Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/2002
Lykilorð
- Ríkisstarfsmenn
- Embættismenn
- Laun
|
|
Fimmtudaginn 26. september 2002. |
|
Nr. 92/2002. |
Hörður Sigurjónsson(Gylfi Thorlacius hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Ríkisstarfsmenn. Embættismenn. Laun.
H var skipaður í starf rannsóknarlögreglumanns við embætti ríkislögreglustjóra til fimm ára árið 1997. Árið 1999 var þeirri ráðstöfun breytt og H falið að gegna störfum rannsóknarlögreglumanns við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, með vísan til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eftir flutninginn fékk H greidd laun samkvæmt sama launaflokki og áður en missti sérstakt vaktaálag, sem greitt hafði verið hjá embætti ríkislögreglustjóra. Krafðist H þess fyrir dómi að fá greiddan þann launamismun sem af þessu leiddi. Talið var, að þrátt fyrir að umræddar greiðslur fælu ekki í sér viðveruskyldu þeirra lögreglumanna, sem þær þáðu, svo sem almennt gilti um bakvaktir, væru ekki næg efni til að hafna þeirri röksemd Í að lögreglumennirnir hafi, með því að þiggja greiðslurnar, undirgengist þá kvöð að vera undir það búnir að vera kallaðir út til vinnu utan reglulegs vinnutíma með skömmum fyrirvara. Við flutninginn til embættis lögreglustjórans í Reykjavík hafi H losnað undan þessari starfskvöð hjá ríkislögreglustjóra sem hann hafi þegið greiðslu fyrir. Hafi hann ekki átt rétt á slíkri greiðslu eftir að hann var kominn í hið nýja embætti, þar sem viðlíka kvöð hvíldi þá ekki á honum. Þótti því ekki unnt að líta svo á að H hafi lækkað í launum í skilningi 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá þótti ósannað af hálfu H að honum hafi verið lofað af hálfu embættis ríkislögreglustjóra að hann héldi umræddri álagsgreiðslu eftir flutning milli embættanna. Var dómur héraðsdóms um sýknu Í staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2002. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 740.228 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1999 til 2. desember sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 458.132 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðra lægri fjárhæð með vöxtum eins og í aðalkröfu greinir. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. nóvember síðastliðinn, er höfðað 27. júní 2001 af Herði Sigurjónssyni, Skipasundi 45, Reykjavík, gegn embætti ríkislögreglustjóra, dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
Stefnandi krefst aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 740.228 krónur, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1999 til 2. desember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 458.132 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 20.887 krónum frá l. nóvember 1999 til 1. desember 1999, af 41.774 krónum frá þeim degi til l. janúar 2000, af 62.661 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2000, af 85.924 krónum frá þeim degi til l. mars 2000, af 109.187 krónum frá þeim degi til til l. apríl 2000, af 132.450 krónum frá þeim degi til 1. maí 2000, af 155.713 krónum frá þeim degi til l. júní 2000, af 178.976 krónum frá þeim degi til l. júlí 2000, af 202.293 krónum frá þeim degi til l. ágúst 2000, af 225.502 krónum frá þeim degi til l. september 2000, af 248.765 krónum frá þeim degi til l. október 2000, af 272.028 krónum frá þeim degi til l. nóvember 2000, af 295.291 krónum frá þeim degi til l. desember 2000, af 318.554 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2001, af 341.817 krónum frá þeim degi til l. febrúar 2001, af 365.080 krónum frá þeim degi til 1. mars 2001, af 388.343 krónum frá þeim degi til l. apríl 2001, af 411.606 krónum frá þeim degi til l. maí 2001, af 434.869 krónum frá þeim degi til l. júní 2001, af 458.132 krónum frá þeim degi til l. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum bætur að álitum með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1999 til 2. desember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
I.
Stefnandi var skipaður 15. júlí 1988 til að gegna starfi lögreglumanns við embætti sýslumannsins í Árnessýslu og bæjarfógetans á Selfossi og var sú skipun ótímabundin í samræmi við ákvæði þágildandi starfsmannalaga. Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 20. desember 1995 fékk stefnandi launalaust leyfi hjá sýslumanninum í Árnessýslu frá 17. desember 1995. Fór stefnandi þá til starfa hjá rannsóknarlögreglu ríkisins og vann þar, uns embættið var lagt niður 30. júní 1997.
Stefnandi var skipaður til þess að vera rannsóknarlögreglumaður við embætti ríkislögreglustjóra til fimm ára frá 1. júlí 1997 með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 2. júní sama ár. Starfaði hann þar frá þeim degi til september 1999, en þá fól ríkislögreglustjóri honum að gegna störfum rannsóknarlögreglumanns við embætti lögreglustjórans í Reykjavík frá 1. október 1999 með vísan til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.
Á tímabilinu frá janúar til september 1999 fékk stefnandi greidd laun hjá embætti ríkislögreglustjóra samkvæmt launaflokki 077-7 og að auki greiddar 60 stundir með 45% vaktaálagi. Eftir að stefnandi hóf störf hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, hefur hann áfram fengið greidd laun samkvæmt launaflokki 077-7, en ekki áðurnefnt vaktaálag, sem stefnandi telur sig eiga rétt á. Telur stefnandi sig hafa lækkað í launum við flutning á milli embætta um rúmlega tuttugu þúsund krónur á mánuði.
Að beiðni lögmanns stefnanda reiknaði Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, ætlað vangreitt vaktaálag stefnanda frá því í september 1999 og til loka skipunartíma stefnanda í júní 2002. Er niðurstaða tryggingafræðingsins sú, að höfuðstólsverðamæti vangreidds vaktaálags fyrir allt tímabilið september 1999 til júní 2002 nemi 740.228 krónum. Með bréfi, dagsettu 10. febrúar 2000, var embætti lögreglustjórans í Reykjavík krafið um greiðslu launamismunarins út skipunartímann, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. september 1999 og til greiðsludags, en þeirri kröfu var hafnað með bréfi 19. febrúar 2000.
Höfðar stefnandi mál þetta, þar sem hann telur sig ekki hafa fengið þá leiðréttingu á launakjörum sínum, sem hann telur sig eiga rétt á, en greiðsluskyldu er mótmælt af hálfu stefnda.
II.
Stefnandi heldur því fram, að brotið hafi verið á honum, er hann var fluttur úr starfi hjá ríkislögreglustjóra og í starf hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Hafi stefnandi fengið greitt vaktaálag hjá ríkislögreglustjóra um hver mánaðamót, 60 stundir á mánuði á 45% vaktaálagi, óháð aukavinnu og vöktum, en fjárhæð greiðslunnar hafi miðast við ákvæði gildandi kjarasamnings á hverjum tíma. Það, að vaktaálag hafi verið greitt um hver mánaðamót, óháð sérstöku vinnuframlagi, telur stefnandi styðja fullyrðingu sína um, að vaktaálagið hafi verið greitt sem hluti af föstum launum.
Stefndi geti ekki flutt stefnanda í lægra launað embætti bótalaust og réttlætt það með því að segja að minni kvaðir eða ábyrgð fylgi nýju starfi. Slíkur flutningur á starfsmanni í lægra launað embætti á miðjum skipunartíma sé ólöglegur og fari gegn ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996. Hafi stefnandi mátt treysta því að lækka ekki í launum á skipunartímanum. Stefndi hafi þannig brotið gegn lögvörðum rétti stefnanda og beri að bæta honum tjón hans vegna þessa.
Tjón stefnanda hafi verið reiknað út af tyggingafræðingi og grundvallist sá útreikningur á því, hvað stefnandi hefði fengið greitt í vaktaálag út tímabilið miðað við vaktaálag sem ákveðið hlutfall af föstum launum. Krefjist stefnandi greiðslu samkvæmt reiknuðu höfuðstólsverðmati ógreidds vaktaálags, auk dráttarvaxta frá þeim degi, er honum hafi verið falið að gegna starfi við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, 1. október 1999.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda, telur stefnandi, með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996, að greiða verði honum launamismuninn mánaðarlega, frá færslu hans í starfi og það sem eftir er skipunartímans. Verði ekki fallist á eingreiðslu, beri að greiða stefnanda, samfara mánaðarlegum launagreiðslum út skipunartímann, 60 stundir miðað við 45% vaktaálag, líkt og hann hafi fengið greitt í sínu fyrra starfi hjá ríkislögreglustjóra, eða bæta samsvarandi fjárhæð við laun hans í hverjum mánuði. Vaktaálag, sem krafist sé, reiknist 20.887 krónur á mánuði á tímabilinu október 1999 til desember 1999, en 23.263 krónur á mánuði fyrir janúar 2000 til desember 2000, sbr. útreikninga tryggingarfræðings. Nemi vangreitt vaktaálag fyrir tímabilið október 1999 til maí 2001 samtals 481.395 krónum.
Stefnandi styður varakröfu og þrautavarakröfu að öðru leyti sömu málsástæðum og aðalkröfu.
Stefndi byggir á því, að túlka beri 2. mgr. 36. gr. með þeim hætti, að skýra verði í hverju tilviki hvað geti fallið undir þá mismunargreiðslu, sem ákvæðið geri ráð fyrir. Til slíkrar mismunargreiðslu komi ekki, sé um jöfn laun að ræða. Séu jöfn laun í þessu það sama og óbreytt launakjör í skilningi 19. gr., 3. mgr. 30. gr. og l. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, enda gefi lögskýringargögn án efa þá vísbendingu. Við skýringu á orðunum óbreytt launakjör í skilningi laga nr. 70/1996 sé nærtækast að leggja til grundvallar þann skilning, sem lagður sé í sama orðalag biðlaunaákvæðis 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, þ.e. varðandi biðlaunagreiðslur til embættismanna, er heyra undir úrskurðarvald kjaranefndar. Að teknu tilliti til ummæla í lögskýringargögnum sé jafnframt rétt að líta til þeirrar dómvenju, sem myndast hafði um túlkun á 14. gr. eldri laga nr. 38/1954 og að taka verði tillit til fastrar ómældrar yfirvinnu. Aðrar fastar greiðslur, sem grundvallast ekki á ákvæðum kjarasamnings, hljóti að þurfa sérstakrar skoðunar við í hverju tilviki. Telji stefndi, að gera verði þá kröfu, að slíkar greiðslur séu ekki tilkomnar vegna sérstakra kvaða, tengdum skipulagi vinnunnar á tilteknum vinnustað, en svo hafi einmitt verið um þá álagstíma, sem stefnanda hafi verið greiddir mánaðarlega í starfi hans hjá ríkislögreglustjóra. Hafi greiðslurnar alfarið verið háðar sérstöku skipulagi vinnunnar hjá ríkislögreglustjóra og skyldum á þeim vinnustað. Um hafi verið að ræða óskilgreindar bakvaktir, sem stefnandi hafi staðið á þeim vinnustað vegna landsumboðs þess embættis. Álagsstundirnar hafi þannig verið greiddar vegna þess bakvaktaskipulags, sem gilti og gildi enn hjá ríkislögreglustjóra. Fyrirkomulag þetta eigi sér ekki beina stoð í kjarasamningi, en sé í reynd svipað fyrirkomulag og gilt hafi um vinnu lögreglumanna á fámennum stöðum, sbr. bókun 3 með kjarasamningi, undirrituðum þann 13. júlí 2001, og eigi sér stoð í kafla 2.7 í kjarasamningi. Sé umræddu fyrirkomulagi hjá ríkislögreglustjóra ekki til að dreifa vegna starfs stefnanda hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Þá byggir stefnandi einnig á því samkvæmt framanskráðu, að meginreglur laga og eðli máls mæli gegn því, að greiðslur, sem algerlega eru tengdar sérstöku skipulagi á fyrri vinnustað, geti verið lögvarðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr., reyni á flutning í annað starf.
Stefnandi byggi á því, að honum hafi verið tjáð við flutninginn, að hann héldi sömu launum og hann hafði við embætti ríkislögreglustjórans. Í stefnu sé ekki vísað til gagna um þetta, hver hafi tjáð honum svo eða hvenær. Í þessu efni víki stefnandi ekki sérstaklega að hinum umdeildu álagsgreiðslum. Verði að mótmæla því sem röngu og ósönnuðu, að eitthvert loforð hafi stofnast að því er varðar umræddar álagsgreiðslur. Hefði slíkt heldur ekki getað stofnað til réttar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. að mati stefndu, en réttarstaða stefnanda og úrslit málsins ráðist af túlkun á því ákvæði. Enginn bindandi samningur hafi stofnast um að greiða stefnanda álagstíma við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því.
Verði ekki fallist á sýknu sé krafist lækkunar dómkrafna.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta með vísan til ákvæða III. kafla vaxtalaga, sbr. nú III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en 9. gr. laganna, verði aðal- eða þrautavarakrafa stefnanda tekin til greina.
Aðal- og þrautavarakröfu er mótmælt sérstaklega, þar sem hvergi séu uppfyllt skilyrði skaðabótareglna. Mæli ákvæði 2. mgr. 36. gr. fyrir um kröfu til launa, en ekki skaðabóta. Þótt fallist yrði á með stefnanda, að greiða hafi átt honum álagstímana 60 í starfi hans sem rannsóknarlögreglumanns hjá lögreglunni í Reykjavík, hafi engin skaðabótakrafa stofnast að lögum og efndatími þeirrar skyldu, sem leiða myndi af 2. mgr. 36. gr., væri ekki kominn fram í því tilviki, eins og leiði af skýru orðalagi hennar, en réttur á grundvelli hennar sé háður því, að vinnusambandið vari. Skipunartími stefnanda sé ekki liðinn undir lok og bótakrafan því háð ókomnum og óvissum skilyrðum. Hvergi sé í ákvæðinu eða annars staðar í lögum heimild til að greiða launamun með eingreiðslu í formi bóta, reiknaðra til núvirðis, og sé útreikningi tryggingafræðings því mótmælt sem þýðingarlausum. Hugsanlegt sé því að vísa eigi aðal- og þrautavarakröfu frá dómi vegna 26. gr. laga nr. 91/1991 og þess, að hún sé vanreifuð og málsgrundvöllur óljós og villandi.
III.
Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar, að flytjist maður í annað embætti samkvæmt 1. mgr., sem er lægra launað en fyrra embættið, skuli greiða honum launamismuninn þann tíma, sem eftir er af skipunartíma hans í fyrra embættinu.
Svo sem áður greinir var stefnandi skipaður rannsóknarlögreglumaður við embætti ríkislögreglustjóra frá 1. júlí 1997, til fimm ára, með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 2. júní sama ár, en með bréfi ríkislögreglustjóra frá 1. september 1999 var þeirri ráðstöfun breytt og stefnandi skipaður til að vera rannsóknarlögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík frá 1. október 1999. Um heimild til þessarar ráðstöfunar er í bréfinu vísað til 36. gr. laga nr. 70/1996, sem áður er getið.
Stefnandi fékk greidd laun hjá ríkislögreglustjóraembættinu samkvæmt launaflokki 077-7. Hélt hann þeim launum, er hann fluttist til lögreglustjórans í Reykjavík. Þá hefur hann fengið greidda tilfallandi yfirvinnu hjá því embætti á sama hátt og áður var hjá embætti ríkislögreglustjóra. Eftir flutninginn hefur stefnandi hins vegar ekki fengið greitt sérstakt vaktaálag, svo sem var hjá ríkislögreglustjóra frá 1. október 1997.
Stefndi vísar um þörf fyrir greiðslu vaktaálagsins til landsumboðs ríkislögreglustjóra samkvæmt 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar er hlutverk ríkislögreglustjóra meðal annars að veita lögreglustjórum aðstoð og stuðning í lögreglustörfum og annast viðfangsefni, sem eðli máls samkvæmt eða aðstæðna vegna kalla á miðstýringu eða samhæfingu á landsvísu eða samstarf við lögreglu í öðru landi, svo og að hafa með höndum yfirstjórn eða gefa fyrirmæli um framkvæmd einstakra löggæsluverkefna, sem krefjast viðamikils undirbúnings eða þátttöku lögreglumanna úr fleiri en einu umdæmi, sbr. f., g. og h. lið lagagreinarinnar. Hafi álagsgreiðslurnar verið teknar upp í tilraunaskyni gegn því að starfsmenn sameinuðust um að leysa úr útköllum með sameiginlegri ábyrgð, í stað þess að tekið yrði upp sérstakt kerfi bakvakta (gæsluvakta) utan reglulegs dagvinnutíma. Feli þessar greiðslur í sér skyldu stefnanda til að vera búinn undir að vera kallaður út til vinnu fyrirvaralaust utan reglulegs vinnutíma. Er mótmælt sem rangri þeirri fullyrðingu stefnanda, að engar kvaðir hafi fylgt þessari greiðslu og að hún hafi verið ákveðin sem föst launauppbót, til að vega upp á móti launaskerðingu, sem stefnandi telji, að margir rannsóknarlögreglumenn hjá rannsóknarlögreglu ríkisins hafi orðið fyrir. Geti hver og einn lögreglumaður óskað eftir að vera ekki undir þá kvöð settur að koma til vinnu fyrirvaralaust utan reglulegs vinnutíma og myndi þá greiðslan falla niður. Á sama hátt geti ríkislögreglustjóri sagt þessu fyrirkomulagi bakvakta upp með þeim fyrirvara, sem leiði af lögum og kjarasamningum. Á það hafi hins vegar ekki reynt og séu þessar greiðslur enn við lýði hjá embættinu.
Fyrir liggur í málinu ,,tillaga” yfirmanna hjá ríkislögreglustjóra um áðurnefnt vaktálag frá 15. nóvember 1997. Segir þar meðal annars, að hún byggi á, að greidd sé þóknun fyrir álag og óhagræði, sem fylgir því að þurfa hugsanlega að fara, án fyrirvara, til starfa fjarri heimili og starfstöð um óákveðinn tíma, en fyrir þetta þurfi ekki að greiða sérstaklega, þar sem starfsmenn séu lögum samkvæmt skyldugir til að vinna yfirvinnu að ákveðnu marki og í kjarasamningum sé samið um greiðslu fyrir yfirvinnu og útkall utan dagvinnu. Sé lagt til að nefna þetta þóknun, sem í greiðslu miðist við ákveðinn fjölda klukkustunda á 45% álagi. Ekki sé þörf bakvaktar fyrir embættið, auk þess sem slíkt mundi baka óþarfa álag og óhagræði fyrir starfsmenn. Þetta myndi ekki bakvaktarfyrirkomulag, heldur sé eingöngu til hagræðingar fyrir starfsmennina sjálfa, þannig að þeir geti búið sig undir yfirvinnu með þessum hætti, svo langt sem það nái, því auðvitað ráðist þetta allt af verkefninu hverju sinni, eðli þess og umfangi. Kostir við þetta fyrirkomulag eru sagðir þeir í fyrsta lagi, að lögreglumennirnir séu ekki bundnir sérstaklega utan daglegs vinnutíma, í öðru lagi, að um ódýrari kost sé að ræða en bakvaktarkerfi, í þriðja lagi, að þetta leiði ekki til þess, að starfsmenn ávinni sér rétt til þess að taka út frí í stað greiðslu, svo sem verið hafi með bakvaktarfyrirkomulaginu, og í fjórða lagi, að með þessum greiðslum verði kjör og laun lögreglufulltrúa og rannsóknarlögreglumanna hjá ríkislögreglustjóra ekki lakari en annarsstaðar.
Ljóst er, að rökstuðningur þessi fyrir umræddu vaktafyrirkomulagi hefur verið settur á blað, eftir að það var komið til framkvæmda, en gera verður ráð fyrir, að sömu sjónarmið og þau, sem þar koma fram, hafi verið lögð til grundvallar þeirri ákvörðun embættisins.
Ákvörðun ríkislögreglustjóra um að greiða lögreglumönnum mánaðarlega umrætt vaktaálag var tekin einhliða af hálfu embættisins og er þar því hvorki um að ræða lögbundinn né samningsbundinn rétt þeirra til greiðslnanna. Að baki ákvörðuninni lágu ýmsar ástæður, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Þrátt fyrir að þessar greiðslur feli ekki í sér viðveruskyldu þeirra lögreglumanna, sem þær þiggja, svo sem almennt gildir um bakvaktir, þykja ekki vera næg efni til að hafna þeirri röksemd stefnda, að lögreglumennirnir hafi, með því að þiggja greiðslurnar, undirgengist þá kvöð að vera undir það búnir að vera kallaðir út til vinnu utan reglulegs vinnutíma með skömmum fyrirvara. Þykir þar engu breyta þótt mismunandi hafi verið milli lögreglumanna, hversu oft þeir hafa verið kallaðir út utan venjulegs vinnutíma og að hjá sumum þeirra hafi aldrei reynt á það.
Við flutninginn til embættis lögreglustjórans í Reykjavík losnaði stefnandi undan þeirri starfskvöð hjá ríkislögreglustjóra, sem að ofan greinir og hann þáði greiðslu fyrir. Átti hann ekki rétt á slíkri greiðslu, eftir að hann var kominn í hið nýja embætti, þar sem viðlíka kvöð hvíldi þá ekki á honum. Ber að árétta í þessu sambandi, að hér er hvorki um lögbundinn né samningsbundinn rétt stefnanda til nefndrar greiðslu að ræða. Þá verður jafnframt að telja, að hún sé bundin við lögreglumenn við embætti ríkislögreglustjóra samkvæmt ákvörðun þess embættis. Þykir því eigi unnt að líta svo á, að stefnandi hafi lækkað í launum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 við að flytjast í annað embætti, en óumdeilt er, að stefnandi hélt þar óbreyttum kjörum að öðru leyti en varðar það ágreiningsefni, er hér um ræðir. Að lokum er ósannað af hálfu stefnanda, að honum hafi verið lofað af hálfu embættis ríkislögreglustjóra, að hann héldi umræddri álagsgreiðslu eftir flutning milli embættanna.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður milli þeirra falli niður.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Harðar Sigurjónssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.