Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 1

 

Föstudaginn 1. september 2006.

Nr. 480/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Bragi Björnsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. október 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2006.

             Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. október 2006, kl. 16:00.

             Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meintan inn­flutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins. Kærði sé grunaður um aðild að hinu meinta broti. Meint aðild hans sé talin varða skipulagningu, milligöngu og fjármögnun ferðarinnar. A og B hafi bæði verið handtekin miðvikudaginn 9. ágúst sl. af tollgæslu á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins frá Spáni. B hafi verið með fíkniefnin í farangri sem hún hafi verið með meðferðis en A hafi verið handtekinn skömmu síðar í flugstöðinni eftir að hann hafði farið í gegnum hlið tollgæslunnar. Þau hafi bæði verið yfirheyrð og í framburðar­skýrslum sem hafi verið teknar af þeim vegna málsins sé m.a. að finna lýsingu þeirra á aðdraganda ferðarinnar, skipulagningu og móttöku fíkni­efnanna á Spáni. Einnig sé að finna framburðarskýrslu C í gögnum málsins þar sem verknaðar­þáttum aðila málsins sé lýst nánar, þar með talið kærða.

Í framburðarskýrslum sem teknar hafi verið af kærða vegna málsins skýri hann frá aðild sinni að málinu. Hann kveðist þekkja C og segi að hún hafi sett sig í samband við hann fyrir um mánuði og beðið hann að lána henni peninga fyrir fargjaldi tveggja aðila heim til Íslands frá útlöndum. Kærði játi að hafa vitað að C væri að skipuleggja innflutning á fíkniefnum til landsins. Kærði segist þá hafa reynt að útvega peningana en ekki tekist það ætlunarverk sitt. Aðspurður hafi kærði sagst þekkja A og að hann hafi hitt hann heima hjá C fyrr í sumar í nokkur skipti í tengslum við skipulagninguna á innflutningnum.

Rannsókn málsins standi enn yfir og sé á lokastigi. Ekki hafi öll bankagögn borist lögreglu en muni berast á næstunni. Unnið sé að úrvinnslu símagagna og þeirra bankagagna sem hafi borist. Rannsókn málsins sé umfangsmikil og verði flýtt eftir föngum. Kærði þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst sl. Meint aðild kærða þykir mikil. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærðu þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þykir þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi af miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sá ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

             Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

             Kærði er undir sterkum grun um að hafa átt hlutdeild í innflutningi á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna þannig að varðað geti við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á þeirri lagagrein varðar allt að 12 ára fangelsi.  Telst fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið.  Verður krafa Lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

             Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðju­dagsins 10. október 2006 kl. 16.00.