Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-94
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Dánarbú
- Erfðaskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 12. júlí 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 28. júní 2023 í máli nr. 312/2023: A gegn B, C, D, E, F, G og H. Gagnaðilarnir B, C og D leggjast gegn beiðninni en aðrir gagnaðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir dómstólum.
3. Mál þetta lýtur að gildi og túlkun erfðaskrár I, föður leyfisbeiðanda, en með henni ráðstafaði hann eignarhlut sínum í jörð til gagnaðila og annarra barnabarna sinna sem eru jafnframt systkinabörn leyfisbeiðanda.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að fallast á þrautavarakröfu leyfisbeiðanda og leggja til grundvallar við dánarbússkipti á búi I erfðaskrá hans um ráðstöfun á eignarhluta hans í jörðinni P í […] til barnabarna hans að því er varðaði þann hluta eigna sem hann hefði mátt ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Óumdeilt var í málinu að ráðstöfun í erfðaskrá I á eignarhluta hans í jörðinni var umfram heimild samkvæmt 35. gr. erfðalaga til að ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá. Í úrskurði Landsréttar kom fram að fyrir lægi að erfðaskráin gæti ekki komið til framkvæmda samkvæmt orðanna hljóðan. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að það samræmdist best vilja I, að því marki sem unnt yrði að ráða hann af gögnum málsins, að leggja erfðaskrána til grundvallar við dánarbússkiptin um ráðstöfun á eignarhlutanum að því er varðaði „1/3 hluta eigna sem hann mátti ráðstafa samkvæmt 35. gr. erfðalaga.“ Hefði leyfisbeiðandi ekki lagt fram gögn sem renndu stoðum undir að vilji arfleifanda hefði staðið til annars ef fyrir hefði legið að hann gæti ekki ráðstafað öllum eignarhlutanum til barnabarna sinna.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt fordæmisgildi. Hann vísar til þess að Landsréttur hafi ekki farið að meginreglum einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði auk þess sem gengið hafi verið gegn viðteknum venjum og reglum erfðaréttar um skýringu og fyllingu erfðaskráa. Þá byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur einkum þar sem sönnunarbyrði um vilja arfleifanda hafi hvílt á gagnaðilum og þá sönnunarbyrði hafi þeir ekki axlað.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um túlkun og gildi erfðaskráa meðal annars með hliðsjón af 35. gr. erfðalaga. Auk þess sýnist vera ágalli á úrskurðarorði Landsréttar. Beiðnin er því samþykkt.