Hæstiréttur íslands

Mál nr. 503/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


Fimmtudaginn 25. júlí 2013.

Nr. 503/2013.

A

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

gegn

velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2013, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði einungis gert að sæta sjálfræðissviptingu í sex mánuði. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 9. júlí 2013.

Með beiðni, dagsettri 2. júlí 2013, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í fjögur ár á grundvelli a liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Varnaraðili krefst aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Beiðni sú um sjálfræðissviptingu varnaraðila sem hér er til meðferðar er sett fram er fyrri sjálfræðissvipting hans 3. júlí 2012 til eins árs er að renna sitt skeið á enda. Kom sú lögræðissvipting í kjölfar lögræðissviptingar í eitt ár frá 21. júní 2011. Beiðni þessi var móttekin af héraðsdómi 2. júlí sl. Málið var þingfest og tekið til úrskurðar í gær.

Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð B geðlæknis sem dagsett er 21. júní 2013. Kemur þar m.a. fram að varnaraðili hafi strítt við alvarlegan geðsjúkdóm frá árinu 1984. Hann sé haldinn geðhvarfaklofa og séu ranghugmyndir einkennandi fyrir sjúkdóminn (schizoaffective disorder, manic type). Hann hafi oft lagst inn á geðdeild, bæði sjálfviljugur og eins nauðungarvistaður. Þá hafi hann yfirleitt verið í geðrofsástandi og með ranghugmyndir. Kemur fram í vottorðinu að varnaraðili hafi lítið sem ekkert sjúkdómsinnsæi og hafi í gegn um tíðina verið afar illa meðferðarheldinn. Hafi hann oft ekki þegið viðeigandi meðferð með þeim afleiðingum að hann hafi endurtekið lagst inn illa veikur. Oftast hafi hann verið meðhöndlaður með geðrofslyfjum í forðasprautu. Varnaraðili hafi verið mjög óstöðuglyndur og hann hafi látið ýmsa hafa áhrif á sig þannig að hann hafi oft skipt um húsnæði og á köflum verið húsnæðislaus og ekki þegið forðasprautur.

Þá kemur fram að varnaraðili hafi eftir að hafa verið á hrakhólum með húsnæði flust inn í [...] að [...] í [...] í janúar 2013. Hafi framanaf gengið vel en síðan hafi varnaraðili farið í neyslu og geðrofsástand. Hafi því fylgt miklir samskiptaörðugleikar í [...]. Hann hafi síðan verið lagður bráðainnlögn á geðdeild LSH [...] og hafi dvalið þar til [...] sama mánaðar. Frá þeim degi hafi hann svo dvalið á öryggisgeðdeildinni á Kleppi fram til [...] sl. en þá hafi hann útskrifast heim. Við útskrift hafi varnaraðili verið kominn úr geðrofsástandi en áfram hafi hann verið mjög sveiflukenndur og dómgreindar- og innsæislaus. Varnaraðili muni áfram, eins og áður, vera í eftirliti á göngudeild Kleppsspítala og verða áfram meðhöndlaður með geðrofslyfi í forðasprautu á tveggja vikna fresti. Þá kemur fram í vottorðinu að varnaraðili sé enn á ný að tala um að hætta á sprautum og fara úr [...]. Kemur loks fram það álit læknisins að meðferð varnaraðila með forðasprautu og búsetu með þjónustu sé honum lífsnauðsyn. Til að tryggja áframhaldandi örugga meðferð og öryggi í búsetu beri því brýna nauðsyn til að svipta hann áfram sjálfræði.

Þá liggur fyrir vottorð C yfirlæknis á réttar- og öryggisgeðdeild LSH dagsett 27. júní 2013. Kemur þar m.a. fram að um sé að ræða mann sem hægt sé að stjórna og stýra ágætlega með lyfjagjöf en að upplagi sé varnaraðili óstöðuglyndur, stundum barnalegur og eigi til að vera óútreiknanlegur. Sérstaklega sé honum illa við að láta stjórna sér. Eftir að varnaraðili hafi fengið inni í [...] í vor hafi það gerst að hann hafi orðið uppvís af því að nota [...]. Ljóst sé að neysla [...] ofan í geðhvarfasjúkdóm sem lýsi sér eins og geðhvarfageðklofi, sé eins og bensín á eld. Þegar þetta hafi verið upplýst hafi verið ákveðið að leggja hann aftur inn á öryggisgeðdeild og hafi hann legið þar í mánuð. Miðað við fyrri alvarlega sögu varnaraðila og nýlegar tvær sjálfræðissviptingar kveður læknirinn að sér finnist enginn vafi leika á því að varnaraðili geti ekki án stuðnings séð um persónulega hagi. Nú sé hann kominn í góðan [...] með ákveðið meðferðarteymi og þjónustu í kring um sig. Tryggja verði stöðuga lyfjagjöf og göngudeildarmeðferð og að ef hann ekki komi til meðferðar verði hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana, þ.e. sækja hann til meðferðar eða leggja hann inn. Nú sé að ganga vel en ljóst sé miðað við fyrri reynslu að þegar sjálfræðissvipting falli úr gildi í byrjun júlí sé gríðarleg hætta á að allt fari í sama far.

Það sé mat læknisins að varnaraðili hafi alvarlegan geðsjúkdóm, sem á köflum hafi þurft langrar innlagnar við á geðdeildum. Hægt sé hins vegar að halda utan um meðferð hans á göngudeild, auka hans lífsgæði með ákveðnum ramma og skilyrðum og þéttu utanumhaldi. Til þess að tryggja það þurfi meðferðarteymi og læknir að hafa möguleika á að grípa í taumana komi hann ekki til meðferðar. Fyrri saga varnaraðila sýni að hann eigi það til að mæta ekki í sprautur, fara í neyslu og snúast gegn meðferðarteyminu. Með þeim ramma sem búið sé að tryggja telji læknirinn einsýnt að hægt sé að halda áfram að auka lífsgæði varnaraðila, en hann þurfi að vera áfram sjálfræðissviptur til að hægt sé að tryggja fullnægjandi eftirmeðferð, göngudeildarmeðferð og inngrip eftir þörfum. Í vottorðinu kemur loks fram að læknirinn telji miðað við langa sögu og tvær nýlegar sviptingar í styttri tíma að svipting í fjögur ár hið minnsta sé nauðsynleg.

Við meðferð málsins gaf C skýrslu. Staðfesti hann vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Varnaraðili gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Þá gaf einnig skýrslu D fyrrum stuðningsfulltrúi varnaraðila.

Í framburði varnaraðili kom m.a. fram að honum liði vel í [...] og hann hefði ekki í hyggju að fara þaðan. Þá kom einnig fram hjá honum að hann teldi sér nauðsyn á að þiggja lyf til að halda niðri sínum sjúkdómi. Hann kvaðst hins vegar hafna því að vera sjálfræðissviptur.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan og þá einkum vottorða tveggja geðlækna, sem og framburðar annars þeirra hér fyrir dómi, þykir sýnt að varnaraðili er haldinn geðsjúkdómi og nauðsynlegt sé að hann þiggi viðeigandi læknisaðstoð til að halda heilsu. Má sjá af gögnum málsins, sem og framburði varnaraðila sjálfs fyrir dómi að honum gengur ágætlega eins og er og hefur nú skilning á því að hann þurfi að taka lyf. Á hinn bóginn verður að fallast á með sóknaraðila að sjúkrasaga varnaraðila er með þeim hætti að hann hefur sýnt litla meðferðarheldni. Þá liggur fyrir að þó nú gangi vel er stutt síðan varnaraðili þurfti að leggjast inn á geðdeild í geðrofsástandi. Er það því mat dómsins að enn sé svo komið fyrir varnaraðila að hann teljist ekki geta ráðið persónulegum högum sínum, sbr. a lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997. Verður af framangreindum ástæðum fallist á beiðni sóknaraðila. Sóknaraðili hefur óskað eftir tímabundinni sjálfræðissviptingu í fögur ár, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997. Fallist er á með varnaraðila að þær röksemdir sem færðar hafa verið fram fyrir sjálfræðissviptingu gefi ekki tilefni til þess nú að sviptingunni sé markaður lengri tími en tvö ár.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í tvö ár.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl. 75.300 krónur.