Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 6

Föstudaginn 6. ágúst 2004.

Nr. 328/2004.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(enginn)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður. l. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Guðrún Erlendsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. ágúst 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. september 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómara að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald sé fullnægt. Reynir þá ekki á hvort skilyrði a. liðar sama lagaákvæðis séu einnig uppfyllt. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. ágúst 2004.

Lögreglustjórinn í Hafnarfirði krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu og eftir atvikum þar til dómur gengur í málum hans, þó ekki lengur en til mánudagsins 6. september n.k. kl. 15:00.

Krafan er reist á ákvæðum a- og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Í kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald kemur fram að kærði sé grunaður um eftirtalin brot sem nú eru í rannsókn hjá lögreglunni í Hafnarfirði, Reykjavík og á Selfossi:

[...]

Kærði var með dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 21. október 2003 dæmdur í 6 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir fjölda brota gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni en mest bar þar á brotum gegn 244 gr. almennra hegningarlaga. Þann 15. júní s.l. var kærði dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 15 mánaða fangelsi fyrir rán og mörg þjófnaðarbrot og er kærði þá ítrekað búinn að rjúfa skilorð dómsins frá 21. október 2003

Lögreglustjórinn telur að ljóst sé að kærði hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna og hafi á undanförnum misserum fjármagnað neyslu sína með afbrotum enda ekki verið í fastri vinnu eða haft fastan samastað. Jafnskjótt og kærði hafi losnað úr gæsluvarðhaldi eða farið úr meðferð hafi hann tekið upp fyrra neyslumynstur. Þannig hafi komið fram í lögregluskýrslum að kærði hafi verið að koma úr meðferð [...] er hann hafi brotist inn á [...] til þess að ná sér í lyf. Hann virðist því vera kominn í sama far og hann hafi verið í áður er hann hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna brotanna er hann var dæmdur fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. júní s.l. Lögreglustjóri telur með vísan til framanritaðs að ljóst sé að mikil hætta sé á að kærði haldi áfram afbrotum gangi hann laus. Þá vísar lögreglustjóri ennfremur til þess að rannsókn málanna sé á frumstigi.

Fallast verður á að kærði sé vanaafbrotamaður. Þrátt fyrir skilorðsbundinn 6 mánaða dóm 21. október 2003 rauf hann skilorð með fjölda brota sem hann hlaut 15 mánaða fangelsi fyrir 15. júní 2004. Þrátt fyrir þann dóm hefur hann ekki látið sér segjast og bera brotin þess merki að kærði sé að fjármagna fíkniefnaneyslu sína enda stundar hann ekki fasta vinnu og á ekki fastan samastað. Rannsókn brotanna er ennfremur á frumstigi. Samkvæmt ofansögðu ber að fallast á kröfu lögreglustjórans í Hafnarfirði með vísan til a- og c-liðar 103. gr. laga nr.19/1991. Kærða verður því gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu og eftir atvikum þar til dómur gengur í málum hans, þó ekki lengur en til mánudagsins 6. september n.k. kl. 15.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 15.00, mánudaginn 6. september 2004.