Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 17

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004.

Nr. 73/2004.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. febrúar 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. febrúar 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fallist er á með héraðsdómara að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald sé fullnægt. Reynir þá ekki á hvort skilyrði c. liðar sama lagaákvæðis séu uppfyllt. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. febrúar 2004.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur krafist þess að X, […], verði á grundvelli a og c liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 fimmtudaginn 19. febrúar n.k.

[....]

          Kærði er grunaður um tvö vopnuð rán sem framin voru í dag. Varða brotin við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sæta fangelsisrefsing ef sök sannast. Kærði neitar sakargiftum. Rannsóknargögn þau sem fyrir liggja veita hins vegar sterka vísbendingu um aðild hans að málinu. Verður að fallast á það með fulltrúa lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé fram kominn um að hann tengist brotunum. Með hliðsjón af því að rannsókn málsins er á byrjunarstigi, meint brot eru alvarleg og hætta er á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintum brotum og hann hefur tengsl við, þykja rannsóknarhagsmunir því vera fyrir hendi og skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi. Eins og lýst er í kæru hafa ákærur verið gefnar út á hendur kærða vegna auðgunarbrota og önnur hegningarlaga- og fíkniefnabrot sem hann er talinn viðriðinn eru til rannsóknar hjá lögreglu, er því hætta á að kærði haldi áfram brotum gangi hann laus og er fallist á að c-liður 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála styðji einnig kröfuna. Með vísan til alls þess sem hér að framan er rakið þykja vera fyrir hendi forsendur til að taka kröfu lögreglustjórans á Selfossi til greina um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er.              

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

          Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 19. febrúar 2004, kl. 16:00.