upp í lófa og einkennum og óþægindum upp að fjærenda framhandleggjar.  Sé veruleg hreyfiskerðing, ofurtilfinning og verkir við minnsta álag, hnjask og kulda í fingrunum.  Vegna fjölvefjarýrnunar sé notagildi fingranna verulega skert.  Við mat á varanlegri örorku miðaði læknirinn við missi vísifingurs og löngutangar og mat hann varanlega örorku stefnanda 20%.  Þá mat hann tímabundna örorku hans 100% frá 10. júní 2003 til 1. maí 2004.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hann hafi slasast af völdum vélar sem hafi verið vanbúin að ýmsu leyti.  Hann hafi ætlað að stjórna henni með handafli, þ.e. hve fast var borað, þegar vélin hafi tekið af honum völdin.  Hafi eitthvað bilað í vélinni sjálfri eða að hún hafi hrokkið í ákveðinn gír án atbeina stefnanda.  Hafi stefnandi verið óviðbúinn þessu og ekki gefist kostur á að koma í veg fyrir slysið.  Hafi hann ekki náð að slökkva á vélinni fyrr en of seint. 

Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi verið í leðurhanska sem brún járnplötunnar hafi gripið í.  Hafi hann því orðið fastur með höndina á brún plötunnar er hún snerist, en hann hafi haldið hendinni eins og venja hafi verið.  Hann hafi áður unnið við vélina með þessum hætti eftir leiðsögn verkstjóra síns og hafi vinnuveitandi hans sérstaklega fyrirskipað þetta verklag.

Stefnandi byggir á því að tjónsorsökin hafi ekki verið að þvingan sem festi plötuna við landið hafi losnað.  Hún hafi frekar verið stillingartæki.  Hefði ekki skipt máli hve fast platan var þvinguð niður, hún hefði samt sem áður losnað, slíkur hefði krafturinn í borvélinni verið.  Hefðu slíkar þvingur og stefnanda hafi verið gert að nota aldrei getað komið í veg fyrir slysið.  Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi verið nauðsynlegt að festa plötuna öðru vísi, en vel hefði verið hægt að stjórna því hvar borað var í hana og hún þannig stillt af.  Það hafi síðan átt að vera undir stefnanda komið hversu fast var borað.

Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni hjá vinnuveitanda sem hafi tryggingar til að forða honum frá greiðslu skaðabóta.  Samkvæmt grundvallarreglu um vinnuveitandaábyrgð eigi vinnuveitandinn að geta keypt vátryggingarvernd og dreift kostnaðinum niður á útselda þjónustu.  Sé þetta einn af kostnaðarþáttunum sem eðlilegt sé að vinnuveitandi beri.  Þá byggir stefnandi á því að verkið hafi verið unnið undir húsbóndavaldi vinnuveitanda, þ.e. eftirlitsvaldi og leiðbeiningarvaldi.  Að svo miklu leyti sem kenna megi verktilhöguninni um tjónið, beri vinnuveitandinn þar af leiðandi höfuðsök.

Einnig er á því byggt af hálfu stefnanda að tjónið hafi orðið af völdum tækis eða vélar.  Hafi engin rannsókn farið fram á borvélinni þegar slysið varð, heldur hafi því verið slegið föstu þegar í stað að slysið hafi orðið af þeim sökum að þvingan hafi ekki verið nægjanlega fest.  Byggir stefnandi á því að hið stefnda félag beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda og því eigi stefnandi skaðabótarétt á hendur því.  Verði það ekki viðurkennt byggir stefnandi á því að vegna hinnar flausturslegu rannsóknar og eðli borvélarinnar, beri hið stefnda félag sönnunarbyrði um að slysið hafi ekki orðið vegna bilunar í vélinni.  Hafi vélin verið orðin yfir 50 ára gömul og verði hið stefnda félag að sýna fram á hvaða viðhald hún hafi fengið árið á undan slysinu.  Þá verði hið stefnda félag einnig að sýna fram á hvert eftirlit Vinnueftirlits ríkisins hafi verið með tækinu fyrir slysið.

Stefnandi byggir einnig á því að borvélin hafi verið orðin úrelt.  Það hafi ekki verið forsvaranlegt með hvaða hætti stefnandi hafi orðið að slökkva á henni.  Í nútíma vinnurétti sé gert ráð fyrir ásláttarrofa til að stöðva slíkar vélar, í nánd við þá hönd sem notuð sé til að stjórna boruninni, en ekki rofa sem þurfi að snúa, eins og raunin sé í þessu máli.

Stefnandi byggir á því að ástand vélarinnar og gerð hennar hafi brotið í bága við reglugerð nr. 492/1987 um öryggisbúnað véla, einkum 3. gr., c-lið 3. mgr. 4. gr., 7. gr., 8. gr. og 9. gr.   Þá vísar stefnandi til reglugerðar nr. 431/1993, svo sem 3. gr. og 9. gr.  Þá telur stefnandi að ástand vélarinnar og gerð hennar hafi brotið í bága við EB tilskipun nr. 98/37/EB og reglugerð nr. 761/2001 og bendir sérstaklega á gr. 1.2. I. viðauka með reglugerðinni sem lýtur að stöðvunarbúnaði slíkra tækja.

Stefnandi vísar um lagarök til þess að dómkrafan byggi á vátryggingarétti, en af því leiði, einnig með hliðsjón af því að tjón stefnanda er leitt af bilun í tæki, að tryggingafélagið hafi alla sönnunarbyrði í málinu.  Stefnandi vísar til laga nr. 46/1980  um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sérstaklega 13. gr., 20. gr., 21. gr. og 23. gr., sbr. 86. gr.  Er sérstaklega vísað til reglna um rannsóknar- og tilkynningarskyldu.  Þá er vísað til reglna vinnuréttar um verkstjórnarvald og húsbóndavald atvinnurekanda og hlýðniskyldu starfsmanns.  Einnig er vísað til reglna skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því að um ábyrgð hans fari samkvæmt almennu sakarreglunni og er því harðlega mótmælt að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda, enda hvíli ekki svo rík ábyrgð vinnuveitanda á vinnuslysum starfsmanna samkvæmt lögum eða dómvenju.

Er á því byggt að stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina um orsök tjóns síns og er þeirri fullyrðingu stefnanda um að stefndi beri sönnunarbyrðina harðlega mótmælt.  Á það er bent að Vinnueftirlitið hafi rannsakað slysið eftir að hafa fengið tilkynningu um það frá stefnda.  Hafi farið fram skoðun og prófun á borvélinni og engar athugasemdir verið gerðar við hana.  Hafi Vinnueftirlitið talið að slysið hefði orðið vegna þess að platan, sem borað var í, hafi ekki verið fest tryggilega.  Þá hafi farið fram frekari athugun á vélinni vorið 2004 og hafi niðurstaða þeirrar athugunar orðið sú að ekkert væri athugavert við hana.  Útiloki þessar rannsóknir því að orsök slyssins hafi verið bilun í vélinni.  Þá er því harðlega mótmælt að sönnunarbyrðin hvíli á tryggingafélaginu þar sem dómkrafan byggi á vátryggingarétti.  Byggir stefndi á því að krafa stefnanda byggi á skaðabótarétti og þá sé réttargæslustefndi ekki beinn aðili að málinu og verður stefnandi fyrst að staðreyna að hann eigi kröu á hendur stefnda áður en hann getur beint kröfum að réttargæslustefnda, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954.  Megi því ljóst vera að ekki séu skilyrði til að víkja frá þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli beri sönnunarbyrðina um tjón sitt og orsakir þess. 

Stefndi byggir á því að ósannað sé að slysið sé að rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.  Megi af gögnum málsins ráða að orsök slyssins hafi verið óhappatilviljun og/eða eigin sök stefnanda við framkvæmd verksins.

Stefndi byggir á því að slysið verði ekki rakið til vanbúnaðar borvélarinnar og hafi stefnandi, sem beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu, engin gögn lagt fram sem renni stoðum undir það að borvélin hafi verið vanbúin á nokkurn hátt.  Þvert á móti liggi fyrir að Vinnueftirlitið eða lögreglan hafi engar athugasemdir gert við vélina.  Þá er því mótmælt að ástand vélarinnar og gerð hennar hafi brotið gegn tilgreindum reglugerðarákvæðum og EB tilskipun.  Hafi Vinnueftirlitið engar athugasemdir gert við vélina og tekið fram að ekkert slit hefði fundist í stjórntækjum hennar og hún væri ekki úrelt.  Þá mótmælir stefndi því að óforsvaranlegt hefði verið með hvaða hætti stefnandi hafi orðið að slökkva á borvélinni og bendir á að rofinn hafi verið í nánd við þá hönd sem stjórnaði vélinni.  Þá er á því byggt að ósannað sé að ásláttarrofi hefði breytt einhverju um slysið.  Stefnandi haldi því fram að slysið hafi orðið með leifturhraða á sekúndubroti og hann hafi engum vörnum komið við. 

Stefndi byggir á því að niðurstaða Vinnueftirlitsins hafi verið sú að slysið mætti rekja til þess að ekki hafi verið gengið tryggilega frá festingum á plötunni sem borað var í og taldi ljóst að uppstillingu og festingu plötunnar við borplanið hefði verið mjög ábótavant, þannig að hún losnaði og snerist með bornum.  Verði því að telja að orsök slyssins hafi verið aðgæsluleysi stefnanda sjálfs.  Þá mótmælir stefndi þeim fullyrðingum stefnanda að borvélin hafi ekki verið í lagi, hún hafi verið slitin, hrokkið í gír, tekið völdin af stefnanda og hann hafi ekki getað haft stjórn á bornum.  Telur stefndi þessar fullyrðingar með öllu ósannaðar og í engu samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Stefndi mótmælir því að slysið sé að rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnanda og að verklagi og verkstjórn hafi verið ábótavant og hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem renni stoðum undir þetta.  Þá er því mótmælt að stefndi hafi brotið gegn tilgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980.  Stefnandi hafi fengið tilsögn frá starfsmönnum stefnda um notkun borvélarinnar, meðal annars um að festa bæri plötu tryggilega við borplanið með þvingu og bora skyldi hægt svo að borinn festist ekki í plötunni.  Þá voru stefnanda gerðir ljósir hættueiginleikar vélarinnar og var honum kunnugt um hvernig skyldi bregðast við ef slökkva þyrfti skyndilega á vélinni.  Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að stefnanda hafi verið fyrirskipað að halda um plötuna við borunina, enda hafi það verið hlutverk þvingunnar að halda plötunni.  Þá mótmælir stefndi því sem röngu og ósönnuðu að sú venja hafi myndast hjá stefnda að beita slíkum vinnuaðferðum við notkun vélarinnar.

Stefndi bendir á að stefnandi sé menntaður stálskipasmiður og hafi hann starfað við skipasmíðar frá árinu 1994 til ársins 1998.  Á því ári hafi hann hafið störf hjá stefnda og starfað þar fram að slysdegi.  Fram komi í bréfi Vinnueftirlitsins til lögmanns stefnanda að starfsmenn með sveinsprófsréttindi í málmiðnaðargreinum teljist hafa nægilega sérþjálfun til að nota slíkar vélar og stefnandi notaði umrætt sinn.  Þar sem stefnandi gat staðið einn að verkinu, hafi eðli málsins samkvæmt ekki verið haft sérstakt eftirlit með því af hálfu starfsmanna stefnda.  Hafi verið um einfalt verk að ræða og hafði stefnandi fengið þá kennslu og þjálfun í upphafi sem verkið útheimti og honum hafi verið gerðir hættueiginleikar þess ljósir.  Þá hafi stefnandi unnið við vélina margoft áður og þá hafði hann aldur, menntun og reynslu til að hafa full tök á verkinu sjálfur.

Stefndi telur því einsýnt að slys stefnanda verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda og verði stefnandi sjálfur að bera fulla ábyrgð á slysinu vegna aðgæsluleysis síns.  Stefnandi hafi ekki snúið þvingunni rétt og hafi platan af þeim sökum ekki verið fest tryggilega við borplanið.  Þá hafi hann borað of hratt í plötuna þannig að borinn festist í henni og sneri henni.  Loks hafi stefnandi gripið í plötuna þegar hún fór af stað og klemmdist hann af þeim sökum.

Varakrafa stefnda er á því byggð að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til eigin sakar stefnanda og ef til vill óhappatilviljunar.  Eigi stefnandi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálfur.  Er þar vísað til sömu málsástæðna og fram koma í rökstuðningi fyrir aðalkröfu eftir því sem við á.

Stefndi vísar um lagarök til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola.  Krafa um málskostnað er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Ekki er um það deilt í máli þessu hvernig stefnandi stóð að því að bora í plötuna með borvélinni.  Hafa verið lagðar fram í málinu ljósmyndir sem vitnið Jóhann Baldursson segir að sýni uppstillingu plötunnar á borplaninu og festingu hennar með þvingu.  Hefur stefnandi ekki gert athugasemdir við þessar myndir.  Í málinu er deilt um bótaskyldu stefnda og ræðst hún af reglum skaðabótaréttar en ekki vátryggingaréttar eins og stefnandi heldur fram, enda er réttargæslustefndi ekki aðili málsins.  Þá ber að hafna því að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á slysi stefnanda.  Ekki er ágreiningur um það mat Atla Þórs Ólasonar, dr. med.,  að stefnandi hafi hlotið 20% varanlega örorku í kjölfar slyssins.  Snýst ágreiningur aðila um það hvort slysið verði rakið til atvika sem stefndi ber ábyrgð á og er þar helst tekist á um það hvort borvélin hafi verið biluð og því ekki virkað sem skyldi og jafnframt hvort rekja megi slysið til skorts á verkstjórn og aðstæðna á vinnustaðnum.

Fram hefur komið í málinu að stefnandi hafði unnið um árabil hjá stefnda er slysið varð.  Hafði hann margoft unnið við umrædda borvél og borað göt í málmplötur.  Þá hefur stefnandi sveinsprófsréttindi í málmiðnaðargreinum og samkvæmt mati Vinnueftirlitsins telst hann því hafa nægilega sérþjálfun til að nota borvélina.  Verk það sem stefnandi vann var einfalt og hættulaust væri þess gætt að festa málmplötuna tryggilega.  Mátti stefnanda í ljósi menntunar sinnar og reynslu vera þetta fullkunnugt og þá er ekki annað fram komið í málinu en að stefndi hafi gert stefnanda grein fyrir aðstæðum öllum.  Verður því að hafna því að slysið verði rakið til slælegrar verkstjórnar af hálfu stefnda eða aðbúnaðar að öðru leyti á vinnustað.  Þá verður ekki talið að önnur staðsetning slökkvirofa á vélinni hefði eins og hér stóð á komið í veg fyrir slysið, enda hefur stefnandi lýst því að allt hafi gerst leiftursnöggt.    Stefnandi leggur megináherslu á að borvélin hafi verið biluð og segir það hafa komið í ljós við vettvangsgöngu að hlaup var í vélinni.  Vinnueftirliti ríkisins var tilkynnt tafarlaust um slysið og samkvæmt skýrslu þess voru engar athugasemdir gerðar við borvélina.  Þá hefur verið lagt fram vottorð Höskuldar Rafn Kárasonar, eftirlitsmanns og Tryggva Ólafssonar, lögreglufulltrúa og vélvirkjameistara þar sem fram kemur að ekkert slit  hafi fundist í stjórntækjum vélarinnar, handfangið hafi farið til baka í efstu stöðu er því var sleppt og væri hún sett óvart í niðurfærslugírinn, færi hún strax úr honum við minnstu snertingu, upp á við.  Þetta mat hefur ekki verið hrakið og þá hefur stefnandi ekki séð ástæðu til að dómkveðja matsmenn í því skyni að renna stoðun undir fullyrðingar sínar um ástand vélarinnar.  Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að vélin hafi verið vanbúin.  Að mati dómsins hefur honum ekki tekist sú sönnun og verður því hafnað að tjón stefnanda verði rakið til bilunar á vélinni.

Vinnueftirlit ríkisins komst að þeirri niðurstöðu eftir athugun á vettvangi að slysið megi rekja til þess að ekki hafi verið tryggilega gengið frá festingum á plötunni og eru áðurgreindir Höskuldur Rafn og Tryggvi sömu skoðunar.  Stefnanda bar sjálfum að ganga úr skugga um að platan væri nægilega fest og þá verður að telja það gáleysi af hans hálfu að setja höndina á plötukantinn.  Var slíkt öldungis óþarft, enda var það hlutverk þvingu að halda plötunni niðri.  Þá benda líkur til þess að þvingan hafi ekki snúið rétt og varlegra hefði verið fyrir stefnanda að nota tvær þvingur.

Það er því álit dómsins að slys stefnanda verði ekki rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á, heldur hafi það orðið vegna óhappatilviljunar og þess að stefnandi festi plötuna ekki nægilega.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna.  Lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Eyjablikk ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Péturs Sigurjónssonar í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.