Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 9

 

Þriðjudaginn 9. júní 2009.

Nr. 308/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A- liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 15. júní 2009 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að í morgun kl. 8:29 hafi Fjarskiptamiðstöð lögreglu verið tilkynning um ofsaakstur bifreiðarinnar A sem ekið hafi verið að sögn sjónarvotts greitt vestur Sæbraut við Holtagarða og tvívegis gegnt rauðu ljósi. Skömmu síðar, eða kl. 8:33 hafi önnur tilkynning borist en um var að ræða neyðarkall karlmanns sem kvað nokkra karlmenn hafa ruðst inn á sig að B.

                Enn frekari upplýsingar hafi borist og hafi þær verið á þann veg að þrír aðilar væru í átökum fyrir utan B og að einn mannanna hefði kveikt í húsinu. Lögreglan hafi þegar farið á vettvang.

                Í frumskýrslu lögreglu sé aðkomu á vettvangi lýst en þangað hafi lögregla komið kl. 8:35. B sé lýst sem einbýlishúsi úr timbri, trégrindverk væri umhverfis garð umhverfis húsið og hafi hlið girðingarinnar brotið. Í skýrslunni segi að eldur hafi verið í húsinu og reik lagt frá því. Það hafi fljótlega orðið alelda. Bifreiðin A hafi verið kyrrstæð fyrir framan húsið og hafi hún verið í gangi. Í framsæti farþegamegin hafi setið kona, C, tveir karlmenn hafi staðið við bifreiðina, þeir D og E. Á lóð hússins hafi verið kærði X og F húsráðandi og hafi hann verið á nærbuxum einum fata. Mennirnir hafi rifist og höfðu lögreglumenn afskipti af þeim. Kærði og meðkærðu D, E og C hafi öll verið flutt á lögreglustöðina til yfirheyrslu.

                Rætt hafi verið stuttlega við nokkur vitni á vettvangi og í dag hafi lögreglan rætt við tvö þeirra. Framburður þeirra styðji að eldur hafi verið borinn vísvitandi að B og að kærðu, sem hafi komið þangað skömmu áður í bifreið, hafi verið þar að verki. Þeir hafi augljóslega átt erindi við húsráðandann, var hliði girðingar sparkað upp, gengið inn á lóðina og húsið barið að utan. Að því búnu hafi verið hellt úr bensínbrúsa á húsið.

                Við leit í bifreiðinni A hafi fundist skuldalisti merktur bifreiðasamtökum þar sem finna megi upplýsingar um sölu og dreifingu fíkniefna.

                Kærði hafi kannast við að hafa farið að B til þess að hitta F. Hann hafi átt óuppgerðar sakir við hann og var í reiðiham. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við að hafa borið eld að húsinu en kvaðst hafa séð að eldur logaði í þröskuldi hússins þegar hann bar að garði og hafi F verið að reyna að slökkva eldinn.

                Af gögnum málsins megi sjá að framburður kærða stangist í veigamiklum atriðum á við framburð F og vitna.

                Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði ævilöngu fangelsi eða allt að 16 ára tímabundinni fangelsisrefsingu. Samkvæmt 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsilágmark 2 ára fangelsi. Um sé að ræða mjög gróft brot, unnið í félagi við meðkærðu, en brotið sé þess eðlis að mönnum megi vera ljóst að það hefur í för með sér almannahættu. Þá megi mönnum vera ljóst að bersýnilegur lífsháski sé búinn af verkinu og/eða gríðarleg eignarspjöll geti af því hlotist.

                Rannsókn málsins sé á frumstigi en að henni hafi verið unnið í allan dag. Ljóst sé að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en afar brýnt sé að kærðu geti ekki haft áhrif á hvorn annan með því að ræða saman. Jafnframt á eftir að kalla vitni fyrir og framkvæma myndbendingu. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

                Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Kærði er undir rökstuddum grun um brot á 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem geta varðað allt að ævilöngu fangelsi. Samkvæmt 2. mgr. 164. gr. er refsilágmark 2 ára fangelsi. Brot það sem til rannsóknar er mjög gróft og hefur í för með sér almannahættu  og bersýnilegan lífsháska auk mikilla eignaspjalla. Rannsókn þess er á algeru frumstigi og m.a. á eftir að kalla vitni fyrir og framkvæma myndbendingu. Rannsóknin er enn á það viðkvæmu stigi að hætt er við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

                Er því fallist á það með lögreglustjóra að nauðsyn beri til að kærði sæti gæsluvarðhaldi svo sem krafist er enda eru skilyrði  a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 fyrir hendi. Samkvæmt þessu, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu tekin til greina, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Allan V. Magnússon  héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 15. júní 2009 kl. 16:00. Kærði skal vera látinn í einrúmi á meðan á gæluvarðhaldinu stendur.