Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2012
Lykilorð
- Slysatrygging
- Vátryggingarsamningur
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 14. febrúar 2013. |
|
Nr. 522/2012.
|
Hulda Kristjánsdóttir (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) gegn Okkar líftryggingum hf. (Óðinn Elísson hrl.) |
Slysatrygging. Vátryggingasamningur. Tómlæti.
H krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hennar til bóta úr slysatryggingu launþega hjá O hf. vegna slyss sem hún varð fyrir er ekið var aftan á bifreið sem hún var farþegi í. Hæstiréttur vísaði m.a. til þess að H hefði leitað til lögmanns 19. september 2008 vegna afleiðinga slyssins og falið honum að gæta hagsmuna sinna, en O hf. hefði fyrst verið tilkynnt um slysið 12. janúar 2010. Hefði þá verið liðinn frestur H til að krefja O hf. um bætur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu O hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júlí 2012. Hún krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til bóta úr slysatryggingu launþega úr hendi stefnda vegna slyss sem hún varð fyrir 17. desember 2007. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi fyrir því 17. desember 2007 að bifreið var ekið aftan á bifreið er hún var farþegi í. Ágreiningur málsins snýst um hvort áfrýjandi hafi tilkynnt stefnda um tjón sitt innan frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þar segir að sá sem rétt eigi til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar, glati þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Í máli þessu liggur fyrir að áfrýjandi leitaði 19. september 2008 til lögmanns vegna afleiðinga slyssins þar sem hún fól honum að gæta hagsmuna sinna. Í umboðinu var tekið fram að áfrýjandi hefði orðið fyrir meiðslum á hálsi, baki, öxlum, höfði og herðum og var sú lýsing meiðsla að mestu í samræmi við þá greiningu er áfrýjandi hlaut við skoðun læknis á slysadeild sama dag og slysið varð, en þar var áfrýjandi greind með tognun á brjóst- og hálshrygg. Fyrir liggur að stefnda var fyrst tilkynnt um slysið 12. janúar 2010. Var þá liðinn sá frestur sem kveðið er á um í 1. mgr. 124. laga nr. 30/2004. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 16. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Huldu Kristjánsdóttur, Háaleitisbraut 151, Reykjavík á hendur Okkar líftryggingum hf., Sóltúni 26, Reykjavík, með stefnu birtri 13. desember 2011.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til bóta úr slysatryggingu launþega úr hendi stefnda vegna frítímaslyss sem hún varð fyrir hinn 17. desember 2007. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málavextir
Stefnandi er starfsmaður Arion banka hf. (áður Kaupþings banka hf.) og var, samkvæmt kjarasamningi, slysatryggð hjá stefnda.
Hinn 17. desember 2007 lenti stefnandi í umferðarslysi í Lágmúla í Reykjavík þegar bifreið var ekið aftan á bifreið sem hún var farþegi í. Hún leitaði samdægurs á slysadeild Landspítala í Fossvogi þar sem hún var greind með tognun í hálshrygg og brjósthrygg. Í áverkavottorði var þess getið að ekki hafi verið talin þörf á frekari rannsóknum.
Hinn 19. september 2008 leitaði stefnandi til Opus lögmanna. Þar undirritaði hún umboð þar sem fram kom að stefnandi hefði orðið fyrir meiðslum á hálsi, baki, öxlum, höfði og herðum í umferðarslysinu 17. desember 2007. Stefnandi veitti lögmanni umboð til að gæta réttar hennar gagnvart Sjóvá Almennum tryggingum hf. og jafnframt öðrum aðilum sem málið kynni að beinast að.
Hinn 2. mars 2009 leitaði stefnandi til Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarskurðlæknis sem sendi stefnanda í röntgenrannsókn 18. mars 2009. Greindust þá slitbreytingar og taldi bæklunarskurðlæknirinn það langt um liðið frá slysi að ekki væri að vænta frekari bata. Hinn 20. og 29. júlí og 5. ágúst 2009 leitaði stefnandi til Halldórs Jónssonar heimilislæknis.
Hinn 13. nóvember 2009 var óskað eftir matsgerð þeirra Guðmundar Björnssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. Matsgerðin er dagsett 18. desember 2009 og er varanlegur miski stefnanda metinn 5 stig og 5% varanleg örorka.
Með tölvupósti 12. janúar 2010 var stefnda send tilkynning um slysið og óskað eftir tillögu að uppgjöri með vísan til niðurstöðu matsgerðar í málinu. Krafa var gerð um bætur úr slysatryggingu launþega, Arion banka.
Í bréfi dags. 4. febrúar 2010 hafnaði stefndi kröfu stefnanda um bætur með vísan til 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 (hér eftir vsl.). Taldi stefndi að árs tilkynningarfrestur hafi byrjað að líða 19. september 2008 þegar stefnandi leitaði aðstoðar lögmanns vegna afleiðinga slyssins.
Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum en með úrskurði nefndarinnar dags. 16. nóvember 2011 var fallist á það sjónarmið stefnda í málinu að tilkynningarfrestur hafi byrjað að líða 19. nóvember 2008 og frestur því liðinn þegar tilkynning um tjón barst stefnda 12. janúar 2010.
Stefnandi vill ekki una niðurstöðu Úrskurðarnefndar og höfðar því mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi hafnar því að hún hafi haft vitneskju um þau atvik sem bótakrafa var reist á hinn 19. september 2008, þegar hún veitti lögmanni sínum umboð vegna málsins. Samkvæmt kjarasamningi stefnanda greiðast bætur vegna varanlegrar örorku úr slysatryggingu launþega hjá stefnda. Um sé að ræða varanlega læknisfræðilega örorku (miska) og sé mat á henni læknisfræðilegt. Því telji stefnandi ómögulegt að líta svo á að það eitt að hún hafi leitað til lögmanns til að kanna rétt sinn vegna slyssins gefi til kynna að hún hafi haft vitneskju um afleiðingar slyssins og grundvöll bótakröfu á þeim tíma.
Bótakrafa stefnanda sé byggði á matsgerð Guðmundar Björnssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. frá 18. desember 2009. Stefnanda hafi því ekki verið kunnugt um að hún ætti kröfu á hendur stefnda fyrr en umrædd matsgerð lá fyrir í málinu, enda hafi verið ómögulegt fyrir stefnanda að gera kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku áður en slíkar afleiðingar voru kunnar.
Fyrir liggur að ekki hafi verið gerðar neinar rannsóknir á stefnanda á slysadeild og hafi áverkar hennar verið túlkaðir sem tognun í háls- og brjósthrygg og hún útskrifuð heim til sín með verkja- og bólgueyðandi lyf. Það hafi ekki verið fyrr en hún leitaði til bæklunarskurðlæknis að ákveðið hafi verið að rannsaka hana frekar. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrst haft vitneskju um þau atvik sem bótakrafa var reist á hinn 18. desember 2009 telur stefnandi ljóst að sú vitneskja hafi ekki legið fyrir fyrr en í fyrsta lagi hinn 11. maí 2009, þegar bæklunarskurðlæknir túlkaði í vottorði sínu niðurstöður úr röntgenmyndatöku og tölvusneiðmyndatöku sem hann lét framkvæma af áverkum stefnanda.
Rannsóknirnar fóru fram hinn 18. mars 2009 og var niðurstaða þeirra að um slitbreytingar væri að ræða. Slitbreytingar sáust við tölvusneiðmynd af lendhrygg auk þess sem röntgenmynd af hálsliðum sýndi slitbreytingar. Þá leiddi röntgenmyndataka af brjósthrygg í ljós slitgigt. Í þessum rannsóknum sáust ekki áverkar sem hægt væri að rekja til slyssins. Í ljósi þessa telur stefnandi að ekki verði á því byggt að henni hafi verið kunnugt um atvik sem hún gæti byggt bótakröfu á gagnvart stefnda þegar umræddar rannsóknir fóru fram, enda leiddu þær eins og áður segir ekki til þess að áverkar greindust sem rekja mætti til slyssins.
Verði hins vegar ekki fallist á að miða við síðara tímamark, sé á því byggt að stefnanda hafi í fyrsta lagi hinn 18. mars 2009, þegar rannsóknir fóru fram, verið kunnugt um atvik sem hún gæti byggt bótakröfu á á hendur stefnda.
Verði ekki fallist á að miða við neina framangreindra dagsetninga við mat á því hvenær frestur skv. 1. mgr. 124. gr. vsl. byrjaði að líða sé á því byggt að fresturinn hafi í fyrsta lagi byrjað að líða 2. mars 2009, þann dag er stefnandi leitaði til bæklunarskurðlæknis.
Í ljósi framangreinds telur stefnandi ljóst að hún geti í fyrsta lagi talist hafa haft vitneskju um kröfu sína á hendur stefnda þegar hún hafði leitað til bæklunarskurðlæknis sem rannsakaði hana, m.a. með röntgenmyndatökum, og túlkaði í kjölfarið niðurstöður sínar í vottorði, dags. 11. maí 2009. Stefnandi telur þó réttast að miðað verði við það tímamark er matsgerð um afleiðingar slyssins lá fyrir, eða 18. desember 2009. Í öllum framangreindum tilfellum sé ljóst að frestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. vsl. hafi ekki verið liðinn þegar lögmaður stefnanda tilkynnti stefnda um slys hennar með tölvubréfi 12. janúar 2010. Samkvæmt því sem fyrir liggur um læknismeðferð stefnanda og heilsufar hennar ári áður en tjónið var tilkynnt stefnda verður ekki séð að hún hafi á þeim tíma vitað að slysið hefði varanlegar afleiðingar í för með sér.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi vísar til 1. mgr. 124. gr. vsl. og athugasemda með því ákvæði.
Að mati stefnda kemur skýrt fram í nefndum lögum að upphaf frestsins miðast við þann tíma er vátryggður fékk upplýsingar um þau atvik sem eru tilefni kröfu hans um vátryggingarbætur. Það kemur hvorki fram í lögunum né í frumvarpi til laganna að tímamarkið miðist við það þegar vátryggður gat gert kröfu um vátryggingarbætur.
Hinn 19. september 2008 leitaði stefnandi aðstoðar lögmanns vegna afleiðinga umferðarslyssins. Á grundvelli gagna málsins er ekki annað að sjá en að stefnandi hafi leitað aðstoðar vegna varanlegra afleiðinga slyssins enda bera gögnin það ekki með sér að um tímabundnar afleiðingar hafi verið að ræða.
Stefnandi leitaði til Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis fyrir tilstuðlan lögmanns síns. Í vottorði frá bæklunarlækninum er eftirfarandi lýsing á einkennum eftir slysið: „Verkir héldu áfram en hún leitaði lítið til lækna en fékk þó verkjalyf hjá heimilislækni og keypti sjálf Ibufen í apóteki Verkirnir héldu áfram og vegna þessa leitaði hún til undirritaðs þann 02.03.2009 og kvartaði um verki í hálsi.“
Miðað við framangreinda lýsingu kemur fram að litlar sem engar breytingar urðu á ástandi stefnanda frá því að hún var skoðuð á slysadeild og þar til hún leitaði til bæklunarlæknis. Lítið kom út úr rannsóknum hjá bæklunarlækninum og taldi hann að vart væri hægt að vænta frekari bata þar sem langur tími væri liðinn frá slysinu.
Engar breytingar urðu á ástandi stefnanda eftir að hún leitaði til lögmanns hinn 19. september 2009. Í niðurstöðu matsgerðar kemur fram að stöðugleiki hafi verið þremur mánuðum eftir slysið eða 17. mars 2008. Eftir þann tímapunkt hafi stefnandi ekki mátt vænta frekari bata. Þrátt fyrir þessa vitneskju stefnanda fékk stefndi ekki upplýsingar um málið fyrr en 12. janúar 2010, tæpum tveimur árum eftir að verkjaástand stefnanda var óbreytt og tæpum 16 mánuðum eftir að hún leitaði aðstoðar lögmanns vegna einkenna eftir slysið.
Eins og málum sé hér háttað sé að mati stefnda með öllu ótækt að miða upphaf frestsins skv. 124. gr. vsl. við dagsetningu matsgerðar eða það tímamark þegar stefnandi leitaði til sérfræðings fyrir tilstuðlan lögmanns síns. Af niðurstöðum þeirra rannsókna sem stefnandi gekkst undir hjá bæklunarlækninum komu ekki fram áverkamerki sem rekja má til slyssins, heldur sýndu niðurstöðurnar einungis slitbreytingar sem að mati stefnda tengist ekki slysinu. Því sé að mati stefnda ótækt að miða upphaf frestsins við vottorð bæklunarlæknisins eða dagsetningu rannsóknarinnar, líkt og stefnandi byggir á í stefnu. Að mati stefnda eiga sömu sjónarmið við um dagsetningu á vottorði bæklunarlæknisins. Með því væri stefnanda í raun í sjálfsvald sett hvenær fresturinn byrjar að líða.
Af öllu framangreindu virtu og þegar litið er til gagna málsins sé ljóst að tilkynningarfrestur skv. 1. mgr. 124. gr. vsl. var löngu liðinn þegar lögmaður stefnanda sendi stefnda tilkynningu um slysið. Stefnandi hafði vitneskju um stöðu sína eftir slysið nokkrum mánuðum eftir slysið og í síðasta lagi þann 19. september 2008 þegar hún leitaði lögmannsaðstoðar til að gera kröfu í ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar EG-G87 sem tryggð var hjá Sjóvá Almennum tryggingum hf. Á þeim tíma telur stefndi að stefnandi eða lögmaður sem gætti hagsmuna hennar vegna slyssins hefði átti að senda tilkynningu til stefnda en af einhverjum ástæðum var það ekki gert fyrr en matsgerð lá fyrir. Af þeim sökum rann tilkynningarfresturinn út skv. 1. mgr. 124. gr. vsl. og stefnandi glataði rétti sínum til bóta úr slysatryggingu launþega.
Niðurstaða
Stefnandi varð fyrir slysi 17. desember 2007 er bifreið var ekið aftan á bifreið er hún var farþegi í. Stefnandi leitað strax á slysadeild og fékk þá greiningu að hún hefði tognað á hálshrygg og í brjósthrygg. Um níu mánuðum síðar eða 19. september 2008 leitar stefnandi til lögmanna. Þar ritar hún undir umboð þeim til handa til að gæta hagsmuna hennar gagnvart Sjóvá-Almennum tryggingum hf. eða þeim sem málið kunni að beinast að vegna umferðarslyssins. Í umboðinu er tekið fram að stefnandi hafi orðið fyrir meiðslum á hálsi, baki, öxlum, höfði og herðum. Samkvæmt gögnum málsins fer stefnandi fyrst til læknis 2. mars 2009 eða tæpu hálfu ári eftir að hún gaf lögmönnum sínum umboðið og um fimmtán mánuðum eftir slysið. Hún var í tveimur heimsóknum hjá bæklunarlækni í mars 2009. Frá 20. júlí 2009 til 5. ágúst 2009 fer stefnandi í þrjár heimsóknir til heimilislæknis. Hinn 13. nóvember 2009 eru sérfróðir matsmenn dómkvaddir til að meta afleiðingar slyssins á heilsu hennar. Matsgerð er dagsett 18. desember 2009. Stefnandi tilkynnir síðan stefnda um slysið 12. janúar 2010 eða rúmum þremur árum eftir að það átti sér stað.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi hafi tilkynnt stefnda um tjón sitt innan frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 124. gr. vsl.
Í 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 segir að sá sem rétt eigi til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glati þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Ágreiningurinn lýtur að því hvernig túlka eigi lok ákvæðisins, það er „ frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á“.
Í athugasemdum með frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga kemur meðal annars fram í umfjöllum um 124. gr., sbr. 51. gr., að vátryggður glati rétti til bóta ef krafa hans er ekki tilkynnt innan árs frá því að hann vissi um atvik sem eru tilefni kröfu hans. Geri hann það ekki fellur réttur hans brott vegna tómlætis. Reglan kunni að virðast ströng en sé þó mun rýmri en heimild standi til eftir ákvæðum vsl. Félögin hafi af því mikla hagsmuni að kröfur komi fram sem fyrst og það hafi samfélagslega þýðingu að ljúka slíkum málum án óþarfa dráttar. Upphaf frestsins miðist við þann tíma er vátryggður fékk upplýsingar um þau atvik sem séu tilefni kröfu hans um vátryggingarbætur. Ákvæðið geri kröfur til vátryggðs af því að það sé á hans ábyrgð ef hann gerir sér ekki grein fyrir að atvikin sem hann hefur fengið upplýsingar um veita honum rétt til vátryggingabóta. Sé óhjákvæmilegt að skipa reglum með þessum hætti, enda verði að ætlast til að vátryggður hafi sjálfur vara á sér í þessum efnum og í raun ekki öðrum til að dreifa.
Í tilviki stefnanda vissi hann að hann gæti átt kröfur vegna tjóns er hann hlaut í umferðarslysinu 17. desember 2007. Það kemur fyrst fram í umboði því er hann veitti lögmönnum sínum 19. september 2008. Ákvæðið verður ekki skilið svo að miða eigi við það tímamark þegar stefnandi gat gert kröfur um vátryggingarbætur, svo sem stefnandi byggir á í málinu.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður stefndi sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Okkar líftryggingar hf. er sýknaður af kröfum stefnanda, Huldu Kristjánsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.