Hæstiréttur íslands

Mál nr. 80/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hald
  • Skjal
  • Trúnaðarskylda lögmanns


Mánudaginn 9

 

Mánudaginn 9. mars 2009.

Nr. 80/2009.

Ríkislögreglustjóri

(Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota)

gegn

Logos slf.

(Erlendur Gíslason hrl.)

 

Kærumál. Hald. Skjöl. Trúnaðarskylda lögmanns.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem Ríkislögreglustjóra var heimilað að leggja hald á nánar tilgreind skjöl. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ekki hefði verið sýnt fram á að umrædd skjöl hefðu að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns um einkahagi hans. Væri því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja hald á nánar tilgreinda kaupsamninga, fylgigögn og yfirlit um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins fram kemur í hinum kærða úrskurði rannsakar lögregla sölu eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á flugvélum til tilgreindra félaga. Beinist rannsóknin meðal annars að meintum fjársvikum og fjárdrætti. Af gögnum málsins má ráða að lögregla telji varnaraðila hafa í vörslum sínum afrit af kaupsamningum vegna sölu á flugvélunum. Varnaraðili hefur andmælt framkominni kröfu á grundvelli sjónarmiða um trúnaðarskyldu lögmanns við skjólstæðing. Um þetta vísar hann einkum til 1. mgr. 68. gr. og b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá vísar hann einnig um trúnaðarskyldu þessa til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, siðareglna lögmanna og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess telur hann að líta beri til 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sem og 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. 

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Samkvæmt 2. málslið ákvæðisins er hins vegar óheimilt að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til.

Í máli þessu er um að ræða skjöl sem ætla má að veiti lögreglu upplýsingar eða hafi sönnunargildi við rannsókn máls. Er lögreglu því skylt að afla slíkra skjala við rannsókn þess samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laganna. Í samræmi við 2. málslið ákvæðisins kemur til athugunar hvort ákvæði 2. mgr. 119. gr. laganna standi þessari kröfu í vegi. Þar segir meðal annars í b. lið að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir í starfi sem lögmaður.

Við úrlausn málsins ber að líta til þess að krafa sóknaraðila beinist að samningum sem skjólstæðingur varnaraðila hefur með aðstoð hans gert við þriðja mann og gögnum sem varða efndir þess samnings. Ekki hefur verið sýnt fram á að umrædd skjöl hafi að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns um einkahagi sína. Er því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður heldur ekki talið að tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár standi þessari niðurstöðu í vegi. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 69. gr. sömu laga að dómurinn ákveði með úrskurði haldlagningu eftirtalinna kaupsamninga, fylgigagna og yfirlita yfir ráðstöfun greiðslna, sem eru í vörslum lögmannsstofunnar Logos lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík:

Kaupsamningur varðandi vélina MSN3005, seljandi Hópsnes en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.

Kaupsamningur varðandi vélina MSN3006, seljandi Roxane en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.

Kaupsamningur varðandi vélarnar MSN3091 og TF-CSB/MSN3093, seljandi er ECSA en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglu­stjóra sé til rannsóknar mál er lúti að  Eignarhaldsfélaginu City Star Airlines ehf. og  kæru á hendur ofangreindum Ómari Benediktssyni, fyrrum stjórnarmanni félagsins, Rúnari Árnasyni fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og Atla Árnasyni fyrrum starfandi stjórnarformanni félagsins. Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Málið varði meint fjársvik og fjárdrátt í sambandi við sölu og kaup flugvélarinnar TF-CSD og ólöglega meðferð fjármuna félagsins.

Málið lúti að rannsókn á sölu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á flugvél til Roxane Holdings Limited á Bresku Jómfrúreyjum. Einnig að sölu fjögurra sambærilegra flugvéla sem virðast hafa verið seldar saman til Aircraft Asset Management AAM GmbH & CoKG og ofangreindir kaupsamningar fjalli um. Tvær af flugvélunum hafi verið eigu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., sú þriðja í eigu Roxane Holdings Limited og hafi hún áður verið keypt af eignarhaldsfélaginu.  Fjórða flugvéin hafi verið í eigu Hópsness ehf., sem sé félag í eigu eins af stjórnarmönnum eignarhaldsfélagsins og fjölskyldu hans.

Grunur leiki á að við sölu flugvélanna til ofangreinds aðila hafi söluverð flugvélanna tveggja í eigu eignarhaldsfélagsins verið óeðlilega lágt miðað við verðmæti og verð hinna tveggja flugvélanna. Þannig hafi verðgildi flugvélanna í eigu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. verið rýrt við söluna til verðaukningar á flugvélunum í eigu hinna tveggja aðilanna til tjóns fyrir eignarhaldsfélagið og síðar þrotabú þess.

Lögmaðurinn sem hafi haft umsjón með sölunni á ofangreindum flugvélum  hafi neitað að afhenda efna­hags­brotadeild ofangreinda kaupsamninga.

Í ljósi ofangreinds og fyrir framgang rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að fara fram á haldlagningu nefndra kaupsamninga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi rannsóknargagna, verður að ætla að kaupsamningar þeir sem hér um ræðir og krafist er haldlagningar á hafi sönnunargildi í máli því sem til rannsóknar er hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Verður því að telja að uppfyllt séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfu ríkislögreglustjóra um haldlagningu samkvæmt 1. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ekki verður talið, eins og atvikum máls er háttað, að ákvæði b liðar 2. mgr. 119. gr. laganna sé þeirri niðurstöðu til fyrirstöðu með tilliti til trúnaðarskyldu lögmanna, eins og byggt var á af hálfu varnaraðila í málflutningi. Krafan verður því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Ríkislögreglustjóra er heimil haldlagning eftirtalinna kaupsamninga, fylgi­gagna og yfirlita yfir ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum lögmannsstofunnar Logos lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík:

-          Kaupsamningur varðandi vélina MSN3005, seljandi Hópsnes en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.

-          Kaupsamningur varðandi vélina MSN3006, seljandi Roxane en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.

-          Kaupsamningur varðandi vélarnar MSN3091 og TF-CSB/MSN3093, seljandi er ECSA en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG.