Hæstiréttur íslands
Mál nr. 198/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
|
|
Fimmtudaginn 26. apríl 2012. |
|
Nr. 198/2012.
|
Hansína B. Einarsdóttir (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn Hvalfirði hf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Aðför.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem sýslumaður hafði gert í tilteknum munum H að kröfu H hf. Hæstiréttur vísaði til þess að H hefði mótmælt því að hún ætti alla þá muni sem H hf. hafði bent á til fjárnáms og að sýslumanni hefði við svo búið borið að kanna hverjir þeirra væru í eigu H. Það hefði sýslumaður ekki gert heldur hefði hann gert fjárnám í öllum áðurgreindum munum. Var fjárnámið því fellt úr gildi í heild sinni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Borgarnesi gerði hjá henni 2. september 2011. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreint fjárnám, sem gert var að kröfu varnaraðila, verði fellt úr gildi. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með aðfararbeiðni 18. ágúst 2011 óskaði varnaraðili eftir að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila og eiginmanni hennar Jóni Rafni Högnasyni til tryggingar skuldar að höfuðstól 11.285.846 krónur. Um aðfararheimild vísaði varnaraðili til dómsáttar. Umrædd sátt, dagsett 29. júní 2010, er milli Arion banka hf. annars vegar og sóknaraðila, Jóns Rafns Högnasonar, Sævars Þórs Sigurgeirssonar og Jóns Guðmundssonar hins vegar. Kveðst varnaraðili hafa fengið dómsáttina framselda gegn fullri greiðslu kröfu samkvæmt henni. Er sáttin árituð með svofelldum hætti af hálfu Arion banka hf.: „Uppgreitt þann 01.06.2011 greiddi Hvalfjörður hf. ... kr. 11.285.846.“ Jafnframt er meðal gagna málsins yfirlýsing um framsal 31. ágúst 2011 þar sem Arion banki hf. framselur varnaraðila kröfu sína samkvæmt áðurgreindri réttarsátt.
Þann 2. september 2011 tók sýslumaðurinn í Borgarnesi fyrir tvö aðfararmál á grundvelli áðurgreindrar aðfararbeiðni og var sóknaraðili gerðarþoli í öðru þeirra en eiginmaður hennar Jón Rafn Högnason í hinu, sbr. dóm Hæstaréttar í dag í máli nr. 197/2012. Var bókað við báðar gerðirnar að gerðarbeiðandi, varnaraðili þessa máls, legði fram lista dagsettan 2. september 2011 með hlutum sem bent væri á sem andlag aðfarar. Á þessum lista voru 23 nánar tilgreindir munir sem gerðarbeiðandi taldi í sínum vörslum, staðsetta í húsakynnum Hótels Glyms, en heildarverðmæti þeirra væri að lágmarki 1.500.000 krónur. Ekki eru nær samhljóða bókanir í báðum gerðunum um eignarhald á þessum munum með öllu skýrar, en þó er ljóst að af hálfu sóknaraðila var gerðinni mótmælt meðal annars á grundvelli þess að hún væri ekki eigandi allra muna á listanum og sams konar mótmæli voru höfð uppi af hálfu Jóns Rafns í gerðinni sem að honum beindist. Sýslumaður bókaði að mótmæli sóknaraðila næðu ekki fram að ganga og gerði í framhaldi þess fjárnám í öllum munum á listanum til tryggingar kröfum á hendur sóknaraðila. Sama dag gerði hann fjárnám til tryggingar kröfum á hendur Jóni Rafni í sömu munum.
Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989 má gera fjárnám til fullnustu greiðslu peningakröfu í eignum sem tilheyra gerðarþola eða öðrum sem sjálfur býður þær til fjárnáms. Fyrir héraðsdómi skoraði varnaraðili á sóknaraðila að upplýsa og tilgreina hverja af þeim 23 munum sem voru andlag fjárnámsins hún teldi sig eiga. Varð sóknaraðili við þeirri áskorun í þinghaldi 24. janúar 2012. Af því sem eftir henni er þar bókað verður ráðið að hún telji sig eiga 15 af þeim munum sem fjárnámið tók til, einn sé í sameign þeirra hjóna, en aðra eigi Jón Rafn utan einn sem ekki sýnist upplýst um eignarhald á. Þegar fram komu við aðförina 2. september 2011 mótmæli af hálfu sóknaraðila þess efnis að hún ætti ekki alla þá muni sem varnaraðili benti á til fjárnáms bar sýslumanni að kanna hverjir þeirra væru í eigu sóknaraðila, meðal annars með því inna hana eftir því hverja þeirra hún teldi sig eiga, og beina fjárnáminu að þeim munum einum. Þessa gætti sýslumaður ekki og er því óhjákvæmilegt að fella fjárnámið úr gildi í heild sinni.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fellt er úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Borgarnesi gerði hjá sóknaraðila, Hansínu B. Einarsdóttur, 2. september 2011.
Varnaraðili, Hvalfjörður hf., greiði sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2012.
Mál þetta var þingfest 4. október 2011 og tekið til úrskurðar 24. janúar 2012. Sóknaraðili er Hansína B. Einarsdóttir til heimilis að Hæðarbyggð 1, 301 Akranesi, en varnaraðili er Hvalfjörður hf., til heimilis að Skipholti 50D, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að fjárnámsgerð sýslumannsins í Borgarnesi nr. 013-2011-258, sem fór fram á heimili gerðarþola hinn 2. september 2011 að kröfu varnaraðila, verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda, varnaraðila máls þessa, að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og fjárnámið verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
I.
Af hálfu sóknaraðila segir að aðfararbeiðni varnaraðila virðist byggja á réttarsátt, sbr. framsalsskjal dagsett 31. ágúst 2011, og að sýslumaður virðist telja að umrædd réttarsátt hafi verið framseld með öllum réttindum, þ.m.t. beinni aðfararheimild samkvæmt 3. tl. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Réttarsáttin sé gerð við Arion banka hinn 29. júní 2010 þar sem fjórir nafngreindir aðilar lofi, in solidum, að greiða bankanum tilgreinda upphæð. Samkvæmt áritun á réttarsáttina sé hún greidd upp hinn 1. júní 2011 af varnaraðila. Sú uppgreiðsla beri ekki með sér neitt sérstakt framsal á réttarsáttinni, heldur einvörðungu fullnaðaruppgjör á kröfunni hinn 1. júní 2011 með greiðslu að fjárhæð 11.285.846 kr.
Það sé því ljóst að Arion banki hafi ekki átt aðild að málinu þegar framsal á réttarsáttinni hafi átt sér stað, enda hafi krafan þá þegar verið greidd að fullu, án framsals á réttaráhrifum réttarsáttar. Þegar af þessari ástæðu beri að ógilda aðförina.
Ljóst sé að upptalning 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 um heimild til aðfarar sé tæmandi talin og þar sé ekki að finna heimild til handa þeim sem greiða upp kröfur til þess að leita aðfarar án undangengins dóms. Samkvæmt meginreglu kröfuréttarins sé hlutverki kröfunnar lokið við greiðslu hennar.
Markmið kröfuréttinda sé að greiðsla sú sem sé efni kröfunnar fari fram. Þegar sú greiðsla hafi farið fram sé hlutverki kröfunnar lokið og henni sjálfri um leið lokið. Þar af leiði að hvorki sé hægt að fara í aðför né heldur að framselja kröfu sem sé greidd og sé því þannig niður fallin. Framsalsskjal dagsett 30. ágúst sl. geti því ekki verið annað en marklaust plagg.
Í 2. gr. aðfararlaga sé tekið á því hver geti orðið gerðarbeiðandi. Þar segi að það sé sá sem aðfararheimild beri með sér að sé rétthafi. Gerðarbeiðandi sé því sá sem eigi réttindi eftir aðfararheimildinni sjálfri. Ákvæði þetta sé ekki opið til túlkunar, heldur beri að túlka það þröngt og fara nákvæmlega eftir heimildarskjali.
Þá sé byggt á að umrædd ábyrgð sé þegar uppgerð á milli varnaraðila, sóknaraðila og svo eigenda varnaraðila, sem séu meðskuldarar samkvæmt dómssáttinni. Samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 30. september 2010, samkomulagi dagsettu 27. janúar 2011 og mjög svo afdráttarlausri áritun á dómssáttinni sé ljóst að varnaraðili sé ekki í góðri trú um réttmæti aðgerða sinna. Ljóst sé að sóknaraðili hafi afsalað sér eignarhlut sínum í félaginu JRH ehf. (rekstrarfélag Hótels Glyms) m.a. vegna ábyrgðar þeirrar sem hér um ræði. Sé ágreiningur um gildi þess uppgjörs eigi hann heima fyrir dómstólum fremur en hjá sýslumanni en um það hafi sýslumaður gefið yfirlýsingu. Ströng og ófrávíkjanleg skilyrði valdbeitingar sem þessarar séu sett öðrum þræði til þess að vernda gerðarþola fyrir ósanngjörnum og óræðum kröfum. Meginreglan sé sú að dómstólar skeri úr um ágreining manna á milli. Varnaraðili sem hafi greitt kröfuna án nokkurs framsals geti hæglega stefnt málinu og fengið skorið úr því fyrir dómi hvort hann eigi endurkröfurétt á hendur sóknaraðila eða öðrum ábyrgðarmönnum.
Því er svo haldið fram að varnaraðili sé með aðför þessari að fara gegn betri vitund, og með því að skapa sér betri rétt en hann raunverulega eigi.
Þá sé einnig byggt á því að ógilda beri fjárnám í lista hluta og húsmuna. Á því er byggt að áskilin sérgreining sé ekki nægjanleg, sbr. m.a. 37. gr. l. nr. 90/1989. Fjárnám í safni af hlutum þar sem verðmæti hvers hlutar sé ekki skilgreint sé einfaldlega ekki heimilt auk þess að eignarhald þurfi að liggja ljóst fyrir. Af þeim lista sem fjárnám hafi verið gert í verði ekki með nokkru móti ráðið hvert sé verðmæti einstakra hluta né hver sé eigandi þeirra, og þá hjá hverjum sé verið að gera fjárnám í hverju tilviki. Af þessari ástæðu beri að ógilda aðförina.
Aukinheldur sé gert fjárnám í innbúi sóknaraðila en ekkert á umræddum lista geti talist til óhóflegs innbús. Það liggi fyrir í málinu að sóknaraðili hafi átt heimili á Hótel Glym fram til loka árs 2010 og hafi þá gert samning um að hluti innbús yrði áfram til notkunar á staðnum, sbr. m.a. samning frá 27. janúar sl. Meginreglan sé sú að ekki verði gert fjárnám í hlutum sem séu ætlaðir til látlauss heimilishalds, sbr. 43. gr. aðfararlaga. Þá sé ekki heimilt að gera fjárnám í hlutum sem hafi persónulegt gildi fyrir viðkomandi, sbr. 1. tl. sömu gr., en allir þeir hlutir sem á listanum séu hafa slíkt gildi ásamt því að hafa lítið sem ekkert fjárhagslegt gildi eða að meðaltali, samkvæmt varnaraðila, 65.217 krónur á hvern hlut.
Með vísan til alls framangreinds er þess krafist að aðfarargerð sýslumannsins í Borgarnesi, sem fór fram á heimili sóknaraðila þann 2. september 2011 að kröfu Hvalfjarðar hf., verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda, varnaraðila máls þessa, að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
Um lagarök fyrir kröfum sínum vísar sóknaraðili m.a. til meginreglna samninga- og kröfuréttar um framsal kröfuréttinda og efndir samninga, meginreglu aðfararlaga nr. 90/1989 um aðild aðfarar, reglna um aðfararhæfi og andlag aðfarar. Um heimild til málskots til héraðsdóms vísast til ákvæða 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.
II.
Af hálfu varnaraðila segir að áður en Arion banka hafi verið greidd fjárhæð vegna sáttarinnar hafi verið búið svo um hnútana að sáttin skyldi framseld varnaraðila. Hafi Einar Steingrímsson hæstaréttarlögmaður komið að þeirri samningsgerð og átt í samskiptum við bankann eins og fram komi í greinargerð. Varnaraðili hafi greitt fjárhæðina með millifærslu úr netbanka á reikning Arion banka. Varnaraðili hafi ekki verið skuldarinn þannig að hann hafi ekki verið að greiða neina kröfu. Hann hafi verið að greiða kaupverð kröfunnar í samræmi við það sem samið hefði verið um. Klaufalegt orðalag á frumriti sáttarinnar breyti engu, enda hafi Arion banki ekki getað kvittað út kröfu sem hann hafi verið búinn að selja og kaupverðið verið greitt. Í samræmi við réttar staðreyndir máls hafi Arion banki gefið út framsalsyfirlýsingu. Hún hafi átt að staðfesta það sem þegar hafði verið ráðgert og umsamið áður en greiðsla fór fram. Við framsalið hafi öll réttindi skv. sáttinni runnið til varnaraðila.
1. Því er mótmælt sem hreinum skáldskap að krafan sé uppgerð milli aðila.
2. Ekki þurfi að fjölyrða um að skýrt og ljóst sé í hvaða munum fjárnámið hafi verið gert. Skýrt komi fram í endurriti að gert hafi verið fjárnám hjá sóknaraðila og tilteknir munir teknir fjárnámi. Hafi verið gert fjárnám í munum sem sóknaraðili telji sig ekki eiga sé það þriðja manns að krefjast ógildingar fjárnámsins af þeim sökum, ekki sóknaraðila sjálfs.
3. Ekki sé um venjulegt innbú að ræða þar sem þetta sé ekki hluti af innbúi sóknaraðila. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að um innbú sitt sé að ræða. Þetta séu munir sem eru á hóteli. Af ummælum í bréfi til héraðsdóms verði ekki annað ráðið en að sóknaraðili telji sig eiga alla munina fyrst hann telji þetta heimilismuni sína.
4. Vakin sé athygli á að sóknaraðili hafi sjálfur verið viðstaddur gerðina og telji sig eiga alla munina. Hann geti því ekki mótmælt því að eitthvað sé deilt um eignarhaldið.
III.
Varnaraðili byggir á því að hann hafi fengið framselda réttarsátt sem gerð var með Arion banka hf. og fjórum nafngreindum aðilum, þar á meðal sóknaraðila. Á endurrit sáttarinnar sem lögð var fram við aðfarargerð þá sem hér er krafist ógildingar á hefur verið ritað:
„Uppgreitt
Þann 01.06.2011 greiddi Hvalfjörður hf.,
kt. 700300-3310 kr. 11.285.846.
Arion banki hf.
Lögfræðideild kt. 581008-0150“
Þá lagði varnaraðili á sama tíma fram yfirlýsingu Arion banka hf., dagsetta 31. ágúst, þess efnis að bankinn framselji Hvalfirði hf. kröfu samkvæmt fyrrgreindri sátt.
Loks er þess að geta að varnaraðili lagði fram við meðferð málsins fyrir dómi staðfestingu frá Arion banka hf. þess efnis að krafa Arion banka hf. samkvæmt réttarsáttinni hafi verið framseld til varnaraðila, greiðsla hefði farið fram 1. júní 2011 í samræmi við samkomulag aðila og framsalið skjalfest með yfirlýsingunni frá 31. ágúst 2011.
Dómari telur að gögn þessi nægi til þess að fallist verði á það með varnaraðila að hann hafi haft í hendi gilda aðfararheimild í umrætt sinn og verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að aðfarargerð frá 2. september 2011 verði dæmd ógild.
Sóknaraðili heldur því fram að við fjárnámið hafi ekki verið fullnægt skilyrðum 37. gr. laga nr. 90/1989 þar sem áskilin sérgreining munanna sé ekki nægjanleg, né liggi ljóst fyrir hver hafi átt umrædda muni. Samkvæmt 37. grein laganna er heimilt að gera fjárnám í lausafé, hafi það fjárhagslegt gildi og hægt sé að afmarka það nægilega til að öðrum verði ljóst hvað um ræðir. Samkvæmt endurriti úr gerðabók um aðfarargerðir sýslumannsins í Borgarnesi kemur skýrt fram í hvaða hlutum var gert fjárnám og ljóst hvað um ræðir. Undir rekstri málsins fyrir dómi var tilgreint nánar hverjir væru eigendur umræddra muna. Sóknaraðili heldur því einnig fram að munir þeir sem teknir voru fjárnámi falli undir undanþáguákvæði 43. gr. laga nr. 90/1989 þar sem munirnir teljist ekki til óhóflegs innbús og allir hafi þeir persónulegt gildi. Í undanþáguákvæðum 43. gr. er gerð sú krafa að munirnir séu nauðsynlegir til að halda látlaust heimili og hafi verulegt minjagildi. Í gögnum málsins eru umræddir hlutir skilgreindir af sóknaraðila sem hlutir sem séu til brúks og afnota á Hótel Glym. Því verður ekki séð að þessir munir falli undir ofangreind ákvæði. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á nauðsyn þessara muna við látlaust heimilishald, né hvert minjagildi munanna er. Ekki þykja slíkir annmarkar á gerðinni að valdi ógildingu hennar.
Samkvæmt framansögðu verður ekki tekin til greina krafa sóknaraðila um að fjárnámið sem gert var hjá honum að kröfu varnaraðila verði fellt úr gildi.
Eftir þessum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er til þess litið að samhliða máli þessu er rekið mál vegna sömu atvika.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Við uppsögu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Hansínu B. Einarsdóttur, um að fellt verði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Borgarnesi gerði hjá sóknaraðila 2. september 2011.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.