Hæstiréttur íslands
Mál nr. 437/2008
Lykilorð
- Vörumerki
|
|
Miðvikudaginn 6. maí 2009. |
|
Nr. 437/2008. |
Flugstoðir ohf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) gegn Hilmari Friðriki Foss (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Vörumerki.
F ohf. krafðist ógildingar á vörumerkjaskráningunni ICEAVIA í eigu H í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu. Taldi F ohf. að H hafi ekki notað vörumerkið hér á landi í að minnsta kosti fimm ár með þeim hætti sem þurfi til að geta viðhaldið skráningu þess, sbr. 25. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að lagaákvæðið hefði fyrst komið inn í íslensk lög í tengslum við lagafrumvarp um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Hafi breyting verið gerð til samræmis þeim breytingum sem leiði af 65. gr. EES-samningsins og XVII. viðauka, þar sem vitnað sé í tilskipun nr. 89/104/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkja EB um vörumerki. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli meginmál EES-samningsins hafa lagagildi hér á landi. Við úrlausn málsins verði að öðru leyti litið til 3. gr. sömu laga, en samkvæmt henni skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Talið var að F ohf. gæti verið aðili að málinu, sbr. 1. mgr. 29. gr. vörumerkjalaga. Þá var talið að notkun vörumerkis þyrfti að hafa verið raunveruleg, en ekki til málamynda, og tengjast þeirri vöru eða þjónustu sem tiltekin væri í skráningu, sem í tilviki H væri flutningar, pökkun og geymsla vöru og ferðaþjónusta. H hafi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi notað vörumerki sitt með þeim hætti sem áskilið sé. Fram hafi komið að ekkert félag sé til sem heiti Iceavia. Eins og málið liggi fyrir verði helst ráðið að H hafi notað orðið sem nokkurs konar firmaheiti yfir persónulega starfsemi sína sem ráðgjafi um flugmál. Hvorki hafi verið í ljós leitt að H hafi markaðssett starfsemi sem lúti að flutningum, pökkun og geymslu vöru eða ferðaþjónustu með auglýsingum eða annarri kynningu á vörumerki sínu né notað það í raun hér á landi í tengslum við slíka starfsemi. Var krafa F ohf. um ógildingu skráningar á vörumerki H því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2008. Hann krefst þess að vörumerkjaskráning stefnda nr. 110/1992 ICEAVIA í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Lög nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands tóku gildi 30. júní 2006. Í 5. gr. þeirra kemur meðal annars fram að tilgangur félagsins skuli vera að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þar með talið flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, flugvalla og aðra skylda starfsemi. Á grundvelli heimildar í 1. gr. laganna til að stofna slíkt hlutafélag var áfrýjanda komið á fót og tók félagið til starfa 1. janúar 2007.
Í málatilbúnaði áfrýjanda kemur fram að vegna alþjóðlegs eðlis starfsemi hans og samskipta við önnur lönd sé nauðsynlegt að nota erlent aukaheiti fyrir hið íslenska nafn hans. Auðkennið ICEAVIA hafi verið talið heppilegt vegna starfsemi áfrýjanda, en það sé jafnframt í samræmi við auðkenni flugmálastjórna annars staðar á Norðurlöndum. Til að tryggja þessu auðkenni fullnægjandi vernd hafi verið sótt um skráningu þess hjá Einkaleyfastofu 19. september 2006. Umsókn áfrýjanda um skráningu vörumerkis ber með sér að sótt hafi verið um skráningu í flokki nr. 39, meðal annars fyrir flugumferðarþjónustu og flugleiðsöguþjónustu, sbr. 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Í svari Einkaleyfastofu 15. desember 2006 segir meðal annars að í vörumerkjaskrá sé þegar skráð vörumerkið ICEAVIA í eigu stefnda fyrir þjónustu í flokki nr. 39. Telja verði að hætta geti skapast á ruglingi, enda sé í báðum tilvikum ætlað að auðkenna þjónustu sem heyri undir sama flokk. Umsókn áfrýjanda var því synjað að svo stöddu.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á 25. gr. laga nr. 45/1997, en samkvæmt 1. mgr. hennar má ógilda skráningu vörumerkis með dómi, sbr. 28. gr., hafi eigandi þess ekki innan fimm ára frá skráningardegi notað vörumerkið hér á landi fyrir þær vörur eða þjónustu sem það er skráð fyrir eða hafi slík notkun ekki átt sér stað í fimm ár samfellt nema gildar ástæður séu fyrir því að af notkun á vörumerkinu hafi ekki orðið. Áfrýjandi kveður stefnda ekki hafa notað vörumerkið hér á landi í að minnsta kosti fimm ár með þeim hætti sem þurfi til að geta viðhaldið skráningu þess. Stefndi heldur hins vegar fram að hann hafi notað merkið í starfsemi sinni. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.
Fram er komið að upphafleg vörumerkjaskráning stefnda tók gildi á árinu 1992 og var hún endurnýjuð 2002 til tíu ára. Skráning merkisins er í flokki nr. 39 og tekur hún til starfsemi, sem felst í flutningum, pökkun og geymslu vöru og ferðaþjónustu.
II
Áðurnefnd 25. gr. laga nr. 45/1997 var fyrst leidd í lög með 12. gr. laga nr. 67/1993, en með þeim var meðal annars breytt ýmsum ákvæðum þágildandi laga nr. 47/1968 um vörumerki. Varð ákvæðið að 25. gr. a. í síðastnefndu lögunum. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 67/1993, kemur meðal annars fram að það sé lagt fram í tengslum við lagafrumvarp um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, en samningur um það hafi verið undirritaður í Portúgal 2. maí 1993. Tillögur í frumvarpinu um breytingar á löggjöf um vörumerki séu til samræmis þeim breytingum, sem leiði af 65. gr. EES samningsins og XVII. viðauka, þar sem vitnað sé í tilskipun nr. 89/104/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkja EB um vörumerki. Breytingar samkvæmt frumvarpinu takmarkist þó við þau atriði sem beinlínis gætu torvelda frjálsa flutninga vöru og þjónustu milli aðildarríkja EES. Varðandi sérstaklega þá grein frumvarpsins, sem áður var getið og fleiri greinar, var vikið að þeirri breytingu að framvegis yrði skylt að nota skráð vörumerki, en slík skylda væri ekki fyrir hendi samkvæmt þágildandi lögum. Jafnframt kom fram að notkun vörumerkis verði að tengjast raunverulegri markaðssetningu vöru eða þjónustu.
Í 10. gr. áðurnefndrar tilskipunar nr. 89/104/EBE er fjallað um notkun vörumerkja. Samkvæmt 1. tölulið hennar er heimilt að beita viðurlögum samkvæmt henni hafi rétthafi vörumerkis ekki notað það til að auðkenna hlutaðeigandi vöru eða þjónustu í raun innan fimm ára frá skráningu eða hafi notkun fallið niður í fimm ár samfellt nema góð og gild rök séu fyrir því að merkið hafi ekki verið notað.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal meginmál EES samningsins hafa lagagildi hér á landi. Við úrlausn málsins verður að öðru leyti litið til 3. gr. sömu laga, en samkvæmt henni skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES samninginn og þær reglur, sem á honum byggja.
III
Stefndi reisir sýknukröfu sína meðal annars á því að áfrýjandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu að sá fyrrnefndi hafi ekki notað skráð vörumerki sitt, ICEAVIA. Hann hefur jafnframt lýst yfir að það sé andstætt viðskiptahagsmunum sínum að greina áfrýjanda frá starfsemi sinni og samningum við viðskiptamenn á starfsviði sínu. Í því fælist trúnaðarbrot gagnvart þeim og gæti spillt fyrir frekari viðskiptum. Við skýrslugjöf fyrir dómi ítrekaði hann sérstaklega þá afstöðu að vilja ekki greina áfrýjanda frá viðskiptahagsmunum sínum. Þrátt fyrir þetta hefur stefndi skýrt frá nokkrum atriðum í starfsemi sinni, sem hann telur sanna að hann hafi notað vörumerkið. Þannig hefur hann lagt fram nafnspjald sitt, þar sem undir nafni hans stendur „Aviation Consultant“ og orðið „IceAvia“ efst í horni vinstra megin. Í annan stað er yfirlýsing rússnesks félags með aðsetur í Moskvu 21. nóvember 2007 um að það hafi undirritað samning um einkaráðfærslu við Iceavia, íslenskt félag með aðalstarfstöð í Reykjavík, og gildi hann í tvö ár. Þá hefur stefndi lagt fram umslög, sem stafa frá útgefendum erlendra tímarita um flugmál, þar sem orðið Iceavia kemur fyrir undir nafni stefnda sjálfs. Ennfremur ber stefndi að hann hafi notað vörumerki sitt í sambandi við undirbúning að stofnun flugfélagsins Iceland Express hf. Loks hefur hann greint frá því að hann hafi notað vörumerkið við öflun upplýsinga í tengslum við rannsókn flugslyss, sem varð árið 2000, sem tvö vitni hafa staðfest. Stefndi hefur einnig lagt fyrir Hæstarétt tvö ný skjöl, sem lúta að notkun hans á vörumerkinu. Annars vegar er um að ræða staðfestingu frá erlendum gagnabanka um að nafn Iceavia hf. sé þar að finna og hins vegar yfirlýsing fyrrum sendiherra Íslands í Kína um að hann hafi veitt stefnda og félagi hans Iceavia ráðgjöf og upplýsingar og aðra aðstoð vegna áforma um flugrekstur Iceavia til Kína og fleiri landa, en auk þess hafi hann 2006 og 2007 liðsinnt stefnda með svipuðum hætti vegna áforma Iceavia um flug til og frá Íslandi og þau áform séu enn á döfinni.
IV
Auk þeirra málsástæðna, sem að framan var getið, styður stefndi sýknukröfu sína við það að áfrýjandi geti ekki átt aðild að málinu og að hann eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 28. og 29. gr. laga nr. 45/1997. Með vísan til rökstuðnings í hinum áfrýjaða dómi um þessi atriði er varnarástæðum stefnda sem að þeim lúta hafnað.
Réttur samkvæmt skráðu vörumerki veitir rétthafa skilyrta vernd, sem meðal annars er háð því að merkið sé notað hér á landi. Notkun þess við markaðssetningu þarf að hafa verið raunveruleg en ekki aðeins til málamynda og tengjast þeirri vöru eða þjónustu, sem tiltekin er í skráningu, og er í tilviki vörumerkis stefnda flutningar, pökkun og geymsla vöru og ferðaþjónusta. Stefndi hefur sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi notað vörumerki sitt með þeim hætti sem áskilið er og að þar með séu uppfyllt skilyrði fyrir vernd merkisins í samræmi við skráningu þess. Hann verður því sjálfur að bera halla af skorti á sönnun, sem kann að leiða af þeirri afstöðu hans að telja notkun merkisins háða viðskiptaleynd gagnvart áfrýjanda eða öðrum.
Fram er komið að ekkert félag er til, sem ber nafnið Iceavia. Áður var getið um nafnspjald stefnda, en eins og málið liggur fyrir verður helst ráðið að hann hafi notað orðið Iceavia sem nokkurs konar firmaheiti yfir persónulega starfsemi sína sem ráðgjafi um flugmál. Með þeim hætti verður að skilja að minnsta kosti sumar þeirra yfirlýsinga sem stefndi hefur lagt fram til stuðnings staðhæfingu um notkun vörumerkisins. Slík notkun skiptir ekki máli í því samhengi, sem hér reynir á, en að öðru leyti hefur stefndi ekki skýrt nánar hvernig vörumerki hans hafi verið notað við undirbúning stofnunar á flugfélagi, rannsókn flugslyss eða við ráðagerðir um flugrekstur. Hvorki er í ljós leitt að stefndi hafi markaðssett starfsemi, sem lýtur að flutningum, pökkun og geymslu vöru eða ferðaþjónustu með auglýsingum eða annarri kynningu á vörumerki sínu né notað það í raun hér á landi í tengslum við slíka starfsemi.
Samkvæmt öllu framanröktu verður tekin til greina krafa áfrýjanda um að skráning á vörumerki stefnda skuli ógilt. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Vörumerkjaskráning stefnda, Hilmars Friðriks Foss, nr. 110/1992 ICEAVIA í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu er ógilt.
Stefndi greiði áfrýjanda, Flugstoðum ohf., samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 25. apríl sl., er höfðað með stefnu, sem birt var stefnda 22. júní 2007.
Stefnandi er Flugstoðir ohf., Reykjavíkurflugvelli, en stefndi er Hilmar Friðrik Foss, Garðastræti 34, einnig í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að vörumerkjaskráning stefnda nr. 110/1992 ICEAVIA í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, að mati dómsins.
Málsatvik
Í stefnu er frá því greint að með lögum nr. 102/2006 hafi ríkisstjórninni verið heimilað að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands. Á grundvelli þeirrar heimildar stofnaði samgönguráðuneytið stefnanda, Flugstoðir ohf., sem tók til starfa 1. janúar 2007. Hlutverk stefnanda er að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, rekstur og uppbyggingu flugvalla og aðra skylda starfsemi, sbr. 5. gr. laganna. Vegna alþjóðlegs eðlis starfsemi stefnanda telur stefnandi nauðsynlegt að nota erlent aukaheiti, enda geti íslenskan oft reynst erfið í samskiptum við erlenda aðila. Tekin hafi verið ákvörðun um að nota auðkennið ICEAVIA, en það hafi verið talið heppilegt vegna þeirrar þjónustu sem stefnandi inni af hendi og um leið í samræmi við auðkenni flugmálastjórna á hinum Norðurlöndunum. Til þess að tryggja auðkenni þessu fullnægjandi vernd hafi verið sótt um skráningu þess hjá Einkaleyfastofu (flokkur 39 flugumferðarþjónusta, flugleiðsöguþjónusta o.fl.) 19. september 2006. Með bréfi 15. desember 2006 hafi Einkaleyfastofa tilkynnt stefnanda að umsókn hans hafi verið synjað um skráningu sökum ruglingshættu við vörumerkjaskráningu stefnda, nr. 110/1992.
Fram kemur í gögnum málsins að upphafleg vörumerkjaskráning stefnda hafi tekið gildi 23. janúar 1992 og verið endurnýjuð 23. ágúst 2002. Þá liggur fyrir að stefnandi hefur bréflega farið þess á leit við stefnda að hann framselji vörumerkjaskráningu sína gegn hæfilegri greiðslu, en stefndi hefur hafnað því boði. Meðal gagna málsins er einnig kynningarefni af heimasíðu stefnanda, Flugstoða ohf., bæði á íslensku og ensku. Nafn stefnanda er þar ritað á ensku undir auðkenninu ISAVIA.
Stefnandi telur nauðsynlegt að höfða mál þetta til ógildingar á vörumerkjaskráningu stefnda, í því skyni að hann geti skráð vörumerkið ICEAVIA í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu, enda sé vörumerkinu ætlað að auðkenna svipaða þjónustu og vörumerki stefnda sé nú skráð fyrir.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um ógildingu á vörumerkjaskráningu stefnda á skýrum og ótvíræðum ákvæðum laga, þar sem fyrir liggi að vörumerkið ICEAVIA hafi ekki verið notað hér á landi í að minnsta kosti fimm ár, frá 1. janúar 2002 til 1. janúar 2007. Vísar stefnandi til 1. mgr. 25. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997, þar sem segi að ef eigandi að skráðu vörumerki hafi ekki notað vörumerkið hér á landi fyrir þær vörur eða þjónustu sem það er skráð fyrir í fimm ár samfellt, megi ógilda skráninguna með dómi. Í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi því sem varð að lögum þessum komi fram að notkun vörumerkis verði að tengjast raunverulegri markaðssetningu vöru eða þjónustu, og sé það í samræmi við orðalag tilskipunar Evrópusambandsins nr. 89/104, þar sem talað sé um „genuine“ not, en við skýringu ákvæðisins þurfi, af ástæðum sem raktar eru í stefnu, að taka tillit til sjónarmiða í Evrópurétti. Sem dæmi nefnir stefnandi að ekki nægi að endurskrá vörumerki sem ekki sé notað á fimm ára fresti. Þannig telji fræðimenn að raunveruleg viðskipti tengd vörumerkinu þurfi að hafa farið fram svo að það teljist hafa verið notað, og að málamyndanotkun þess nægi ekki. Því sé ljóst að hugtakið notkun í 25. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 verði að skýra þröngt og sé það í samræmi við álit fræðimanna.
Stefnandi kveður engin gögn hafa fundist um notkun stefnda á vörumerkinu, en bendir jafnframt á að stefndi eigi mun auðveldara með að leggja fram sönnur á notkun sína, sé hún einhver. Mótmælir hann þeim skjölum sem stefndi hefur lagt fram og telur þau ekki sýna að vörumerkið hafi verið notað í þeim skilningi sem vörumerkjalög áskilji. Hafi stefnda heldur ekki tekist að sanna markaðssetningu vörumerkisins til þess að unnt sé að staðfesta notkun þess. Þvert á móti telur stefnandi að fyrir liggi að vörumerkið ICEAVIA hafi ekki verið notað sl. fimm ár og sé skilyrðum fyrir ógildingu skráningar því fullnægt.
Stefnandi vísar einnig til þess að í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1997 komi þó fram að ekki megi ógilda skráningu með dómi, ef gildar ástæður séu fyrir því að notkun á vörumerkinu hafi ekki átt sér stað. Í athugasemdum um grein þessa í greinargerð með frumvarpi til laganna komi fram að erfitt sé að segja nákvæmlega fyrir um hvað séu gild rök, en sem dæmi um atvik sem ekki teldust gild rök séu nefndar brostnar forsendur, svo sem fjárskortur, skortur á starfsfólki og erfiðleikar við öflun hráefnis eða markaðssetningu. Þó mætti gera undantekningu ef erfiðleikar þessir væru til komnir vegna aðstæðna sem eigandi fengi ekki ráðið við. Af þessu megi draga þá ályktun að mikið þurfi að koma til svo réttlæta megi notkunarleysi vörumerkis.
Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að í greinargerð með lögum nr. 45/1997 komi fram að hver sá sem hagsmuna hafi að gæta, geti höfðað mál gegn eiganda vörumerkis í því skyni að frá skráninguna fellda úr gildi vegna notkunarleysis. Þar sem Einkaleyfastofa hafi synjað stefnanda um skráningu vörumerkisins ICEAVIA telur hann ljóst að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að krefjast þess að vörumerkjaskráning stefnda verði ógilt. Bendir hann sérstaklega á að grundvöllur þess að vörumerki verði skráð alþjóðlegri skráningu sé að það hafi fyrst verið skráð landsbundinni skráningu, í þessu tilfelli í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu. Stefnanda sé því ókleift að tryggja framtíðarhagsmuni sína og vernd vörumerkisins, nema að fenginni ógildingu á vörumerkjaskráningu stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða vörumerkjalaga nr. 45/1997, sérstaklega 1. og 3. mgr. 25. gr., sbr. 1. tl. 2. mgr. 28. gr. og 29. gr. sömu laga, svo og til grundvallarreglna í hugverkarétti. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda og lagarök
Krafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi á því reist að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 sé Einkaleyfastofa réttur sóknaraðili í málum er m.a. varði 25. gr. laganna, en stefnandi reisi kröfur sínar eingöngu á ákvæði þeirrar lagagreinar. Því beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Að öðru leyti kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína á því að með öllu sé ósönnuð sú staðhæfing stefnanda að stefndi hafi ekki notað vörumerki sitt. Þvert á móti fullyrðir stefndi að hann hafi stöðugt notað vörumerkið frá 1992. Það hafi síðan verið endurnýjað á árinu 2002 og hafi Einkaleyfastofa hvorki fyrr né síðar gert athugasemdir við notkun stefnda á vörumerkinu. Starfsemi stefnda hafi bæði verið hér á landi og erlendis, og hafi hann í þeirri starfsemi notað vörumerkið. Heldur stefndi því fram að forsvarsmönnum stefnanda sé fullkunnugt um notkun stefnda á vörumerkinu, m.a. í sambandi við undirbúning stefnda að stofnun flugfélagsins Iceland Express.
Að dómi stefnda hvílir sönnunarbyrðin á stefnanda um þá staðhæfingu að stefndi hafi ekki notað vörumerki sitt síðastliðin fimm ár. Telur hann það andstætt viðskiptahagsmunum sínum að upplýsa stefnanda frekar um starfsemi sína og samninga við viðskiptaaðila á því sviði sem stefndi starfi. Þá bendir stefndi á að ekki verði séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að vörumerkið verði ógilt með dómi, enda hafi stefnandi þegar upplýst að hann hefði í hyggju að nota vörumerkið í alþjóðlegum samskiptum, en ekki hér á landi.
Við munnlegan flutning málsins reifaði stefndi þá málsástæðu að vörumerkið væri stjórnarskrárvarin eign stefnda, sem ekki yrði tekin af honum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem stjórnarskráin mælti fyrir um.
Auk þeirra ákvæða, sem stefndi vísar til hér að framan, kveðst hann einnig vísa til grundvallarreglna vörumerkjaréttar og hugverkaréttar. Krafa hans um málskostnað byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa hans um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988.
Munnlegar skýrslur fyrir dómi
Stefndi, Hilmar Friðrik Foss, gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum, svo og vitnin Jón Ólafur Skarphéðinsson og Friðrik Þór Guðmundsson.
Í máli stefnda kom fram að starfsemi ICEAVIA væri flugstarfsemi, þjónusta og ráðgjöf. Hann kvað það rangt sem fram kæmi í stefnu að vörumerkið hafi ekki verið notað á undanförnum árum. Hins vegar ætti hann erfitt með að greina nákvæmlega frá því hvernig notkun merkisins hefði verið háttað og stæðu viðskiptahagsmunir því í vegi. Hann gæti þó bent á að vörumerkið væri að finna í erlendum uppflettiritum og í gögnum þessa máls væri að finna staðfestingu á samningi við erlendan aðila, þar sem vörumerkið hafi verið notað. Þá benti hann og á yfirlýsingu frá Friðriki Þór Guðmundssyni og Jóni Ólafi Skarphéðinssyni um aðkomu ICEAVIA að rannsókn á flugslysi í Skerjafirði í ágúst 2000, en báðir komu þeir fyrir dóminn og staðfestu þá yfirlýsingu. Tók Jón Ólafur fram að stefndi hefði aðstoðað þá við öflun margs konar upplýsinga, sem bæði lutu að umræddu flugslysi og flugvélinni sem fórst, og hefði hann átt í umfangsmiklum bréfaskrifum við fjölmarga aðila út um allan heim, sérstaklega þó í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í þeim samskiptum hafi stefndi gjarnan notað vörumerkið ICEAVIA.
Ekki þykir ástæða til að rekja frekar framburði fyrir dóminum.
Niðurstaða
Sýknukrafa stefnda er aðallega á því reist að stefnandi sé ekki réttur aðili að máli þessu. Því til stuðnings vísar hann til 2. mgr. 29. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997, þar sem fram kemur að Einkaleyfastofan sé réttur sóknaraðili í málum samkvæmt ákvæðum 13. gr., 1.-3. töluliðs 1. mgr. 14. gr., 25. gr. og 2. mgr. 28. gr. laganna.
Dómurinn getur ekki fallist á að skýra beri umrætt ákvæði þannig að aðeins Einkaleyfastofa geti verið sóknaraðili í þeim málum sem ákvæðið vísar til, enda væri með því girt fyrir að þeim sem hefðu lögmætra hagsmuna að gæta yrði kleift að höfða mál gegn eiganda vörumerkis, m.a. í því skyni að skráning þess yrði felld niður. Stríðir slík túlkun ekki einasta gegn ótvíræðu orðalagi 1. mgr. 29. gr. umræddra laga, heldur einnig gegn þeirri grundvallarreglu 70. gr. stjórnarskrár að öllum sé tryggður réttur til þess að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstólum. Verður því ekki fallist á sýknukröfu stefnda vegna aðildarskorts.
Fram er komið að lögboðið hlutverk stefnanda sé m.a. að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, ásamt rekstri og uppbyggingu flugvalla. Vegna alþjóðlegs eðlis starfseminnar telur stefnandi að nauðsynlegt sé að nota erlent aukaheiti og hafi ákvörðun verið tekin um að nota auðkennið ICEAVIA. Einkaleyfastofa hafi hins vegar hafnað stefnanda um skráningu vörumerkisins af þeirri ástæðu að vörumerkinu væri ætlað að auðkenna svipaða þjónustu og vörumerki stefnda stæði fyrir. Fellst dómurinn á að stefnandi hafi af þessum sökum lögmæta hagsmuni af því að höfða mál þetta og gera þá kröfu sem fram er sett í stefnu.
Í 1. mgr. 25. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 kemur fram að hafi eigandi að skráðu vörumerki ekki innan fimm ára frá skráningardegi notað vörumerkið hér á landi fyrir þær vörur eða þjónustu sem það er skráð fyrir, eða hafi slík notkun ekki átt sér stað í fimm ár samfellt, megi ógilda skráninguna með dómi, nema gildar ástæður séu fyrir því að notkun á vörumerkinu hafi ekki átt sér stað. Tilgangur ákvæðisins er að koma í veg fyrir að skráður rétthafi að vörumerki, sem ekki notar það í tengslum við raunverulega markaðssetningu vöru eða þjónustu, geti án takmörkunar haldið þeim rétti sínum. Í 5. gr. sömu laga eru í dæmaskyni nefnd nokkur tilvik um notkun vörumerkis. Segir þar að m.a. sé átt við að vara eða þjónusta, sem auðkennd er með merki, sé boðin til sölu, markaðssett eða markaðssetning undirbúin, þannig auðkennd vara eða þjónusta sé flutt inn eða út, eða að merki sé notað í auglýsingum, bréfhausum eða á annan sambærilegan hátt.
Þótt fallast megi á það með stefnda að vörumerki teljist til eignarréttinda og njóti þannig verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, getur almenni löggjafinn engu að síður sett þeim réttindum skorður, m.a. um stofnun slíkra réttinda, viðhald þeirra og afnám, svo sem gert er í lögum um vörumerki nr. 45/1997.
Stefndi hefur verið ófús að upplýsa um notkun vörumerkis síns og borið við viðskiptahagsmunum. Stendur það þó honum nær að tryggja sér sönnur fyrir notkun á vörumerkinu en stefnanda að sýna fram á hið gagnstæða. Þrátt fyrir það hafa nokkur gögn verið lögð fram í málinu, sem stefndi telur að taki af tvímæli um að hann hafi notað vörumerkið ICEAVIA á undanförnum árum. Þessi gögn eru nafnspjald stefnda á ensku, þar sem vörumerkið er skráð á spjaldið, þrjú umslög, merkt stefnda og vörumerkinu sem móttakanda, og höfðu að geyma erlend fagtímarit um flugrekstur, staðfesting frá National Aerospace Consulting Ltd. í Moskvu um að í gildi sé ráðgjafarsamningur milli ICEAVIA og hins rússneska félags og loks áðurnefnd yfirlýsing um aðkomu stefnda og ICEAVIA að rannsókn er fram fór í kjölfar flugslyss í Skerjafirði 7. ágúst 2000. Í ljósi þeirra gagna, svo og framburðar vitna fyrir dóminum, þykir mega fallast á það með stefnda að hann hafi á undanförnum fimm árum notað vörumerkið á þann hátt sem áskilið er í vörumerkjalögum nr. 45/1997. Því verður kröfu stefnanda um ógildingu á skráningu vörumerkisins hafnað.
Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst hæfilegur 400.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Hilmar Friðrik Foss, er sýkn af kröfum stefnanda, Flugstoða ohf.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.