Hæstiréttur íslands

Mál nr. 403/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gögn
  • Verjandi


                                                                                                                 

Þriðjudaginn 5. október 1999.

Nr. 403/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Gögn. Verjandi.

Kærður var úrskurður héraðsdómara þar sem fallist var á kröfu lögreglustjóra um skýrslutöku yfir X fyrir dómi og framlengingu frests til að synja verjanda X um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls í þrjár vikur, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna úrskurðarins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Haraldur Henrysson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 1999, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um skýrslutöku fyrir dómi af varnaraðila. Þá var jafnframt fallist á kröfu sóknaraðila um að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila um skýrslutöku af varnaraðila fyrir dómi og framlengingu frests til að synja verjanda varnaraðila aðgangs að rannsóknargögnum málsins. Þá krefst hann þess að skipuðum verjanda hans verði afhent afrit allra rannsóknargagna í málinu, sem eru orðin viku gömul. Til vara er þess krafist að upphaf frests verði ákveðið frá því tímamarki, er gögnin urðu til eða komust í vörslur lögreglu.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur taki skýrslu af X, [...], og jafnframt að framlengdur verði í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda kærða um aðgang að gögnum er varða rannsókn máls nr. 10-1999-21479.

[...]

Kærða var með úrskurði dómsins í dag gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. desember 1999 kl. 16. Úrskurðurinn er studdur þeim rökum að verið sé að rannsaka meint brot gegn fíkniefnalöggjöfinni en háttsemi kærða, ef sönnuð væri, varðaði við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem hámarksrefsing sé 10 ára fangelsi. Rökstuddur grunur væri fram kominn um aðild kærða að málinu. Rannsókn málsins sé skammt á veg komin og ljóst að hún sé umfangsmikil og verði bæði flókin og tímafrek, og því ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. b-liðar 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, ber dómara að verða við beiðni lögreglu um skýrslutöku fyrir dómi af sakborningi til þess að upplýsa mál, áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess, telji lögregla bera nauðsyn til þess. Með vísan til þessa er fallist á að skýrslutaka fari fram fyrir dómi yfir kærða, X.

 Samkvæmt sama lagaákvæði getur dómari framlengt frest sem lögregla hefur til að veita verjanda sakbornings aðgang að gögnum samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna í allt að þrjár vikur, ef þörf er á, til að unnt sé að ljúka skýrslutökum.

Með hliðsjón af því hve mál þetta er umfangsmikið má fallast á kröfu lögreglustjóra um að frestur til að sýna verjanda og sakborningi gögn verði framlengdur í allt að þrjár vikur, samkvæmt síðari málslið b-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, svo unnt verði að ljúka skýrslutöku. Fallist er á þann skilning lögreglustjóra á 43. gr. sömu laga að frestur taki fyrst að líða gagnvart kærða frá handtöku hans í vörslum íslenskra yfirvalda. Byggir sú niðurstaða á því að sakborningur getur ekki gert kröfu til gagnanna fyrr en í fyrsta lagi við handtöku hérlendis og getur frestur hvað honum viðvíkur því ekki farið að líða fyrr.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um skýrslutöku yfir sakborningi, X, fyrir dómi. Jafnframt er framlengdur í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda X um aðgang að öllum rannsóknargögnum máls nr. 10-1999-21479. Upphafstími frests miðar við framsal kærða til íslenskra yfirvalda.