Hæstiréttur íslands

Mál nr. 221/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                                                              

Mánudaginn 28. apríl 2014

Nr. 221/2014.

Þingrétta ehf.

(Teitur Björn Einarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur. 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Þ ehf. gegn íslenska ríkinu var vísað frá dómi. Í málinu krafðist Þ ehf. þess að viðurkennd yrði með dómi skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna tjóns sem Þ ehf. taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanrækslu þess á að koma upp fullnægjandi brunavörnum í Hótel Valhöll, en Þ ehf. hafði húsnæðið á leigu og starfrækti þar hótel- og veitingaþjónustu. Í málinu lá fyrir að Þ ehf. hefði fengið greiddar bætur frá tryggingarfélagi sínu á grundvelli bruna- og rekstrarstöðvunartryggingar, en hvorki í stefnu né öðrum gögnum málsins var gerð nánari grein fyrir því að hve miklu leyti tjónið hefði fengist bætt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 hefði í fjölda dóma réttarins verið skýrð svo að sá sem höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist svo og tengslum þess við hið ætlaða skaðaverk. Þ ehf. hefði verið rétt að taka fram þegar í stefnu að hann hefði verið vátryggður og fengið greiddar bætur frá tryggingarfélagi sínu vegna eldsvoðans. Ennfremur hvaða tjón hefði fengist bætt úr tryggingum og hvað ekki og þá hvernig á því hefði staðið. Skorti af þessum sökum á að félagið hefði leitt nægar líkur að því tjóni sem það teldi íslenska ríkið bera ábyrgð á og var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 24. mars 2014 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Til vara er þess krafist að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði bótaskylda varnaraðila „vegna óbætts fjárhagstjóns“ sem sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir þegar Hótel Valhöll brann til grunna 10. júlí 2009. Rúmum tveimur mánuðum áður hafði sóknaraðili tekið hótelið á leigu af varnaraðila og þá tekið við réttindum og skyldum fyrri leigutaka samkvæmt leigusamningi hans og varnaraðila. Í þeim samningi sagði meðal annars að leigutaki tæki allar nauðsynlegar tryggingar vegna rekstursins.

Samkvæmt stefnu er viðurkenningarkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila byggð á „almennu sakarreglunni og reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð fasteignareiganda“ þar sem varnaraðili „hafi ekki sinnt þeirri lögbundnu skyldu sinni að koma upp fullnægjandi brunavörnum í Valhöll“. Skýr orsakatengsl séu á milli þessa athafnaleysis varnaraðila og „þeirra afleiðinga sem bruninn hafði fyrir“ sóknaraðila. Í stefnunni kveðst sóknaraðili hafa orðið fyrir tjóni á „eignum og munum“, sem ekki hafi fengist bætt frá vátryggingafélagi hans, Tryggingamiðstöðinni hf., en ekki er vikið nánar að því í hverju það tjón hafi verið fólgið. Þá hafi sóknaraðili jafnframt orðið fyrir rekstrartjóni vegna eldsvoðans, en ekki kemur fram hvort og þá að hve miklu leyti það tjón hafi verið bætt af tryggingarfélaginu. Samkvæmt gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fram hér fyrir dómi, kemur fram að hann hafi fengið greiddar bætur á grundvelli brunatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar frá félaginu vegna tjóns af völdum brunans.

Eftir 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar, enda hafi hann lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölmörgum dómum Hæstaréttar verið skýrður svo að sá, sem höfðar mál til viðurkenningar skaðabótaskyldu, verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. sömu laga verður stefnandi að gera þetta í stefnu, nema tilefni gefist fyrst til þess síðar eða gagnaðili samþykki, sbr. 5. mgr. 101. gr. laganna.

Með skírskotun til þessa var sóknaraðila rétt að taka skýrt fram þegar í stefnu að hann hafi verið vátryggður, svo sem gert var ráð fyrir í leigusamningi aðila, og fengið greiddar bætur frá vátryggingarfélagi sínu vegna tjóns af völdum eldsvoðans. Ennfremur hvaða tjón hafi fengist bætt úr tryggingum og hvað ekki og þá hvernig á því hafi staðið. Af þessum sökum skortir á að sóknaraðili hafi leitt nægar líkur að því tjóni sem hann telur varnaraðila bera ábyrgð á. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

 Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þingrétta ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2014.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 11. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þingréttu ehf., Nóatúni 17, Reykjavík á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 9. desember 2013.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna óbætts fjárhagstjóns sem stefnandi varð fyrir er fasteignin Hótel Valhöll brann hinn 10. júlí 2009. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi krefst þess aðallega að frávísunarkröfu og málskostnaðarkröfu stefnda verði hafnað og ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.

I

                Í apríl 2002 keypti stefndi Hótel Valhöll. Á þeim tíma var enginn rekstur í hótelinu. Hinn 28. apríl 2005 var gerður leigusamningur við Þingvelli ehf. og viðauki gerður 10. apríl 2008. Hinn 30. apríl 2009 yfirtók stefnandi réttindi og skyldur samkvæmt leigusamningnum. Hinn 10. júlí 2009 brann Hótel Valhöll til grunna.

                Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna óbætts fjárhagstjóns.

II

                Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því að skilyrði 2. mgr. 25. gr. og e- og g- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki fyrir hendi. Krafa stefnanda sé að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna óbætts fjárhagstjóns sem stefnandi kveðst hafa liðið við bruna hótelsins. Stefnandi kveður að hið ætlaða fjártjón sé bæði beint fjártjón og rekstrartjón sem hann hafi ekki fengið að fullu bætt úr vátryggingu. Engin gögn séu þó lögð til málsins, sem útlista hvaða tjón fékkst greitt úr vátryggingu, fjárhæð þess né hvers vegna stefnandi fékk ekki allt tjón sitt bætt. Skortir þannig alfarið á það skilyrði að gerð sé grein fyrir því í hverju ætlað tjón hans sé fólgið og hver tengsl þess séu við atvik málsins.

                Þá sé málsgrundvöllurinn óskýr. Það sé óumdeilt að í gildi hafi verið leigusamningur um rekstur eignarinnar. Stefnandi virðist samt ekki gera viðurkenningarkröfu sína á grundvelli þess samnings heldur á ólögfestum bótareglum um skaðsemisábyrgð fasteignaeiganda. Grundvöllur málsins sé á reiki og því ekki fyrir hendi þau skilyrði sem nauðsynleg séu fyrir afdráttarlausri málsmeðferð og málflutningi.

                Þá sé gagnaframlagningu stefnanda verulega áfátt. Við þingfestingu málsins séu ekki lögð fram gögn sem hann reisir kröfugerð sína á öndvert við fyrirmæli 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi telur því afar örðugt að taka með viðhlítandi hætti til varnar svo sem réttarfarslögum sé ætlað að tryggja þeim sem stefnt sé fyrir dóm.

III

                Stefnandi hafnar kröfu stefnda um frávísun málsins. Stefnandi leggur áherslu á að ágreiningslaust sé annars vegar að altjón varð er Hótel Valhöll brann hinn 10. júlí 2009 og hins vegar að á þeim tíma hafi verið til staðar gildur leigusamningur milli málsaðila.

                Stefnandi tekur fram að þau atriði er stefndi byggir frávísunarkröfu sína á, varði efnisatriði málsins.

                Stefnandi telur einnig að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt. Sérstaklega sé fjallað um fjártjón stefnanda í stefnunni auk þess sem framlögð dómskjöl nr. 7-9 og 15 sýna tjón vegna kostnaðar við viðhald og vegna viðgerða fyrir brunann, rekstrartjón og missi hagnaðar. Þá telur stefnandi að skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt. Það fari ekki milli mála hvert sakarefnið sé. Það megi ráða af dómkröfunni, málsatvikum, málsástæðum og gögnum málsins.

                Stefnandi hafnar því einnig að málsgrundvöllurinn sé óljós. Krafan sé vegna óbætts fjárhagstjóns sem stefnandi varð fyrir við brunann. Það sjáist af dómkröfunni að málsgrundvöllurinn sé skaðabótamál.

                Þá hafnar stefnandi því að gagnaframlagningu sé áfátt.

IV

                Það er ágreiningslaust að altjón varð þegar Hótel Valhöll brann til grunna 10. júlí 2009. Stefnandi krefst þess að stefndi bæti honum óbætt fjárhagstjón sem hann varð fyrir. Í stefnu segir að tjóninu megi skipta í tvennt, annars vegar beint fjártjón og hins vegar rekstrartjón. Beint fjártjón sé fyrst og fremst tjón sem ekki hafi fengist bætt frá vátryggingafélagi stefnanda. Rekstrartjónið sé vegna þess að starfsemi félagsins stöðvaðist á svipstundu þegar hótelið brann. Stefnandi hafi þurft að greiða tjónabætur til starfsmanna og fleira. Þá hafi rekstrarstöðvunin leitt til missis hagnaðar. Í 8. gr. leigusamnings aðila um hótel Valhöll er kveðið á um að leigutaki, stefnandi, taki allar nauðsynlegar tryggingar vegna rekstursins.

                Samkvæmt 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 skal í stefnu greina, svo glöggt sem verða má, meðal annars dómkröfu málsins og málsástæður þær sem málsóknin byggist á, svo og önnur atvik sem greina þarf til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Lýsingin verður að vera þannig að það fari ekki á milli mála hvert sakarefnið er.

                Í upphafi stefnu kemur fram að íslenska ríkinu sé stefnt til viðurkenningar á bótaskyldu. Þá segir í dómkröfum að krafist sé bóta vegna óbætts fjárhagstjóns er bruni varð á Hótel Valhöll. Þá segir í upphafi kafla um málsástæður, að stefnandi byggi „viðurkenningarkröfu sína á almennu sakarreglunni og reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð fasteignaeiganda þar sem stefndi beri, sem eigandi og leigusali fasteignarinnar Valhallar sem stefnandi leigði, skaðabótaábyrgð á fjártjóni sem rekja megi til brunans“. Stefnandi byggir kröfu sína á ábyrgð stefnda á brunavörnum og vísar til laga nr. 75/2000 um brunavarnir og til laga um húsaleigu nr. 36/1994 og telur aðallega að stefnda hafi verið ljóst að brunavörnum hafi verið ábótavant. Þegar litið er til málsástæðukafla stefnunnar, telur dómurinn að málsgrundvöllur stefnanda sé ekki það óskýr að vísa eigi málinu frá af þeim sökum.

                Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.

                Eins og að framan greinir bar stefnanda að sjá um allar tryggingar vegna rekstrarins. Í stefnu málsins er hins vegar ekki gerð grein fyrir þeim tryggingum sem stefnandi keypti vegna rekstursins. Þá er hvorki gerð grein fyrir því tjóni sem stefnandi krafði tryggingarfélagið um né heldur þeim bótum sem tryggingarfélagið greiddi stefnanda vegna tjónsins. Meðan ekki er gerð grein fyrir þessum atriðum í stefnu málsins, telur dómurinn að stefnandi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni.

                Þá verður að telja að stefnandi verði, eins og mál þetta liggur fyrir, að gera grein fyrir því í stefnu málsins í hverju tjón hans hafi falist. Ekki nægir að tilgreina það almennum orðum, heldur verði að rökstyðja hvað hafi verið bætt af tryggingafélaginu, og hvað ekki, hafi eitthvað staðið út af. Þá verði einnig að gera grein fyrir tengslum tjónsins við málsatvikin. Með vísan til þess sem að framan greinir hefur stefnandi hvorki lagt fram öll gögn sem þurfa þykir til stuðnings málstað sínum né gert grein fyrir því í stefnu hvaða gögn hann hyggist afla og leggja fram síðar. Áréttað er að gögn þessi og upplýsingar verða að koma fram í stefnunni sjálfri og með henni. Ekki dugi að leggja þau fram við meðferð málsins, því með því háttalagi sviptir stefnandi stefnda tækifæri til að koma með sín gagnrök í greinargerð sinni. Auk þess sem við mat á því hvort heimilt sé að að höfða viðurkenningarmál, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, er litið til þess sem fram kemur í stefnu málsins.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála ekki fullnægt. Þegar af þessari ástæðu er frávísunarkrafa stefnda tekin til greina.

                Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Málinu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Þingrétta ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í málskostnað.