Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2012


Lykilorð

  • Eignaspjöll
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ítrekun
  • Skilorð


                                     

Fimmtudaginn 14. mars 2013.

Nr. 540/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Guðbjörgu Gróu Guðmundsdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

Eignaspjöll. Brot gegn valdstjórninni. Ítrekun. Skilorð.

G var sakfelld fyrir minni háttar eignaspjöll og brot gegn valdstjórninni, með því að hafa með teppabankara brotið þrjár rúður íbúðarhúss auk þess að valda skemmdum á útidyrahurð þess og að hafa í kjölfar þeirra atvika sparkað í tvo lögreglumenn við skyldustörf sem höfðu afskipti af G starfa sinna vegna. Var refsing hennar ákveðin fangelsi í fimm mánuði, en fullnustu hennar frestað héldi G almennt skilorð. Þá var G gert að greiða A skaðabætur vegna skemmda á húsi hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Hann krefst þess að hafnað verði kröfu ákærðu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu og refsingu hennar.

Ákærða krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað heim í hérað til nýrrar og löglegrar meðferðar. Til vara krefst hún sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hún þess að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara sýknu af henni.

Bótakrefjandi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hans, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærða styður aðalkröfu sína við það að mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar hennar og vitna sé rangt og að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ekki er tilefni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti og er þessari kröfu því hafnað. Samkvæmt sakavottorði, sem lagt var fram við flutning málsins fyrir Hæstarétti, var refsing sú sem ákærða hlaut 27. febrúar 2007 vegna líkamsárásar samkvæmt dómi en ekki lögreglustjórasátt eins og segir í hinum áfrýjaða dómi. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Ákærða, Guðbjörg Gróa Guðmundsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 314.544 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 21. júní 2012, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 15. maí 2012, á hendur Guðbjörgu Gróu Guðmundsdóttur, kt. [...], [...],[...], fyrir hegningarlagabrot, framin aðfaranótt 20. nóvember 2010 í Reykjavík, sem hér greinir:

1.       Eignaspjöll, með því að hafa með teppabankara brotið tvær rúður á bakhlið íbúðarhússins að [...] og eina á framhlið þess, auk þess að valda skemmdum á útidyrahurð hússins.

2.       Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa í kjölfar atviksins sem lýst er í ákærulið 1, í fangamóttöku lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu, sparkað í bringu lögreglumannsins B og stuttu síðar sparkað í andlit lögreglumannsins C, en þau voru við skyldustörf og höfðu afskipti af ákærðu starfa sinna vegna.

Telst háttsemin samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og samkvæmt 2. ákærulið við 1. mgr. 106. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

A, kt. [...], gerir kröfu um að ákærðu verði gert að greiða honum skaðabætur vegna skemmda á húseign hans að [...], [...], að fjárhæð 127.955 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. nóvember 2010 til 1. maí 2011, mánuði frá dagsetningu kröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 9. gr., frá þeim degi til greiðsludags.

                Verjandi ákærðu krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð af refsikröfu ákæruvalds. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa, sem jafnframt verði bundin skilorði. Þess er aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að sýknað verði af bótakröfu, en til þrautavara að hún sæti verulegri lækkun. Þá gerir verjandi kröfu um málsvarnarlaun sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

      Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt laugardagsins 20. nóvember  2010 var óskað aðstoðar að [...] í [...] og kom fram í tilkynningu að nágrannakona væri að berja húsið að utan. Kemur fram að þegar lögreglumennirnir B, D og E komu á vettvang hafi heyrst brothljóð frá bakhlið hússins og hróp og köll frá konu. Reyndust tvær rúður vera brotnar í glugga á bakhlið hússins. Rætt var við A, íbúa í húsinu, sem kvað ákærðu hafa barið húsið að utan með áhaldi, sem hann taldi vera teppabankara og hefðu rúðurnar brotnað við þetta. Kom fram að deilur hefðu verið milli þeirra ákærðu vegna sólpalls, sem hún hefði reist við hús sitt að [...], en garðar húsanna eru samliggjandi. Lögreglumenn ræddu við ákærðu, en fram kemur að hún hafi virst vera undir áfengisáhrifum. Var ákærða beðin um að láta hús nágrannanna í friði og fóru lögreglumenn því næst af vettvangi.

      Nokkru síðar barst tilkynning um að ákærða væri aftur komin að húsi nágranna sinna. Kemur fram að A hafi hringt til lögreglu og óskað aðstoðar vegna þessa og hafi heyrst hávaði í konu og að rúða brotnaði á meðan á símtalinu stóð. Sömu lögreglumenn fóru á vettvang og reyndist vera búið að brjóta rúðu í glugga á framhlið hússins að [...]. Var rætt við A, sem sagði ákærðu hafa verið þar að verki. Lögreglumennirnir knúðu dyra á heimili ákærðu, en enginn svaraði. Fóru þeir við svo búið af vettvangi. Örfáum mínútum síðar barst enn tilkynning um að ákærða væri farin að berja hús nágrannanna að utan. Er lögreglumennina bar að reyndist ákærða vera úti í garði. Kemur fram að hún hafi verið handtekin og færð í handjárn, eftir að hafa reynt að hlaupa á brott. Ákærða var flutt á lögreglustöð og færð fyrir varðstjóra, sem ákvað að vista hana í fangageymslu vegna ástands hennar, til að tryggja öryggi hennar og koma í veg fyrir áframhaldandi brot, eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Þá kemur fram að ákærða hafi veitt viðnám og látið ófriðlega þegar átti að færa hana í fangageymslu. Hún hafi verið færð með valdi í fangaklefa, en þar hafi hún slegið til lögreglumannsins B, sem hafi vikið sér undan högginu. Ákærða hafi þá tekið tilhlaup og sparkað í bringu lögreglumannsins. Hún hafi reynt að sparka aftur í hann, en verið yfirbuguð. Lögreglumaðurinn C hafi komið til aðstoðar og reynt að fá ákærðu til að afhenda skartgripi og peysu með áföstum málmhlutum. Ákærða hafi neitað að afhenda þessa muni og hafi hún verið lögð á gólfið svo að taka mætti þá af henni. Ákærða hafi þá sparkað í andlit C. Meðal gagna málsins er hljóð- og myndbandsupptaka sem sýnir samskipti ákærðu við lögreglumenn við inngang lögreglustöðvarinnar, í herbergi varðstjóra, í lyftu og á svokölluðum fangagangi, framan við fangaklefa.

Ákærða var yfirheyrð af lögreglu daginn eftir atvikið. Hún kvaðst hafa ákveðið að banka á dyrnar hjá nágrönnum sínum með kústi, en ágreiningur hefði verið með þeim vegna sólpalls, sem fyrr greinir. Hún neitaði að hafa brotið rúður í gluggum á húsi nágrannanna og kvaðst ekki muna eftir því að hafa sparkað í lögreglumenn um nóttina. Hún kvaðst þó muna eftir því að rúða hefði brotnað þegar A nágranni hennar, eða lögreglumenn, reyndu að taka af henni kústinn.

Við aðalmeðferð málsins rakti ákærða aðdraganda þess að hún fór að húsi nágranna sinna í umrætt sinn, þ.e. deilumál vegna sólpallsins. Kvaðst ákærða hafa ætlað að ræða við A um þessi mál, en hún hefði séð að kveikt var ljós hjá honum. Ákærða kvaðst hafa gripið með sér kúst þar sem hált hefði verið á palli og í stiga við hús hennar, en einnig hefði hún ætlað að nota kústinn til að verjast hundi A, ef með þyrfti. Hún hefði barið að dyrum og A komið út. Hann hefði rokið í hana og rifið af henni kústinn. Kvað ákærða A hafa miðað kústinum á glugga og brotið rúðu með honum. Lögreglan hefði komið tvívegis á vettvang og hefði hún verið sökuð um það í síðara skiptið að hafa brotið rúður í glugga á bakhlið hússins. Síðan hefðu lögreglumennirnir komið þriðja sinni til að handtaka hana og hefði hún verið flutt á lögreglustöð. Þar kvaðst ákærða hafa verið dregin eftir gólfinu og hefði hún verið marin um allan líkamann á eftir.

Ákærða kvaðst alfarið neita því að hafa valdið eignaspjöllum á húsi nágranna sinna, eins og lýst er í ákæru. Þá kvaðst hún ekki hafa verið með teppabankara heldur gamlan kúst. Hún kvaðst þó eiga teppabankara úr basti. 

Ákærða neitaði að hafa sparkað í lögreglumenn í fangamóttöku, en tók fram að verið gæti að fótur hennar hefði farið ósjálfrátt í C þegar hún var látin leggjast á klefagólfið. Ef svo hafi verið hefði það verið óviljaverk. Ákærða kvað C ekki hafa beðið sig um að taka af sér skartgripi áður en hún reyndi að fjarlægja þá af henni.

Vitnið A kvaðst hafa verið heima að horfa á sjónvarp um miðnætti þegar hann hefði heyrt háreysti og barsmíðar við útidyrnar. Þegar hann opnaði dyrnar hefði ákærða verið þar fyrir með teppabankara og hefði hún ruðst inn í húsið og barið hann. A kvaðst hafa komið ákærðu út og hringt á lögreglu. Lögreglumenn sem komu hefðu reynt að ræða við ákærðu, en hún hefði ekki komið til dyra. A kvaðst hafa gengið til náða, en um hálftíma síðar hefði hann aftur orðið var við háreysti. Hefði hann þá séð að ákærða stóð bak við húsið og braut þar rúðu í eldhúsglugga. A kvaðst aftur hafa hringt á lögreglu, en ákærða hefði verið á bak og burt þegar lögreglumenn komu á vettvang og hefði hún ekki svarað þeim er þeir knúðu dyra hjá henni. Hins vegar hefði einn nágrannanna komið og greint frá því að hann hefði séð ákærðu berja bifreiðar í götunni með teppabankaranum. Lögreglumennirnir hefðu horfið á brott og kvaðst A hafa gengið til náða á ný. Um klukkan tvö um nóttina hefði hann enn vaknað við háreysti, farið fram og séð að ákærða var komin í framgarðinn hjá honum. Hann kvaðst hafa hringt í lögreglu og hefði hann heyrt meðan á símtalinu stóð að ákærða braut rúðu í glugga á framhlið hússins. A kvað konu sína hafa verið farna að sofa, en hún hefði vaknað og verið vitni að síðasta atvikinu. Hann kvað ákærðu hafa brotið tvær rúður í eldhúsglugga og rúðu í stofuglugga, auk þess sem höggför hefðu verið á útidyrahurð, en hún hefði látið högg dynja í hurðinni þegar hún kom fyrst að. Vísaði vitnið til ljósmynda, sem hann hefði tekið sem sýndu skemmdirnar, en myndirnar eru meðal gagna málsins.

                Vitnið F kvaðst hafa vaknað upp við hávaða um klukkan tvö um nóttina. Hefði A verið frammi í stofu og verið í símanum. F kvaðst hafa farið fram og hefði A bent henni út um gluggann, en þar hefði ákærða staðið með teppabankara í höndum og hefði hún séð ákærðu brjóta gler í stofuglugganum með þessu áhaldi. Áður hefði A bent henni á brotnar rúður í eldhúsglugga og sagt henni að ákærða hefði brotið þær. Þegar hún opnaði útidyrnar morguninn eftir hefði hún svo tekið eftir skemmdum á hurðinni, en tré hefði verið marið á sléttum flötum og köntum. Þetta hefðu verið höggdældir.

                Vitnið B kvað þá lögreglumennina hafa verið senda að [...] vegna tilkynningar um að kona væri að berja hús að utan. Þegar þeir komu að húsinu hefðu þeir heyrt brothljóð frá bakhlið þess og hefði verið búið að brjóta þar tvær rúður í glugga. Íbúi í húsinu hefði sagt þeim að nágrannakona hans hefði verið þar að verki. Þeir hefðu farið og rætt við hana, en hún hefði neitað að vera völd að eignaspjöllunum. Hins vegar hefði vitni gefið sig fram á vettvangi og sagst hafa séð ákærðu berja í bifreiðar í götunni. Þeir hefðu farið af vettvangi, en verið kvaddir til á ný eftir að tilkynning hafði borist um að ákærða væri aftur farin að berja hús nágrannans að utan. Þeir hefðu reynt að tala við ákærðu, en hún hefði ekki komið til dyra. Þeir hefðu því horfið á brott, en ráðfært sig við varðstjóra, sem hafi ákveðið að handtaka skyldi ákærðu ef hún gerði þetta aftur. Ákærða hefði verið handtekin eftir að þeir voru kallaðir að húsinu í þriðja sinn. Hún hefði verið flutt á lögreglustöð þar sem varðstjóri hefði ákveðið að hún skyldi vistuð yfir nótt vegna ástands hennar og atburða næturinnar. Ákærða hefði verið ósamvinnuþýð þegar átti að færa hana í fangaklefa. Kvað vitnið ákærðu hafa reynt að kýla sig, en hann hefði náð að víkja sér undan högginu. Hún hefði þá sparkað í bringu hans. Ákærða hefði staðið andspænis honum þegar hún sparkaði og þetta hefði ekki verið neitt slysaspark. Eftir þetta hefði ákærða verið lögð á gólf fangaklefans. C hefði verið fengin til að aðstoða við að fá ákærðu til að fara úr peysu með járnskrauti, sem hún var íklædd, og taka af sér skartgripi. Ákærða hefði þá legið á bakinu og hann og annar lögreglumaður haldið höndum hennar. Hefði ákærða sparkað í andlit C þar sem hún lá.

                Vitnið D lýsti upphafi málsins og aðstæðum á vettvangi með svipuðum hætti og B. Hann kvað þá hafa heyrt öskur í ákærðu þegar þeir komu á vettvang og þekkt aftur rödd hennar þegar þeir ræddu við hana síðar. Þá hefði verið búið að brjóta rúður. D kvað ákærðu hafa verið í annarlegu ástandi og hefði hún reynt að hlaupa í burtu þegar henni var tilkynnt að hún væri handtekin. Hún hefði því verið handjárnuð og flutt á lögreglustöð. Eftir að ákærða hafði verið færð í fangaklefa hefði hún reynt að kýla B, en hann hefði náð að víkja sér undan högginu. Þá hefði ákærða tekið tilhlaup, þannig að hún hefði stigið eitt eða tvö skref aftur á bak, og síðan sparkað í bringu B. C hefði komið til að aðstoða þá við að fjarlægja skartgripi af ákærðu, en hún hefði ekki viljað gera það sjálf. Kvaðst vitnið minna að ákærða hefði legið á bakinu og að þeir B hefðu haldið höndum hennar. Hefði ákærða þá sparkað í andlit C.

                Vitnið E kvaðst hafa heyrt brothljóð og öskur frá bakhlið hússins að [...] er þá lögreglumennina bar að. Þeir hefðu rætt við húsráðanda, sem hefði sagt þeim að ákærða hefði komið að húsi hans og verið mjög æst. Hún hefði brotið rúðu hjá honum og hlaupið yfir í sitt hús. Þeir lögreglumennirnir hefðu farið og rætt við ákærðu, sem hefði verið talsvert ölvuð og hefði hún ekki viljað kannast við þetta. Þeir hefðu farið af vettvangi, en verið kallaðir til tvívegis aftur eftir að húsráðandi að [...] hefði tilkynnt að rúður hefðu verið brotnar. Við þriðja útkall hefðu þeir ráðgast við varðstjóra, sem hefði ákveðið að ákærða yrði handtekin. Ákærða hefði verið flutt á lögreglustöð, en hún hefði ekki róast neitt og hefði verið ákveðið að vista hana í fangaklefa um nóttina. Vitnið kvaðst hafa staðið rétt hjá þegar ákærða sparkaði í C. Það hefði gerst þegar C var að fjarlægja skartgripi af ákærðu, en ákærða hefði legið á bakinu og sparkað í andlit hennar. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærðu sparka í B, en það hefði verið rætt um það þarna á staðnum að hún hefði gert það.

                Vitnið C kvaðst hafa verið kölluð til að aðstoða við að fjarlægja skartgripi af ákærðu. Þegar hún kom að hefði ákærða legið á bakinu í fangaklefanum og tveir lögreglumenn haldið höndum hennar, hvor sínum megin. Ákærða hefði verið mjög æst og í annarlegu ástandi. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærðu hvort hún vildi ekki taka af sér skartgripina, en hún hefði ekki svarað. Síðan hefði ákærða sparkað í hana. Hún hefði náð að víkja sér aðeins undan, en sparkið hefði þó lent í hægri vanga hennar og hefði hún fengið roða eftir það.

Þá gaf vitnið Gunnar Helgi Stefánsson lögregluvarðstjóri skýrslu fyrir dóminum, en ekki eru efni til að reifa framburð vitnisins.

Niðurstaða

Ákæruliður 1

Ákærða neitar alfarið sök. Hún hefur borið að hún hafi ætlað að ræða við húsráðendur að [...] og haft kúst meðferðis, sér til halds og trausts. A hafi komið til dyra, veist að henni og rifið af henni kústinn. Hafi A síðan brotið rúðu í glugga með kústinum. Er það mat dómsins að framburður ákærðu um atvik að þessu leyti sé ótrúverðugur.

A hefur borið að ákærða hafi barið á útidyrnar hjá sér með teppabankara og hafi hún síðan brotið þrjár rúður, tvær í eldhúsglugga á bakhlið hússins og rúðu í stofuglugga. Liggur fyrir að A kallaði í þrígang eftir aðstoð lögreglu þessa nótt vegna ónæðis og eignaspjalla af hálfu ákærðu. F kvaðst hafa séð er ákærða braut rúðu í stofuglugga með teppabankaranum og hafi A þá bent henni á aðrar rúður, sem ákærða hefði brotið. Þá kom fram hjá vitnunum að þau hefðu tekið eftir skemmdum á útidyrahurðinni morguninn eftir. Samræmi er með framburði vitnanna A og F. Þá fá lýsingar A stoð í framburði lögreglumannanna B, D og HE, sem báru að þeir hefðu heyrt brothljóð og öskur frá konu þegar þeir komu að húsinu og staðfestu að rúður hefðu verið brotnar í gluggum. Með vísan til framburðar framangreindra vitna er sannað, gegn neitun ákærðu, að hún hafi brotið þrjár rúður og valdið skemmdum á útidyrahurð, eins og henni er gefið að sök í ákæru. A hefur haft uppi refsikröfu í málinu. Verður ákærða sakfelld samkvæmt þessum ákærulið og varðar háttsemi hennar við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður 2

                Ákærða neitar að hafa sparkað í bringu lögreglumannsins B. Hún kveðst ekki minnast þess að hafa sparkað í andlit lögreglumannsins C, en hafi það gerst hafi það verið óviljaverk. B bar að ákærða hafi reynt að slá hann hnefahöggi, þegar verið var að færa hana í fangaklefa, og hafi hún síðan sparkað í bringu hans, eins og lýst er í ákæru. D, sem staddur var í fangaklefanum með ákærðu og B, bar á sama veg og kvað hann ákærðu jafnframt hafa tekið tilhlaup er hún sparkaði í B. Þá hafa C, B, D og E borið að ákærða hafi sparkað í andlit C. Hafa vitnin lýst því að ákærða hafi legið á bakinu á gólfi fangaklefans og sparkað í andlit C og verður ótvírætt ráðið af framburði þeirra, að ekki hafi verið um óviljaverk að ræða. Með vísan til samhljóða framburðar vitna, sem rakinn hefur verið, er sannað að ákærða hafi sparkað í lögreglumennina, eins og lýst er í ákæru. Er þetta var voru lögreglumennirnir við skyldustörf sín, en þeim hafði verið falið að framfylgja ákvörðun lögregluvarðstjóra um að vista ákærðu í fangaklefa. Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í þessum ákærulið og varða brot hennar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærða, sem er fædd árið 1955, á að baki nokkurn sakaferil. Hún hefur ítrekað sætt refsingu fyrir umferðarlagabrot, einkum vegna ölvunar- og sviptingaraksturs. Þá gekkst ákærða 27. febrúar 2007 undir lögreglustjórasátt vegna líkamsárásar samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða er í máli þessu sakfelld fyrir eignaspjöll og brot gegn valdstjórninni. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að hún veittist að heimili nágranna sinna að næturlagi og olli spjöllum á húsi þeirra. Þá veittist hún með ofbeldi að tveimur lögreglumönnum, sem voru að gegna skyldustörfum sínum. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 70. gr., 77. gr. og 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð 127.955 krónur, sem nemur útlögðum kostnaði vegna glerísetningar og viðgerða á útidyrahurð. Krafan er studd viðhlítandi gögnum og verður hún dæmd eins og hún er fram sett, með vöxtum sem í dómsorði greinir.

                Ákærða verður dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 294.925 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá greiði ákærða 43.925 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærða, Guðbjörg Gróa Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppkvaðningu að telja haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærða greiði A 127.955 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. nóvember 2010 til 29. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 294.925 krónur og 43.925 krónur í annan sakarkostnað.