Hæstiréttur íslands
Mál nr. 532/2011
Lykilorð
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2012. |
|
Nr. 532/2011.
|
Þrotabú Icarusar ehf. (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn EA fjárfestingarfélagi ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Málsástæður.
Þrotabú I ehf. krafðist riftunar á greiðslu skuldar þrotamanns á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ekki varð séð að héraðsdómari hefði tekið rökstudda afstöðu til allra málsástæðna þrotabúsins. Af þeim sökum og með vísan til f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var dómurinn haldinn slíkum annmörkum að ekki varð hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2011. Hann krefst þess að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu Icarusar ehf., áður Saxbygg ehf., á 56.468.500 krónum inn á skuld við stefnda 24. nóvember 2008 með hlutabréfum í stefnda sjálfum að nafnvirði 5.203.352 krónur samkvæmt leiðréttingu 6. janúar 2009. Jafnframt krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 56.468.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. nóvember 2008 til greiðsludags. Verði upphafstími dráttarvaxta miðaður við síðara tímamark krefst áfrýjandi vaxta samkvæmt 4. gr. sömu laga til þess dags en að því frágengnu samkvæmt 8. gr. laganna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í málatilbúnaði sínum byggir áfrýjandi kröfuna um riftun aðallega á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Byggir áfrýjandi á því annars vegar að skuld við stefnda hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri og hins vegar að greiðslan hafi skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Ekki verður séð að héraðsdómari hafi tekið rökstudda afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjanda sem lýtur að því að hin umdeilda greiðsla hafi skert greiðslugetu Saxbyggs ehf. verulega. Af þeim sökum og með vísan til f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómurinn haldinn slíkum annmörkum að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí 2011, var þingfest 21. janúar 2010.
Stefnandi er þrotabú Icarusar ehf. (áður Saxbygg ehf.), Borgartúni 33, Reykjavík.
Stefndi er EA fjárfestingarfélag hf., áður MP Banki hf., Skipholti 50d, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi gerir eftirtaldar dómkröfur á hendur stefnda:
1. Að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu stefnanda á 56.468.500 krónum inn á skuld við stefnda, hinn 24. nóvember 2008, með hlutabréfum í stefnda sjálfum að nafnvirði 5.203.352 krónur samkvæmt leiðréttingu, dags. 6. janúar 2009.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 56.468.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. nóvember 2008 til greiðsludags. Verði upphafstími dráttarvaxta miðaður við síðara tímamark er krafist vaxta samkvæmt 4. gr. sömu laga til þess dags en til þrautavara samkvæmt 8. gr. s.l.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málavextir
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 15. maí 2009,var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta. Lögmaður stefnanda var skipaður skiptastjóri búsins. Innköllun til kröfuhafa var gefin út 18. maí 2009 og birtist hún í fyrsta sinn í Lögbirtingablaði 26. maí 2009. Frestdagur við skiptin er 14. maí 2009, er Héraðsdómi Reykjavíkur barst krafa stjórnar félagsins um gjaldþrotaskipti. Kröfulýsingarfresti í þrotabúið lauk 27. júlí 2009 og var fyrsti skiptafundur þess haldinn 19. ágúst s.á.
Stefnandi, Icarus ehf. (áður Saxbygg ehf.), var stofnað í maí 2004 og voru hluthafar þess Saxhóll ehf. og Bygg Invest ehf. Stefnandi var fjárfestingafélag með áherslur bæði á erlendum og innlendum vettvangi. Tilgangur félagsins, eins og honum var lýst í samþykktum félagsins, var fjárfestingar í verðbréfum og þátttaka í fasteignaverkefnum. Stefnandi kveður félagið hafi verið rekið með stórfelldu tapi árið 2008. Í kröfu stjórnar um gjaldþrotaskipti komi fram að skuldir félagsins í árslok 2008 hafi numið 12.571.086.000 krónum. Af hálfu stefnda er þessari fullyrðingu mótmælt.
Hinn 21. ágúst 2008 gerðu aðilar með sér skiptasamning, nr. 2007-209-2-5, með gjalddaga þann 21. nóvember 2008. Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi greiða stefnda í bandarískum dollurum, gegn afhendingu stefnda á tilteknum fjármálagerningum. Undirliggjandi verðmæti voru nánar tiltekið, hlutabréf í félaginu Open Joint Stock Holding Company „Glavmosstroy“, með auðkennið GMST RU eða alls 2000 hlutir. Til tryggingar réttum efndum samningsins skyldi stefnandi setja stefnda að veði reiðufé og/eða markaðshæf og/eða skráð verðbréf samkvæmt ákvæðum skiptasamningsins.
Fyrir hafði stefnandi gefið út handveðsyfirlýsingu til handa stefnda, dags. 15. nóvember 2007, til tryggingar skaðlausum og skilvísum greiðslum á öllum skuldbindingum hans við stefnda, hvaða nafni sem nefnast. Í yfirlýsingunni greinir að stefnandi setji stefnda að veði, með 1. veðrétti nánar tiltekið verðbréfasafn, samkvæmt meðfylgjandi viðskiptayfirliti, dags. sama dag, auk allra fjármálagerninga sem stefnandi sem veðsali eigi og muni eignast og varðveittir séu á VS-reikningi veðsala og/eða tilteknum verðbréfareikningi veðsala hjá stefnda eins og staða reikninganna sé hverju sinni. Að auki var samkvæmt samningnum sett að veði innstæða stefnanda á reikningi nr. 306-26-053652.
Meðal undirliggjandi verðmæta í tilgreindu verðbréfasafni stefnanda voru hlutabréf í MP banka, stefnda sjálfum, eða 150.000.000 hlutir. Um var að ræða bréf sem tekin höfðu verið til rafrænnar eignaskráningar, svokölluð rafbréf, sbr. lög nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu rafbréfa (rev). Látið var við það sitja að undirrita umræddan handveðsamning, en réttindi stefnda að umræddum bréfum skv. handveðsamningnum ekki tilkynnt til verðbréfamiðstöðvar og kom veðsetningin því ekki fram í kerfum Verðbréfaskráningar.
Hinn 21. nóvember 2008 var framangreindur skiptasamningur á gjalddaga. Var skuld stefnanda við stefnda þá 61.831.856 krónur, eða sem nemur mismun á skuldbindingu stefnanda og stefnda samkvæmt samningnum á lokadegi hans.
Stefnandi kveður Saxbygg ehf. hafa verið komið í afar erfiða fjárhagsstöðu á þessum tíma, svo sem glögglega megi ráða af ársreikningi vegna ársins 2008. Samkvæmt honum hafi skuldir stefnanda við árslok 2008 numið 12.571.086.000 krónum og tap af rekstri stefnanda á árinu 23.579.868.000 krónum.
Icarus ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stjórnar félagsins 15. maí 2009. Samkvæmt kröfuskrá í þrotabú stefnanda, námu lýstar kröfur í búið 13.229.321.419 krónum. Allt voru þetta skuldir sem stofnað hafði verið til áður en gjalddagi framangreinds skiptasamnings var kominn. Endanlegar samþykktar kröfur námu 13.216.628.482 krónum.
Hinn 24.11.2008 gerðu aðilar með sér samkomulag um uppgjör á skuldum stefnanda við stefnda. Samkvæmt samkomulaginu var skuld stefnanda gerð upp með þeim hætti að stefndi tók við hlutabréfum í MP Banka að nafnvirði 5.500.000 krónur á genginu 10,267 þann 24.11.2008, auk þess sem stefndi skuldfærði af reikningi stefnanda nr. 0306-26-053652 5.363.356 krónur yfir á eigin reikning. Í samræmi við samkomulagið leysti stefndi þá 4.500.000 hluti stefnanda í stefnda sem eftir stóðu úr veðböndum að uppgjörinu loknu.
Í janúar 2009 voru viðskipti þau er framkvæmd voru þann 24.11.2008 (innlausn stefnda á eigin bréfum) bakfærð, að því er virðist vegna leiðréttingar viðmiðunargengis og þar með innlausnarverðsins, samkvæmt samkomulagi um breytingu á uppgjöri sem varð á milli aðila þann 31. desember 2008, eins og ráða má af tölvupóstsamskiptum aðila er áttu sér stað í ársbyrjun 2009. Hinn 6. janúar 2009 voru því ný viðskipti skráð með þeim hætti að stefndi leysti til sín hluta af eigin bréfum að nafnvirði 5.203.352, í stað 5.500.000 áður, þá miðað við að gengi bréfanna væri 10,852331, eða andvirði sem nemi 56.468.500 krónum. Hlutabréfaeign stefnanda í stefnda að þeim viðskiptum loknum, hinn 6. janúar 2009, var 4.796.648 hlutir.
Með bréfi, dags. 16. nóvember 2009, tilkynnti undirritaður skiptastjóri stefnda um riftun á uppgjörinu með vísan til 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotalaga, að því leyti er laut að viðtöku stefnda á eigin hlutum, og gerði jafnframt kröfu um endurgreiðslu á 56.468.500 krónum. Í bréfi sínu til stefnanda, dags. 17. nóvember 2009, hafnaði stefndi því að um riftanlega ráðstöfun væri að ræða. Segir þar að stefndi geti ekki litið svo á að greiðsla á skuld með afhendingu á veðsettri eign, sem standa eigi til tryggingar skuldar, geti talist óvenjuleg. Þá verði ekki séð að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni við uppgjörið, þar sem greiðsla hafi átt sér stað með veðsettum eignum.
Þar sem stefndi hefur hafnað því að um riftanlega ráðstöfun hafi verið að ræða, og af þeim sökum ekki orðið við ofangreindum kröfum skiptastjóra, telur stefnandi málssókn þessa óhjákvæmilega.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst reisa riftunarkröfu sína aðallega á 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 (hér eftir skammstöfuð gþl.), og endurgreiðslukröfu á 142. gr. sömu laga.
Í 134. gr. gþl. sé heimiluð riftun á greiðslu skuldar ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem úrslitum réð um gjaldfærni þrotamanns, nema greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Skilyrðin séu sjálfstæð svo nægjanlegt sé að einu þeirra sé fullnægt. Reglan sé hlutlæg, sett til að skapa greiða leið til að rifta greiðslum á skuldum sem inntar eru af hendi með þeim hætti að almennt megi ætla að eitthvað sé athugavert við ráðstöfunina og ætla megi að hún hafi ekki verið gerð, a.m.k. ekki með þeim hætti sem raun varð á, ef fjárhagur skuldara hefði verið eðlilegur.
Að mati stefnanda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Um sé að ræða greiðslu stefnanda til stefnda sem átt hafi sér stað innan sex mánaða fyrir frestdag. Í fyrsta lagi hafi skuld stefnanda ekki verið greidd með peningum, eins og samningur aðila hafi gert ráð fyrir. Greiðsla skuldarinnar hafi verið innt af hendi með þeim hætti að stefndi leysti til sín eigin hluti, hlutabréf í fjármálafyrirtæki, sem teljist óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Ekki hafi verið um það að ræða að viðtaka stefnda á umræddum bréfum væri gerð í viðskiptalegum tilgangi, heldur eingöngu til þess að ganga til greiðslu á skuld stefnanda, svo sem bréf stefnda til skiptastjóra, dags. 17. nóvember 2009, beri með sér. Greiðslan hafi verið innt af hendi með þessum hætti þar sem aðrir kostir hafi ekki verið til staðar vegna bágrar fjárhagsstöðu stefnanda og hafi verið tekið við umræddum bréfum án vonar um að geta selt þau öðrum hærra verði.
Leiða megi að því líkur að það sé eitt af því síðasta sem fjármálafyrirtæki æskja, ekki síst á þeim tíma sem greiðsla þessi var innt af hendi, að kaupa hlutabréf í sjálfu sér, í upphafi einnar mestu niðursveiflu á fjármálamörkuðum sem um geti. Þá beri að nefna í fyrsta lagi að takmarkanir séu gerðar á því í lögum hversu mikið hlutafé fjármálafyrirtæki megi eiga í sjálfu sér, sbr. 29. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. og 55. gr. laga nr. 2/1995. Í annan stað megi benda á reglur í X. kafla laga nr. 161/2002, um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Fjármálafyrirtæki, líkt og í tilviki stefnda, hafi tæpast nokkurn tíma ástæðu til að kaupa eigin hluti, nema slíkt sé gert í viðskiptalegum tilgangi. Í þessu tilviki liggi og fyrir að bankinn telur sig ekki hafa haft slíkan hag af viðskiptunum og ljóst að eini tilgangurinn hafi verið að fá skuld stefnanda greidda, skuld sem ekki var unnt að fá greidda með öðrum hætti, þar sem stefnandi stefndi hraðbyri í greiðsluþrot.
Stefndi hafi mótmælt því að um óvenjulega ráðstöfun hafi verið að ræða, sbr. framangreint bréf stefnda til skiptastjóra, og telur að um hafi verið að ræða fullnustu kröfu með veðsettum eignum. Á það geti stefnandi ekki fallist.
Stefndi byggi á handveðsyfirlýsingu, þar sem vísað sé til 22. og 43. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð (hér eftir skammstöfuð svl.). Þar sem handveðsyfirlýsingin fullnægi ekki ákvæðum laga um samningsveð hafi stefndi ekki átt veðréttindi yfir bréfum þeim er hann veitti viðtöku samkvæmt samkomulagi aðila hinn 24. nóvember 2008.
Í 22. gr. svl. sé fjallað um handveð, stofnun þess og réttarvernd. Hana verði að skoða í ljósi 43. gr. s.l. þar sem fram komi að ákvæði 2.-4. mgr. 22. gr. laganna gildi um handveðsetningu viðskiptabréfa. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. svl. öðlist handveðsréttur ekki réttarvernd fyrr en eigandinn hafi verið sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Slík svipting hafi aldrei farið fram í tilviki stefnanda.
Ákvæði 2. mgr. 22. gr. svl. verði að skýra í tengslum við 43. gr. laganna en samkvæmt þeirri grein, er fjalli um sjálfsvörsluveðrétt, segi að til þess að sjálfsvörsluveðréttur í viðskiptabréfi öðlist réttarvernd verði að árita bréfið sjálft um veðsetninguna. Því sé ekki haldið fram af hálfu stefnda að um sjálfsvörsluveð hafi verið að ræða, enda færi áritun samkvæmt ákvæðinu, í þeim tilvikum sem um sé að ræða rafbréf, fram með tilkynningu/beiðni reiknistofnunar til verðbréfamiðstöðvar um skráningu réttindanna þar, sbr. 16. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa (rev). Hins vegar taki ákvæði 43. gr. svl. af allan vafa um að ákvæði 2. 4. mgr. 22. gr. svl. gildi um handveðsetningu viðskiptabréfa.
Stefndi hafi látið undir höfuð leggjast að senda beiðni, samkvæmt 16. gr. rev., um skráningu veðréttindanna til verðbréfamiðstöðvar sem starfi samkvæmt sömu lögum. Hérlendis sé eina slíka starfandi verðbréfamiðstöðin Verðbréfaskráning Íslands hf. (VS). Engin veðréttindi stefnda til handa hafi því verið skrásett yfir umræddum rafbréfum í stefnda í kerfum VS. Stefnanda hafi því verið í lófa lagið að ráðstafa umræddum hlutabréfum sínum í stefnda í gegnum hvaða reiknistofnun sem var, aðra en stefnda, sem aðild átti að verðbréfamiðstöð. Hefði grandlaus þriðji aðili þannig auðveldlega getað unnið betri rétt yfir bréfunum en stefndi.
Af framangreindu megi ljóst vera að því skilyrði gildrar handveðsetningar hafi ekki verið fullnægt, að veðsali, hér stefnandi, væri sviptur möguleikanum á því að ráðstafa hinu veðsetta. Þar sem málum hafi verið háttað með framangreindum hætti, hafi stefndi ekki haft vörslur umræddra verðmæta og því sé ekki um handveð að ræða.
Á því sé byggt að greiðslan hafi verið óheimil með vísan til fyrrnefndra lagaákvæða. Um hafi verið að ræða óvenjulegan greiðslueyri. Fyrir liggi að um sé að ræða greiðslu skuldar með öðrum hætti en upphaflega samdist um milli aðila, sbr. það sem að framan sé rakið. Þá hafi ekki verið um það að ræða að gengið væri að verðmætum sem sett hafi verið stefnda til tryggingar með gildri veðsetningu. Ráðstöfunin hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sem hafi verið 15. maí 2009 og hafi verið ívilnandi fyrir stefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Að auki liggi fyrir í málinu að stefndi hafi ekki verið gjaldfær á því tímamarki sem hér skipti máli, þ.e. í lok nóvembermánaðar 2008, eins og lýstar kröfur í þrotabú stefnanda beri með sér. Hins vegar hafi greiðslan skert greiðslugetu stefnanda verulega. Beri því að rifta ráðstöfun þeirri sem fólst í greiðslu til stefnda og dæma stefnda til að greiða stefnanda stefnukröfu máls þessa.
Til vara styður stefnandi kröfu sína um riftun á því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé því riftanleg með vísan til 1. mgr. 141. gr. gþl.
Krafa um riftun byggir á 134. gr. laga nr. 21/1991 og sé fjárkrafa stefnanda reist á 1. mgr. 142. gr. gþl. Á því sé einnig byggt að stefnda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunar þeirrar sem krafist sé riftunar á.
Verði riftun reist á 141. gr. laga nr. 21/1991 vísist um kröfugerð til 3. mgr. 142. gr. sömu laga.
Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.
Málsástæður stefnda og lagarök
Aðalkrafa um sýknu.
Sýknukrafa stefnda er byggð á því að uppgjör það sem átti sér stað milli stefnda og Saxbyggs ehf. hinn 24. nóvember 2008 sé fjarri því að vera riftanlegt með vísan til 134. og 141. greinar laga nr. 21/1991. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eins og fram komi í stefnu byggi stefnandi málatilbúnað sinn á því að umrætt uppgjör sé riftanlegt með vísan til 134. greinar laga nr. 21/1991 þar sem greiðsla Saxbyggs ehf. hafi verið framkvæmd með óvenjulegum greiðslueyri, auk þess sem hún hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega. Sönnunarbyrði varðandi það að skilyrði til riftunar séu fyrir hendi hvíli á stefnanda. Sú sönnun hafi ekki tekist. Skilyrði þess að greiðsla skuldar falli undir umrædda lagagrein séu ekki fyrir hendi í máli þessu.
Til vara byggi stefnandi kröfu sína um riftun að því er virðist á því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé því riftanleg með vísan til 1. mgr. 141. gr. laga nr. 21/1991. Ekki sé þó fjallað frekar um þetta í stefnu, auk þess sem skilyrði fyrir riftun samkvæmt framangreindri lagagrein séu ekki reifuð. Varamálsástæða stefnanda fyrir riftun uppgjörsins sé því vanreifuð og henni mótmælt. Verði því ekki fjallað frekar um hana.
1) Óvenjulegur greiðslueyrir
Málsástæður stefnanda fyrir kröfu sinni séu að nær öllu leyti byggðar á því að greiðsla Saxbygg ehf. á skuld gagnvart stefnda vegna uppgjörs, dags. 24. nóvember 2008, hafi verið framkvæmd með óvenjulegum greiðslueyri. Er því mótmælt.
Líkt og fram komi í stefnu hafi Saxbygg ehf., hinn 15. nóvember 2007, gefið út handveðsyfirlýsingu um handveð í fjármálagerningum og innstæðu á bankareikningi. Efni þeirrar handveðsyfirlýsingar hafi ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda. Einu mótmælin sem fram hafi komið tengist því að skilyrði gildrar handveðssetningar hafi ekki verið fullnægt, en því sé mótmælt.
Handveð hafi verið tekið í verðbréfasafni samkvæmt meðfylgjandi viðskiptamannayfirliti dagsettu 15. nóvember 2007 sem merkt er Viðauki I, eins og fram komi á handveðsyfirlýsingu. Í umræddum Viðauka I komi fram að hluti verðbréfaeignar Saxbyggs ehf., veðsala, voru hlutabréf í MP Fjárfestingarbanka hf., nú stefnda, að nafnvirði 10.000.000 króna. Ljóst sé því að þau bréf sem voru andlag greiðslu Saxbyggs ehf. samkvæmt uppgjöri, dags. 24. nóvember 2008, hafi verið hluti hins handveðsetta verðbréfasafns.
Í skiptasamningi um fjármálagerning, dags. 21. ágúst 2008, komi fram að skuldbinding viðskiptamanns, Saxbyggs ehf., sé greiðsla þann 21. nóvember 2008 á 473.203,11 USD gegn afhendingu hlutabréfa í GMST RU að nafnvirði 2.000 USD (skuldbinding stefnda). Á síðari blaðsíðu skiptasamningsins segi meðal annars:
„...Bankanum er heimilt að nýta ofangreinda tryggingu á hvern þann hátt sem hann telur henta, til greiðslu vegna skuldbindinga viðskiptamanns samkvæmt samningi þessum. Hið veðsetta er hægt að selja án nauðungarsölu...“
Samkvæmt þessu hafi stefnda verið heimilt að nýta tryggingar að baki skuldbindingu viðskiptamanns til uppgjörs á skuldbindingunni væri hún ekki greidd á gjalddaga, meðal annars með sölu annarri en nauðungarsölu. Hafi því verið umsamið milli aðila við gerð skiptasamnings að gera skyldi samninginn upp með greiðslu peninga en til vara með handveðsettum tryggingum.
Það sé rangt sem fram komi í stefnu að í samningi aðila hafi ekki verið gert ráð fyrir uppgjöri á þann hátt sem framkvæmt var. Umsaminn háttur á greiðslu, það er sem samið er um þegar gengist er undir skuldbindingu, geti aldrei talist óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. greinar laga nr. 21/1991.
Fullyrðingum stefnanda í stefnu, annars vegar um að aðrir kostir við uppgjör hafi ekki verið til staðar vegna bágrar fjárhagsstöðu Saxbyggs ehf. og hins vegar að eitt af því síðasta sem fjármálafyrirtæki æski sé að kaupa hlutabréf í sjálfu sér í upphafi einnar mestu niðursveiflu á fjármálamörkuðum sem um geti, sé mótmælt sem órökstuddum og röngum.
Hvað fyrra atriðið varðar sé ekkert í gögnum málsins sem styðji að Saxbygg ehf. hafi ekki getað greitt samninginn upp með öðrum hætti þann 24. nóvember 2008. Sönnunarbyrði um slíkt er alfarið á hendi stefnanda. Sú sönnun hafi ekki tekist.
Hvað síðara atriðið varði þá sé því alfarið mótmælt að það hafi verið stefnda á móti skapi að fá uppgjör greitt með hlutabréfum í sjálfu sér, enda eini bankinn sem hafi komist í gegnum umrædda niðursveiflu á fjármálamörkuðum án þess að óska eftir nokkurri aðstoð frá íslenska ríkinu. Á þeim tíma sem aðrar viðskiptabankarnir voru teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu hafi stefndi fengið leyfi til að starfa sem viðskiptabanki, nánar tiltekið þann 8. október 2008. Sýni það svart á hvítu það traust og þá trú sem til að mynda yfirvöld höfðu á stefnda til framtíðar.
Megi einnig nefna að stefndi hafi skilað 860.000.000 króna hagnaði eftir skatta á árinu 2008 sem jafngilti 14,7% ávöxtum eigin fjár á ársgrundvelli. Loks hafi eigið fé bankans numið 6.624.000.000 króna í lok árs 2008 og hafi eiginfjárhlutfall bankans (CAD) verið 22,3%. Af þessu sjáist að mikil verðmæti hafi falist í hlutabréfum í bankanum og hafi þau því verið velkomin greiðsla á umræddri skuldbindingu Saxbyggs ehf. enda hefði stefndi aldrei samið svo við Saxbygg ehf. að það hefði bréf í bankanum til tryggingar skuldbindingum sínum ef stefnda teldi þau bréf ekki fullnægjandi sem tryggingu fyrir efndum.
Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
2) Handveðsyfirlýsing dagsett 15. nóvember 2007.
Í stefnu sé því haldið fram að framangreind handveðsyfirlýsing hafi ekki fullnægt ákvæðum laga um samningsveð og því hafi stefndi ekki átt veðréttindi yfir bréfum þeim sem hann veitti viðtöku. Einnig segi að stefndi hafi ekki svipt Saxbygg ehf. möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Að auki segi að stefnanda, sem væntanlega eigi að vera Saxbygg ehf., hafi verið í lófa lagið að ráðstafa umræddum hlutabréfum í gegnum hvaða reiknisstofnun sem var, aðra en stefnda, sem aðild átti að verðbréfamiðstöð. Þessu sé alfarið mótmælt sem röngu og ósönnuðu.
Fyrir það fyrsta þá sé það meginregla í veðrétti að veðsamningur sé gildur milli aðila þó að tryggingarráðstafana hafi ekki verið gætt. Nánar tiltekið sé það ekki skilyrði fyrir stofnun handveðsréttar að gætt hafi verið að reglum um réttarvernd gagnvart þriðja manni. Séu skilyrði er varðar stofnun handveðréttar uppfyllt, sem svo sannarlega hafi verið í því tilviki sem hér um ræði, þá sé handveðréttur til staðar milli aðila. Réttarvernd gagnvart þriðja manni hafi því ekki áhrif á gildi veðréttarins. Handveðsyfirlýsingin fullnægi því að öllu leyti ákvæðum laga nr. 75/1997 um stofnun handveðréttar. Virðist stefnda sem stefnandi geri ekki greinarmun á stofnun veðréttinda annars vegar og réttarvernd þeirra gagnvart þriðja manni hins vegar.
Þar sem eina athugasemd stefnanda við handveðsyfirlýsinguna tengist réttarvernd gagnvart þriðja manni þá liggi það ljóst fyrir að veðsamningurinn sé gildur milli aðila, það er Saxbyggs ehf. og stefnda. Þar sem um gildan veðsamning, nánar tiltekið handveðsyfirlýsingu, sé að ræða þá hafi hann full réttaráhrif milli aðilanna. Á grundvelli þeirrar handveðsyfirlýsingar hafi skuld Saxbyggs ehf. verið gerð upp með andvirði hlutabréfa í stefnda, allt í samræmi við skiptasamning aðila og handveðsyfirlýsinguna sjálfa. Það hvort nægileg réttarvernd gagnvart þriðja manni hafi stofnast hafi ekki áhrif milli aðilanna sjálfra. Uppgjörið hafi því verið í samræmi við lög, meginreglur veðréttar og undirliggjandi samninga. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Í annan stað þá sé því alfarið hafnað að Saxbygg ehf. hafi ekki verið svipt möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Bréfin hafi verið afhent stefnda sem hafi tekið að sér að hafa umráð þeirra, og hafi verið vistuð á VS reikningi. Saxhóll hafi ekki getað fært þau af þeim VS reikningi nema með samþykki stefnda. Það hafi í för með sér fullnægjandi réttarvernd. Bréfin hafi verið veðsett og auðkennd sem slík í birgðakerfi stefnda, nokkru sem heitir Verðbréfa Vog. Líkt og sjáist af framlögðu yfirliti úr Libru - Verðbréfa Vog, þá séu eftirstandandi hlutabréf stefnanda í stefnda enn merkt sem veðsett. Þau bréf sem merkt séu sem veðsett í Libru, líkt og átt hafi við um þau bréf sem voru andlag uppgjörs þann 24. nóvember 2008, sé ekki hægt að hreyfa við nema með samþykki veðhafa, það er stefnda. Saxbygg ehf. hafi því ekki haft umráðarétt yfir bréfunum og hafi ekki, án samþykkis veðhafa, getað flutt þau bréf annað eða framselt þau þriðja manni. Vísist um það meðal annars til fjölda ákvæða þess efnis í handveðsyfirlýsingunni, meðal annars greina 1, 5, 7, 17 og 22. Því sé ljóst að skilyrðum fyrir réttarvernd hafi verið fullnægt enda Saxbygg ehf. svipt umráðum hlutabréfanna.
Við þetta megi svo bæta að veðsala, Saxbyggi ehf., hafi verið að fullu kunnugt um veðið, auk þess sem veðandlagið sé hlutabréf í stefnda og því stefnda að fullu kunnugt um veðsetninguna á þessum tilteknu hlutabréfum.
Með vísan til alls framangreinds beri því að sýkna stefnda.
3) Greiðslan hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega, enda ekki venjuleg eftir atvikum.
Stefnandi byggir að lokum annars vegar á því að stefndi, sem eigi væntanlega að vera Saxbygg ehf., hafi ekki verið gjaldfært þann 24. nóvember 2008 og sé þar um vísað til lýstra krafna. Hins vegar hafi greiðslan skert greiðslugetu stefnanda verulega. Þessu sé mótmælt sem ósönnuðu og órökstuddu.
Fyrir það fyrsta sé skilyrði þess að beita megi riftun að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum. Það sama eigi við um greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri. Samkvæmt meginreglum gjaldþrotaréttar geti umsamin greiðsla, líkt og eigi við um uppgjör með handveðsettum hlutabréfum, aldrei verið óvenjulegur greiðslueyrir eða óvenjuleg eftir atvikum. Þetta grundvallarskilyrði fyrir riftun samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki uppfyllt. Eingöngu á grundvelli þess ber að sýkna stefnda.
Í annan stað liggi ekkert fyrir um að Saxbygg ehf. hafi ekki verið gjaldfært þann 24. nóvember 2008, og það þrátt fyrir uppgjör við stefnda. Á þessum tíma, það er frá október 2008 og til áramóta 2008/2009, hafi verið miklir umbreytingartímar í íslensku fjármálalífi og í raun um allan heim. Megi nefna að þann 28. nóvember 2009 og 15. desember 2008 hafi verið settar gjaldeyrisreglur í landinu, gjaldeyrishöft, sem hafi gert aðilum sem skulduðu lán í erlendri mynt örðugt að greiða af þeim meira en gjaldfallnar greiðslur og þar með skuldbreyta þeim. Hafi sú aðgerð íslenskra stjórnvalda meðal annars haft þær afleiðingar á fjölda eignarhaldsfélaga að grundvelli að rekstri þeirra var kippt undan þeim. Það sé þess vegna á því byggt af hálfu stefnda að ársreikningur miðaður við 31. desember 2008, eða rúmum mánuði eftir umrætt uppgjör, gefi ekki rétta mynd af stöðu Saxbyggs ehf. og annarra félaga í sambærilegum rekstri í lok nóvember 2008. Sönnunarbyrði um annað sé á hendi stefnanda. Sú sönnun hafi ekki tekist.
Í þriðja lagi, og þá með vísan til þess sem að framan sé getið, liggi ekkert fyrir um að uppgjör á grundvelli veðsettra eigna hafi skert greiðslugetu Saxbyggs ehf. verulega þann 24. nóvember 2008. Sönnunarbyrði um annað sé á hendi stefnanda. Sú sönnun hafi ekki tekist.
Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
4) Fjárkrafa stefnanda.
Fjárkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Án nokkurs rökstuðnings sé því síðan haldið fram að á því sé byggt að stefnda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunar þeirrar sem krafist sé riftunar á. Þessu sé alfarið mótmælt.
Hvað varðar síðara atriðið þá hafi stefndi haldið því fram, og geri enn, að uppgjör hafi verið gert á umsaminn hátt, það er með því að trygging fyrir skuldbindingu hafi verið tekin yfir. Stefndi haldi því fram að umrædd hlutabréf í stefnda hafi verið veðsett á grundvelli lögmætrar handveðsyfirlýsingar, samanber framangreint. Slíkt uppgjör geti aldrei verið riftanlegt. Því sé fráleitt að halda því fram að stefnda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar. Það virðist sem stefnandi sé á sömu skoðun enda geti hann ekki og reyni ekki að rökstyðja það í stefnu á hverju sú fullyrðing sé byggð. Henni sé þó harðlega mótmælt sem rangri, órökstuddri og vanreifaðri.
Hvað varðar vísun til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 þá komi þar fram að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð skuli greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Stefndi sé enn eigandi að hlutabréfum í sjálfu sér. Þau hafi því ekki komið bankanum að notum að nokkru leyti. Að auki telji stefndi að bréfin hafi verið veðsett honum og því hafi Saxbygg ehf., og síðar stefndi, ekki orðið fyrir neinu tjóni við fullnustu á veðsettum hlutabréfum. Þvert á móti hafi kröfur í stefnda lækkað sem nemi þeirri kröfu sem stefndi hafi átti á Saxbygg ehf. hinn 24. nóvember 2008. Séu skilyrði fyrir fjárkröfu stefnanda því ekki fyrir hendi.
Varakrafa um verulega lækkun krafna stefnanda sé byggð á sömu sjónarmiðum og fram komi í aðalkröfu, þó að breyttum breytanda.
Megi að auki nefna að enginn lagagrundvöllur sé fyrir upphafsdegi dráttarvaxta, samanber dómkröfur stefnanda. Sé því kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrra degi en dómsuppsögudegi. Kröfu um vexti samkvæmt 4. grein og 8. grein laga nr. 38/2001 sé mótmælt sem vanreifaðri enda ekki fjallað einu orðið um hana í stefnu og ekki vísað til þeirra lagagreina í lagarökum.
Um lagarök vísist til laga nr. 21/1991, þá sérstaklega XX. kafla laganna, meginreglna veðréttar, laga nr. 78/1997, laga nr. 131/1997, auk laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001.
Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður stefnda að nafn stefnda sé í dag EA fjárfestingarfélag hf., með sömu kennitölu og MP Banki hf. hafði.
Stefnandi, Icarus ehf., áður Saxbygg ehf., var stofnað í maí 2004. Voru hluthafar þess Saxhóll ehf. og Bygg Invest ehf.
Óumdeilt er að hinn 21. ágúst 2008 hafi Saxbygg ehf. og stefndi gert með sér skiptasamning um fjármálagerning nr. 2007-209-2-5, með gjalddaga þann 21. nóvember 2008. Samkvæmt samningnum skyldi Saxbygg ehf. greiða stefnda tilgreinda fjárhæð í bandarískum dollurum gegn afhendingu stefnda á tilteknum fjármálagerningum.
Hinn 21. nóvember 2008 var framangreindur skiptasamningur á gjalddaga. Er óumdeilt að skuld Saxbyggs ehf. við stefnda hafi þá numið 61.831.856 krónum.
Hinn 15. nóvember 2007 gaf Saxbygg ehf. út handveðsyfirlýsingu til handa stefnda til tryggingar skaðlausum og skilvísum greiðslum á öllum skuldbindingum hans við stefnda, hvaða nafni sem nefnast. Í yfirlýsingunni greinir að stefnandi setji stefnda að veði, með 1. veðrétti, nánar tiltekið verðbréfasafn, samkvæmt meðfylgjandi viðskiptayfirliti, dags. sama dag, auk allra fjármálagerninga sem stefnandi, sem veðsali, eigi og muni eignast og varðveittir séu á VS-reikningi veðsala og/eða tilteknum verðbréfareikningi veðsala hjá stefnda eins og staða reikninganna sé hverju sinni. Að auki var samkvæmt samningnum sett að veði innstæða stefnanda á reikningi nr. 306-26-053652.
Eins og fram er komið voru meðal undirliggjandi verðmæta í tilgreindu verðbréfasafni hlutabréf í stefnda, MP banka, eða 150.000.000 hlutir. Óumdeilt er að um hafi verið að ræða bréf sem tekin höfðu verið til rafrænnar eignaskráningar, svokölluð rafbréf, sbr. lög nr. 131/1997. Þá er einnig óumdeilt að réttindi stefnda að umræddum bréfum samkvæmt handveðsamningnum hafi ekki verið tilkynnt til verðbréfamiðstöðvar og hafi veðsetningin því ekki komið fram í kerfum Verðbréfaskráningar.
Hinn 24. nóvember 2008 gerðu aðilar með sér samkomulag um uppgjör á skuldum stefnanda við stefnda., eins og áður er lýst. Í janúar 2009 voru viðskipti þau er framkvæmd voru þann 24. nóvember 2008 bakfærð og ný viðskipti skráð 6. janúar 2009. Samkvæmt þeim leysti stefndi til sín hluta af eigin bréfum að nafnvirði 5.203.352, í stað 5.500.000 áður, þá miðað við að gengi bréfanna væri 10,852331, eða að andvirði 56.468.500 krónur, sem er stefnufjárhæð.
Stefnandi byggir á því í málinu að umrædd ráðstöfun við uppgjör aðila sé riftanleg og krefur stefnda um hina tilgreindu fjárhæð. Reisir hann kröfu sína á 134. gr. laga nr. 21/1991 og byggir á því að skilyrðum riftunar samkvæmt þessari grein sé fullnægt. Greiðslan hafi verið innt af hendi innan sex mánaða frá frestdegi. Hún hafi ekki verið greidd með peningum eins og samningur aðila hafi gert ráð fyrir. Greiðsla skuldarinnar hafi verið innt af hendi með þeim hætti að stefndi leysti til sín eigin hluti, hlutabréf í fjármálafyrirtæki, sem teljast verði óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá er á því byggt að handveðsyfirlýsingin fullnægi ekki ákvæðum laga um samningsveð og hafi stefndi því ekki átt veðréttindi yfir bréfunum sem hann veitti viðtöku samkvæmt samkomulagi aðila um uppgjör.
Samkvæmt handveðsyfirlýsingu, dags. 15. nóvember 2007, var stefnda sett að veði tiltekið verðbréfasafn. Óumdeilt er að þau bréf, sem um er deilt í málinu, og stefndi leysti til sín, voru hluti hins handveðsetta verðbréfasafns.
Í 5. gr. handveðsyfirlýsingarinnar segir að hinir veðsettu fjármálagerningar skuli vera í vörslu stefnda. Veðsali hafi enga möguleika á og engan rétt til að ráðstafa hinum veðsettu fjármálagerningum án atbeina og samþykkis veðhafa. Liggur ekki annað fyrir í málinu en að þetta hafi gengið eftir.
Í 18. gr. yfirlýsingarinnar lýsir veðsali því yfir að verði vanskil á skuldbindingum hans sé veðhafa heimilt að ganga að eignum veðsala og selja handveðið eða koma því í verð á hvern þann hátt annan sem veðhafi kýs og ráðstafa andvirðinu, í heild eða hluta, til fullnustu þeirra skulda og þess kostnaðar sem handveðið á að tryggja.
Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er fjallað um réttarvernd handveðréttar. Greinin mælir einungis fyrir um réttarvernd en ekki um gildisskilyrði veðsetningar. Réttarvernd gagnvart þriðja manni hefur ekki áhrif á gildi veðréttarins. Hefur því ekki verið sýnt fram á annað en að gildur handveðsamningur hafi stofnast milli Saxbygg ehf. og stefnda einu og hálfu ári áður en bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta og að skuld Saxbyggs ehf. hafi verið gerð upp með andvirði hlutabréfa í stefnda í samræmi við skiptasamning aðila og handveðsyfirlýsinguna. Er ekki fallist á með stefnanda að sá uppgjörsmáti, á gjalddaga skuldar, geti fallið undir skilgreininguna „óvenjulegur greiðslueyrir“ í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Er því ekki fallist á að skilyrði riftunar samkvæmt nefndri lagagrein séu uppfyllt.
Til vara styður stefnandi riftunarkröfu sína með þeim rökum að umrædd greiðsla hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé því riftanleg á grundvelli 1. mgr. 141. gr. laga nr. 21/1991. Er þessi málsástæða stefnanda með öllu órökstudd og er henni því hafnað.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af riftunarkröfu stefnanda. Þar af leiðir að einnig ber að sýkna stefnda af fjárkröfu stefnanda er byggist á 142. gr. laga nr. 21/1991.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 800.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, EA fjárfestingarfélag hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Icarusar ehf.
Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.