Hæstiréttur íslands

Mál nr. 273/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. október 2008.

Nr. 273/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Ítrekun.

X var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa veist að fyrrverandi eiginkonu sinni á þáverandi heimili þeirra. Var brot hans heimfært til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við mat á refsingu ákærða var litið til þess að ákærði hafði áður gerst brotlegur gegn sama ákvæði almennra hegningarlaga sem hafði nú ítrekunaráhrif samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b. sömu laga. Hins vegar þótti ekki skilyrði í málinu til að beita 3. mgr. sama ákvæðis eins og málið lá fyrir. Þá þótti jafnframt ekki tækt að beita ákvæði 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar þar sem um einstakt tilvik var að ræða. Með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 var niðurstaða héraðsdóms um tveggja mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu X staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. apríl 2008 af hálfu ákæruvalds og krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Í hinum áfrýjaða dómi eru atvik máls rakin og framburður ákærða og vitna, en með dómnum var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás gegn eiginkonu sinni og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Með framangreindri háttsemi hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Við mat á refsingu ákærða ber að líta til þess að 30. mars 2005 hlaut hann dóm fyrir brot gegn sama ákvæði hegningarlaga þar sem honum var gerð 120.000 króna fésekt. Þar sem ákærði hefur nú á ný gerst brotlegur gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga hefur eldra brot hans ítrekunaráhrif samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b. sömu laga. Hins vegar þykja ekki skilyrði til að beita 3. mgr. sömu greinar eins og mál þetta liggur fyrir. Þegar atvik máls eru virt og þar sem hér er um einstakt tilvik að ræða verður ákvæði 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 27/2006 ekki beitt til refsiþyngingar.

Að þessu athuguðu og með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um refsingu ákærða.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, eins og  nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 14. desember 2007, á hendur X, kt. og heimilisfang [...] „fyrir líkamsárás, með því að hafa, laugardaginn 24. febrúar 2007, ráðist á A, kt. [...] , fyrrverandi eiginkonu sína á þáverandi heimili þeirra beggja að [...], og slegið hana ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og andlit og þá sparkað í líkama hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut opið sár og mar á augnlok og augnsvæði hægra megin, marga yfirborðsáverka á höfði, mar yfir hryggjartindi hálsliðar, mar á aftanverðum hægri upphandlegg, yfirborðsáverka á öxl og mar á vinstra læri.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, sbr. 110. gr. laga nr. 82/1998.“

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði neitar sök. Hann krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að refsing verði látin niður falla á grundvelli 3. mgr. 218. gr. b, almennra hegningarlaga, en til þrautavara vægustu refsingar. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var óskað eftir aðstoð hennar vegna heimilisófriðar að [...] kl. 19.20 þann 24. febrúar 2007. Þegar lögregla kom á staðinn var þar fyrir A sem var blóðug og í rifnum og blóðugum bol. Einnig tóku lögreglumenn eftir skurði fyrir ofan hægri augabrún. A sagði að hún og ákærði væru að skilja og hefðu þau verið að ræða skilnaðinn og hefði ákærði veist að henni og meðal annars slegið hana í andlit og sparkað í hana. Hann hefði síðan farið út og ekki komið aftur. Fram kom að fimm börn hafi verið í íbúðinni þegar þetta gerðist, sonur þeirra og fjórir drengir sem hafi verið í pössun hjá henni. Farið hafi verið með A á slysa- og bráðamóttöku til aðhlynningar og hafi bróðir hennar komið til að passa börnin. 

Þann 8. mars 2007 mætti A til rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til þess að kæra líkamsárás og heimilisofbeldi af hendi ákærða, en á þeim tíma hafi þau staðið í skilnaði. Hann sé nú fluttur að heiman en hafi ennþá búið á heimilinu þegar árásin var gerð. Fimm börn hafi verið á heimilinu, sonur hennar og fjórir synir bróður hennar. Þau ákærði hafi farið að ræða yfirvofandi skilnað og hafi komið til háværs þrass á milli þeirra, en ákærði hafi verið mjög ósáttur við skilnaðinn. Hún hafi beðið hann að fara, en hann neitað og sagst eiga fullan rétt á að vera þarna. Hún hafi þá sagst sjálf mundu fara, en ákærði hafi þá þrifið í hana og hent henni til. Hann hafi farið að kalla hana ýmsum ónefnum, eins og „helvítis tík“ og hún hafi í framhaldi af því rekið honum kinnhest. Ákærði hafi þá umturnast og ráðist á hana, kýlt hana margsinnis í andlitið, tekið hana kverkataki og barið höfði hennar við eldhúsgluggann. Hún hafi hnigið niður í gólf og reynt að hnipra sig saman og verjast höggunum, en ákærði haldið áfram að láta hnefahögg dynja á henni og sparkað í hana. Börnin hafi verið farin að æpa og hafi hún liðið fyrir að láta þau sjá aðfarirnar. Nágranni hafi komið að og kallað til ákærða að hætta þessu og á endanum hafi hann gert það. Lögregla hafi síðan komið á staðinn og farið með hana á slysadeild. Fram kemur af hálfu A að hún telur að nágranni, sem hafi heyrt lætin, hafi hringt á lögreglu.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 29. maí 2007 vegna málsins. Hann segir svo frá að hann hafi verið á heimili sínu ásamt eiginkonu sinni A og hafi þau verið að ræða skilnað. Þau hafi farið að rífast sem hafi endað með því að hún sló hann í andlitið. Þau hafi þá farið að slást og hafi hann slegið hana og sparkað í hana. Þetta hafi verið stundarreiði hjá ákærða en hún sé ekki saklaus af þessum átökum og hafi látið öllum illum látum. Hann hafi eftir þetta farið af heimilinu. Nokkur börn hafi verið á heimilinu og þegar þau komu fram sáu þau til þeirra slást og einnig hafi nágranni komið þarna að út af látunum. Framburður A úr kæruskýrslu var borinn undir ákærða og segir hann að helmingurinn af því sem hún segir um átök þeirra sé bull og hitt kjaftæði og hafi hann ekki meira um málið að segja. Ákærði er beðinn að kynna sér áverkavottorð vegna málsins og segist ekki geta tjáð sig um það.

Læknisvottorð liggur frammi í málinu, dagsett 4. apríl 2007, útgefið af Guðjóni Baldurssyni, sérfræðingi á slysa- og bráðadeild LSH í Fossvogi. Þar kemur fram að A hafi leitað til slysa- og bráðadeildar LSH í Fossvogi 24. febrúar 2007 kl. 19:59. Hún hafi sagt svo frá að deilur hafi komið upp á milli hennar og eiginmanns hennar sem enduðu með líkamsárás af hans hálfu. Við skoðun sé A með mar og skurð yfir hægri augabrún hliðlægt. Mar og bólga framanvert á höku. Eymsli í kjálkalið hægra megin og skekkja á biti. Þreifieymsli yfir hryggjartind á 7. hálslið og mar. Eymsli við neðstu rifbein vinstra megin. Sársauki við að hósta og anda djúpt. Verkur yfir mjaðmarkambi vinstra megin. Eymsli í öxlum, en hreyfigeta eðlileg. Mar og dofi á upphandleggjum. Mar hliðlægt og ofanvert á vinstra læri. Eymsli yfir tám. Greining í læknisvottorði er þannig:

o        Opið sár á augnloki og augnsvæði

o        Mar á augnloki og augnsvæði

o        Yfirborðsáverki á hluta höfuðs

o        Margir yfirborðsáverkar á höfði

o        Margir áverkar á öxl og upparmi

o        Margir yfirborðsáverkar á fótlegg

Álit læknis er að um sé að ræða konu sem leiti til slysadeildar vegna meints heimilisofbeldis. Hún sé með margvíslega áverka, flesta yfirborðslæga sem ættu að jafna sig á tiltölulega skömmum tíma. Áverkar þessir geti vel komið heim og saman við sögu sjúklings. Ekki sé vitað um afdrif og því ekki gerlegt að spá fyrir um horfur til skamms eða langs tíma.

 

Skýrslur fyrir dómi:

Ákærði kom fyrir dóminn. Hann segir að hann og A hafi búið saman frá 2003, en þau hafi ekki átt börn saman. Þau hafi á þeim tíma sem þessir atburðir gerðust staðið í skilnaði og hafi ástæða skilnaðar verið framhjáhald hennar. Hann kveðst vera kominn í sambúð að nýju, en skiptum vegna skilnaðar þeirra A sé enn ekki lokið. Hann kannast við að til átaka hafi komið á milli hans og A í umrætt sinn, en telur að um slagsmál hafi verið að ræða og hafi hún átt upptökin að þeim, hún hafi byrjað á því að slá hann. Hann efast um að áverkar þeir sem hún hlaut og læknisvottorð segir til um, séu af hans völdum. Aðspurður um hvort hann hafi hlotið áverka, svara hann því til að hann hafi ekki læknisvottorð um áverka. Ákærði segir verknaðarlýsingu í ákæru ýkta. Hann staðfestir aðspurður það sem fram kemur í lögregluskýrslu um að hann hafi slegið og sparkað í A. Hins vegar kveðst hann draga stórlega í efa að afleiðingar hafi orðið eins miklar og greinir í ákærunni. Aðspurður kannast hann við að hafa hringt í bróður A og verið miður sín yfir því sem hefði gerst.

Brotaþolinn, A, kom fyrir dóminn. Hún skýrir frá á svipaðan hátt og í kæruskýrslunni og segir ákærða hafa gengið mjög illa í skrokk á sér og hún hafi fengið högg og/eða spörk á allan líkamann. Hún kveðst lítið hafa gert annað en að reyna að verja sig. Afleiðingarnar hafi verið miklar, mar og bólgur um allan líkama, skurður á gagnauga, glóðaraugu á báðum augum og hún telur sig hafa rifbrotnað, talað hafi verið um það á slysadeildinni þó að það hafi ekki komið fram í greiningu á læknisvottorði. Þá telur hún sig vera með taugaskemmdir við augað eftir skurðinn sem hún fékk í þetta skipti, en segist ekki hafa leitað læknis vegna þess. Aðspurð kannast hún ekki við að hafa slegið ákærða í andlitið og að það hafi verið upphaf átakanna á milli þeirra.

B, bróðir brotaþolans, kom fyrir dóm og segir frá því að fjórir synir hans, fjögurra til tólf ára gamlir, hafi verið í pössun hjá brotaþola þegar umræddur atburður varð. X hafi hringt í hann í geðshræringu og sagt honum að hann hefði lagt hendur á A og hann hafi þá farið á heimilið og sótt drengina en ákærði hafi þá verið farinn. Hann kveðst hafa séð áverka á brotaþola.

Niðurstaða:

Það liggur fyrir í málinu að til átaka kom á milli ákærða og A á heimili þeirra þann 24. febrúar 2007 í framhaldi af rifrildi þeirra vegna yfirvofandi skilnaðar. Ákærði játar að hafa slegið og sparkað í  A, en hefur þann fyrirvara á játningu sinni á því sem hann er sakaður um í ákæru, að um hafi verið að ræða átök á milli þeirra, slagsmál, og að hún hafi átt upptökin að þeim með því að reka honum kinnhest. Þá telur ákærði ólíklegt að áverkar þeir sem greinir í læknisvottorði hafi allir verið af hans völdum.

Fram kemur í gögnum málsins að brotaþoli leitaði til bráða- og slysamóttöku kl. 19.59 þann 24. febrúar 2007, en lögregla hafði brugðist við vegna málsins kl. 19.20. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að áverkar þeir sem lýst er í framlögðu læknisvottorði hafi stafað af öðru en átökum þeim sem fyrir liggur að höfðu þá rétt áður átt sér stað á milli ákærða og brotaþola. Verður því að teljast sannað í málinu að ákærði hafi gerst sekur um það sem talið er í ákæru og að háttsemi hans sé þar rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði undir sátt um greiðslu á 28.000 króna sekt 7. júní 2007 vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni, 50.000 króna sekt með viðurlagaákvörðun 6. janúar 2006 vegna brots gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og var dæmdur í 120.000 króna sekt vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga 30. mars 2005. Árið 2000 var ákærði dæmdur í sekt vegna umferðarlagabrots og gerði sátt vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni.

Ekki er unnt að verða við varakröfu ákærða um niðurfellingu refsingar á grundvelli 3. mgr. 218. gr. b, almennra hegningarlaga, en eins og atvikum er háttað þykir mega hafa hliðsjón af því ákvæði við ákvörðun refsingar. Þykir refsing ákærða, með hliðsjón af þessu og öllum atvikum málsins, hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, samtals 118.200 krónur, þar af greiði hann skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 90.000 krónur í málsvarnarlaun og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hrl. 90.000 krónur í málsvarnarlaun, þar með talinn virðisaukaskattur.