Hæstiréttur íslands
Mál nr. 705/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Mánudaginn 18. nóvember 2013. |
|
Nr. 705/2013. |
Ásta Sigríður H. Knútsdóttir og Sesselja Engilráð Barðdal (Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir hdl.) gegn Gunnari Þorsteinssyni (Einar Hugi Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var þeirri kröfu Á og S að T gæfi munnlega vitnaskýrslu í meiðyrðamáli G á hendur Á o.fl. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ekki yrði ráðið af 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á sama hátt og af 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að unnt væri að leiða vitni í einkamáli til að bera um atriði sem varðaði ekki beinlínis það atvik er sanna skyldi en ályktun mætti leiða af um það. Þó yrði að líta svo á með hliðsjón af dómvenju að slíkt væri heimilt nema dómari teldi bersýnilega að framburður vitnis væri tilgangslaus til sönnunar og þýðingarlaus við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Hæstiréttur taldi að ekki yrði fullyrt eins og atvikum málsins væri háttað að vitnisburður T væri tilgangslaus og gæti alls ekki haft þýðingu við úrlausn meiðyrðamálsins, en það væri síðan dómara að meta sönnunargildi þess vitnisburðar þegar leyst yrði efnislega úr málinu, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og Á og S heimilað að leiða T sem vitni.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2013, þar sem hafnað var þeirri kröfu sóknaraðila að Thelma Ásdísardóttir gæfi munnlega vitnaskýrslu í máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þær kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sá ágreiningur sem hér er til úrlausnar á rót að rekja til máls sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðilum og Steingrími Sævarri Ólafssyni auk Vefpressunnar ehf. til réttargæslu. Í einum af kröfuliðum í málinu krefst varnaraðili ómerkingar á ummælum sem sóknaraðilar hafi viðhaft um hann á vefmiðlinum „pressan.is“ 25. nóvember 2010. Þar vísuðu sóknaraðilar meðal annars til bréfs frá fimm konum, þremur nafngreindum og tveimur ónafngreindum, með yfirskriftinni: „Kvörtun vegna kynferðislegs ofbeldis af hendi“ varnaraðila. Í bréfinu sagði að konurnar vildu leggja fram formlega kvörtun „um refsiverða framkomu“ hans gagnvart sér. Einnig kom fram í ummælum sóknaraðila að samkvæmt lögum væru „brot þessi“ fyrnd og að afleiðingarnar sem konurnar hefðu orðið fyrir „þegar á þeim var brotið“ fyrndust ekki. Í öðrum kröfulið beinir varnaraðili þeirri kröfu til vara að sóknaraðilanum Ástu að ummæli, sem höfð voru eftir henni samdægurs á sama vefmiðli, verði dæmd dauð og ómerk. Þar kom meðal annars fram að Ásta væri talskona kvenna sem sökuðu varnaraðila um „kynferðislegt ofbeldi“. Segðist hún „vita samtals um 16 fórnarlömb“ og hafa fengið vísbendingar um slíkt ofbeldi „yfir 25 ára tímabil.“ Auk ómerkingar ummælanna krefst varnaraðili miskabóta að óskiptu úr hendi sóknaraðila og Steingríms Sævarrs Ólafssonar.
Sóknaraðilar krefjast þess að bótakröfu varnaraðila verði vísað frá dómi, en að því frágengnu að þær verði sýknaðar af henni, svo og af kröfum hans um ómerkingu áðurgreindra ummæla. Ein af röksemdum sóknaraðila fyrir sýknu er að ummælin séu sönn og þær hafi metið frásagnir þeirra kvenna, sem þau hafi byggst á, trúverðugar og áreiðanlegar.
Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar segir að Thelma Ásdísardóttir, sem þær vilja leiða fyrir dóm sem vitni, hafi starfað með þolendum kynferðisofbeldis í fjöldamörg ár. Árið 2007, þegar Thelma hafi starfað hjá Stígamótum, hefði komið til hennar kona sem hefði tjáð henni að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu varnaraðila. Ári síðar hefði komið til Thelmu önnur kona sem hefði borið svipaðar sakir á varnaraðila. Síðla árs 2010, þegar sóknaraðilar höfðu gerst talsmenn fyrir þær konur sem málið varðaði, hafi þær ákveðið að hafa samband við Thelmu. Það hafi orðið úr að hluti þeirra kvenna, sem komið hafi fram opinberlega, auk annarra kvenna hefði hitt hana og þegið hjá henni aðstoð í formi reglulegra viðtala. Af hálfu sóknaraðila sé byggt á því að vitnisburður Thelmu sé nauðsynlegur til að sýna fram á að varnaraðili „hafi haft í frammi kynferðislegt ofbeldi gagnvart fjölda kvenna“ og „geti framburður hennar varpað skýrara ljósi á þá atburði sem um ræðir í málinu.“ Ekki sé um að ræða sérfræðivitni, heldur vitni sem ætlað sé að bera „um atvik máls og sannleiksgildi tiltekinna orða.“
II
Af 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 verður ályktað að aðili að einkamáli megi færa þar sönnur fyrir umdeildum atvikum með því að leiða fyrir dóm vitni, sem svari munnlega spurningum um slík atvik en ekki sérfræðileg atriði, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 21. maí 1996 í máli nr. 190/1996 sem birtur er á bls. 1785 í dómasafni það ár og dóma réttarins 3. júní 2013 í máli nr. 321/2013 og 28. október 2013 í máli nr. 631/2013. Ekki verður ráðið af 44. gr. laganna á sama hátt og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að unnt sé að leiða vitni í einkamáli til að bera um atriði sem varða ekki beinlínis það atvik er sanna skal en ályktanir má þó leiða af um það. Þó verður með vísan til dómvenju að líta svo á að slíkt sé heimilt, nema dómari telji bersýnilegt að framburður vitnisins sé tilgangslaus til sönnunar og muni því ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Í greinargerð varnaraðila hér fyrir dómi er tekið fram að aðila greini ekki á um það að hluti þeirra kvenna, sem málið tekur til, „kunni“ að hafa leitað til Thelmu Ásdísardóttur í lok árs 2010. Enda þótt það atvik væri óumdeilt, sem draga verður í efa í ljósi þess hvernig komist er að orði í greinargerðinni, verður ekki fullyrt eins og atvikum er háttað að vitnisburður hennar sé tilgangslaus og geti ekki haft þýðingu við úrlausn meiðyrðamáls þess sem varnaraðili hefur höfðað á hendur sóknaraðilum. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 91/1991 er það síðan dómara að meta sönnunargildi þess vitnisburðar þegar leyst verður efnislega úr málinu, þar sem meðal annars ber að taka tillit til þess ef vitnið hefur ekki skynjað af eigin raun atvik, sem um er deilt á málinu, þótt hún kunni að bera um atriði sem ályktanir verði dregnar af um slík atvik, til dæmis með því að styrkja eða veikja framburð annarra fyrir dómi um þau.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og sóknaraðilum heimilað að leiða Thelmu Ásdísardóttur fyrir dóm sem vitni til að bera um atvik sem hún hefur skynjað af eigin raun og geta haft þýðingu við úrlausn málsins.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómorði.
Dómsorð:
Sóknaraðilum, Ástu Sigríði H. Knútsdóttur og Sesselju Engilráð Barðdal, er heimilt að leiða Thelmu Ásdísardóttur sem vitni.
Varnaraðili, Gunnar Þorsteinsson, greiði sóknaraðilum hvorri um sig 125.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2013.
Í þinghaldi þann 13. september sl. komu fram mótmæli af hálfu lögmanns stefnanda um þá fyrirætlan lögmanns stefndu, Sesselju E. Barðdal og Ástu Sigríðar H. Knútsdóttur að leiða til skýrslutöku Thelmu Ásdísardóttur við aðalmeðferð málsins sem fyrirhuguð er þann 18. nóvember nk. Í þinghaldi þann 23. október krafðist stefnandi þess að dómari tæki til úrskurðar hvort umrætt vitni fengi að gefa skýrslu í málinu.
Stefnandi mótmælir því að Thelma Ásdísardóttir gefi vitnaskýrslu í málinu með vísan til 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda hafi hún ekki upplifað þau ætluðu atvik sem mál þetta sé sprottið úr af eigin raun.
Stefndu ítreka mikilvægi þess að Thelma Ásdísardóttir gefi munnlega vitnaskýrslu í málinu og að henni sé ætlað að varpa ljósi á málsatvik.
Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er hverjum manni, sem orðinn er 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Dómari telur samkvæmt framkomnum skýringum og öðrum gögnum málsins að Thelma Ásdísardóttir geti ekki talist vitni sem beri um málsatvik í máli þessu í skilningi 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991, og að af því leiði að ekki séu lagaskilyrði til þess að leiða hana fyrir dóminn í því skyni.
Kröfu lögmanns stefndu um að Thelma Ásdísardóttir gefi munnlega vitnaskýrslu í málinu er hafnað, en rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefndu, Sesselju E. Barðdal og Ástu Sigríðar H. Knútsdóttur um að Thelma Ásdísardóttir gefi munnlega vitnaskýrslu í málinu er hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.