Hæstiréttur íslands
Mál nr. 65/2003
Lykilorð
- Skaðabætur
- Sameign
- Lausafé
- Eignarráð
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2003. |
|
Nr. 65/2003. |
Halldór Sigurðsson(Klemenz Eggertsson hrl.) gegn Þórunni Láru Þórarinsdóttur (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Skaðabætur. Sameign. Lausafé. Eignarráð. Gjafsókn.
Þ, sem gert hafði samkomulag við H um að þau ættu saman tiltekinn hest að jöfnu, tók sjálf ákvörðun um að flytja hestinn úr landi. Tókst Þ ekki að sýna fram á að H hefði veitt Þ heimild til þessa flutnings. Engin efni voru til að ætla að hesturinn ætti afturkvæmt hingað til lands, sbr. að nokkru aðalreglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990. Með því að flytja hestinn utan án samþykkis H hafði Þ því í reynd svipt H öllum eignarráðum yfir hestinum með ólögmætum hætti og bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart H. Kröfur H um skaðabætur voru samkvæmt þessu teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2003. Hann krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2002 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt hér fyrir dómi.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Aðilar máls þessa gerðu með sér samkomulag 23. janúar 1996 um stóðhestinn Hóla-Biskup. Kom þar fram að þau ættu hestinn saman að jöfnu, en eftir daga áfrýjanda myndi stefnda eignast hlut hans að fullu og skyldi það sama gilda ef hesturinn yrði vanaður. Átti áfrýjandi að hafa full afnot af hestinum á sumrin á jörð sinni, Stokkhólma, en stefnda annan hluta ársins. Áfrýjandi seldi jörðina með kaupsamningi 8. desember 1997. Eru aðilar ekki á einu máli um hvar hesturinn var hafður frá þeim tíma uns þau atvik urðu, sem nánar greinir hér á eftir. Áfrýjandi fékk heilablóðfall 17. febrúar 1999. Samkvæmt læknisvottorði 4. apríl 2000 leiddi þetta til þess að áfrýjandi varð „mjög illa áttaður og í raun ómeðferðarhæfur“ og skilji hvorki munnlegar leiðbeiningar né fyrirmæli. Af þessum sökum var hann sviptur fjárræði 11. maí 2000 og honum skipaður lögráðamaður.
Ágreiningslaust er að stefnda og faðir hennar fluttu hestinn út til Finnlands 13. janúar 2001. Með bréfi til ríkissaksóknara 8. ágúst 2001 lagði áfrýjandi fram kæru á hendur stefndu og föður hennar, Þórarni Jónassyni, vegna útflutnings og ætlaðrar sölu þeirra á hestinum, enda hafi þetta verið gert án vitundar og vilja hans og lögráðamanns hans. Af þessu tilefni var lögregluskýrsla tekin af stefndu 26. janúar 2002, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að gripið hafi verið til frekari aðgerða vegna kæru áfrýjanda.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta gegn stefndu 28. maí 2002 og krafði hana um greiðslu skaðabóta að álitum, að fjárhæð 1.000.000 krónur, vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna ólögmæts flutnings hestsins úr landi og ætlaðrar sölu hans. Auk þess krafðist hann miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur vegna ólögmætrar meingerðar í sinn garð. Stefnda höfðaði gagnsök í héraði og krafðist þess að áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða sér 867.110 krónur vegna ýmiss kostnaðar af hestinum, auk útgjalda, sem áðurnefnd kæra áfrýjanda til lögreglu hafi bakað henni. Með hinum áfrýjaða dómi var stefnda sýknuð af kröfu áfrýjanda í aðalsök, en honum á hinn bóginn gert í gagnsök að greiða henni alls 367.500 krónur, sem nam helmingi kostnaðar af hestinum vegna fóðurs, hirðingar og járninga samkvæmt reikningi frá föður stefndu, sem síðar verður fjallað um. Fyrir Hæstarétti unir stefnda við niðurstöðu héraðsdóms um kröfu sína í gagnsök og eru því ekki til frekari umfjöllunar hér aðrir liðir kröfunnar en að framan er getið.
II.
Áfrýjandi heldur því fram að hesturinn, sem mál þetta varðar, hafi verið fluttur úr landi og seldur án hans samþykkis. Í áðurnefndri skýrslu stefndu hjá lögreglu 26. janúar 2002 er haft eftir henni haft að hún telji sig „eiga þennan hest ein þar sem allar forsendur upphaflegs samkomulags milli hennar og Halldórs séu brostnar og hún sé búin að bera allan kostnað af hestinum undanfarin ár”. Þá segir í skriflegri aðilaskýrslu stefndu, sem lögð var fram í héraði og hún staðfesti við aðalmeðferð málsins, að þar sem hún hafi ekki haft tíma fyrir hrossið og það hafi ekki verið í notkun til undaneldis „tók ég þá ákvörðun að flytja hrossið út til Finnlands.“ Hafi hún talið sig „eiga hrossið þegar það var flutt út vorið 2001“. Við aðalmeðferð málsins hélt hún því fram að hún hafi flutt hestinn til Finnlands í samræmi við áform um að koma hestinum í verð erlendis, sem hún og áfrýjandi hafi sammælst um sumarið 1998. Þau áform hafi átt rætur að rekja til þess að hesturinn hafi verið hrekkjóttur, enginn hafi getað riðið honum og aldurinn verið að færast yfir hann. Það hafi verið ódýrast að flytja hann til Danmerkur, þar sem stefnda hafi verið við nám í dýralækningum, og reyna að sýna hann þar og selja í framhaldi þess. Ekki hafi þó orðið af þessu áður en áfrýjandi veiktist 1999 og hafi hesturinn því verið geymdur í Laxnesi þar til hún hafi ákveðið að flytja hann utan „því það var ung stúlka í Finnlandi sem vantaði sýningarhest og pabbi var að flytja hross þarna út, þannig að ég tók bara sénsinn og ætlaði að reyna að láta sýna hann “.
Samkvæmt framburði stefndu, sem rakinn er hér að framan, tók hún sjálf ákvörðun um að flytja hestinn út á árinu 2001, þar sem hún taldi sig eina eiga hestinn á þeim tíma. Var henni þó fullkunnugt um samkomulag sitt og áfrýjanda 23. janúar 1996 um að þau ættu hestinn að jöfnu. Hún hefur engin gögn lagt fram því til styrktar að áfrýjandi hafi samþykkt fyrir sitt leyti útflutning hrossins á þeim tíma, sem hann var til þess bær. Þegar til þessa er litið hefur stefndu ekki tekist að sýna fram á að áfrýjandi hafi veitt henni heimild til að flytja hestinn úr landi. Engin efni eru til að ætla að hesturinn eigi afturkvæmt hingað til lands, sbr. að nokkru aðalreglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990 um innflutning dýra. Með því að flytja hestinn utan án samþykkis áfrýjanda hefur stefnda því í reynd svipt hann öllum eignarráðum yfir hestinum með ólögmætum hætti og bakað sér skaðabótaábyrgð. Sem fyrr segir krefst áfrýjandi bóta að álitum vegna þessa tjóns. Mikið ber á milli í gögnum málsins um ætlað verðmæti hestsins á þeim tíma, sem hann var fluttur úr landi. Á það verður fallist með áfrýjanda að honum hafi ekki verið fært að sannreyna tjón sitt, enda fyrirmunað að leita mats dómkvaddra manna, þar sem hesturinn hefur verið fluttur úr landi og stefnda ekki orðið við ítrekuðum áskorunum áfrýjanda um að upplýsa hvar hesturinn er niður kominn fyrr en við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti. Stefndu var á hinn bóginn í lófa lagið að afla slíks mats, en það hefur hún ekki gert. Verður því að fallast á kröfu áfrýjanda um skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, sem hann krefst frá þingfestingardegi málsins í héraði og nánar greinir í dómsorði. Stefnda hefur ekki krafist þess til vara að áfrýjanda yrði gert að gefa út til hennar afsal fyrir sínum hlut í hestinum ef honum yrðu dæmdar skaðabætur á þessum grunni. Verður því greiðsluskylda hennar við áfrýjanda ekki skilyrt á þann hátt.
Ekki eru skilyrði samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum til að taka kröfu áfrýjanda um miskabætur til greina.
III.
Stefnda heldur því fram að hún og áfrýjandi hafi gert með sér munnlegt samkomulag um að hún myndi sjá um fóðrun, hirðingu og þjálfun hestsins á veturna á hrossabúi föður síns að Laxnesi í Mosfellsbæ gegn því að áfrýjandi fengi afnot af hestinum á sumrin á jörð sinni, Stokkhólma, og hún fengi árlega þrjú folöld úr „Stokkhólmastóðinu“. Hafi áfrýjandi ekki staðið við sinn hluta samningsins og engan kostnað greitt vegna umönnunar og þjálfunar hestsins. Kemur fram í áðurnefndri aðilaskýrslu stefndu að um árabil hafi faðir hennar séð um hirðingu og þjálfun hestsins. Reisir stefnda fyrrgreinda kröfu sína á hendur áfrýjanda í gagnsök í héraði, að fjárhæð 367.500 krónur, á reikningi útgefnum af föður stefndu til hennar og áfrýjanda 1. janúar 2001 fyrir samtals 735.000 krónum. Samkvæmt hljóðan reikningsins tekur hann til nánar tiltekins kostnaðar af vörslum hestsins á tímabilinu frá byrjun ársins 1998 til miðs janúarmánaðar 2001 og er hann áritaður um greiðslu úr hendi stefndu.
Stefnda hefur ekki sýnt fram á að samningur hafi komist á með henni og áfrýjanda um að hún tæki að sér að annast um hestinn gegn endurgjaldi úr hendi áfrýjanda eða fæli þetta öðrum fyrir hönd þeirra beggja. Verður áfrýjandi því sýknaður af þeirri kröfu stefndu, sem hér um ræðir.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda dæmd til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefnda, Þórunn Lára Þórarinsdóttir, greiði áfrýjanda, Halldóri Sigurðssyni, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2002 til greiðsludags.
Stefnda greiði áfrýjanda 300.000 krónur í málskostnað í héraði. Þá greiði stefnda í ríkissjóð 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember sl., var höfðað 28. maí sl. af Hafsteini Halldórssyni, f.h. Halldórs Sigurðssonar, Kumbaravogi, Stokkseyri, á hendur Þórunni Láru Þórarinsdóttur, Laxnesi, Mosfellsbæ. Stefnda höfðaði gagnsök með gagnstefnu sem lögð var fram í dóminum 27. september sl.
Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að aðalstefnda verði dæmd til að greiða honum 1.500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III., IV. og V. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. maí 2002 til greiðsludags. Enn fremur krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts að mati dómsins.
Aðalstefnda krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að skaðlausu auk virðisaukaskatts.
Í gagnsök krefst gagnstefnandi aðallega að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða henni 867.110 krónur ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingardegi gagnstefnu til greiðsludags en til vara að hann verði dæmdur til að greiða henni lægri fjárhæð að mati réttarins. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefnda að teknu tilliti til 24,5% virðisaukaskatts.
Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök og málskostnaðar auk virðisaukaskatts að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Málsaðilar áttu saman stóðhestinn Hóla-Biskup eins og fram kemur í yfirlýsingu þeirra frá 23. janúar 1996. Einnig kemur þar fram að aðalstefnandi hefði full afnot af hestinum á sumrin fyrir Stokkhólmabúið, sem hann átti þá, en aðalstefnda aðra hluta ársins. Eftir daga aðalstefnanda muni aðalstefnda eignast hans hlut að fullu svo og verði hesturinn vanaður.
Hesturinn er í skjölum málsins nefndur Hóla-Biskup, Byskup eða Byskup frá Hólum. Ágreiningslaust er að málsaðilar áttu hestinn saman frá árinu 1993. Hesturinn var fluttur til Finnlands í janúar 2001. Aðalstefnandi heldur því fram að með því hafi aðalstefnda svipt hann lögmætri eign sinni og krefst hann skaðabóta vegna þessa úr hendi aðalstefndu.
Aðalstefnda heldur því fram að eftir að hesturinn var ekki lengur nýttur á Stokkhólmabúinu hafi málsaðilar ákveðið að reyna að flytja hestinn utan í því skyni að selja hann enda hafi kostnaður hlaðist upp og ekki hafi verið unnt að selja hann hér á landi. Hesturinn hafi verið í Laxnesi á veturna og allt árið frá 1998 þar til hann var fluttur til Finnlands í byrjun árs 2001.
Aðalstefnda flutti til Danmerkur á árinu 1994 og var þar í námi til ársins 1999 en hefur búið þar og starfað síðan. Hún kveðst hafa þurft að selja hestinn til að geta greitt áfallinn kostnað og vegna þess að hvorugur málsaðila hafi haft aðstæður til að annast hann. Þrátt fyrir vonir um að henni tækist að selja hestinn hafi þær brugðist, meðal annars vegna veikinda hans. Á meðan ekki takist að selja hestinn sé hann fjárhagslegt vandamál en báðir málsaðilar beri ábyrgð á kostnaði af honum. Í gagnsök er þess krafist að gagnstefndi endurgreiði helming kostnaðarins, sem fallið hafi á vegna hestsins, og krafist er skaðabóta vegna kostnaðar og tekjumissis gagnstefnanda vegna kröfu gagnstefnda um opinbera rannsókn á sölu hestsins.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda
Af hálfu aðalstefnanda er málsatvikum lýst þannig að síðla dags 12. janúar 2001 hafi sonur hans og lögráðamaður lesið um það í fjölmiðlum að búið væri að selja stóðhestinn Byskup til Finnlands. Seljandi hafi þar verið sagður Þórarinn Jónasson í Laxnesi, faðir aðalstefndu. Lögráðamaður aðalstefnanda hafi strax hringt í Þórarin og mótmælt ráðstöfuninni. Hann hafi tjáð honum að faðir sinn ætti helming í hestinum. Þórarinn hafi þá sagst eiga hestinn einn og hafi hann í engu sinnt tilmælum um að stöðva útflutning á hestinum og hafi hann verið fluttur úr landi daginn eftir. Samkvæmt yfirlýsingu frá 23. janúar 1996 sé aðalstefnandi eigandi hestsins að hálfu á móti aðalstefndu.
Með bréfi til ríkissaksóknara, dagsettu 8. ágúst 2001, hafi verið krafist opinberrar rannsóknar á sölu hestsins en kærunni hafi verið vísað frá að lokinni lögreglurannsókn. Við rannsóknina hafi aðalstefnda sagst eiga hestinn ein, þar sem aðalstefnandi skuldaði henni folöld úr Stokkhólmastóðinu og kostnað af hestinum. Af hálfu aðalstefnanda sé þessu alfarið mótmælt sem fjarstæðu. Með því að halda slíku fram hafi aðalstefnda raunverulega gerst sek um gertæki. Hún hafi enn fremur neitað að hafa selt hestinn til Finnlands og haldi því fram að hann hafi aðeins verið fluttur þangað. Hún hafi þó ekki gefið upp heimilisfangið þar sem hesturinn sé nú, þrátt fyrir bréflega áskorun þar um.
Staðhæfingu aðalstefndu um að hesturinn hafi verið fluttur út með samþykki aðalstefnanda sé mótmælt sem rangri. Aðalstefnandi hafi fengið heilablóðfall 17. febrúar 1999 og eftir það hafi hann verið ófær um að annast fjármál sín. Aðalstefndu hafi verið fullkunnugt um ástand hans. Hafi slíkt samþykki verið fengið sé það með öllu óskuldbindandi, þar sem aðalstefnandi hafi verið sviptur fjárræði með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 11. maí 2000 og hafi sonur hans verið skipaður lögráðamaður hans með bréfi sýslumannsins á Selfossi 15. sama mánaðar.
Það sé alkunna að hesturinn eigi aldrei afturkvæmt til Íslands. Með því að flytja hann út án samþykkis meðeiganda síns hafi aðalstefnda svipt aðalstefnanda lögmætri eign hans fyrir fullt og allt og þar með öllum þeim réttindum sem almennt fylgi eignarrétti og sé það í raun eignarspjöll samkvæmt 257. gr. almennra hegningarlaga. Um tilfinnanlegt tjón sé að ræða þar sem lögráðamaður aðalstefnanda hafi haft í hyggju að halda áfram ræktun stofnsins fyrir hönd föður síns. Hafi hann í því skyni flutt fimm merar úr Stokkhólmastóðinu að Litla-Moshvoli í Rangárvallasýslu og fimm að Hellu á Fellsströnd
Þar sem hesturinn hafi verið fluttur úr landi sé ekki hægt nema með gífurlegum kostnaði að fá mat dómkvadds matsmanns á verðmæti hestsins og sé því gerð krafa um skaðabætur að álitum, 1.000.000 króna. Enn fremur sé gerð krafa um 500.000 króna miskabætur, en með háttsemi sinni hafi aðalstefnda gerst sek um ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993 í garð aðalstefnanda sem hún beri bótaábyrgð á. Krafan um skaðabætur byggðist á almennu skaðabótareglunni og miskabótakrafan á framangreindri lagagrein.
Í gagnsök sé öllum reikningum mótmælt. Reikningi fyrir fóðurkostnað, hirðingu og járningar sé sérstaklega mótmælt sem þýðingarlausum og tilbúningi. Gagnstefndi hafi aldrei séð reikninginn fyrr. Hann hafi verið búinn til af föður gagnstefnanda vegna málins. Gagnstefndi hafi aldrei samið við Þórarinn Jónasson um hirðingu á hestinum og því sé ekkert réttarsamband milli hans og gagnstefnda. Krafan sé gagnstefnda því algerlega óviðkomandi. Reikningurinn eigi ekki við nein rök að styðjast, auk þess sem ætluð krafa vegna ársins 1998 sé fyrnd og hesturinn hafi a.m.k. helming af árinu verið í vörslu gagnstefnda sem hafi borið allan kostnað af hestinum þann tíma. Kostnaður vegna síðari ára eigi ekki við nein efnisleg rök að styðjast. Hafi einhver fótur verið fyrir kröfum gagnstefnanda séu þær í öllu falli fallnar niður fyrir aðgerðarleysi gagnstefnanda. Gagnstefndi hafi að öllu leyti staðið við samninginn, sem dagsettur er 23. janúar 1996, en frá 17. febrúar 1999 hafi gagnstefnandi ein haft afnot af hestinum, hverju nafni sem nefnist.
Reikningi vegna skaðabótakröfunnar sé einnig sérstaklega mótmælt sem þýðingarlausum og tilbúningi. Hann sé stílaður á Hafstein Halldórsson og gagnstefnda en Hafsteinn sé ekki aðili að máli þessu. Krafan um ferðakostnað og vegna vinnutaps eigi ekki við nein rök að styðjast enda hafi gagnstefnandi ekki gert sér sérstaka ferð hingað vegna yfirheyrslu hjá lögreglu. Hún hafi verið stödd hér á landi af öðru tilefni og hafi hún gefið skýrslu í leiðinni. Tilefni skýrslutökunnar hafi verið sök um gertæki, sem hún hafi viðurkennt, og eignaspjöll.
Þá er og mótmælt reikningum vegna kostnaðar við útflutning á hestinum til Finnlands og eftir að hann var fluttur þangað án heimildar gagnstefnda. Kostnaður þessi sé alfarið á ábyrgð gagnstefnanda og gagnstefnda óviðkomandi enda hafi hesturinn verið fluttur út án samþykkis gagnstefnda en heilsufar hans hafi verið þannig að hann hafi ekki getað veitt slíkt samþykki.
Kröfur um dráttarvexti styðji aðalstefnandi við III., IV. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um varnarþing sé vísað til 41. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um málskostnað sé byggð á 1. mgr. 130. gr. sömu laga og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Aðalstefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og þurfi hann því að fá dóm fyrir skattinum úr hendi aðalstefndu.
Málsástæður og lagarök aðalstefndu
Aðalstefnda lýsir málsatvikum þannig að aðalstefnandi hafi verið með aðstöðu fyrir hross að Laxnesi um árabil áður en hann veiktist. Málsaðilar hafi átt saman hestinn Byskup og hafi þau gert með sér samkomulag um nýtingu og hirðingu hans. Sameiginlegt markmið hafi verið að ná háum dómi á hrossið þannig að eftirspurn eftir afnotum ykist og unnt væri að láta hestinn standa undir kostnaði. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Hesturinn hafi hlotið slakan dóm og hafi hann ekkert nýst aðalstefndu en aðalstefnandi hafi nýtt hestinn á Stokkhólmabúinu meðan það var í hans eigu. Samningur hafi verið á milli málsaðila um að aðalstefnda fengi afkvæmi undan hestinum frá aðalstefnanda en það hafi ekki gengið eftir vegna vanefnda hans. Kostnaður hafi hlaðist upp vegna umhirðu hestsins í Laxnesi en þar hafi hesturinn verið á veturna svo og eftir að hann hafi eigi verið lengur nýttur að Stokkhólma. Þau hafi ákveðið að reyna að flytja hestinn utan í því skyni að ná fram sölu á hestinum en ljóst sé að hesturinn hafi verið óseljanlegur sem stóðhestur hérlendis. Í janúar 2001 hafi hesturinn verið fluttur til Finnlands. Vonir um að hægt væri að selja hann þar hafi brugðist, ekki síst vegna þess að hesturinn hafi veikst og þurft hafi að skera hann upp. Á hestinn hafi hlaðist kostnaður sem báðir eigendur beri ábyrgð á.
Málabúnaður aðalstefnanda sé tilefnislaus og í reynd óskiljanlegur. Aðalstefnda telur að þar komi til ókunnugleiki sonar aðalstefnanda. Hesturinn hafi ekki verið seldur og sé í sjálfu sér fjárhagslegt vandamál og baggi beggja aðila. Samkomulag aðila frá 23. janúar 1996 kveði á um að við andlát aðalstefnanda eignist aðalstefnda hestinn og hið sama eigi við verði hesturinn geltur. Í sjálfu sér geti hún látið vana hestinn hvenær sem er og þar með átt hestinn. Það hafi hún hins vegar ekki gert heldur reynt að selja hestinn svo að unnt væri að greiða áfallinn kostnað.
Af hálfu aðalstefndu er kröfugerð aðalstefnanda mótmælt sem tilhæfulausri og með öllu órökstuddri. Eina nýtingin sem af hrossinu hafi hlotist séu afnot og arður aðalstefnanda en aðalstefnda hafi hins vegar ekkert haft upp úr sameign þessari nema stórfellda fyrirhöfn, auk þess sem á hestinn hafi fallið kostnaður, sem hún hafi orðið að leggja út fyrir, fyrir báða málsaðila. Málsaðilar geti báðir haft aðgang að hestinum nú sem áður. Aðalstefnandi hafi þó eigi viljað standa straum af neins konar kostnaði af hestinum og hann virtist ekki vilja eiga hestinn. Hann hafi ekki staðið við arðgreiðslur af hestinum eins og um hafi verið samið. Þrátt fyrir það geri hann miskabótakröfu á hendur aðalstefndu með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993. Engum rökstuðningi sé þó til að dreifa með þessari kröfugerð enda krafan röng og fráleit. Vaxtakröfu og málskostnaðarkröfu sé einnig mótmælt.
Í gagnsök er byggt á því að gagnstefnandi hafi haft stórfelldan kostnað og óhagræði af því að halda hestinn, en ljóst sé að gagnstefnda beri að greiða helming þess kostnaðar sem á hestinn hafi fallið. Þar sé meðal annars um að ræða læknis-, uppihalds-, þjálfunar- og flutningskostnað. Einnig sé um að ræða kröfur gagnstefnanda vegna ferðar til Íslands til þess að gefa skýrslu hjá lögreglu vegna kæru og rangra sakargifta lögráðamanns gagnstefnda á hendur gagnstefnanda.
Reikningur vegna útflutnings á hestinum í janúar árið 2001, að fjárhæð 93.320 krónur, sé þannig til kominn að samkomulag hafi verið um það milli málsaðila að freista þess að koma hestinum í verð erlendis, þar sem eigi hefðu gengið eftir væntingar málsaðila varðandi hestinn á Íslandi. Gagnstefnandi geri kröfu um að gagnstefndi endurgreiði helming af umræddum kostnaði, eða 46.660 krónur.
Gagnstefnandi krefst 44.424 króna úr hendi gagnstefnda vegna lækniskostnaðar, þ.e. helmings af 88.848 krónum. Reikningur frá 31. október 2001 sé vegna lækniskostnaðar í Finnlandi er nemi 2.686 finnskum mörkum. Sé því gerð krafa um 1.343 finnsk mörk á grundvelli reikningsins. Gengi finnsks marks hafi hinn 31. október 2001 verið 15.83 krónur og nemi reikningsfjárhæðin því 42.520 krónum. Greiðsla frá 23. janúar 2002 að fjárhæð 46.328 krónur sé vegna lækniskostnaðar.
Reikningur frá 1. janúar 2002 sé frá Þórarni Jónassyni fyrir hirðingu og vegna kostnaðar við að halda uppi hestinum á árunum 1998 til 2001, samtals 735.000 krónur. Gerð sé krafa um greiðslu á helmingi þess kostnaðar, eða 367.500 krónum. Á grundvelli yfirlýsingar gagnstefnda um helmingseignaraðild að Hóla-Biskupi beri honum að greiða helming kostnaðar sem á hestinn hafi fallið eða hafi af honum hlotist.
Reikningur gagnstefnanda vegna flugfars og vinnutaps sé vegna þess að hún hafi orðið að koma til Íslands til þess að sæta yfirheyrslum hjá rannsóknarlögreglu vegna kæru lögráðamanns gagnstefnda á hendur henni. Þær kærur hafi ekki reynst á rökum reistar, en gagnstefnandi hafi bæði beðið fjárhagslegt tjón og miska af þeim völdum. Kröfugerð gagnstefnanda á grundvelli þessa sé samtals 408.527 krónur og sundurliðist þannig:
1. Flugfar, Kaupmannahöfn - Reykjavík - Kaupmannahöfn 43.600 krónur
2. Vinnutap, 5 daga laun dýralæknis í Danmörku, DKR 362
á klst., 362 x 40 klst., DKR 14.480 x gengi 11,39 164.927 "
3. Krafa um bætur fyrir óþægindi og álitshnekki 200.000 "
Samtals 408.527 krónur
Kröfugerð gagnstefnanda á hendur gagnstefnda nemi því samtals 867.110 krónum, þ.e. 46.660 + 44.424 + 367.500 + 408.527 krónur.
Gagnstefnandi reisi kröfur sínar á almennu skaðabótareglunni, reglum skaðabótaréttar og 26. gr. laga nr. 50/1993. Kröfur um dráttarvexti eigi sér stoð í lögum nr. 38/2001. Vísað sé til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnaðarkröfu, sbr. l. mgr. 130. gr. og 131. gr. laganna, og til laga nr. 50/1988 varðandi virðisaukaskatt en gagnstefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld.
Niðurstaða
Í skýrslu aðalstefndu fyrir dóminum skýrði hún frá því að málsaðilar hefðu rætt um það á árinu 1998 að hesturinn, sem deilur í málinu standa um, yrði fluttur til Danmerkur þar sem aðalstefnda bjó þá og stundaði dýralæknanám. Ætlunin hafi verið að hún reyndi að sýna hestinn þar og selja hann. Eftir það hafi aðalstefnandi veikst og ekkert hafi orðið úr því að hesturinn færi til Danmerkur. Síðar hafi unga stúlku vantað sýningarhest í Finnlandi og hafi hesturinn verið fluttur þangað. Til hafi staðið að stúlkan þjálfaði hestinn frekar og sýndi hann en að hann yrði seldur í framhaldi af því. Þetta hafi ekki tekist vegna þess að hesturinn hafi verið hrekkjóttur og haltur og hann hafi fengið sumarexem. Hann sé því óseldur enn þann dag í dag. Væntanlega fengi aðalstefnandi helming söluverðsins, tækist að selja hestinn, að frádregnum kostnaði og skuldum hans við aðalstefndu vegna hestsins.
Engin haldbær gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðalstefnanda sem staðfesta að hesturinn hafi verið seldur eða að aðalstefnda hafi með því að flytja hestinn úr landi svipt aðalstefnanda eignarhaldi á hestinum og með því valdið aðalstefnanda tjóni eins og hann heldur fram. Skilyrði bótaskyldu vegna hins meinta tjóns eru því ekki fyrir hendi. Einnig verður að telja með vísan til framanritaðs að ekki hafi verið sýnt fram á að aðalstefnda hafi haft í frammi ólögmæta meingerð gagnvart aðalstefnanda. Skaðabótakrafa aðalstefnanda vegna ætlaðs tjóns og miska er því ekki á nægum rökum reist og ber með vísan til þess að sýkna aðalstefndu af henni.
Við úrlausn á kröfum í gagnsök ber að líta til þess að gagnstefnandi hafði hvorki samráð við gagnstefnda eða lögráðamann hans né aflaði samþykkis þeirra fyrir því að hesturinn yrði fluttur til Finnlands í janúar 2001 og að gagnstefndi greiddi helming þess kostnaðar sem af því hlaust. Er því ekki nægur grundvöllur fyrir því að unnt verði að taka kröfu gagnstefnanda um endurgreiðslu flutningskostnaðar til greina og ber að sýkna gagnstefnda af henni.
Gögn sem gagnstefnandi hefur lagt fram vegna kröfu hennar á hendur gagnstefnda um endurgreiðslu helmings lækniskostnaðar eru ekki nægilega skýr til að á þeim verði byggt við úrlausn sakarefnisins. Hvorki verða af þeim dregnar ályktanir um hin meintu veikindi hestsins né um læknisaðgerðir. Lýsingar í málatilbúnaði gagnstefnanda á kostnaðinum sem um ræðir eru ófullnægjandi og óljóst er að hvaða leyti þær eiga við um gögnin sem ætlað er að staðfesta kostnaðinn. Krafa gagnstefnanda um endurgreiðslu á helmingi lækniskostnaðar er því vanreifuð og ber af þeirri ástæðu að vísa henni frá dómi án kröfu.
Samkvæmt reikningi Þórarins Jónassonar, dagsettum 1. janúar 2002, hefur gagnstefnandi greitt honum fóðurkostnað, hirðingu, járningar og fleira frá árinu 1998 til janúar 2001. Gagnstefnandi krefst endurgreiðslu á helmingi kostnaðarins úr hendi gagnstefnda. Telja verður sannað með vísan til þess sem fram hefur komið að hestur málsaðila hafi verið í Laxnesi á þessu tímabili enda hafði gagnstefndi selt Stokkhólmabúið á árinu 1998 og engin haldbær gögn hafa verið lögð fram um að hestinum hafi verið komið annað. Gjalddaga kröfunnar fyrir hvert ár verður að telja við árslok og er fyrningarfrestur fjögur ár, sbr. 1. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Fyrningarfrestur var rofinn með birtingu gagnstefnu hinn 27. september 2002 og er krafa gagnstefnanda vegna þessa því ófyrnd. Verður hvorki fallist á að krafan hafi fallið niður vegna fyrningar né af öðrum ástæðum. Krafan er að fjárhæð 367.500 krónur. Hún er nægilega rökstudd og verður ekki talin ósanngjörn. Ber með vísan til þess að taka kröfuna til greina ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Ferðakostnaður gagnstefnanda svo og meint tekjutap hennar og óþægindi verða ekki talin sennileg afleiðing af kröfu gagnstefnda um opinbera rannsókn vegna meintra brota sem talið er að hefðu verið framin með "sölu" hestsins til Finnlands í bréfi lögmanns gagnstefnda frá 8. ágúst 2001. Skilyrði skaðabótaskyldu vegna þessa eru því ekki fyrir hendi og ber með vísan til þess að sýkna gagnstefnda af þeirri kröfu gagnstefnanda.
Rétt þykir með vísan til 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að dæma gagnstefnda til að greiða gagnstefnanda málskostnað í aðalsök og hluta málskostnaðar í gagnsök. Þykir hann hæfilega ákveðinn samtals 150.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Aðalstefnda, Þórunn Lára Þórarinsdóttir, skal sýkn vera af kröfum aðalstefnanda, Hafsteins Halldórssonar, f.h. Halldórs Sigurðssonar, í aðalsök.
Gagnstefndi, Hafsteinn Halldórsson, f.h. Halldórs Sigurðssonar, greiði gagnstefnanda, Þórunni Láru Þórarinsdóttur, 367.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. september 2002 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.
Kröfu gagnstefnanda um endurgreiðslu lækniskostnaðar, að fjárhæð samtals 44.424 krónur, er vísað frá dómi.