Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Opinber skipti
|
|
Föstudaginn 18. maí 2012. |
|
Nr. 306/2012. |
M (Guðbjarni Eggertsson hdl.) gegn K (Halldór Þ. Birgisson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð.
Fallist var á
kröfu K um opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar hennar og M,
sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., með vísan til þess
að sýnt væri að sambúð málsaðila hafði staðið samfleytt yfir í að minnsta kosti
tvö ár og að uppfyllt væru skilyrði ákvæðisins til fjárslita milli þeirra.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 4. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. apríl 2012, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu um skiptin. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir liggur að sóknaraðili flutti til varnaraðila á jörðina A í [...] eigi síðar en árið 2002 og þar munu þau síðan hafa átt lögheimili. Hafa málsaðilar um árabil verið eigendur jarðarinnar að jöfnum hlut og saman eiga þau félagið A ehf. sem mun hafa verið stofnað um búrekstur á jörðinni. Þá kannaðist sóknaraðili við í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hafa á tímabilum deilt sæng með varnaraðila. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til vitnisburðar, sem rakinn er í hinum kærða úrskurði, er nægjanlega leitt í ljós að aðilar hafi verið í óvígðri sambúð og búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár, sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt því verður úrskurðurinn staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4.
apríl 2012.
Með beiðni mótekinni 29.
nóvember 2011, krafðist sóknaraðili, K, kt.
[...], [...] þess að kveðinn yrði upp úrskurður um opinber skipti til fjárslita
milli hennar og fyrrum sambýlismanns hennar M kt. [...],[...].
Við þingfestingu málsins 6. desember sl. mætti
varnaraðili og óskaði frests til greinargerðar en af hans er þess krafist að
kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaður.
Greinargerð
varnaraðila var lögð fram 17. janúar sl. og málinu frestað til 23. febrúar sl.
Í þinghaldi 24. febrúar var málinu frestað til flutnings um kröfu sóknaraðila
til 9. mars sl. Málið var flutt þá og tekið til úrskurðar.
Af
hálfu sóknaraðila er atvikum lýst svo að aðilar hafi hafið sambúð árið 1998
þegar varnaraðili hafi flutt á heimili hennar að A. Þau hafi slitið samvistir
en séu enn bæði með skráð lögheimili að A. Þau hafi átt sameiginlegt heimili
þar öll sambúðarár sín. Sóknaraðili dvelji nú ekki lengur á heimilinu að A þar
sem hún hafi ekki getað búið undir sama þaki og varnaraðili og hafi ekki getað
náð samkomulagi um að hún hafi afnot ein af heimili sínu þar sem hún hafi búið
frá barnæsku. Sóknaraðili hafi reynt eftir megni að sinna búskaparskyldum að A til
þess að búskapur leggist ekki af enda hafi varnaraðili ekki sinnt búinu enda
sinni hann öðrum störfum fjarri búinu. Sóknaraðili telji allan búrekstur í
uppnámi þar sem ekki sé samkomulag um hvernig verði að honum staðið og verðmæti
kvóta sé mögulega í uppnámi. Auk þess óttist hún um velferð skepnanna í því
skipulagsleysi sem ríki. Aðilar hafi ekki náð samkomulagi um fjárslit og kveðst
sóknaraðili ekki eiga annan kost en að krefjast opinberra skipta á búi þeirra.
Ágreiningur ríki um skiptingu eigna.
Byggt
er á því að aðilar hafi hafið sambúð á árinu 1998 en þá hafi varnaraðili flutt
heimili sitt á heimili sóknaraðila að A. Vísar sóknaraðili til 100. gr. laga
nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. og heldur því fram að það skilyrði
ákvæðisins að aðilar hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár sé
uppfyllt.
Varnaraðili
mótmælir kröfu sóknaraðila og byggir aðallega á því að krafan sé svo vanreifuð
að ekki verði hjá því komist að hafna henni enda hafi ekki verið sýnt fram á að
skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 séu uppfyllt auk þess að sóknaraðili hafi
ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá kröfuna samþykkta. Aðilar hafi
ekki talið fram saman til skatts né verið skráð í sambúð í þjóðskrá.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fram skuli fara
opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila. Sóknaraðili
byggir kröfu sína á 100. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum
o.fl. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 65/2010. Sambandi málsaðila lauk á
árinu 2008 og því verður, við úrlausn þessa máls, ákvæðið lagt til grundvallar,
eins og það var á þeim tíma.
Ef karl og kona slíta óvígðri sambúð eftir að hafa
búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman skemmri tíma og
annaðhvort eignast barn eða konan er þunguð af völdum karlsins getur annað
þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Sama
gildir um sambúðarslit einstaklinga af sama kyni.
Enn sem komið
er, er ekki í íslenskum rétti algild skilgreining á hugtakinu óvígð sambúð. Til
þess að sambúð fólks falli undir hugtakið óvígð sambúð hefur í fræðum verið
miðað við að fólk hafi sameiginlegan bústað og fjárhagslega samstöðu auk þess
sem samband á sameiginlegu heimili með samtvinnaðan fjárhag þarf að hafa
staðið í ákveðinn lágmarkstíma. Skilgreiningar í lögum eru mismunandi. Í sumum
er skráning í þjóðskrá eitt skilyrða þess að óvígð sambúð hafi þau réttaráhrif
sem lagaákvæðið veitir, önnur setja sameiginlegt lögheimili sem skilyrði án
þess að tilgreina skráningu sérstaklega.
Í 100. gr. laga
nr. 20/1991 var það hvorki gert að skilyrði fyrir því að sambúðarfólk gæti
krafist opinberra skipta til fjárslita sín í milli að þau hefðu skráð sambúðina
í þjóðskrá eða hefðu sameiginlegt lögheimili. Með þeirri breytingu sem var
gerð á ákvæðinu með lögum nr. 65/2010, til þess að færa efni ákvæðisins að
þróun samfélagsins, var útfært nánar með hvaða hætti fólk gæti sannað óvígða
sambúð. Annars vegar með því að skrá sambúðina í þjóðskrá en slíkt verður ekki
gert nema sambúðarfólk hafi sama lögheimili, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili
nr. 21/1990, sbr. 1. gr. laga nr. 65/2006 og 11. gr. laga nr. 65/2010 og hins
vegar með öðrum ótvíræðum gögnum. Þrátt fyrir að skráning lögheimilis geti
verið eitt þeirra gagna er hvorki í ákvæðinu né frumvarpi til breytingar á því
tekið fram að lögheimilisskráning skuli vera meðal þeirra ótvíræðu gagna sem
sannað geta sambúð.
Eins og áður segir eru tvö ár lágmarkstími sambúðar
samkvæmt ákvæðinu. Sóknaraðili byggir á því að sambúð málsaðila hafi verið
samfelld frá 1997 til 2008 en varnaraðili byggir á því að samband þeirra hafi
aldrei verið þess eðlis að um sambúð væri að ræða sem hefði varað óslitið í að
minnsta kosti tvö ár eins og áskilið er í lögunum.
Málsaðilar gáfu skýrslu fyrir dómi svo og 6 vitni. Öll
báru vitnin að málsaðilar hefðu búið saman að A á tímabilinu 1997 til 2007 þótt
sú sambúð hafi verið með hléum. Þá kom fram hjá vitnunum B, syni sóknaraðila að
aðilar hefðu samið saman og segja mætti að varnaraðili hafi verið húsbóndinn á
heimilinu. Hafi þau sofið saman í sama rúmi og í sama herbergi. Vitnið leit svo
á að varnaraðili hafi búið uppfrá frá 2001 en vitnið flutti þaðan 2008. Vitnið C
kvað samband aðila hafa blasað við. Varnaraðili hafi verið sambýlismaður móður
vitnisins og að aðilar hefðu búið saman og haldið heimili að A. Hún kvað
varnaraðila hafa verið búinn að búa þarna einhvern tíma er dóttir hennar var
skýrð árið 2003. Aðilar hefðu haft sameiginlegt svefnherbergi og fjölskyldan
komið saman á jólum og öðrum hátíðum svo sem sjá megi á ljósmyndum sem frammi
liggja í málinu. Vitnið D mágkona sóknaraðila kvað aðila hafa verið byrjuð að
búa saman í maí 2001. Varnaraðili hafi komið ásamt sóknaraðila í afmæli í
fjölskyldunni. Hafi þau komið sem par sem byggi saman. Vitnið kvað aðila enn
hafa verið í sambúð 2006 er ættarmót hafi verið haldið að A. Varnaraðili hafi
verið að sinna gestum en sóknaraðili verið inni. Vitnið E sem er hálfbróðir
sóknaraðila kvað þau hafa búið saman uppi á A. Á árinu 2001 þegar vitnið varð
fertugur hafi þau verið búin að búa saman og varnaraðili komið með sóknaraðila
sem sambýlismaður hennar í afmælið. Vitnið hafi kynnst varnaraðila fyrir
aldamót á árinu 1997 eða 1998. Leit vitnið á aðila sem par til nálægt 10 ára.
vitnið F sóknarprestur í [...] bar að það hefði verið alkunnugt í sveitinni að
aðilar voru í sambúð. Hann kvað vafalaust að þau hefði deilt matborði og sæng
undir sama þaki og enn fremur kom fram hjá vitninu að hann hefði komið á
heimili þeirra og unnið prestverk á þessu tímabili. Ljóst væri að sambúð þeirra
hafi varað að minnsta kosti 2 ár samfleytt á tímabilinu. Vitnið G nágranni
aðila kvað þau hafa búið saman og rekið búið að A. Leit vitnið á þau sem par og
sambúðarfólk og kvað sambúð þeirra hafa varað lengur en tvö ár.
Varnaraðili heldur því fram að ekki hafi verið um
sambúð aðila í lagalegum skilningi að ræða svo sem að framan greinir heldur
hafi verið með þeim viðskiptasamband. Hann hafi öðru hvoru gist að A og raunar
deilt sæng með sóknaraðila. Sú skýring hans að samband þeirra sóknaraðila hafi
verið annars eðlis en gengur og gerist með fólki sem deilir heimili þykir
fráleit í ljósi þess sem fram kemur í framburði vitna sem rakinn er hér að
framan.
Þykir sýnt fram á það hér að aðilar máls þessa hafi
búið saman samfleytt í að minnsta kosti 2 ár og þar með er skilyrði 100. gr.
sem lýtur að sambúð aðila uppfyllt og því verður krafa sóknaraðila tekin til
greina. Ekki þykja þeir annmarkar á kröfugerð sóknaraðila að leiði til þess að
kröfu hennar verði hafnað.
Samkvæmt
framansögðu verður krafa sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita á búi
aðila tekin til greina.
Allan
V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Opinber skipti til fjárslita á búi sóknaraðila, K og varnaraðila, M, skulu fara fram.