Hæstiréttur íslands

Mál nr. 61/2002


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Hraðakstur
  • Rangar sakargiftir
  • Eignaspjöll
  • Ákæra


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. maí 2002.

Nr. 61/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Snorra Einarssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttinda. Hraðakstur. Rangar sakargiftir. Eignaspjöll. Ákæra.

S var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot og fyrir að hafa tvisvar haft uppi rangar sakargiftir á hendur nafngreindum manni. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir húsbrot. Auk þessa var S gefið að sök að hafa skilið eftir logandi kerti á borði þegar hann yfirgaf húsið og hafa þannig kveikt í því. Með vísan til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 kom ekki til álita að dæma S samkvæmt þeirri verknaðarlýsingu sem ákæruvald hafði lagt til grundvallar fyrir Hæstarétti og fólst í því að hann hefði af ásetningi borið eld að húsinu. Með hliðsjón af framburði S var talið að hann hefði sýnt stórfellt gáleysi og unnið til refsingar fyrir eignaspjöll samkvæmt 3. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940. S var gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin og þótti refsing hans að gættu ákvæði 77. gr. laga nr. 19/1940 hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Málinu var skotið til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 25. janúar 2002, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt 1. og 2. lið I. kafla og II. kafla ákæru 19. apríl 2001 og samkvæmt báðum köflum ákæru 26. sama mánaðar og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

I.

Í I. kafla ákæru 19. apríl 2001 var ákærða gefið að sök að hafa í þrjú skipti brotið gegn umferðarlögum nr. 50/1987 með áorðnum breytingum, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Var hann sakfelldur fyrir tvö fyrsttöldu tilvikin, en sýknaður af því þriðja. Með dóminum var hann einnig sakfelldur fyrir brot samkvæmt II. kafla sömu ákæru fyrir að hafa tvisvar haft uppi rangar sakargiftir á hendur nafngreindum manni og brotið með því 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Aðilar una sakarmati héraðsdóms um öll atriði þessarar ákæru og er það ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

 

II.

Samkvæmt I. kafla ákæru 26. apríl 2001 var ákærði sakaður um húsbrot með því að hafa brotið glugga í íbúðarhúsinu á Hvalnesi í Lóni aðfaranótt 12. janúar 2001, ruðst þar inn og síðan farið um húsið. Ákærði hefur gengist við þessari háttsemi og með héraðsdómi var hann sakfelldur fyrir hana og brot hans réttilega talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga. Í II. kafla sömu ákæru var ákærða gefið að sök að hafa sömu nótt valdið stórfelldum eignaspjöllum með því að kveikja í húsinu, svo að það brann til kaldra kola. Viðurkennir ákærði að hafa farið um húsið með logandi kerti, sem hann hafi síðan stillt upp á borði ofan í bráðið vax. Hafi hann gleymt að slökkva á því þegar hann yfirgaf húsið og mótmælir ákærði að hafa ætlað að valda tjóni. Var hann í héraðsdómi sýknaður af sakargiftum samkvæmt þessum kafla ákærunnar.

Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið krafist þess að ákærði verði sakfelldur fyrir að hafa af ásetningi kveikt í húsinu og valdið með því stórfelldum eignaspjöllum. Þótt ákærði neiti sök telur ákæruvaldið nægar sannanir fram komnar til að taka beri þá kröfu til greina. Er þar einkum vísað til þess að af hálfu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík hafi verið gerð ítarleg rannsókn í rústum íbúðarhússins á Hvalnesi og sé niðurstaða hennar sú að brunann megi rekja til íkveikju af mannavöldum. Þar sé því lýst að í forstofu, skammt innan við útidyr, hafi gólfflísar á um 1,5 fermetra svæði verið brotnar og svonefndir brunaferlar sjáanlegir á yfirborði þeirra. Þegar flísunum var lyft upp hafi mátt sjá slíka ferla í steypu undir þeim. Gólfflísar nær veggjum forstofunnar hafi hins vegar verið heilar, sams konar brunaferlar ekki sjáanlegir þar og eðlilegur litur á steypu og lími undir þeim. Megi því ætla að á miðju forstofugólfinu hafi verið mikill hiti og meiri en annars staðar á gólfinu. Sé niðurstaða rannsóknarmanna sú að eldurinn hafi komið upp í forstofu hússins. Samkvæmt lýsingu eigenda þess hafi engir munir verið í forstofunni, sem skýrt geti að upptök eldsins hafi orðið á þessum stað. Mikill eldsmatur hafi hins vegar verið í herbergjum beggja vegna forstofunnar og einnig í stofunni inn af henni. Sé líklegt að munir hafi verið færðir á forstofugólfið og eldur lagður að. Þessa lýsingu í skýrslunni hafi annar þeirra manna, sem hana gerðu, staðfest fyrir dómi og meðal annars sagt að flísarnar á miðju forstofugólfinu hafi verið mjög mikið brotnar og augljóslega orðið fyrir mikilli hitageislun. Bendir ákæruvaldið á að eldurinn hafi samkvæmt þessu kviknað annars staðar en þar, sem ákærði kveðst hafa skilið kerti eftir á borði. Er jafnframt bent á að engum öðrum en ákærða sé til að dreifa, sem hafi verið á ferð í húsinu umrædda nótt, en þar hafi menn ekki haft fasta búsetu. Þá telur ákæruvaldið að eftir að ákærði velti bifreið sinni um nóttina um 10 kílómetrum vestan við Hvalnes hafi hann augljóslega reynt að dyljast í útihúsum á bænum Reyðará, en þangað gekk hann eftir bílveltuna. Hafi jafnframt fundist brunalykt af fötum ákærða þegar lögreglumenn handtóku hann næsta dag auk þess sem tveir bensínbrúsar hafi reynst vera í bifreiðinni og ákærði ekki getað gefið fullnægjandi skýringar á þeim. Loks vísar ákæruvald til þess að ákærði hafi bæði fyrir og eftir atvikið 12. janúar 2001 unnið mikil spjöll á mannvirkjum og lausafé á Hvalnesi og þá í félagi við aðra menn. Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, og með það í huga að ákærði hafi áður hlotið dóma fyrir brennu og eignaspjöll með því að leggja eld að mannvirkjum, telur ákæruvaldið fram komna lögfulla sönnun fyrir því að hann hafi af ásetningi kveikt í íbúðarhúsinu á Hvalnesi og með því unnið til refsingar samkvæmt 1. mgr.  sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

Af hálfu ákærða er því mótmælt að málið verði dæmt á þeim grundvelli, sem ákæruvaldið hefur krafist fyrir Hæstarétti. Bendir hann á að í ákæru sé þeirri háttsemi hans, sem krafist sé refsingar fyrir, lýst svo að hann hafi kveikt í húsinu með því að skilja eftir logandi kerti á lágu tréborði í hurðarlausu rými við forstofu aðalinngangs í húsið þegar hann yfirgaf það, en kertið hafi hann fest í vaxi, sem hann hellti á horn borðsins. Þessi verknaðarlýsing í ákæru sé í samræmi við það, sem hann hafi sjálfur viðurkennt, og frá þessu geti ákæruvald ekki vikið nú. Um kröfur ákæruvaldsins að öðru leyti vísar hann til þess, sem fram sé komið fyrir héraðsdómi, þar á meðal um brunalykt af fötum og bensínbrúsa í bílnum, sem hann telur sig hafa gefið skýringar á.

Í ákæru er hin refsiverða háttsemi ákærða talin felast í því að skilja eftir logandi kerti á borði þegar hann yfirgaf húsið og hafa þannig kveikt í því. Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærður maður ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir. Kemur því ekki til álita að dæma ákærða samkvæmt þeirri verknaðarlýsingu, sem ákæruvald hefur lagt til grundvallar fyrir Hæstarétti og telur sig hafa sannað, og felst í því að hann hafi af ásetningi borið eld að húsinu. Hins vegar hefur ákærði viðurkennt að hafa brotið rúðu í mannlausu húsinu, rótað fatnaði úr hirslum fram á gólf þar sem hann hafði kveikt á kerti sem hann festi með vaxi á borði. Með þessari háttsemi sýndi hann stórfellt gáleysi og hefur unnið til refsingar samkvæmt 3. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Hefur vörn málsins verið hagað með hliðsjón af því ákvæði jafnt og þeim, sem vísað er til í ákæru. Verður ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin, sem hann er sakfelldur fyrir í málinu, og þykir refsing hans að gættu ákvæði 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár. Skal ákærði jafnframt greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Snorri Einarsson, sæti fangelsi í eitt ár.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 19. desember 2001.

Málið, sem var þingfest 13. júní 2001 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð og munnlegum málflutningi 19. október 2001, er höfðað gegn Snorra Einarssyni, kt. 270676-4139, Hólabraut 20, Höfn í Hornafirði, 1: með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 19. apríl 2001, „fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík á árinu 2000:

I.

Fyrir að aka bifreiðinni RR-056 án ökuréttinda svo sem hér er rakið:

1) sunnudaginn 29. apríl 2000 á 56 km klst. vestur Hamrahlíð á vegarkafla þar sem leyfður     hámarkshraði var 30 km á klst., uns lögregla stöðvaði akstur hans í Litluhlíð.

2) þriðjudaginn 2. maí 2000 norður Langarima og inn Flétturima uns lögregla stöðvaði akstur hans.

3) þriðjudaginn 2. maí 2000 vestur Bústaðaveg að Litluhlíð uns lögreglan stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og liður 1 að auki við 1. mgr., sbr. 4. mgr. 37. gr. allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

II.

Fyrir að hafa, er lögregla stöðvaði akstur ákærða samkvæmt liðum 1) og 2), sagst vera Elvar Þór Magnússon, Hrafnhólum 4, með kennitöluna 300476-4499 og ritað nafn hans undir lögregluskýrslur þar sem framangreind umferðarlagabrot voru tilgreind, en með þessu leitaðist ákærði við að koma því til leiðar að Elvar Þór, sem sviptur var ökurétti, yrði sakaður um brotin, en til þess kom ekki.

 Telst þetta varða við 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

2: Með ákæru lögreglustjórans á Höfn dagsettri 26. apríl 2001, „fyrir eftirtalin brot framin á sveitabýlinu Hvalnesi í Lóni í Sveitarfélaginu Hornafirði þann 12. janúar 2001 um kl. 04:00:

I.

Húsbrot með því að brjóta glugga á þvottahúsi í íbúðarhúsinu á Hvalnesi og ryðjast þar heimildarlaust inn og fara síðan um húsið.

Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Stórfelld eignaspjöll með því að kveikja í íbúðarhúsinu á Hvalnesi í ofangreint skipti svo það brann til kaldra kola með því að skilja eftir logandi kerti á lágu tréborði í hurðarlausu rými við forstofu aðalinngangs í húsið þegar hann yfirgaf það. Kertið hafði ákærði fest í vaxi sem hann hellti á horn borðsins skömmu áður en hann yfirgaf húsið.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Vátryggingafélag Íslands hf. hefur gert þá kröfu í málinu að ákærði verði dæmdur til þess að greiða félaginu kr. 19.893.085,00 í bætur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá greiðsludegi bótanna, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.”

Í munnlegum málflutningi krafðist ákærandi jafnframt að ákærði verði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

Af hálfu ákærða er gerð sú krafa varðandi ákæru dagsetta 19. apríl 2001 að ákærði verði dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa.

Varðandi ákæru dagsetta 26. apríl 2001 gerir verjandi þá kröfu, að fyrir brot skv. I. hljóti ákærði vægustu refsingu sem lög leyfa en varðandi brot skv. II. gerir hann aðallega þá kröfu, að ákærði verði sýknaður samkvæmt þeim lið, en til vara að hann verði dæmdur í vægustu refsingu, sem lög leyfa. Þá gerir verjandinn kröfu um málsvarnarlaun að mati réttarins.

Málavextir:

I. Málavextir eru þeir samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík, að þann 29. apríl 2000 voru lögreglumenn í kyrrstæðri lögreglubifreið við hraðamælingar á móts við Menntaskólann í Hamrahlíð, þegar þeir mældu bifreiðina RR-056, sem ók þarna í vestur á 59 km/klst, en þarna má aka á 30 km/klst. Lögreglumennirnir stöðvuðu akstur bifreiðarinnar og báðu ökumann að koma yfir í lögreglubifreiðina. Aðspurður um heiti kvaðst hann heita Elvar Þór Magnússon, en hann hefði hvorki meðferðis nein persónuskilríki né ökuskírteini. Lögreglumenn færðu manninn á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Við skoðun á ökuskírteinaskrá kom í ljós, að ökumaður væri sviptur ökuréttindum. Við skoðun á mynd í ökuskírteinaskrá töldu lögreglumenn sig sjá að ökumaðurinn væri sá sami og myndin var af. Við athugun á þeim atvikum, sem um ræðir undir 1) og 2) í ákæru kom í ljós, að ökumaður hafði gefið upp rangt nafn, og var í raun ákærði í máli þessu. Þann 2. maí 2000 kl. 8:00 voru sömu lögreglumenn við eftirlitsstörf í lögreglubifreið í Flétturima og sáu þá hvar bifreiðinni RR-056 var ekið norður Langarima og beygt inn í Flétturima. För bifreiðarinnar var stöðvuð til að kanna réttindi ökumanns og reyndist ökumaður þá vera sá sami og í fyrra skiptið. Ökumaður kvaðst heita Elvar Þór  Magnússon og gaf jafnframt upp kennitöluna 300476-4499 og undirritaði hann handskrifaða framburðarskýrlsu á vettvangi með nafninu Elvar Þór Magnússon. Þar sem lögreglumennirnir töldu sig þekkja ökumann frá 29. apríl sl. var hann ekki færður á lögreglustöðina til frekari athugunar. Þegar lögreglumenn komu á lögreglustöð síðar um morguninn áttuðu  þeir sig á, að farþeginn í bifreiðinni hefði í raun verið Elvar Þór Magnússon og hann því verið ökumaður í hvorugt skiptið sem um ræðir hér að ofan. Þeir hugðust því fara heim til Elvars að Frostafold 20 til þess að fá upplýsingar hjá honum um hver hefði verið ökumaður bifreiðarinnar og voru á þeirri leið, þegar þeir mættu bifreiðinni RR-056 í þriðja sinn. Lögreglumennirnir stöðvuðu för bifreiðarinnar og  eins og segir í skýrslunni, handtóku Snorra Einarsson, farþega hennar, ákærða í máli þessu. Ákærði svaraði því aðspurður um ástæður þess, að hann hefði villt á sér heimildir, sagði hann, að hann hefði misst ökuréttindi á sínum tíma fyrir ölvunarakstur. Á meðan hann hefði verið sviptur ökuréttindum sagði hann að Elvar hefði verið stöðvaður af lögreglu og hefði hann þá þóst vera Snorri og hefði hann orðið að greiða sekt fyrir Elvar af þessum sökum. Hann hefði viljað hefna sín á Elvari með sama hætti. Ákærði sagði, að hann hefði ekki lengur verið sviptur ökuréttindum, heldur hefði hann ekki tekið ökupróf að nýju eftir að sviptingartími var liðinn.

Fyrir dómi játaði ákærði að hann hefði ekið eins og lýst er í lið 1) og 2) í ákæru. Hann hefði hins vegar ekki verið við akstur bifreiðarinnar eins og talið er lið 3). Ákærði gekkst við því, að hafa gefið lögreglumönnum upp að hann héti Elvar Þór Magnússon og gekkst einnig við því, að hafa undirritað skýrslur með nafninu Elvar Þór Magnússon. Hann gaf þá skýringu á því, hvers vegna hann hefði villt á sér heimildir, að Elvar Þór Magnússon hefði einhvert sinn gefið upp nafn ákærða við svipaðar aðstæður. Þegar ákærði hefði komist að þessu, hefði Elvar Þór bent honum á, að hann gæti gert þetta sjálfur einhvern tíma ef honum lægi á. Það hefði hann gert í þessu tilfelli, en þá hefði komið í ljós, að Elvar hefði einnig misst ökuréttindi.

Elvar Þór Magnúson gaf skýrslu hjá lögreglu, 20. júlí 2000 og staðfesti, að hafa verið með ákærða í bifreiðinni RR-056 að morgni 2. maí 2000 og hafi Snorri ekið, þar sem Elvar sagðist sjálfur vera sviptur ökuréttindum. Elvar sagði að hann hefði ekki vitað að ákærði hefði gefið lögreglu upp nafn hans sem sitt eigið, fyrr en hann var spurður um það seinna af lögreglumanni. Þá sagðist Elvar aldrei hafa gefið upp nafn Snorra sem hans, eins og Snorri hefði sagt í framburði í lögregluskýrslu þann 2. maí 2000.

II. Málavextir að því er varðar ákæru dagsetta 26. apríl 2001, eru eftirfarandi samkvæmt lögregluskýrslu: Þann 12. janúar 2001 kl. 7:15 var hringt til lögreglunnar og tilkynnt, að bifreið lægi á hvolfi á þjóðvegi 1 skammt vestan við sveitabýlið Svínhóla í Lóni og væri enginn sjáanlegur við bifreiðina. Tilkynnandi var starfsmaður Vegagerðarinnar, Jón Helgason, sem þarna var á leið að Hvalnesskriðum til að kanna ástand vegarins þar. Lögreglumenn fóru á vettvang og könnuðu hver mundi hafa verið þarna á ferð.

Kl. 8:40 á meðan lögreglan var enn á vettvangi umferðaróhappsins, var hringt og tilkynnt um eld á sveitabýlinu Hvalnesi í Lóni, og að búið væri að kalla út slökkvilið Hornafjarðar.

Íbúðarhúsið að Hvalnesi var tvílyft, forskalað og asbest-klætt, með timburgrind, byggt um 1950. Samtengt íbúðarhúsi til austurs voru geymslur, áður fjós, síðan mótorhús og vélageymsla. Fjós og vélageymsla voru byggð á árunum milli 1960-1970. Ekki munu vera til teikningar af húsunum, en íbúð er talin vera um 90 fm. að grunnfleti eða samtals um 180 fm. með efri hæð.

Þegar lögregla kom á vettvang var mikill eldur í vesturstafni hússins og teygði sig fljótt um allt hús. Rúður voru brotnar og sprakk klæðningin af húsinu um allt, fyrst á vesturstafni en síðan til austurs. Þeyttust brot tugi metra og sprungur komu í útveggi. Eldur teygði sig upp í gegnum þakið, sem fljótt fór að láta á sjá og var allt þakið fallið um kl. 9:30.

Í lögregluskýrslu kom fram, að á vettvangi umferðarslyssins hefði verið hvasst, vestanátt og rigning. Þá kom fram í skýrslunni, að á meðan á slökkvistarfi stóð, hafi heldur lægt vind, en vestan strekkingur og úrkoma á köflum hafi um tíma hamlað björgun verðmæta, þar sem skíðadrífa af glóð og reyk stóð af húsinu.

Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá, að rétt væri það, sem segir í ákæru, að hann hefði um kl. 4:00 þann 12. janúar 2001 brotist inn í íbúðarhúsið að Hvalnesi í Lóni. Hann kvaðst hafa kveikt þar á kerti og skilið það eftir á lágu tréborði í rými inn af aðalinngangi hússins. Ákærði taldi, að kerti þetta hefði verið um 30 cm á lengd og um 2 cm í þvermál grænt að lit og hefði verið nýtt eða ónotað, þegar hann kveikti á því. Ákærði kvaðst hafa kveikt á kertinu fljótlega eftir að hann kom inn í húsið og gengið með það um allt húsið áður en hann kom í rýmið við aðalinnganginn. Hann taldi, að kertið mundi hafa verið brunnið niður að hálfu, þegar hann fór úr húsinu. Ákærði kvaðst ekki hafa kveikt á kertinu til þess að kveikja í og andmælti því, að það hefði verið ætlun hans að valda tjóni.

Ákærði kvaðst hafa lagt af stað frá Hornafirði að hann minnti rétt um klukkan hálf þrjú til þrjú um nóttina og hefði hann þá verið ölvaður. Hann hefði haldið austur á bóginn, en hann hefði á þeim tíma ekki verið búinn að ákveða að fara upp að Hvalnesi. Hann hefði komist í Álftafjörð og snúið þar aftur og verið á bakaleið, þegar honum hefði dottið í hug að fara þarna uppeftir. Hann hefði ekið af þjóðveginum upp að bænum og setið þar í bílnum í um tíu til fimmtán mínútur. Hann hefði þar lokið við þann drykk, sem hann var með og reykt eina eða tvær sígarettur, en svo hefði hann farið inn. Hann hefði brotið rúðu í þvottahúsinu. Hann hefði síðan opnað hurðina innan frá í gegnum gluggann og farið inn um þvottahúsdyrnar. Ákærði kvaðst hafa gengið um allt húsið og síðan fram að aðaldyrunum. Hann hefði opnað skápa í húsinu í leit að einhverju, sem hann gæti tekið með sér. Frammi við aðaldyr kvaðst hann hafa brotið upp skáp, sem þar var, enda hafi þetta verið eini skápurinn með hengilás í húsinu. Þar hefði hann fundið tíu til fimmtán haglaskot, sem hann hefði tekið. Þá hefði hann tekið hljómflutningsgræjur úr stofunni. Hann sagði áðurnefndan skáp hafa verið að hluta til úr járni eða áli, en inni í honum hefðu verið tréhillur. Í skápnum hafi verið mikið af fötum og skóm og annar útifatnaður.

Ákærði kvaðst hafa fundið kerti á eldhúsborði, þar sem það hefði legið ásamt fleiri kertum. Hann kvaðst hafa farið um húsið með kertið í hendinni og hafi hann á þeirri ferð fengið kertavax á föt sín og brunabletti. Það hafi ekki verið fyrr en í þann mund, sem hann var að fara, sem hann setti kertið á borðið. Hann hafi þá farið að róta út úr skápnum. Hann sagðist hafa hent fötum þessum fram að dyrunum. Á gólfinu hefði einnig verið ýmislegt drasl auk fata, klósettpappír og gamlir pokar. Ákærði sagði, að ekkert hefði verið á borði því, sem hann setti kertið á, og hann hefði ekki sett neitt á borðið annað en kertið. Hann hefði hellt bráðnu kertavaxi á borðið og skellti því í og hafi hann  potað aðeins í það og fullyrti, að kertið hefði verið fast. Hann hafi enga tilburði haft til þess að koma af stað eldi eða sjá til þess, að eldur gæti borist í húsið. Hann taldi aðspurður, að kertið mundi hafa staðið þarna á borðshorninu um hálftíma áður en hann fór úr húsinu. Ákærði kvaðst hafa komið í húsið tíu til fimm mínútur í fjögur og hafa farið út aftur klukkan um fimm til hálf sex. Ákærði taldi sig hafa dvalið í húsinu einn til einn og hálfan klukkutíma. Þegar hann fór sagðist hann hafa gleymt kertinu og í hugsunarleysi skilið það eftir logandi. Ákærði fór út úr húsinu um aðaldyr þess, örskammt frá, þar sem hann hafði skilið kertið eftir. Ákærði ók síðan til baka og taldi sig hafa verið á um 110 til 120 km. hraða. Hann hafi þá ekið á stóran stein, sem lá á veginum og bíllinn hafi oltið við það. Í lögregluskýrslu var haft eftir ákærða, að hann hafi gengið með fjalli að Reyðará, þar sem hann hafi talið að það væri fljótlegast. Hann taldi, að hann hefði verið komin að Reyðará um kl. 6:00 og þá hafi enginn verið þar á ferli og slökkt ljós í vélageymslunni, þar sem hann lagðist til svefns. Ákærði kvaðst í raun ekki hafa verið að fela sig, heldur koma sér í skjól. Hann hafi ekki gefið sig fram á Reyðará, þar sem hann hafi verið hræddur, þar sem hann hafi verið ölvaður á bifreiðinni.

Vitnið Jón Helgason, kvaðst hafa verið á leið frá Höfn austur í Hvalnesskriður, en hann hafi verið að fara þangað til þess að hreinsa veginn, en hann sé starfsmaður Vegagerðarinnar. Við Skiphóla, hafi hann um kl. 7:15 um morguninn komið að bíl þar á hvolfi. Hann hafi athugað, hvort einhver væri í bílnum og hringdi síðan á Höfn  í lögregluþjón og sagði honum, að bíll væri þarna á miðjum vegi. Vitnið gerði enga könnun á því, hvort vél bílsins væri heit, eða, hversu langur tími væri frá því bíllinn hefði oltið. Hann hafi síðan haldið áfram sinni ferð. Um það bil 10 km séu frá þeim stað sem bíllinn var og að Hvalnesi. Hann hafi farið hjá Hvalnesi um kl. 7:20-25 og sagðist hann hafa séð þar útiljós, eins og hann taldi sig vanan að sjá þarna á hverjum morgni. Hann hafi farið áfram austur í Hvalnesskriður og hafi verið þar í líklega rúman klukkutíma. Þegar hann hafi komið til baka um kl. 8:30 og sá hann þá, þegar hann kom á móts við bæinn, að útiljósið logar ekki og það er eldtunga, sem er að byrja að koma út um útidyrahurðina. Vitnið kvaðst hafa hringt í neyðarlínuna og tilkynnt um að þarna væri eldur. Hann fór heim að bænum og rétt eftir að hann kom í hlaðið sprakk gluggi úr og þá var húsið orðið alelda. Vitnið sagði, að veður hefði verið norðaustan rok og rigning þegar hann fór austur, en þegar hann kom til baka hafði verið komið ágætis veður. Vitnið sagði, að eldurinn hefði fyrst komið út um útidyrnar, en til vinstri við dyrnar er herbergi og þegar glugginn í því herbergi sprakk, varð húsið nánast alelda um leið. Hefði eldurinn líka verið farinn að sjást uppi á efri hæðinni. En eldurinn hefði verið mestur í forstofunni og í herberginu til hliðar við hana.

Vitnið Sigurður Sigurðsson gaf ekki skýrslu í dómi, en skýrði svo frá í skýrslu til lögreglu, að hann hafi þennan morgun þann 12. janúar sl. verið á leið til Egilsstaða. Hann hafi lagt af stað kl. 5:30 frá bænum Framnesi í Nesjum, en nokkru áður en hann kom að Hvalnesi, hafi hann ekið fram á bíl, sem þar var á hvolfi. Bíllinn, sem var fólksbíll hafi snúið þannig, að skuturinn hafi verið inn á veginn og lokað honum að hluta, en bíllinn var á toppnum. Vitnið kvaðst hafa stoppað til þess að kanna, hvort þarna væri fólk. Hefði hann litið vel inn í bílinn. Þá hafi hann lýst vel í kringum slysasvæðið með ljósunum á bíl sínum til þess að kanna, hvort einhver lægi þarna utan vegar, en engan séð. Vitnið kvaðst síðan hafa haldið ferð sinni áfram austur og komið að Hvalnesi, að hann best telur um kl. 6:00, þó heldur fyrir kl. 6:00 en eftir. Hann hafi að venju litið upp að bænum. Aðeins hafi verið farið að birta, þegar hann ók framhjá Hvalnesi og hafi hann séð móta fyrir bæjarhúsinu og séð greinilega útiljósið. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neitt óeðlilegt í eða við Hvalnesbæinn, engar mannaferðir eða ljósagang.

Vitnið Jón Garðar Bjarnason, aðstoðarvarðstjóri lögreglunnar á Höfn, sagði, að tilkynnt hefði verið um að bifreið lægi á hvolfi skammt frá Svínhólum í Lóni. Hann hefði farið á staðinn og hefði komið ljós, að bifreiðin var eign ákærða Snorra Einarssonar. Vitnið var enn á vettvangi hjá bifreiðinni, þegar sami maður og tilkynnt hafði um bifreiðina, tilkynnti um að eldur væri í Hvalnesi. Vitnið fór að Hvalnesi og var þá nokkuð mikill eldur logandi í húsinu og breiddist hratt út, enda nokkuð hvasst. Vitnið ásamt öðrum, sem á vettvangi voru reyndi að bjarga eins miklum verðmætum undan eldinum og hægt var með tilliti til þess að glóð fauk af húsinu. Vitnið sagði, að mikill eldur hefði verið við vesturstafn hússins og rúður brotnar og eldur að færast fram eftir húsinu og kominn inn að miðju húsi. Taldi vitnið, að á þessu stigi hafi eldurinn verið orðið illviðráðanlegur og mundi ekki hafa breytt neinu, hvort slökkvilið hefði verið komið á vettvang. Eftir það beindist rannsóknin fyrst að leit að ákærða, enda varð ekki litið framhjá tengslum þessara tveggja atvika, sem gerðust með stuttu millibili og ekki langt hvort frá öðru. Vettvangsrannsókn við bílinn sýndi, að honum hafði verið ekið að austan. Aðspurt um ástand bifreiðarinnar taldi vitnið, að vél hennar hefði ekki verið heit. Mikil leit fór fram að ákærða og tók meðal annars þátt í henni björgunarsveit Hornafjarðar. Lauk leitinn með því, að ákærði gaf sig fram í fjárhúsum að Reyðará í Lóni og var tilkynnt um það kl. 15.35. Vitnið sagði, að ákærði hefði borið þess merki að hafa verið úti í vatnsveðri, en vitnið taldi sig ekki geta fullyrt, að hann hefði borið þess nein sérstök merki um að hafa verið drukkinn og ekki fann vitnið neina lykt af honum sem benti til þess. Hins vegar fann vitnið brunalykt af ákærða. Þegar á lögreglustöðina kom, hefði ákærði sjálfur bent vitninu á vaxslettur á fötunum og skildist vitninu, að þær hefðu komið í fötin í Hvalnesi.  Vitnið sagði ákærða, að hann væri handtekinn, bæði vegna gruns um ölvun við akstur, en einnig vegna gruns um íkveikju að Hvalnesi. Vitnið sagði, að viðbrögð ákærða við þessu tilefni handtökunnar, hefðu verið þau, að hann hefði sagst ekki hafa komið að Hvalnesi, en fljótlega viðurkenndi hann að hafa komið að Hvalnesi, en þrætti fyrir að hafa kveikt í.

Vitnið, Ómar Þorgils Pálmason, rannsóknarlögreglumaður í tæknideild lögreglunnar í Reykjavík, annaðist ásamt Björgvin Sigurðssyni, rannsóknarlögreglumanni, vettvangsrannsókn á brunastað. Þeir voru kallaðir frá Reykjavík og komu austur um kvöldið 12. janúar sl. Þeir skoðuðu þær myndir, sem teknar höfðu verið á meðan á brunanum stóð, en þegar á brunavettvang var komið, byrjuðu þeir á að ljósmynda allan vettvanginn. Með þeim var á vettvangi einn af eigendum hússins, sem gerði fyrir þá lauslegan uppdrátt, sem vitnið studdist við þegar hann gerði þann uppdrátt, sem er að finna í skýrslu þeirra Björgvins. Þeir fóru síðan í að ryðja braki af vettvangnum, en íbúðarhúsið var algjörlega brunnið til grunna. Þá komu strax í ljós í forstofu, mjög ákveðnir brunaferlar á gólfi. Gólfið í forstofu var flísalagt, en ofan á flísunum hefðu ekki verið nein þyngsli annað en aska og brunnið timbur. Undir því fargi, sem þarna var fundu þeir um 1,5 fermetrar af mjög brotnum flísum, sem benti til að þær hefðu orðið fyrir mikilli hitageislun. Við það að verða fyrir miklum hita verða svona flísar stökkar og þær voru mjög brotnar á þessu svæði, þannig að brunaferillinn á gólfinu var mjög greinilegur. Eðli elds er að leita upp, en ekki niður, þannig að allur bruni sem verður á gólfi og ekki fæst skýrður með öðrum hætti, verður talinn stafa af íkveikju. Það var því niðurstaða þeirra, að um hafi verið að ræða íkveikju af manna völdum. Þeir hefðu einnig til hliðsjónar, það sem eigandinn sagði þeim um rafmagn og annað slíkt, og skoðuðu rafmagnsvíra og töldu, að ekkert sem benti til að þar væri að finna kveikju að eldinum. Í forstofunni hafi þeir ekki fundið neitt, sem hefði getað orsakað sjálfsíkveikju, þannig að niðurstaðan varð þessi. Nánar aðspurt sagði vitnið, að hugsanlega hefðu upptök eldsins getað verið á fleiri stöðum en þeim, sem þeir töldu sig finna beint inn af aðaldyrum í forstofunni, til dæmis í herberginu til hliðar við forstofuna, en það breytti ekki því, að verksummerki sýndu, að eldsupptök hefðu orðið í forstofunni.

Í skýrslu rannsóknarlögreglumannanna Björgvins Sigurðssonar og Ómars Pálmasonar, segir m.a: „Það er niðurstaða rannsóknarinnar að eldurinn hafi komið upp í forstofu hússins. Af brunaferlum í forstofunni má ætla að eldurinn hafi byrjað á miðju forstofugólfinu, skammt innan við útidyrnar og þaðan breiðst út til norðurs og norðausturs, í átt að stiga upp á efri hæð hússins. Það er niðurstaða rannsóknarinnar að eldsupptök megi rekja til íkveikju af mannavöldum. Samkvæmt lýsingu eigenda, sem á vettvang komu, voru engir munir í forstofunni sem skýrt gætu þennan upptakastað. Hins vegar var mikill eldsmatur í herbergjum beggja vegna forstofunnar og einnig í stofunni, sem var austan við forstofuna. Líklegt er því, að munir hafi verið færðir á forstofugólfið og eldur lagður að.”

Samkvæmt lögregluskýrslu var lagt hald á fatnað ákærða og hafði hann samþykkt það munnlega, eftir því sem segir í lögregluskýrslu. Kvað hann sjálfur vera brunalykt af fötunum, þar sem hann hefði slökkt eld fyrir nokkru í gamla húsinu að Horni, þegar vinur hans hefði kveikt þar í og Snorri slökkt. Þá sagði ákærði vaxslettur, úr kertinu, sem hann var með í buxum sínum, vinstri skálm. Þessi föt voru send til athugunar til rannsóknarstofu í lyfjafræði með beiðni um rannsókn á, hvort í sýnunum væru leifar eldfimra efna.

Í svari rannsóknarstofunnar segir m.a: „Nokkuð magn lífrænna efna sem samsvöruðu samsetningu bensíns greindist í sýnum nr. 5 (hermannabuxur) og 6 (gulir hanskar). Innbyrðis hlutföll efnanna bentu til þess að bensínið í hönskunum hefði  gufað talsvert meira upp en bensínið í buxunum. Í sýnum nr. 1-4 greindist vottur lífrænna efna af mismunandi tagi, en þau reyndust ekki samsvara neinu þekktu íkveikjuefni að samsetningu og eiga því líklega uppruna sinn í fötunum sjálfum. Niðurstaða rannsóknarinnar varð því sú, að sýni nr. 5 og 6 hafi verið menguð bensíni, en þá mengun var ekki að finna í greinanlegu magni í sýnum nr. 1, 2, 3 eða 4.”

Vitnið Sölvi Leví Pétursson gaf ekki skýrslu fyrir dómi, en skýrði svo frá í skýrslu fyrir lögreglu, að hann hefði komið á Höfn í boði ákærða um helgina 5-7 janúar sl. og búið hjá foreldrum ákærða. Hann var spurður um atvik, sem orðið hefði á bænum Horni þann 6. janúar.  Sagði vitnið frá því, að þetta kvöld hefði hann og ákærði verið við drykkju og hefðu þeir ásamt fleirum verið í bíl með Bjarka Kárasyni. Í þessari ferð hefðu þau komið að Horni. Vitnið sagði, að sér hefði verið orðið kalt og hafi hann farið inn í kjallara hússins til að hlýja sér. Fyrir vangá sína hafi hafi kviknað í hrúgu af þurrum tuskum, þegar hann henti í hana vindlingi. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður og þreyttur og hafi hann sest þarna niður og gleymt sér Hann hafi svo allt í einu tekið eftir því, að eldur logaði  og hafi hann og ákærði, sem þá kom inn farið í að slökkva eldinn. Þegar þeir hafi lokið við að slökkva, hafi ákærði farið út aftur, en sjálfur hefði hann sest niður aftur og sofnað. Hann hafi síðan vaknað aftur við hrópin í ákærða, sem þá var kominn aftur inn og hafi hann verið að henda út logandi spýtum og hafi þeir saman getað komið öllu logandi timbri út og slökkt eldinn.

Vitnið Kolbeinn Guðmundsson, upplýsti að fjölskylda hans hefði átt hlut í húsinu að Hvalnesi. Kvaðst hann iðulega dvelja þar og hafa gist í húsinu helgina áður en bruninn varð. Hann taldi, að hann hefði verið síðastur til að gista í húsinu áður en það brann.  Hann sagðist hafa gengið frá húsinu eins og átti að gera, þegar hann yfirgaf það. Hann hefði tekið rafmagn af efri hæð, en ekki af neðri hæð, eins og honum hafði verið sagt að gera. Útiljós hefði því logað við húsið. Þótt rafmagn væri ekki tekið af neðri hæð, hefði öll rafmagnstæki verið tekin úr sambandi niðri og jafnvel slökkt á öllu. Vitnið sagði, að í forstofunni hefði verið skápur og tréborð og snagar og á þeim hefðu venjulega verið yfirhafnir. Vitninu var sýndur uppdráttur af húsinu, þar sem sett höfðu verið inn á þessi húsgögn og staðfestir hann, að þetta sé rétt sett inn. Vitnið taldi, að ekkert eldfimt hefði verið þarna í nánd við borðið. Vitnið sagði, að alltaf hefði verið skilin eftir útiljós annað við aðaldyr.   

 Vátryggingafélag Íslands hf. hefur gert bótakröfu á hendur ákærða vegna þess tjóns, sem varð í brunanum.

Samkvæmt því, sem segir í kröfubréfi vátryggði Vátryggingafélags Íslands hf. hús og lausafé á Hvalnesi. Fram kemur, að gert hefur verið mat á tjóni á húseign sem hér segir:

Virðingarverð hússins án grunns er kr. 13.907.920

Skemmdir á gólfplötu og sökklumkr.   1.385.165

Samtalskr. 15.293.085

Þá er talið, að bætur fyrir tjón á lausafé verði samkvæmt samkomulagi kr. 4.600.000.

Þegar krafan um bætur var lögð fram í málinu með bréfi dagsettu 9. apríl 2001, virðist félagið ekki hafa greitt neinar bætur. 

Niðurstaða:

Með játningu ákærða, sem samrýmist gögnum málsins er sannað, að ákærði hefur gerst sekur um þau brot, sem honum eru gefin að sök í I. lið ákæru dagsettri 19. apríl 2001, undirliðum 1. og  2. Hins vegar bera gögn málsins ekki með sér að ákærði hafi ekið bifreiðinni RR-056, er akstur þeirrar bifreiðar var stöðvaður eins og lýst er í undirlið 3 og  verður gegn mótmælum ákærða að telja ósannað að hann hafi ekið bifreiðinni við það tækifæri. Eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða.

Með játningu ákærða, sem samrýmist gögnum málsins er sannað, að ákærði hefur gerst sekur um það brot, sem honum er gefið að sök í II. lið ákæru dagsettri 19. apríl 2001. Við ákvörðun refsingar er haft í huga, að ákærði lét sér ekki nægja að gefa upp nafn annars manns, er hann var kærður, heldur undirritaði skriflega skýrslu með nafni þessa sama manns. Ákærði viðurkenndi, að ætlun sín með broti þessu hafi verið, að koma því til leiðar, að félagi hans með þessu nafni hlyti þá refsingu, sem fyrir það kynni að koma. Þá skal með vísun til 1. mgr. 148. gr. laga nr. 19/1940 hafa hliðsjón af því, að brot það, sem ákærði leitaðist við að koma á félaga sinn, var smávægilegt.

Sannað er með játningu ákærða, að hann hafi aðfaranótt 12. janúar 2001, brotið glugga á sveitabýlinu í íbúðarhúsinu að Hvalnesi og brotið sér þannig leið inn í húsið.

Ákærði hefur játað, að hann hafi eftir að hann hafi farið um allt húsið, skilið eftir logandi kerti, sem hann festi með kertavaxi á borðshorni í hurðarlausu rými til hliðar við forstofu aðalinngangs í húsið, þegar hann yfirgaf það. Eftir að hann yfirgaf húsið ók hann að eigin sögn,  bifreið sinni áleiðis til Hafnar, en á veginum nærri bænum Svínhólum, um 10 km vestan við Hvalnes, valt bifreiðin. Ákærði hélt af stað fótgangandi og komst í afdrep að bænum Reyðará, þar sem hann var handtekinn síðdegis daginn eftir.

Ákærði sjálfur telur, að hann hafi farið úr húsinu um kl. 5:00 til 5:30.

Vitnið Jón Helgason kom að bifreiðinni oltinni á veginum, um kl. 7:15, en gerði enga athugun á því, hvort vél hennar var þá heit eða, hversu langt gæti verið liðið frá því bifreiðin valt. Vitnið Sigurður Sigurðsson kom að bifreiðinni einhvern tímann upp úr kl. 5.30. Verður að draga þá ályktun af því, að ákærði hafi ekki yfirgefið Hvalnes seinna en  um kl. 5.30. Vitnið Sigurður Jón að Hvalnesi og ók þar framhjá um að hann taldi eitthvað fyrir kl. 6:00 og var þá allt með kyrrum kjörum og útiljós logandi. Þegar vitnið Jón ók fram hjá Hvalnesi að hann taldi um kl. 7:25 var sömuleiðis ekkert athugavert þar að sjá og útljós logandi. Þegar sama vitni kom til baka, að hann taldi um einni klukkustund síðar, var útiljós ekki lengur logandi, en hann sá þá merki um eld, sem honum virtist koma út með útdyrahurð á vestugafli hússins.

Ef gengið er út frá því, að frásögn ákærða sé rétt, bæði að því er varðar það, að hann hefði skilið eftir logandi kerti á borðshorninu, og að hann hafi yfirgefið húsið um kl. 5:00 til 5:30, hafa liðið um það bil tvær klukkustundir þar til vitnið Jón Helgason fór hjá á austurleið og sá allt með kyrrum kjörum í Hvalnesi og um það bil þrjár klukkustundir þar til elds varð vart, þegar hann kom til baka.

Samkvæmt lögreglurannsókn, sem fram fór samdægurs, kom eldurinn upp í forstofu hússins og á miðju forstofugólfinu skammt innan við forstofudyrnar og eftir uppdrætti beint inn af dyrunum. Er þessi staður, að því er virðist, í um þriggja til fjögurra metra fjarlægð frá þeim stað, sem ákærði sagðist hafa skilið eftir kertið.

Ekkert er framkomið í málinu um atbeina ákærða Snorra að eldsupptökum, annað en frásögn hans sjálfs um, að hann hafi verið í húsinu að Hvalnesi, síðari hluta aðfaranætur þess 12. janúar 2001, og að hann hafi við brottför úr húsinu skilið eftir logandi kerti standandi á borðshorni í herbergi til hliðar við  anddyri hússins. Telja verður miklar líkur á því, að þetta athæfi hafi leitt til þess, að eldur varð laus í húsinu. Hins vegar mælir það gegn því, að eldur hafi orðið laus af þessum sökum, að flest bendir til að liðið hafi um þrjár klukkustundir frá því ákærði fór úr húsinu, þar til elds varð vart og hitt, að eldsupptök eru talin hafa verið alllangt frá þeim stað, sem ákærði telur sig hafa skilið eftir kertið. Verður því að telja, að ekki sé komin fram nægileg sönnun þess, að rekja megi eldsupptök til saknæms brots ákærða og ber því að sýkna hann af því broti, sem honum er gefið að sök í II. tölulið ákæru þeirrar, sem dagsett er 26. apríl 2001.

 Samkvæmt sakavottorði dagsettu 18. apríl 2001, hefur ákærði Snorri Einarsson

hlotið eftirtalda dóma: 2. maí 1994, í Héraðsdómi Vestfjarða, fangelsi 6 mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 257. gr. alm. hgl., 28. desember 1995, í Héraðsdómi Austurlands, fangelsi 12 mánuði fyrir brot gegn 244. gr. og 164. gr. alm. hgl., 8. janúar 1997 í Héraðsdómi Vesturlands, fangelsi 30 daga fyrir brot gegn 1. mgr. 4., 1. mgr. 5., 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umfl. 1. mgr. 14., 19., 1. mgr. 20. gr. laga nr. 46, 1977 og 1. mgr. 8. gr. lsþ. Sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 18.01.1997, og 18. nóvember 1997 í Héraðsdómi Reykjaness, fangelsi 13 mánuði, þar af 10 mánuði skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 257. gr. alm. hgl.

Refsing ákærða ákveðst með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Hæfileg refsing ákærða fyrir brot, sem tilgreind eru í ákæru dagsettri 19. apríl 2001, I. tölulið, 1) og 2), er sekt til ríkissjóðs, kr. 21.000 og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákveðin verður refsing fyrir brot þau, sem ákærða eru gefin að sök í II. tölulið ákæru dagsettri 19. apríl 2001 og I. tölulið ákæru dagsettri 26. apríl 2001 í einu lagi. Hæfileg refsing ákærða fyrir þessi brot telst vera fangelsi í 60 daga.

Bótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf. er með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, vísað frá dómi.

Ákærði greiði sakarkostnað, sem leiðir af brotum þeim, sem hann er ákærður fyrir í ákæru dagsettri 19. apríl 2001. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar, hrl. 300.000 krónur.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögskilinn tíma vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, Snorri Einarsson, skal vera sýkn af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt II. tölulið ákæru dagsettrar 26. apríl 2001, fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegingarlaga nr. 19, 1940.

Ákærði greiði sekt til ríkissjóðs, kr. 21.000 og komi 6 daga fangelsi í stað sektarinar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði sæti fangelsi í 60 daga.

Bótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf. er vísað frá dómi.

Ákærði greiði sakarkostnað, sem leiðir af brotum þeim, sem hann er ákærður fyrir í ákæru dagsettri 19. apríl 2001.

Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar, hrl. 300.000 krónur.