Hæstiréttur íslands

Mál nr. 105/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 5

 

Mánudaginn 5. mars 2007.

Nr. 105/2007.

Þrotabú Óseyjar hf.

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Þrotabú Ó hf. krafðist þess að ýmsum ráðstöfunum K banka hf. í tengslum við viðskipti bankans við Ó hf. yrði rift og að bankinn greiddi þrotabúinu tilteknar fjárhæðir. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði að dómkröfur þessar kæmu fram á fleiri en einum stað í stefnu og með mismunandi framsetningu. Stangaðist það á við meginreglu réttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var talið að í stefnunni skorti almennt á að samhengi málsatvika og málsástæður kæmu fram með þeim hætti sem e. liður sama ákvæðis gerði ráð fyrir. Einstakir liðir kröfunnar þóttu ennfremur svo vanreifaðir eða grundvöllur þeirra svo óljós að nauðsynlegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Óseyjar hf., greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2007.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 24. febrúar 2006 og tekið til úrskurðar 16. janúar sl. Stefnandi er þrotabú Óseyjar hf., Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði. Stefndi er Kaupþing hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

             Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og stefnandi úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og honum úrskurðaður málskostnaður fyrir þennan þátt málsins.

I

Skipasmíðastöðin Ósey hf. var tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóm 28. apríl 2005 en hafði haft heimild til greiðslustöðvunar frá 9. mars 2005. Stefndi var viðskiptabanki Óseyjar hf. og hefur hann lýst kröfum í stefnanda að fjárhæð 659.269.604 krónur. Málið varðar ýmsar ráðstafanir, einkum lánaviðskipti, milli stefnda og dótturfélags stefnda, Viðja ehf., annars vegar og Óseyjar hf. hins vegar. Í stefnu, svo og greinargerð stefnda, eru einkum rakin skipti aðila vegna nýsmíði 36,5 m skips (auðkennd B-13) fyrir Stjörnan kf. í Færeyjum  samkvæmt samningi 8. mars 2003. Kemur fram að Ósey hf. gerði af þessu tilefni alls þrjá lánasamninga við stefnda (þá Búnaðarbanki Íslands hf.) og veitti stefndi félaginu framkvæmdaábyrgð vegna verksins að fjárhæð 40.000 milljónir. Stefndi fékk svo gagnábyrgð hjá Tryggingadeild útflutningsins/Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins fyrir sömu fjárhæð.

             Í júní og júlí 2004 lá fyrir að nýsmíði B-13 yrði ekki lokið nema til kæmi viðbótarfjármögnun en upphaflegur afhendingardagur skipsins hafði átt að vera 24. maí 2004. Samkvæmt stefnu gáfu fyrirsvarsmenn stefnda í skyn að stefndi myndi standa með Ósey hf. í þessum erfiðleikum, en leituðu jafnframt eftir viðbótar­greiðslu­tryggingum. Segir í stefnu að á þessum grundvelli hafi fyrirsvarsmenn Óseyjar hf. ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að verða við kröfum stefnda og undirritað þær viðbótargreiðslutryggingar sem farið var fram á, þar á meðal framsöl krafna og trygginga sem krafist sé riftunar á í málinu. Einnig hafi eigendur Óseyjar hf. lagt fram persónulegar ábyrgðir á skuldum félagsins. Samtals hafi stefndi fengið nýjar tryggingar og framsöl fyrir um 200 milljónir króna á tímabilinu 19. júlí til 6. september 2004. Í stefnu er svo greint frá því að í ágúst 2004 hafi undirverktökum og birgjum Óseyjar hf. verið tilkynnt að stefndi og dótturfélag stefnda, Viðjar ehf., myndu bera ábyrgð á kostnaði verksins auk þess sem fyrirsvarsmenn Óseyjar hf. hafi samþykkt að fulltrúi stefnda, Alfreð Túliníus, tæki við sem verkefnisstjóri með verkefninu.

             Af gögnum málsins verður ráðið að í september 2004 hafi hinn færeyski kaupandi skipsins hugleitt að grípa til vanefndaúrræða vegna dráttar á afhendingu þess en hann hafði áður fallist á að afhending drægist fram í ágúst 2004. Hinn 8. október 2004 barst stefnda símbréf frá lögmanni hins færeyska kaupanda þar sem gerð var krafa um greiðslu framangreindrrar ábyrgðar að fjárhæð 40 milljónir króna. Stefndi greiddi hinum færeyska kaupanda ábyrgðarfjárhæðina 19. sama mánaðar sem flutti hana yfir til Viðja ehf. sama dag í því skyni að félagið gæti lokið byggingu skipsins.

             Hinn 12. október 2004 var gerður samningur, þar sem áðurnefnt dótturfélag stefnda, Viðjar ehf., keyptu nýsmíðina B-13 og yfirtóku réttindi og skyldur Óseyjar hf. samkvæmt samningnum við hin færeyska kaupanda. Samkvæmt kaupsamningnum sem dagsettur er 12. október 2004 var kaupverðið 192.527.936 krónur og skyldi það greiðast með yfirtöku á skuldum Óseyjar hf. við stefnda að fjárhæð 192.434.000 krónur sem tryggðar væru með tryggingabréfi á 1. veðrétti skipsskrokksins. Viðjar ehf. skuldbundu sig til að ljúka smíði skipsins og afhenda hinum færeyska kaupanda. Í kaupsamningnum sagði eftirfarandi 3. mgr. 8. gr.:

Skal kaupandi nýta þá greiðslu kaupverðs til að greiða upp þær skuldir seljanda við Kaupþing Búnaðarbanka hf. sem tryggðar eru með veði í skipinu svo afhenda megi skipið fullbúið til hins færeyska kaupanda í samræmi við ákvæði samnings hans við seljanda.

 

Aftan á samninginn var eftirfarandi ritað:

Kaupþing Búnaðarbanki hf. samþykkir fyrir sitt leyti þá skuldskeytingu sem lýst er í framangreindum samningi og er forsenda greiðslu kaupverðs skv. samningnum. Jafnframt samþykkir bankinn fyrir sitt leyti, sem veðhafi, það framsal á greiðslu smíðaverðs skipsins sem felst í 8. gr. samnings þessa enda standi veðréttur bankans í hinum framseldu greiðslum óhaggaður eftir sem áður. Það er skilyrði og forsenda fyrir samþykki bankans að þessu leyti, að hinni framseldu greiðslu kaupverðs skipsins verði ráðstafað til að greiða upp hinar yfirteknu skuldir skv. framangreindu.

 

Aðilum ber saman um að Viðjar ehf. hafi lokið smíði skipsins og afhent það hinum færeyska kaupanda 18. nóvember 2004. Ekki er ágreiningur um að eftir 12. október 2004 verkið var unnið í aðstöðu Óseyjar hf. og af starfsmönnum félagsins undir stjórn Alfreðs Túliníusar. Samkvæmt stefnu voru ýmsir reikningar vegna verksins þó gefnir út á Ósey hf. Jafnramt virðist mega ráða af stefnu að ýmsar greiðslur vegna verksins, þar á meðal laun starfsmanna, hafi á þessum tíma verið skuldfærðar sem yfirdráttur á reikning Óseyjar hf. nr. 14399 hjá stefnda. Samkvæmt greinargerð stefndu munu þessar greiðslur hafa numið 23.858.060 krónum og er í því sambandi vísað til framlagðra reikningsyfirlita. Samkvæmt greinargerð stefndu greiddu Viðjar hf. beint 52.149.302 krónur. Vísar stefndi til framlagðra bókhaldsgagna félagsins í því sambandi. Þá mun reikningur Óseyjar hf. nr. 1259 hafa verið yfirdreginn um 56.905.524 krónur samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð stefnda.

             Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu var fyrirsvarsmönnum Óseyjar hf. lofað því af fyrirsvarsmönnum stefnda að Ósey hf. fengi uppgert andvirði skipsins eftir að fram hefði farið lokauppgjör. Því er lýst að 18. nóvember 2004 hafi umrætt uppgjör farið fram og Viðjar ehf. þá fengið greiddar 22.170.000 danskar krónur. Þetta uppgjör hafi hins vegar farið fram án samráðs við fyrirsvarsmenn Óseyjar hf.

II

             Í máli þessu gerir stefnandi orðrétt eftirfarandi kröfur:

Aðallega er þess krafist að rift verði með dómi veðsetningu vörureikninga, vörubirgða og þar til greindu lausafé skv. tryggingabréfi nr. 0358-63-2118 að fjárhæð kr. 50.000.000,-, dags. 31. ágúst 2004; að rift verði með dómi veðsetningu vörureikninga, vörubirgða og þar til greindu lausafé, skv. viðauka við tryggingabréf nr. 0322-63-577, að fjárhæð kr. 50.000.000,-, dags. 31. ágúst 2004; að rift verði með dómi viðauka við veðsetningu almennrar fjárkröfu, dags. 6. september 2004, um hækkun á fyrri veðsetningu vegna bankaábyrgðar Föröya Sparikassi í Þórshöfn, nr. 955.368.6 (tilv. Stefnda nr. 01RE303015); að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun er fólst í viðtöku stefnda á greiðslu kr. 4.809.424,- og/eða ráðstöfun hennar inn á tékkareikning nr. 0358-26-1259, dags. 31. desember 2004; og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 232.960.528,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 11.000.000,- frá 19. júlí 2004 til 6. ágúst s.á., en þá af kr. 19.800.500,- frá þeim degi til 24. september s.á., en þá af kr. 23.800.500,- frá þeim degi til 19. október s.á., en þá af kr. 29.800.000,- frá þeim degi til 18. nóvember 2004, en þá af kr. 140.800.500,- frá þeim degi til 16. desember s.á., en þá af kr. 147.867.913,- frá þeim degi til 19. janúar 2005, en þá af kr. 194.153.027,- frá þeim degi til 28. apríl s.á., en þá af kr. 232.960.528,- frá þeim degi til greiðsludags.

 

Til vara er þess krafist að rift verði þeirri ráðstöfun er fólst í viðtöku stefnda, eða aðila á hans vegum, á kaupverði nýsmíði B-13, frá K/F Stjörnan í Færeyjum að fjárhæð kr. 71.000.000,-; að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun stefnda að greiða ábyrgð nr. 0322-8884 án þess að fram færi uppgjör þeirrar greiðslu gagnvart kaupanda við afhendingu og lokauppgjör nýsmíði B-13, að fjárhæð kr. 40.000.000,-; að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun stefnda er fólst í stofnun bankareiknings nr. 0358-26-1259 í nafni og á kennitölu stefnanda og ráðstöfun greiðslna stefnda, eða aðila á hans vegum, á fjármunum út af þeim tékkareikningi; að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun er fólst í framsali deponeringar nr. GA 10747 í Landsbanka Íslands, dags. 19. júlí 2004, að fjárhæð kr. 11.000.000,-; að rift verði með dómi annarsvegar framsali viðskiptakröfu á hendur Sp.f. Kneysur í Færeyjum dags. 19. janúar 2005, og hinsvegar að rift verði veðsetningu þeirrar sömu kröfu dags. 6. ágúst 2004, bæði að fjárhæð kr. 46.285.114,-; að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun er fólst í samkomulagi stefnda við Þorgeir & Ellert hf. um greiðslu eftirstöðva spilbúnaðar frá Ósey hf., dags. 21. september 2004, upphaflega að fjárhæð kr. 12.107.989,-; að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun er fólst í framsali á þeim hluta kaupsamningsgreiðslu við K/F Stjörnan vegna nýsmíði B-13, beint frá kaupanda til stefnda, er fólst í framsali skipsins “Varðborg” (sk.skrnr. FD-1178) að fjárhæð kr. 8.800.500,-; og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 228.151.104,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 11.000.000,- frá 19. júlí 2004 til 6. ágúst s.á., en þá af kr. 19.800.500,- frá þeim degi til 24. september s.á., en þá af kr. 23.800.500,- frá þeim degi til 19. október s.á., en þá af kr. 29.800.000,- frá þeim degi til 18. nóvember 2004, en þá af kr. 140.800.500,- frá þeim degi til 16. desember s.á., en þá af kr. 143.058.489,- frá þeim degi til 19. janúar 2005, en þá af kr. 189.343.603,- frá þeim degi til 28. apríl s.á., en þá af kr. 228.151.104,- frá þeim degi til greiðsludags.

 

Til þrautavara er þess krafist að ógilt verði sú ráðstöfun sem fólst í samningsákvæði um viðtöku kaupverðs nýsmíði B-13, frá K/F Stjörnan í Færeyjum að fjárhæð kr. 71.000.000,-; að rift verði þeirri ráðstöfun er fólst í framsali deponeringar nr. GA-10747 í Landsbanka Íslands, dags. 19. júlí 2004, að fjárhæð kr. 11.000.000,-, sem tryggingarráðstöfun með vísan til 1. mgr. 137 .gr. laga nr. 21/1991, og að staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi innistæðu geymslugreiðslunnar; að ógilt verði  með dómi annarsvegar framsal viðskiptakröfu á hendur Sp.f. Kneysur í Færeyjum, dags. 19. janúar 2005, og hinsvegar veðsetning þeirrar sömu kröfu dags. 6. ágúst 2004, hvort tveggja að fjárhæð kr. 46.285.114,-, og staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi umræddrar viðskiptakröfu; að ógilt verði með dómi framsal skipsins “Varðborgar” (sk.skrnr. FD-1178) með yfirlýsingu dags. 6. ágúst 2004, að fjárhæð kr. 8.800.500,-; og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda kr. 79.800.500,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 8.800.500 frá 6. ágúst 2004 til 18. nóvember 2004, en þá af kr. 79.800.500,- frá þeim degi til greiðsludags.

 

Til þrautaþrautavara er þess krafist að framsal deponeringar nr. GA 10747 í Landsbanka Íslands til stefnda dags. 19. júlí 2004, verði ógilt með dómi, og að staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi innistæðu geymslugreiðslunnar.

 

Stefnukröfur eru svo settar fram að nýju í sérstökum kafla í stefnu. Segir að dómkröfurnar séu til nánari glöggvunar settar fram í númeruðum töluliðum, sem hver um sig geti staðið sjálfstætt, og sé hverjum kröfulið forgangsraðað eftir bókstöfum, með eftirfarandi hætti. 

  1. Viðtaka kaupverðs nýsmíði B-13, frá K/F Stjörnan í Færeyjum.
    1. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 71.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2004 til greiðsludags.
    2. Stefnandi krefst þess til vara að verði aðalkrafa eigi tekin til greina verði þeirri ráðstöfun rift sem fólst í viðtöku stefnda, eða aðila á hans vegum, á kaupverði nýsmíði B-13, frá K/F Stjörnan í Færeyjum, og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 71.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2004 til greiðsludags.
    3. Stefnandi krefst þess til þrautavara að verði varakrafa eigi tekin til greina verði sú ráðstöfun ógilt sem fólst í samningsákvæði um viðtöku kaupverðsgreiðslu nýsmíði B-13, frá K/F Stjörnan í Færeyjum, og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 71.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2004 til greiðsludags.

 

  1. Uppgjör ábyrgðar nr. 0322-8884, kr. 40.000.000,-.
    1. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 40.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/1991 frá 18. nóv. 2004.
    2. Stefnandi krefst þess til vara, verði aðalkrafa eigi tekin til greina, að þeirri ráðstöfun stefnda verði rift að greiða ábyrgð nr. 0322-8884 án þess að fram færi uppgjör þeirrar greiðslu gagnvart kaupanda við afhendingu og lokauppgjör nýsmíði B-13, og þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 40.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. nóvember 2004 til greiðsludags.

 

  1. Ráðstöfun á tékkareikningi nr. 0358-26-1259.
    1. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 38.807.501,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 28. apríl 2005 til greiðsludags.
    2. Stefnandi krefst þess til vara, verði aðalkrafa eigi tekin til greina, að rift verði þeirri ráðstöfun stefnda er fólst í stofnun bankareiknings nr. 0358-26-1259 í nafni og á kennitölu stefnanda og ráðstöfun greiðslna stefnda, eða aðila á hans vegum, á fjármunum út af þeim tékkareikningi, og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 38.807.501,- með dráttarvöxtum frá 28. apríl 2005 til greiðsludags.

 

  1. Framsal deponeringar nr. GA 10747 í Landsbanka Íslands, dags. 19. júlí 2004.
    1. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 11.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 19. júlí 2004 til greiðsludags.
    2. Stefnandi krefst þess til vara, verði aðalkrafa eigi tekin til greina, að þeirri ráðstöfun verði rift er fólst í framsali deponeringar nr. GA 10747 í Landsbanka Íslands, dags. 19. júlí 2004, og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 11.000.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. júlí 2004 til greiðsludags. 
    3. Stefnandi krefst þess til þrautavara, verði aðal- og varakrafa eigi tekin til greina, að þeirri ráðstöfun er fólst í framsali deponeringar nr. GA 10747 í Landsbanka Íslands, dags. 19. júlí 2004, verð rift sem tryggingarráðstöfun með vísan til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, og að staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi innistæðu geymslugreiðslunnar.
    4. Stefnandi krefst þess til þrautaþrautavara að framsal deponeringar nr. GA 10747 í Landsbanka Íslands til stefnda, dags. 19. júlí 2004, verði ógilt með dómi, og að staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi innistæðu geymslugreiðslunnar.

 

  1. Framsal uppgjörs á nýsmíði nr. B-11 fyrir Spf. Kneysur í Færeyjum.
    1. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 46.285.114,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 19. janúar 2005 til greiðsludags.
    2. Stefnandi krefst þess til vara, verði aðalkrafa eigi tekin til greina, að rift verði annarsvegar þeirri ráðstöfun er fólst í framsali viðskiptakröfu á hendur Spf. Kneysur í Færeyjum dags. 19. janúar 2005, og hinsvegar að rift verði þeirri ráðstöfun er fólst í veðsetningu þeirrar sömu kröfu dags. 6. ágúst 2004, og þess krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 46.285.114,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 19. janúar 2005 til greiðsludags.
    3. Stefnandi krefst þess til þrautavara, verði varakrafa eigi tekin til greina, að ógilt verði með dómi annarsvegar framsal viðskiptakröfu á hendur Spf. Kneysur í Færeyjum dags. 19. janúar 2005, og hinsvegar veðsetning þeirrar sömu kröfu dags. 6. ágúst 2004, og þess krafist að staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi umræddrar viðskiptakröfu.

 

  1. Veðsetning vörureikninga, vörubirgða og lausafjár, tr.br. 0358-63-2118, dags. 31. ágúst 2004.
    1. Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi veðsetningu vörureikninga, vörubirgða og þar til greindu lausafé, skv. tryggingabréfi 0358-63-2118, að fjárhæð kr. 50.000.000,-, dags. 31. ágúst 2004.

 

  1. Veðsetn. vörureikninga, vörubirgða og lausafjár, viðauki v/tr.br. 322-63-577, 31. ágúst 2004.
    1. Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi veðsetningu vörureikninga, vörubirgða og þar til greindu lausafé, skv. viðauka við tryggingabréf nr. 0322-63-577, að fjárhæð kr. 50.000.000,-, dags. 31. ágúst 2004.

 

  1. Viðauki við veðsetningu almennrar fjárkröfu, dags. 6. september 2004.
    1. Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi viðauka við veðsetningu almennrar fjárkröfu, dags. 6. september 2004, um hækkun á fyrri veðsetningu vegna bankaábyrgðar Föroyja Sparikassi í Þórshöfn, nr. 955.368.6. (tilvísun stefnda nr. 01RE303015).

 

  1. Greiðsla viðskiptaskuldar Þorgeirs & Ellerts ehf.

a.       Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 12.257.989,-með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 4.000.000,- frá 24. september 2004 til 19. október s.á., en þá af kr. 10.000.000,- frá þeim degi til 16. desember s.á., en þá af kr. 12.257.989,- frá þeim degi til greiðsludags.

b.       Stefnandi krefst þess til vara, verði aðalkrafa eigi tekin til greina, að rift verði skv. XX. kafla laga nr. 21/1991 þeirri ráðstöfun er fólst í samkomulagi stefnda við Þorgeir & Ellert hf. um greiðslu eftirstöðva spilbúnaðar frá Ósey hf., dags. 21. september 2004, upphaflega að fjárhæð kr. 12.107.989,- og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 12.257.989,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 4.000.000,- frá 24. september 2004 til 19. október s.á., en þá af kr. 10.000.000,- frá þeim degi til 16. desember s.á., en þá af kr. 12.257.989,- frá þeim degi til greiðsludags.

 

  1. Greiðsla reiknings frá K/F Stjörnan.

a.       Stefnandi krefst þess að rift verði skv. XX. kafla laga nr. 21/1991 þeirri ráðstöfun er fólst í viðtöku stefnda á greiðslu kr. 4.809.424,- frá K/F Stjörnan og/eða ráðstöfun hennar inn á tékkareikning nr. 0358-26-1259, dags. 14. desember 2004, og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda kr. 4.809.424,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. desember 2004 til greiðsludags.

 

  1. Framsal á skipinu “Varðborg” (FD-1178).
    1. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 8.800.500,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 6. ágúst 2004 til greiðsludags.
    2. Stefnandi krefst þess til vara, verði aðalkrafa eigi tekin til greina, að rift verði framsali á þeim hluta kaupsamningsgreiðslu K/F Stjörnan vegna nýsmíði B-13, beint frá kaupanda til stefnda, er fólst í framsali skipsins “Varðborg” (sk.skrnr. FD-1178), og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 8.800.500,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 6. ágúst 2004 til greiðsludags.
    3. Stefnandi krefst þess til þrautavara, verði aðal- og varakrafa eigi tekin til greina, að framsal skipsins “Varðborgar” (sk.skrnr. FD-1178) með yfirlýsingu dags. 6. ágúst 2004, verði ógilt með dómi, og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 8.800.500,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 6. ágúst 2004 til greiðsludags.

III

Rökstuðningur stefnda fyrir frávísun er í fjórum liðum.

             Í fyrsta lagi vísar til stefndi til þess að hvergi í stefnu sé að finna hvernig samtala fjárhæðar í aðalkröfu, þ.e. 232.960.528 króna, er fundin og alls ekki nánari skýringar á greiðslu á 4.800.000 króna. Til vara sé krafist greiðslu á 71 milljón króna, ótilgreind riftunarkrafa á greiðslu ábyrgðar að fjárhæð 40 milljónir, að rift verði stofnun bankareiknings, rift framsali deponeringar, rift framsali viðskiptakröfu, rift verði samkomulagi vegna smíða á spilum, rift verði framsali skipsins Varðborgar til stefnda og loks krafa um greiðslu á kr. 228. millj.  Hvergi sé heldur í stefnu að finna hvernig samtala fjárhæðar er fundin. Í kaflanum í stefnu sem heiti ,,Nánari sundur­liðun dómkrafna” séu varakröfur orðnar aðalkröfur og sé ekki skýringu að finna á þeim viðsnúningi. Í þessum kafla stefnunnar séu kröfur settar fram með þeim hætti að um sé að ræða aðalkröfu, varakröfu, þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu.  Sam­tals séu kröfuliðir tuttugu og þrír. Sumpart séu kröfuliðir vegna sama kröfuliðar ólíkir innbyrðis og reistir á mismunandi forsendum og röksemdum. Þá sé ljóst að í mörgum tilvika sé um að ræða lagarök í síðari kröfuliðum til að styðja m.a. aðal- og varakröfur og sé þannig blandað saman kröfugerð, málsástæðum og lagarökum. Þessi aðferða­fræði sé í algerri andstöðu við grunnreglur réttarfars um skýran og glöggan mála­tilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

             Í annan stað vísar stefndi til þess að hvergi í stefnu sé vísað til skjala í þeim tilgangi að atvik, kröfur og rök séu rakin í samhengi. Sé þó mikil þörf á slíku þar sem sakarefni séu flókin og yfirgripsmikil, kröfur ólíkar, reistar á mismunandi atvikum og rökum og er vísað til þess að stefna sé tuttugu og fjórar blaðsíður og framlögð skjöl með stefnu tæpt hundrað. Framsetning stefnu og framlagðra gagna sé slík að mikið erfiði þurfi til að átta sig á einstaka kröfum og kröfuliðum.

             Í þriðja lagi vísar stefndi til þess að skjölum sé ekki raðað í nokkru samhengi og nefnir í því sambandi ýmis dæmi. Þá verði ekki af þessum mikla fjölda skjala ráðið hvað þau eigi að sanna og jafnvel sé ljóst að þau eigi ekki annað erindi í málið en að gera það flóknara og erfiðara úrlausnar. Er nefnd þessu til stuðnings dæmi sem ekki er ástæða til að rekja nánar. Telur stefndi að málaitilbúnaður stefnanda sé í andstöðu við 80. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti.

             Í fjórða lagi vísar stefndi til þess að ýmsir liðir í kröfugerð stefnanda séu þannig að hann hafi ekki hagsmuni af því að fá um þá dómsúrlausn auk þess sem fráleitt sé að þeir séu dómhæfir.  Að því er varðar lið 1 hér að framan er vísað til þess að stefndi hafi staðið allan straum af kostnaði við smíði B-13 og eðlilega rökrétt sé að hann taki til sín kaupverðið.  Endanlegt kaupverð B-13 hafi runnið inn á reikninga Viðja ehf. sem hafi verið stefnt samhliða stefnda í öðru máli. Því sé óþarft að hafa uppi þessar kröfur í máli gegn stefnda og stefna í tvennu lagi vegna sömu kröfu. Að því er varðar lið 2 er vísað til þess mál vegna bakábyrgðar Tryggingardeildar útflutningsins sé til meðferðar hjá dómstólum. Auk þess sé misskilningur fólginn í kröfugerðinni þar sem Ósey hf. hafi aldrei reitt þetta fé af hendi til skipasmíðinnar heldur stefndi sjálfur sem síðan notaði féð til þess að standa straum af byggingu skipsins. Ósey hf. hafi heldur aldrei verið aðili að samningi stefnda og Tryggingar­deild útflutningsins og komi þau viðskipti ekkert við. Að því er varðar lið 3 vísar stefndi til þess að hér sé verið að krefjast endurgreiðslu á yfirdrætti sem stefndi hafði til að standa straum af smíði B-13 en reikningur þessi var í eigu Óseyjar hf. Að því er varðar lið 4 vísar stefndi til þess að umrædd geymslugreiðsla hafi aldrei verið leyst út. Að því er varðar lið 5 er vísað til þess að stefnandi leggi sjálfur fram gögn um að krafa þessi sé óviss. Þá var upplýst við munnlegan flutning að gerðadómsmál hefði að verulegu leyti tapast og ekkert fengist upp í kröfu stefnda. Að því er varðar liði 6, 7 og 8 telur stefndi ekki fyrir hendi lögvarða hagsmuni. Að því er lið 8 varðar er vísað til þess að aldrei hafi reynt á ábyrgð þessa og muni ekki reyna. Að því er lið 9 varðar segir stefndi að greiðsla fyrir smíði spils fyrir Þorgeir og Ellert hf. hafi runnið til stefnanda og sé því verið að tvíkrefja um fjárhæðina, sbr. lið 3. Að því er varðar lið 10 segir stefndi ekki fyllilega ljóst hvaða krafa þetta sé. Hann getur sér þess hins vegar til að um sé að ræða reikning vegna olíukaupa sem greiddur hafi verið af öðrum reikningum Óseyjar hf. í formi yfirdráttar. Því hafi stefndi greitt umrædda fjárhæð en ekki stefndi. Þá hafi greiðsla frá hinum færeyska kaupanda runnið inn á reikning Óseyjar hf. en ekki sjóði stefnda.  Því sé hér verið að tvíkrefja um  sömu fjárhæð. Að því er varðar lið 11 er bent á að stefndi hafi aðeins átt að fá helming fjárhæðarinnar, 750.000 danskar krónur, en Þorgeir og Ellert h.f. helming.  Skipið Varðborg hafi loks selt fyrir 600.000 danskar krónur en verðfall hafi orðið á þessu tímabili. Er rakið nánar í greinargerð stefnda hvernig andvirði skipsins var varið og fullyrt að stefnandi hafi ekki tekið mið af þeim upplýsingum.

             Samkvæmt öllu framangreindu telur stefndi að kröfugerð stefnanda sé í ýmsu andstæð 25. gr. laga nr. 91/1991 og í öðru andstæð 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Eigi því að vísa málinu frá dómi.

IV

Stefnandi hafnar því að gallar séu á málinu sem leiða eigi til frávísunar. Hann vísar í fyrsta lagi til þess að á honum hvíli engin skylda til að stefna stefnda og Viðjum ehf. í einu og sama málinu. Um sé að ræða tvo sjálfstæða lögaðila  sem sækja megi í sitthvoru dómsmálinu. Að því er varðar málsástæður stefnda viðvíkjandi framsetningu kröfugerðar telur stefnandi að kröfur séu skýrar og í samræmi við fyrirmæli 80. gr. laga nr. 91/1991. Telur hann að málsástæður stefnda lúti í raun að efnisatriðum málsins og geti þar af leiðandi ekki leitt til frávísunar. Hann mótmælir því að skjöl hafi verið lögð fram án tilgangs eða með óskipulegum hætti. Hann bendir einnig á að engar reglur séu til um hvernig haga beri uppröðum skjala og þess háttar. Að því er varðar sjónarmið stefnda um einstaka kröfuliði vísar stefnandi einkum til þess að málsástæður stefnda lúti að efni en ekki formi. Komi frávísun málsins því ekki til greina. Hann bendir einnig á að ekki sé vísað til réttarreglna til stuðnings frávísun. Að lokum vísar hann til þess að möguleiki sé á því að bæta úr göllum á málinu samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og frávísun einstakra liða leiði ekki til frávísunar málsins í heild, sbr. 4. mgr. 100. gr. sömu laga.

V

Niðurstaða

             Í máli þessu setur stefnandi fram aðalkröfu, varakröfu, þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu. Í aðal- og varakröfu er að finna annars vegar riftunarkröfur (fjórar í aðalkröfu og sjö í varakröfu) samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar kröfur um greiðslu peninga. Þegar málatilbúnaður stefnanda er kannaður kemur þó í ljós að greiðslukrafa í hverjum kröfulið svarar ekki einungis til ráðstafana sem krafist er riftunar á, heldur byggir hún að hluta á kröfu­réttarlegum forsendum. Í þrautavarakröfu er svo að finna, meðal annars, kröfu um „ógildingu á ráðstöfun sem fólst í samningsákvæði um viðtöku kaupverðs“ auk riftunar­kröfu, viðurkenningarkrafna og kröfu um greiðslu peninga. Í þrautaþrauta­varakröfu er aðeins gerð krafa um ógildingu framsals tiltekinnar geymslugreiðslu og viðurkenningu á því að stefnandi sé rétthafi greiðslunnar. Af hálfu stefnda hefur ekki verið höfð uppi krafa um frávísun með vísan til lokaákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður kröfugerð stefnanda því ekki tekin til sérstakrar skoðunar á þeim grundvelli. Hjá því verður hins vegar ekki litið að umrædd kröfugerð er óvenjuleg og veldur hinn mikli fjöldi krafna, af margvíslegum toga, sem hafður er uppi í málinu því að yfirsýn yfir málið er erfiðleikum bundin og örðugt er að átta sig á grundvelli einstakra krafna stefnanda og innbyrðis sambandi þeirra. Er að þessu vikið nánar í umfjöllun um einstakar kröfuliði.

             Í stefnu er ekki að finna skipulega sundurliðun á fjárkröfum stefnanda. Veldur þetta því að erfitt er að fá yfirsýn yfir fjárkröfur stefnanda. Í nánari umfjöllun um dómkröfur í sérstökum kafla í stefnu „Nánari sundurliðun dómkrafna“ eru fjárkröfur svo settar fram með breyttum hætti, þ.e. krafist er greiðslu á tilteknum fjárhæðum með dráttarvöxtum frá og með ákveðnum dögum. Í munnlegum málflutningi útskýrði lög­maður stefnanda þessa framsetningu svo að hér væri í raun um sundurliðun á á dóm­kröfum að ræða. Samkvæmt framangreindu koma dómkröfur fram á fleiri en einum stað í stefnu með mismunandi framsetningu. Er þessi framsetning á kröfugerð í andstöðu við meginreglu réttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

             Stefna í málinu er 25 þéttritaðar blaðsíður. Er í stefnunni að finna hugleiðingar um málsatvik og varpað fram spurningar um óviss atriði án þess að skýrt liggi fyrir hvaða tengsl þau hafa við málsástæður og kröfur stefnanda. Skortir almennt á að samhengi málsatvika og málsástæðna komi fram með þeim hætti sem e-liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 gerir ráð fyrir.

             Í málinu hafa verið lögð fram af hálfu stefnanda 97 skjöl, sum þeirra á ensku. Á það verður fallist með stefnda að tilgangur með framlagningu ýmissa skjala sé óljós eða óútskýrður af stefnanda. Veldur þetta atriði, auk framangreinds fjölda og framsetningar dómkrafna, því að í mörgum tilvikum er erfitt er að átta sig á málsástæðum stefnanda fyrir einstökum kröfum.

             Samkvæmt framangreindu er það álit dómara að málatilbúnaður stefnanda í heild sé í ýmsum atriðum ábótavant. Verður næst vikið að einstökum kröfuliðum eins og þeir eru settir fram í stefnu undir yfirskriftinni „Nánari sundurliðun dómkrafna“.

Viðtaka kaupverðs nýsmíði B-13

             Undir þessum lið gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða 71.000.000 krónur. Til vara krefst hann þess að „þeirri ráðstöfun verði rift sem fólst í viðtöku stefna, eða aðila á hans vegum, á kaupverði nýsmíði B-13 frá K/F Stjörnan í Færeyjum“ auk þess sem hann gerir kröfu um greiðslu sömu fjárhæðar og í aðalkröfu. Til þrautavara krefst hann þess „að ógilt verði sú ráðstöfun sem fólst samningsákvæði um viðtöku stefnda, eða aðila á hans vegum, á kaupverðsgreiðslu nýsmíði B-13“ auk þess sem stefndi verði dæmdur til að greiða sömu fjárhæð.

             Í málsatvikalýsingu stefnanda er lýst kaupsamningi Óseyjar hf. við Viðjar ehf., dótturfélag stefnda, á nýsmíðinni B-13. Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hann byggi á því að Viðjar ehf. hafi skuldbundið sig til að ráðstafa söluandvirði B-13 til greiðslu tiltekinna skulda hjá stefnda, sbr. 3. mgr. 8. gr. samningsins 12. október 2004. Þetta hafi ekki verið gert og eigi Ósey hf. því átt rétt á að fá söluandvirðið greitt, þar á meðal 71.000.000 krónur sem hinn færeyski kaupandi mun hafa greitt Viðjum ehf. Hvað sem líður nánari reifun á grundvelli kröfu stefnanda er í stefnu í engu vikið að því hvers vegna umrædd greiðsluskylda er talin hvíla á stefnda á kröfuréttarlegum grundvelli, en stefndi keypti hvorki skipið af Ósey hf. né seldi það áfram til hins færeyska kaupanda samkvæmt því sem fram kemur í málsatvikalýsingu í stefnu. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir því að stefndi hafi tekið við umræddu fé frá Viðjum ehf. er þannig ómögulegt að ráða af málatilbúnaði stefnanda hvernig kröfuréttarlegt samband hefur myndast milli Óseyjar hf. og stefnda um greiðslu þess síðarnefnda fénu.

             Í tengslum við varakröfu undir þessum lið er óútskýrt með hvaða hætti reglur XX. kafla laga nr. 21/1991, sem fjalla um riftun ráðstafana þrotamanns o.fl., eiga að leiða til þess að viðtöku stefnda á kaupverði frá hinum færeyska kaupanda verði rift. Athugast sérstaklega í þessu sambandi að hvergi í málatilbúnaði stefnanda er gerð krafa um riftun kaupsamningsins 12. október 2004 sem Ósey hf. gerði við Viðjar hf. Riftun á þeim gerningi sýnist þó vera forsenda þess að stefnandi endurheimti andvirði þess sem selt var 12. október 2004. Að því er varðar greiðslukröfu stefnanda er hvergi leitast við að gera grein fyrir hugsanlegri fjárhæð endurgreiðslu stefnda samkvæmt ákvæðum 142. gr. laga nr. 21/1991.

             Þrautavarakrafa stefnanda undir þessum lið byggir aðallega á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Umrætt ákvæði fjallar um það samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í þrautavarakröfu stefnanda er hins vegar krafist ógildingar á tiltekinni ráðstöfun sem fólst í framkvæmd samningsins 12. október 2004, þ.e. viðtöku stefnda á kaupverði skipsins. Er með öllu óútskýrt í málatilbúnaði stefnanda hvernig umrætt lagaákvæði tekur til ráðstöfunar sem þessarar. Sama á við um málsástæður stefnanda sem byggja á reglum samningaréttar um brostnar forsendur. Þá eru fjárhæðir undir þessum liðum alfarið órökstuddar.

              Samkvæmt framangreindu er sá hluti málatilbúnaðar stefnanda sem lýtur að sölu Óseyjar hf. á nýmsíðinni B-13 svo vanreifaður að varðar sjálkrafa frávísun málsins að þessu leyti.

Uppgjör ábyrgðar að fjárhæð 40.000.0000 króna

             Undir þessum lið gerir stefnandi aðallega greiðslukröfu að fjárhæð 40.000.000 krónur, en til vara kröfu um riftun á „þeirri ráðstöfun stefnda að greiða ábyrgð nr. 0322-8884 án þess að fram færi uppgjör þeirrar greiðslu gagnvart kaupanda við afhendingu og lokauppgjör nýsmíði B-13“ auk greiðslu sömu fjárhæðar.

             Í málsatvikalýsingu stefnanda er lýst tildrögum þess að stefndi greiddi hinum færeyska kaupanda skipsins framkvæmdatryggingu að fjárhæð 40.000.000 króna og jafnframt því að hinn færeyski kaupandi hafi flutt fjárhæðina til Viðja ehf. sem hafði á þessum tíma keypt skipið og tekið að sér að ljúka smíði þess. Af gögnum málsins verður ráðið að aldrei kom til þess að Ósey hf. endurgreiddi stefnda með einhverjum hætti umrædda ábyrgð, enda er hún meðal lýstra krafa stefnda við gjaldþrotaskipti stefnanda. Aðalkrafa stefnanda undir þessum lið virðist því byggjast á því að stefndi hafi vanrækt að innheimta umrætt fé sem hluta af söluverði skipsins og ráðstafa því til greiðslu skulda Óseyjar hf. samkvæmt 3. mgr. 8. gr. samningsins 12. október 2004. Dómari bendir á að jafnvel þótt á þetta yrði fallist hefur stefnandi með engum hætti útskýrt í málatilbúnaði sínum hvers vegna stefnda ber að greiða honum umrædda fjárhæð. Athugast í því sambandi að hvergi í málatilbúnaði stefnanda er gerð krafa um riftun kaupsamningsins 12. október 2004 sem Ósey hf. gerði við Viðjar hf. svo sem áður greinir. Að því er varðar þær málsástæður stefnanda sem byggðar eru á reglum skaðabótaréttar utan samninga er alfarið óútskýrt af hálfu stefnanda með hvaða stefndi bakaði honum tjón með saknæmum og ólögmætum hætti.

             Í tengslum við varakröfu stefnanda undir þessum lið er óútskýrt hvernig reglur XX. kafla laga nr. 21/1991, sem fjalla um riftun ráðstafana þrotamanns o.fl., eiga að leiða til þess að „þeirri ráðstöfun stefnda að greiða ábyrgð nr. 0322-8884 án þess að fram færi uppgjör þeirrar greiðslu gagnvart kaupanda við afhendingu og lokauppgjör nýsmíði B-13“ verði rift. Er í þessu sambandi áréttað að það var Ósey hf., en ekki stefndi sem tekin var til gjaldþrotaskipta, og því ráðstafanir Óseyjar hf. sem kann að verða rift samkvæmt umræddum XX. kafla laga nr. 21/1991. Athugast enn í þessu sambandi að hvergi í málatilbúnaði stefnanda er gerð krafa um riftun kaupsamningsins 12. október 2004 sem Ósey hf. gerði við Viðjar hf. Að því er varðar greiðslukröfuna er hvergi leitast við að gera grein fyrir hugsanlegri fjárhæð endurgreiðslu stefnda samkvæmt ákvæðum 142. gr.

             Samkvæmt framangreindu er sá hluti málatilbúnaðar stefnanda sem lýtur að uppgjör ábyrgðar að fjárhæð 40.000.0000 króna svo vanreifaður að varðar sjálkrafa frávísun málsins að þessu leyti.

Greiðslur stefnda af tékkareikningi Óseyjar hf. nr. 358-26-1259

             Undir þessum lið gerir stefnandi aðallega greiðslukröfu að fjárhæð 38.807.501 króna, en til vara „að rift verði þeirri ráðstöfun stefnda er fólst í stofnun banka­reiknings nr. 0358-26-1259 í nafni og á kennitölu stefnanda og ráðstöfun greiðslna stefnda, eða aðila á hans vegum, á fjármunum út af þeim tékkareikningi“ og stefndi greiði sömu fjárhæð og áður greinir.

          Aðalkrafa stefnanda er á því reist að stefndi hafi með ýmsum hætti greitt heimildarlaust út af umræddum reikningi Óseyjar hf. Af gögnum málsins er ljóst að umræddur reikningur var yfirdreginn og gátu umræddar ráðstafanir því ekki falið í sér annað en það að stefndi jók við yfirdráttarskuld Óseyjar hf. hjá sér. Sýnist liggja í augum uppi að skiptastjóri hafni þeim kröfum stefnda sem byggja á umræddum óheimilum yfirdrætti og hann hefur lýst við gjaldþrotaskiptin. Í stefnu er hins vegar með engum hætti útskýrt hvernig þessar ætluðu ólögmætu ráðstafanir eiga að leiða til stefnda beri að greiða stefnanda umrædda fjárhæð.

             Í tengslum við varakröfu stefnanda undir þessum lið er óútskýrt með hvaða hætti reglur XX. kafla laga nr. 21/1991, sem fjalla um riftun ráðstafana þrotamanns o.fl., eiga að leiða til þess „að rift verði þeirri ráðstöfun stefnda er fólst í stofnun bankareiknings nr. 0358-26-1259 í nafni og á kennitölu stefnanda og ráðstöfun greiðslna stefnda, eða aðila á hans vegum, á fjármunum út af þeim tékkareikningi“. Að því er varðar greiðslukröfuna undir þessum lið er hvergi leitast við að gera grein fyrir hugsanlegri fjárhæð endurgreiðslu stefnda samkvæmt ákvæðum 142. gr. laga nr. 21/1991.

Framsal réttar til geymslugreiðslu 19. júlí 2004

             Undir þessum lið sundurliðar stefnandi fjórar kröfur. Aðallega er krafist greiðslu 11.000.000 króna. Til vara er krafist riftunar á þeirri ráðstöfun er fólst í framsali geymslugreiðslu að þessari fjárhæð 19. júlí 2004 og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda  sömu fjárhæð. Til þrautavara að sömu ráðstöfun verði rift sem tryggingarráðstöfun með vísan til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 og staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi innistæðu geymslugreiðslunnar. Til þrautavara er þess krafist að umrætt framsal verði ógilt með dómi og að staðfest verði með dómi að stefnandi sé eigandi og rétthafi innistæðu geymslugreiðslunnar.

             Hvorki í málsatvikalýsingu í stefnu né annars staðar er vikið að tildrögum umræddrar geymslugreiðslu eða grundvöllur krafna stefnanda að þessu leyti skýrður. Er því með öllu óljóst á hvaða grundvelli umræddar kröfur stefnanda hvíla. Er umræddur þáttur málsins svo vanreifaður að varðar frávísun þess að þessu leyti.

Aðrir liðir í sundurliðun stefnanda (liðir 5-11)

             Í öllum þessum liðum er gerð ýmist gerð krafa um greiðslu peninga og/eða riftun og ógildingu vegna atvika, sem engin sjálfstæð grein er gerð fyrir í málsatvikalýsingu. Er ómögulegt að átta sig á grundvelli umræddra krafna. Skortir verulega á að málatilbúnaður stefnanda fullnægi skilyrðum e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til fjalla um þessar kröfur stefnanda.

                                xxx

Samkvæmt öllu framangreindu verður máli þessu vísað sjálfkrafa frá dómi.

             Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilegur, eftir umfangi málsins, 300.000 krónur. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

             Af hálfu stefnda flutti málið Sigurmar K. Albertsson hrl.

             Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Rafnsson hdl.

             Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                  Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

             Stefnandi, þrotabú Óseyjar hf., greiði stefnda, Kaupþing banka hf., 300.000 krónur í málskostnað.