Hæstiréttur íslands

Mál nr. 391/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Óskipt bú
  • Stöðvunarréttur


Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. september 2002.

Nr. 391/2002.

Sigurlína Aðalheiður Gunnlaugsdóttir

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Guðlaugu Sveinsdóttur

(enginn)

 

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Óskipt bú. Stöðvunarréttur.

S krafðist þess að bú föður hennar yrði tekið til opinberra skipta, en eiginkona hans, G, sat í óskiptu búi þeirra hjóna. S var ekki talin hafa sýnt fram á að G hefði rýrt eignir búsins með óhæfilegri fjárstjórn sinni, eða veitt tilefni til að óttast mætti slíka rýrnun, sbr. 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og var kröfu hennar því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú Gunnlaugs Þorsteinssonar yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að umrætt dánarbú verði tekið til opinberra skipta. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2002.

Mál þetta sem þingfest var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. febrúar sl. var tekið til úrskurðar í dag að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Sigurlína Aðalheiður Gunnlaugsdóttir, kt. 190956-5479, Laufengi 9, Reykjavík.

Varnaraðili er Guðlaug Sveinsdóttir, kt. 160525-2829,  síðast til heimilis að Ránargötu 1a, Reykjavík.Varnaraðili er Guðlaug Sveinsdóont-weight:normal'>

Dómkröfur sóknaraðila

Þess er krafist, með vísan til 1. mgr. sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, sbr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að dánarbú Gunnlaugs Þorsteinssonar, kt. 250220-3839, sem lést 19. júní 1993, verði tekið til opinberra skipta.

Dómkröfur varnaraðila

Þess er krafist að kröfu sóknaraðila um að opinber skipti fari fram á dánarbúinu verði hafnað.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila varnaraðila til handa að mati dómsins.

I

Málavextir

Málavextir eru þeir, að móðir sóknaraðila, Ester Sigurbjörnsdóttir, lést í maí 1974. Eftir andlát hennar sat Gunnlaugur Þorsteinsson, faðir sóknaraðila, í óskiptu búi og greiddi hann sóknaraðila út móðurarf sinn árið 1984.  Á árinu 1989 hóf hann sambúð með varnaraðila Guðlaugu Sveinsdóttur.  Hann stofnaði ásamt henni og öðrum einkahlutafélagið Gróanda hf.  Á árinu 1992 gengu þau í hjúskap og voru samsköttuð eftir það.  Það sama ár gerðu þau Gunnlaugur og Guðlaug með sér sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá í þeim tilgangi að tryggja því hjóna, sem lengur lifði heimild til að sitja í óskiptu búi.

Þann 28. nóvember 1992 undirritaði sóknaraðili yfirlýsingu um að hún hefði tekið við bifreið úr dánarbúi föður síns, sem fyrirframgreiddan arf. Var bifreiðin þá verðmetin á 740.000 kr. Einnig fékk sóknaraðili úr sama búi 100.000 kr. í peningum.  Gunnlaugur andaðist í júní 1993.  Hefur sóknaraðili setið í óskiptu búi síðan.

Í marsmánuði 1993 veiktist Gunnlaugur af hvítblæði og lést af völdum þess 19. júní 1993.

Með bréfi dags. 20. desember 2001 fór sóknaraðili fram á opinber skipti á dánarbúinu á grundvelli 1. mgr., sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, sbr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveður að eftir andlát móður hennar hafi faðir hennar, Gunnlaugur Þorsteinsson heitinn, setið í óskiptu búi. Á árinu 1985 hafi hann greitt út móðurarf til hennar. Samkomulag hafi verið á milli Gunnlaugs og sóknaraðila að innbúinu yrði skipt síðar, þannig að hans umgjörð innan veggja heimilisins yrði áfram sú sama. Var innbúið ekki tilgreint í erfðafjárskýrslu.

Allt frá andláti móður sóknaraðila hafi Gunnlaugur búið ýmist einn eða með sóknaraðila. Á árinu 1989 hóf hann sambúð með Guðlaugu Sveinsdóttur, varnaraðila. Hann hafi stofnað ásamt henni og öðrum einkahlutafélagið Gróanda hf. en tilgangur þess hafi verið veitingarekstur, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Það félag hafi um nokkurra ára skeið rekið veitingastaðinn Singapore, Hafnarfirði, en sá rekstur hafi gengið vel enda hafi verið um vinsælan veitingastað að ræða.

Gunnlaugur og Guðlaug hafi verið í sambúð en ekki samsköttuð. Á árinu 1992 hafi þau gengið í hjúskap. Í marsmánuði hafi Gunnlaugur lamast hægra megin og greinst með hvítblæði. Hann hafi látist af völdum þess 19. júní 1993. Hafi hann verið meðvitundarlaus í nokkurn tíma fyrir andlátið. Skömmu áður hafi varnaraðili tjáð sóknaraðila að Gunnlaugur hefði selt hlutabréf sín í Gróanda hf. Hafi sóknaraðili engar frekari upplýsingar fengið um söluna þrátt fyrir tilraunir til þess.

Sóknaraðili hafi reynt að afla gagna um sölu hlutabréfanna en svo virtist sem hvergi hafi verið tilkynnt um þá sölu, hvorki til hlutafélagaskrár né hafi verið getið um það á skattframtali. Með skattframtali hafi fylgt vélritað blað um eignabreytingar á hlutabréfum Gunnlaugs. Á því sé fyrst tekið fram að hann hafi keypt hlut að nafnvirði 1.220.000 kr. og síðan tekið fram að hann hafi selt hluta bréfanna til dóttur Guðlaugar, á verði undir nafnvirði og hinn hlutann hafi hann selt til manns að nafni Wong Yeow Fatt. Blað þetta um eignabreytingarnar hafi verið algjörlega óundirritað, ódagsett og með öllu ófullnægjandi um framangreinda sölu. Hvergi í fundargerðum eða nokkrum gögnum til hlutafélagaskrár sé minnst á þessa sölu, en slíkar tilkynningar séu tilkynntar til hlutafélagaskrár síðar þegar eignaskipti verða að félaginu. Í dag sé veitingareksturinn í eigu óskylds aðila, og að því er næst sé komist, hafi hann verið seldur honum fyrir nokkuð hátt verð. Telur sóknaraðili að ýmislegt sé aðfinnsluvert varðandi sölu þessa, salan hafi farið fram stuttu fyrir andlátið er faðir sóknaraðila hafi verið þungt haldinn og undir áhrifum kvalastillandi lyfja.  Sóknaraðili heldur því fram að þar sem veitingastaðurinn hafi notið mikillar velgengni hefði andvirði sölunnar átt að sjást sem eignaaukning í búinu, en sóknaraðili segir hana ekki vera greinilega. Virðist ýmislegt benda til þess að dóttir Guðlaugar hafi fengið veitingastaðinn fyrir mjög lágt verð þannig að um gjöf hafi verið að ræða.

Þann 23. júlí 1992 undirrituðu Guðlaug og Gunnlaugur erfðaskrá þess efnis að það þeirra er lengur lifði skyldi hafa heimild til að sitja í óskiptu búi, svo lengi sem það óskaði þess.

Þann 28. nóvember 1992 hafi sóknaraðili undirritað yfirlýsingu um að hún hefði tekið við bifreið úr dánarbúi föður síns, sem fyrirframgreiddan arf. Hafi bifreiðin þá verið verðmetin á  740.000 kr. Einnig hafi sóknaraðili fengið 100.000 kr. úr sama búi. Hafi verið gerð um þetta sérstök erfðafjárskýrsla.  Að öðru leyti hafi ekkjan setið í óskiptu búi.

Guðlaug hafi sent beiðni um leyfi til setu í óskiptu búi á árinu 1993. Þar hafi eignir búsins verið tilgreindar Ránargata 1a, bifreið sem hafi komið í hlut sóknaraðila sem fyrirframgreiddur arfur, bankainnstæða í Landsbanka Íslands, 1.500.000 kr., og verðbréf í Landsbanka Íslands, þá að nafnvirði 2.101.900 kr., og hlutabréf í íslenska hlutabréfasjóðnum að nafnverði 169.000 kr.  Einu skuldir búsins hafi verið skuld við Byggingarsjóð ríkisins að fjárhæð þá  342.046 kr.

Allt frá andláti Gunnlaugs hafi sóknaraðili haft áhyggjur af því hvernig eignum búsins hafi verið ráðstafað og hafi hún lengi haft grun um að Guðlaug rýrði efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn. Sóknaraðili hafi sem erfingi skammlífari maka, verulegra hagsmuna að gæta að hið langlífara misfari ekki með stjórn búsins.  Þann 5. janúar 1994, eða aðeins hálfu ári eftir andlát Gunnlaugs, hafi Ágúst Sindri Karlsson hdl. ritað bréf fyrir hönd sóknaraðila til Þorsteins Júlíussonar hrl. sem hafi séð um lögfræðileg málefni Guðlaugar og Gunnlaugs. Í bréfinu hafi verið óskað upplýsinga um þrjú atriði. Í fyrsta lagi hvert hafi verið markaðsvirði eigna dánarbúsins við andlátið, en auðvelt hafi verið að sjá það á þessu tímamarki er bréfið hafi verið skrifað. Í öðru lagi hafi verið óskað upplýsinga um það hvernig þeim fjármunum sem hefðu átt að koma út úr veitingastaðnum Singapore hefði verið ráðstafað og í þriðja lagi hafi verið óskað upplýsinga um það hvort einhverjir möguleikar væru á því að sóknaraðili gæti fengið greiddan föðurarfinn og málinu yrði þá lokið án frekari eftirmála. Engin formleg svör hafi borist lögmanninum en móttakandi bréfsins muni hafa haldið reiðilestur yfir sóknaraðila án þess að gefa nokkur svör við umbeðnum upplýsingum.

Í október 1997 hafi verið þinglýst á Ránargötu 1A veðskuldabréfi frá Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð 2.000.000 kr. vegna skuldar sem væntanlega hafi verið búinu óviðkomandi. Það sé því ljóst að gengið sé á eignir búsins og af þeim sökum hafi sóknaraðili uppi kröfu um skipti sér til handa.

Á skattskýrslu yfir eignir í árslok 1992 hafi eignir verið  8.568.900 kr. en í árslok 1993 hafi þær verið 7.390.000 kr. þrátt fyrir að verðmæti fasteignar hafi hækkað um 70.000 kr. Mismunurinn fælist í lækkuðu verðmæti hlutabréfa. Strax á fyrsta ári eftir andlát Gunnlaugs hafi hlutabréfum verið umbreytt í peninga, skipt um lánastofnun og mikil viðskipti og umbreyting hafi átt sér stað á því fjármagni sem var í búinu. Sóknaraðili hafi því ástæðu til að óttast um að verulega sé farið að ganga á þær eignir sem verið hafi í búinu við andlát föður hennar og sé henni því nauðsyn á því að krefjast opinberra skipta til að vernda hagsmuni sína.

Á síðastliðnu ári hafi Guðlaug ekkja Gunnlaugs fengið heilablóðfall og hafi síðan dvalið á hjúkrunarheimili. Samkvæmt því sem umbjóðandi komist næst muni hún að öllum líkindum ekki eiga afturkvæmt þaðan.  Nú búi í íbúðinni samkvæmt þjóðskrá Anna Ragna Alexandersdóttir, dóttir varnaraðila, og tvö börn hennar. Þar búi þau innan um allt lausafé og innbú Gunnlaugs og fyrri konu hans, móður sóknaraðila.  Sóknaraðili hafi ekki aðgang að skattaskýrslum  og hafi því ekki getað fylgst með eignabreytingum en ljóst sé að farið sé að ganga verulega á eignir m.a. með veðbandi á Ránargötu, sem að öllum líkindum sé búinu óviðkomandi. Þá sé einnig ljóst að forsendur Guðlaugar fyrir setu í óskiptu búi séu með öllu brostnar vegna heilsufars hennar og búi því aðrir en varnaraðili í íbúðinni. Jafnframt telji sóknaraðili að framlögð gögn sýni að ástæða sé til að óttast um verðmæti í búinu.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 getur erfingi krafist skipta sér til handa ef hann sannar að maki vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun. Samkvæmt 17. gr. erfðalaga geti erfingi við búskipti krafist endurgjalds úr búinu ef efni bús hafa rýrnað til muna vegna óhæfilegrar fjárstjórnar maka og setji sóknaraðili fram þá kröfu að þeirri reglu verði fylgt við skiptin.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður að allt frá því að hún hafi fengið heimild til setu í óskiptu búi hafi sóknaraðili verið mjög ósátt við það og gengið mjög hart eftir því að búi yrði skipt. Varnaraðili hafi látið það eftir sóknaraðila að greiða henni nokkurn arf. Hafi henni verið afhent bifreið að verðmæti 740.000 kr. svo og  100.000 kr. í peningum.

Íbúðin að Ránargötu 1a, hafi verið eign varnaraðila er hún gekk í hjúskap með Guðlaugi en á þeim tíma hafi hann enga fasteign átt. Á skattframtali varnaraðila árið 1992 sjáist að hrein eign hennar um áramótin 1991/1992 sé 4.268.830 kr. en skuldir 341.341 kr. Þess beri þó að gæta að mestur hluti eignanna sé íbúðin að Ránargötu 1a, sem að sjálfsögðu sé talin fram á fasteignamati en ekki raunvirði.

Á skattframtali Gunnlaugs sama ár sjáist að eignir hans um áramótin 1991/1992 nemi  3.592.050 kr. en skuldir 110.000 kr. en þar sé ekki um fasteign að ræða. Eftirtektarvert sé að fram komi á báðum framtölum frá 1992 að varnaraðili og Gunnlaugur hafi átt hvort um sig 50.000 kr. að nafnvirði í hlutafélaginu Gróanda h.f. um áramótin 1991/1992. Á skattframtali 1993, sem sé sameiginlegt framtal Gunnlaugs og varnaraðila, komi fram í fylgiskjali með framtalinu um eignabreytingar að keypt hlutabréf í Gróanda séu að nafnvirði 1.220.000 kr. en á sama ári hafi verið seld hlutabréf í Gróanda h.f. samtals að nafnvirði 1.320.000 kr. eða öll þau bréf sem keypt voru á árinu auk þeirra hlutabréfa sem Gunnlaugur og varnaraðili áttu fyrir.

Mótmælt er sem rangri þeirri fullyrðingu sóknaraðila að salan á hlutabréfum í Gróanda h.f. hafi farið fram stuttu fyrir andlát Gunnlaugs er hann hafi verið þungt haldinn og undir áhrifum kvalastillandi lyfja. Fyrir liggi kaupsamningur um sölu á hlutabréfum í Gróanda h.f. að nafnvirði 880.000 kr. þar sem varnaraðili og Gunnlaugur hafi selt hlutabréfin til Wong Yeow Fatt fyrir 1.000.000 kr.  Sé því hér um gerning inter vivos að ræða sem ekki komi hinu óskipta búi við.

Varnaraðili hafi heimilað veðsetningu á Ránargötu 1a í október 1997 á veðskuldabréfi frá Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð  2.000.000 kr vegna dóttur sinnar og tengdasonar. Hafi henni verið það fullkomlega heimilt innan heimildarramma þess er sitji í óskiptu búi. Skuldari á láninu sé skráður Guðmundur Óskarsson ehf. Eyjahrauni 12, Þorlákshöfn, og hafi hann staðið að fullu skil á öllum greiðslum vegna lánsins og eftirstöðvar þess er nemi 350.000 kr verði greiddar upp innan skamms tíma og skuldarbréfinu þar með aflýst. Sú fullyrðing af hálfu sóknaraðila að verið sé að ganga á eignir búsins með veðsetningu þessari sé því úr lausu lofti gripin og algjörlega röng.

Að því er varðar meinta rýrnun eigna búsins frá árslokum 1992 til ársloka 1993 er tekið fram af hálfu varnaraðila að það sé grundvallaratriði í heimild eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi sé að hann geti nýtt sér eignir búsins innan eðlilegs ramma sér til framfærslu.

Sú ráðstöfun varnaraðila á íbúðinni sem felist í búsetu dóttur hennar þar sé tvímælalaust innan ramma heimilda sóknaraðila sem leyfishafa til setu í óskiptu búi enda sé dóttirin fyrst og fremst að varðveita eignina fyrir varnaraðila og greiði raunar af henni öll rekstrargjöld meðan hún býr þar.

Ljóst sé að engin þau skilyrði eru fyrir hendi sem talin eru upp í 15. gr. erfðalaga og valda kynnu því að heimild til setu í óskiptu búi yrði felld niður.

IV

Niðurstaða

 Eins og fram kemur í gögnum málsins byggir varnaraðili, Guðlaug Sveinsdóttir, heimild sína til setu í óskiptu búi á fyrirmælum í sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá þeirra hjóna Guðlaugar og Gunnlaugs heitins, dagsettri 23. júlí 1992, sbr. 3. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Sóknaraðili krefst opinberra skipta á grundvelli 1. mgr. 15. gr. laganna en þar segir að erfingi geti krafist skipta sér til handa, ef hann sannar, að maki rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til, að óttast megi slíka rýrnun.  Í máli þessu er því haldið fram af hálfu sóknaraðila málsins, sem á föðurarf í hinu óskipta búi, að lagaskilyrði séu fyrir hendi til þess að hún geti krafist skipta sér til handa.

Varnaraðili hóf sambúð með Gunnlaugi heitnum á árinu 1989. Þau gengu í hjúskap á árinu 1992  Fram kemur á skattframtölum að þau áttu þau hvort um sig hlutafjáreignir áður en hjúskapur hófst og voru eignir þeirra áþekkar við upphaf hjúskapar.  Jafnframt höfðu þau með höndum veitingarekstur.  Á þessum tíma voru gerðar ýmsar ráðstafanir er vörðuðu fjármál þeirra.  Í málinu liggja fyrir gögn er sýna það að Gunnlaugur stóð sjálfur ásamt varnaraðila að sölu hlutafélagsins Gróanda ehf. og rituðu þau bæði undir kaupsamning sem var gerður þann 1. júlí 1992. Verður að fallast á það með varnaraðila að þær ráðstafanir sem gerðar voru í lifanda lífi Gunnlaugs heitins séu máli þessu óviðkomandi.

Tilgangurinn með lagareglum um setu maka í óskiptu búi er fyrst og fremst sá að raska sem minnst stöðu og högum þess langlífara.  Kemur þetta glögglega fram í athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 48/1989 um breytingar á erfðalögum nr. 8/1962. Miðuðu þær breytingar að því að styrkja stöðu þess langlífara á kostnað sameiginlegra niðja og stjúpniðja.  Loku var fyrir það skotið að stjúpniðjar gætu farið fram á skipti á búi ef heimild þess skammlífari á setu í óskiptu búi byggðist á sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá hjóna  Stjúpniðjar eiga í þeim tilvikum ekki annan kost en að krefjast skipta vegna meðferðar langlífara maka á eignum búsins samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 8/1962.

Samkvæmt 12. gr. laga nr. 8/1962 skal maki sem situr í óskiptu búi, hafa í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins.  Ber hann jafnframt ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða.  Í þessu felst að sá langlífari fer með allar eignarheimildir á munum búsins.  Þá hefur hann heimild til þess að ráðstafa eignum búsins með ýmsum hætti. Við það hefur verið miðað að langlífari maki eigi að geta notið efna búsins sér til framfærslu og framdráttar, haldið heimili sínu í horfi og haldið lífsstíl sínum eftir því sem fært er. Búseignin getur þ.a.l. bæði minnkað og vaxið allt eftir aðstæðum og getur langlífari maki þurft að nýta eignir búsins sér til framfærslu.

Í máli þessu hafa verið lögð fram skattframtöl Gunnlaugs heitins og varnaraðila.  Eins og fyrr segir voru þau fyrst samsköttuð á framtali ársins 1993.  Jafnframt hafa verið lögð fram skattframtöl áranna 1994-2001.  Bera þau framtöl með sér nokkra tilfærslu eigna eftir andlát Gunnlaugs. Jafnframt hefur nokkuð gengið á eignir búsins.  Til þess þó er að líta að eftir andlát Gunnlaugs hafði varnaraðili aðeins óverulegar tekjur og á árinu 1993 lét hún af störfum og þáði ellilífeyri frá Tryggingastofnun og greiðslur úr lífeyrissjóðum.  Á því átta ára tímabili er getið er hér að framan rýrnuðu eignir búsins um tæpar 2,5 millj. kr., að teknu tilliti til hækkunar á fasteignamatsvirði íbúðar, gengi hlutabréfa og fyrirframgreiddum arfi til sóknaraðila.  Þegar skattframtöl áranna 1994-2001 eru skoðuð kemur í ljós að mismikið hefur gengið á eigur búsins á milli ára.  Mestur munur er á milli áranna 1996-1997 en þá rýrnuðu eignir búsins um 1.019.000 kr.  Fram kom í málflutningi lögmanns varnaraðila að á þessum árum hafi varnaraðili verið heilsuhraust, hún hafi ferðast til útlanda með Félagi eldri borgara en einnig hafi hún lagt þónokkuð fé í viðhald fasteignarinnar að Ránargötu, m.a. þegar svalir voru byggðar utan á húsið til viðbótar við annan almennan rekstrarkostnað vegna íbúðarinnar.  Er það mat dómsins að ofangreind rýrnun á eignum búsins geti eigi talist óeðlileg og verði því ekki rakin til óhæfilegrar fjárstjórnar varnaraðila.  Einnig er til þess að líta að sóknaraðili, sem kvaðst hafa strax eftir andlát föður síns, óttast rýrnun á eignum búsins vegna óhæfilegrar fjárstjórnunar varnaraðila, hefði getað nýtt sér heimild til skrásetningar og mats eigna samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum ofl.

Sóknaraðili rökstyður kröfur sínar enn fremur með því að í október 1997 hafi verið þinglýst á Ránargötu 1 A veðskuldabréfi frá Búnaðarbanka Íslands að fjárhæð 2.000.000 kr. vegna skuldar sem væntanlega var búinu óviðkomandi.  Varnaraðili kveðst hafa heimilað þessa veðsetningu vegna dóttur sinnar og tengdasonar.  Skuldari á láninu var skráður Guðmundur Óskarsson ehf. Eyjahrauni 12, Þorlákshöfn, og hafi hann staðið að fullu skil á öllum greiðslum vegna lánsins en eftirstöðvar þess hafi numið 350.000 kr. við upphaf máls þessa.  Samkvæmt gögnum máls var bréfið greitt upp og því aflýst undir rekstri málsins.

Í heimild langlífari maka til þess að ráðstafa eignum búsins felst m.a. heimild til þess að skuldbinda það með löggerningum, t.d. með veðsetningu.  Sú heimild er ekki takmörkuð við það að ráðstöfunin sé honum einum til hagsbóta.  Því er ekki loku fyrir það skotið að langlífari maki láni veð í húseign sinni.  Hins vegar getur slík ráðstöfun, eftir atvikum, gefið erfingjum ástæðu til þess að óttast um hagsmuni sína.

Veðskuldabréf það sem um ræðir var upphaflega 2.000.000 kr. tryggingabréf með allsherjarveði. Ráðstöfun þessi kann að hafa verið varhugaverð á þeim tíma er hún var gerð, einkum þegar litið er til heildareigna búsins og eðlis tryggingarinnar. Hins vegar liggur nú fyrir að umrætt veð í íbúðinni að Ránargötu la er ekki lengur fyrir hendi og kemur því ekki til álita rýrnun búsins af þeim sökum.

 Það telst til ráðstöfunarheimilda þess langlífari að lána, leigja eða eftir atvikum selja eignir búsins. Fallist er á það með varnaraðila að það sé innan ramma heimilda hennar sem leyfishafa til setu í óskiptu búi að heimila dóttur sinni búsetu í íbúðinni að Ránargötu 1a. Sóknaraðili hefur ekki hafa sýnt fram á það að sú ráðstöfun sé til þess fallin að rýra efni búsins og að með henni sé verið að hygla dóttur varnaraðila með óeðlilegum hætti.

Þá verður einnig fallist á það með varnaraðila að heilsubrestur hennar veldur því ekki að forsendur fyrir setu hennar í óskiptu búi séu brostnar.

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið er það mat dómsins að eigi hafi verið færðar sönnur á að varnaraðli hafi rýrt eignir búsins með óhæfilegri fjárstjórn, eða veitt tilefni til að óttast megi slíka rýrnun. Eru því ekki skilyrði til þess að fallast á opinber skipti á dánarbúi Gunnlaugs Þorsteinssonar á grundvelli 1. mgr. 15. gr. laga erfðalaga nr. 8/1962 og er þeirri kröfu sóknaraðila hafnað. Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigurlínu Aðalheiðar Gunnlaugsdóttur, um að dánarbú Gunnlaugs Þorsteinssonar verði tekið til opinberra skipta.

Málskostnaður fellur niður.