Hæstiréttur íslands
Mál nr. 653/2012
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 7. mars 2013. |
|
Nr. 653/2012.
|
K (Einar Hugi Bjarnason hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Barn. Forsjársvipting. Gjafsókn. Aðfinnslur.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að K, sem um árabil hafði glímt við áfengis- og vímuefnavanda, skyldi svipt forsjá tveggja barna sinna á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hæstiréttur átaldi að málið hefði ekki verið rekið eftir þeim reglum sem giltu um flýtimeðferð í héraði og taldi að það hefði átt að sæta frávísun í héraði þegar eftir þingfestingu. Þar sem málið varðaði mjög brýna hagsmuni barna þótti hins vegar ófært að vísa málinu frá héraðsdómi af þessum sökum til þess eins að að það sætti nýrri meðferð eftir fyrrgreindum reglum með þeirri óhjákvæmilegu töf sem af því myndi leiða.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. október 2012. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
Samkvæmt 53. gr. b. barnaverndarlaga nr. 80/2002, svo sem þeim var breytt með 26. gr. laga nr. 80/2011, skulu mál þar sem gerð er krafa um að foreldrar verði sviptir forsjá barna sinna sæta flýtimeðferð í samræmi við ákvæði XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt reglum sem gilda um þá meðferð skal mál höfðað með réttarstefnu og skal því þegar úthlutað dómara til meðferðar. Það kemur síðan í hlut hans að ákveða stað og stund til þingfestingar, sem að öðru jöfnu skal gert utan reglulegs dómþings. Einnig ákveður dómarinn stefnufrest, sem skemmstur má vera einn sólahringur, sbr. 2. og 4. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Ef tekið er til varna skal máli því aðeins frestað í þeim mæli sem brýna nauðsyn ber til og að öðru jöfnu skal ljúka öflun sýnilegra sönnunargagna í þinghaldi þegar stefndi leggur fram greinargerð, sbr. 1. mgr. 124. gr. laganna. Dómur skal svo kveðinn upp svo fljótt sem verða má eftir dómtöku máls, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá er frestur til að áfrýja dómi þrjár vikur, sbr. 5. mgr. ákvæðisins, í stað þriggja mánaða þegar mál er rekið eftir almennum reglum.
Í málinu gaf stefndi hér fyrir dómi sjálfur út stefnu til héraðsdóms 20. apríl 2012 í stað þess að leita eftir útgáfu réttarstefnu. Hinn 24. sama mánaðar var málið þingfest á reglulegu dómþingi og fékk áfrýjandi frest til 8. maí sama ár til að skila greinargerð. Í því þinghaldi fékk áfrýjandi aftur frest í sama skyni til 22. sama mánaðar og enn var slíkur frestur veittur til 5. júní það ár, en þá lagði áfrýjandi fram greinargerð. Málinu var svo úthlutað til þess dómara sem fór með það, en hann tók málið fyrir 29. júní og 4. júlí 2012 og voru þá lögð fram gögn og leitað sátta. Aðalmeðferð fór síðan fram 21. september sama ár. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 3. október 2012 og var honum áfrýjað innan áfrýjunarfrests 22. sama mánaðar, svo sem áður greinir.
Samkvæmt framansögðu var málið ekki rekið eftir þeim reglum sem gilda um flýtimeðferð og hefði það að réttu lagi átt að sæta frávísun í héraði þegar eftir þingfestingu. Að því gættu að málið varðar mjög brýna hagsmuni barna er með öllu ófært, úr því sem komið er, að vísa málinu frá héraðsdómi af þessum sökum til þess eins að það sætti nýrri meðferð eftir fyrrgreindum reglum með þeirri óhjákvæmilegu töf sem af því myndi leiða. Verður því þrátt fyrir þennan stórfellda annmarka að una við málsmeðferðina en átelja ber hana.
II
Í hinum áfrýjaða dómi eru skilmerkilega raktir málavextir og gögn málsins. Á það verður ekki fallist með áfrýjanda að barnaverndarnefnd hafi ekki gætt þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin um málshöfðun til að fá áfrýjanda svipta forsjá tveggja barna sinna. Eins og málið er vaxið voru heldur ekki efni til að aflað væri matsgerðar um tengsl áfrýjanda við börnin og um forsjárhæfni hennar. Er þá hafður í huga sá djúpstæði vandi sem áfrýjandi hefur glímt við um árabil. Að auki verður að líta til þess að börnin, sem eru þriggja og tæpra fimm ára að aldri, hafa mikinn hluta ævi sinnar verið í umsjá annarra en áfrýjanda og eru þau í brýnni þörf fyrir stöðugleika og varanlegt úrræði sem tryggir öryggi þeirra. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. september sl., var höfðað með stefnu útgefinni 20. apríl 2012 og þingfestri 24. sama mánaðar.
Stefnandi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Reykjavík, vegna Barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar.
Stefnda er K, kt. [...], [...], [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá barna sinna A, kt. [...], og B, kt. [...], sem nú dvelja á fósturheimili á vegum stefnanda, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómkröfur stefndu eru þær að kröfu stefnanda verði hafnað. Einnig krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts.
Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. b laga nr. 80/2002.
I
Stefnandi lýsir málsatvikum svo í stefnu að málið varði systkinin A, rúmlega fjögurra ára, og B, rúmlega tveggja ára, sem lúti forsjá móður sinnar, K, stefndu í málinu. Stefnda sé fædd árið 1981 og fari ein með forsjá barnanna. Hún sé 75% öryrki, bæði af andlegum og líkamlegum orsökum, og hafi ekki verið á vinnumarkaði undanfarin ár. Hún hafi glímt við áfengis- og vímuefnavanda til langs tíma, auk þess að eiga við geðræna erfiðleika að stríða. Stefnda eigi fyrir þrjú börn úr fyrra sambandi, tvíburana C og D, tæplega tíu ára, og E, sjö ára.
Barnaverndaryfirvöld hafi einnig haft afskipti af eldri börnum stefndu og hafi þau hafist í apríl 2006 vegna tilkynninga um vanrækslu á börnunum. Stefnda hafi farið í áfengismeðferð hjá SÁÁ um sumarið 2006, en fallið aftur tveimur vikum eftir lok meðferðar. Hún hafi verið lögð inn á geðdeild Landspítala 1. ágúst 2006 og farið í beinu framhaldi aftur í áfengismeðferð. Þegar líða hafi tekið á haustið 2006 hafi drykkja stefndu aftur farið vaxandi og hafi hún farið á ný í áfengismeðferð um miðjan nóvember það sama ár. Gerð hafi verið meðferðaráætlun með stefndu 11. janúar 2007 þess efnis að styðja stefndu í uppeldishlutverki sínu og að hún myndi leita sér aðstoðar vegna áfengis- og vímuefnavanda síns. Stefnda hafi síðar samþykkt að faðir barnanna fengi forsjá þeirra. Hafi sambandi þeirra lokið árið 2007. Börnin búi í dag hjá föður sínum og fari hann einn með forsjá drengjanna, en þau stefnda fari sameiginlega með forsjá telpunnar.
Faðir barnanna A og B sé sambýlismaður stefndu, F, fæddur árið 1969. Hann sé ekki forsjáraðili barnanna og þau séu ekki í skráðri sambúð. F eigi fimm börn úr fyrri sambúðum. Hann hafi glímt við vímuefnavanda til langs tíma og farið í fjölmargar meðferðar vegna þess. Hann sé atvinnulaus og hafi verið til langs tíma. Þá hafi hann sögu um ítrekað ofbeldi gagnvart stefndu og börnunum.
Barnaverndaryfirvöld hafi haft afskipti af yngsta syni stefndu, A, frá því fyrir fæðingu hans. Í ágústmánuði 2007 hafi barnaverndaryfirvöldum borist tilkynning frá Landspítala um að stefnda hefði drukkið áfengi stíft á meðgöngunni og um væri að ræða ölvunardrykkju daglega um nokkurra vikna skeið í upphafi meðgöngu. Tilkynning hafi borist barnaverndaryfirvöldum 9. september 2007 frá Lögreglustjóranum á [...] um að sambýlismaður stefndu hefði verið ógnandi við hana og börnin. Betur hafi gengið á meðgöngu drengsins eftir að foreldrar stefndu hafi tekið hana og sambýlismann hennar inn á heimili sitt. Stefnda hafi verið undir þéttu eftirliti foreldra sinna síðari hluta meðgöngunnar. Allvel hafi gengið hjá stefndu eftir þetta, enda virðist stefnda hafa verið í góðri samvinnu við barnaverndaryfirvöld og standa við gerða meðferðaráætlun.
Stefnda hafi fallið á áfengis- og vímuefndabindindi sínu upp úr miðju ári 2008. Tilkynning hafi borist frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu um að stefnda væri ölvuð og í sjálfsvígshugleiðingum. Sambýlismaður hennar hafi beitt hana ofbeldi og hafi afskipti lögreglunnar endað með innlögn stefndu á geðdeild Landspítala. Gerð hafi verið áætlun um meðferð máls 16. október 2008 þar sem hlutur stefndu hafi verið að halda sig fjarri áfengisneyslu og sinna eftirmeðferð. Stuðningsúrræðin hafi virst ganga vel og ekki hafi því verið talin þörf á frekari afskiptum barnaverndarnefndaryfirvalda. Hafi málinu verið lokað 23. mars 2009. Stefnda hafi eignast dótturina B í [...] 2009.
Málið hafi verið bókað á ný á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 13. apríl 2011 þar sem tilkynning hafi borist frá frístundamiðstöð eldri drengja stefndu um að D, sonur stefndu, hefði verið beittur líkamlegu ofbeldi af hálfu stjúpföður síns. Farið hafi verið í skóla og rætt við drenginn sem hafi staðfest ofbeldið.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi í lok aprílmánaðar 2011 þurft að hafa afskipti af stefndu eftir að sambýlismaður hennar hafi tekið börnin af heimilinu og tilkynnt lögreglunni að stefnda væri æst og í annarlegu ástandi á heimilinu. Börn stefndu, þá eins og hálfs árs og þriggja ára, hafi þurft að horfa upp á stefndu þar sem hún hafi elt sambýlismann sinn með hnífi. Átökin hafi leitt til þess að stefnda hafi gengið berserksgang í íbúðinni, brotið allt og bramlað. Hafi þetta endað með því að stefnda hafi nefbrotnað og brotnað hafi upp úr vinstri augntóft eftir áverka af hálfu sambýlismannsins. Það sama kvöld hafi stefnda fallið á áfengis- og vímuefnabindindi sínu sem staðið hefði frá árinu 2008.
Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi hafið könnun máls í málefnum barnanna í maímánuði 2011. Sambýlismaður stefndu hafi tilkynnt um vanrækslu stefndu á börnunum 10. maí 2011. Önnur tilkynning hafi borist frá Landspítala 24. maí 2011. Hringt hafi verið á sjúkrabíl á heimili stefndu og þegar sjúkraflutningamenn hafi komið á staðinn hafi stefnda verið mjög æst og ósamvinnuþýð. Hafi það endað með því að lögregla hafi verið kölluð til. Stefnda hafi enn verið mjög æst við komu á bráðadeild. Hún hafi neytt áfengis og amfetamíns. Hún hafi neitað að þiggja aðstoð og rokið út af deildinni gegn læknisráði. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi haft samband við móður stefndu sem hafi kveðist vera með börnin, en þau hefðu viku áður verið vistuð hjá henni af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur með samþykki stefndu.
Stefnda hafi innritast á Vog í júnímánuði 2011 og farið í framhaldinu í eftirmeðferð í Vík. Hún hafi skrifað undir nýja meðferðaráætlun 14. júní 2011, þar sem fram komi meðal annars að börnin yrðu vistuð hjá foreldrum hennar samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og að hún myndi leitað sér meðferðar við vímuefnavanda sínum. Stefnda útskrifaði sig af Vík nokkrum dögum síðar án þess að ljúka meðferðinni.
Málið hafi verið bókað á ný á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 23. júní 2011, þar sem fram hafi komið að stefnda og sambýlismaður hennar hafi hugsað sér að taka saman þrátt fyrir undangengið ofbeldi og að þau hafi íhugað flutning til [...] um haustið með börnin. Þá hafi jafnframt komið fram að A, sem þá hafi verið þriggja ára, þyrfti að fara til tannlæknis þar sem allar tennur hans væru í slæmu ástandi. Gildandi meðferðaráætlun hafi fallið úr gildi þar sem stefnda hafi hætt í meðferð. Hafi þá verið lagt til að gera áætlun um að fylgjast með edrúmennsku stefndu með óboðuðu eftirliti og fíkniefnaprófum. Stefnda hafi skrifað undir meðferðaráætlun 24. júní 2011.
Tilkynning hafi borist frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 13. júlí 2011. Stefnda hafi leitað á slysadeild með mikla áverka á líkama og sagt áverkana til komna vegna árásar frá sambýlismanni sínum. Hann hafi í kjölfarið verið handtekinn og viðurkennt neyslu þeirra beggja á áfengi og fíkniefnum. Stefnda hafi haft samband við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur 2. ágúst 2011, þá hafi komið fram að hún væri á biðlista til að komast í meðferð í Krýsuvík og að sambýlismaður hennar væri á biðlista til að komast í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Þá hafi komið fram að hún væri að missa íbúð sína að [...] og væri húsnæðislaus.
Foreldrar stefndu hafi komið í viðtal hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur 3. ágúst 2011. Fram hafi komið að stefnda og sambýlismaður hennar hafi lítið hitt börnin meðan á vistun hafi staðið. Þá hafi komið fram að A hafi farið til tannlæknis og í ljós hafi komið að hann hafi verið með tólf skemmdar tennur og draga hafi þurft úr honum fjórar tennur. Í viðtalinu hafi foreldrar stefndu tekið það skýrt fram að þau vildu hafa börnin í vistun í eitt ár á meðan stefnda færi í meðferð í Krýsuvík, en ef stefnda myndi falla á vímuefnabindindi sínu vildu þau að börnin færu á annað heimili í varanlegt fóstur.
Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 3. ágúst 2011 hafi verið ákveðið að gera nýja meðferðaráætlun í málinu. Lagt hafi verið til að börnin yrðu vistuð hjá foreldrum stefndu í eitt ár á meðan stefnda tækist á við áfengis- og vímuefnavanda sinn. Þá hafi komið fram að ef áætlunin myndi ekki ganga eftir yrði mál barnanna endurmetið með framtíðardvalarstað þeirra í huga. Stefnda og sambýlismaður hennar hafi mætt í viðtal 4. ágúst 2011 hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur. Þau hafi skrifað undir yfirlýsingu um að börnin yrðu vistuð hjá foreldrum stefndu til 12. ágúst 2012, sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Þau hafi viðurkennt mikla neyslu og verið fegin því að komast í meðferð. Þá kom fram að þau væru hætt við að flytja til [...]. Stefnda hafi undirritað nýja meðferðaráætlun 25. ágúst 2012, þar sem hlutverk hennar hafi verið að sinna meðferð í Krýsuvík.
Málið hafi verið tekið fyrir á fundi stefnanda 20. september 2011. Samkvæmt greinargerð sem lögð hafi verið fyrir fundinn hafi stefnda þá hafið meðferð í Krýsuvík og hafi staðið til að hún yrði þar í meðferð í sex mánuði, en sambýlismaður hennar hafi verið í vímuefnaneyslu en hugað á meðferð. Á fundi stefnanda hafi verið samþykkt að börnin yrðu vistuð hjá foreldrum stefndu í eitt ár í samræmi við vilja stefndu, sbr. 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Jafnframt hafi verið ákveðið að leggja málið fyrir að nýju án tafar með tilliti til framtíðardvalarstaðar barnanna, ef meðferðaráætlanir myndu ekki ganga eftir.
Upplýsingar hafi borist frá leikskóla barnanna 13. september 2011 þar sem fram hafi komið að mjög jákvæðar breytingar hafi orðið hjá börnunum eftir að þau hafi farið í vistun hjá foreldrum stefndu og þá sérstaklega hjá drengnum. Fram hafi komið að hann væri hreinn og að reykingalykt væri ekki lengur til staðar, einnig að tal og orðaforði hefði aukist, framburður væri skýrari og að öll tjáning hefði aukist.
Þann 6. október 2011 hafi starfsmaður Krýsuvíkur haft samband við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur. Fram hafi komið að stefnda hafi farið á spítala daginn áður og ekki snúið aftur. Stefnda hafi haft samband við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur 11. október 2011 og viðurkennt að vera fallin á vímuefnabindindi sínu. Mál barnanna hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 12. október 2011 þar sem fram hafi komið að málið yrði lagt fyrir fund stefnanda með tillögu um varanlegt fóstur barnanna.
Stefnda og sambýlismaður hennar hafi mætt til viðtals hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur 17. október 2011. Fram hafi komið að þau væru heimilislaus og byggju í bíl sínum. Aðspurð um hvað þau ætluðu að gera í sínum málum hafi þau nefnt hjónabandsráðgjöf og að leita aðstoðar sálfræðings. Stefndu og sambýlismanni hennar hafi verið greint frá því að málið yrði lagt fyrir fund stefnanda með tilliti til framtíðardvalarstað barnanna þar sem meðferðaráætlun hafi ekki gengið eftir.
Foreldrar stefndu hafi mætt til viðtals hjá starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur 17. október 2011. Fram hafi komið að þau sæktust ekki eftir að vera með börnin í áframhaldandi vistun þar sem þau teldu að það væri börnunum fyrir bestu að fara í varanlegt fóstur.
Skriflegar upplýsingar hafi borist frá Krýsuvík 3. nóvember 2011. Þar hafi komið fram að stefnda hefði staðið sig ágætlega í fyrstu en hefði hrakað eftir heimsókn til Reykjavíkur þar sem hún hafi hitt sambýlismann sinn. Þá hafi meðferðinni lokið. Einnig hafi komið fram að stefnda hefði þurft mun lengri tíma, þar sem hún hafi verið orðin mjög veik, ekki síst andlega eftir mikla neyslu og mjög erfiða sambúð. Mat ráðgjafa í Krýsuvík hafi verið að stefnda ætti langt í land, ekki síst fyrir þá sök að hún virtist ekki hafa tök á að enda sambúðina við sambýlismann sinn, sem væri stefndu og börnunum mjög skaðleg. Þá hafi verið talið útilokað fyrir stefndu að ná bata nema með þéttri meðferð og mikilli aðstoð í framhaldi af því.
Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi stefnanda 15. nóvember 2011. Fram hafi komið að stefnda og sambýlismaður hennar væru mótfallin vistun barnanna í varanlegu fóstri og lýstu sig reiðubúin til samvinnu um að bæta uppeldisaðstæður barnanna í þeirra umsjá. Það hafi verið mat stefnanda að börnin byggju við óviðunandi uppeldisaðstæður í umsjá stefndu og að þær stuðningsaðgerðir sem reyndar hefðu verið á grundvelli barnaverndarlaga hefðu ekki megnað að breyta því ástandi og væru fullreyndar. Börnin væru á viðkvæmum aldri og í brýnni þörf fyrir stöðugleika þannig að persónueiginleikar þeirra og þroski fengju að njóta sín. Með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og með tilliti til ungs aldurs þeirra hafi það verið mat stefnanda að mikilvægt væri að finna börnunum framtíðarheimili og umönnunaraðila þar sem öryggi þeirra og þroskavænlegar uppeldisaðstæður væru tryggðar. Hafi stefnandi því talið að hagsmunum barnanna væri best borgið með því að þau færu í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs. Stefnandi hafi falið borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gera kröfu um að stefnda yrði svipt forsjá barna sinna, B og A, sbr. a- og d-lið 29. gr. barnaverndarlaga. Í bókun stefnanda hafi komið fram að fyrir lægi samþykki stefndu fyrir vistun barnanna til 12. ágúst 2012. Afturkalli stefnda samþykki sitt skuli málið lagt fyrir án tafar með tilliti til þvingunarráðstafana á grundvelli barnaverndarlaga.
Stefnda sé enn í sambandi við sambýlismann sinn og hafi þau verið heimilislaus um nokkurt skeið. Í nóvember 2011 hafi þau haldið til í bíl, en svo fengið að vera á heimili foreldra sambýlismanns stefndu um skeið eða þar til þeim hafi verið vísað á dyr í byrjun ársins 2012. Þau hafi fengið inni hjá fjölskyldu og vinum á milli þess sem þau hafi átt næturstað í bíl sínum.
Stefnda hafi hafið meðferð í Hlaðgerðarkoti í desember sl., en farið úr meðferðinni eftir vikudvöl. Hún telji sig þurfa að fara í langtímameðferð til að ná tökum á vanda sínum og hafi talað um að hún stefni að því að fara í innlögn á deild 33A á Landspítala og síðan í Krýsuvík. Stefnda hafi átt umsókn um meðferð í Krýsuvík síðan í byrjun janúar 2012, en ekki verið nægilega dugleg að endurnýja hana svo hún hafi ekki komist þar að. Þá hafi stefnda meira og minna verið í neyslu síðan málefni barnanna hafi farið fyrir fund stefnanda 15. nóvember 2011 og ekki nýtt sér þau úrræði sem í boði séu til að styðja hana til vímuefnaleysis. Stefnda kveðist hafa átt stutt edrútímabil inn á milli en þau hafi verið tengd líkamlegum veikindum. Í byrjun janúar 2012 hafi stefnda fengið flensu og kvef og í lok mánaðarins hafi hún verið lögð inn á Landspítala vegna blæðandi magasárs.
Börnin hafi dvalist á heimili foreldra stefndu og sýnt miklar framfarir og liðið vel. Umgengni barnanna við stefndu hafi verið afar lítil síðan þau hafi farið á fósturheimilið. Að sögn foreldra stefndu hafi börnin hitt foreldra sína í júlí, nóvember og desember 2011 á heimili þeirra. Þá hafi þau hitt börnin í eina til tvær klukkustundir og hafi fósturforeldrarnir verið á heimilinu á meðan umgengnin hafi farið fram. Umgengnin hafi gengið ágætlega, en fósturforeldrarnir telji foreldrana hafa verið undir áhrifum á meðan þau hafi verið með börnunum. Stefnda hafi ekki sóst eftir umgengni við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Sú umgengni sem hafi verið við börnin hafi verið ákveðin af stefndu og fósturforeldrum án vitneskju starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.
Upplýsingar hafi borist frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. janúar sl., þar sem tilgreind séu fjölmörg lögregluafskipti af stefndu og sambýlismanni hennar frá 1. janúar 2008 til 6. janúar 2012. Þar komi jafnframt fram að sambýlismaður stefndu sé meðlimur í [...]. Þann [...] sl. hafi stefnda verið handtekin, ásamt sambýlismanni sínum, grunuð um að halda karlmanni nauðugum í bíl sínum. Þegar lögreglan hafi ætlað að stöðva bílinn hafi sambýlismaður stefndu reynt að komast undan. Þegar bíllinn hafi loks verið stöðvaður hafi sambýlismaður stefndu reynst undir áhrifum fíkniefna. Við leit á stefndu hafi fundist fíkniefni. Við skýrslutöku hafi hún viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis, lyfja og fíkniefna þegar atburðirnir hafi átt sér stað.
Foreldrar stefndu hafi haft samband við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur 25. janúar sl. og óskað eftir því að börnunum yrði fundið nýtt fósturheimili, þar sem þau hefðu misst trúna á að stefnda myndi leita sér hjálpar og ná að verða edrú til að sinna börnum sínum. Málið hafi verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 1. febrúar sl., þar sem bókað hafi verið að aflað yrði afstöðu stefndu varðandi það að börnin færu á annað fósturheimili með tilliti til þess hvort hún samþykkti fóstur þrátt fyrir það. Stefnda hafi sagst ekki myndu samþykkja að börnin færu á annað fósturheimili, en óskað eftir að fá að tilnefna fósturforeldra. Málið hafi aftur verið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 8. febrúar sl., þar sem bókað hafi verið að stefnda samþykkti ekki að börnin færu á annað fósturheimili, nema hún gæti fundið einhvern sjálf.
Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi stefnanda 6. mars sl. Lögmaður stefndu hafi mætt á fundinn. Fram hafi komið að stefnda væri erlendis í fríi, en vissi af fyrirtöku málsins. Hún væri ekki reiðubúin til að taka við umsjá barnanna, enda hafi ekkert legið fyrir um að hún hafi tekið á vímuefnavanda sínum. Í ljósi ungs aldurs barnanna og afstöðu foreldra stefndu hafi verið talið brýnt að hefja aðlögun þeirra á nýtt fósturheimili. Þar sem samþykki stefndu skorti fyrir vistun barnanna hjá öðrum en núverandi fósturforeldrum var málið tekið til úrskurðar, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.
Stefnda skýrir svo frá í greinargerð sinni að hún sé alkóhólisti og hafi þurft að leita sér meðferðar vegna sjúkdóms síns. Árið 2008 hafi hún farið í meðferð í Vík og í kjölfar þess leitað sér meðferðar hjá Eygló Guðmundsdóttur sálfræðingi. Meðferðin hafi gengið vel og hún verið edrú í þrjú og hálft ár. Í apríl 2011 hafi hún veikst og þurft að leggjast inn á spítala og gangast undir aðgerð. Í kjölfarið hafi hún fallið á áfengisbindindi sínu.
Stefnda hafi sjálf haft samband við stefnanda og óskað aðstoðar til þess að vinna bug á vandamálum sínum. Hún hafi í kjölfarið farið í Krýsuvík, en liðið illa þar og viljað reyna önnur úrræði. Hún hafi lengi verið á biðlista eftir plássi í Hlaðgerðarkoti og Vogi og loks fengið innlögn á Vog þar sem hún hafi hafið meðferð. Hún ætli sér að ljúka þeirri meðferð og það sé einlægur ásetningur hennar að ná varanlegum tökum á áfengisvanda sínum og geta þannig búið börnum sínum gott heimili.
Stefnda vilji hins vegar að það komi skýrlega fram að þrátt fyrir framangreindar athugasemdir sé hún með engu móti að reyna að draga fjöður yfir þann áfengisvanda sem hún hafi glímt við eða þau neikvæðu áhrif sem neyslan hafi haft á börn hennar. Hún telji hins vegar að vandinn sé ekki eins djúpstæður og haldið sé fram í stefnu. Í því sambandi bendi hún á að í þau fáu skipti sem hún hafi fallið á bindindi sínu hafi slíkt aðeins varað í skamman tíma og hún hafi umsvifalaust sett sig í samband við stefnanda til að leita eftir aðstoð við að komast í meðferð. Einnig beri að hafa í huga að þegar stefnda hafi fallið á áfengisbindindi sínu núna síðast, hafi hún verið undir miklu álagi, enda nýverið þurft að gangast undir erfiða læknisaðgerð.
Þrátt fyrir áfengisvandamál hafi stefnda ávallt lagt sig fram við að búa börnum sínum gott heimili. Börnin hafi aldrei liðið skort af neinu tagi og hugsað hafi verið um þau af góðmennsku. Stefnda sé í raun framúrskarandi móðir, að því frátöldu að hún hafi glímt við áfengissýki. Þá hafi hún sterkt stuðningsnet í kringum sig og ástríka fjölskyldu sem hafi verið til staðar fyrir börn hennar ef á hafi þurft að halda. Þá bendi hún á að hún sé ekki lengur í sambúð með barnsföður sínum, F.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnda skýrslu ásamt Birni Ragnarssyni, ráðgjafa í Krýsuvík, sálfræðingunum Guðrúnu Oddsdóttur, Eygló Guðmundsdóttur og Rögnu Ólafsdóttur, Írisi Ósk Ólafsdóttur og Helgu Jónu Sveinsdóttur, starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur, og G.
II
Stefnandi byggir á að ávallt hafi verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið og aðstæður hafi leyft. Allt frá þeim tíma er málefni barnanna hafi komið inn á borð starfsmanna stefnanda hafi stefndu staðið til boða stuðningur barnaverndaryfirvalda með það að leiðarljósi að hún næði tökum á vímuefnavanda sínum og gæti annast börnin og þau notið forsjár hennar. Að mati stefnanda hafi enn fremur verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni, en óhjákvæmilegt hafi reynst að vista börnin utan heimilis stefndu sökum djúpstæðs og langvarandi áfengis- og vímuefnavanda hennar.
Stefnandi telji gögn málsins sýna, svo ekki verði um villst, að stuðningur samkvæmt barnaverndarlögum sé fullreyndur. Frá því að stefnda hafi fallið á áfengis- og vímuefnabindindi sínu um miðbik ársins 2011 hafi hún ekki lokið meðferð og staða hennar fari síversnandi. Þegar jafnframt sé tekið mið af málefnum stefndu og eldri barna hennar hjá barnaverndaryfirvöldum allt frá árinu 2006 til dagsins í dag sé ljóst að sagan endurtaki sig í sífellu. Staða sambýlismanns stefndu sé jafnframt mjög slæm.
Stefnandi telji að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun barnanna verði stefnt í verulega hættu fari stefnda með forsjá þeirra. Gögn málsins sýni enn fremur að stefnda sé í besta falli vanhæf til að fara með forsjána vegna djúpstæðs áfengis- og vímuefnavanda. Heilsu og ekki síst þroska barnanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra eins og málum sé háttað. Hagsmunir barnanna mæli eindregið með því að stefnda verði svipt forsjá þeirra og þau verði vistuð á heimili á vegum stefnanda, þar sem vel sé hlúð að þeim og réttur þeirra til viðunandi uppeldis og umönnunar sé tryggður. Jafnframt mæli hagsmunir barnanna með því að stöðugleiki ríki í lífi þeirra og að gengið verði frá varanlegu fóstri þeirra á núverandi fósturheimili þar sem þau aðlagist sérstaklega vel, en þangað hafi börnin flutt í lok marsmánaðar sl. Þá séu batahorfur stefndu sáralitlar að mati sérfræðinga, nema með mjög stífri og langvinnri meðferð sem sýnt sé að stefnda hafi ekki ráðið við þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Skilyrði forsjársviptingar eins og þau komi fram í a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu því uppfyllt í máli þessu að mati stefnanda.
Krafa stefnanda um forsjársviptingu byggist einkum á því að ítrekað hafi verið leitast við að aðstoða stefndu við að taka á vandamálum sínum með það að markmiði að börnin njóti uppeldis og forsjár hennar. Stefnda eigi við alvarlegan vímuefnavanda að stríða auk geðheilsubrests og sem bein afleiðing þess sé hæfni hennar sem forsjáraðila verulega skert. Stefnandi telji að stuðningsaðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga dugi ekki til að tryggja öryggi barnanna til frambúðar hjá stefndu. Börnin séu á sérstaklega viðkvæmum aldri og geti umhverfi þeirra haft mótunaráhrif á þau fyrir lífstíð. Brýna nauðsyn beri til að grípa inn í aðstæður barnanna áður en það sé orðið um seinan. Verði langtímaaðgerðir ekki reyndar á þessu stigi megi gera ráð fyrir því að börnin bíði þess ekki bætur. Allt samstarf við stefndu sé nú fullreynt, enda hafi verið gerðar þrjár meðferðaráætlanir á árinu 2011 sem ekki hafi gengið eftir og stefnda hafi fallið á vímuefnabindindi. Stefnda sé á engan hátt í stakk búin til að sinna uppeldi barna sinna og velferð þeirra sé hætta búin af því að búa hjá henni.
Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnandi telji að það hafi sýnt sig að stefnda geti ekki búið börnum sínum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldra og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem mælt sé fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarrétti, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, og gagna málsins geri stefnandi þá kröfu að K verði svipt forsjá barna sinna, A og B, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.
Um lagarök vísi stefnandi meðal annars til barnaverndarlaga nr. 80/2002, Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Stefnda telur að ekki séu fyrir hendi lögmæt skilyrði til að svipta hana forsjá barna sinna. Forsjársvipting sé andstæð hagsmunum barnanna, auk þess sem beita megi öðrum og vægari úrræðum. Þannig fari forsjársvipting í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og meginreglur barnaverndarlaga.
Stefnda kveðst byggja kröfu sína aðallega á því að skilyrði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu ekki uppfyllt og því skorti lagaskilyrði fyrir því að svipta hana forsjá yfir börnum sínum. Stefnandi reisi kröfur sínar á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. laganna, en hún telji skilyrði þau sem talin séu upp í þessum stafliðum ákvæðisins ekki uppfyllt í málinu.
Forsjársvipting sé alvarlegt inngrip. Ekki beri að taka kröfu um slíkt til greina nema ríkar ástæður liggi þar að baki, enda sé hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldrum. Náin tengsl séu á milli stefndu og barna hennar. Hún telji sig góðan uppalanda sem geti búið börnum sínum gott heimili. Hún neiti því ekki að hafa átt við áfengisvanda að stríða. Hún hafi hins vegar tekið sig verulega á í þeim efnum. Hún hafi hugsað vel um börn sín og ávallt séð um að þau vanhagaði ekki um nokkurn hlut. Ekkert í málinu bendi til þess að dagleg umönnun barnanna hafi ekki verið góð, hvað þá að henni hafi verið verulega ábótavant eins og lagaákvæðið áskilji. Bæði börn stefndu séu mjög tengd henni. Samskipti hennar og barnanna hafi enn fremur ávallt verið afar góð og jákvæð.
Stefnda telji að ef kröfur stefnanda verði teknar til greina væri það í andstöðu við markmið barnaverndarlaga, eins og það sé skilgreint í 2. gr. laganna, þar sem meðal annars komi fram það markmið að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Verði ekki með nokkru móti séð að forsjársvipting leiði til styrkingar fjölskyldu stefndu, heldur sé þvert á móti um að ræða afar íþyngjandi úrræði og verulegar líkur á því að afleiðingarnar geti verið alvarlegar fyrir börn hennar. Úrræðið sé til þess fallið að sundra fjölskyldunni og brjóta hana niður.
Í ákvæði d-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 sé barnaverndarnefnd veitt heimild til að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef fullvíst er talið að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Af hálfu stefndu sé á því byggt að ofangreind skilyrði nefnds lagaákvæðis séu ekki uppfyllt í málinu. Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að andleg heilsa stefndu sé góð. Hún glími ekki við geðrænar truflanir og sé ekki greindarskert. Stefnda geri sér hins vegar að fullu grein fyrir sjúkdómi sínum og með viljann að vopni hafi hún verið dugleg við að vinna í sínum málum. Hún sæki nú meðferð í Krýsuvík og ætli sér að ná varanlegum tökum á áfengisvanda sínum í eitt skipti fyrir öll. Af framansögðu leiði að hvorki skilyrði a- né d-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 séu uppfyllt í málinu og þar af leiðandi beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Þessu til viðbótar bendi stefnda á að forsjársvipting, ef til hennar kæmi, sé í brýnni andstöðu við 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Óheimilt hafi verið að beita úrræði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, þar sem unnt hafi verið að beita vægara úrræði miðað við þá stöðu sem hafi verið uppi. Í þessu sambandi vísi stefnda til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig vísist til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Stefnda hafi samþykkt vistun barna sinna utan heimilis í tólf mánuði, eða frá 12. ágúst 2011 til 12. ágúst 2012. Stefnda hafi notað þann tíma til að vinna bug á sjúkdómi sínum. Þrátt fyrir það hafi strax í nóvember verið lagt til af stefnanda að stefnda yrði svipt forsjá barna sinna. Það virðist því aldrei hafa staðið til hjá stefnanda að gefa stefndu tækifæri til að ná tökum á lífi sínu og hafi því verið ákveðið níu mánuðum áður en vistun utan heimilis hafi átt að renna út að svipta stefndu forsjá barna sinna.
Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar komi skýrt fram í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, en þar segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðru og vægara úrræði til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Slíkt vægara úrræði sé að finna í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga þar sem segi að heimilt sé að úrskurða um vistun barns utan heimilis í allt að tólf mánuði í senn. Að mati stefnda hafi stefnandi bersýnilega horft fram hjá þessu ákvæði við meðferð málsins. Með ákvæði 28. gr. barnaverndarlaga sé foreldrum í raun gefið tækifæri til að láta af óreglu og ná tökum á lífi sínu áður en til varanlegrar forsjársviptingar komi. Stefnandi hafi aftur á móti ekki veitt stefndu þetta tækifæri að fullu, en þekkt sé að oft dugi ein áfengismeðferð ekki til þess að áfengissjúklingur nái bata. Að framangreindri ástæðu sé ekki unnt að verða við kröfum stefnanda í þessu máli og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Hin svonefnda rannsóknarregla sé lögfest í 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Reglan sé þess efnis að stjórnvaldi beri að sjá til þess að mál sé nægjanlega vel upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Á því sé byggt af hálfu stefndu að rannsóknarreglan hafi verið virt að vettugi áður en úrskurður stefnanda hafi verið kveðinn upp.
Í ljósi alls ofangreinds sé ljóst að engin lagaskilyrði séu fyrir því að svipta stefndu forsjá barna sinna. Dómkrafa stefnanda gangi miklu lengra en nauðsyn krefji, auk þess sem úrræðið brjóti gegn mjög brýnum hagsmunum barnanna af að fá að njóta stuðnings móður sinnar, sem sé þeim afar náin. Löggjafinn hafi veitt stefnanda úrræði til að bregðast við aðstæðum þeim sem uppi séu í málinu án þess að sundra fjölskyldunni.
Vísað sé til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum til 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 12. gr., og 29. gr. laganna. Einnig sé vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum til 10. og 12. gr. og hinnar almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað en stefnda njóti gjafsóknar samkvæmt 60. gr. barnaverndarlaga.
IV
Stefnandi byggir kröfu sína um að stefnda verði svipt forsjá barna sinna, A og B, á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt þeim ákvæðum er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska eða ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
Stefnda byggir á því að skilyrðum a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 sé ekki fullnægt í málinu og að hægt sé að beita vægari úrræðum samkvæmt lögunum, svo sem 28. gr. þeirra, þar sem kveðið sé á um að unnt sé að vista börn utan heimilis tímabundið til allt að tólf mánaða í senn.
Sonur stefndu, A, er fæddur [...] 2008 og er því fjögurra ára. Dóttir hennar, B, er fædd [...] 2009 og er því tæplega þriggja ára. Stefnda hefur farið ein með forsjá barnanna. Hún hefur verið í óskráðri sambúð með föður barnanna, F. Börnin voru vistuð hjá foreldrum stefndu, með hennar samþykki frá 12. maí 2011 til 12. ágúst sama ár, sbr. 25. gr. barnaverndarlaga. Stefnda samþykkti áframhaldandi vistun barnanna hjá foreldrum sínum frá þeim degi til 12. ágúst 2012. F undirritaði yfirlýsingar um að honum væri kunnugt um framangreindar ráðstafanir og hefði verið gerð grein fyrir eðli og réttaráhrifum þeirra. Þann 25. janúar sl. óskuðu foreldrar stefndu eftir því að börnunum yrði fundið annað varanlegt fósturheimili. Stefnda hafnaði því að börnin færu á annað heimili. Þann 6. mars sl. var kveðinn upp úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um vistun barnanna á heimili á vegum nefndarinnar, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Þar sem krafist var forsjársviptingar áður en vistunartíma lauk helst sú ráðstöfun þar til dómur liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna.
Af gögnum málsins er ljóst að stefnda hefur átt við alvarlegan vanda vegna áfengis- og vímuefnaneyslu að stríða. Barnaverndaryfirvöld hófu afskipti af stefndu í apríl 2006 vegna þriggja eldri barna hennar. Í apríl 2011 þurfti lögregla að hafa afskipti af stefndu þar sem hún lenti í átökum við sambýlismann sinn. Samkvæmt skýrslu lögreglu gekk stefnda berserksgang í íbúð þeirra og elti sambýlismann sinn með hníf á lofti. Þá varð stefnda fyrir áverkum af hálfu sambýlismanns síns, en hún nefbrotnaði og það brotnaði upp úr augntóft. Stefnda hóf meðferð á Vogi í júní 2011 og fór í framhaldi á eftirmeðferð í Vík. Hún fór þaðan nokkrum dögum síðar án þess að ljúka meðferð. Stefnda hóf aftur meðferð í ágúst 2011 í Krýsuvík. Þann 5. október fór stefnda á sjúkrahús og sneri ekki aftur í meðferðina. Stefnda fór aftur í meðferð í Hlaðgerðarkoti í desember 2011, en fór þaðan eftir viku og féll aftur. Stefnda fór nokkrum sinnum á biðlista eftir meðferð á fyrri hluta ársins 2012, en mætti ekki eða endurnýjaði ekki umsóknina og féll af biðlista. Þann 4. júní sl. fór stefnda í meðferð á Vogi og þaðan í Krýsuvík þar sem hún hefur verið síðan.
Stefnda lýsti neyslusögu sinni fyrir dóminum. Hún kvaðst hafa byrjað að drekka ellefu ára. Hún hafi átt erfitt með að mynda félagsleg tengsl og hafi gengið illa í skóla og verið lögð í einelti. Henni hafi fundist hún ekki getað farið á böll eða í aðrar félagslegar aðstæður án þess að fá sér í glas áður. Hún hafi farið að vinna á sjó og þegar hún hafi verið í landi hafi hún drukkið mikið og notað fíkniefni. Hún hafi hætt neyslu þegar hún hafi orðið ófrísk að tvíburum sem hafi fæðst árið 2002. Hún hafi búið með þáverandi eiginmanni sínum, sem hafi verið sjómaður, í [...]. Þegar E, dóttir þeirra sem hafi fæðst árið 2004, hafi verið um eins árs hafi neyslan byrjað aftur. Hún hafi byrjað með áfengisdrykkju á kvöldin þegar börnin hafi verið sofnuð. Árið 2004, nokkrum mánuðum eftir fæðingu E, hafi hún farið í stóra aðgerð. Hún hafi áður verið mikill matarfíkill, en eftir aðgerðina hafi hún ekki lengur getað borðað og farið að drekka meira. Á þessum tíma hafi neyslan orðið mjög slæm. Hún hafi byrjað að fara út að skemmta sér og börnin hafi verið mikið í pössun. Þegar maðurinn hennar hafi verið í landi hafi hún jafnvel horfið af heimilinu heila helgi. Hún hafi byrjað að fara í meðferðir í lok árs 2005. Hún hafi farið í margar meðferðir og lagst mörgum sinnum inn á Vog og geðdeild. Hún hafi ekki haft neina færni til að hætta að drekka.
Hún hafi skilið við fyrri mann sinn og kynnst F þegar hún hafi verið í neyslu. Þau F hafi bæði verið í neyslu fyrstu mánuðina í sambandinu. Þau hafi búið í [...] þegar hún hafi orðið ófrísk að A. Það hafi verið mjög erfitt tímabil, hún hafi ekki getað verið edrú og ekki getað hætt að drekka. Hún hafi verið orðin mjög veik af áfengisneyslu, fengið krampa og slæm lyfjafráhvörf og hafi þurft að vera undir eftirliti. Þar sem hún hafi farið út úr meðferð hafi hún ekki komist inn á Vog. Hún hafi því hringt á fæðingardeild og beðið um hjálp við að komast í meðferð, þar sem hún hafi haft áhyggjur af því að hún myndi drepa sig úr neyslu. Þá hafi hún farið í meðferð í september 2007, meðan hún hafi gengið með A, og náð tæpu ári edrú áður en hún hafi fallið þegar A hafi verið [...], í [...] 2008. Hún hafi þá farið á geðdeild og aftur í meðferð. Hún hafi verið mjög illa farin, en hún hafi lent í miklu ofbeldi þegar hún hafi fallið. Hún kvaðst hafa farið á Vog og svo í Vík og verið edrú frá [...] 2008. Neyslan hafi hafist aftur eftir meðgöngu B. Hún hafi verið haldin miklum kvíða og hafi því verið fengið geðlyf. Þá hafi hún tekið svefnlyf þar sem hún hafi verið hætt að sofa. Í desember, eftir fæðingu B, hafi hún farið að fá mjög slæm verkjaköst og verið mjög veik. Æxli hafi verið fjarlægt úr henni og hún hafi fengið mjög sterk verkjalyf eftir það. Hún hafi svo lent í vélsleðaslysi þar sem aftur hafi verið bætt á verkjalyf, morfínskyld lyf. Notkun geðlyfja hafi aukist vegna þeirra áfalla sem hún hafi orðið fyrir. Hún hafi einnig lent í mótorhjólaslysi og tapað hluta af minninu. Þegar hún hafi svo fallið á áfengisbindindi í mars 2011 hafi hún verið nýkomin úr annarri aðgerð, þar sem gallblaðran hafi verið fjarlægð. Hún hafi verið lengi á biðlista eftir þeirri aðgerð og á meðan hún hafi beðið hafi hún þurft að fara nokkrum sinnum á Landspítalann og fengið morfínsprautur vegna verkja. Botnlangi hennar hafi verið tekinn úr henni á meðgöngu þegar hún hafi verið komin 27 vikur á leið. Þá sé hún með krónískt magasár sem hún hafi oft þurft að láta brenna fyrir.
Þann 19. apríl 2011 hafi brotist úr slagsmál milli þeirra F. Hún hafi fengið stóran skurð, verið með brotna augntóft og nef, með marbletti víðs vegar um líkamann og handaför um hálsinn eftir þau. Í framhaldi af þessu hafi hún farið í meðferð á Vogi og svo farið í Vík. Hún hafi farið þaðan eftir viku og fallið samdægurs í neyslu. Þann 13. júlí 2011 hafi hún reynt að [...]. Hún hafi farið á geðdeild og á biðlista eftir Krýsuvík stuttu síðar. Hún hafi verið í Krýsuvík í fimm til sex vikur en þá farið úr meðferðinni og fallið. Þau F hafi haldið áfram í neyslu, en hún hafi farið í Hlaðgerðarkot í desember. F hafi aldrei farið í meðferð, þrátt fyrir loforð um það, hann hafi ekki lagt inn umsóknir neins staðar. F hafi sótt hana eftir eina viku í Hlaðgerðarkoti. Stefnda kvaðst hafa farið að draga úr neyslunni eftir að frelsissviptingarmálið hafi komið upp, [...] sl. Hún hafi farið til [...] og þegar hún hafi komið heim hafi hún haft mikla löngun til að eignast líf aftur. Henni hafi liðið mjög illa, helst ekki viljað vera til, upplifað sig óhæfa í öllu og hætt að fara út úr húsi. Hún hafi sofið á daginn og vakað á nóttunni, til þess að vera ekki vakandi á sama tíma og F. Þetta hafi verið mjög slæmt tímabil. F hafi í nokkur skipti reynt að drepa hana. Hún hafi verið mjög fegin þegar hún hafi komist í meðferð 4. júní sl.
Stefnda lýsti sambandi sínu við F, barnsföður sinn, þannig að það hefði verið mjög erfitt. F væri fíkill og ofbeldismaður. Mikið hafi verið um andlegt, líkamlegt og jafnvel kynferðislegt ofbeldi í sambandi þeirra. Hún hafi á tímabili verið hrædd um að lifa ekki af næstu líkamsárás. Þau F hafi ekki haft sömu gildi. Hann hafi verið hrottalegur í framkomu, ógnandi og mjög orðljótur. Henni finnist það ekki koma heim og saman við barnauppeldi. Það hafi verið mjög mikið um vanlíðan, sérstaklega gagnvart börnunum. F hafi verið mjög erfiður viðureignar og erfitt að eiga í samskiptum við hann. Hann hafi notað það sem hann hafi getað til að stjórna henni. Meðal annars hafi hann tekið B og haldið frá henni. Hann hafi tekið hana sjálfa í gíslingu og notað ýmislegt til þess að hún færi ekki frá honum. Þegar hún hafi reynt að fara frá honum hafi það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir hana. Samband þeirra hafi verið óheilbrigt. Það hafi verið viss lausn fyrir hana að fara aftur í neyslu. Henni hafi ekki fundist hún ráða við þær aðstæður sem hún hafi verið komin í og eina lausn hennar hafi verið að fara aftur að nota vímuefni. Hún hafi nú gefist upp og sé farin frá honum. Hann hafi beitt hana mjög alvarlegu ofbeldi í byrjun júní sl. þar sem lögreglan hafi verið kölluð til. Hún hafi hlaupið út úr íbúðinni sem þau hafi verið í og inn á [...] fyrir framan húsið. Þar hafi hún beðið mann um að aðstoða sig, en F hafi verið búinn að brjóta alla síma á heimilinu svo hún gæti ekki hringt eftir aðstoð. Hún hafi farið með lögreglu á spítala og þaðan í Kvennaathvarfið þar sem hún hafi verið þangað til hún hafi komist inn á Vog 4. júní sl. Hún hafi verið þar í 17 daga og í kjölfarið farið aftur í Kvennaathvarfið og þaðan í Krýsuvík. Hún hafi ekki verið í neinni neyslu síðan. F hafi einu sinni haft samband við hana síðan er hann hafi hringt til hennar í Krýsuvík fyrir um það bil einum og hálfum mánuði. Hann hafi sagt henni að hann væri að reyna að fá að hitta börnin sín, en það gengi ekki vel. Hann hafi beðið hana um að afsala sér forræðinu, en hún hafi neitað því og beðið hann um að hringja ekki og trufla ekki meðferðina. Stefnda greindi frá því að þegar henni liði illa eða hún færi í fíkn fyndi hún fyrir löngun til að tala við F. Hún viti að það sé sér mjög skaðlegt. Hún þurfi að vinna mikið með þetta og breyta hugarfari sínu og fara að trúa því að hún geti lifað án þess að hafa hann til staðar.
Stefnda kvaðst lítil samskipti hafa haft við þrjú elstu börn sín fram að þeim tíma er hún hafi farið í meðferð. Hún hafi hitt þau eftir að hún hafi farið í Krýsuvík og þau tali saman í síma og sendi hvort öðru bréf. Hún hafi ekki viljað vera í samskiptum við neinn úr fjölskyldu sinni, á meðan hún hafi verið í neyslu. Hún kvaðst hins vegar vera tengd eldri börnum sínum og þau henni. Hún kvaðst aðspurð hafa þjáðst af fæðingarþunglyndi eftir fæðingu B og verið mikið lasin, meðal annars fengið æxli og sýkingu í sár vegna keisaraskurðar. Þá hafi hún lent í bæði vélsleðaslysi og mótorhjólaslysi. Foreldrar F hafi annast B mjög mikið fyrsta árið. Hún hafi átt erfitt með að tengjast henni og hafi farið eftir sérstöku skipulagi, þar sem henni hafi ekki fundist hún eiga hana. Stefnda kvað H, dóttur F, hafa annast um A þegar hún hafi fallið við [...] aldur hans og farið í meðferð. Hún hafi eitthvað aðstoðað þau veturinn 2010-2011 og orðið mjög náin A. Hún hafi búið inni á heimilinu, en þó ekki verið mjög mikið hjá þeim. Stefnda kvaðst hafa hitt börn sín, A og B, nokkrum sinnum eftir að hún féll í mars 2011 og fram til áramóta. Svo hafi hún ekkert séð þau fyrr en 17. ágúst sl. og aftur í september. Umgengnin hafi verið mjög erfið. B hafi lítið munað eftir henni og verið feimin. Hún hafi mikið leitað til fósturforeldra sinna. A hafi verið aðeins opnari, en óöruggur og feiminn. Hún kvaðst telja þau þurfa aðlögunartíma áður en þau kæmu aftur til hennar. Aðspurð um tannhirðu A kvaðst hún hafa verið búin að átta sig á að eitthvað væri að tönnunum í honum. Hún telji það hafa farið illa með tennur hans að hann hafi alltaf sofið með pela. Hún hafi verið búin að panta tíma hjá tannlækni og foreldrar hennar hafi farið með hann þangað þegar hann hafi farið í fóstur til þeirra. Hún hafi burstað tennur hans kvölds og morgna. Varðandi málþroska hans kvað hún hann hafa talað skringilega. Tvíburarnir hennar hafi líka gert þetta, þeir séu með málhömlun. Hún hafi farið með A í prófun hjá heyrnar- og talmeinastöðinni og afhent móður sinni prófið þegar börnin hafi farið til þeirra.
Stefnda kvaðst vera í sambandi við foreldra sína, en hún væri að ávinna sér aftur traust þeirra. Engin samskipti hafi verið á milli þeirra á meðan hún hafi verið í neyslu. Hún kvaðst ekki eiga aðra fjölskyldu, en einhverja vini sem hún hafi átt síðan hún hafi verið barn.
Stefnda greindi frá því að hún væri 75% öryrki vegna tveggja bílslysa sem hún hafi lent í um 18 ára aldur. Hún hafi ekki hirt um aðvaranir lækna og haldið áfram að vera á sjó, þrátt fyrir ráðleggingar um að vera heima vegna slæms baks. Þá kvaðst hún hafa verið að kljást við blæðandi magasár síðan 2004. Hún nýti ekki næringu úr fæðu og þurfi að fara vikulega á spítala til að fá næringargjafir og járn í æð. Þá nái hún ekki að halda uppi blóðbúskap og þurfi að fá blóðgjafir. Hún kvaðst ekki hafa verið greind með neina geðræna erfiðleika af geðlækni. Eina greiningin sem hún hafi fengið sé alkóhólismi. Hún sé þó mjög kvíðasækin og hafi alltaf verið.
Stefnda kvaðst myndu þiggja stuðningsúrræði vegna barnanna kæmu þau aftur til hennar. Hún kvaðst telja það verulega mikilvægt fyrir sig, enda sé hún að hefja algerlega nýtt líf. Hún viti að það verði mikil vinna. Hún sé ekki vel á sig komin andlega eða líkamlega. Hún þurfi á mikill sálfræðiaðstoð að halda og stuðningsúrræðum. Hún þurfi að fara í eftirmeðferðarprógramm og hafi verið að skoða að fara í [...]. Þá yrði það gott fyrir hana að fara á áfangaheimili eftir meðferð, á meðan hún væri að læra að fara aftur út í samfélagið. Þetta taki langan tíma, enda þurfi hún mikla endurhæfingu. Hún kvaðst gera sér grein fyrir því að hún væri mjög lasin og vita hvað hún þyrfti að gera í því. Hún kvað hátt í þrjár vikur síðan hún hafi fengið andlega vakningu og hún trúi því nú að hún muni ekki þurfa að nota áfengi eða fíkniefni aftur. Þetta hafi verið lausn í lífi hennar, því hún hafi átt erfitt með að lifa í eigin skinni. Hún hafi verið í skaðlegu sambandi og verið mjög brotin. Hún kvaðst telja að hún yrði tilbúin til að taka við börnunum eftir um það bil eitt ár.
Björn Ragnarsson ráðgjafi í Krýsuvík greindi frá því að stefnda tæki virkan þátt í meðferðinni þar og hann teldi batahorfur hennar góðar. Hann gerði nánari grein fyrir meðferð stefndu. Hann sagði meðferðina taka að lágmarki sex mánuði, en sjö til átta mánuðir væru algengir. Eftirfylgni væri í þrjá mánuði. Hann sagði árangur af meðferðinni vera þannig að 67% þeirra sem útskrifuðust úr meðferðinni væru edrú ári síðar. Hins vegar væri nokkuð brottfall úr meðferðinni. Ef miðað væri við alla þá sem hæfu meðferð næðu líklega um 40% þeirra þessum árangri.
Í málinu liggur fyrir hluti sálfræðilegrar matsgerðar, dags. 22. júní 2010, sem unnin var að beiðni stefndu í forsjármáli hennar gegn fyrrverandi eiginmanni sínum, vegna deilu þeirra um forsjá dóttur þeirra, E. Matsgerðin er unnin af Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingi. Í niðurstöðum persónuleikaprófs á stefndu kemur fram að stefnda hafi svarað heiðarlega og ekki reynt að fegra ímynd sína. Ekki kemur fram að hún sé haldin alvarlegum geðrænum sjúkdómum. Hins vegar kemur fram að hún upplifi tilfinningalegt álag sem einkennist af óánægju og eftirsjá. Þessi líðan sé oft til komin vegna utanaðkomandi vandamála. Hún verði fljótt reið, en jafni sig skjótt. Henni finnist hún ekki hafa stýrt lífi sínu á réttan máta og sjái eftir mörgu. Hún sé sjálfsgagnrýnin og viðkvæm fyrir skoðunum annarra. Hana skorti sjálftraust og sé tortryggin gagnvart fyrirætlunum annarra. Hún sé nokkuð innhverf og hafi tilhneigingu til að einangra sig. Hún sé einmana jafnvel þó hún sé innan um annað fólk. Henni sé umhugað um eigin heilsu og skýri frá nokkrum líkamlegum einkennum og verkjum. Hún vakni sjaldnast úthvíld. Hún þreytist auðveldlega og finni fyrir þreytu stóran hluta dagsins. Hún búi yfir góðum sjálfsstyrk og nægilegum úrræðum til að takast á við vandamál daglegs lífs. Hækkun sé á nokkrum af klínisku kvörðunum. Það komi fram að hún sé upptekin af líkamseinkennum og megi vera að hún noti kvartanir um líkamlega krankleika til að hafa áhrif á og stjórna öðrum. Hún sé sjálfmiðuð og krefjist athygli frá öðrum. Hún sé kröfuhörð á stuðning og umhyggju annarra og geri það ef til vill á óbeinan hátt. Fólk með prófmynd eins og þessa sé oft í uppreisn, hugsanlega gagnvart einhverjum í fjölskyldu þess eða yfirvaldi. Hún sé hvatvís og geti sýnt slaka dómgreind.
Niðurstaða matsins er sú að stefnda sé vel hæft foreldri þegar hún er ekki í vímuefnaneyslu. Hún hafi ekki alltaf getað skapað dóttur sinni góðar uppeldisaðstæður vegna áfengisneyslu og óstöðugleika. Hún hafi brotist út úr vítahring neyslu og sýnt staðfestu í að ná jafnvægi, sem krefjist mikils sjálfstyrks. Hún hafi ákveðnar og skynsamlegar skoðanir í uppeldismálum. Ragna gaf skýrslu fyrir dóminum og greindi frá því að hún hafi talið stefndu hæfa til að fara með forsjá dóttur sinnar. Hún hafi talið hana hafa verið án vímuefna í þrjú ár. Hún kvaðst ekki hafa vitað um misnotkun verkjalyfja á þeim tíma sem matsgerðin hafi verið unnin.
Dómurinn telur að stefnda hafi ekki gefið matsmanni raunsanna mynd af stöðu sinni. Samkvæmt gögnum málsins og framburði stefndu fyrir dómi bjó B, dóttir stefndu, að mestu leyti hjá föðurforeldrum sínum á þeim tíma sem matið átti sér stað, vegna fæðingarþunglyndis og annarra veikinda stefndu, en hún treysti sér ekki til að sjá um hana á þessum tíma. Þá kemur fram í gögnum frá Landspítala að 8. apríl 2010 leitaði stefnda á bráðamóttöku geðsviðs vegna þunglyndis, kvíða og misnotkunar á verkjalyfjum. Hún kvaðst þar hafa farið að misnota verkjalyf í kjölfar aðgerðar í febrúar það ár. Stefndu var vísað í undirbúningshóp á Teigi og einstaklingsviðtöl við sálfræðing. Fram kemur að hún hafi einungis mætt þrisvar í hópinn og illa í einstaklingsviðtöl. Göngudeildarþjónusta hafi ekki verið talin henta henni. Þann 20. maí hafi henni verið boðin innlögn á deild 33A til afeitrunar. Hún hafi þegið hana, en ekki mætt og ekki látið heyra frá sér. Þá er lýsing sú á heimilisaðstæðum stefndu og sambýlismanni sem kemur fram í matsgerðinni allt önnur en hefur nú komið fram í gögnum málsins og með framburði stefndu. Þykir dóminum að túlka verði niðurstöður matsgerðarinnar í þessu ljósi.
Eygló Guðmundsdóttir sálfræðingur greindi frá því að stefnda hefði verið til meðferðar hjá henni í um það bil tvö til þrjú ár, með hléum. Hún hafi síðast verið hjá henni í lok árs 2009. Hún taldi ekkert hafa komið fram annað en að stefnda væri mjög hæf móðir. Hún taldi stefndu hafa verið án fíkniefna mest allan tímann í meðferðinni. Hún sagði stefndu vera mjög greinda konu, en hún hefði þjáðst af miklum félagslegum kvíða og depurð.
Stefnda á að baki mjög langa sögu um áfengis- og fíkniefnaneyslu, en hún hóf neyslu ellefu ára að aldri. Neysla hennar hefur því staðið í um tvo áratugi, með nokkrum hléum. Af framburði stefndu og ráðgjafa á meðferðarheimilinu Krýsuvík verður ráðið að stefnda hafi náð nokkrum árangri í meðferð á síðustu vikum. Hins vegar þykir verða að líta til þess að um mjög stuttan tíma er að ræða. Stefnda hefur farið í fjölmargar meðferðir, án árangurs. Þann 10. ágúst 2011 fór hún til meðferðar að Krýsuvík, en útskrifaði sig sjálf 5. október. Í vottorði meðferðarfulltrúa í Krýsuvík kemur fram að stefnda hafi staðið sig ágætlega framan af, en hrakað eftir heimsókn í bæinn þar sem hún hafi hitt barnsföður sinn. Hún hefði þurft mun lengri tíma, en hún hafi verið orðin mjög veik, ekki síst andlega, eftir mikla neyslu og erfiða sambúð. Stefnda eigi langt í land og útilokað sé að hún nái bata nema með þéttri meðferð og mikilli aðstoð í framhaldi af henni.
Af gögnum málsins og framburði þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi, þykir sýnt að hæfni stefndu til þess að annast börn sín er mjög skert af völdum áfengis- og vímuefnaneyslu og andlegra erfiðleika. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum glímir stefnda auk fíknivanda við bipolar sjúkdóm, persónuleikaröskun og blandna kvíða- og geðlægðarröskun. Ljóst er að stefnda á mjög langt í land með að ná tökum á lífi sínu á þann hátt að hún verði fær um uppeldi tveggja ungra barna. Má telja ótvírætt að hún verði enn um sinn í nokkurri hættu á að falla aftur í neyslu áfengis eða fíkniefna.
Stefnda er öryrki og á við bæði líkamlega og andlega kvilla að stríða, svo sem fram hefur komið. Hún er heimilislaus og hefur takmarkað stuðningsnet. Foreldrar stefndu, sem hafa verið hennar helstu stuðningsaðilar, óskuðu þess í upphafi ársins að börnunum A og B yrði fundið varanlegt fósturheimili, þar sem þau hefðu gefið upp von til þess að stefnda yrði edrú og gæti tekið við börnunum á ný. Faðir barnanna, F, hefur beitt stefndu ofbeldi og er í neyslu fíkniefna. Stefnda segir að sambandi þeirra hafi lokið í byrjun júní sl. er hann hafi beitt hana ofbeldi og þurft hafi að kalla til lögreglu og hún hafi í framhaldinu farið í meðferð.
Börnin A og B eru tæplega þriggja og fjögurra ára. Þau eru nú vistuð á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Frá því stefnda féll á áfengisbindindi sínu í mars 2011 hitti stefnda þau þrisvar sinnum á heimili foreldra sinna, í júlí, nóvember og desember 2011. Samkvæmt upplýsingum frá móðurforeldrum var um að ræða stuttar heimsóknir stefndu og föður barnanna, þar sem þau voru undir áhrifum. Stefnda fór einnig eina helgi um sumarið 2011 með foreldrum sínum og börnunum í sumarbústað. Samkvæmt móður hennar var hún orkulítil og réði illa við börnin og heimilisstörf, en lék við börnin og þau voru ánægð að sjá hvert annað. Þá fór umgengni fram í ágúst og september sl. Fram hefur komið að sú umgengni hafi gengið vel, en börnin hafi leitað talsvert til fósturforeldra sinna sem hafi verið á staðnum. Stefnda bar fyrir dóminum að B hafi lítið munað eftir sér. Ljóst er að stefnda hefur lítið komið að umönnun barnanna frá fæðingu þeirra. Í um eitt ár dvöldu þau hjá föðurforeldrum og síðar hjá móðurforeldrum sínum. Á þessu tímabili hefur stefnda lítið sinnt umgengni við börnin. Umgengni hefur verið sjaldan og stutt og stefnda stundum verið undir áhrifum vímuefna. Börnin eru fjarlæg stefndu og þó að formlegt mat á tengslum stefndu við börn sín eða forsjárhæfni hennar liggi ekki fyrir telur dómurinn engu að síður að þau gögn sem liggi fyrir í málinu upplýsi það nægjanlega. Dómurinn telur að frumgeðtengsl á milli barnanna og stefndu hafi því ekki myndast eins og nauðsynlegt er fyrir geðheilsu þeirra.
Guðrún Oddsdóttir sálfræðingur framkvæmdi mat á tengslum barnanna við fósturforeldra sína, G og I. Guðrún kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir matinu. Hún greindi frá því að aðlögun barnanna að nýju fósturheimili hefði gengið mjög vel, þrátt fyrir að um þriðja heimili þeirra á stuttum tíma væri að ræða. Hún kvaðst telja að það yrði börnunum mjög erfitt og skaðlegt að þurfa aftur að skipta um heimili.
Stefnda heldur því fram að hún hafi einungis fengið eitt tækifæri til þess að fara í meðferð. Ekki hafi verið gætt meðalhófs, en beita hefði átt vægari úrræðum og gefa henni tækifæri til að ljúka árinu sem hún hafi samþykkt vistun barnanna utan heimilis. Dómurinn telur að ekki verði annað séð af gögnum málsins en að stefnda hafi í reynd fengið fleiri en eitt tækifæri og allt hafi verið gert til að aðstoða hana og gera henni kleift að gegna uppeldishlutverki sínu. Eftir að hún útskrifaði sig úr meðferð í Krýsuvík í október 2011 og féll á áfengis- og vímuefnabindindi sínu fór hún aftur í meðferð í desember 2011 án árangurs. Þá var hún nokkrum sinnum á biðlista eftir meðferð fyrri hluta þessa árs en féll út af listanum. Bókað var í meðferðaráætlun sem stefnda undirritaði 25. ágúst 2011 að endurmeta skyldi áætlunina eftir þrjá mánuði eða fyrr ef þurfa þætti. Á fundi barnaverndarnefndar þar sem áætlunin var samþykkt kom fram að gangi áætlanir ekki eftir skyldi málið lagt fyrir með framtíðardvalarstað barnanna í huga. Að ósk foreldra stefndu var börnunum fundið annað heimili í mars sl. og mál um forsjársviptingu höfðað í apríl. Þá hefur stefnda undirritað fjölmargar meðferðaráætlanir samkvæmt 23. gr. laga nr. 80/2002, sem hafa falið í sér margháttaðan stuðning við stefndu og eftirlit. Þau úrræði sem reynd hafa verið hafa ekki borið árangur.
Í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um réttindi barna og skyldur foreldra. Þar segir að börn eigi rétt á vernd og umönnun. Þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum beri að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við þau svo sem best henti hag og þörfum þeirra. Þeim beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við.
Af því sem að framan er rakið og gögnum málsins þykir sýnt að stefnda geti ekki, vegna framangreinda erfiðleika sinna, farið með forsjá barna sinna, A og B, og sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart þeim. Of áhættusamt og óvarlegt sé að fela stefndu forsjá barnanna. Brýna nauðsyn beri til þess að skapa börnunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þau þurfa á að halda og eiga rétt á lögum samkvæmt. Mikilvægt þykir að systkinin geti alist upp saman þar sem þau eru á líkum aldri og geta því myndað með sér djúp systkinatengsl sem þau geta búið að í lífinu. Þá þykir ljóst að reynd hafi verið öll þau stuðningsúrræði sem krefjast verður að séu reynd áður en gripið er til þess að svipta foreldri forsjá barna sinna og að önnur úrræði séu ekki tæk í málinu. Verður að telja að hagsmunir og þarfir barnanna krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá þeirra. Þykja skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vera fyrir hendi í málinu og verður krafa stefnanda um forsjársviptingu tekin til greina.
Stefnandi gerir ekki kröfu um málskostnað. Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu. Stefndu var veitt gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 1. júní sl.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 947.035 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tilliti til virðisaukaskatts.
Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Guðfinnu Eydal og Helga Viborg sálfræðingum.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, K, er svipt forsjá barna sinna, A og B.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu sem er þóknun lögmanns hennar, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 947.035 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.