Hæstiréttur íslands

Mál nr. 457/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Aflaheimild


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 457/2000.

Tálkni ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

Skaðabætur. Aflaheimildir.

Við stofnun ÚT skráði T sig fyrir hlutafé og lagði skip sitt fram sem greiðslu á því. Með skipinu fylgdu aflaheimildir í eigu H, sem T hafði tekið að sér að geyma á skipinu samkvæmt samningi við H. Taldi H sig ekki hafa endurheimt að fullu umrædda aflahlutdeild og krafði T um bætur sem nam mismuninum. Var á það fallist að T hefði ekki efnt þá skyldu sína að skila H umræddum aflaheimildum að fullu. Var ekki talið að T hefði hnekkt fullyrðingum H um hver sú aflahlutdeild væri. Var T gert að greiða H bætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að hann verði dæmdur til að greiða stefnda 6.804.750 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 2000 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Hinn 15. nóvember 2000 var ákveðið á hluthafafundi í Útgerðarfélaginu Tálkna ehf. og Tálkna ehf. að sameina félögin. Tók Tálkni ehf. samkvæmt því við öllum réttindum og skyldum Útgerðarfélagsins Tálkna ehf. Miðaðist samruninn við 31. desember 1999. Tálkni ehf. stendur því nú einn að áfrýjun héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi sé skaðabótaskyldur fyrir að hafa ekki staðið stefnda að fullu skil á aflahlutdeild hans með því að flytja hana á skip, sem hann vísaði til. Áfrýjandi hefur ekki hnekkt staðhæfingu stefnda um hver sú aflahlutdeild var, sem stefndi reisti dómkröfu sína á og héraðsdómur lagði til grundvallar niðurstöðu sinni. Það sama á við um aflamark fiskveiðiársins 1997/1998. Varðandi aflamark fiskveiðiársins 1998/1999 gætti hins vegar þeirrar skekkju í útreikningi stefnda og niðurstöðu héraðsdóms að láðst hafði að færa það niður með stuðlinum 0,84 vegna þess að það miðaðist við slægðan fisk, svo sem réttilega var gert varðandi fiskveiðiárið á undan. Af þeim sökum á aflamark fiskveiðiársins 1998/1999, sem krafa stefnda er reist á, með réttu að vera 10.008 kg og andvirði þess 992.993 krónur, en þá eru lagðar til grundvallar upplýsingar kvótamiðlunar LÍÚ um vegið meðalverð aflamarks á því fiskveiðiári eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi verður því dæmdur til að greiða stefnda samtals 11.547.174 krónur. Gegn andmælum áfrýjanda hefur ekki verið sýnt fram á að honum hafi verið kynnt krafa stefnda fyrr en með birtingu héraðsdómsstefnu 16. mars 2000. Með vísan til 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga dæmast því dráttarvextir frá þeim degi.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorð greinir.

                                                         Dómsorð:

Áfrýjandi, Tálkni ehf., greiði stefnda, Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf., 11.547.174 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. mars 2000 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 1.250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 7. nóvember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var að undangengnum munnlegum málflutningi þann 10. október sl., hefur Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf., kt. 630169-2089, Miðtúni 3, Tálknafirði, höfðað hér fyrir dómi þann 16. mars 2000, á hendur Útgerðarfélaginu Tálkna ehf., kt. 650697-2009, og Tálkna ehf., kt. 500774-0349, báðum til heimilis að Eyrarvegi 13, Flateyri. 

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda kr. 11.735.891 auk dráttarvaxta skv. 10. og 12. gr., sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af kr. 845.181 frá 1. september 1997 til 1. september 1998, en af kr. 2.026.891 frá þ.d. til 13. febrúar 2000, en af kr. 11.735.891, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi beggja stefndu in solidum samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur beggja stefndu eru samhljóða, aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda en til vara að kröfugerð hans verði lækkuð verulega, en til þrautavara að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda kr. 6.804.750, með dráttar­vöxtum frá 5. maí 2000 til greiðsludags.  Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati rétt­arins.

Við aðalmeðferð málsins gaf Pétur Þorsteinsson, stjórnarformaður stefn­anda skýrslu fyrir dómi. 

Málavöxtum er svo lýst að stefnandi hafi verið stofnaður árið 1969 í því mark­miði að reka útgerð og fiskvinnslu og annan skyldan atvinnurekstur og hafi stefnandi lengst af síðan rekið bæði útgerð og fiskvinnslu á Tálknafirði.  Stefndi Tálkni ehf. hafi verið stofnaður árið 1974 til að reka útgerð og annast vinnslu og sölu sjávarafurða.  Hafi hann lengst af rekið útgerð frá Tálknafirði en frá 1997 haft  heimilisfestu á Flateyri.  Á árinu 1997 hafi hann ásamt Fiskvinnslunni Kambi hf. stofnað stefnda Útgerðarfélagið Tálkna ehf. og þá jafnframt selt honum skip sitt, vélskipið Bjarma BA-326, sknr. 1318.  Stefndi Útgerðar­félagið Tálkni ehf. hafi þannig verið stofnaður á árinu 1997 til útgerðarreksturs og vinnslu og sölu sjávar­afurða og síðan gert út fiskiskip frá Flateyri.  Annar stofnenda hans, Fisk­vinnslan Kambur hf., hafi sameinast Básafelli hf., þá til heimilis að Sundstræti 36, Ísa­firði, árið 1997 og hafi Básafell hf. síðan farið með eignarhald á hlutum Fiskvinnsl­unnar Kambs hf. og um leið útgerðarstjórn á skipum stefnda, Útgerðar­félagsins Tálkna ehf.

Þann 4. ágúst 1995 var að tilhlutan stefnanda flutt frá Drangavík VE-80, sknr. 2048, á Bjarma BA-326, sknr. 1318, aflahlutdeild í þorski, ýsu og skarkola.  Var um að ræða 0,2548059% aflahlutdeild í þorski.  Jafnframt undirrituðu fyrir­svars­menn stefnanda og stefnda Tálkna ehf., eiganda Bjarma BA-326, sknr. 1318, með sér yfirlýsingu þar sem því var lýst yfir af hálfu stefnda Tálkna ehf., að ofangreindur fiskkvóti geymdur á ms. Bjarma skv. samkomulagi aðila væri eign stefnanda og til frjálsrar ráðstöfunar fyrir stefnanda hvenær sem væri.  Samhliða þessum geymslusamningi gerðu aðilar með sér munnlegt samkomulag um að aflamark sem af þessari aflahlutdeild leiddi yrði veitt á skip stefnda Tálkna ehf., Bjarma BA-326, sknr. 1318.  Reis ágreiningur um efni þessa munnlega samnings og efndir hans.  Höfðaði stefnandi loks bótamál vegna ráðstöfunar stefnda Tálkna ehf. á aflamarki fiskveiðiársins 95/96. Gekk dómur í Hæstarétti um þann ágreining þann 12. október sl.

Stefnandi telur sig ekki hafa endurheimt að fullu aflahlutdeild sem ráð­stafað var til geymslu samkvæmt þessari yfirlýsingu.  Höfðar hann þetta mál til heimtu bóta fyrir eftirstöðvar hennar og aflamark sem úthlutað var á grundvelli þeirra eftirstöðva.

Stefnandi segir að fram til loka fiskveiðiársins 96/97 liggi eftirfarandi fyrir um ráðstöfun sína á hinni geymdu aflahlutdeild sinni í þorski, 0,2548059%.  Þann 8. mars 1996 var ráðstafað til Dóru BA-24, sknr. 1975, 0,0230160% aflahlut­deild.  Þann 26. júlí 1996 eignaðist stefndi Tálkni ehf. 0,0460320% aflahlutdeild með kaup­samningi við stefnanda og ráðstafaði stefnandi þannig á fiskveiðiárinu 95/96, 0,0690480% aflahlutdeild. Þá lækkuðu eftirstöðvarnar um 0,0098374% vegna svokallaðrar línutvöföldunar.  Þann 14. janúar 1997 voru flutt 0,0402847% til Dóru BA-24 og þann 26. febrúar 1997 voru flutt 0,0322278% til Skarfs GK-666, sknr. 1023.  Þannig hafði samtals 0,0725125% verið ráðstafað á fiskveiðiárinu 96/97.  Var þá eftir í geymslu samkvæmt samkomulaginu 0,1034080% aflahlut­deild sem stefnandi hafði enn ekki ráðstafað. 

Þann 9. maí 1997 stofnuðu Fiskvinnslan Kambur hf. og stefndi Tálkni ehf. með sér stefnda Útgerðarfélagið Tálkna ehf. eins og að ofan er getið.  Samkvæmt stofn­samningi áttu stofnendurnir að greiða hlutafé sitt með því að afsala hinu nýja félagi skipum sínum, Kambur hf. skipinu Jóhannesi Ívari ÍS-193, sknr. 1321 og stefndi Tálkni ehf. skipi sínu Bjarma BA-326, sknr. 1318.  Skyldi skipunum afsalað með aflahlutdeild hvors skips fyrir sig og óveiddu aflamarki yfirstandandi fiskveiðiárs.  Í stofnfundargerð er þess getið að hluti stofnsamnings sé sérfræði­skýrsla löggilts endurskoðanda.  Í þeirri skýrslu er tekið fram að upplýsingar um aflamark m/b Bjarma BA-326 séu ekki alveg nákvæmar, þar sem vistaðar séu á skipinu aflaheimildir í eigu stefnanda, sem nemi um 220.000 kg.

Þann 12. júní 1997 var undirrituð áætlun um samruna Fiskvinnslunnar Kambs hf. og Básafells hf. og var ákveðið að sameiningin miðaðist við 1. janúar 1997.  Gekk þetta eftir og var sameiningin endanlega samþykkt á hluthafafundum í félögunum þann 2. desember 1997.

Þann 15. ágúst 1997 tilkynnti Fiskistofa um aflahlutdeild og aflamark Bjarma, sknr. 1318 á fiskveiðiárinu 1997/1998.  Var þorskaflahlutdeild skipsins 0,2125935% og fékk það  úthlutað í aflamark á grundvelli hennar 326.259 kg. af óslægðum þorski.  Þann 26. september 1997 var öll aflahlutdeild Bjarma, sknr. 1318, færð yfir á skipið Jóhannes Ívar ÍS-193, sknr. 1321, sem hafði allnokkru áður verið afsalað til stefnda Útgerðarfélagsins Tálkna ehf.

Í nóvember 1997 gerði stefnandi samning við Gunnvöru hf. um að selja því félagi eftirstöðvar þorskaflahlutdeildar sem þá voru taldar nema sem svaraði 160,55 tonnum af slægðum fiski eða 0,01046160% í aflahlutdeild talið.  Daginn áður en samningurinn við Gunnvöru hf. var undirritaður hafði stefnandi aflað sér yfirlýsingar frá Básafelli hf., sem hann segir hafa séð um útgerð skipa stefnda, Útgerðarfélagsins Tálkna ehf., um að stefnandi ætti geymd á skipinu Jóhannesi Ívari, sknr. 1321, 160,55 tonn af þorski sem yrðu flutt á Júlíus Geirmundson ÍS-270 að fenginni skriflegri beiðni þar að lútandi frá stefnanda.  Gera yrði ráð fyrir þriggja til fjögurra vikna fyrirvara vegna endurfjármögnunar á skuldum Útgerðar­félagsins Tálkna ehf.  Þann 12. nóvember 1997 óskaði stefnandi eftir því við stefnda Útgerðarfélagið Tálkna ehf. að þorskkvóti, aflahlutdeild og aflamark, alls 160.055 kg. í eigu stefnanda, sem geymdur væri á Jóhannesi Ívari, yrði fluttur á bv. Júlíus Geirmundsson ÍS-270 svo fljótt sem verða mætti og eigi síðar en eftir þrjár til fjórar vikur.  Þann 23. desember 1997 var síðan flutt milli þessara skipa 0,0977415% aflahlutdeild í þorski, sem stefnandi segir hafa svarað í aflamarki til 150.000 kg. miðað við slægðan fisk.  Segir hann að ítrekað hafi verið gerðar athugasemdir við þessa millifærslu og bent á að nokkrum hluta hlut­deild­ar­innar hefði ekki verið skilað.  Hafi því verið þráfaldlega lofað að þetta yrði athugað en ekki hafi verið staðið við það.  Að undangenginni könnun lögmanna stefnanda og Básafells hf., hafi aflahlutdeildin verið leiðrétt í samræmi við til­teknar breytingar vegna almennra lækkana á tímabilinu en aðrar athuga­semdir hafi ekki verið gerðar.  Hafi ekki náðst samkomulag um uppgjör á kröfunni og hafi málsókn þessi því reynst nauðsynleg.

Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á hendur stefnda Tálkna ehf. á því að hann hafi brugðist þeim vörsluskyldum sem á honum hafi hvílt samkvæmt samn­ingn­um við stefnanda frá 1995 um vistun og geymslu þessara tilgreindu afla­heimilda, þar sem stefndi hafi skuldbundið sig til að haga vörslunum þannig að aflaheimild­irnar yrðu stefnanda til frjálsrar ráðstöfunar hvenær sem hann óskaði slíks.  Hafi stefndi síðla árs 1997 án samráðs eða heimildar frá stefnanda flutt eftir­stöðvar aflaheimildanna yfir á skip með sknr. 1321 í eigu meðstefnda Útgerðarfélagsins Tálkna ehf. sem stefndi Tálkni ehf. hafi stofnað um svipað leyti ásamt Fiskvinnslunni Kambi hf.  Með þessari ráðstöfun á aflaheimildum stefn­anda sé stefndi Tálkni ehf. meðábyrgur fyrir því að í desember 1997 hafi af hálfu með­stefnda ekki verið orðið við fyrirmælum stefnanda um að fluttar yrðu yfir á skipið Júlíus Geirmundsson, sknr. 1977, allar eftirstöðvar aflahlutdeildar stefn­anda í þorski sem stefnandi hafi selt eiganda Júlíusar Geirmundssonar með samningi dag­settum 12. nóvember 1997.  Aðeins hafi verið flutt 0,0977415% afla­hlutdeild í þorski í stað 0,1034080% aflahlutdeildar sem eftir hafi staðið.  Segir stefnandi enn fremur á því byggt að stefndi sé með sama hætti ábyrgur fyrir því að meðstefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. hafi í heimildarleysi fénýtt sér aflamark af þessari afla­hlutdeild á fiskveiðiárunum 1997/1998 og 1998/1999.

Dómkröfur sínar á hendur stefnda Útgerðarfélaginu Tálkna ehf. kveðst stefnandi byggja á því að með viðtöku Bjarma, sknr. 1318, með öllum þeim afla­heimildum og fiskveiðiréttindum sem því skipi hafi fylgt til greiðslu á hluta­fjárframlagi stefnda Tálkna ehf. og síðan með því að yfirfæra í september 1997 allar aflaheimildir skipsins yfir til annars skips með sknr. 1321 sem stefndi hafi með sama hætti eignast við stofnun sína, þá með fullri vit­neskju um að stefnandi hafi átt hluta þessara yfirfærðu aflaheimilda, hafi þessi stefndi tekið á sig ásamt meðstefnda Tálkna ehf., fulla vörsluábyrgð á eftir­stöðvum afla­hlut­deildar stefn­anda, þar á meðal ábyrgð á því að þessum eftir­stöðv­um yrði ráðstafað í samræmi við óskir stefnanda.  Hafi stefndi brugðist þessum vörslu­skyld­um sínum við stefn­anda er hann 23. desember 1997 hafi aðeins yfirfært hluta af eftir­stöðv­um afla­hlut­deildar stefnanda í þorski til skipsins Júlíusar Geir­munds­sonar, sknr. 1977, eða aðeins 0,0977415% aflahlutdeild í stað 0,1034080%, sem hann hefði stað­fest að væri vistuð á skipinu 1321 og jafnframt að hann væri reiðu­búinn að yfirfæra aflaheimildina að öllu leyti á skip kaupandans, bærist ósk stefn­anda þar um.  Sé fébóta­ábyrgð stefnda enn fremur á því byggð að hann hafi án heimildar eða sam­ráðs við stefnanda fénýtt sér aflamark af þessari óskiluðu afla­hlut­deild stefnanda á fiskveiðiárunum 1997/1998 og 1998/1999 í stað þess að greiða stefnanda fyrir afla­markið eðlilegt endurgjald.  Kveðst stefnandi byggja á því að stefndu beri in solidum ábyrgð á því tjóni sem þeir hvor með sínum hætti hafi valdið honum með því að hlíta ekki fyrirmælum hans um að yfirfæra aflahlutdeild hans að fullu sem hafi verið vistuð á skipinu nr. 1321, nánar til tekið 0,1034080% í þorski yfir á Júlíus Geirmundsson í desember 1997 eftir að stefnandi hefði selt eiganda þess skips þessa aflahlutdeild.  Vísar hann til þess sama um tjón sitt af ólögmætri hag­nýtingu aflamarksins af eftirstöðvum aflahlutdeildarinnar fiskveiðiárið 1997/1998 og 1998/1999. 

Um lagarök vísar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um skaðabætur innan og utan samninga og meginreglna samninga- og kröfuréttar um að loforð skuli standa og vörslur og vörsluábyrgð og vanefndir og vanefndaúrræði.  Þá vísar hann til 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðandi misnotkun stefndu á þeirri aðstöðu sem þeir hafi komist í sem vörsluaðilar aflaheimilda stefnanda með því að ráðstafa og fénýta réttindi samkvæmt þeim án heimildar stefnanda.  Þá vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breyt­ingum, varðandi aflahlutdeild, aflamark, aflaheimildir og stýrireglur um flutning þessara réttinda milli skipa.

Stefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. kveðst byggja kröfur sínar um sýknu aðal­­lega á grundvelli aðildarskorts þar sem hann hafi ekki gert neinn samning við stefnanda um geymslu á aflahlutdeild og/eða aflamarki og geti stefnandi því ekki beint slíkum kröfum gegn sér.  Meðstefndi Tálkni ehf. hafi fengið heimild til þess að vista meinta aflahlutdeild og aflamark stefnanda á skipi stefnda og því beri hann einn ábyrgð á meðferð þeirra.  Stefndi hafi með engum hætti skuldbundið sig til að geyma og eða afhenda stefnanda meinta aflahlutdeild og/eða aflamark og hafi yfirlýsing um að þetta sé geymt hjá stefnda, enga þýðingu í því sambandi, enda stafi hún hvorki frá framkvæmdastjóra né stjórnar­manni stefnda.  Þá liggi fyrir að meðstefndi Tálkni ehf. sé stönd­ugur aðili og borgunarmaður fyrir meint­um skaðabótakröfum stefnanda ef þær eigi við rök að styðjast.  Við kröfugerð á hendur stefnda Útgerðarfélaginu Tálkna ehf. mætti réttlæta að krafist væri af­hend­ingar á hinum umdeildu afla­heimildum, en þar sem um hreina skaðabótakröfu sé að ræða sé eðlilegt að beina henni aðeins að stefnda Tálkna ehf. 

Málsástæður stefndu eru að öðru leyti samhljóða.  Byggja þeir sýknu­kröfur sínar á því að stefndi Tálkni ehf. hafi staðið að fullu við samkomulag aðila og skilað stefnanda að fullu þeirri aflahlutdeild og aflamarki er geymslu­samningurinn hafi tekið til og eigi stefnandi því ekki frekari kröfur á stefnda að þessu leyti.  Hafi stefnandi staðfest í bréfi hinn 21. júlí 1997 að aðeins væru 130 tonn af þorski í geymslu fyrir hann en í desember 1997 hafi verið færðar að beiðni hans allt að 150 tonn af þorski, fyrir tilstilli stefnda Tálkna ehf., til skips sem hann hafi tilgreint.  Telja stefndu að með þessu hafi stefndi Tálkni ehf. að fullu staðið við samkomulagið við stefnanda og eigi því að sýkna stefndu.

Varakröfur sínar kveðast stefndu byggja á því að stefnanda hafi borið að draga úr tjóni sínu eins og honum hafi verið best unnt og hefði hann strax keypt aflahlut­deild til samræmis við þá aflahlutdeild sem stefndi Tálkni ehf. sé talinn hafa haldið fyrir honum á árinu 1996 hefði tjón hans orðið verulega minna. 

Þrautavarakröfu sína byggja stefndu á því að meint tjón stefnanda beri að reikna út frá því verði sem hann seldi aflahlutdeild sína á til Gunnvarar hf., en þau rúmu 10 tonn af aflahlutdeild sem haldið sé fram af hálfu stefnanda að ekki hafi verið skilað til Gunnvarar hf. hafi samkvæmt samningi aðila verið verðlögð á kr. 6.804.750 og geti krafa stefnanda aldrei orðið hærri en sem því nemur. 

Hér að ofan er rakin reifun stefnanda á því hvernig þorskaflahlutdeild sú sem hann fékk geymda á skipi stefnda, Tálkna ehf. lækkaði, vegna ráðstafana stefnanda á henni og vegna línutvöföldunar, þannig að eftir stóðu 0,1034080% í lok fiskveiðiárs 1996/1997.  Lögmaður stefnanda taldi í desember 1999 að eftir stæðu af þorskaflahlutdeildinni 0,01550039%.  Eftir nánari athugun, sem starfsmenn Fiskistofu voru fengnir til að gera, útlistar hann eftirstöðvarnar þannig í bréfi 13. janúar 2000 til lögmanns Básafells hf. að þann 31. ágúst 1997 hafi staðið eftir 0,1034080% og þann 23. desember 1997 hafi verið flutt á Júlíus Geirmundsson 0,0977415%.  Eftir standi þá 0,0056665% og sé það óbreytt í lok fiskveiðiárs, 31. ágúst 1998.  Daginn eftir hafi hlutdeildin lækkað um stuðulinn 0,9982531 vegna svokallaðs byggðakvóta í 0,0056566%.  Þann 1. september 1999 hafi hún síðan lækkað um breytingarstuðulinn 0,8634293, „vegna krókabáta“, þannig að eftir standi af hlutdeildinni 0,0048841%.  Af hálfu stefndu hefur þessari reifun ekki verið hnekkt.  Yfirlýsing stefnanda um 130 tonn, sem stefndu vísa til, er í bréfi til Básafells hf., dags. 21. júlí 1997 og virðist varða eftirstöðvar aflamarks fiskveiðiársins 1996/1997.  Er ekki hald í þeirri málsástæðu stefndu að sýkna eigi þá með vísan til þess að stefnandi hafi þegar ráðstafað allri þeirri þorskaflahlutdeild sem hann fékk geymda á skipi stefnda Tálkna ehf.

Eins og rakið er hér að framan fékk stefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. aflaheimildir sem stefndi Tálkni ehf. geymdi á Bjarma, sknr. 1318, samkvæmt samningi við stefnanda, afhentar ásamt skipinu sem stofnframlag.  Þar sem gerð er sérstök athugasemd í skýrslu endurskoðanda, sem var hluti af stofnsamningi, um vistun aflaheimilda í eigu stefnanda á skipinu, þykir ljóst að fyrirsvarsmönnum stefnda hafi verið kunnugt, eða átt að vera það, um rétt stefnanda til þessara aflaheimilda á grundvelli samnings stefnanda og stefnda Tálkna ehf.  Réttindi þau sem felast í varanlegri aflahlutdeild eru bundin við skip, en framseljanleg milli þeirra, sbr. 7. og 11. gr. laga nr. 38/1990, með síðari breytingum.  Þar sem rétt­indin eru bundin við skip, verður ekki á það sjónarmið stefnda Út­gerðar­félagsins Tálkna ehf. fallist að stefnanda hefði aðeins verið mögulegt að höfða mál gegn honum til afhendingar þeirra.  Stefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. hefur ekki viljað ljá nauðsynlegan atbeina sinn til flutnings þessara aflaheimilda á skip sem stefn­andi hefur vísað til, þrátt fyrir að honum hafi verið kunnugt um rétt stefnanda til þeirra.  Þykir hann með því hafa bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda, þótt ekki hafi verið samningssamband á milli þeirra. 

Stefndi Tálkni ehf. hefur ekki efnt að fullu loforð sitt samkvæmt nefndri yfirlýsingu um geymslu aflahlutdeildar fyrir stefnanda um að aflahlutdeildin skuli vera honum til frjálsrar ráðstöfunar, hvenær sem er,  en ráðstafað skipi því sem aflahlutdeildin var vistuð á til annars aðila, án þess að gefa stefnanda kost á að færa hana áður á annað skip.  Hefur hann með þessari vanefnd bakað sér bóta­skyldu gagnvart stefnda.  Samkvæmt þessu verða stefndu dæmdir sam­eigin­lega til að bæta stefnanda tjón hans af því að hafa ekki fengið aflaheimildir sínar til ráð­stöfunar.

Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar tölulega svo:

1.  Óveidd aflahlutdeild (209.108x0,0488441x0,84) = 10.220x kr. 950 kr. 9.709.000

2.  Aflamark 97/98 (182.698x0,0056665x0,84) = 10.350x kr. 81,66kr.845.181

3.  Aflamark 98/99 (210.625x0,0056566) = 11.910x kr. 99,22kr.1.181.710

Samtals kr.11.735.891

Ekki verður á það fallist með stefndu að stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt með því að festa kaup á aflaheimildum annars staðar og stefndu hafa ekki fært fram önnur rök fyrir varakröfu sinni.  Kemur hún því ekki sérstaklega til álita.

Ekki er sérstakur ágreiningur um magntölur aflaheimilda í ofangreindri sundur­liðun, en ágreiningur er um verðmæti þeirra, einkum við hvaða tímamark skuli miða ákvörðun þess og einnig um það hvenær dráttarvextir af bótum skuli reiknast. 

Þrautavarakrafa stefndu er á því reist að bæta eigi stefnanda aflahlutdeild hans miðað við það verð sem hann gat fengið fyrir hana við sölu til Gunnvarar hf. í nóvember árið 1997.  Til þess verður að líta að hlutdeildin var ekki framseld honum þá og þykja stefndu, annar hvor eða báðir, ekki eiga að hagnast á því að stefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. hefur haldið henni.  Þykir stefnanda því heim­ilt að miða bótakröfu sína við verðlag hlutdeildarinnar sem næst þeim tíma er bóta­krafan var sett fram.   Má einnig hafa hér í huga að samkvæmt bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 24. janúar 2000 átti stefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. enn þess kost að færa aflahlutdeild stefnanda yfir á skip sem hann vísaði til.  Verðmæti hlutdeildarinnar sem stefnandi miðar við, kr. 950 pr. kg. er reist á verð­matshugmyndum Kvótamiðlunar LÍÚ á aflahlutdeild ásamt aflamarki þ. 20. desember 1999, sem þar er greind frá kr. 955 pr. kg. til kr. 1.000 pr. kg.  Þykir með vísun til þessa mega miða bætur við kr. 950 pr. kg., eins og stefnandi krefst.

Þá verða stefndu einnig dæmdir til að bæta stefnanda andvirði aflamarks sem úthlutað var til stefnda Útgerðarfélagsins Tálkna ehf. fiskveiðiárin 97/98 og 98/99 á grundvelli aflahlutdeildar stefnanda og miða verður við að stefndi Útgerðarfélagið Tálkni ehf. hafi nýtt sér.  Er verðmæti þess hér að ofan reiknað samkvæmt upplýsingum Kvótaþings um vegið verð á þorskaflamarki, kr. 81,66 á kg. fiskveiðiárið 97/98 og kr. 99,22 á kg. fiskveiðiárið 98/99.

Stefnandi kveðst krefjast dráttarvaxta af bótum fyrir aflahlutdeild frá 13. febrúar 2000, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að krafa um greiðslu bóta var sett fram.  Er þar vísað til bréfs lögmanns stefnanda 13. janúar 2000 til annars lögmanns sem gætti Básafells hf., sem samkvæmt því sem að framan er rakið mun vera annar aðaleigenda stefnda Útgerðarfélagsins Tálkna ehf.  Sjá má af gögnum máls að sá lögmaður hefur skömmu síðar komið kröfunni til vitundar fyrir­svarsmanns stefnda Útgerðarfélagsins Tálkna ehf.   Þykir mega heimila stefnanda að reikna dráttarvexti frá greindum degi af bótum fyrir aflahlutdeild.  Ekki verður séð að bóta hafi verið krafist fyrir aflamark fyrr en samhliða því að bóta var krafist fyrir aflahlutdeild.  Samkvæmt því og með vísun til 15. greinar vaxtalaga nr. 25/1987 þykir eiga að miða upphafstíma dráttarvaxta af bótum fyrir aflamark við sama tímamark.

Samkvæmt ofansögðu verða stefndu dæmdir til að greiða sameiginlega bætur til stefnanda kr. 9.709.000 fyrir aflahlutdeild, kr. 845.181 fyrir aflamark fiskveiðiársins 97/98 og kr. 1.181.710 fyrir aflamark fiskveiðiársins 98/99, samtals kr. 11.735.891, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 13. febrúar árið 2000 til greiðsludags.

Eftir þessum málsúrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst kr. 750.000.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndu, Tálkni ehf. og Útgerðarfélagið Tálkni ehf., greiði sameiginlega stefnanda, Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar hf., kr. 11.735.891, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 13. febrúar árið 2000 til greiðsludags og kr. 750.000 í málskostnað.