Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. maí 2001.

Nr. 149/2001.

Eignarhaldsfélagið Háaleiti ehf.

(Ólafur Thóroddsen hdl.)

gegn

Guðlaugu Guðjónsdóttur

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Þinglýsing.

Talið var að með þinglýsingu samkomulags G og Ó um sambúðarslit, þar sem meðal annars var kveðið á um skipti eigna þeirra, hafi Ó átt að verða eins settur og ef hann hefði í höndum þinglýstan kaupsamning fyrir þeim helmingi tiltekinnar fasteignar, sem hann hafði ekki áður fengið óskilyrtan eignarrétt yfir með afsali frá G, og þar með formlega eignarheimild í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Var því talið að Ó hafi mátt ráðstafa fasteigninni og að E, viðsemjanda Ó, hafi jafnframt verið rétt að fá eignarheimild sinni þinglýst, þótt það yrði gert að gættum hugsanlegum réttindum G. Var því felld úr gildi sú ákvörðun sýslumanns að afmá úr þinglýsingabók afsal til E og lagt fyrir hann að færa heimildir um eignarrétt að fasteigninni í fyrra horf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 27. desember 2000 um að afmá úr þinglýsingabók færslu um eignarrétt sóknaraðila að fasteigninni „Söluturn og biðskýli Háaleitisbraut/Hvassaleiti“ á grundvelli afsals til hans frá Ólafi Hafsteinssyni 10. júlí 2000. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumann að færa á ný inn í fasteignabók áðurnefnt afsal til sín, svo og að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

I.

Svo sem lýst er í úrskurði héraðsdómara fékk varnaraðili afsal 3. mars 1993 fyrir áðurnefndum söluturni og biðskýli, en mannvirki þetta, sem mun vera án lóðarréttinda, er í ýmsum skjölum málsins auðkennt sem fasteignin Háaleitisbraut 66 í Reykjavík. Þessu afsali var þinglýst 4. sama mánaðar. Á þessum tíma mun varnaraðili hafa verið í sambúð með fyrrnefndum Ólafi Hafsteinssyni. Þau undirrituðu kaupmála 26. júní 1997, þar sem fram kom að þau hygðust ganga í hjúskap, en af því mun ekki hafa orðið. Í skjali þessu var meðal annars mælt fyrir um að umrædd fasteign skyldi vera séreign varnaraðila og hún bæri ein ábyrgð á veðskuld, sem hvíldi á eigninni. Sama dag gaf varnaraðili út afsal til Ólafs fyrir helmingi eignarinnar, þar sem því var einnig lýst yfir að hann tæki að sér helming áhvílandi veðskuldar. Réttindi varnaraðila á grundvelli kaupmálans virðast hafa verið færð í þinglýsingabók 8. ágúst 1997. Afsali varnaraðila til Ólafs var þinglýst 15. október 1999.

Varnaraðili og Ólafur Hafsteinsson gerðu samkomulag um sambúðarslit 30. desember 1998. Kom þar fram að húsnæðið að Háaleitisbraut 66 ásamt rekstri söluturns með heitinu Blái turninn skyldi koma í hlut Ólafs, sem jafnframt tæki að sér skuldir með veðrétti í húsnæðinu, samtals 2.300.000 krónur, og skammtímaskuldir vegna rekstrarins að fjárhæð um 1.300.000 krónur. Þá sagði jafnframt eftirfarandi í samkomulaginu: „Maðurinn áskilur sér rétt til að fá útgefið afsal fyrir fasteigninni að Háaleitisbraut 66 og fyrir eignarhaldi og rekstrinum á „Bláa turninum“ til óstofnaðs hlutafélags sem hann hyggst stofna með fleirum. Útgáfa afsalsins er bundin því að maðurinn hafi þá leyst konuna úr öllum persónulegum ábyrgðum vegna rekstursins.“ Samkomulag þetta var afhent til þinglýsingar 16. desember 1999 sem eignarheimild að húsnæðinu að Háaleitisbraut 66, en réttindi Ólafs samkvæmt því voru þó ekki færð í þinglýsingabók fyrr en 26. júní 2000. Hinn 10. júlí 2000 gaf Ólafur sem áður segir út afsal fyrir eigninni til sóknaraðila, sem var afhent til þinglýsingar 19. sama mánaðar og innfært í þinglýsingabók næsta dag. Óumdeilt er að við gerð þessa afsals hafi legið fyrir þinglýsingarvottorð sýslumannsins í Reykjavík 28. júní 2000 fyrir eigninni, þar sem tilgreint var að Ólafur væri þinglýstur eigandi samkvæmt heimildarbréfum 26. júní 1997 og 30. desember 1998, eigninni fylgdu ekki lóðarréttindi, á henni hvíldu tvær nánar tilgreindar veðskuldir og þinglýst hefði verið húsaleigusamningi um hana við Bláa Turninn og samningi um framleigu við Turna ehf.

Í bréfi til sýslumannsins í Reykjavík 20. september 2000 vísaði varnaraðili til þess að þinglýst hefði verið samkomulagi hennar og Ólafs Hafsteinssonar um sambúðarslit frá 30. desember 1998, en meðal eigna, sem sá samningur tæki til, væri Háaleitisbraut 66. Kæmi þar skýrt fram að varnaraðili væri afsalshafi að fasteigninni og að Ólafur fengi aðeins afsal fyrir henni að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Þau væru ekki uppfyllt. Sýslumanni hafi því verið óheimilt að þinglýsa skjölum á eignina án samþykkis varnaraðila. Hún hafi fengið af því spurnir að afsali fyrir eigninni frá Ólafi til þriðja manns hefði verið þinglýst í andstöðu við framangreint. Væri þess krafist með vísan til 27. gr. þinglýsingalaga að „framangreind þinglýsing“ yrði afmáð með því að „samþykki þinglýsts eiganda skorti“. Sýslumaður varð við þessari kröfu með fyrrnefndri ákvörðun 27. desember 2000 þannig að afmáð var úr þinglýsingabók færsla á eignarrétti Ólafs á grundvelli samkomulags hans og varnaraðila um sambúðarslit ásamt afsali hans til sóknaraðila.

II.

Eins og áður greinir lá fyrir við kaup sóknaraðila á fasteigninni að Háaleitisbraut 66 þinglýsingarvottorð sýslumannsins í Reykjavík 28. júní 2000, þar sem Ólafur Hafsteinsson var einn tilgreindur sem þinglýstur eigandi á grundvelli fyrrnefnds afsals frá varnaraðila 26. júní 1997 og samkomulags þeirra um sambúðarslit 30. desember 1998. Í vottorðinu var greint frá tveimur áhvílandi veðskuldum, en engra kvaða eða annarra eignarbanda var þar getið nema áðurnefndra tveggja leigusamninga. Sóknaraðili mátti samkvæmt þessu vera í góðri trú um að viðsemjandi hans væri réttur eigandi eignarinnar, enda var ekkert að finna í vottorðinu, sem gat gefið sóknaraðila tilefni til að gæta betur að réttindum viðsemjanda síns áður en þeir gengu til kaupa.

Í samkomulagi varnaraðila við Ólaf Hafsteinsson um sambúðarslit var mælt fyrir um ákveðin skilyrði, sem honum bar að fullnægja áður en hann gæti krafist afsals úr hendi hennar fyrir fasteigninni. Þessi skilyrði gengu lengra en um ræðir í 21. gr. þinglýsingalaga og stóðu þannig í vegi því að þinglýsa mætti samkomulaginu eins og það fæli í sér afsal til Ólafs, svo sem sýslumaður virðist í öndverðu ranglega hafa gert. Var því áðurnefnt þinglýsingarvottorð sýslumanns frá 28. júní 2000 að þessu leyti rangt að efni til. Þetta fær því á hinn bóginn ekki breytt að með réttu mátti færa í þinglýsingabók réttindi Ólafs yfir fasteigninni samkvæmt samkomulagi hans við varnaraðila frá 30. desember 1998 eins og um væri að ræða ígildi kaupsamnings, svo sem efni samkomulagsins stóð til. Með þinglýsingu samkomulagsins átti Ólafur því að verða eins settur og ef hann hefði í höndum þinglýstan kaupsamning fyrir þeim helmingi fasteignarinnar, sem hann hafði ekki áður fengið óskilyrtan eignarrétt yfir með afsali frá varnaraðila, og þar með formlega eignarheimild í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga. Af þessum sökum mátti Ólafur ráðstafa fasteigninni á þann hátt, sem hann gerði, og var sóknaraðila jafnframt rétt að fá eignarheimild sinni að henni þinglýst, þótt það yrði gert að gættum hugsanlegum réttindum varnaraðila. Verður samkvæmt þessu að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, sem um ræðir í málinu, og leggja fyrir hann að færa heimildir um eignarrétt að fasteigninni Háaleitisbraut 66 í fyrra horf.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili dæmd til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að færa að nýju inn í fasteignabók afsal 10. júlí 2000 til sóknaraðila, Eignarhaldsfélagsins Háaleitis ehf., frá Ólafi Hafsteinssyni fyrir fasteigninni „Söluturn og biðskýli Háaleitisbraut/Hvassaleiti“.

Varnaraðili, Guðlaug Guðjónsdóttir, greiði sóknaraðila 40.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 14. mars sl., var þingfest 9. febrúar sl.

Sóknaraðili er Eignarhaldsfélagið Háaleiti ehf., kt. 590700-2070, Háaleitisbraut 66, Reykjavík.

Varnaraðili er Guðlaug Guðjónsdóttir, kt. 190866-4759, Heiðargerði 62, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að hrundið verði með úrskurði þeirri úrlausn sýslumannsins í Reykjavík að afmá úr þinglýsingarbókum embættisins afsal Ólafs Hafsteinssonar, kt. 261153-5139, Klapparstíg 1, Reykjavík, á lóðarréttindalausu bílskýli og söluturni við Háaleitisbraut/Hvassaleiti, nánar tiltekið Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík, til sóknaraðila, en afsalið er dags. 10. júlí 2000 og þinglesið 19. s.m., og að lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að færa afsalið inn í þinglýsingarbækur að nýju. Þá er og krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og að úrlausn sýslumannsins í Reykjavík um að afmá þinglýsingu nr. A-14760 frá 19. júlí 2000 verði staðfest. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað  að mati dómsins.

 

I

Málsatvik

Með afsali, dags. 3. mars 1993, þinglýstu 4. mars s.á. með þinglýsingarnúmer A-3603/93, eignaðist varnaraðili, Guðlaug Guðjónsdóttir, eignina Háaleitisbraut 66, söluturn og biðskýli. Varnaraðili var í sambúð með Ólafi Hafsteinssyni. Með kaupmála dags. 26. júní 1997, þinglýstum 25. júlí 1997, var eignin gerð að séreign hennar. Með afsali, dags. 26. júní 1997, sem þinglýst var 15. október 1999 með þinglýsingarnúmeri B-21549/99 afsalaði Guðlaug 50% eignarhluta nefndrar fasteignar til Ólafs. Sambúð Guðlaugar og Ólafs Hafsteinssonar rofnaði og gerðu þau með sér samkomulag um sambúðarslit þann 30. desember 1998. Samkvæmt því skyldi Guðlaug hljóta fasteignina Heiðargerði 62, Reykjavík en Ólafur fasteignina Háaleitisbraut 66, Reykjavík auk rekstrar Bláa turnsins.  Afsöl voru ekki gefin út, en Guðlaug lét þinglýsa samkomulaginu 16. desember 1999 ( innfært 17. desember) sem afsali að Heiðargerði 62, þinglýsingarnúmer A-29045/99. Ólafur þinglýsti samkomulaginu þann 26. júní 2000 sem afsali á 50% af Háaleitisbraut 66, þinglýsingarnúmer B-12321/00. Þinglýst var án athugasemda. Þann 10. júlí 2000 afsalaði Ólafur ofangreindri eign til sóknaraðila og var afsalið móttekið til þinglýsingar 19. júlí og innfært í þinglýsingabók 20. júlí s.á. með þinglýsingarnúmer A-14760/00. Við afsalsgerðina lá frammi þinglýsingarvottorð dags. 28. júní 2000 þar sem tiltekinna húsaleigusamninga var getið sem kvaða á eigninni.

Með bréfi lögmanns varnaraðila til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 20. september 2000, var þess krafist að þinglýsing afsals Ólafs til sóknaraðila yrði afmáð úr veðmálabókum með vísan til 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 á grundvelli þess að samþykki þinglýsts eiganda, Guðlaugar, hafi skort og því hafi verið með öllu óheimilt að þinglýsa skjölum á eignina án samþykkis hennar sem þinglýsts eiganda.

Með bréfi, dags. 27. desember 2000, tilkynnti sýslumaðurinn í Reykjavík lögmanni varnaraðila að þinglýsing sambúðarslitasamnings aðila yrði afmáð og í framhaldi af því einnig þinglýsing afsals til sóknaraðila. Byggðist ákvörðun sýslumanns á því að í lið IV. greinar 3 í fyrrnefndum sambúðarslitasamningi aðila hafi komið fram að Ólafur áskildi sér rétt til að fá útgefið afsal fyrir eigninni þegar hann hefði leyst Guðlaugu úr persónulegum ábyrgðum vegna reksturs þeirra á Bláa turninum. Við þinglýsingu samningsins hafi mönnum yfirsést þetta ákvæði. Í bréfi sýslumanns segir ennfremur: “Hins vegar hefði með vísan til ofangreinds ákvæðis átt að vísa honum frá þinglýsingu og benda á að samningurinn kvæði á um útgáfu sérstaks afsals fyrir eigninni til mannsins að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Lagaskilyrði fyrir þinglýsingu eignaréttar Ólafs Hafsteinssonar að eigninni voru því ekki fyrir hendi.” Í bréfi sýslumanns kemur einnig fram að kaupmáli sá er Guðrún (sic) og Ólafur, gerðu dags. 26. júní 1997, þar sem ofannefnd fasteign er gerð að séreign Guðrúnar (sic) sé ógildur þar sem í sambúðarslitasamningi komi fram að Guðrún (sic) og Ólafur hafi verið í sambúð frá árinu 1989 en ekki gengið í hjónaband en sambúðarfólk geti ekki gert kaupmála sín á milli. Skráning í þinglýsingabók varð eftir þessa breytingu með þeim hætti að aðilar áttu 50% eignarinnar hvort í óskiptri sameign.

Með bréfi, dags. 11. janúar 2001, tilkynnti lögmaður sóknaraðila sýslumanninum í Reykjavík að ofangreind ákvörðun embættisins frá 27. desember 2000, yrði lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur samkvæmt heimild í 3. gr. laga nr. 39/1978. Undir rekstri málsins var sýslumanninum í Reykjavík gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Af hálfu embættisins er í bréfi, dags. 12. mars 2001, greint frá því að þegar þinglýsingastjóri hafi orðið þess áskynja að þinglýsing samkomulags um sambúðarslit milli Guðlaugar Guðjónsdóttur og Ólafs Hafsteinssonar hafi verið röng, þar sem í honum hafi ekki falist skilyrðislaus yfirfærsla eignarréttar, hafi samningurinn verið afmáður úr þinglýsingabók sem eignarheimild. Í kjölfar þess hafi afsal dags. 10. júlí 2000 til Eignarhaldsfélagsins Háaleitis ehf., einnig verið afmáð enda hafi afsalsgjafi Ólafur, verið þar einn en ekki jafnframt Guðlaug Guðjónsdóttir. Samkvæmt framansögðu hafi Ólafur Hafsteinsson mátt vita að eignarheimild hans samkvæmt sambúðarslitasamningnum hafi verið skilyrt.

 

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að við útgáfu afsals til hans að Háaleitisbraut 66, Reykjavík, hinn 10. júlí 2000, hafi legið frammi þinglýsingarvottorð frá 28. júní 2000, þar sem ekki hafi verið getið neinna kvaða annarra en leigusamninga, sem ekki varði mál þetta. Sóknaraðili kveðst því hafa verið í góðri trú um það að afsalsgjafinn, Ólafur Hafsteinsson, hafi átt allan ráðstöfunarrétt á hinni seldu eign. Vísar sóknaraðili þessari málsástæðu sinni til stuðnings til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 39/1978. Um heimildir til að leggja úrlausn þinglýsingastjóra undir Héraðsdóm Reykjavíkur vísast til 3. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1988.

 

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að samkvæmt sambúðarslitasamningi þeim sem Ólafur Hafsteinsson byggði eignarhald sitt á, dags. 30. desember 1998, hafi komið skýrt fram að gefa ætti út sérstakt afsal til Ólafs þegar hann hefði leyst varnaraðila úr öllum ábyrgðum vegna reksturs Bláa Turnsins, sbr. IV.3 lið í samningnum. Þetta hafi þau áhrif að líta verði á sambúðarsamninginn sem hliðstæðu kaupsamnings í almennum fasteignaviðskiptum og að eignarréttur Ólafs hafi því verið háður sömu takmörkunum og slíkir samningar þar sem seljandi sé áfram þinglýstur eigandi fasteignarinnar þar til kaupandi hafi efnt að fullu skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og hafi fengið sérstakt afsal því til staðfestingar frá seljanda.  Í þeim tilvikum sé sýslumanni ekki heimilt að færa í þinglýsingarbækur skráningu um fullt eignarhald kaupanda fyrr en seljandi hafi gefið út afsal sem fullnægi lagaskilyrðum 21. og 22. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi Ólafur aldrei verið afsalshafi enda hafi uppgjör hans og varnaraðila vegna Bláa turnsins aldrei farið fram.

Jafnframt byggir varnaraðili á því að framangreindur sambúðarslitasamningur hafi verið gagnkvæmur samningur sem geri það að verkum að þau réttindi sem aðilar eigi að öðlast á grundvelli samningsins séu háð því að viðkomandi efni sínar skyldur gagnvart gagnaðila. Það hafi hann ekki gert og standi málaferli fyrir dyrum um uppgjör á grundvelli samningsins, þar sem ekki hafi náðst samkomulag um það.

Varnaraðili mótmælir þeim fullyrðingum sóknaraðila að hann hafi verið í góðri trú á þeim grundvelli að í samningi þeim sem viðsemjandi sóknaraðila, Ólafur Hafsteinsson, hafi byggt eignarhald sitt á, þ.e. framlögðum sambúðarslitasamningi,  komi ótvírætt fram það skilyrði fyrir útgáfu afsals sem áður sé lýst og verði að gera þær kröfur til sóknaraðila sem góðs og gegns kaupanda í fasteignaviðskiptum að hann kynni sér með fullnægjandi hætti eignarheimildir viðsemjanda síns.

Á þessum grundvelli og með vísan til þess rökstuðnings sem fram komi í úrlausn sýslumannsins í Reykjavík beri því að staðfesta úrlausn sýslumannsins um það að afmá úr þinglýsingabókum afsal til sóknaraðila.

 

IV

Niðurstaða

Mál þetta sætir úrlausn dómsins samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.  Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur sent héraðsdómara athugasemdir sínar um málsefnið í samræmi við 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, en varnaraðili málsins er Guðlaug Guðjónsdóttir.

Í  samningi um sambúðarslit varnaraðila og Ólafs Hafsteinssonar, dags. 30. desember 1998, kemur fram, í lið IV grein 3, að útgáfa afsals fyrir fasteigninni Háaleitisbraut 66, eignarhaldi og rekstri á Bláa turninum, sé bundin því skilyrði að Ólafur hafi þá leyst varnaraðila úr öllum persónulegum ábyrgðum vegna rekstursins. Þar sem samningurinn fól ekki í sér skilyrðislausa yfirfærslu eignarréttar voru ekki lagaskilyrði fyrir þinglýsingu hans sem eignarheimild Ólafs að eigninni, sbr. 21. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.  Samningurinn var þrátt fyrir það innfærður í þinglýsingabók þann 17. desember 1999. Ólafur gaf síðar út afsal til sóknaraðila, dags. 10. júlí 2000, sem móttekið var til þinglýsingar 19. júlí s.á. og innfært í þinglýsingabók 20. júlí s.á. með þinglýsingarnúmerið A-14760/00. Samkvæmt framansögðu gat Ólafur ekki byggt eignarheimild sína á ofangreindum sambúðarslitasamningi þar eð í honum fólst ekki skilyrðislaus yfirfærsla eignarréttar. Afsal til sóknaraðila gat því eigi farið fram fyrir atbeina Ólafs eins, þar eð samþykki varnaraðila, sem annars afsalshafa skorti.

Í 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 er kveðið á um leiðréttingaskyldu þinglýsingastjóra þegar hann verður þess áskynja að mistök hafi orðið við færslu í fasteignabók.  Í samræmi við þá skyldu var sambúðarslitasamningur varnaraðila og Ólafs Hafsteinssonar afmáður úr þinglýsingabók sem eignarheimild og í kjölfar þess einnig afsal Ólafs til sóknaraðila, Eignarhaldsfélagsins Háaleitis ehf., dags. 10. júlí 2000 sem þinglýst hafði verið 20. júlí s.á. og byggði á greindum sambúðarslitasamningi.

Verður að telja að ofangreind leiðrétting þinglýsingastjóra hafi verið lögum samkvæmt og ber því að staðfesta úrlausn þinglýsingastjórans í Reykjavík, dags. 27. desember 2000, þess efnis að afmáð verði þinglýsing afsals til sóknaraðila sem þinglýst var þann 20. júlí 2000 með þinglýsingarnúmer nr. A-14760/00.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er úrlausn þinglýsingastjórans í Reykjavík, dags. 27. september 2000, um að afmáð verði úr þinglýsingabók þinglýsing afsals til sóknaraðila, sem þinglýst var 20. júlí 2000 með þinglýsingarnúmerið A-14760/00.

Málskostnaður fellur niður.