Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Gjafsókn


Mánudaginn 16

 

Mánudaginn 16. júní 2003.

Nr. 216/2003.

Hafsteinn Jóhannsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Guðrúnu Magnúsdóttur

(Jón Ísberg hrl.)

Guðrúnu Jóhannsdóttur

Herði G. Jóhannssyni

Ernu Jóhannsdóttur

Sesselju Guðmundsdóttur

Árna Jóni Guðmundssyni

Guðrúnu Guðmundsdóttur og

(Hreinn Pálsson hrl.)

Bergsveini Jóhannssyni

(enginn)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Eignarréttur. Hefð. Gjafsókn.

Við opinber skipti á dánarbúi J krafðist H, sonur hans, þess aðallega að viðurkenndur yrði eignarréttur sinn að jörðinni B, en til vara að hluta jarðarinnar og að lágmarki 1/5 hluta hennar. J hafði keypt 5/6 hluta jarðarinnar af systkinum sínum árið 1964, en áður átti hann 1/6 hluta hennar. Hafði H lánað föður sínum 50.000 kr. til kaupanna, en kaupverðið nam 260.000 kr. Af því tilefni gaf J út skuldaviðurkenningu til H þar sem tekið var fram að hann ætlaði H 1/5 hluta jarðarinnar nyti sín ekki við. Í málinu hélt H því fram að hann hafi síðar keypt jörðina af J með því að greiða af lánum sem hvíldu á henni auk annarra skulda. Talið var ósannað að H hafi keypt jörðina enda hafi hann ekki náð samkomulagi við J um verð fyrir hana. Þær greiðslur, sem H kvaðst hafa innt af hendi, breyttu engu í þessu sambandi. Þá var talið að skuldaviðurkenningin, sem áður var getið, fæli ekki í sér eignarheimild til H auk þess sem krafan samkvæmt henni væri fyrnd. Talið var sannað að H hafi fengið jörðina til ábúðar eigi síðar en árið 1976 og umráð hans yfir jörðinni hafi því ekki heimilað hefð. Var jörðin því talin eign dánarbús J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. maí 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að jörðin Bálkastaðir, Heggstaðanesi í Vestur-Húnavatnssýslu, væri eign dánarbús Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði úrskurðaður eignarréttur að allri jörðinni Bálkastöðum, en til vara að hluta jarðarinnar og að lágmarki 1/5 hluta hennar. Þá krefst hann málskostnaður í héraði, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Guðrún Magnúsdóttir krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilarnir Guðrún Jóhannsdóttir, Hörður G. Jóhannsson, Erna Jóhannsdóttir, Sesselja Guðmundsdóttir, Árni Jón Guðmundsson og Guðrún Guðmundsdóttir krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Varnaraðilinn Bergsveinn Jóhannsson hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Ragnheiður Jóhannsdóttir, sem tók undir kröfur sóknaraðila fyrir héraðsdómi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað sóknaraðila.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Hafsteins Jóhannssonar, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 650.000 krónur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilanum Guðrúnu Magnúsdóttur 120.000 krónur í kærumálskostnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðilunum Guðrúnu Jóhannsdóttur, Herði G. Jóhannssyni, Ernu Jóhannsdóttur, Sesselju Guðmundsdóttur, Árna Jóni Guðmundssyni og Guðrúnu Guðmundsdóttur hverju fyrir sig 20.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. maí 2003.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. mars s.l., barst dóminum með bréfi Árna Pálssonar hrl., dags. 23. október 2001, en lögmaðurinn var skipaður skiptastjóri í dánarbúi Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar með úrskurði dómsins uppkveðnum 21. júní 2001.

Sóknaraðilar málsins eru Hafsteinn Jóhannsson, Bálkastöðum, Húnaþingi vestra og Ragnheiður Jóhannsdóttir, Lyngholti 4, Ísafirði. Varnaraðilar eru Guðrún Magnúsdóttir, Gilsbakka 9, Hvammstanga, Guðrún Jóhannsdóttir, Grýtubakka 22, Reykjavík, Hörður G. Jóhannsson, Búðasíðu 4, Akureyri, Erna Jóhannsdóttir Bergen, Noregi, Sesselja Guðmundsdóttir, Hólabraut 18, Skagaströnd, Árni Jón Guðmundsson, Reykjavík, Guðrún Guðmundsdóttir, Englandi og Bergsveinn Jóhannsson, Reyrengi 9, Reykjavík.

Sóknaraðilar gera þær kröfur aðallega að sóknaraðila Hafsteini verði úrskurðaður eignarréttur að allri jörðinni Bálkastöðum, Heggstaðanesi, Vestur-Húnavatnssýslu, ásamt öllu sem þeirri fasteign fylgi og fylgja ber.  Til vara krefjast sóknaraðilar þess að Hafsteini verði úrskurðaður eignarréttur að hluta nefndrar jarðar ásamt öllu sem þeirri fasteign fylgi og fylgja ber, aldrei lægri eignarhluta en 1/5 hluta jarðarinnar.  Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar.

Varnaraðilar Guðrún, Hörður og Erna Jóhannsbörn og Guðrún, Árni og Sesselja Guðmundarbörn gera þær kröfur að úrskurðað verði að jörðin Bálkastaðir, Heggstaðanesi, Vestur-Húnavatnssýslu ásamt þeim gögnum og gæðum sem jörðinni fylgja og fylgja ber teljist eign dánarbús Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar og að henni skuli skipt samkvæmt lögerfðareglum milli eftirlifandi maka og barna hins látna.  Þá krefjast nefndir varnaraðilar málskostnaðar.

Varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir krefst þess að dánarbúi Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar verði úrskurðaður eignarréttur yfir jörðinni Bálkastöðum, Heggstaðanesi, Vestur-Húnavatnssýslu.  Þá krefst Guðrún málskostnaðar.

Varnaraðili Bergsveinn Jóhannsson sótti þing við fyrirtöku málsins þann 20. desember 2001.  Lýsti hann því þá yfir að sóknaraðili Hafsteinn hefði lagt fram kr. 50.000,- til kaupa á jörðinni 1964 og að hann styddi að Hafsteinn fengi þá fjárhæð greidda.  Að öðru leyti kvaðst Bergsveinn ekki láta málið til sín taka.

II.

Þann 28. mars 1999 lést Jóhann Matthías Jóhannsson.  Eftirlifandi maki hans er varnaraðilinn Guðrún Magnúsdóttir.  Jóhann Matthías og Guðrún áttu saman 7 börn. Sóknaraðilana Hafstein og Ragnheiði, varnaraðilana Bergsvein, Hörð, Ernu, Elísabeti og Hildigunni.  Hildigunnur og Elísabet eru látnar og eru börn Hildigunnar þau Sesselja, Guðrún og Árni Jón meðal varnaraðila máls þessa en Elísabet eignaðist ekki börn. Þann 25. júní 1999 fékk varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir leyfi til setu í óskiptu búi.  Þann 21. júní 2001 var dánarbú Jóhanns Matthíasar tekið til opinberra skipta og Árni Pálsson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu.  Á skiptafundi sem haldinn var 19. október 2001 kom upp ágreiningur um þá kröfu sóknaraðila Hafsteins á hendur búinu að hann teldist einn eigandi jarðarinnar Bálkastaða.  Með bréfi dags. 23. sama mánaðar vísaði skiptastjóri málinu til héraðsdóms.

Árið 1964 neytti Jóhann Matthías Jóhannsson forkaupsréttar að 5/6 hlutum jarðarinnar Bálkastaða á Heggstaðanesi í Vestur-Húnavatnssýslu, sbr. framlagða yfirlýsingu dags. 22. júní 1964.  Seljendur voru systkini hans Salóme og Elías.  Eftir þessi kaup átti Jóhann Matthías Bálkastaði alla.

Kaupverð Bálkastaða var samkvæmt kaupsamningi 260.000 krónur. Sóknaraðili Hafsteinn lánaði föður sínum 50.000 krónur til kaupanna.  Vegna þess láns gaf Jóhann Matthías út skuldaviðurkenningu til sonar síns dags. 13. júlí 1964.  Í henni sagði m.a.:  „Ég undirritaður Jóhann M. Jóhannsson, Bálkastöðum í Ytri-Torfustaðahreppi viðurkenni hér með að vera skuldugur syni mínum Hafsteini um kr. 50.000.00 – fimmtíu þúsund krónur 00/100.  -  Til tryggingar því að hann fái upphæð þessa greidda, ef mín nýtur ekki við, ætla ég honum 1/5. hluta jarðarinnar Bálkastaðir í Ytri-Torfustaðahreppi, eins og ég keypti hana sumarið 1964, og telst jarðarhluti þessi jafngilda skuldarupphæðinni.”

Á árunum 1965 til 1970 var húsakostur á Bálkastöðum bættur mjög.  Sóknaraðili Hafsteinn lagði m.a. fram mikla vinnu við endurbæturnar sem og Bergsveinn bróðir hans.

Sóknaraðilar halda því fram að árið 1972 hafi Bálkastaðir verið boðnir bræðrunum Hafsteini og Bergsveini til kaups ásamt bústofni og tækjum.  Ekki hafi hins vegar náðst samkomulag um verð fyrir jörðina vegna krafna bræðranna um að verðið tæki mið af framlagi þeirra til bygginga á jörðinni.

Á árinu 1978 fluttu Jóhann Matthías og kona hans, varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir, frá Bálkastöðum til Reykjavíkur.  Sóknaraðili Hafsteinn bjó þá eins og jafnan áður á Bálkastöðum og hafði að mestu tekið við búskap á jörðinni. 

Sóknaraðila og  varnaraðila Guðrúnu Magnúsdóttur greinir á um hvort hún og Jóhann Matthías hafi komið aftur á Bálkastaði.  Guðrún heldur því fram að þau hafi komið aftur 1983 og jörðin þá verið mannlaus en sóknaraðilar kveða Jóhann og Guðrúnu ekki hafa komið aftur á jörðina eftir brotthvarfið árið 1978.

Sóknaraðili Hafsteinn felldi allan sauðfjárbústofn sinn árið 1981.  Næstu tvö ár þar á eftir var hann með lögheimili á Blönduósi.  Hafsteinn vann þessi ár á Blönduósi en kveðst jafnhliða hafa stundað búskap á Bálkastöðum og heyjað jörðina á sumrin.  Þá hafi hann á þessum tíma átt allar vélar og tæki til búskaparins og hlöður verið fullar af heyi. 

Árið 1984 flutti sóknaraðili Hafsteinn lögheimili sitt aftur að Bálkastöðum.  Sama ár keypti hann 250 lömb og árið eftir bætti hann við sig fé.  Hefur hann rekið fjárbúskap á jörðinni fram til dagsins í dag.

II.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðilar byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að sóknaraðili Hafsteinn hafi eignast jörðina Bálkastaði fyrir hefð.  Hann hafi frá árinu 1972 staðið fyrir búi á jörðinni og farið með hana sem sína eign, haldið við mannvirkjum og greitt af jörðinni opinber gjöld.  Síðastliðin 20 ár hafi hann því einn haft umráð jarðarinnar og nýtt hana til búrekstrar.  Ekkert hafi komið fram um að varnaraðilar hafi gert tilkall til jarðarinnar eða skipt sér af málefnum hennar fyrr en í október 2000. Öll skilyrði hefðar skv. 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 séu því uppfyllt.

Sóknaraðili Hafsteinn hafi verið í góðri trú um eignarhald sitt á jörðinni frá árinu 1974.  Hann hafi greitt af áhvílandi lánum og þá hafi hann greitt útistandandi skuldir foreldra sinna.  Þetta staðfesti grandleysi sóknaraðila Hafsteins varðandi hugsanlegan eignarrétt annarra til jarðarinnar.  Ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga standi því þar af leiðandi ekki í vegi að sóknaraðili Hafsteinn hafi unnið eignarhald á jörðinni fyrir hefð.

Þá er því einnig haldið fram af sóknaraðilum að sóknaraðili Hafsteinn hafi ekki fengið jörðina til láns eða geymslu og ekki til ábúðar eða leigu og því komi 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga ekki til álita.

Sóknaraðilar segjast í öðru lagi byggja á því í málinu að sóknaraðili Hafsteinn hafi keypt jörðina Bálkastaði af föður sínum.  Árið 1973 hafi hann þegar verið búinn að eignast 1/5 hluta jarðarinnar með samningi sem gerður hafi verið 1964.  Árið 1974 hafi sóknaraðili Hafsteinn tekið yfir og tekið að greiða allar útistandandi skuldir búsins.  Skuldir þessar hafi hann yfirtekið um leið og jörðina og áhvílandi veðskuldir á henni.  Meðal þeirra veðlána sem sóknaraðili Hafsteinn hafi yfirtekið og síðar greitt upp hafi verið 7 lán frá Stofnlánadeild landbúnaðarins og lán frá Búnaðarbanka Íslands, samtals að fjárhæð 966.000 krónur.  Þá hafi hann árið 1979 greitt skuld föður síns við Kaupfélag Vestur-Húnvetninga að fjárhæð 1.252.780 krónur.

Sóknaraðilar benda á að í samningi sóknaraðila Hafsteins við föður hans frá 1964 hafi jörðin verið metin á 250.000 krónur en hún hafi þá verið húsalaus og ræktun í niðurníðslu.  Er sóknaraðili Hafsteinn hafi 10 árum síðar tekið við jörðinni og við öllum skuldum samkvæmt framangreindu hafi ástand jarðarinnar verið til fyrirmyndar að hans tilstuðlan.  Þá hafi allri ræktun og girðingum verið vel við haldið og öll hús jarðarinnar verið í góðu standi, bæði gripahús og íbúðarhús.  Því verði aldrei mótmælt að sóknaraðili Hafsteinn hafi átt stóran hlut í allri uppbyggingu þeirra bygginga sem byggðar hafi verið á jörðinni frá 1965.  Með yfirtöku lána og útistandandi skulda hafi hann því aðeins verið að greiða föður sínum verð jarðarinnar án bygginga sem faðir hans hafi sáralitla hlutdeild átt í raun.  Benda sóknaraðilar á í þessu sambandi að ágreiningur um kaupverð hafi fyrst og fremst staðið um verð bygginga þeirra sem reistar höfðu verið á jörðinni.  Sóknaraðili Hafsteinn hafi því talið að hann hafi greitt föður sínum jörðina og vel það.

Eftir 1972 kveða sóknaraðilar föður þeirra ekki hafa haft nokkurt fjárhagslegt bolmagn til að greiða af áhvílandi lánum á jörðinni eða skatta hennar og skyldur enda hafi það verið gert af sóknaraðila Hafsteini frá árinu 1974.

Sóknaraðilar byggja á því að með því að láta afborganir sóknaraðila Hafsteins af áhvílandi lánum á búinu afskiptalausar, sem og greiðslur hans á öðrum sköttum og skyldum, hafi faðir þeirra samþykkt kaup sóknaraðila Hafsteins á jörðinni.  Samþykki föður þeirra hafi einnig falist í því að sóknaraðili hafi einn farið með jörðina frá árinu 1974 og faðir hans ekki haft nokkur afskipti þar af.

Til stuðnings kröfum sínum vísa sóknaraðilar til reglna um stofnun eignarréttar og til hefðarlaga.  Þá vísa þau til reglna samningaréttar um það hvenær samningur teljist kominn á, að samningsumleitanir geti leitt til bindandi samkomulags þó formlegt samþykki skorti.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðilar Guðrún, Hörður og Erna Jóhannsbörn og Guðrún, Árni og Sesselja Guðmundarbörn halda því fram að jörðin Bálkastaðir, sem frá 1964-1999 hafi að fullu verið þinglýst eign Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar, hafi aldrei komist úr eigu hans, hvorki skv. beinum yfirlýsingum hans sjálfs né heldur megi ráða það af nokkrum athöfnum hans eða athafnaleysi.

Þá mótmæla nefndir varnaraðilar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að sóknaraðili Hafsteinn hafi eignast jörðina fyrir hefð.  Ákvæði 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 útiloki þá niðurstöðu.

Búskap sóknaraðila Hafsteins kveða nefndir varnaraðilar í fyrstu hafa verið í skjóli foreldranna.  Hann hafi líkt og önnur börn þeirra unnið að búinu og vegna aðstoðar við búskapinn fengið að koma sér upp bústofni.  Not Hafsteins á jörðinni eftir að foreldrarnir fluttu af henni hafi mátt líta á sem lán en leigu a.m.k. framan af.  Skýrt komi fram í allmörgum framtölum sóknaraðila Hafsteins og Jóhanns heitins að greitt sé fyrir jarðarafnot en í framlögðum landbúnaðarframtölum sé getið um landleigu sem Hafsteinn hafi greitt vegna tekjuáranna 1976-1978.

Í framtali tekjuársins 1979 geti sóknaraðili Hafsteinn um greiðslu að fjárhæð 86.000 krónur en við sé prentað nafnið Jóhann Jóhannsson.  Í framtali Jóhanns fyrir þetta sama tekjuár sé færð neðanmáls á landbúnaðarframtali svohljóðandi klausa:  „Eftirgjald eftir jörðina og vextir og afborgun af láni í Stofnlánadeild er látið jafnast, því miður liggur ekki fyrir hver upphæðin er.“  Í framtali vegna tekjuársins 1980 sé efnislega sama klausa skráð neðanmáls í landbúnaðarframtali.  Eftir þetta verði hins vegar ekki séð að landleigu sé getið, hvorki í framtölum sóknaraðila Hafsteins né Jóhanns Matthíasar.  Eðlilegra skýringa um framhaldandi eftirgjald hljóti hins vegar að vera að leita í greiðslu að fjárhæð 1.252.780 krónur sem sóknaraðili Hafsteinn hafi innt af hendi og færð hafi verið í gegnum viðskiptareikning hans við Kaupfélag Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga.  Nærtækast sé að líta svo á að þarna hafi verið innt af hendi fyrirfram landleiga til allmargra ára.

Nefndir varnaraðilar segja sóknaraðila Hafstein gera mikið úr því að hann hafi lánað föður sínum 50.000 krónur er hann eignaðist Bálkastaði að fullu.  Í málinu liggi fyrir skuldaviðurkenning Jóhanns Matthíasar við Hafstein dags. 13. júlí 1964.  Enda þótt í henni felist fyrirheit um að sóknaraðili fái 1/5 hluta jarðarinnar út á þessa viðurkenningu hafi aldrei orðið neitt uppgjör vegna lánveitingarinnar og líti út fyrir að sóknaraðili Hafsteinn hafi aldrei gengið eftir þessari greiðslu.  Þá sé viðurkenningin sem slík fyrnd.

Nefndir varnaraðilar segja sóknaraðila hvergi hafa sýnt fram á að ágreiningur, sem þeir sjálfir kveði að hafi verið á milli sóknaraðila Hafsteins og Jóhanns Matthíasar vegna hugsanlegra kaupa Hafsteins á jörðinni, hafi verið jafnaður og af kaupunum orðið.

Af framanröktu kveða nefndir varnaraðilar vera ljóst að sóknaraðili Hafsteinn geti ekki verið í góðri trú um eignarhald á jörðinni frá 1974.  Allt til tekjuársins 1980 geti hann sjálfur um greiðslu eftirgjalds eftir jörðina.  Eftir andlát Jóhanns Matthíasar 28. mars 1999 hafi, varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir fengið leyfi til setu í óskiptu búi, en í leyfinu hafi jörðin Bálkastaðir verið tilgreind meðal eigna.  Á árinu 2000 komi síðan í ljós að ágreiningur sé uppi um skipti á dánarbúi Jóhanns Matthíasar.  Að öllu þessu athuguðu geti ekki verið um fullnaðan hefðartíma að ræða skv. 2. gr. hefðarlaga og því til viðbótar komi að sóknaraðili Hafsteins var ekki í góðri trú um hefðarhaldið.

Nefndir varnaraðilar benda til viðbótar á að hefði sóknaraðili Hafsteinn verið viss um að jörðin væri orðin hans eign hefði hann átt að telja hann til eignar á skattframtölum sínum.  Það hafi hann aldrei gert og ekki sé vitað til þess að hann hafi reynt að fá slíka framtalsháttu samþykkta af skattyfirvöldum.

Að endingu taka nefndir varnaraðilar undir með varnaraðila Guðrúnu Magnúsdóttur um að ekki sé að sjá að greitt hafi verið fyrir fé það sem sóknaraðili Hafsteinn og varnaraðili Bergsveinn fengu frá föður sínum og ef til vill einhverjar búvélar að auki.

 

Varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir segir að sóknaraðili Hafsteinn hafi 1964 lánað Jóhanni föður sínum 50.000 krónur og faðir hans nýtt þá fjármuni auk annarra til kaupa á 5/6 hlutum Bálkastaða.  Jóhann hafi gefið Hafsteini skuldaviðurkenningu fyrir fjárhæðinni.   Í skjalinu hafi sagt:  „Til tryggingar því að hann fái upphæð þessa greidda, ef mín nýtur ekki við, ætla ég honum 1/5 hluta jarðarinnar Bálkastaðir í Ytri-Torfustaðahreppi, eins og ég keypti hana sumarið 1964, og telst jarðarhluti þessi jafngilda skuldarupphæðinni.“ Varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir heldur því fram að með skjalinu hafi Jóhann Matthías leitast við að tryggja að sonur hans fengi umrædda fjárhæð endurgreidda, félli hann skyndilega frá.  Skjalið sé hins vegar fyrnt fyrir löngu, sbr. lög nr. 14/1905 um fyrningu, og veiti því engan veðrétt í jörðinni.  Auk þess hafi þeir feðgar átt mikil viðskipti nokkrum árum síðar þegar Jóhann Matthías seldi sonum sínum Hafsteini og Bergsveini alla sauðfjáreign sína. Samkvæmt framtali hafi andvirði fjárins verið samtals 667.800 krónur svo ekki sé ósennilegt að skuldaviðurkenningin hafi komið nálægt þessum viðskiptum.

Varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir kveður svo virðast sem árið 1976 hafi sóknaraðili fengið ábúð á Bálkastöðum.  Fyrir það ár hafi hann greitt 116.500 krónur í eftirgjald vegna ábúðarinnar.  Sömu fjárhæð greiði hann fyrir árið 1977, sbr. skattframtal 1978, en fyrir árið 1978 greiði hann 116.549 krónur eins og fram kemur á skattframtali ársins 1979.

Af hálfu Guðrúnar Magnúsdóttur er því haldið fram að á skattframtali sóknaraðila Hafsteins fyrir árið 1980 komi ekkert fram um reiknað endurgjald.  Hins vegar sé eftirfarandi klausa rituð á framtal föður hans fyrir það ár:  „Eftirgjald fyrir jörðina, vextir og afborgun af láni í stofnlánadeild er látið jafnast.  Liggur ekki fyrir hver upphæðin er.“  Sama áritun sé á framtali Jóhanns Matthíasar árið 1981. Varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir kveður því liggja fyrir að þeir feðgar hafi gert sér ljóst að greiða þyrfti bæði eftirgjaldið og einnig af lánum jarðarinnar. Þeir hafi því samið svo um að sóknaraðili Hafsteinn gengi frá þessum málum enda hann þá búið á jörðinni en foreldrar hans fyrir sunnan en þeir hafi ekki flutt heim aftur fyrr en 1983.

Til staðfestingar á samningi feðganna vísar varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir til þess að þann 16. október 1978 hlutaðist sóknaraðili Hafsteinn til um að Kaupfélag Vestur-Húnvetninga millifærði afborganir og vexti af árgjalda af lánum úr Stofnlánadeild landbúnaðarins og veðdeild Búnaðarbanka Íslands samtals að fjárhæð 116.549 krónur til Búnaðarbanka Íslands vegna skulda föður hans.

Af framangreindu telur varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir ekki annað verða ráðið en samið hafi verið um ábúð sóknaraðila Hafsteins á jörðinni þó láðst hafi að gefa út byggingarbréf.  Bendir hún á að í 6. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 sé gert ráð fyrir að staða þessi geti komið upp en í greininni segi eftirfarandi:  „Nú hefur landsdrottinn vanrækt að gera byggingarbréf fyrir jörð og skal þá svo telja að hún hafi verið byggð lífstíð leigutaka og eftirgjald skal ákveðið af jarðanefnd nema um annað semjist.“  Varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir segir ákaflega hæpið svo ekki sé meira sagt að gera kröfu um eignarhefð á jörð þegar atvikum sé þannig háttað að í upphafi hafi verið samið de facto um ábúð og tilskilin leiga greidd fyrir jarðarafnotin en það síðan eitt gerst að leigutakinn hætti að greiða afgjaldið.

Til viðbótar framangreindu bendir varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir á að meintur hefðartími sóknaraðila Hafsteins hafi ekki getað hafist á meðan foreldrar hans bjuggu á hluta jarðarinnar en þau hafi flutt þaðan á árinu 1978.  Þá fyrst hafi hefðartíminn getað hafist.  Hefðartími þurfi hins vegar að vera samfelldur en upplýst sé í málinu að sóknaraðili Hafsteinn flutti heimilisfang sitt til Blönduóss í tvö ár eins og sjá má á skattframtölum hans fyrir árin 1983 og 1984.  Hefðartími sóknaraðila Hafsteins geti því ekki verið fullnaður.

Hvað þá málsástæðu sóknaraðila varðar að sóknaraðili Hafsteinn hafi keypt jörðina af föður sínum segir varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir að ekki verði ráðið af framlögðum skattframtölum að hann hafi greitt fyrir búfé það sem faðir hans seldi honum og hafi verið að verðmæti 324.000 krónur samkvæmt skattframtali Hafsteins.  Þá sé hvergi talið andvirði vélaeignar bús Jóhanns Matthíasar en sóknaraðili Hafsteinn telji þær samt einfaldlega sína eign, t.d. bæði á skattframtali 1974 og 1975 og hann gangi svo langt að fyrna vélarnar á framtölum sínum.  Fullyrðir varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir að Jóhann Matthías hafi ekkert skuldað syni sínum, hann verði í það minnsta að sanna aðrar greiðslur frá sér vegna búfjárkaupa og yfirtöku búvéla en þá einu greiðslu sem upplýst er í málinu, þ.e. greiðslu sem sóknaraðili Hafsteinn greiddi inn á reikning föður síns hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga 1.252.780 krónur.

IV.

                                 Niðurstaða.

Í greinargerð sóknaraðila segir að ekki hafi orðið af kaupum sóknaraðila Hafsteins og bróður hans Bergsveins á Bálkastöðum árið 1972 vegna ágreinings við föður þeirra um kaupverð.  Helsti ásteytinarsteinninn hafi verið hvernig meta skyldi þær byggingar sem byggðar höfðu verið á jörðinni með fulltingi bræðranna.  Þrátt fyrir þessi ummæli í greinargerð byggja sóknaraðilar á því í málinu að samningur hafi komist á um kaup Hafsteins á jörðinni í kjölfar þessara viðræðna.  Vísa þeir til yfirtöku sóknaraðila Hafsteins á áhvílandi veðskuldum og öðrum skuldum búsins og að Hafsteinn hafi greitt alla skatta og skyldur af búinu.  Sóknaraðilar segja Jóhann Matthías hafa látið þessar greiðslur Hafsteins afskiptalausar og þannig hafi komist á samkomulag milli þeirra feðga um kaup Hafsteins á jörðinni.  Fyrir dómi hafnaði móðir Hafsteins, varnaraðili Guðrún Magnúsdóttir, því alfarið að Hafsteinn hefði keypt jörðina af föður sínum.

Kaupverð fasteignar hlýtur að teljast eitt af meginatriðum kaupsamnings um fasteign.  Þar sem sóknaraðilar hafa upplýst að ekki hafi náðst samkomulag milli sóknaraðila Hafsteins og föður hans um verð fyrir Bálkastaði í meintum samningsumleitunum verður þegar af þeirri ástæðu og eins og mál þetta liggur fyrir dóminum ekki talið að komist hafi á bindandi kaupsamningur um jörðina.  Tilvísanir sóknaraðila til ýmissa greiðslna sem inntar hafi verið af hendi eftir að upp úr hinum meintu samningsumleitunum slitnaði geta engu um þessa niðurstöðu breytt enda atvik að greiðslunum að auki óljós og af hálfu varnaraðila verið settar fram á þeim ýmsar aðrar mögulegar skýringar. 

Skjal það sem Jóhann Matthías undirritaði 13. júlí 1964 gaf hann út til handa Hafsteini syni sínum vegna láns er hann fékk hjá Hafsteini vegna kaupa á 5/6 hlutum Bálkastaða. Skjal þetta er skuldaviðurkenning samkvæmt fyrirsögn þess. Efni skjalsins verður að mati dómsins ekki skýrt svo að það feli í sér eignarheimild sóknaraðila Hafsteini til handa.  Samkvæmt orðum skjalsins setti Jóhann Matthías 1/5 hluta Bálkastaða allra til tryggingar greiðslu umrædds 50.000 króna láns með þeim hætti að jarðarhlutinn kæmi í hlut Hafsteins félli Jóhann Matthías frá áður en lánið væri greitt. Ekki liggur fyrir í málinu hvort Jóhann Matthías hafi nokkru sinni endurgreitt syni sínum lánið.  Krafa Hafsteins, sem skjalinu var ætlað að tryggja, er hins vegar allt að einu löngu fyrnd, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.  Sóknaraðili Hafsteinn getur því engan rétt byggt á umræddu skjali.

Jörðin Bálkastaðir á Heggstaðanesi var frá árinu 1964 og til þess dags að þinglýst var leyfi varnaraðila Guðrúnar Magnúsdóttur til setu í óskiptu búi, þann 25. júní 1999, þinglýst eign Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar.

Sóknaraðili Hafsteinn hefur aldrei talið jörðina Bálkastaði fram sem sína eign á skattframtali.  Jóhann Matthías taldi jörðina fram sem sína eign fram til ársins 1990.  Framtöl hans og varnaraðila Guðrúnar Magnúsdóttur árin 1991 til 1999 liggja hins vegar ekki fyrir.  Verður því ekkert fullyrt um framtalsháttu þeirra varðandi jörðina á þeim árum.  Guðrún gaf hins vegar jörðina upp sem eign dánarbús Jóhanns Matthíasar við sýslumanninn á Blönduósi er hún óskaði eftir leyfi til setu í óskiptu búi eftir andlát Jóhanns, sbr. framlagða beiðni hennar dags. 10. maí 1999.  Þá taldi Guðrún jörðina fram til eignar á skattframtölum 2000 og 2001 í samræmi við leyfisbréf sýslumannsins á Blönduósi sem útgefið var 25. júní 1999.

Samkvæmt framlögðum skattframtölum Jóhanns Matthíasar og sóknaraðila Hafsteins greiddi Hafsteinn 116.500 krónur í eftirgjald til föður síns vegna ábúðar á Bálkastöðum árið 1976.  Þá greiddi hann í eftirgjald sömu fjárhæð árið 1977 og 116.549 krónur árið 1978.  Samkvæmt framtölum Jóhanns Matthíasar 1980 og 1981 var eftirgjald fyrir jörðina látið jafnast á móti vöxtum og afborgunum af láni í stofnlánadeild árin 1979 og 1980.  Eftir þetta er í engu getið um eftirgjald fyrir jörðina, hvorki í framtölum Jóhanns Matthíasar né Hafsteins.

Fullyrðingar sóknaraðila um að nefnd skattframtöl feðganna hafi verið ranglega færð eru engum gögnum studdar og því ósannaðar.  Með vísan til skattframtalanna þykir dóminum sannað að sóknaraðili Hafsteinn hafi eigi síðar en 1976 fengið Bálkastaði til ábúðar.  Ekkert liggur fyrir um það í málinu að ábúð Hafsteins hafi lokið á einhverjum tíma eftir það en Hafsteinn situr jörðina enn í dag. Þar sem Hafsteinn fékk jörðina í upphafi til leigu frá föður sínum geta umráð hans yfir jörðinni frá 1976, þannig til komin, ekki heimilað hefð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905.

Að öllu framangreindu athuguðu og með vísan til þinglýstra eignarheimilda Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar, sem getið er á þinglýsingavottorði sýslumannsins á Blönduósi dags. 19. júlí 2001, er það niðurstaða dómsins að jörðin Bálkastaðir á Heggstaðanesi, Vestur-Húnavatnssýslu, sé eign dánarbús Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 17. júlí 2002 var sóknaraðila Hafsteini veitt gjafsókn til reksturs máls þessa. Allur gjafsóknarkostnaður hans greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, er hæfilega þykja ákvörðuð 400.000 krónur og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð. Þá var með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 8. nóvember 2002 varnaraðila Guðrúnu Magnúsdóttur einnig veitt gjafsókn til reksturs máls þessa. Allur gjafsóknarkostnaður Guðrúnar greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Jóns Ísbergs hæstaréttarlögmanns, er hæfilega þykja ákvörðuð 400.000 krónur og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Úrskurð þennan kveður upp Halldór Halldórsson dómstjóri.  Meðferð málsins hefur dregist nokkuð sem skýrist einkum af því að aðilar reyndu í alllangan tíma að ná sáttum í málinu.  Þá fór verulegur tími í öflun gagna einkum matsgerðar sem fyrir liggur en skipta þurfti um matsmann eftir að sá sem fenginn var til verksins í fyrstu sagði sig frá því.  Dráttur á uppkvaðningu úrskurðarins skýrist af embættisönnum dómarans en lögmenn aðila hafa skriflega lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins vegna þessa dráttar. 

Halldór Halldórsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Jörðin Bálkastaðir, Heggstaðanesi, Vestur-Húnavatnssýslu, ásamt þeim gögnum og gæðum sem jörðinni fylgja, er eign dánarbús Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar. 

Málkostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila Hafsteins Jóhannssonar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns 400.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila Guðrúnar Magnúsdóttur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jóns Ísbergs hæstaréttarlögmanns 400.000 krónur.