Hæstiréttur íslands
Mál nr. 153/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 5. apríl 2002. |
|
Nr. 153/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
X krafðist þess að hann yrði látinn laus úr gæsluvarðhaldi þar sem sú háttsemi sem hann hefði gengist við og væri tilefni varðhaldsins væri ekki refsiverð. Héraðsdómari vísaði kröfunni frá dómi. Hæstiréttur taldi að skýra yrði 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála svo að þargreind heimild til að leita úrlausnar dómstóla um ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda tæki meðal annars til ágreinings um ákvörðun lögreglu um að neyta ekki heimildar 2. mgr. 105 gr. laganna til að láta sakborning lausan úr gæsluvarðhaldi. Augljóst væri af upphafsmálslið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að í skilningi 2. mgr. 105. gr. laganna geti ástæða ekki lengur verið til gæsluvarðhalds ef háttsemi, sem sakborningi væri gefin að sök, reyndist ekki vera refsiverð, en úr því yrði dómari að leysa í máli sem þessu ef á það væru bornar brigður. Væru því ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka efnislega afstöðu til kröfu X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2002, þar sem vísað var frá dómi kröfu varnaraðila um að hann yrði látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
I.
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili handtekinn 27. janúar 2002 vegna gruns um að hann ætti hlut að stórfelldum innflutningi og sölu fíkniefna, en lögreglan hafði þá skömmu áður lagt hald á um 5 kg af amfetamíni og 158 g af kókaíni. Varnaraðili var leiddur fyrir héraðsdómara næsta dag og honum gert samkvæmt kröfu sóknaraðila að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins allt til 11. febrúar 2002. Hann hafði áður gengist í lögregluskýrslu við að hafa átt verulegan hlut að málinu og staðfesti hann þann framburð fyrir dómi. Síðastgreindan dag var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur krafa sóknaraðila um að gæsluvarðhald yfir varnaraðila yrði framlengt til 25. febrúar 2002. Í úrskurði héraðsdómara var fallist á þá kröfu með skírskotun til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sem jafnframt var vísað til sem stoð fyrir gæsluvarðhaldi í fyrri úrskurðinum. Sóknaraðili krafðist aftur framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila og þá allt til 8. apríl 2002, en í það sinn á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fyrir dómi mótmælti varnaraðili ekki þeirri kröfu og var fallist á hana með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 2002. Sætir hann nú gæsluvarðhaldi á grundvelli þess úrskurðar.
Varnaraðili krafðist þess 27. mars 2002 að hann yrði þegar í stað leystur úr gæsluvarðhaldi, þar sem skilyrði fyrir því væru ekki lengur fyrir hendi. Var þetta rökstutt nánar með því að komið hafi í ljós við athugun verjanda hans að við breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með reglugerð nr. 490/2001 hafi amfetamín (amfetamine eða amphetamine) fallið af skrá um þau efni, sem óheimilt væri að flytja inn á íslenskt yfirráðasvæði, selja þar eða hafa í vörslum sínum. Með því að þessa efnis væri heldur ekki getið í 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni sem eins af þeim efnum, sem falli undir ákvæði 2. gr. sömu laga, væri sú háttsemi, sem varnaraðili hafi gengist við í málinu, ekki refsiverð. Þessi krafa varnaraðila var tekin fyrir á dómþingi 28. mars 2002 og sama dag kveðinn upp hinn kærði úrskurður, þar sem henni var sem áður segir vísað frá dómi.
II.
Meðan á rannsókn opinbers máls stendur má samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991 leita úrskurðar dómara um ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans. Í 2. mgr. 105. gr. sömu laga kemur meðal annars fram að sá, sem krafist hefur gæsluvarðhalds, skuli láta sakborning lausan þegar ástæður til gæslu eru ekki lengur fyrir hendi. Ákvörðun um hvort svo skuli gert, sem í máli þessu á undir sóknaraðila, varðar í senn rannsóknarathafnir lögreglu og réttindi sakbornings. Að því gættu og að teknu tilliti til ákvæðis 4. mgr. 5. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með áorðnum breytingum, verður að skýra 75. gr. laga nr. 19/1991 svo að þargreind heimild til að leita úrlausnar dómstóla taki meðal annars til ágreinings um ákvörðun lögreglu um að neyta ekki heimildar 2. mgr. 105 gr. laganna til að láta sakborning lausan úr gæsluvarðhaldi. Augljóst er af upphafsmálslið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að í skilningi 2. mgr. 105. gr. laganna getur ástæða ekki lengur verið til gæsluvarðhalds ef háttsemi, sem sakborningi er gefin að sök, reynist ekki vera refsiverð, en úr því verður dómari að leysa í máli sem þessu ef á það eru bornar brigður.
Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka efnislega afstöðu til kröfu varnaraðila.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem henni var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2002.
Með bréfi til dómsins, dagsettu í gær, krafðist Karl Georg Sigurbjörnsson hdl., verjandi kærða X nú gæslufanga á Litla-Hrauni, þess að kærði yrði látinn laus úr gæsluvarðhaldi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík, sem fer með rannsókn þess máls, sem er tilefni gæsluvarðhaldsvistar kærða, krefst þess, að kröfu kærða verði vísað frá dómi.
Helstu málavextir eru þeir, að þann 28. janúar síðastliðinn var kærði handtekinn vegna gruns um aðild að stórfelldu fíkniefnamisferli, en sama dag hafði lögreglan lagt hald á tæp 5 kg af amfetamíni og 158 g af kókaíni. Hluti amfetamínsins, eða 626 g, var í vörslu kærða við handtökuna, en mismunurinn í vörslu nafngreinds manns. Við rannsókn hefur komið í ljós, að allt amfetamínið hafði skömmu áður verið í vörslu kærða og að það var sent frá Þýskalandi. Var hlutverk kærða að taka við efnunum frá vörslumanni þeirra hérlendis og koma þeim í verð. Þá hefur komið fram hjá kærða og öðrum í málinu, að hann hafi áður tekið við fíkniefnasendingum frá manni þeim, sem talinn er hafa sent efnin frá Þýskalandi, á síðasta ári um 1 kg af amfetamíni, um 300 g af kókaíni og ótilteknum fjölda e-taflna. Þessi efni segist kærði hafa selt og afhent öðrum.
Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 25. febrúar síðastliðinn að kröfu lögreglu á grundvelli þess, að fyrir hendi væri sterkur grunur um, að hann hafi með framangreindum hætti brotið gegn 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það brot varði nú allt að 12 ára fangelsisrefsingu. Þyki ætlað brot kærða svo alvarlegt, að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til þess að kærði sitji í gæsluvarðhaldi, þar til dómur gengur í málinu, en þó eigi lengur en til 8. apríl næstkomandi kl. 16.
Krafa kærða um lausn úr gæsluvarðhaldi er studd þeim rökum, að ekki séu lengur fyrir hendi skilyrði til þess, að hann sæti slíkri vist. Komið hafi í ljós, að samkvæmt gildandi reglugerð nr. 490/2001 um breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sé amfetamine eða amphetamine ekki lengur á skrá sem bannað efni á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum. Samkvæmt 2. mgr. þeirar lagagreinar sé heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra heimilt að mæla svo fyrir í reglugerð, að varsla og meðferð annarra ávana- og fíknefna, en talin eru upp í 6. gr sömu laga, sé óheimil á íslensku forráðasvæði. Þar sem amfetamine sé ekki lengur talið upp í umræddri reglugerð sem bannað efni séu saknæmis- og ólögmætisskilyrði ekki lengur uppfyllt varðandi þá háttsemi, sem kærði hafi viðurkennt, en hann hafi einungis játað að hafa haft efnið í vörslu sinni á tímabilinu eftir að umrædd reglugerð tók gildi. Af þessum ástæðum séu ekki lengur skilyrði fyrir að kærða sé haldið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda ljóst að brot hans fullnægi ekki þeim kröfum, sem gerðar séu í því ákvæði.
Um lagaheimild til að bera málið undir dómstóla vísar kærði til 75. gr. laga um meðferð opinberra mála og varðandi heimild til lausnar úr gæsluvarðhaldi skírskotar hann til 2. mgr. 105. gr. sömu laga.
Lögreglustjórinn í Reykjavík byggir frávísunarkröfu á því, að ekki sé til að dreifa í lögum um meðferð opinberra mála heimild til að bera mál sem þetta undir dómstóla. Eigi því hvorki 75. gr. né 2. mgr. 105. gr. laga nr. 19/1991 við um málið. Þá sé dómstóll þegar búinn að fjalla um skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi. Að lokum sé ekki eðlilegt, að dómstóll fjalli um refsinæmi verknaðar, áður en mál sé tekið til efnismeðferðar á grundvelli ákæru.
Samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991 má bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að nefndum lögum, kemur fram, að þar sem stjórn rannsóknar sé að öllu leyti tekin úr höndum dómara þyki nauðsynlegt, að aðilar (rannsóknari, sakborningur eða verjandi hans) geti borið undir dómara ágreiningsefni, er kunna að geta risið við rannsóknina. Um þetta fjalli 75. gr., sem sniðin sé eftir 1. mgr. 746. gr. dönsku réttarfarslaganna. Undir dómara megi því bera, hvort tilteknar aðgerðir rannsóknara séu lögmætar. Hins vegar sé ekki ætlast til þess, að dómari leysi úr því, hvort aðgerð sé nauðsynleg eða æskileg. Óski sakborningur eftir tilteknum aðgerðum, sem rannsóknari telur óþarfar, mætti bera undir dómara, hvort þær séu nauðsynlegar. Þá megi einnig skjóta til dómara ágreiningi, sem varðar réttarstöðu sakbornings eða verjanda.
Þá er gæsluvarðhaldsfanga heimilt að bera atriði, sem varða gæsluvarðhaldsvist, undir dómara eftir ákvæðum 75. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 4. mgr. 108. gr. sömu laga. Á sú heimild einungis við um afmörkuð atriði varðandi réttindi gæslufanga, meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur, svo sem nánar greinir í ákvæðinu.
Af framansögðu verður að mati dómsins ráðið, að krafa sú, sem hér er til meðferðar, fellur utan efnissviðs fyrrnefndra lagaheimilda.
Í 2. mgr. 105. gr. laga um meðferð opinberra mála er mælt fyrir um, að gæsluvarðhaldi skuli markaður ákveðinn tími og skuli sá, sem krafist hefur gæsluvarðhalds, láta sakborning lausan, þegar ástæður til gæslu eru ekki lengur fyrir hendi. Verði gæsluvarðhald ekki framlengt, nema til komi nýr dómsúrskurður.
Að mati dómsins verður ekki ráðið af ákvæði þessu eða lögskýringargögnum, að þar sé að finna heimild til að bera undir dómara, hvort háttsemi sú, sem hann sætir kæru út af, sé refsinæm eður ei. Verður að telja, að í ákvæðinu sé vísað til þeirrar skyldu lögreglu að láta gæslufanga lausan, þegar rannsóknarnauðsynjar krefjast þess eigi lengur, að honum sé haldið föngnum, þrátt fyrir að heimild standi til þess samkvæmt dómsúrskurði.
Telja verður samkvæmt framansögðu, að í lögum um meðferð opinberra mála sé, á rannsóknarstigi máls, eigi til að dreifa heimild til að bera undir dómstóla ágreining um refsinæmi þeirrar háttsemi, sem gæsluvarðhaldsfangi sætir kæru fyrir. Brestur því lagaskilyrði fyrir kröfu kærða um, að honum verði veitt lausn úr gæsluvarðhaldi. Af því leiðir, að vísa ber kröfunni frá dómi.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærða, X, um að hann verði látinn laus úr gæsluvarðhaldi, er vísað frá dómi.