Hæstiréttur íslands
Mál nr. 179/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Aðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2001. |
|
Nr. 179/2001. |
Örgjafinn ehf. (Jónas Haraldsson hdl.) gegn Eyrarmúla ehf. og Skipamiðluninni Bátar og kvóti (Grétar Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Ö ehf. krafðist þess að fá dóm á hendur E ehf. og S, óskráðu einkafirma. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins frá dómi sökum óljósrar dómkröfu Ö ehf., en henni virtist í raun vera beint að J og E, sem Ö ehf. taldi vera fyrirsvarsmenn S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili Eyrarmúli ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.
Varnaraðili Skipamiðlunin Bátar og kvóti krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Jafnframt verði lögmaður sóknaraðila víttur fyrir óviðurkvæmileg ummæli um varnaraðila í stefnu. Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, auk þess sem sóknaraðili og lögmaður hans verði sameiginlega dæmdir til að greiða álag á málskostnað í héraði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ekki eru efni til að verða við fyrrnefndri kröfu varnaraðila um vítur á hendur lögmanni sóknaraðila.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2001.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um fram komna frávísunarkröfu, var höfðað fyrir dómþinginu af Örgjafanum ehf., kt. 500887-1419, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, á hendur Eyrarmúla, kt. 701299-2999, Bugðulæk 5, Reykjavík og Skipamiðluninni Bátar og kvóti, Síðumúla 33, Reykjavík, með stefnu þingfestri 7. desember 2000.
Dómkröfur stefnanda eru: „að stefndu Eyrarmúli og Skipamiðlunin Bátar og kvóti verði dæmd til að greiða stefnanda fjárhæð kr. 106.557, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af þeirri fjárhæð frá 1. júní 2000 til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.”
Dómkröfur stefnda, Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu. Þá krefst stefndi málskostnaðar, hvort heldur málinu verði vísað frá dómi eða það dæmt efnislega. Þá krefst stefndi álags á málskostnað samkvæmt c lið 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, og að stefnandi og lögmaður hans verði in solidum úrskurðaðir eða dæmdir til þess að greiða álag á málskostnað, sbr. 2. mgr. og 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þá er þess krafist að að Jónas Haraldsson, héraðsdómslögmaður, verði víttur fyrir ósæmileg ummæli um stefndu í stefnu.
Ekki var sótt þing af hálfu stefnda, Eyrarmúla ehf.
Eins og að framan greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefnda, Báta og kvóta, og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.
II.
Stefnandi rekur rafverkstæði. Umstefnd skuld er vegna reikninga stefnanda vegna vinnu við rafbúnað bátsins Sólborgar RE-22, dagsettum 14. apríl 2000, að fjárhæð 99.107 krónur og 26. apríl 2000, að fjárhæð 7.450 krónur. Kveður stefnandi starfsmann Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti, Síðumúla 33, Reykjavík, hafa óskað eftir vinnu hans við bátinn. Skipamiðlunin Bátar og kvóti hafi eignast bátinn, með afsali dagsettu 11. apríl 2000.
Stefnandi kveðst hafa óskað eftir því við skipasöluna að hún greiddi umstefnda reikninga. Skipasalan hafi þá óskað eftir sundurliðun reikninganna. Kveður stefnandi skipamiðlunina hafa staðfest að hún hafi beðið um verkið, en kvartað við stefnanda undan umfangi þess og hvernig það hafi verið unnið. Síðar hafi skipamiðlunin vísað á kaupanda bátsins, Albert Pétursson, um greiðslu skuldarinnar, sem hafi einnig keypt fyrirtækið, Skipamiðlunina Bátar og kvóti, ásamt kennitölu þess. Fyrrgreindur Albert hafi hins vegar breytt nafninu í Eyrarmúli ehf., en haldið kennitölu skipamiðlunarinnar.
Stefnandi kveður hins vegar forsvarmenn fyrirtækisins, Skipamiðlunin Bátar og kvóti ehf., ekki hafa hætt að nota nafn fyrirtækisins og reki enn fyrirtæki með sama nafni og á sama stað, en ekki sé vitað hver kennitala þess sé nú.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að Skipamiðlunin Bátar og kvóti ehf., hafi beðið stefnanda um að vinna við bátinn Knút RE-22, síðar nefndur Sólborg RE-22, sem skipasalan hafi keypt til að selja aftur. Stefnt sé til greiðslu fyrir þá vinnu. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands sé Skipamiðlunin Bátar og kvóti ekki skráð hjá hlutafélagaskrá í dag þrátt fyrir óbreytta starfsemi. Kveðst stefnandi fyrst og fremst halda sig við upphaflegan verkbeiðanda og skuldara, sem sé Skipamiðlunin Bátar og kvóti, Síðumúla 33, Reykjavík. Forsvarsmenn þess fyrirtækis hafi verið og séu enn feðgarnir Jóhannes Eggertsson og Eggert Skúli Jóhannesson. Fyrirtækið hafi aldrei breytt neinu varðandi starfsemi sína, sem enn sé rekin óbreytt undir sama nafni af sömu forvígismönnum og áður. Skuldskeyting án samráðs við eiganda kröfu sé skuldareigandanum óviðkomandi og losi ekki upprunalegan skuldara undan kröfunni samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.
Stefnandi stefni einnig Eyrarmúla ehf., Bugðulæk 5, Reykjavík, sem sé kaupandi skipasölunnar og bátsins Sólborgar RE-22, sem stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, fullyrði að hafi yfirtekið greiðslu skuldarinnar við stefnanda, með kaupsamningi dagsettum 6. júlí 2000. Hins vegar hafi ekki verið færðar neinar sönnur á þessa fullyrðingu fyrirsvarsmanna Skipamiðlunarinnar Báta og kvóta og hafi forsvarsmaður stefnda, Eyrarmúla ehf., alfarið mótmælt því að hafa yfirtekið skuldina.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar um skuldaraskipti, sbr. einnig 5., 6. og 12. gr. laga nr. 39/1922.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV.
Stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, byggir kröfu sína um frávísun á því, að aðildarhæfi Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti sé í engu skýrt í stefnu. Þá sé ekki með neinum hætti gerð grein fyrir því hvernig aðild hvoru tveggja stefndu, Eggerts Jóhannssonar og Jóhannesar Eggertssonar f.h. Skipamiðlunarinnar Báta og kvóta og Eyrarmúla ehf., sé háttað, svo sem hvort um samlagsaðild eða samaðild sé að ræða, sbr. 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991. Nefnd atrið varði ein og sér frávísun málsins.
Einnig byggir stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, á því að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. e lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem lýsing á atvikum og málsástæðum í stefnu sé ekki nægilega skýr og mótsagnir séu milli málsatvika og málsástæðna stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um málskostnað án álags byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V.
Stefnandi byggir kröfu sína á reikningum vegna vinnu sinnar, sem hann kveðst hafa unnið fyrir Skipamiðlunina Bátar og kvóti ehf. Félag þetta hafi verið selt og sé nú rekið félagið Eyrarmúli ehf. með sömu kennitölu, en öðrum eigendum. Samkvæmt fullyrðingum stefnanda er þó af sömu aðilum enn rekið óskrásett fyrirtæki með nafni Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti.
Gögn málsins bera með sér að enn sé í rekstri fyrirtæki með nafninu Skipamiðlunin Bátar og kvóti. Stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, hefur fullyrt, að skipasala undir nafninu Bátar og kvóti sé nú rekið af einkahlutafélaginu Ísbyggð og að það félag hafi öðlast rétt til þess heitis „fyrir notkun”. Stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, kveður að allt hlutafé félagsins, Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti ehf., hafa verið selt þann 6.júlí 2000, en í málinu liggur hins vegar ekki frammi kaupsamningur um söluna.
Ekki hefur verið sótt þing af hálfu stefnda, Eyrarmúla ehf.
Dómkrafa stefnanda hljóðar um að fá dóm á hendur „Eyrarmúla og Skipamiðlunin Bátar og kvóti” Samkvæmt málsatvikalýsingu stefnanda í stefnu virðist sem stefnandi beini kröfu sinni um greiðslu reikninganna á hendur Jóhannesi Eggertssyni og Eggerti Jóhannessyni, sem hann kveður vera fyrirsvarsmenn stefnda, Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti, en þeir hafi einnig verið forsvarsmenn ehf. Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti. Með vísan til þess að stefnandi virðist í raun vera að beina kröfum sínum að fyrrgreindum Jóhannesi og Eggerti verður, eins og dómkrafa stefnanda er fram sett, verður að telja hana það óljósa að ekki verði hjá því komist að vísa málinu í heild frá dómi.
Rétt þykir að stefnandi verði úrskurðaður til þess að greiða stefnda, Skipamiðluninni Bátar og kvóti, málskostnað sem þykir, með hliðsjón af atvikum öllum, hæfilega ákveðinn 25.000 krónur, en ekki þykja vera skilyrði til þess að verða við kröfu stefnda um álag á málskostnað.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Örgjafinn ehf., greiði stefnda, Skipamiðluninni Bátar og kvóti, 25.000 krónur í málskostnað.