Hæstiréttur íslands

Mál nr. 575/2012


Lykilorð

  • Samningur
  • Veðleyfi
  • Ábyrgð
  • Veðskuldabréf


                                     

Fimmtudaginn 7. mars 2013.

Nr. 575/2012.

Alfreð Harðarson

(Eyvindur Sólnes hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Samningur. Veðleyfi. Ábyrgð. Veðskuldabréf.

A höfðaði mál á hendur L hf. og krafðist þess að felld yrði úr gildi veðsetning sem hann veitti í fasteign sinni með undirritun á skuldabréf sem útgefið var af hálfu þáverandi tengdasonar A til forvera L hf. A bar því við að forveri L hf. hefði ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 þar sem honum hefði ekki verið kynnt greiðslumat áður en hann samþykkti veðsetninguna, auk þess sem greiðslumatið hefði verið ófullnægjandi. Talið var að með undirritun A á veðskuldabréfið hefði hann staðfest að hafa kynnt sér upplýsingabækling lánveitandans, en þar með hefði honum átt að vera kunnugt um að greiðslumat hefði verið gert. Með þeim hætti hefði matið verið kynnt A og það hefði verið undir honum sjálfum komið hvort hann óskaði eftir að sjá það áður en hann veitti samþykki við veðsetningu fasteignar sinnar. Þá var ætluð röng forsenda í greiðslumati ekki talin þess eðlis að forvera L hf. yrði um hana kennt og voru skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga því ekki talin uppfyllt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2012. Hann krefst þess að felld verði úr gildi veðsetning sem hann veitti í fasteign sinni að Dalalandi 16 í Reykjavík með undirritun á skuldabréf, útgefnu af Daníel Erni Heiðarssyni 13. maí 2005 til Landsbanka Íslands hf. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Daníel Örn Heiðarsson, þáverandi tengdasonur áfrýjanda, og dóttir hans, Aldís Elín Alfreðsdóttir, sóttu 4. maí 2005 um lán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 3.800.000 krónur. Til tryggingar láninu var boðinn veðréttur í íbúð áfrýjanda í fasteigninni Dalalandi 16, Reykjavík. Þá kom fram í umsókninni að greiða ætti upp af andvirði lánsins veðskuldir, sem þá hvíldu á íbúðinni. Bankinn veitti umbeðið lán og er veðskuldabréf dagsett 13. sama mánaðar. Bréfið var bundið vísitölu neysluverðs, lánstími 25 ár og gjalddagar á eins mánaðar fresti allan lánstímann. Einungis Daníel undirritaði bréfið sem lántaki, en það bar einnig áritun áfrýjanda og eiginkonu hans um samþykki á veðsetningu. Þá áritaði Aldís bréfið sem vottur að undirskrift foreldra hennar. Lánsfjárhæðin mun hafa verið greidd út 19. maí 2005 að frádregnu andvirði fimm skulda umsækjenda við bankann, sem voru nánar tilgreint áhvílandi veðskuld á Dalalandi 16, skuld með sjálfskuldarábyrgð eiginkonu áfrýjanda, yfirdráttarskuldir lántakans og eiginkonu hans og skuld hans samkvæmt greiðslukorti, sem allar voru greiddar upp með samtals 2.857.724 krónum. Fram er komið að lántakan var ekki liður í áformum um fasteignakaup, heldur var með henni stefnt að því að létta mánaðarlega greiðslubyrði umsækjenda með einu láni til langs tíma stað eldri lána. Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 ákvörðun um að víkja stjórn Landsbanka Íslands hf. frá og yfirtaka vald hluthafafundar í félaginu og litlu síðar að ráðstafa hluta eigna og skulda bankans til nýstofnaðs félags, stefnda í þessu máli, en meðal þeirra eigna er krafa samkvæmt veðskuldabréfi í máli þessu.

Málatilbúnaður áfrýjanda er reistur á því að forveri stefnda hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, en að því stóðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra. Bankanum hafi borið að meta greiðslugetu greiðandans, en við greiðslumat skuli taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga sé reiknað út. Þá skuli tryggt að veðeigandi geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann samþykkir veðsetningu. Greiðslumat hafi að vísu verið gert en áfrýjanda ekki verið kynnt það og ekki verði heldur ráðið af veðskuldabréfinu, sem áfrýjandi undirritaði um samþykki sem veðeigandi, að greiðslumat hafi verið gert. Honum hafi því verið ókunnugt um það. Í hinum áfrýjaða dómi var á hinn bóginn hafnað sem of seint fram kominni þeirri viðbáru að greiðslumatið hafi verið annmörkum háð þar eð ekki hafi í því verið tekið tillit til húsnæðiskostnaðar umsækjenda. Hinu sama gegndi um þá málsástæðu áfrýjanda að meirihluti lánsfjárins skyldi nýttur til að greiða upp önnur lán umsækjenda hjá bankanum, en samkvæmt áðurnefndu samkomulagi hafi áfrýjandi þurft að staðfesta skriflega að honum hafi verið kynntar þær ráðagerðir. Áfrýjandi mótmælir að þessar röksemdir séu of seint fram komnar og heldur þeim fram hér fyrir dómi.

Í stefnu til héraðsdóms var mótmælt þeirri niðurstöðu greiðslumatsins að skuldari hafi verið fær um að greiða af skuldbindingu sinni, enda hafi áfrýjanda ekki gefist kostur á að gera athugasemdir við ófullnægjandi greiðslumat. Gagnaöflun áfrýjanda fyrir héraðsdómi miðaði síðan að því að renna stoðum undir þessa fullyrðingu svo sem með framlagningu húsaleigusamnings, sem sýndi samtals 70.000 króna leigugreiðslu beggja leigutakanna á mánuði. Um þá málsástæðu er lýtur að uppgreiðslu lána er þess að gæta að stefndi sendi lögmanni áfrýjanda fyrir málshöfðun yfirlitsblað sem bar fyrirsögnina „forsendur fasteignalánamats“, þar sem tilgreindar voru allar eldri skuldir umsækjenda sem skyldu greiddar upp með hinu nýja láni. Í stefnu er hins vegar í engu á þessu byggt, þótt nægar upplýsingar hafi þá legið fyrir að þessu leyti, og er málsástæðan of seint fram borin og kemur ekki til neinna álita í málinu.

II

Samkvæmt 3. gr. áðurnefnds samkomulags 1. nóvember 2001 ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda sé veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Skal þá taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga er reiknað út. Greiðslumat á lántaka í málinu ber með sér að framfærslukostnaður hans hafi verið áætlaður sem og rekstrarkostnaður bifreiðar. Í reit fyrir rekstrarkostnað fasteigna var sett talan 0. Samkvæmt þessu var greiðslugeta skuldarans talin jákvæð um tæplega 31.000 krónur á mánuði, en mánaðarleg greiðslubyrði vegna væntanlegs láns var rúmlega 20.000 krónur. Í málatilbúnaði stefnda kemur fram að um suma kostnaðarliði í greiðslumati verði lánveitandi almennt að styðjast við upplýsingar lántakans sjálfs og á því sé vakin sérstök athygli í prentuðu eyðublaði fyrir greiðslumat. Þannig hafi einmitt háttað til hér um liðinn rekstrarkostnaður fasteigna, en forvera stefnda hafi verið greint frá því að umsækjendur ættu ekki húsnæði og að þau greiddu ekki húsnæðiskostnað, þar með talda húsaleigu. Á þessar upplýsingar hafi bankinn þurft að treysta. Upplýsingar um leigugreiðslur í húsaleigusamningi beggja umsækjenda 14. febrúar 2005, sem lagður hafi verið fram undir rekstri málsins, fari þvert gegn því sem forveri stefnda hafi á sínum tíma lagt til grundvallar í góðri trú. Á því er byggt af hálfu áfrýjanda að hefði húsnæðiskostnaði verið haldið til haga í greiðslumatinu hefði niðurstaða þess orðið neikvæð. Stefndi mótmælir því, enda hafi áfrýjandi þá í engu tekið tillit til húsaleigubóta, sem ganga megi út frá að leigutakarnir hafi notið.

III

Í 4. gr. áðurnefnds samkomulags 1. nóvember 2001 segir að fjármálafyrirtæki skuli gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Í bæklingunum skuli meðal annars koma fram hvaða skyldur felist í ábyrgðinni. Með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna, sem fyllt séu út í tengslum við afgreiðslu láns, staðfesti ábyrgðarmaður að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir. Í niðurlagi sömu greinar samkomulagsins segir að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Áður er fram komið að áfrýjandi reisir kröfu sína á því að forveri stefnda hafi ekki staðið við síðastnefnda atriðið í 4. gr. samkomulagsins. Af þeim sökum hafi áfrýjanda ekki gefist færi á að gera athugasemd við annmarka á greiðslumatinu eða synja um heimild til veðsetningar þar eð niðurstaða matsins hafi í raun verið neikvæð. Af hálfu stefnda er mótmælt að síðastnefnt ákvæði 4. gr. leggi beina skyldu á lánveitanda að kynna sjálfur ábyrgðarmanni greiðslumat, heldur felist í orðunum að séð skuli til þess að ábyrgðarmaður geti kynnt sér matið að fengnu samþykki lántakans.

Í bæklingi, útgefnum af forvera stefnda í maí 2004, er að finna upplýsingar til ábyrgðarmanna og þeirra sem leggja til veðtryggingar. Þar segir meðal annars að ábyrgðarmenn skuli kynna sér vandlega fjárhagslega stöðu skuldara áður en ábyrgð er undirrituð. Þá er greint þar frá samkomulaginu 1. nóvember 2001 og talin upp í tíu liðum helstu atriði þess, sbr. einkum þau atriði sem að framan eru rakin. Í þriðja lið þeirrar upptalningar segir að meta skuli greiðslugetu lántakans en ábyrgðarmaður geti þó óskað eftir því skriflega að slíkt mat fari ekki fram sé samanlögð fjárhæð ábyrgða hans á skuldum lántakans 1.000.000 krónur eða lægri. Stefndi heldur fram að lántakinn hafi fengið bæklinginn í hendur með öðrum gögnum vegna lántökunnar sem honum hafi borið að afhenda áfrýjanda. Sá síðastnefndi undirritaði síðan veðskuldabréfið, sem um ræðir í málinu, um samþykki sitt fyrir veðsetningu en 17. töluliður bréfsins hljóðar svo: „Með undirritun sinni á skuldabréf þetta staðfestir veðsali, sem ekki er útgefandi eða maki útgefanda, að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila.“

Í 4. gr. samkomulagsins 1. nóvember 2001 fólst í senn að greiðslumat skyldi gert á greiðanda og að ábyrgðarmanni gæfist færi á að kynna sér matið. Með undirritun áfrýjanda á veðskuldabréfið staðfesti hann að hafa kynnt sér upplýsingabækling lánveitandans en þar með átti honum að vera kunnugt um að greiðslumat hafi verið gert. Matið var kynnt áfrýjanda með þessum hætti en jafnframt var það undir honum sjálfum komið hvort hann óskaði eftir að sjá það áður en hann veitti samþykki við veðsetningu fasteignar sinnar.

Áfrýjandi heldur fram að víkja beri til hliðar samningi hans við forvera stefnda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Til þess séu öll skilyrði uppfyllt eins og atvik málsins liggi fyrir. Samkvæmt nefndu lagaákvæði má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig eins og nánar er þar kveðið á um. Áður er komið fram að leggja verði til grundvallar að áfrýjanda hafi átt að vera kunnugt um að greiðslumat var gert á lántakanum. Getur þá ekki skipt máli sú viðbára hans í skýrslu fyrir dómi að hann hafi ekki lesið „smáa letur“ veðskuldabréfsins. Það var því á ábyrgð hans sjálfs hvort hann óskaði eftir að sjá greiðslumatið áður en hann veitti samþykki við veðsetningu fasteignar sinnar. Þá var ætluð röng forsenda í greiðslumati ekki þess eðlis að forvera stefnda yrði um hana kennt. Með nýja láninu voru greidd upp fimm eldri skuldir lántakans og eiginkonu hans. Af þeim var eitt með veði í íbúð áfrýjanda, annað með sjálfskuldarábyrgð eiginkonu hans og hið þriðja yfirdráttarskuld dóttur hans, en fyrir dómi kvaðst áfrýjandi þekkja fjármál dóttur sinnar „nokkurn veginn“ þótt hann hafi lítið vitað um fjármál þáverandi tengdasonar. Samtals námu þessi þrjú lán ríflegum meirihluta af samanlögðu andvirði þeirra lána sem greidd voru upp. Að öllu virtu verður ekki fallist á með áfrýjanda að skilyrði séu uppfyllt samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 til að verða við kröfu hans. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2012.

Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Alfreð Harðarsyni, Dalalandi 16, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 9. desember 2011.

Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi með dómi veðsetning sú sem stefnandi veitti í fasteign sinni að Dalalandi 16, Reykjavík, fasteignanúmer 203-6822 á 3. veðrétti með undirritun á skuldabréf nr. 0120-74-201161 útgefnu af Daníel Erni Hreiðarssyni til Landsbanka Íslands hf., dags. 13. maí 2005. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.

Málavextir

Hinn 4. maí 2005 lögðu Daníel Örn Hreiðarsson og Aldís Elín Alfreðsdóttir inn umsókn um lán hjá stefnda. Þar sóttu þau um lán að fjárhæð 3.800.000 krónur til 25 ára. Þau buðu sem tryggingu veð í fasteign foreldra Aldísar, Dalalandi 16, 3. h.t.v., Reykjavík, þinglýst eign stefnanda. Fram kemur í umsókninni að greiða eigi upp, af andvirði lánsins, allar áhvílandi veðskuldir sem voru tvö veðskuldabréf. Það gekk eftir og var þeim aflétt af eigninni.

Stefndi kveðst hafa gert greiðslumat hjá Daníel og Aldísi og stóðust þau greiðslumatið. Hinn 13. maí 2005 undirrituðu Daníel og Aldís niðurstöðu greiðslumatsins.

Hinn 25. mars 2011, óskaði lögmaður stefnanda eftir upplýsingum og gögnum sem væru til vegna umrædds láns og ábyrgðarskuldbindingar stefnanda. Í kjölfarið sendi stefndi afrit af veðskuldabréfinu. Ekki fylgdu gögn er sýndu fram á að greiðslumat hefði farið fram eða það hefði verið kynnt ábyrgðarmanni.

Hinn 2. apríl 2011 sendi lögmaður stefnanda bréf og hélt því fram að stefndi hefði ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða frá 2001 þegar gengið var frá skjalagerð í tengslum við útgáfu skuldabréfsins. Farið var fram á að stefndi myndi innan 15 daga fallast á þann skilning og afmá veðið af fasteign stefnanda eða leggja eftir atvikum fram ný gögn sem skipt gætu máli en að öðrum kosti myndi stefnandi sækja rétt sinn fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og/eða dómstólum.

Hinn 28. nóvember 2011 hafnaði stefndi kröfu stefnanda um afmáningu veðsins og sendi stefnda m.a. afrit af greiðslumatinu. 

Stefnandi sendi stefnda tölvupóst 5. desember 2011 þar sem fram kom að hann myndi ekki una afstöðu stefnda og að farið yrði með málið fyrir dómstóla. Jafnframt var farið fram á að stefndi myndi láta af innheimtuaðgerðum á meðan málið væri fyrir dómstólum.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 þar sem stefnanda hafi ekki verið kynnt greiðslumat áður en hann hafi tekið sér ábyrgðina á hendur.

Ekki verði ráðið af veðskuldabréfinu að stefnanda hafi verið kunnugt um að greiðslumat hafi verið framkvæmt á skuldara þess, Daníel Erni Harðarsyni. Þá komi hvergi fram á veðskuldabréfinu sjálfu né annars staðar að stefnandi hafi fengið tækifæri til að kynna sér greiðslumat á skuldara. Þannig sé ljóst að stefnandi fullnægði á engan hátt skyldum sínum í tengslum við samþykki sitt á veðsetningu fasteignar sinnar, samkvæmt 1. mgr. 2. gr., sbr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins frá 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Stefndi sé fjármálafyrirtæki sem starfi á grundvelli starfsleyfis frá FME, sbr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Stefnandi sé aftur á móti hættur að vinna fyrir aldurs sakir og hafi hvorki sérmenntun né reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga. Þess vegna verði að gera enn ríkari kröfur en ella til stefnda um að starfa í samræmi við góða og eðlilega viðskiptahætti í viðskiptum sínum við stefnanda, sbr. t.a.m. 19. gr. laga nr. 161/2002. Í því felist m.a. að sjá til þess að öllum reglum og skyldum sem settar séu til hagsbóta og verndar fyrir almenning sé fylgt í þaula. Samkvæmt markmiðsákvæði 1. gr. samkomulagsins frá 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga segi að markmiðið með samkomulaginu sé að setja meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings séu sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Þannig verði að gera strangar kröfur til stefnda um að hann tryggi sönnun fyrir því að öllum reglum og skyldum hafi verið fullnægt í tengslum við umrædda lánveitingu. Ekki sé unnt að fallast á þann skilning stefnda að það að greiðslumat hafi verið framkvæmt sem staðfesti að skuldari væri fær um að greiða af skuldbindingu sinni, þýði að ekki hafi þurft að kynna stefnanda greiðslumatið sem og forsendur og niðurstöðu þess.

Samkvæmt 3. gr. samkomulagsins frá 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sé fjármálafyrirtæki skylt að meta greiðslugetu greiðanda nema sá sem veiti veðið óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Fjármálafyrirtæki sé þó ávallt skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 kr. Stefnandi hafi aldrei óskað eftir því að greiðslumat yrði ekki framkvæmt, auk þess sem ábyrgð hans með veðsetningunni hafi samkvæmt skuldabréfinu verið að fjárhæð 3.800.000 kr.

Ekki liggi fyrir að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins frá 2001 um að tryggt hafi verið að stefnandi gæti kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins áður en hann veitti veðleyfið. Hafi stefnandi því eðli máls samkvæmt ekki getað kynnt sér forsendur greiðslumatsins né niðurstöðu þess. 

Stefndi beri allan halla af því að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnanda hafi verið gefinn kostur á að kynna sér greiðslumatið og forsendur þess áður en hann hafi veitt leyfi fyrir veði í fasteign sinni. Sú afstaða stefnda um að niðurstaða greiðslumatsins hafi verið jákvæð og þar með bent til þess að skuldari hafi verið fær um að greiða af skuldbindingu sinni verði að teljast ótæk og í algjöru ósamræmi við markmið samkomulagsins um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001. Þannig geti stefnandi ekki gert athugasemdir við ófullnægjandi greiðslumat og kynnt sér að öðru leyti stöðu skuldara sem hann hafi verið að gangast í ábyrgð fyrir með fasteign sinni. Þá verði að hafna þeirri fullyrðingu stefnda að niðurstaða greiðslumats hefði alls ekki getað verið forsenda skuldbindingarinnar sem stefnandi hafi tekist á hendur.

Af öllu framangreindu virtu verði því að telja að fyrir hendi séu forsendur til að víkja til hliðar veði því sem stefnandi hafi veitt í fasteign sinni á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Stefnandi vísar til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. einkum 36. gr. þeirra laga. Stefnandi vísar til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. einkum 1. gr., 3. gr. og 19. gr. laganna. Þá vísar stefndi til laga nr. 32/2009 eftir því sem þau geta átt við, sem og samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi virðisaukaskatt af málskostnaði vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 og þess að hann sé ekki með virðisaukaskattsskylda starfsemi og sé því nauðsyn að fá stefnda dæmdan til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að skuldbinding stefnanda skv. veðskuldabréfi nr. 0120-74-201161 sé bindandi fyrir hann og engin skilyrði séu til þess að ógilda hana á grundvelli 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, eða af öðrum ástæðum. Stefndi telur að í öllum atriðum sé farið að ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga (hér eftir nefnt samkomulagið). Öll sönnunarbyrði um að um ógilda ábyrgðarskuldbindingu sé að ræða hvíli á stefnanda og hafi hann ekki sýnt fram á að skilyrði til ógildingar skv. 36. gr. samningalaga séu uppfyllt.

Stefndi telur að skuldbinding stefnanda feli í sér bindandi loforð og samning um að eign stefnanda standi til tryggingar á skuldum lántaka komi til greiðslufalls á láni nr. 0120-74-201161.

Stefndi telur að samkomulagið sé samantekt verklagsreglna sem settar hafi verið til að draga úr vægi ábyrgðarskuldbindinga við lánveitingar. Samkomulagið hafi ekki lagagildi né feli það í sér ófrávíkjanlegar formreglur sem sjálfkrafa hafi þær afleiðingar að ógilda beri skuldbindingu ábyrgðarmanns þó að ákvæðum þess hafi ekki verið fylgt til hlítar.

Nauðsynlegt sé að meta allar aðstæður við lánveitinguna, samning aðila og önnur atriði sem geti varpað ljósi á hvort ógilda beri skuldbindingu stefnanda og þá í samræmi við 36. gr. samningalaga. Grunnskilyrðin sem stefnandi þurfi að sýna fram á að séu uppfyllt, séu að það sé ósanngjarnt af stefnanda eða stríði gegn góðri viðskiptavenju að bera umdeilda skuldbindingu fyrir sig.

Telur stefndi að heildarmat á aðstæðum aðila þurfi að fara fram. Sé þetta í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 116/2010 frá 21. október 2010. Þar komi t.d. fram að „þótt fyrir liggi að sérstakt mat á greiðslugetu skuldara lánsins hafi ekki farið fram, eins og reglur samkomulagsins kveða á um, hefur það ekki í för með sér ógildi ábyrgðaryfirlýsingar áfrýjanda, enda má ráða af orðalagi hennar að áfrýjandi hefði undirgengist ábyrgðina þótt skuldarinn hefði ekki staðist sérstakt greiðslumat“.

Stefndi telur að hann hafi farið eftir 3. gr. samkomulagsins, enda liggi fyrir að gert hafi verið greiðslumat vegna lántökunnar. Greiðslumatið hafi verið jákvætt og gefið til kynna að greiðslugeta greiðenda væri rífleg þrátt fyrir lánveitingu stefnanda. Greiðslumatið og forsendur þess hafi verið undirrituð og staðfest af greiðendum. Ekki hafi verið gerður ágreiningur um réttmæti greiðslumatsins.

Í samkomulaginu séu settar viðmiðunarreglur sem eigi að leiða til vandaðri vinnubragða af hálfu fjármálastofnana og til að tryggja að fjármálafyrirtæki greiðslumeti lántaka þegar einstaklingur setji eign sína að veði til tryggingar skuldum annars einstaklings. Óumdeilt sé að framkvæmt hafi verið mat á greiðslugetu Daníels og Aldísar og að þau hafi staðist greiðslumatið.

Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að ekki verði ráðið af veðskuldabréfinu að stefnanda hafi verið kunnugt um að greiðslumat hafi verið framkvæmt á lántaka. Í 17. tl. veðskuldabréfsins, sem stefnandi hafi undirritað, segi að með undirritun á bréfið staðfesti veðsali, sem ekki sé útgefandi, að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Í upplýsingabæklingnum sé ítarlega gerð grein fyrir ákvæðum samkomulagsins og tekið fram að ef lántaki fær lánsveð hjá öðrum einstaklingi til tryggingar láni sínu þá skuli greiðslumeta lántakann. Stefnandi hafi því vitað eða hafi mátt vita að lántaki hafði farið í greiðslumat. Hafi niðurstaða greiðslumats verið ákvörðunarástæða fyrir því að stefnandi samþykkti að lána veð í fasteign sinni  hafi honum borið að kynna sér niðurstöðu matsins.

Í 4. gr. samkomulagsins sé fjallað um upplýsingagjöf til ábyrgðarmanns áður en til veðsetningar sé stofnað. Þar segi að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent séu ábyrgðarmönnum til undirritunar. Af framansögðu sé ljóst að stefnandi staðfesti að hann hefði kynnt sér efni upplýsingabæklings LBI. Hefði stefnandi gert fyrirvara við undirritun sína á veðskuldabréfið þess efnis að hann hefði ekki séð upplýsingabæklinginn eða ekki séð greiðslumatið hefði LBI aldrei keypt skuldabréfið. Bankinn hefði kallað stefnanda á sinn fund og afhent honum upplýsingabæklinginn og farið ítarlega yfir greiðslumatið og forsendur þess. Hafi niðurstaða greiðslumatsins verið ákvörðunarástæða stefnanda hefði hann aldrei átt að skrifa undir veðskuldabréfið. Það hafi hann gert og beri stefnandi einn ábyrgð á því athafnaleysi sínu að kynna sér ekki getu Daníels og Aldísar, dóttur sinnar, til þess að greiða af láninu sem hann samþykkti af fúsum og frjálsum vilja að mætti hvíla á fasteign hans.

Í 4. gr. samkomulagsins komi einnig fram að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. LBI hafi afhent Daníel veðskuldabréfið ásamt greiðslumatinu, niðurstöðu þess og upplýsingabæklingi LBI. Öll þessi skjöl hafi verið undirrituð sama dag og vottar Aldís, dóttir stefnanda, undirskrift foreldra sinna á veðskuldabréfið. Hafi LBI gert allt sem bankinn hafi getað til þess að tryggja að stefnandi hefði aðgang að greiðslumatinu og gæti kynnt sér efni þess. Sé ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki kynnt sér efni greiðslumatsins áður en hann skrifaði undir veðskuldabréfið.

Niðurstaða matsins hafi verið jákvæð, þ.e. Daníel og Aldís höfðu greiðslugetu til að borga af láninu. Stefnandi haldi því fram að hann hafi ekki séð greiðslumatið. Ef svo er þá sé alveg ljóst að hefði stefnandi séð greiðslumatið hefði það engu breytt í málinu. Hann hefði undirritað veðskuldabréfið og þannig fallist á að lána veð í eign sinni. En hefði greiðslumatið verið neikvætt sé ekki víst að stefnandi hefði samþykkt að leggja fasteign sína fram sem tryggingu fyrir láninu. Stefnandi hefði getað það en þá hefði hann skv. 4. gr. samkomulagsins þurft að staðfesta það skriflega. Þetta sé eina ákvæði samkomulagsins sem kveði á um það að ábyrgðarmaður verði að staðfesta með undirritun sinni að hann hafi kynnt sér niðurstöðu greiðslumats. Í öðrum tilvikum skuli tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumatsins og það hafi LBI gert í málinu.

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á það með málatilbúnaði sínum að ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að hann sé bundinn samþykki sínu fyrir veðsetningunni. Greiðslumatið hafi verið jákvætt og hafi stefnandi vitað af framkvæmd þess. Hann hafi haft aðgang að greiðslumatinu og getað kynnt sér efni þess.

Fram komi í umsókn um lánið og í forsendum greiðslumatsins að nota átti andvirði lánsins til þess að greiða upp áhvílandi lán á eigninni. Það hafi verið gert og því sé ljóst að ef krafa stefnanda nær fram að ganga að þá sé um ólögmæta auðgun hans að ræða þar sem stefnandi losni við lán af fasteign sinni og standi upp með veðbandalausa eign.

Stefndi telur að krafa stefnanda um ógildingu veðsetningarinnar sé fallin niður vegna tómlætis af hans hálfu. Stefnandi hafi undirritað veðskuldabréfið 13. maí 2005 og hafi hann fyrst gert athugasemd við ábyrgð sína með bréfi 2. apríl 2011, eða tæpum 6 árum eftir að hann samþykkti veðsetninguna. Einnig bendir stefndi á að stefnandi hafi með athöfnum sínum litið svo á að hann væri skuldbundinn samþykki sínu fyrir veðsetningunni og sést það á því að hann hafi greitt nokkra gjalddaga af láninu.

Stefndi fullyrðir að í einu og öllu hafi verið farið eftir ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og þannig unnið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Bankinn hafi einnig farið eftir ákvæðum samkomulagsins.   

Um lagarök vísar stefndi til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1.-4. gr. Einnig sé vísað til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, einkum 19. gr. og meginreglna samningaréttar um að samningar skuli standa.       

Krafa stefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.

Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir veðskuldabréf, dags.13. maí 2005, þar sem íbúð stefnanda að Dalalandi 16, Reykjavík er sett að veði vegna skuldar að fjárhæð 3.800.000 krónur, en skuldari er Daníel Örn Heiðarsson. Stefnandi og maki hans samþykkja veðsetninguna. Í 17. tl. skuldabréfsins segir „Með undirritun sinni á skuldabréf þetta staðfestir veðsali, sem ekki er útgefandi eða maki útgefanda, að hafa kynnt sér efni upplýsingarbæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila“. Í upplýsingabæklingi þessum er brýnt fyrir ábyrgðarmanni að kynna sér vandlega fjárhagslega stöðu skuldara og tekið fram að ekki sé úr vegi að leita eftir heimild hjá skuldara til að fá upplýsingar hjá bankanum um viðskiptastöðu hans á þeirri stundu þegar ábyrðin er veitt. Ábyrgðarmaður geti óskað eftir að greiðslugeta aðalskuldara sé metin af bankanum og að hann fái að kynna sér forsendur og innihald þess mats áður en stofnað sé til ábyrgðar. Fyrir dómi kvaðst stefnandi ekki hafa farið að þessum ráðleggingum eða kynnt sér smáa letur veðskuldabréfsins.

Þá liggur fyrir að hinn 13. maí 2005 undirritaði Daníel Örn Heiðarsson ásamt maka sínum, Aldísi Elínu Alfreðsdóttur, dóttur stefnanda, forsendur fasteignalánamats, þar sem þau staðfesta að upplýsingarnar séu réttar og heimila að þær verði veittar ábyrgðarmönnum. Sama dag undirrita þau niðurstöður fasteignalánamats þar sem þau staðfesta að greiðandi hafi fengið afhent, kynnt sér og skilið matið á greiðslugetu greiðanda og samþykkt það sem fullnægjandi fyrir sig. Hann hafi einnig kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila.

Á árinu 2001 var gert samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Að því stóðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Samkomulag þetta hefur ekki lagagildi. Samkvæmt markmiðsákvæði 1. gr. samkomulagsins um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga segi að markmiðið með samkomulaginu sé að setja meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings séu sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Samkvæmt 3. gr. samkomulagsins ber fjármálafyrirtækjum að meta greiðslugetu greiðanda, sé veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 4. gr. er fjallað um upplýsingagjöf til ábyrgðarmanns áður en til skuldaábyrgðar eða veðsetningar er stofnað. Þar segir að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetninga og dreifa með skjölum þeim sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Einnig segir að ef ráðgert er að verja meira en helmingi lánsfjár til að endurgreiða önnur lán skuldara hjá fjármálafyrirtæki skuli ábyrgðarmaður staðfesta skriflega að honum hafi verið kynntar þær ráðagerðir.

Greiðslumat var gert og niðurstaðan var sú að skuldarinn Daníel Örn ásamt maka ætti að geta staðið undir láninu. Í greiðslumatinu var hins vegar ekki tekið tillit til rekstrarkostnaðar fasteigna heldur einungis framfærslukostnaðar og rekstrarkostnaðar bifreiða. Hefði verið tekið tillit til þess að Daníel og Aldís greiddu leigu á þessum tíma hefði greiðslumatið væntanlega verið neikvætt. Á þessari málsástæðu er ekki byggt í stefnu málsins, heldur kom hún fram við aðalmeðferð þess og var henni mótmælt sem of seint fram kominni af hálfu stefnda. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála má dómari ekki taka málsástæðuna til greina. Sama er að segja um þá málsástæðu stefnanda, er fyrst kom fram við aðalmeðferð málsins og var mótmælt af hálfu stefnda, það er að meirihluti lánsins hafi verið notaður til að greiða upp önnur lán Daníels hjá stefnda og úr því að svo var þá hefði, sbr. 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins, stefnandi átt að staðfesta skriflega að honum hafi verið kynntar þær ráðagerðir. Engu breytir hér að upplýsingar þessar komu fram í gögnum er fylgdu greinargerð stefnda. Í ljósi nefndrar 5. mgr. 101. gr. bar stefnanda að bóka málsástæðu hér að lútandi í fyrsta þinghaldi. Með því að hann gerði það ekki er málsástæða þessi sem fyrst kom fram við aðalmeðferð málsins of seint fram komin. 

Stefnandi gat kynnt sér greiðslumatið hefði hann viljað gera það og talið það ákvörðunarástæðu fyrir því að lána veð í íbúðinni. Hann skrifaði undir veðskuldabréfið þar sem sérstaklega er tilgreint að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um persónuábyrgðir og veðtryggingu þriðja aðila. Stefnandi tók þá ákvörðun að lána veð í íbúðinni sinni. Í slíku felst skuldbinding sem honum ber að standa við.

Þá liggur fyrir að stefnandi hefur ekki haft uppi athugasemdir varðandi mál þetta fyrr en sex árum eftir hina umdeildu veðsetningu en veðskuldabréfið er dags. 13. maí 2005 og fyrsta bréf stefnanda til stefnda er dagsett 2. apríl 2001. Er því um tómlæti að ræða af hálfu stefnanda.

Með vísan til þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Alfreðs Harðarsonar.

Málskostnaður fellur niður.