Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Föstudaginn 16. janúar 2009. |
|
Nr. 14/2009. |
Ákæruvaldið(Dröfn Kærnested hdl.) gegn X(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á um að X yrði gert að sæta farbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði áfram bönnuð för frá Íslandi þar til dómur gengi í mál hans fyrir Hæstarétti, en þó eigi lengur en til 6. apríl 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur gengur í máli hans fyrir Hæstarétti, en þó eigi lengur en til 6. apríl 2009 kl. 16.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili mætti ekki fyrir héraðsdóm og ekki er sannað að hann hafi fengið boðun til þinghalds. Liggur því ekki fyrir að varnaraðili hafi notið þess réttar síns að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila. Engu að síður hélt sóknaraðili fast við kröfu sína um að héraðsdómur lyki úrskurði á farbannskröfuna. Eins og málið var þannig lagt fyrir héraðsdóm verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2009.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur Hæstaréttar gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til mánudagsins 6. apríl 2009, kl. 16:00, en hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi þann 15. desember s.l. og hefur áfrýjað þeim dómi.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 23. mars til 14. apríl sl., en svo óslitnu farbanni frá þeim degi til 12. janúar 2009.
Vísað er til alvarleika þess brots sem dómfelldi hefur verið dæmdur fyrir, ennfremur þess að dómfelldi er erlendur ríkisborgari. Þykir hætta á að hann hverfi af landi brott til að komast undan saksókn og er því nauðsynlegt að tryggja nærveru hans til að ljúka megi meðferð málsins fyrir dómi. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess beiðst að ofangreind krafa nái fram að ganga. Þá er af hálfu Ríkissaksóknara vísað til 2. mgr. 106. gr. laga nr. 88/2008 til stuðnings því að krafa farbann megi ná fram að ganga án þess að fengin hafi verið fram afstaða dómfellda til kröfunnar.
Dómfelldi hefur ekki komið fyrir dóm vegna málsins, en fram hefur komið að hann hafi verið boðaður til fyrirtöku símleiðis. Af hálfu verjanda hefur komið fram að hann viti ekki afstöðu dómfellda til málsins, hann hafi ekki haft samband við hann og telur ekki að sýnt hafi verið fram á að dómfelldi hafi verið boðaður til fyrirtöku. Telur verjandi sig því ekki eiga annan kost en að mótmæla kröfunni.
Í XIV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er fjallað um málsmeðferð rannsóknarmála fyrir dómi. Í 104. gr. laganna er gert ráð fyrir þeim möguleika að orðið sé við beiðni um að krafa um rannsóknaraðgerð hljóti meðferð fyrir dómi án þess að sá sem hún beinist að sé kvaddur á dómþing. Er hér um undantekningarákvæði að ræða og þarf þá meðal annars að vera uppfyllt það skilyrði að vitneskja aðila um aðgerðina fyrir fram geti spillt rannsókn. Er ekki um það að ræða í máli þessu.
Í 106. gr. laganna er fjallað um það þegar krafa sem er fyrir dómi lýtur að því að tekin verði skýrsla af sakborningi eða vitni, og kemur þar fram að ef taka eigi skýrslu af sakborningi, skuli hann færður fyrir dóm af lögreglu hafi hann verið handtekinn eða sæti gæsluvarðhaldi, en ella gildi ákvæði laganna um boðun og eftir atvikum kvaðningu á dómþing, en í 1. mgr. 121. gr. er þess getið að lögreglu sé skylt að verða við tilmælum ákæranda um að kveðja vitni fyrir dóm, hafi vitni ekki komið fyrir dóm samkvæmt löglega birtri kvaðningu. Í 2. mgr. 106. gr. segir að við meðferð kröfu um ráðstafanir samkvæmt XIV. kafla laganna sé sakborningi skylt að mæta fyrir dóm og gefa þar skýrslu ef lögregla eða ákærandi telur þess þörf. Ekki verður talið að í því ákvæði felist heimild til þess að víkja frá þeirri meginreglu laganna að sá sem krafa um rannsóknaraðgerð beinist gegn verði kynnt krafan og honum gefist kostur á að taka afstöðu til hennar. Gegn mótmælum verjanda dómfellda verður ekki talið að í ljós sé leitt af hálfu Ríkissaksóknara að þessa hafi verið gætt. Verður því að hafna kröfunni.
Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hafnað er kröfu Ríkissaksóknara um að, X, sæti áfram farbanni.
Úrskurðarorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum fulltrúa ríkissaksóknara og verjanda dómfellda.
Fulltrúi ríkissaksóknara lýsir yfir kæru.