Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-2
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Varanleg örorka
- Viðmiðunartekjur
- Sönnunarbyrði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 7. janúar 2022 leitar Vátryggingafélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. desember 2021 í máli nr. 705/2020: A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um hvort miða skuli við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við ákvörðun bóta til gagnaðila vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir árið 2017 eða hvort meta skuli árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Leyfisbeiðandi hefur greitt gagnaðila bætur á grundvelli 3. mgr. 7. gr. laganna og því lýtur málið að kröfu gagnaðila um frekari bætur úr hendi leyfisbeiðanda.
4. Með dómi héraðsdóms voru ekki taldar forsendur til þess að beita 2. mgr. 7. gr. laganna við ákvörðun bóta til gagnaðila og var leyfisbeiðandi því sýknaður af kröfu hennar. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfu gagnaðila. Yrði að líta svo á að aðstæður gagnaðila á viðmiðunartímabili hafi verið óvenjulegar í skilningi ákvæðisins og að árstekjur hennar síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið ekki verið réttur mælikvarði á framtíðartekjur. Gera mætti ráð fyrir að hefði slysið ekki orðið hefði gagnaðili að minnsta kosti haft jafnháar tekjur næstu árin og hún hafði við nánar tilgreint starf árin 2015 til 2016 miðað við fullt starf. Hefði leyfisbeiðandi ekki bent á annan og réttari grundvöll til að ákveða árslaun.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Í þeim efnum vísar hann einkum til þess að mikilvægt sé að fá úr því skorið hvernig sönnunarbyrði sé háttað við áætlun framtíðartekna tjónþola samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en skilja megi niðurstöðu Landsréttar þannig að sönnunarbyrðin hafi verið færð á leyfisbeiðanda. Algengt sé að deilt sé um framtíðartekjur þegar laun tjónþola á viðmiðunartímabili eru lægri en mælt er fyrir um í 3. mgr. 7. gr. laganna og því geti niðurstaðan leitt til verulegs kostnaðarauka fyrir leyfisbeiðanda. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Hafi dómur Landsréttar byggst um of á almennum forsendum auk þess sem ekki hafi verið leyst með fullnægjandi hætti úr málsástæðum leyfisbeiðanda. Þá hafi forsendur framtíðartekna gagnaðila verið rangar þar sem meðal annars hafi verið miðað við fullt starfshlutfall hennar og starf sem hún hugðist ekki sinna til framtíðar.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.