Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


         

Miðvikudaginn 12. mars 2008.

Nr. 135/2008.

Engi ehf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Ingvari Helgasyni ehf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að málskostnaður milli aðila skyldi falla niður í máli sem að öðru leyti hafði verið fellt niður fyrir héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2008, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem fellt var niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Engi ehf., greiði varnaraðila, Ingvari Helgasyni ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2008.

Með stefnu, birtri 23. nóvember 2007, höfðaði Ingvar Helgason ehf. Sævarhöfða 12, Reykjavík mál á hendur Engi ehf., Marteinslaug 8, Reykjavík til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 31. desember 2003 til greiðsludags og málskostnaði. Stefndi krafðist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnda.

Málavextir eru þeir að hinn 26. nóvember 2003 seldi stefnandi stefnda bifreiðina UI-327 fyrir 3.319.923 kr. Stefnufjárhæðin eru ógreiddar eftirstöðvar kaupverðsins. Fyrir liggur að stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda gerðu með sér eftirfarandi samning sama dag: „Engi ehf. [kt.] og Ingvar Helgason hf. [kt.] gera með sér samning um gerð auglýsinga, innlestur o.þ.h. Samningur þessi hljóðar upp á kr. 1.000.000. og er gerður í tengslum við kaup Engi á bifreiðinni UI-327 og er þessi samningur hluti greiðslu vegna þeirra kaupa. -  Engi ehf. framvísar reikningum um leið og vinna er innt af hendi.“ Ágreiningslaust er að stefndi hefur unnið uppí skuld þessa og lesið inn á auglýsingu sem tekin var upp í marsmánuði 2007, en reikningur hennar vegna er dagsettur 25. nóvember 2007 og er að fjárhæð 100.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti.

Hinn 8. nóvember 2007 var stefnda sent innheimtubréf. Því var svarað 16. nóvember 2007 og greiðsluskyldu hafnað í ljósi nefnds samnings.

Hinn 23. nóvember sl. er fyrirsvarsmanni stefnda birt stefnan.

Í fyrirtöku 19. febrúar sl. upplýstu lögmenn að þeir óskuðu eftir að málið yrði fellt niður. Þeir myndu ná sáttum sem yrði fólgin í því að samningurinn frá 26. nóvember 2003 yrði framlengdur þannig að fyrirsvarsmaður stefnda fengi að vinna uppí eftirstöðvarnar. Hins vegar komu aðilar sér ekki saman um hvernig með málskostnað skyldi fara og er það lagt í úrskurð dómara.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda. Hann telur að málssóknin hafi átt rétt á sér þar sem einungis hafi verið unnið upp í lítinn hluta skuldarinnar. Þá bendir stefnandi á að stefndi hafi fengið mjög góð kjör, en samningurinn hafi verið gerður fyrir fjórum árum og hann hafi einungis verið efndur að litlu leyti. Þá falli stefnandi frá vaxtakröfum.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda Hann telur málshöfðunina tilefnislausa. Hann hafi ætlað að vinna upp í skuldina og málshöfðunin því misskilningur. Samningurinn frá 26. nóvember 2003 standi áfram en verði bara framlengdur. Hann bendir á að niðurstaða málsins sé sú að samkomulag sé um að málið verði fellt niður og því eigi hann rétt á málskostnaði.  Ekki sé um dómsátt að ræða þótt þeir muni koma sér niður á lyktir málsins. Þá verði líka að taka tillit til þess að stefnandi er stórt fyrirtæki sem beinir kröfu sinni að litlum aðila og eðlilegt sé að taka tillit til þess.

Fyrir liggur að samningur var gerður í nóvember 2003, sem er grundvöllur stefnufjárhæðarinnar. Samningurinn hefur aðeins að litlu leyti verið efndur af stefnda með lestri á einni auglýsingu í mars 2007. Þó framvísaði stefndi ekki reikningi vegna verksins fyrr en 25. nóvember 2007, það er eftir að stefnan hafði verið birt fyrir honum. Óumdeilt er að stefndi skuldar stefnanda ennþá verulegar fjárhæðir. Því er málssóknin ekki tilefnislaus. Að mati dómsins hefur ekki þýðingu sá efnahagslegi munur sem er á aðilum málsins en ljóst er að stefndi var samningsbundinn stefnanda í rúm þrjú og hálft ár án þess að efna samninginn og stefnandi hefur fallið frá öllum vaxtakröfum sínum. Í ljósi framanritaðs þykir rétt að hvor aðili beri sinn hlut af kostnaði af máli þessu.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

                                                               Ú r s k u r ð a r o r ð:

Málskostnaður á milli aðila fellur niður.